101. fundur

  1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn

þriðjudaginn 12. maí 2009, kl 15:00

í Fjallasal, Aratungu

 

Mætt voru:

Margeir Ingólfsson oddviti, Drífa Kristjánsdóttir, Þórarinn Þorfinnsson, Sigurbjörn Árni Arngrímsson sem varamaður  Jóhannesar Sveinbjörnssonar, Jens Pétur Jóhannsson, Sölvi Arnarsson  sem varamaður  Snæbjörns Sigurðssonar og Kjartan Lárusson.  Einnig  var mættur Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri, og Sigurrós H. Jóhannsdóttir, sviðsstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

  1. Fundargerð byggðaráðs:

1.1. Fundargerð 89. fundar byggðaráðs Bláskógabyggðar.
Vegna dagskrárliðar 3.2. þá samþykkir sveitarstjórn samhljóða að fela skipulagsfulltrúa Uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps að yfirfara tillögu um aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar 2008-2020 og svara erindi Landlína ehf. fyrir hönd Bláskógabyggðar.

Sölvi Arnarson vék af fundi við afgreiðslu dagskrárliðar 4 fundargerðar 89. fundar byggðaráðs Bláskógabyggðar.

Vegna dagskrárliðar 4 þá voru lagðir fram samningar við leigutaka lands fyrir tjaldsvæði í Reykholti og á Laugarvatni, sem hafa verið undirritaðir með fyrirvara um samþykki sveitarstjórnar. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða framlagða leigusamninga.

Vegna dagskrárliðar 7.6. þ.e. erindi um starfsendurhæfingu, þá sér sveitarstjórn Bláskógabyggðar sig ekki fært að verða við beiðninni.

Að öðru leyti er fundargerðin staðfest samhljóða.

 

  1. Ársreikningur Bláskógabyggðar 2008 ( síðari umræða ).

Lagður fram, til síðari umræðu, ársreikningur Bláskógabyggðar, fyrir árið 2008, ásamt sundurliðunum. Helstu niðurstöður úr rekstrar- og efnahagsreikningi samstæðu sveitarfélagsins eru:

 

Rekstrarreikningur:

Rekstrartekjur:                                                   707.846.948

Rekstrargjöld:                                                   -624.541.499

Fjármagnsgjöld:                                                -110.834.628

Tekjuskattur:                                                          -1.445.228

Rekstrarniðurstaða:                                            -28.974.407

 

Efnahagsreikningur:

Eignir:

Fastafjármunir:                                                   779.063.099

Veltufjármunir:                                                    138.490.652

Eignir samtals:                                                   917.553.751

Skuldir og eigið fé:

Eiginfjárreikningur:                                              191.165.410

Langtímaskuldir:                                                  573.687.833

Skammtímaskuldir:                                             726.388.341

Eigið fé og skuldir samtals:                               917.553.751

Samkvæmt yfirliti yfir sjóðstreymi fyrir árið 2008 nemur veltufé frá rekstri 88,7 milljónum króna, sem er 28 milljónum krónum hærra en árið 2007.

Ársreikningur Bláskógabyggðar fyrir rekstrarárið 2008 samþykktur samhljóða og áritaður.

 

 

  1. Endurskoðun fjárhagsáætlunar 2009.

Lögð fram til afgreiðslu endurskoðuð fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar 2009.  Sveitarstjóri gerði grein fyrir áætluninni og breytingum sem gerðar hafa verið.  Einnig lögð fram framkvæmdaáætlun 2009.

 

Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að heildartekjur samstæðureiknings Bláskógabyggðar , þ.e. sveitarsjóðs og félaga í eigu sveitarfélagsins verði kr. 702.750.000.  Rekstrargjöld samstæðu ásamt afskriftum kr. 619.400.000. Áætluð fjármagnsgjöld  kr. 54.318.000.  Rekstrarniðurstaða samstæðureiknings áætluð jákvæð að upphæð kr. 29.032.000.

 

Gert er ráð fyrir að fjárfestingar ársins nettó verði kr. 35.000.000.  Í tengslum við fjárfestingar ársins þarf sveitarsjóður að taka lán til fjármögnunar að upphæð kr. 35.000.000.  Sveitarstjóra verði falið að kanna möguleika á lántöku og afla lánstilboða sem lagt verði fyrir sveitarstjórn til samþykktar.

 

Gert er ráð fyrir að keypt verði fasteignin Kistuholt 3, fastanúmer 220-5459, ásamt bílageymslu, fastanúmer 220-5454, sem staðsett er í Reykholti.  Jafnframt verði gert ráð fyrir sölu fasteignarinnar Rein á Laugarvatni.  Ekki er gert ráð fyrir að fjárfesting verði hærri en sala eigna á móti.

 

T-listinn leggur fram eftirfarandi tillögu:

T-listinn leggur til, nú þegar leita þarf allra leiða til sparnaðar á útgjöldum sveitarsjóðs, að oddviti minnki starfshlutfall sitt niður í 20% eins og það  upphaflega var, þegar Bláskógabyggð varð sveitarfélag 2002.

Greinargerð: Oddviti var í upphafi kjörtímabilsins ráðinn í 80% starf til að hafa umsjón með skipulagsmálum, byggingarlóðum sveitarfélagsins og öðrum þeim störfum sem tengjast skipulags- og framkvæmdamálum sveitarfélagsins.

Ekki virðist þörf á því nú, þegar öllum framkvæmdum í sveitarfélaginu er frestað vegna efnahagshruns landsins.

Greidd voru atkvæði um tillöguna og tillagan var felld með fjórum atkvæðum (MI, ÞÞ, JPJ, SA) og þrír greiddu atkvæði með (SÁA, DK og KL).

 

Oddviti bar upp fyrirliggjandi tillögu að breyttri fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar 2009 til samþykktar. Tillagan samþykkt samhljóða.

 

  1. Framkvæmdir við Hakið í landi Brúsastaða.

Lögð fram til umsagnar skýrsla Landslags ehf. um fyrirhugðar framkvæmdir við þjónustumiðstöð við Hakið.  Framkvæmdirnar eru tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum m.s.br. og er fyrirliggjandi skýrsla nú til meðferðar hjá Skipulagsstofnun til ákvörðunar um hvort að framkvæmdirnar skulu háðar mati á umhverfisáhrifum. Fyrir liggur breyting á deiliskipulagi svæðisins sem samþykkt var í sveitarstjórn 6. maí 2008 og eru framkvæmdirnar í samræmi við það. Þá liggja fyrir umsagnir Fornleifarverndar ríkisins, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Umhverfisstofnunar um deiliskipulagið.

Þar sem framkvæmdirnar eru í samræmi við samþykkt deiliskipulag svæðisins gerir sveitarstjórn ekki athugasemd við fyrirliggjandi gögn auk þess sem ekki er talin þörf á að framkvæmdirnar verði háðar mati á umhverfisáhrifum.

 

  1. Staðardagskrá 21.

Lögð fram gögn og upplýsingar um verkefnið Staðardagskrá 21.  Frá árinu 1998 hafa Samband íslenskra sveitarfélaga og umhverfisráðuneytið staðið að aðstoð við sveitarfélög við gerð Staðardagskrá 21.  Nýr samningur milli aðila var undirritaður 15. febrúar 2007 og gildir hann til ársloka 2009.  Í dag liggur ekkert fyrir um endurnýjun eða framlengingu samnings og verkefnið því í nokkurri óvissu.

 

T-listinn leggur fram eftirfarandi tillögu:

Sveitarstjórn samþykkir að óska eftir stuðningi Staðardagskrár 21 til að styðja við innleiðingu Staðardagskrár 21, taka upp vinnuaðferðir þeirra og virkja þannig íbúa Bláskógabyggðar, atvinnulíf og félagasamtök til að taka á þeim málum sem þeim finnst mikilvæg.

Greinagerð:  Á þeim erfiðu tímum sem framundan eru vegna og efnahagshruns landsins teljum við mjög mikilvægt að virkja íbúa Bláskógabyggðar.  Margir hafa  góðar hugmyndir og starfsorku sem þeir vilja gjarnan virkja.  Aðferðir Staðardagskrár 21 eru hannaðar til að virkja íbúa sveitarfélaga.  Umhverfismál, skólamál, atvinnumál, menningarmál og fleira og fleira eru málaflokkar sem íbúar hafa áhuga á og mikilvægt er að safna saman hugmyndum og áhuga þeirra sem vilja starfa saman að betra samfélagi.

Greidd voru atkvæði um tillöguna og tillagan var felld með fjórum atkvæðum (MI, ÞÞ, JPJ, SA) og þrír greiddu atkvæði með (SÁA, DK og KL).

 

Bókun Þ-listans:

Þ-listinn bendir á að fyrirséð er að rekstur sveitarfélaga mun þyngjast mjög á næstu misserum og því ekki réttlætanlegt að fara af stað með verkefni sem þetta sem hafa mun í för með sér kostnað fyrir sveitarfélagið. Bláskógabyggð starfar í dag í anda Staðardagskrár 21 á mörgum sviðum og styður  Þ-listinn að svo verði áfram. Auk þess bendir Þ-listinn á að óvissa er um framtíð „Staðardagskrárskrifstofunnar“.

 

  1. Lyngdalsheiðarvegur.

Umræða varð um stöðu framkvæmda við Lyngdalsheiðarveg og frágang fjárgirðinga á framkvæmdasvæði.

 

  1. Skáli og hesthús á Hlöðuvöllum.

Vísað er til liðar 6.3. í fundargerð byggðaráðs Bláskógabyggðar, dags. 24. febrúar 2009, en þar var sveitarstjóra og sviðsstjóra Þjónustu- og framkvæmdasviðs falið að ræða við fulltrúa Ferðafélags Íslands um hugsanleg kaup þeirra á eignarhlut sveitarfélagsins í umræddum mannvirkjum á Hlöðuvöllum.

Sveitarstjóri greindi frá fundi sem haldinn var 22. apríl s.l.  Einnig lagði sveitarstjóri fram tölvuskeyti frá Ferðafélagi Íslands, dags. 8. maí 2009, þar sem boðið er kr. 1.500.000 í eignarhlut sveitarfélagsins í byggingunum á Hlöðuvöllum.  Hugmyndir Ferðafélagsins eru að endurnýja og stækka skálann ásamt því að byggja upp og varðveita hesthúsið og aðstöðu fyrir hestamenn þar.  Ferðafélagið tryggir fjallmönnum á afrétti forgang að allri aðstöðu á Hlöðuvöllum á þeim tíma sem leitir standa yfir.

 

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar líst vel á hugmyndir Ferðafélags Íslands og felur sveitarstjóra og sviðsstjóra Þjónustu- og framkvæmdasviðs að vinna að gerð samnings milli aðila, sem lagður verði síðan fyrir sveitarstjórn til endanlegrar samþykktar.

 

Auk þessa býðst Ferðafélag Íslands til þess að taka að sér uppbyggingu og lagfæringu á Kóngsbrú yfir Brúará, að því gefnu að þeim fjárstyrkjum sem fást í framkvæmdina verði veitt til Ferðafélagsins til að standa straum að kostnaði við endurbætur brúarinnar.  Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að semja við Ferðafélag Íslands um viðgerð á brúnni og fellst á hugmyndir Ferðafélagsins.

 

 

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:00.