12. fundur

12. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn þriðjudaginn 25. febrúar 2003, kl 13:30 í Fjallasal Aratungu.

Mætt voru:

Sveinn A. Sæland, Margeir Ingólfsson,  Snæbjörn Sigurðsson, Sigríður Jónsdóttir, Gunnar Þórisson, Drífa Kristjánsdóttir og Kjartan Lárusson, auk Ragnars S. Ragnarssonar sveitarstjóra.

1.      Sveinn A. Sæland oddviti setti fund og bauð velkomna, Ólaf Helga Kjartansson, sýslumann á Selfossi og Þröst Brynjólfsson yfirlögregluþjón sem komu sem gestir inná fundinn og kynntu áhersluatriði í löggæslu- og almannavarnarmálum.  Lögðu þeir fram minnispunkta til umræðu þar sem þeir kynntu m.a. samskipti lögreglu og sveitarfélaga, forvarnir og barnaverndarmálefni, almannavarnir, málefni útlendinga, lausagöngu búfjár, sumarhúsasvæði og fleira.   Tilgangur fundarins var að koma á beinum tengslum milli lögreglu og sveitarstjórnar og ræða sameiginleg hagsmunamál.   Fjölmargar fyrirspurnir voru lagðar fyrir gestina m.a. vegna brunavarna, skráningar á bústöðum þannig að auðveldara verði að finna þá m.a. vegna sjúkraflutninga, Gjábakkavegar, forvarna- og barnaverndarmála auk lausagöngu búfjár.

2.      Fundargerðir byggðaráðs frá 11. og 17. febrúar 2003.  Kynntar og staðfestar.

3.      Fræðslumál.  Ákvörðun um framtíðarsýn í grunnskólamálum Bláskógabyggðar.  Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að fara að tillögum fræðslunefndar að því leyti að Reykholtsskóli og Grunnskólinn á Laugarvatni verði einn skóli eins fljótt og auðið er.  Lagt er til að sameinaður skóli fái nafnið Grunnskóli Bláskógabyggðar.  Oddvita er falið að ræða við núverandi skólastjórnendur um áframhaldandi störf í þágu sveitarfélagsins.   Boðað verði til fundar með starfsfólki grunnskólanna í næstu viku og þeim kynntar fyrirhugaðar breytingar.   Bókun T-listans: T-listinn fagnar þeirri ákvörðun sem nú liggur fyrir um grunnskólann enda er ákvörðun í samræmi við stefnu listans í fræðslumálun Bláskógabyggðar.

4.      Fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar 2003, síðari umræðu frestað til næsta fundar.   Umræða um fjárhagsáætlun veitna í eigu sveitarfélagsins,  Biskupstungnaveitu og Hitaveitu Laugarvatns.  Kjartan lagði fram eigin fjárhagsáætlun Hitaveitu Laugarvatns en samkvæmt henni er gert ráð fyrir að afkoman sé mun betri en veitunefnd gerði ráð fyrir.   Síðari umræða um fjárhagsáætlun veitnanna verður á næsta fundi sveitarstjórnar 4. mars n.k.

5.      Þriggja ára fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar 2004-2006, fyrri umræða.  Samþykkt að vísa fjárhagsáætluninni til síðari umræðu 4. mars n.k.   

6.      Prókúruumboð sveitarsjóðs.  Sveinn A. Sæland oddviti og Margeir Ingólfsson formaður byggðaráðs munu fara tímabundið með prókúruumboð sveitarfélagins eða frá 1. mars – 31. ágúst 2003.  Frá sama tíma fellur niður prókúruumboð Ragnars S. Ragnarssonar en það endurnýjast 1. september 2003.

7.     Umræður um íbúaskrá.  Bókun Kjartans.  Kjartan bendir á að starfsfólk sveitarfélagsins hefur ekki allt fært lögheimili sitt í sveitarfélagið og vill leiðrétta þann misskilning sem fram kom á sveitarfundinum 10. feb. s.l. að aðeins tvö börn í grunnskólanum og eitt í leikskólanum hefðu ekki lögheimili í Bláskógabyggð.  Hið sanna er að 8 börn eru í leikskólanum á Laugarvatni án lögheimilis og einnig sækja 4 börn grunnskólann án lögheimilis í sveitarfélaginu.  Bókun sveitarstjóra.  Sveitarstjóri hefur í samvinnu við skólastjórnendur á Laugarvatni,  foreldra, námsmenn og aðra sem dvelja tímabundið vegna náms eða starfa, unnið að því,  að viðkomandi lögheimilissveitarfélög greiði fyrir námsdvöl viðkomandi barna.  Börn verða ekki vistuð í skóla sveitarfélagsins framvegis nema búið sé að ganga frá staðfestingu viðkomandi sveitarfélags um greiðslur. 

8.      Fyrirspurn frá T listanum.  Samþykkt var á sveitarstjórnarfundi 12. des. s.l. að auglýsa nýsamþykktar reglur um hundahald í Bláskógabyggð í næstu Bláskógafréttum.  Þrátt fyrir samþykki sveitarstjórnar birtust reglurnar ekki í janúarhefti Bláskógafrétta.  Hvað veldur því?  Svar formanns byggðaráðs:   Reglugerð um hundahald í Bláskógabyggð hefur verið send ráðuneyti til staðfestingar.  Staðfesting hefur ekki borist og því ekki hægt að auglýsa reglugerðina.

9.      Erindisbréf – áskorun.  Drífa beinir því til meirihluta sveitarstjórnar að halda áfram vinnu við gerð erindisbréfa fyrir nefndir sveitarfélagsins.  Brýnt er að m.a. veitunefnd fái erindisbréf sem fyrst, í ljósi þess að sveitarstjórn samþykkir aukin verkefni  á nefndina.  Svar formanns byggðaráðs:  Vinna við gerð erindisbréfa er í gangi með nefndum og er stefnt að því að klára þá vinnu í apríl.

10.  Fyrirspurn um samþykktir sveitarstjórnar.  Drífa minnir á að sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum 6. ágúst 2002, tillögur byggðaráðs, af fundi þess 31. júlí 2002, um endurskoðun á innihaldi samnings skólastjóra grunnskólans á Laugarvatni.  Drífa áréttar að brýnt er að framfylgja samþykktum sveitarstjórnar svo fljótt sem auðið er en það er henni ekki kunnugt um að hafi verið gert í þessu tilfelli.  Svar oddvita:  Á fundi byggðaráðs 31. júlí 2002 var lagt til að samningur við skólastjóra yrði framlengdur um eitt ár og að innihald hans yrði endurskoðað.  Samningurinn var framlengdur um eitt ár en í ljósi heildarendurskoðunar í skólamálum á svæðinu var ákveðið að bíða með endurskoðun samningsins.

11.  Hitaveitur Bláskógabyggðar.    Drífa leggur til að unnið verði hratt og örugglega að því að ná saman öllum veitueigendum til að skoða möguleika á því að sameina allar hitaveitur í sveitarfélaginu, hvort sem um er að ræða einkahitaveitur eða hitaveitur í eigu Bláskógabyggðar.  Markmiðið með því væri að gera eina öfluga hitaveitu í Bláskógabyggð, en öflugt veitufyrirtæki hlýtur að vera betur í stakk búið til að takast á við útvíkkun hitaveitu um alla Bláskógabyggð.  Eins hlýtur sameinað stærra veitufyrirtæki að gefa aukna möguleika í samvinnu eða samruna við, enn stærri orkufyrirtæki.  Sveitarstjórn vísar tillögunni til veitustjórnar til umsagnar.

  

Fundi slitið kl. 18:40