126. fundur

  1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn

fimmtudaginn 12. maí 2011, kl 16:30

í Aratungu

Mætt voru:

Drífa Kristjánsdóttir, Helgi Kjartansson, Margeir Ingólfsson, Kjartan Lárusson sem varamaður Jóhannesar Sveinbjörnssonar, Valgerður Sævarsdóttir, Smári Stefánsson, Sigurlína Kristinsdóttir, Valtýr Valtýsson sveitarstjóri og Sigurrós H. Jóhannsdóttir, sviðsstjóri sem ritaði fundargerð.

 

Oddviti lagði fram tillögu um dagskrárbreytingu, að inn komi nýr liður 7.  Samþykkt samhljóða.

 

  1. Ársreikningur Bláskógabyggðar 2010 (síðari umræða).

Lagður fram, til síðari umræðu, ársreikningur Bláskógabyggðar, fyrir árið 2010, ásamt sundurliðunum. Helstu niðurstöður úr rekstrar- og efnahagsreikningi samstæðu sveitarfélagsins, í þúsundum króna, eru:

 

Rekstrarreikningur:

Rekstrartekjur:                                                        754.107

Rekstrargjöld:                                                        -722.135

Fjármagnsgjöld:                                                      -46.773

Tekjuskattur:                                                                   369

Rekstrarniðurstaða:                                               -14.432

 

Efnahagsreikningur:

Eignir:

Fastafjármunir:                                                       905.815

Veltufjármunir:                                                        151.964

Eignir samtals:                                                   1.057.779

Skuldir og eigið fé:

Eiginfjárreikningur:                                                  297.155

Langtímaskuldir:                                                     567.400

Skammtímaskuldir:                                                193.224

Skuldir og skuldbindingar alls:                            760.624

Eigið fé og skuldir samtals:                             1.057.779

 

Samkvæmt yfirliti yfir sjóðstreymi fyrir árið 2010 nemur veltufé frá rekstri 35,4 milljónum króna og handbært fé frá rekstri 24,9 milljónir króna.  Handbært fé í árslok 9,9 milljónir króna.

Ársreikningur Bláskógabyggðar fyrir rekstrarárið 2010 samþykktur samhljóða og áritaður.

 

  1. Endurskoðun Fjallskilasamþykktar fyrir Árnessýslu austan vatna.

Héraðsnefnd Árnesinga hefur ákveðið að fara í endurskoðun á Fjallskilasamþykkt fyrir Árnessýslu austan vatna.  Bláskógabyggð þarf að tilnefna fulltrúa sinn í endurskoðunarnefnd.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að tilnefna Eirík Jónsson, Gýgjarhólskoti I, sem fulltrúa sinn í endurskoðunarnefndina.

 

  1. Erindi frá Sýslumanninum á Selfossi:

3.1.    Beiðni um umsögn um breytingu á rekstarleyfi Farfuglaheimilisins Laugarvatni.

Lagt fram bréf Sýslumannsins á Selfossi, dags. 5. maí 2011, þar sem óskað er eftir umsögn Bláskógabyggðar um umsókn Farfuglaheimilisins Laugarvatni ehf. um leyfi fyrir viðbótargistingu í húseigninni Hrísholti 6 á Laugarvatni.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemdir við breytingu á rekstrarleyfi, hvort sem um er að ræða staðsetningu eða afgreiðslutíma staðar, enda valdi starfsemin ekki ónæði, m.a. vegna hávaða eða óeðlilega mikillar umferðar.

3.2.    Beiðni um umsögn um leyfi til reksturs veitingastaðar í flokki II í Árbúðum.

Lagt fram bréf Sýslumannsins á Selfossi, dags. 5. maí 2011, þar sem óskað er eftir umsögn Bláskógabyggðar um umsókn Gljásteins ehf. um leyfi til reksturs veitingastaðar í flokki II í Árbúðum við Kjalveg.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemdir við veitingu leyfis til reksturs veitingastaðar í flokki II.  Árbúðir eru skilgreindar sem hálendismiðstöð og því gert ráð fyrir slíkri þjónustu á staðnum.  Ekki er gerð athugsemd við afgreiðslutíma starfseminnar.

 

  1. Starfsmannamál.

Lagt fram bréf Halldórs Karls Hermannssonar, dagsett 10. maí 2011, þar sem hann segir starfi sínu lausu.  Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að vinna að ráðningu í stöðu sviðsstjóra þjónustu- og framkvæmdasviðs Bláskógabyggðar.  Sveitarstjórn heimilar að leitað verði til ráðningarþjónustu við þá vinnu.  Þegar tillaga liggur fyrir um ráðningu í stöðuna verði hún lögð fyrir sveitarstjórn til samþykktar. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar þakkar Halldóri Karli fyrir vel unnin störf  og óskar honum velfarnaðar í nýju starfi.

 

  1. Tillaga um breytingu aðalskipulags Laugardalshrepps; efnistökusvæði í landi Eyvindartungu.

Á 34. fundi skipulags- og byggingarnefndar dags. 26. apríl 2011 var tekið fyrir að nýju erindi Eyvindartungu ehf. dags. 16. febrúar 2011  varðandi framkvæmdaleyfi fyrir vegtengingu frá Lyngdalsheiðarvegi inn á land Eyvindartungu sem m.a. myndi nýtast fyrirhugaðri námu á svæðinu. Framkvæmdaleyfi fyrir veginum var samþykkt á fundinum og var sú afgreiðsla staðfest í sveitarstjórn 5.maí s.l.  Áður hafði sveitarstjórn samþykkt að á þessu svæði yrði gert ráð fyrir varanlegu efnistökusvæði, en það felur í sér að breyta þarf aðalskipulagi svæðisins.

 

Nú liggur fyrir tillaga landeigenda að efnistökuáætlun fyrir svæðið ásamt uppdrætti með afmörkun efnistökusvæðisins auk umsagnar Umhverfisstofnunar um þau gögn dags. 14. apríl. Umrætt svæði er í jaðri efnistökusvæðis sem nýtt var við gerð Lyngdalsheiðarvegar, merkt sem náma nr. 7 (Rauðagil) í aðalskipulagi Laugardalshrepps. Þar sem það magn sem tilgreint er í aðalskipulaginu hefur verið fullnýtt þarf að breyta aðalskipulaginu til að heimila megi nýja námuvinnslu á svæðinu.

Þar sem fyrirhuguð náma er í jaðri efnistökusvæðis sem nýlega hefur verið í notkun og á eftir að ganga endanlega frá er ekki talið að um verulega breytingu á landnotkun sé að ræða. Þá er ekki talið að efnistakan sé líkleg til að hafa mikil áhrif á einstaka aðila eða hafa áhrif á stór svæði. Í ljósi þessa samþykkir sveitarstjórn að gera breytingu á aðalskipulagi svæðisins skv. 2. mg. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 á þann veg að á svæðinu verði gert ráð fyrir allt að 49.900 m3 efnistökusvæði. Við veitingu framkvæmdaleyfis þarf að huga sérstaklega að afmörkun námunnar með það að markmiði að lágmarka sjónræn áhrif námunnar séð frá Lyngdalsheiðarvegi.

 

  1. Tillaga um breytingu á samþykkt um stjórn og fundarsköp í Bláskógabyggð.

Lögð fram tillaga um breytingu á 17. lið í 34. grein samþykkta Bláskógabyggðar.  Í stað núgildandi texta 17. liðar komi:

 

Sameiginleg félagsþjónusta sjö sveitarfélaga í Árnessýslu. Sveitarstjórn kýs einn fulltrúa til setu í yfirstjórn sameiginlegrar félagsþjónustu sjö sveitarfélaga í Árnessýslu, samkvæmt samningi þar að lútandi. Sá sem kjörinn er í yfirstjórn hefur umboð til þess að skipa fulltrúa í eina sameiginlega velferðarnefnd á starfssvæði félagsþjónustu sveitarfélaganna í samræmi við ákvæði samstarfssamnings og á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Fulltrúar í sameiginlegri velferðarnefnd eru fimm auk jafnmargra varamanna og koma þrír af starfssvæði Sveitarfélagsins Ölfuss og Hveragerðisbæjar og tveir af starfssvæði sveitarfélaga í Uppsveitum Árnessýslu og Flóa. Fulltrúi sveitarstjórnar í sjö manna yfirstjórn hefur einnig umboð til þess að taka þátt í skipan formanns og varaformanns sameiginlegrar velferðarnefndar. Yfirstjórn útbýr einnig erindisbréf sameiginlegrar fimm manna velferðarnefndar og leggur það fyrir sveitarstjórn til staðfestingar af hennar hálfu.

 

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að vísa þessari tillögu til annarrar umræðu á næsta reglubundna fundi sveitarstjórnar.

 

  1. Lánstilboð og samningur við Lánasjóð sveitarfélaga um lán fyrir framkvæmdum 2011.

Lagður fram lánasamningur milli Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. og Bláskógabyggðar, í samræmi við fjárhagsáætlun og framkvæmdaáætlun Bláskógabyggðar fyrir árið 2011.

 

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir hér með að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. að fjárhæð 40.000.000 kr.  til 13 ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Til tryggingar láninu standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 3. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.  Er lánið tekið til að fjármagna framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2011, þar á meðal 30 milljónir vegna gatnagerðar auk annarra minni framkvæmda, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

 

Jafnframt er Valtý Valtýssyni sveitarstjóra Bláskógabyggðar, kt. 221060-2379, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Bláskógabyggðar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga ohf. sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:40.