14. fundur

14. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn í Fjallasal Aratungu þriðjudaginn 18. mars 2003, kl 13:30.  

Mætt voru:

Sveinn A. Sæland, Margeir Ingólfsson, Gunnar Þórisson, Sigurlaug Angantýsdóttir, Bjarni Þorkelsson, Drífa Kristjánsdóttir og Kjartan Lárusson.

   

1.        Samgöngumál:

Erindi frá Vegagerðinni á Selfossi um endurbætur á  Uxahryggjavegi.

Sveitarstjórn er samþykk fyrirhuguðum framkvæmdum og veitir framkvæmdarleyfi fyrir verkinu öllu eins og því er lýst í meðfylgjandi greinargerð.

2.        Samgöngumál:

Lögð fram til kynningar skýrsla frá Vegagerðinni um hugmyndir að  vegstæðum fyrir Gjábakkaveg.

Sveitarstjórn fagnar því hve Vegagerðin bregst fljótt við auknu fé til lagningar Gjábakkavegar. Sveitarstjórn hvetur Vegagerðina til að hraða umhverfismati sem kostur er svo framkvæmdir geti hafist sem fyrst.

3.        Erindi frá Bjarna Þorkelssyni:

Ósk um leyfi frá setu í sveitarstjórn af persónulegum ástæðum til 1. september 2003.  Sveitarstjórn samþykkir að verða við beiðni Bjarna og mun Margrét Baldursdóttir taka sæti hans á meðan.                          

4.        Fræðslumál:

Bjarni vék af fundi vegna vanhæfis en gerði áður grein fyrir afstöðu sinni með eftirfarandi bókun:

Skóla- og fræðslumál eru grundvallarmálefni hverrar sveitastjórnar.  Á þeim tel ég mig hafa sérþekkingu, þar taldi ég að lægi fyrst og fremst styrkur minn sem sveitarstjórnarmanns.  Í umræðum og atkvæðagreiðslum um skólamál í sveitastjórn Bláskógabyggðar hefur það hins vegar orðið hlutskipti mitt að snauta heim, og fara þannig að lögum um vanhæfi.

Nú liggur fyrir að sveitarstjórnarmenn – þeir sem teljast til þess hæfir á grundvelli sveitarstjórnarlaga – munu á þessum fundi samþykkja aðgerðir í skólamálum sem koma mjög hart við einstaklinga og skólasamfélag á Laugarvatni vegna þess hve skjótt þær koma til framkvæmda.  Á þessu strandar stuðningur minn við Þ – listann, en auk þess álít ég að fyrir þessum aðgerðum skorti faglega, félagslega og fjárhagslega haldbær rök.

Ákvörðun um stofndag Grunnskóla Bláskógabyggðar, ráðningu skólastjóra og aðstoðarskólastjóra.

Undir þessum var lið var lögð fram fundargerð Fræðslunefndar frá

17. mars 2003 og hún staðfest.

Á grundvelli samþykktar sveitarstjórnar þann 4. mars 2003 leggur oddviti fram eftirfarandi tillögu:

“Sveitarstjórn samþykkir að Grunnskóli Bláskógabyggðar taki til starfa þann 1. ágúst 2003.

Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að bjóða Arndísi Jónsdóttur stöðu skólastjóra við hinn nýja skóla. Staða aðstoðarskólastjóra verði auglýst laus til umsóknar hið fyrsta”.

Samþykkt samhljóða.

Sveitarstjórn tekur undir ályktun Fræðslunefndar en þar segir: 

“Fræðslunefnd Bláskógabyggðar fagnar því að sveitarstjórn skuli hafa ákveðið að fara í meginatriðum að tillögu hennar frá 27. jan. sl. um skipan grunnskólamála í sveitarfélaginu og tryggja þar með til frambúðar heildstætt skólastarf bæði í Reykholti og á Laugarvatni, auk þess sem blásið verði til sóknar undir formerkjum nýrrar, sameinaðrar skólastofnunar sveitarfélagsins.  

Nefndin harmar að Helgi Baldursson skólastjóri Grunnskólans á Laugarvatni skuli ekki sjá sér fært að koma að stjórnun hins nýja skóla. Eru honum þökkuð góð störf í þágu skólamála svæðisins á undanförnum árum.  

Um leið fögnum við því að Arndís Jónsdóttir skólastjóri Reykholtsskóla skuli vera fús til að veita forstöðu nýjum Grunnskóla Bláskógabyggðar,  sem sveitarstjórn hefur ákveðið að hefji störf frá og með 1. ágúst n.k. Væntum við mikils af henni við uppbyggingu og þróun hinnar nýju stofnunar til heilla fyrir sveitarfélagið allt.”

  

Fundi slitið kl.15:15