138. fundur

 1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn

fimmtudaginn 3. maí 2012, kl 15:15

í Aratungu

 

Mætt voru:

Drífa Kristjánsdóttir, Helgi Kjartansson, Margeir Ingólfsson, Jóhannes Sveinbjörnsson, Valgerður Sævarsdóttir, Smári Stefánsson, Sigurlína Kristinsdóttir,  Valtýr Valtýsson sveitarstjóri og Sigurrós H. Jóhannsdóttir, sviðsstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

 1. Fundargerðir til staðfestingar:

1.1.              Fundargerð 124. fundar byggðaráðs Bláskógabyggðar.
Samþykkt samhljóða.

1.2.              14. og 15. dagskrárliður 9. fundar stjórnar Skipulags- og byggingarfulltrúaembættis Uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps bs.

Varðandi 14. dagskrárlið, þá samþykkir sveitarstjórn Bláskógabyggðar samhljóða að veita Ferðafélagi Íslands heimild til að vinna tillögu að deiliskipulagi í Þjófadölum.  Deiliskipulagi verði ætlað að afmarka lóð utan um núverandi skála auk salernisaðstöðu.  Sveitarstjórn hafnar beiðni um að byggður verði nýr skáli og nýtt skálavarðarhús.  Sveitarstjórn bendir á að Þjófadalir eru afar viðkvæmt svæði sem verður að njóta verndar, sem að mati sveitarstjórnar fer ekki saman við aukna uppbyggingu á svæðinu.

Varðandi 15. dagskrárlið, þá samþykkir sveitarstjórn Bláskógabyggðar samhljóða að veita Ferðafélagi Íslands heimild til að vinna tillögu að deiliskipulagi í Þverbrekknamúla. Deiliskipulagi er ætlað að afmarka lóð utan um skálasvæðið, stækka/endurnýja salernishús, gera ráð fyrir nýjum gistiskála eða stækkun á þeim sem fyrir er auk skálavarðarhúsi.

 1. Ársreikningur Bláskógabyggðar 2011 (síðari umræða).

Ársreikningur Bláskógabyggðar 2011 ásamt sundurliðunum og endurskoðunarskýrslu tekin til síðari umræðu.

Helstu niðurstöður úr rekstrar- og efnahagsreikningi samstæðu sveitarfélagsins, í þúsundum króna, eru:

 

Rekstrarreikningur:

Rekstrartekjur:                                                        806.021

Rekstrargjöld:                                                        -744.821

Fjármagnsgjöld:                                                      -61.200

Tekjuskattur:                                                                  -752

Rekstrarniðurstaða:                                                     -681

 

Efnahagsreikningur:

Eignir:

Fastafjármunir:                                                       936.401

Veltufjármunir:                                                        121.991

Eignir samtals:                                                   1.058.392

Skuldir og eigið fé:

Eiginfjárreikningur:                                                315.127

Langtímaskuldir:                                                    514.835

Skammtímaskuldir:                                              228.430

Skuldir og skuldbindingar alls:                          743.265

Eigið fé og skuldir samtals:                            1.058.392

 

 

Samkvæmt yfirliti yfir sjóðstreymi fyrir árið 2011 nemur veltufé frá rekstri 68,8 milljónum króna og handbært fé frá rekstri 79,5 milljónir króna.  Handbært fé í árslok 3,2 milljónir króna.

Ársreikningur Bláskógabyggðar fyrir rekstrarárið 2011 samþykktur samhljóða og áritaður.

 

 1. Skipulagsmál:

3.1.         Tillaga að breytingu Aðalskipulags Biskupstungna 2000-2012; Heiði.

Lögð fram að lokinni kynningu skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tillaga að breytingu á aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 í landi Heiðar. Í breytingunni felst að gert er ráð fyrir svæði fyrir verslun- og þjónustu á svæðinu milli þjóðvegar og fossins Faxa. Á svæðinu er þegar til staðar tjaldsvæði en vegna mikillar aukningar ferðamanna undanfarin misseri er fyrirhugað að auka þjónustustig svæðisins m.a. með byggingu veitingasölu. Lýsing aðalskipulagsbreytingarinnar var kynnt með auglýsingu sem birtist 23. febrúar 2012 og síðan var tillaga að breytingu kynnt á tímabilinu 18. til 30. apríl.

Sveitarstjórn samþykkir að auglýsa ofangreinda aðalskipulagsbreytingu skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og felur skipulagsfulltrúa að senda málið til Skipulagsstofnunar í samræmi við 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga

3.2.         Stofnun lóðar, Kjóastaðir 1 land 2, úr landi Kjóastaða 1.

Lagt fram lóðablað Verkfræðistofu Suðurlands dags. 9. nóvember 2011 í mkv. 1:4.000 yfir 11,8 ha spildu úr landi Kjóastaða 1 lnr. 167131 sem afmarkast af jörðinni Brú, Biskupstungnabraut, Kjóastaðavegi og landi Kjóastaða 1. Fyrirhugað er að ný spilda fá nafnið Kjóastaðir 1 land 2. Fram kemur að aðkoma að spildunni verði frá Kjóastaðavegi. Fyrir liggur samþykki eigenda aðliggjandi jarða.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við stofnun lóðarinnar skv. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og ekki er gerð athugasemd við landsskipti skv. 13. gr. jarðalaga.

3.3.         Umsókn um byggingarleyfi á Kjóastöðum 2.

Fyrir liggur umsókn um byggingarleyfi fyrir um 180 ferm gistihúsi á Kjóastöðum 2. Húsið verði staðsett við heimreið að bænum, í tengslum við þau gistihús sem fyrir eru á bænum. Samþykkt skv. 1. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulagslaga nr. 123/2010 og skipulagsfulltrúa falið að leita eftir meðmælum Skipulagsstofnunar vegna umsóknarinnar þegar fullnægjandi gögn liggja fyrir.

 

 1. Tillaga til fjárauka vegna fjárhagsáætlunar Bláskógabyggðar 2012.

Lögð fram tillaga um viðauka við áður samþykkta fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar fyrir rekstrarárið 2012.  Forsenda viðauka við fjárhagsáætlun er greiðsluþátttaka í framkvæmdum við tvö hringtorg í Reykholti.  Verkefnið er á forsjá Vegagerðarinnar en kostnaðarhlutdeild Bláskógabyggðar er samkvæmt áður samþykktu samkomulagi milli Vegagerðarinnar og Bláskógabyggðar.

Viðaukinn gerir ráð fyrir að fjárfestingar í gatnagerð verði auknar um 40 milljónir króna.  Jafnframt er gert ráð fyrir lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga, sem fjármagni að öllu leyti þessi útgjöld, eða 40 milljónir króna.

Sveitarstjóri lagði fram nýja fjárhagsáætlun 2012 ásamt viðauka og skýrði þær breytingar sem viðaukinn hefur á fjárhagsáætlun ársins.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða fram lagðan viðauka við fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar fyrir árið 2012.

 

 1. Ákvörðun um lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir hér með að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. að hámarki fjárhæð 40.000.000 kr., í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum.  Um er að ræða jafngreiðslulán til ársins 2024 með 3,6% föstum vöxtum auk verðtryggingar. Afborganir eru tvisvar á ári. Til tryggingar láninu standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Er lánið tekið til að fjármagna gatnaframkvæmdir, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Jafnframt er Valtý Valtýssyni, kt. 221060-2379, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Bláskógabyggðar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga ohf. sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari.

 

 1. Tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða; þingmál 727.

Lögð fram tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.  Í fyrirliggjandi tillögu er gert ráð fyrir að Hagavatnsvirkjun verði í biðflokki, en því beint til verkefnisstjórnar að taka virkjunarkostinn til nánari skoðunar og meta hvort ástæða sé til að gera tillögu um breytta flokkun hans.

Bláskógabyggð ítrekar fyrri bókun sína frá 27. október 2011, dagskrárliður 3.2 á 119. fundi byggðaráðs Bláskógabyggðar.  Jafnframt vill sveitarstjórn undirstrika mikilvægi þess að gætt verði að áhrifum uppfoks af svæðinu með tilliti til loftgæða.  Mikil svifryksmengun af uppfokssvæðum við Hagavatn skerðir mjög loftgæði innan Bláskógabyggðar og langt útfyrir sveitarfélagið s.s. á Höfuðborgarsvæðinu. Hér er ekki einungis um brýnt umhverfismál að ræða heldur einnig afar brýnt heilbrigðismál sem lýtur að lífsskilyrðum íbúa á Suðvesturlandi.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar felur sveitarstjóra að ítreka fyrri umsögn og senda jafnframt þessa bókun sveitarstjórnar til nefndarsviðs Alþingis.

 

 1. Skil vinnunefndar vegna erindis forsætisráðuneytisins dags. 28. mars 2012; dagskrárliður 6.3 á 137. fundi sveitarstjórnar.

Lagður fram listi yfir eignir og réttindi á þjóðlendum innan marka Bláskógabyggðar.  Umræddur listi var unninn af vinnuhóp sem skipaður var á síðasta fundi sveitarstjórnar, þann 12. apríl s.l.  Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að fela Pétri Inga Haraldssyni að senda fram lagðan lista til forsætisráðuneytis.

Forsætisráðuneytið hyggst síðan halda fund með fulltrúum sveitarfélaga 21. maí n.k. í húsakynnum SASS, sbr. bréf sem lagt var fram á 137. fundi sveitarstjórnar, dagskrárliður 6.3.

 

 1. Fyrirspurn Landmælinga vegna gamla Lyngdalsheiðarvegar.

Landmælingar hafa sent sveitarstjórn nokkrar fyrirspurnir vegna skilgreininga á gamla veginum um Lyngdalsheiði og nokkra vegslóða sem tengjast honum.  Sveitarstjórn fór yfir framlagðar spurningar og felur oddvita og sveitarstjóra að svara þeim í takt við niðurstöðu sveitarstjórnar.

 

 1. Mótmæli vegna lýsingar á tillögu um breytta legu Reykjavegar (355).
  Sveitarstjórn hefur borist mótmæli vegna fyrirhugaðrar breytingar á legu Reykjavegar, eins og kynnt var með lýsingu. Eftirtaldir aðilar hafa skilað inn mótmæli á skrifstofu Bláskógabyggðar:

1)    Eigendur Bjarnabúðar; Bjarni Kristinsson og Oddný Kr. Jósefsdóttir.

2)    Rekstraraðilar Café Mika, River jet og Bjarkarhóls ehf.

3)    Eigendur Árbakka og leigjendur spildu í landi Tjarnar; Magnús Magnússon og Lilja Jósefsdóttir.

4)    Eigendur og ábúendur Vegatungu; Friðrik Sigurjónsson og Agla Snorradóttir.

5)    Eigendur og íbúar að Litla-Fljóti 3; Einar Þ. Einarsson og Sigríður Emilía Eiríksdóttir.

6)    Eigendur og ábúendur að Litla-Fljóti I og Litla-Fljóti II; Halldór Þórðarson, Þórður J. Halldórsson og Einar Þ. Einarsson.

 

Einnig hefur sveitarstjórn borist bréf, dags. 24 apríl 2012, undirritað af 13 einstaklingum sem eru að stærstum hluta sömu aðilar og sent hafa inn mótmæli.  Í bréfinu er fram á að Drífa Kristjánsdóttir, oddviti, víki sæti vegna vanhæfis í nefndum og á fundum þar sem málefni Reykjavegar eru rædd og ákvarðanir teknar.

 

Bókun Drífu Kristjánsdóttur

„Ég tel mig ekki vanhæfa í umfjöllun um skipulag Reykjavegar og hugsanlega nýja veglínu Reykjavegar.  Þrátt fyrir það kýs ég að segja mig frá málinu svo að umræðan snúist ekki um mig og mína persónu, heldur um tillögu á breytingu á aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 vegna legu Reykjavegar.  Ég mun því kalla til varamann minn í sveitarstjórn þegar tillagan er til umfjöllunar.  Jafnaframt mun ég víkja af fundi skipulagsnefndar þegar málið verður tekið þar til umfjöllunar og fá varamann í minn stað“.

 

Sveitarstjórn mun fá samantekt frá skipulagsembættinu um málið og í kjölfarið muni

sveitarstjórn halda íbúafund áður en en frekari ákvarðanir verði teknar.

 

 1. Innsend erindi:

10.1.  Bréf Sýslumannsins á Selfossi, dags. 26. apríl 2012; umsókn um leyfi til reksturs gististaðar.
Margeir Ingólfsson víkur af fundi undir þessum dagskrárlið.
Lagt fram bréf Sýslumannsins á Selfossi þar sem óskað er eftir umsögn sveitarstjórnar vegna umsóknar um leyfi til rekstur gististaðar í flokki II.  Umsækjandi er Margeir Ingólfsson, kt 200961-4559.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir engar athugasemdir við að Sýslumaðurinn á Selfossi veiti umbeðið leyfi, enda samræmist það gildandi skipulagi svæðisins.

10.2.  Bréf Sund- og safnakortsins, móttekið 26. apríl 2012; beiðni um samstarf.
Lagt fram bréf Sund- og safnakortsins þar sem óskað er eftir samstarfi.  Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hafnar erindinu.

10.3.  Tölvuskeyti Vorralls BÍKR dags. 30. apríl 2012; beiðni um að nýta veginn um Tröllháls.
Lagt fram tölvuskeyti Vorralls BÍKR þar sem óskað er eftir leyfi til að nýta veginn um Tröllháls í rallkeppni sem fer fram 18. – 19. maí n.k.  Fyrirhugað er að aka leiðina um Tröllháls einu sinni, laugardaginn 19. maí.  Vegurinn yrði þá lokaður tímabilið 8:30 – 10:30 þann dag.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við að vegurinn um Tröllháls verði nýttur fyrir rallkeppni umræddan dag.

10.4.  Tölvuskeyti Landgræðslunnar, dags. 30. apríl 2012; vinnufundur um nýtingu seyru.
Lagt fram tölvuskeyti Landgræðslunnar þar sem Bláskógabyggð er gefinn kostur á að senda fulltrúa sinn á vinnufund um nýtingu seyru, sem haldinn verður í Gunnarsholti þann 15. maí n.k.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela sviðsstjóra þjónustu- og framkvæmdasviðs og/eða sveitarstjóra að mæta á þennan vinnufund fyrir hönd Bláskógabyggðar.

10.5.  Bréf Sýslumannsins á Selfossi, dags. 27. apríl 2012; umsókn um leyfi til reksturs veitingastaðar.
Lagt fram bréf Sýslumannsins á Selfossi þar sem óskað er eftir umsögn sveitarstjórnar vegna umsóknar um leyfi til rekstur veitingastaðar í flokki II.  Umsækjandi er Kristján Einir Traustason, kt 090777-5219, fyrir hönd Geysis ehf kt. 520309-0470.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir engar athugasemdir við að Sýslumaðurinn á Selfossi veiti umbeðið leyfi, enda samræmist það gildandi skipulagi svæðisins.

 

 1. Tilnefning fulltrúa Bláskógabyggðar í vatnasvæðisnefnd á vatnasvæði 3.

Margeir Ingólfsson hefur óskað eftir lausn frá því að vera fulltrúi Bláskógabyggðar í vatnasvæðisnefnd á vatnasvæði 3.  Sveitarstjórn fellst á beiðni Margeirs og tilnefndir Kristinn J. Gíslason, sviðsstjóra, sem fulltrúa Bláskógabyggðar í nefndina í stað Margeirs.

 

Fundi slitið kl. 17:45.