123. fundur

 1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn

fimmtudaginn 7. apríl 2011, kl 15:15

í Aratungu

Mætt voru:

Drífa Kristjánsdóttir, Helgi Kjartansson, Margeir Ingólfsson, Jóhannes Sveinbjörnsson, Kjartan Lárusson sem varamaður Valgerðar Sævarsdóttur, Smári Stefánsson, Sigurlína Kristinsdóttir, Valtýr Valtýsson sveitarstjóri og Sigurrós H. Jóhannsdóttir, sviðsstjóri sem ritaði fundargerð.

 

 1. Fundargerð 112. fundar byggðaráðs Bláskógabyggðar.
  Varðandi dagskrárlið 1.1, staðfestingu fundargerðar skipulags- og byggingarnefndar, þá vill sveitarstjórn endurskoða afgreiðslu dagskrárliðar 18, sem lýtur að leyfilegri stærð bygginga á lóðunum Fagradalsbraut 1-7. Sveitarstjórn hefur borist erindi frá lóðarhöfum þess efnis að kanna möguleika á breytingu skilmála þannig að hægt verði að byggja 30 fermetra stærri hús en gert er ráð fyrir á skipulagi.  Oddvita og skipulagsfulltrúa falið að ræða við málsaðila og landeigendur um möguleika á úrlausn málsins.

Varðandi dagskrálið 1.1. fundargerðar skipulags- og byggingarnefndar, þá gerir

sveitarstjórn Bláskógabyggaðar athugasemd við bréf frá Grímsnes- og Grafningshreppi, dagsett 21. mars 2011, þar sem fjallað er um „skort á húsnæði hjá Skipulags- og byggingafulltrúaembætti Uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps“.  Sveitarstjórn Bláskógabyggðar bendir á að engin húsnæðisskortur er hjá embættinu og bendir á því til staðfestingar fundargerð 23. fundar oddvita Uppsveita Árnessýslu frá 25. janúar 2007. Á þeim fundi var samþykkt að „embættið fengi alla hæðina undir sína starfsemi“. Um svipað leyti og þessi samþykkt  var gerð kom upp sú hugmynd að embættið flytti í Héraðsskólahúsið og var þá ákveðið að bíða með að taka alla hæðina undir þar til í ljós kæmi hvort af flutningi yrði. Samþykktin frá 25. janúar 2007 er enn í fullu gildi og er Bláskógabyggð tilbúin til að endurinnrétta hæðina ef embættið óskar þess. Jafnframt má benda á að viðræðum hefur ekki verið lokið við ríkið varðandi nýtingu á Héraðsskólahúsinu.

 

Lagt var fram bréf Friðriks Sigurjónssonar, dags. 5. apríl 2011,  þar sem gerðar eru athugasemdir við afgreiðslu byggðaráðs vegna styrkveitingar vegna tekjutaps þátttakenda á vettvangsstjóranámskeið á vegum Almannavarna Árnessýslu, dagskrárliður 8.3.  Sveitarstjórn staðfestir niðurstöðu byggðaráðs, enda er styrkupphæð og fyrirkomulag með sambærilegum hætti og hjá öðrum sveitarfélögum í Árnessýslu.

 

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

 

Undir þessum lið kom barnakór Grunnskóla Bláskógabyggðar og flutti nokkur lög fyrir sveitarstjórn Bláskógabyggðar.

 

 1. Fundargerðir til staðfestingar:

2.1.    8. fundur fræðslunefndar Bláskógabyggðar.
Staðfest samhljóða.

2.2.    4. fundur æskulýðsnefndar.
Staðfest samhljóða.

 

 1. Fundargerðir til kynningar:

3.1.    Aðalfundur Eignarhaldsfélags Suðurlands, dags. 28. mars 2011.

 

 1. Málefni félagsþjónustunnar:

4.1.    Drög að samstarfssamningi um félagsþjónustu sveitarfélaga í Uppsveitum Árnessýslu, Flóahreppi, Hveragerðisbæ og Sveitarfélaginu Ölfusi.
Lögð fram drög að samstarfssamningi um félagsþjónustu sveitarfélaga í Uppsveitum Árnessýslu, Flóahreppi, Hveragerðisbæ og Sveitarfélaginu Ölfusi.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða fyrirliggjandi samstarfssamning fyrrgreindra sveitarfélaga um sameiginlega félagsþjónustu.  Jafnframt samþykkir sveitarstjórn samhljóða að fela sveitarstjóra Hrunamannahrepps að ganga frá uppsögnum og starfslokum núverandi félagsmálastjóra Uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps fyrir  1. maí  2011, en uppsagnarfrestur er þrír mánuðir.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að skipa Drífu Kristjánsdóttur, oddvita sveitarstjórnar, í stjórn félagsþjónustunnar (NOS).  Oddvita falið að undirrita samninginn fyrir hönd Bláskógabyggðar.

4.2.    Drög að erindisbréfi velferðarnefndar samstarfssveitarfélaga um félagsþjónustu.
Lögð fram drög að erindisbréfi velferðanefndar samstarfssveitarfélaga um félagsþjónustu. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða fyrirliggjandi erindisbréf velferðarnefndar samkvæmt 4. gr. samstarfssamningsins.

4.3.    Fundargerð undirbúningshóps um sameiginlega félagsþjónustu.
Lögð fram lokaskýrsla vinnuhóps um sameiginlega félagsþjónustu.

 

 1. Heildardeiliskipulag fyrir Laugarás.

Umræða varð um heildrænt deiliskipulag fyrir þéttbýlið í Laugarási.  Íbúafundur var haldinn um málefni Laugaráss í Aratungu þann 17. febrúar s.l. þar sem m.a. umrætt skipulag og forsendur þess voru kynntar fyrir íbúum.

Almennar umræður urðu um fyrirliggjandi drög að skipulagi fyrir Laugarás.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að auglýsa fyrirliggjandi tillögu að heildardeiliskipulagi fyrir Laugarás og felur skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram.

 

 1. Innheimta gatnagerðargjalda vegna Bjarkarbrautar í Reykholti.

Þessum dagskrárlið var vísað til sveitarstjórnar á 112. fundi byggðaráðs. Sveitarstjóri gerði grein fyrir stöðu mála og gerði einnig grein fyrir tillögu um lausn ágreinings vegna lokainnheimtu gatnagerðargjalda vegna Bjarkarbrautar.  Tillagan felur í sér lækkun innheimtra gatnagerðargjalda um 50,7% frá útsendingu innheimtuseðla um síðustu áramót.  Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að leggja fram umrætt tilboð en með þeim fyrirvara að allir málsaðilar samþykki það.  Ef tilboð þetta verður samþykkt af öllum málsaðilum, þá verður þetta tilboð fordæmisgefandi varðandi innheimtu óinnheimtra gatnagerðargjalda í sveitarfélaginu.
Umræða varð um gildandi samþykkt sveitarfélagsins um gatnagerðargjöld.  Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að endurskoða gjaldskrána og felur sveitarstjóra að vinna tillögu um endurskoðaða gjaldskrá fyrir gatnagerðargjöld í Bláskógabyggð.  Endurskoðuð tillaga verði lögð fyrir sveitarstjórn við fyrstu hentugleika.

Sigurlína Kristinsdóttir vék af fundi undir afgreiðslu þessa liðs.

 

 1. Samþykktir og reglur:

7.1.    Drög að verklagsreglum um styrkveitingar Bláskógabyggðar.

Fyrirliggjandi drögum að verklagsreglum var vísað til sveitarstjórnar á 112. fundi byggðaráðs.
Sveitarstjórn ræddi forsendur verklagsreglnanna og útfærslu.  Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi drög að verklagsreglum og felur sveitarstjóra að ganga endanlega frá verklagsreglunum í takt við umræðu fundarins.  Verklagsreglur verði síðan  kynntar á heimasíðu sveitarfélagsins.

7.2.    Drög að breytingu samþykkta og tekjuviðmiðana vegna afslátta af fasteignaskatti.

Fyrirliggjandi drögum að breytingu samþykkta og tekjuviðmiðana vegna afslátta af fasteignaskatti var vísað til sveitarstjórnar á 112. fundi byggðaráðs.

Sveitarstjórn ræddi forsendur breytingatillögu og þá nýbreytni að sambærilegur afsláttur verði einnig útfærður á holræsagjöld í þéttbýli innan Bláskógabyggðar, þar sem viðkomandi hús er tengt fráveitukerfi sveitarfélagsins.  Sveitarstjórn samþykkti samhljóða fyrirliggjandi breytingatillögu og felur sveitarstjóra að kynna breyttar viðmiðunarreglur á heimasíðu sveitarfélagsins.  Breytingarnar taki gildi frá 1. janúar 2011.

 

 1. Umsögn um þingmál 561, frumvarp til laga um breytingu á vatnalögum.

Byggðaráð vísaði þessum dagskrárlið  til sveitarstjórnar á 112. fundi sínum.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við fyrirliggjandi frumvarp á þessu stigi.

 

 1. Kosning varamanns í undirkjörstjórn fyrir Biskupstungur.
  Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að kjósa Geirþrúði Sighvatsdóttur, Miðhúsum, sem varamann í undirkjörstjórn fyrir Biskupstungur og kemur hún í stað Arnheiðar Þórðardóttur.

 

 1. Bláskógaveita, umræða um stöðu og rekstur veitunnar.

 

 1. Innsend bréf og erindi:

11.1. Bréf Steinars Á. Jensen og Hólmfríðar Geirsdóttur, dags. 1. apríl 2011; lokun Lyngbrautar, Reykholti.

Lagt fram bréf Steinars og Hólmfríðar þar sem þau óska eftir að skipulagi vegna lokunar á Lyngbraut verði breytt, þannig að hliðgrind verði opnanleg.  Farið er fram á að hliðgrind verði opin milli kl. 8:00 og 20:00 frá byrjun maí til loka september.

Sveitarstjórn hafnar  framkominni. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er ekki gert ráð fyrir tengingu frá Lyngbraut inn á Biskupstungnabraut. Sveitarstjórn bendir á að samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni verður vegtenging milli Lyngbrautar og Biskupstungnabrautar rofin nú í sumar.

Helgi Kjartansson sat hjá við afgreiðslu þessa liðar.

 

11.2. Tölvuskeyti SEEDS, dags. 1. apríl 2011; sumarverkefni.
Lagt fram tölvuskeyti SEEDS þar sem verið er að kanna vilja sveitarfélagsins til að taka á móti sjálfboðaliðshópi frá miðjum júní og fram á haustið.  Hópar sem þessir hafa unnið að umhverfis-, menningar-, félags- eða íþróttamálum.
Sveitarstjórn þakkar fyrirliggjandi boð, en telur sér ekki fært að taka tilboðinu.  Ekki er gert ráð fyrir slíku verkefni í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.

 

11.3. Fréttapunktar af íbúaþingi sem haldið var 1. mars 2011 á Laugarvatni.
Lagðir voru fram fréttapunktar af íbúaþingi sem haldið var á Laugarvatni af frumkvæði Hollvina Laugardals.  Athyglisverðar hugmyndir komu fram á þinginu sem eru gott innlegg til þeirra framtíðarverkefna sem vinna þarf að á Laugarvatni.

 

11.4.  Bréf atvinnu- og ferðamálanefndar, dags. 4. apríl 2011; styrkur til útgáfu dagatals.

Lagt fram bréf frá atvinnu- og ferðamálanefnd, þar sem óskað er eftir styrk með birtingu auglýsinga í dagatali sem fyrirhugað er að gefa út.  Stefnt er að því að fá alla verktaka sveitarfélagsins og þá aðila sem eru með afþreyingu í sveitarfélaginu til að taka þátt í verkefninu.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að styrkja verkefnið um kr. 50.000, enda fái sveitarfélagið birtar auglýsingar í dagatalinu sem lúta að afþreyingu og þjónustu sem sveitarfélagið er að veita íbúum og ferðamönnum.

 

 1. Útsending fundargagna fyrir byggðaráð og sveitarstjórn Bláskógabyggðar.

Sveitarstjóri óskaði eftir umræðu og samþykki þess efnis að fundargögn yrðu afrituð inn á sameiginlegt gagnasvæði fyrir sveitarstjórn sem hægt er að tengjast með internetinu.  Allir sveitarstjórnarmenn og fyrstu varamenn hefðu aðgang að því skráarsvæði.  Með þeim hætti væri hægt að nálgast fundargögn fyrr, eða þegar þau liggja fyrir og þau komin inn á gagnasvæðið.  Tveimur dögum fyrir fundi í byggðaráði og sveitarstjórn verður tilkynnt með tölvuskeyti þegar öll fyrirliggjandi fundargögn eru komin inn á gagnasvæðið.  Með þessum hætti gætu sveitarstjórnarmenn nálgast fundargögn á þeim tíma sem þau lægju fyrir og fyrirkomulagið myndi spara póstsendingar vegna útsendingu fundargagna.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að heimila dreifingu fundargagna með þessum hætti og gera þann hátt að meginreglu.  Sveitarstjórnarmenn geta þó fengið fundargögn send með tölvupósti ef óskað er sérstaklega eftir slíku, en beiðni um slíka sendingu verður að berast sveitarstjóra.

 

 1. Kjörskrá vegna þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl 2011.

Sveitarstjórn fór yfir kjörskrá vegna þjóðaratkvæðagreiðslu sem fer fram laugardaginn 9. apríl 2011. Sveitarstjórn staðfestir fyrirliggjandi kjörskrá og felur sveitarstjóra að árita hana.  Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að veita sveitarstjóra eða oddvita fullt umboð til að úrskurða um kærumál sem upp kunna að koma á kjördegi.

 

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:00.