13. fundur

13. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn þriðjudaginn 4. mars 2003, kl 13:30 í Fjallasal Aratungu.

Mætt voru:

Sveinn A. Sæland, Margeir Ingólfsson Snæbjörn Sigurðsson, Sigurlaug Angantýsdóttir, Bjarni Þorkelsson, Drífa Kristjánsdóttir og Kjartan Lárusson. 

   1.      Sveinn bar undir fundinn að Margeir Ingólfsson riti fundargerðir sveitarstjórnar í fjarveru Ragnars þ.e. næstu 6 mánuði og var það samþykkt. 

2.      Fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar 2003, síðari umræða. Knútur Ármann formaður veitustjórnar og Gunnar Sigurþórsson gjaldkeri mættu á fundinn til að ræða fjárhagsáætlun Hitaveitu Laugarvatns í framhaldi af því að Kjartan Lárusson lagði fram eigin fjárhagsáætlun við fyrri umræðu.  Fram kom í máli þeirra að í fjárhagsáætlun Kjartans er gert ráð fyrir skuldbreytingum lána sem ekki er vitað hvort hægt sé að fá, tekjur ofáætlaðar og að ekki sé gert ráð fyrir rúmlega 4 milljónum árlega sem upp á vanti til að veitan eigi fyrir skuldbindingum sínum.  Ljóst er að þó svo að allar þær skuldbreytingar á eldri lánum gangi eftir þá þarf sveitarsjóður að taka á sig að lágmarki 30 milljónir til þess að veitan verði rekstrarhæf, en ef eldri lánum er ekki skuldbreytt þá verði sveitarsjóður að taka á sig  48 milljónir.  Farið var yfir fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar og var síðan  gengið til atkvæðagreiðslu um breytingartillögu Kjartans.  Tillagan var felld með 5 atkvæðum gegn 2.  Þá var gengið til atkvæða um fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar og var hún samþykkt með 5 atkvæðum gegn 2.  T-listinn lagði fram eftirfarandi bókun:  Í ljósi þess að engar breytingar hafa verið gerðar á fjárhagsáætlun Hitaveitu Laugarvatns geta fulltrúar T-listans ekki samþykkt fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar.

Bókun vegna fjárhagsáætlunar 2003:  Heildartekjur Bláskógabyggðar og félaga á vegum þess fyrsta heila starfsár sveitarfélagsins eru áætlaðar kr. 390.000.000.-  Rekstrargjöld kr. 376.525.000.-   Til afborgunar langtímaskulda fara kr. 38.745.000.-  Gert er ráð fyrir að framkvæmdir verði í lágmarki en til þeirra er varið kr. 5.000.000. auk kr. 15.758.000. sem eru framkvæmdir eignasjóðs.  Þá er gert ráð fyrir endurfjármögnun lána að fjárhæð kr. 25.000.000.- og sölu eigna að fjárhæð kr. 5.000.000.- Fjárhagsáætlunin ber með sér það aðhald sem ætlunin er að sýna í rekstri á árinu og komandi árum samkvæmt langtíma áætlun.  Helstu áhersluatriði við gerð fjárhagsáætlunar er öflugt skólastarf.   Til þess málaflokks er varið kr. 181.838.000.-  en sveitarfélagið er með nemendur í þremur grunnskólum, Ljósafossskóla, Laugarvatni og í Reykholti.  Þá rekur sveitarfélagið leikskóla á Laugarvatni og Reykholti.  Fyrirhugað er að efla skóla sveitarfélagsins með margvíslegum hætti þannig að innan sveitarfélagsins verði rekið öflugt skólastarf bæði í leik- og grunnskólum.  Í ítarlegri greinargerð sem fylgir fjárhagsáætlun eru tíunduð helstu markmið sveitarstjórnar og skýringar á fjárhagsáætlun.  Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir aukinni ábyrgð á stjórnendur stofnanna á vegum sveitarfélagsins sem fá aukið forræði í forgangsröðun fjármuna sem þeim er úthlutað.  Þá gerir nýtt fjárhagskerfi sveitarfélagsins ráð fyrir að aðgengi stjórnenda að upplýsingum aukist.   Sveitarstjórn þakkar byggðaráði og sveitarstjóra fyrir ítarlega vinnu sem unnin hefur verið við gerð fyrstu fjárhagsáætlunar Bláskógabyggðar. 

3.      Suðurveita.  Ákvörðun um afstöðu sveitarstjórnar til aðildar að sameiginlegu      orkufyrirtæki, “Suðurveitu”.   Margeir kynnti stöðu mála á undirbúningi að  Suðurveitu og kom þar m.a. fram að málið er komið á það stig að sveitarfélög verða að taka ákvörðun um það hvort þau ætla að vera með í “Suðurveitu”.  Gert er ráð fyrir því að þau sveitarfélög sem ætli að vera með staðfesti vilja sinn með yfirlýsingu á næsta fundi.  Eftir umræður um málið samþykkti sveitarstjórn að taka ekki frekari þátt í  undirbúningi að “Suðurveitu” og draga sig því út úr þeim viðræðum.  

4.      Þriggja ára fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar 2004-2006, síðari umræða.  Í áætluninni er gert ráð fyrir að langtímaskuldir sveitarsjóðs lækki úr kr. 284.942.000.- árið 2003 í kr. 175.818.000.-  árið 2006.  Gengið var til atkvæða um áætlunina og var hún samþykkt með 6 atkvæðum en einn sat hjá.  

5.      Skipun þriggja manna vinnuhóps um framkvæmd kynningar- og markaðsdaga.  Lagt er til að dagarnir fái nafnið Bláskógablíða.  Til að undirbúa Bláskógablíðu eru skipaðir Sveinn A. Sæland, sem stýrir hópnum, Bjarni Þorkelsson og Sigríður Bragadóttir. 

6        Kosning þriggja manna nefndar um endurskipulagningu áhaldahúsa sveitarfélagsins samkvæmt tillögu byggðaráðs.  Lagt er til að f.h. Þ-lista sitji í nefndinni Margeir Ingólfsson formaður byggðaráðs og Snæbjörn Sigurðsson og fyrir T-lista Heimir Davíðsson. 

7        Kaupsamningur vegna Kjóastaða 2, Biskupstungum.  Kaupsamningurinn var kynntur en þar kom fram að Lækjartún ehf. kt:460602-2460 er að selja S.Ö.S ehf. kt:420702-4260 jörðina Kjóastaði 2.  Sveitarstjórn samþykkir að falla frá forkaupsrétti.

8        Kynntur kaupsamningur/afsal Bláskógabyggðar og Grímsnes- og Grafningshrepps um kaup þess síðarnefnda á hlut Bláskógabyggðar á Ljósafossskóla.  Samhliða undirritun kaupsamningsins verður undirritaður þjónustusamningur við Grímsnes- og Grafningshrepp um skólavist barna úr Þingvallasveit þannig að þau njóti sömu þjónustu og verið hefur.  Kaup- og þjónustusamningurinn munu taka gildi frá síðustu áramótum þ.e. 1. janúar 2003.   Samningurinn einfaldar skólarekstur Ljósafossskóla sem verður þá á einni hendi en hann hefur verið samlagsrekstur frá stofnun hans.  Vísað til annarrar umræðu.

9        Fræðslumál.

Bjarni vék af fundi undir þessum lið vegna vanhæfis.

Í framhaldi af ákvörðun sveitarstjórnar á fundi hennar þann 25. febrúar, samþykkir sveitarstjórn að stefnt skuli að stofnun Grunnskóla Bláskógabyggðar þann 1. ágúst 2003. Það er skýr vilji sveitarstjórnar að breytingar þessar hafi sem minnst áhrif á núverandi starfsmenn eða starfsumhverfi þeirra við grunnskólana. Oddvita er falið áfram að ræða við skólastjórana á grundvelli 14. gr. laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla og gera tillögu til fræðslunefndar um afgreiðslu með það að markmiði að faglegir, fjárhagslegir og félagslegir hagsmunir séu hafðir að leiðarljósi.
Honum er  síðan falið að kynna málið fyrir starfsfólki grunnskólanna.

Fundi slitið kl. 18:00