11. fundur

Fundur 11. júlí 2002
Fundargerð umhverfisnefndar Bláskógabyggðar 11.júlí 2002

Mætt voru Sigurður St. Helgason, Anna Björnsdóttir og Ragnar Sær Ragnarsson. Einar Sæmundsen boðaði forföll.

 

Þetta gerðist:

– Staða umhverfismála í dag í sveitunum þremur

 

– Öll gögn um umhverfismál frá sveitarstjórnum Þingvallahrepps og Laugardalshreppa eru komin á skrifstofu Bláskógabyggðar í Reykholti. Ragnar Sær ætlar að taka saman fyrir nefndarmenn það helsta sem brunnið hefur á mönnum undanfarin ár.

– Í umræðunum var bent á nokkra staði þar sem skjótra úrbóta er þörf svo ekki verði til vansa fyrir hið nýja sveitarfélag. Varðar það helst ytra útlit og ásýnd frá þjóðvegi og tengist gjarna bílhræjum og öðru drasli sem hægt væri til að byrja með að skýla frá þjóðvegi með því að planta þar stórum trjám. Einnig þarf að finns skjóta lausn á förgun hræja búpenings.

 

à Ragnar Sær ætlar að kanna þessi mál

 

Stefnumótun
– Langtímamarkmið byggjast á Staðardagsskrá 21, en tekin verða fyrir á hverju ári skýrt afmarkaðir þættir sem unnið verður við innan ákveðinna og vel skilgreindra verkefna með fastar tímasetningar.

 

– Aðaláhersla verður lögð á að efla fræðslu, vitund og áhuga á umhverfismálum í Bláskógabyggð og höfða þar til grasrótarinnar, – beita tilmælum en ekki tilskipunum eða boðum og bönnum þegar taka þarf til hendinni – og treysta á að hver vilji taka til í sínum ranni.

 

– Leggja áherslu á umhverfismenntun í skólunum og ná þannig einnig til heimilanna.

 

Vinnubrögð – bretta upp ermar
– Gerast aðilar að verkefninu Fegurri sveitir sem hleypt var af stokkum nýlega á landsvísu, en þar er stefnt að alhliða tiltekt og fegrun byggða og úttekt á ástandi umhverfis í samræmi við náttúruverndarlög.

 

à Ragnar Sær tekur að sér að skrá Bláskógabyggð til þátttöku í umhverfisverkefninu Fegurri sveitir. Ragnhildur Sigurðardóttir er ráðin sem verkefnisstjóri af landbúnaðarráðuneyti og aðstoðar þátttakendur við að koma auga á það sem má betur fara, finna lausnir og miðla upplýsingum. Hann ræðir líka við Hjördísi Ásgeirsdóttur á Laugarvatni um að vinna við þetta verkefni í hlutastarfi.

 

– gangast fyrir skemmti-, vinnu- og fræðsludagsskrá í Bláskógabyggð í haust. Þar verði verkefnið Fegurri sveitir kynnt, sömuleiðis poppuð grasrótarútgáfa af Staðardagsskránni með tilheyrandi útigrilli og fjöldasöng í bland við kynningu á umhverfisverkefnum sem börnin hafa verið að vinna í skólunum.

 

– à Sigurður St. og Ragnar Sær taka að sér að undirbúa og útfæra þetta.

 

Næsti fundur ákveðinn á Laugarvatni mánudaginn 12.ágúst kl.17.

 

Fleira gerðist ekki.
Sigurður St. Helgason

Fylgigögn:

Hvað er GAP verkefnið – Vistvernd í verki?
Hvað er Grænfáninn- umhverfisvænn skóli?
Hvað er Bláfáninn – Hreinar strendur?
1 Hvað er GAP verkefnið – Vistvernd í verki?
Hvað er Vistvernd í verki?

 

Samspil við náttúruna
Náttúran er uppspretta lífsgæða okkar. Maðurinn lifir í og af náttúrunni. Til að stuðla að því að sambýli okkar við náttúruna gangi vel þarf að sýna tillitsemi í umgengni við hana. Fara vel með auðlindirnar og takmarka mengun. Eðlilega spyrja margir hvað þeir geti gert til að stuðla að hreinna og betra umhverfi. Svarið liggur ekki alltaf í augum uppi. En það er ýmislegt hægt að gera.

 

Með ýmsum einföldum breytingum á daglegu lífi má gera lífsstíl vistvænni án þess að draga úr lífsgæðum. Og margt smátt gerir eitt stórt. Með víðtækri þátttöku í slíkum aðgerðum má ná miklum umhverfislegum ávinningi fyrir samfélagið. Vistvernd í verki er tæki til að koma þessu til leiðar. Reynslan sýnir að vistvænir lífshættir leiða einnig til fjárhagslegs sparnaðar, bæði fyrir samfélagið sem og þær fjölskyldur sem í hlut eiga.

 

Hvað er Vistvernd í verki?
Vistvernd í verki er alþjóðlegt umhverfisverkefni fyrir heimili. Markmið verkefnisins er að styðja og hvetja fólk til að taka upp vistvænni lífsstíl skref fyrir skref á þeim hraða sem hver velur sér. Verkefnið er hið eina sinnar tegundar í heiminum svo vitað sé og hafa kannanir sýnt að það skilar miklum og varanlegum árangri í bættri umhverfismeðvitund og hegðun. Um 470 heimili hafa nú þegar tekið þátt í verkefninu. Sveitarfélögin sem hafa staðið sig best eru Hvítársíða – yfir 50% íbúa tóku þátt, Hveragerði – 8% íbúa hafa tekið þátt og Hafnarfjörður – 4% íbúa hafa tekið þátt í verkefninu.

Ísland er eitt af þeim 19 löndum sem verkefnið hefur fest rætur í. Alþjóðlegt heiti verkefnisins er GAP, en það stendur fyrir Global Action Plan for the earth. Verkefnið er sannkallað grasrótarstarf og fellur því afar vel að áformum stjórnvalda um staðardagskrá 21. Það stuðlar að því að stjórnvöld nái settum markmiðum í umhverfismálum og um vistvænt Ísland.

Hvað gera visthópar?
Vistvernd í verki byggist á hópstarfi þar sem fulltrúar 5 til 8 heimila koma saman til 7 fræðslufunda á 10-12 vikna tímabili. Hverjum hópi fylgir einn leiðbeinandi og allir þátttakendur fá handbók þar sem finna má góð ráð og skrá árangur starfsins. Leiðbeinandi stýrir fyrsta og síðasta fundi en þess á milli starfar hópurinn sjálfstætt en með stuðningi leiðbeinanda.
Í bókinni eru tekin fyrir fimm viðfangsefni; sorp, orka, samgöngur, innkaup og vatn. Fundirnir eru notaðir til að fara yfir ýmis atriði í rekstri heimilisins og til að finna leiðir til úrbóta. Hver fundur er helgaður einu viðfangsefni og tekur að hámarki tvær klukkustundir.

 

Hvað er Grænfáninn- umhverfisvænn skóli?

 

Skólar á grænni grein – Grænfáninn
Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum. Þeir skólar sem vilja komast á græna grein í umhverfismálum leitast við að stíga skrefin sjö. Þegar því marki er náð fá skólarnir leyfi til að flagga Grænfánanum næstu tvö ár en sú viðurkenning fæst endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi. Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Skrefin sjö eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu í bekk og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau auka þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla. Jafnframt sýnir reynslan í Evrópu að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri.

 

Markmið verkefnisins er að:
• Bæta umhverfi skólans, minnka úrgang og notkun á vatni og orku.
• Efla samfélagskennd innan skólans.
• Auka umhverfisvitund með menntun og verkefnum innan kennslustofu og utan.
• Styrkja lýðræðisleg vinnubrögð við stjórnun skólans þegar teknar eru ákvarðanir sem varða nemendur.
• Veita nemendum menntun og færni til að takast á við umhverfismál.
• Efla alþjóðlega samkennd og tungumálakunnáttu.
• Tengja skólann við samfélag sitt, fyrirtæki og almenning.

Landvernd
Grænfánaverkefninu á Íslandi er stýrt af Landvernd sem er aðili að alþjóðlegu samtökunum FEE. Stýrihópur um Grænfána er Landvernd til fulltingis um allt sem viðkemur verkefninu.

Upphafið
Sumarið 2000 gerðist Landvernd aðili að samtökunum Foundation for Environmental Education in Europe (FEEE). Síðan hafa samtökin gerst alþjóðleg og stytt nafn sitt í samræmi við það og nota skammstöfunina FEE. Samtökin sjá um fjögur mismunandi umhverfisverkefni og er Grænfáninn eitt af þeim.
Haustið 2000 skrifaði Landvernd nokkrum stofnunum og aðilum og boðaði til vinnufundar í þeim tilgangi að ræða og meta hvort Grænfáninn félli að þörfum íslenskra skóla og ef svo væri að setja þá fram tillögur um framhald vinnunnar. Hópurinn hélt tvo fundi í október og nóvember og niðurstaða hans var að sett yrði á laggirnar tilraunaverkefni um Grænfánann til tveggja ára. Það hæfist með því að senda öllum grunnskólum á landinu lýsingu á verkefninu og óska eftir umsóknum þeirra sem vildu taka þátt frá byrjun. Gert var ráð fyrir að fara af stað með um fimm skóla. Hópurinn gekk einnig frá framkvæmda- og fjárhagsáætlun til tveggja ára.
Á útmánuðum 2001 var öllum grunnskólum á landinu sent kynningarbréf um Grænfánann og óskað eftir að áhugasamir sæktu um þátttöku og í maí stofnaði Landvernd sérstakan stýrihóp um verkefnið og réð verkefnisstjóra. Tólf skólar sóttu formlega um að taka þátt frá byrjun í verkefninu á Íslandi.

Hvernig stöndum við okkur í umhverfismálum? Gátlisti fyrir skóla.

 

Hvað er Bláfáninn – Hreinar strendur?

 

Bláfáninn
Um 30 lönd eiga aðild að Bláfánanum. Samtökin Landvernd annast Bláfánann á Íslandi og skipuleggur innleiðingu hans í samstarfi við Fiskifélag Íslands, Félag Umhverfis- og Heilbrigðisfulltrúa, Hafnasambandið, Umhverfisstofnun, Slysavarnafélagið Landsbjörg og Samtök ferðaþjónustunnar.

 

Bláfánabaðströnd
Sem gestur eða notandi Bláfánastrandar mátt þú gera kröfu um að:

 

-Ströndin sé snyrtileg og vel sé fylgst með ástandi hennar.
-Vatnið og sjórinn sé hreinn og að á staðnum séu upplýsingar um vatnsgæðin.
-Til staðar sé haldgóður búnaður til að taka á móti flokkuðu sorpi, salernin snyrtileg og viðhald bygginga sé í góðu lagi.
-Til staðar sé búnaður fyrir skyndihjálp, björgunarbúnaður og sími til að kalla eftir aðstoð.
-Boðið sé upp á fræðslu um umhverfi- og náttúru.
-Gestum sé bent á hvar eru viðkvæm og vernduð svæði.