135. fundur

  1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn

fimmtudaginn 2. febrúar 2012, kl 15:15

í Aratungu

 

Mætt voru:

Drífa Kristjánsdóttir, Helgi Kjartansson, Margeir Ingólfsson, Jóhannes Sveinbjörnsson, Valgerður Sævarsdóttir, Smári Stefánsson,  Sigurlína Kristinsdóttir og Valtýr Valtýsson sveitarstjóri og Sigurrós H. Jóhannsdóttir, sviðsstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

  1. Fundargerðir til staðfestingar:

1.1.              Fundargerð 121. fundar byggðaráðs Bláskógabyggðar.
Pétur Ingi Haraldsson, skipulagsfulltrúi, sat fundinn undir þessum lið.

Varðandi dagskrárlið 2.1 í fundargerð byggðarráðs, er varðar dagskrárlið 12 í fundargerð skipulagsnefndar, þá samþykkir sveitarstjórn Bláskógabyggðar samhljóða að ekki verði gerð krafa um rykbindingu á vegi í deiliskipulagi Efsta-Dals 2.

“Varðandi dagskrárlið 2.2. í fundargerð byggðaráðs, þá kynnti oddviti fyrirhugaða ferð oddvita, sveitarstjóra og ferðamálafulltrúa Uppsveita Árnessýslu til Cronwall í Englandi þann 12-15. mars nk. en til stendur að kynna sér fyrirkomulag ferðaþjónustu á svæðinu.  Sveitarstjórn samþykkir að greiða ferða- og dvalarkostnað oddvita og sveitarstjóra vegna ferðarinnar.”

Að öðru leyti er fundargerð byggðaráðs samþykkt samhljóða.

Pétur Ingi vék af fundi.

1.2.              15. fundur fræðslunefndar Bláskógabyggðar.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar óskar eftir frekari upplýsingum og rökstuðningi fyrir tillögu sem fram kemur í 5. lið fundargerðar, áður en afstaða verður tekin til hennar.

Að öðru leyti er fundargerðin samþykkt samhljóða.

1.3.              Fundargerð atvinnu- og ferðamálanefndar Bláskógabyggðar, dags. 24. janúar 2012.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar fagnar hugmyndum atvinnu- og ferðamálanefndar um bæjarhátíðir og felur oddvita, sveitarstjóra og ferðamálafulltrúa að ræða við nefndina varðandi frekari útfærslu á slíkum hátíðum.
Fundargerð samþykkt samhljóða.

 

Bókun Þ-listans.

Þ-listinn bendir atvinnu- og ferðamálanefnd á að í Bláskógabyggð eru starfandi tvær björgunarsveitir og rétt er því að gefa báðum sveitunum kost á að koma að dreifingu þjónustudagatalsins 2012.

 

  1. Verksamningur vegna umsjónar með Hjólhýsasvæði við Laugarvatn; endurnýjun.
    Lögð fram drög að endurnýjuðum verksamningi vegna umsjónar með Hjólhýsasvæði við Laugarvatn, en umsjónaraðili hefur verið Fýllinn slf. kt. 570106-1550. Um er að ræða framlengingu á gildistíma samnings um fjögur ár, en engar aðrar efnislegar breytingar verða gerðar á samningnum.  Gildistími samnings verði frá 1. janúar 2012 til 31. desember 2015.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að framlengja gildistíma samningsins um fjögur ár og felur sveitarstjóra að undirrita samninginn fyrir hönd Bláskógabyggðar.

 

  1. Skipulagsmál:

3.1.         Lýsing vegna aðalskipulagsbreytingar í landi Efsta-Dals 1.

Lögð fram tillaga að lýsingu skipulagsverkefnis skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 vegna aðalskipulagsbreytingar í landi Efsta-Dals 1. Fram kemur að fyrirhugað sé að skilgreina tvö ný svæði fyrir frístundabyggð, annarsvegar um 3 ha svæði vestan við Skútagil og hinsvegar um 7,5 ha svæði vestan við Hlauptungufoss í Brúará. Svæðið vestan Skútagils er að hluta innan hverfisverndarsvæðis Kóngsvegar og svæðið vestan Hlauptungufoss er að hluta innan svæðis á Náttúruminjaskrá.

Sveitarstjórn samþykkir að kynna lýsinguna og leita eftir umsögn Skipulagsstofnunar. Gert er ráð fyrir að lýsingin verði aðgengileg á heimasíðu Bláskógabyggðar og skipulagsfulltrúa.

3.2.         Lýsing vegna aðalskipulagsbreytingar í landi Heiðar, Biskupstungum.

Lögð fram tillaga að lýsingu skipulagsverkefnis skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 vegna aðalskipulagsbreytingar í landi Heiðar. Breytingin nær til svæðis við fossinn Faxa, milli þjóðvegar og ár, og felst í að landnotkun hluta svæðisins verði verslun – og þjónusta í stað frístundabyggðarsvæðis. Ástæður breytingarinnar er að landeigendur hafa í huga að koma upp húsnæði fyrir veitingasölu.

Sveitarstjórn samþykkir að kynna lýsinguna og leita eftir umsögn Skipulagsstofnunar. Þá er gert ráð fyrir að lýsingin verði aðgengileg á heimasíðu Bláskógabyggðar og skipulagsfulltrúa.

 

  1. Innsend bréf og erindi:
    4.1. Bréf Kvenfélags Biskupstungna, dags. 25. janúar 2012; styrkbeiðni.

Lagt fram bréf Kvenfélags Biskupstungna þar sem óskað er eftir styrk á móti húsaleigu í Aratungu.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að veita umbeðinn styrk á móti húsaleigunni.

4.2.         Tölvuskeyti Alexöndru Guttormsdóttur, dags. 26. janúar 2012; strætóstyrkur.

Lagt fram tölvuskeyti Alexöndru Guttormsdóttur þar sem óskað er eftir styrk til kaupa á strætókorti í Reykjavík, þar sem hún stundar nám við Háskóla Íslands.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar frestar afgreiðslu erindisins og óskar eftir því við stjórn SASS að hún marki stefnu, fyrir sveitarfélögin sem eru innan hins nýja almenningssamgöngukerfis á Suðurlandi, um farmiðaafslætti.  Kanna þarf grundvöll afsláttarkjara í samstarfi við Strætó sem myndi nýtast sem flestum til jafnræðis, en íbúar Suðurlands búa við mjög ólíkar aðstæður hvað þessa hluti varðar.   Einnig er nauðsynlegt að stjórn SASS skoði sérstaklega fyrirkomulag á sölu farmiða.  Sveitarstjórn Bláskógabyggðar vill benda á, í sambandi við farmiðasölu, að ekki er raunhæft að miða við farmiðasölu á skrifstofu sveitarfélaga sem í flestum tilfellum er ekki staðsett nærri stoppistöðvum almenningsvagnanna.  Leita þarf annarra leiða hvað þá þjónustu varðar.  Sveitarstjórn Bláskógabyggðar óskar eftir því við stjórn SASS að þessi mál verði tekin til úrvinnslu eins fljótt og auðið er.

4.3.         Tölvuskeyti Bandalags íslenskra skáta, dags. 25. janúar 2012; styrkbeiðni.

Lagt fram tölvuskeyti Bandalags íslenskra skáta þar sem óskað er eftir styrk við útgáfu bókar í tilefni þess að í ár eru 100 ár liðin frá stofnun fyrsta skátafélags á Íslandi.  Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að hafna erindinu.

 

4.4.         Bréf UMFÍ, dags. 3. janúar 2012;  gisting íþróttahópa.

Lagt fram bréf UMFÍ þar sem óskað er eftir samningum við sveitarfélög, skóla og gistiheimili um gistingu á afsláttarkjörum fyrir ungmennafélaga.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar bendir á að sveitarfélagið starfrækir ekki almenna sölu á gistingu í skólabyggingum sveitarfélagsins.  Slíkt hefur einungis átt sér stað í sérstökum og afmörkuðum verkefnum og þá í samstarfi við skólayfirvöld á hverjum tíma.

4.5.         Bréf Rannsóknarmiðstöðvar í jarðskjálftaverkfræði Háskóla Íslands, dags. 19. janúar 2012; gögn tengd eldgosinu í Eyjafjallajökli 2010.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar fagnar þessum rannsóknum Rannsóknar-miðstöðvarinnar og lýsir sig reiðubúna til að veita þá aðstoð sem möguleg er.

 

 

Fundi slitið kl. 17:45.