108. fundur

 1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn

þriðjudaginn 12. janúar 2010, kl 15:00

í Fjallasal, Aratungu

 

Mætt voru:

Margeir Ingólfsson oddviti, Drífa Kristjánsdóttir, Þórarinn Þorfinnsson,  Jóhannes Sveinbjörnsson, Jens Pétur Jóhannsson, Snæbjörn Sigurðsson og Kjartan Lárusson.  Einnig  var mættur Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri, og Sigurrós H. Jóhannsdóttir, sviðsstjóri,  sem ritaði fundargerð.

 

 1. Fundargerðir til staðfestingar:

1.1.        Fundargerð 97. fundar byggðaráðs Bláskógabyggðar.

Oddviti gerði grein fyrir nokkrum liðum fundargerðar, s.s. fundargerð veitustjórnar.  Oddviti lagði fram eftir farandi tillögu:

Í ljósi aukinna verkefna hjá Bláskógaveitu hefur veitustjórn samþykkt að auka starfshlutfall mitt hjá veitunni um 20%.  Í samræmi við það óska ég eftir samsvarandi minnkun á starfshlutfalli mínu sem oddviti  Bláskógabyggðar og að breytingin taki gildi frá síðustu áramótum.

Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða.

Fundargerð byggðaráðs samþykkt samhljóða.

 1. Fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar 2010 ( síðari umræða ).
  Sveitarstjóri gerði grein fyrir fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar fyrir árið 2010. Breytingar hafa verið gerðar frá fyrri umræðu sem helstar eru:
 • Verðbreyting ársins hækkuð úr 5% í 6,7% í takt við nýja þjóðhagsspá.  Sú breyting veldur hækkun fjármagnstekna hjá aðalsjóði um 4 milljónir, en heildar hækkun fjármagnsgjalda samstæðu um rúmar 11 milljónir króna.  Hækkun fjármagnsgjalda veldur lakari rekstrarniðurstöðu A- og B-hluta fyrirtækja.
 • Skatttekjur hækkaðar um 9 milljónir króna.
 • Fjárframlög til fræðslumála hafa hækkað um rúmar 5 milljónir króna.
 • Fjárframlög til skipulagsmála lækkuð um 1,5 milljónir króna.
 • Fjárframlög til B-hluta fyrirtækja hækkuð um 3,5 milljónir króna sem skýrist af hækkun verðbreytingar.

Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að heildartekjur samstæðureiknings Bláskógabyggðar, þ.e. sveitarsjóðs og félaga í eigu sveitarfélagsins verði kr. 774.498.000.  Rekstrargjöld samstæðu ásamt afskriftum kr. 694.053.000.  Fjármagnsgjöld áætluð kr. 66.592.000.  Rekstrarniðurstaða samstæðureiknings áætluð jákvæð að upphæð kr.13.853.000.

Gert er ráð fyrir fjárfestingum á rekstrarárinu að upphæð kr. 37.580.000.  Á móti framkvæmdakostnaði er gert ráð fyrir gatnagerðargjöldum að upphæð kr. 10.000.000, þannig að nettó fjárfesting er áætluð kr. 27.580.000.  Þar af eru áætlaðar framkvæmdir hjá Bláskógaveitu kr. 17.580.000.  Handbært fé mun hækka um kr. 7.220.000 og verða í árslok kr. 44.527.000.

 

Kjartan leggur fram eftirfarandi tillögu:

Sveitarstjórn samþykki að lækka launakostnað sveitarstjórnar og byggðaráðs úr 10,4 milljónum króna í 7,4 milljónir króna.

Greidd voru atkvæði um tillöguna og tillagan var felld með fjórum atkvæðum (MI, ÞÞ, JPJ, SS), einn greiddi atkvæði með ( KL) og tveir sátu hjá (DK, JS).

 

Oddviti bar upp fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar 2010 til samþykktar.  Tillagan samþykkt samhljóða og sveitarstjóra falið að senda endurskoðendum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu afrit af samþykktri áætlun.

 1. Samþykktir fyrir sorphirðu og sorpeyðingu í Bláskógabyggð.
  Lögð fram til kynningar.

 

 1. Skipulagsmál:

4.1.        1. og 2. dagskrárliður í fundargerð 19. fundar skipulags- og byggingarnefndar.
Málið var rætt og samþykkt samhljóða að fresta afgreiðslu erindanna.  Skipulagsfulltrúa og oddvita falið að ræða við málsaðila áður en að endanlegri afgreiðslu kemur.

4.2.        Deiliskipulag frístundahúsasvæðis í landi Austureyjar.
Lögð fram tillaga að deiliskipulagi rúmlega 3 ha svæðis fyrir frístundabyggð nyrst á Austureyjarnesi í landi Austureyjar II. Á svæðinu er gert ráð fyrir 6 lóðum á bilinu 0,5 – 0,75 ha að stærð þar sem heimilt verður að reisa allt að 120 fm frístundahús og allt að 30 fm aukahús.

Samþykkt að auglýsa tillöguna skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga og skipulagsfulltrúa falið að vinna málið áfram.

 

 1. Innkaupareglur fyrir Bláskógabyggð (síðari umræða).
  Innkaupareglur fyrir Bláskógabyggð teknar til síðari umræðu.
  Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi innkaupareglur og felur sveitarstjóra að kynna nýjar innkaupareglur fyrir þeim sem málið varðar.

 

 1. Starfsmannastefna Bláskógabyggðar (síðari umræða).
  Starfsmannastefna fyrir Bláskógabyggð tekin til síðari umræðu. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi starfsmannastefnu  og felur sveitarstjóra að kynna hana fyrir stjórnendum stofnana sveitarfélagsins, svo og starfsmönnum í samstarfi við stjórnendur stofnana.

 

 1. Jafnréttisáætlun Bláskógabyggðar (síðari umræða).
  Jafnréttisáætlun fyrir Bláskógabyggð tekin til síðari umræðu. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi jafnréttisáætlun.  Sveitarstjóra falið að setja áætlunina í kynningarferil.

 

 1. Svarbréf vegna stjórnsýslukæru Landsambands sumarhúsaeigenda.

Lagt fram bréf úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir, dags. 7. janúar 2010, vegna stjórnsýslukæru Landssambands sumarhúsaeigenda, sem kynnt var á síðasta fundi byggðaráðs þann 6. janúar s.l.  Jafnframt var lagt fram og kynnt sameiginlegt svarbréf sveitarstjóra Bláskógabyggðar og Grímsnes- og Grafningshrepps.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:30.