141. fundur

  1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn

fimmtudaginn 4. október 2012, kl 15:15

í Aratungu

 

Mætt voru:

Drífa Kristjánsdóttir, Helgi Kjartansson, Margeir Ingólfsson, Jóhannes Sveinbjörnsson, Valgerður Sævarsdóttir, Þórarinn Þorfinnsson, Sigurlína Kristinsdóttir,  Valtýr Valtýsson sveitarstjóri og Sigurrós H. Jóhannsdóttir, sviðsstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Drífa Kristjánsdóttir, oddviti, lagði fram tillögu að dagskrárbreytingu, að inn komi nýr dagskrárliður 4.5. Samþykkt samhljóða.

 

  1. Kynning á verkefninu Sögusetur / Miðaldakirkja í Skálholti.

Mættir voru til fundarins Kristján Valur Ingólfsson, Guðmundur Ósvaldsson og Sigurður Einarsson.  Þeir kynntu verkefni um sögusetur og miðaldakirkju í Skálholti.

 

  1. Fundargerðir til staðfestingar:

2.1     Fundargerð 129. fundar byggðaráðs Bláskógabyggðar.
Staðfest samhljóða.

2.2.       51. fundur skipulagsnefndar Uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps, ásamt 85. og 86. afgreiðslufundum byggingarfulltrúa.
Afgreiðsla einstaka dagskrárliða sem varða Bláskógabyggð:

Nr. 2     Umsókn um stöðuleyfi fyrir 70 fm skála og 200 fm bogaskemmu við Skálpanesveg við Geldingafell.  Gögn málsins lögð fram.  Afgreiðsla skipulagsnefndar samþykkt samhljóða.

Nr. 3     Lagðar fram fundargerðir 85. afgreiðslufundar dags. 29. ágúst 2012 og 86. afgreiðslufundar dags. 19. september 2012.  Sveitarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsnefndar.

Nr. 7     Ósk um að fá leyfi til byggingar 42 fm sumarhúss á 5,8 ha spildu úr landi Holtakots, lnr. 176853.  Gögn málsins lögð fram.  Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela skipulagsfulltrúa að senda nýtt erindi til skipulagsstofnunar í samræmi við 1. tl. bráðabirgðaákvæði skipulagslaga nr. 123/2010.

Nr. 18   Deiliskipulagtillaga fyrir fjallaselið í Þjófadölum ásamt umhverfisskýrslu.  Gögn málsins lögð fram.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulagsnefndar og samþykkir að deiliskipulagstillagan ásamt umhverfisskýrslu verði auglýst.

Nr. 19   Deiliskipulagtillaga fyrir fjallaselið í Þverbrekknamúla. Gögn málsins lögð fram.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulagsnefndar og samþykkir að deiliskipulagstillagan ásamt umhverfisskýrslu verði auglýst.

Nr. 20   Tillaga að breytingu deiliskipulags orlofs- og frístundasvæðis Félags bókagerðarmanna í landi Miðdals.  Gögn málsins lögð fram.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulagsnefndar og samþykkir að deiliskipulagsbreytingin verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Nr. 21   Tillaga að breytingu deiliskipulags fyrir 5 sumarhúsalóðir í landi Úthlíðar 2.  Gögn málsins lögð fram.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulagsnefndar.  Sveitarstjórn lítur svo á að um óverulega breytingu sé að ræða og samþykkir hana skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar fyrir eigendum og/eða leigjendum þeirra lóða sem breytast.

Að öðru leyti er fundargerðir samþykktar samhljóða.

2.3.    Fundargerð 20. fundar fræðslunefndar Bláskógabyggðar.

Fundargerðin staðfest samhljóða.

 

  1. Fundargerðir til kynningar:

3.1.    309. fundur stjórnar Atvinnuþróunarfélags Suðurlands.

3.2.    310. fundur stjórnar Atvinnuþróunarfélags Suðurlands.

3.3.    220. fundur stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands.

3.4.    8. fundur stjórnar Þjónustusvæðis málefna fatlaðra á Suðurlandi.

3.5.    9. fundur stjórnar Þjónustusvæðis málefna fatlaðra á Suðurlandi.

 

  1. Skipulagsmál:

4.1.    Landsskipulagsstefna 2013 – 2024;  umsögn.

Lagt fram bréf Skipulagsstofnunar, dags. 24. september 2012, en þar er óskað eftir umsögn sveitarstjórnar Bláskógabyggðar um Landsskipulagsstefnu 2013 – 2024 ásamt umhverfisskýrslu. Umræða varð um fyrirliggjandi tillögu að Landskipulagsstefnu.  Stefnt er að kynningarfundum Skipulagsstofnunar í landshlutunum í október mánuði.  Afgreiðslu frestað til næsta fundar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar sem haldinn verður þann 1. nóvember n.k.

4.2.    Breyting á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 innan þéttbýlisins Reykholti í Bláskógabyggð;  stækkun á athafnasvæði fyrir dælustöð.

Í breytingunni felst að núverandi athafnasvæði utan um Reykholtshver stækkar til norðurs þar sem fyrirhugað er að reisa dælustöð sem myndi þjóna starfsemi Bláskógaveitu. Athafnasvæðið fer inn á svæði sem í gildandi aðalskipulagi er skilgreint sem svæði fyrir þjónustustofnanir. Tillagan var auglýst skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, 16. ágúst 2012, samhliða deiliskipulagi svæðisins, með athugasemdafresti til 28. september. Eitt athugasemdabréf barst á kynningartíma og er það hér lagt fram ásamt aðalskipulagsbreytingunni.  Fram koma tvö atriði sem Efling vill vekja sérstaka athygli á:

 

  1. liður: Hugsanleg mengunarhætta og viðbrögð við slíkri stöðu:

Í bréfinu segir: “..engin grein er gerð fyrir „mengun“ né hugsanlegri hættu vegna vaxandi starfsemi. Óskað er eftir að gerð verði nánari grein fyrir hugsanlegri mengun frá iðnaðarsvæði og til hvaða úrræða megi grípa ef mengun verður af starfseminni.”

 

Umsögn sveitarstjórnar Bláskógabyggðar:

Þó svo að verið sé að breyta landnotkun svæðisins í iðnaðarsvæði þýðir það ekki að verið sé að gera ráð fyrir mengandi starfsemi á lóðinni. Svæðið er skilgreint sem iðnaðarsvæði þar sem í gr. 4.7 í skipulagsreglugerð kemur fram að veitustöðvar skulu vera á slíkum svæðum. Á lóðinni er eingöngu gert ráð fyrir mannvirkjum sem tengjast starfsemi hitaveitu Bláskógabyggðar s.s. tengi- og dæluhús sem einnig mun nýtast sem aðstöðuhús fyrir starfsemi veitunnar. Vegna þessa er ekki gert ráð fyrir neinum sérstökum ráðstöfunum vegna hugsanlegrar mengunar að öðru leyti en því að vanda uppbyggingu og frágang mannvirkja og sjá til þess að gengið verði vel um lóðina að uppbyggingu lokinni.

 

  1. liður: Ósk um samstarf og viðræður vegna uppbyggingar vegar að landi Eflingar:

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar lýsir yfir vilja sínum að eiga viðræður  og samstarf við Eflingu vegna uppbyggingar vegar að landi Eflingar í ljósi fyrirhugaðrar uppbyggingar, samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi breytingu Aðalskipulags Biskupstungna 2000-2012 og felur skipulagsfulltrúa að senda málið til Skipulagsstofnunar til afgreiðslu í samræmi við 2. mgr. 32. greinar skipulagslaga 123/2010.

4.3.    Tillaga að breytingu á deiliskipulagi í Reykholti í Bláskógabyggð; stækkun á lóð Bláskógaveitu.

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi í Reykholti sem nær yfir sundlaug, Aratungu og skólasvæði. Í breytingunni felst að lóð Bláskógaveitu stækkar úr 1.500 fm í um 3.600 fm til norðurs. Ástæða stækkunar er að fyrirhugað er að reisa nýja dælustöð á lóðinni. Heimilt verður að reisa hús á tveimur hæðum sem verður allt að 200 fm að stærð með 8 m mænishæð. Tillagan var auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, 16. ágúst 2012, samhliða breytingu á aðalskipulagi svæðisins, með athugasemdafresti til 28. september.

Sveitarstjórn samþykkir deiliskipulagsáætlunina og felur skipulagsfulltrúa að senda hana til Skipulagstofnunar í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

4.4.    Erindi reiðveganefndar Loga, dags. 2. september 2012; reiðleið fyrir ofan Gullfoss að Sandá.

Lagt fram að nýju erindi reiðveganefndar Loga, dags. 2. september 2012 þar sem óskað er eftir umsögn og leyfi til að lagfæra hluta reiðleiðarinnar frá Gullfossi að Sandá. Þá er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 28. september 2012 um málið.

Sveitarstjórn samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni í samræmi við 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þegar fyrir liggur umsögn Umhverfisstofnunar um málið og samþykki landeigenda.

4.5.    Lóðarblað 2.100 fm lóð fyrir íbúðarhús á jörðinni Efsta-Dal 1.
Þetta mál var tekið fyrir á 50. fundi skipulagsnefndar, mál 22.
Lagt fram lóðablað sem sýnir 2.100 fm lóð undir nýtt íbúðarhús á jörðinni Efsti-Dalur 1, landnúmer 167630.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við stofnun lóðar skv. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gerir ekki athugasemd við landsskipti skv. 13. gr. jarðalaga.

 

  1. Þingmál til umsagnar:

5.1.    Tölvuskeyti umhverfis- og auðlindaráðuneytis, dags. 3. september 2012; frumvarp til náttúruverndarlaga.

Lagt fram frumvarp til náttúruverndarlaga ásamt minnisblaði sveitarstjóra til sveitarstjórnar og umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.  Sveitarstjórn tekur undir umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga og þær athugasemdir sem fram koma á minnisblaði sveitarstjóra. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að ljúka umsögn Bláskógabyggðar í takt við minnisblaðið og senda til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

5.2.    Tölvuskeyti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, dags. 27. september 2012; vernd og orkunýting landsvæða (rammaáætlun) þingmál 89.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar vísar til fyrri umsagnar um umrætt þingmál.

5.3.    Tölvuskeyti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, dags. 28. september 2012; frumvarp til laga um kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórnar, þingmál 180.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir engar athugasemdir við framlagt frumvarp til laga.

 

  1. Bygging leikskóla í Reykholti.
    Vísað er til 11. dagskrárliðar fundargerðar 140. fundar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar.

 

Bókun meirihluta sveitarstjórnar:

„Í byrjun skólaársins 2012-2013 var leikskólinn Gullkistan á Laugarvatni sameinaður Grunnskóla Bláskógabyggðar.  Sameiningin var gerð til að efla og styrkja skólastigin og til samþættingar á starfi leik- og grunnskólastigsins á Laugarvatni.  

Sveitarstjórn ákvað að breyting á skólastarfi yrði einungis gerð á Laugarvatni að svo stöddu.  T-listinn telur mikilvægt að ávinningur sameiningarinnar verði staðfestur, áður en að frekari breyting verður gerð í skólamálum Bláskógabyggðar og húsnæðismálum Álfaborgar.  

Því telur meirihluti sveitarstjórnar Bláskógabyggðar að stofnun vinnuhóps til skoðunar á framtíðarfyrirkomulagi  leikskólahúsnæðis í Reykholti sé ekki tímabær og verður ekki gerð tillaga um slíkt að svo stöddu.“

 

Bókun Þ- listans:

Þ-listinn ítrekar þá skoðun sína sem fram kemur í tillögu listans á fundi sveitarstjórnar 6. september 2012 en þar segir m.a. að stofnaður verði vinnuhópur sem fengi það verkefni að skoða framtíðarfyrirkomulag húsnæðismála leikskólans Álfaborgar og að vinnuhópurinn skili tillögum sínum eigi síðar en í maí 2013.  Þ-listinn sér enga ástæðu til þess að fresta þessari vinnu þar til síðar. 

 

  1. Innsend erindi:

7.1.         Bréf Fontana, dags. 25. september 2012; staða mála með frárennsli í Laugarvatn og skoðun lagna.

Lagt fram bréf Fontana þar sem óskað er eftir upplýsingum um stöðu mála og framkvæmdaáætlun varðandi aðgerðir til að koma í veg fyrir að mengað vatn renni í Laugarvatn.

Lögð voru fram minnisblöð frá Kristni J. Gíslasyni um stöðu mála og niðurstöður úr sýnatökum úr Laugarvatni, sem framkvæmd var af Heilbrigðiseftirliti Suðurlands.  Fram kemur í niðurstöðum rannsókna að mikil breyting hefur orðið til batnaðar og mengunarþátturinn er kominn vel undir viðmiðunarmörk í nágrenni við Fontana, enda hefur markvisst verið unnið  að lagfæringu frárennsliskerfisins á Laugarvatni.  Frárennslislagnir hafa verið myndaðar og verið er að vinna úr þeim gögnum.  Endurnýja þarf sitursvæðið við hreinsivirkið og verður ráðist í það verk á næstu dögum.

Sveitarstjóra falið að svara Fontana og upplýsa um stöðu mála.

7.2.         Bréf innanríkisráðuneytis, dags. 21. september 2012; fyrirspurn um málstefnu sveitarfélaga.

Lagt fram bréf innanríkisráðuneytis þar sem óskað er eftir upplýsingum frá sveitarfélögum, hvort og þá með hvaða hætti þau hafa uppfyllt ákvæði í nýjum sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011, um mótun málstefnu fyrir sveitarfélagið.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur ekki unnið að þessum þætti enþá en munu nýta sér sem forskrift málstefnu stjórnarráðsins þegar hún hefur verið birt.  Rétt er að benda á að önnur ákvæði hafa heldur ekki fengið framgang s.s. að setja sveitarfélögum nýjar samþykktir.  Sú vinna hefur ekki farið fram þar sem innanríkisráðuneytið hefur ekki ennþá kynnt forskrift að samþykktum, eins og kveður á í 9. grein sömu laga.

7.3.         Bréf umhverfis- og auðlindaráðuneytis, dags. 25. september 2012; undanþága frá ákvæðum um laugargæslu.
Vísað er til bréfs Bláskógabyggðar, dags. 31. október 2011, þar sem óskað var eftir undanþágu frá ákvæðum um laugargæslu, sbr. 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum hvað varðar fjölda starfsmanna á vakt við Reykholtslaug.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur ákveðið að breyta reglugerðinni og sett hefur verið inn í reglugerðina ákvæði þar sem kveðið verður á um að sá sem sinnir laugargæslu megi í tilteknum tilvikum sinna öðrum störfum samhliða laugargæslu.  Rekstraraðili laugar þar sem þessi heimild verður nýtt skal senda hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd upplýsingar um fyrirkomulag laugar og tíma þann sem heimild þessi er nýtt.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að senda sviðsstjóra Þjónustu- og framkvæmdasviðs afrit af bréfi ráðuneytisins og felur honum að kynna þessa breytingu reglugerðar fyrir starfsmönnum Reykholtslaugar og gera áætlun um möguleika til að nýta þetta ákvæði reglugerðar.

7.4.         Bréf Jóels F. Jónssonar og Þuríðar Steinþórsdóttur, dags. 25. september 2012; Vegstútur frá Galleríi að þjóðvegi.

Lagt fram bréf Jóels F. Jónssonar og Þuríðar Steinþórsdóttur þar sem þau óska eftir því að vegtengin við Laugardalsveg á móts við Gallerí á Laugarvatni fái að vera áfram á endurskoðuðu deiliskipulagi Laugarvatns.  Bréfritarar telja þessa vegtengingu afar mikilvæga til að auka aðgengi að fyrirtæki þeirra.  Jafnframt óska þau eftir því að hringtorg á milli Gallerís og Tjaldmiðstöðvar verið sett inn á deiliskipulag, sem myndi tryggja aðgengi að þeirra fyrirtæki svo og að lækka umferðarhraða gegnum þorpið og tryggja þannig til muna öryggi almennings.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að vísa þessu erindi til skipulagsnefndar við úrvinnslu deiliskipulagstillögu þéttbýlisins á Laugarvatni.

7.5.         Bréf Jóels F. Jónssonar og Þuríðar Steinþórsdóttur, dags. 24. september 2012; lagning slitlags á Torfholt, Laugarvatni.

Lagt fram bréf Jóels F. Jónssonar og Þuríðar Steinþórsdóttur þar sem mótmælt er harðlega framgangsmáta sveitarstjórnar vegna lagningar slitlags á Torfholt á Laugarvatni.  Bréfritarar eru mjög ósáttir við það að ekki var lagt á bundið slitlag á þann hluta Torfholts sem er fyrir framan aðkomu að húsi þeirra að Háholti 1.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar bendir á að ákveðið var að leggja bundið slitlag á þann hluta Torfholts sem byggður var upp við lagningu Háholts, skv. hönnun Verkfræðistofu Suðurlands 2002.  Sá hluti Torfholts sem liggur meðfram húsi þeirra, Háholti 1, hefur ekki verið hannaður eða undirbyggður.  Sveitarstjórn telur hönnun og undirbygging verksins vera forsendu þess að hægt sé að setja bundið slitlag á þann veghluta.  Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að láta hanna þennan hluta Torfholts í samræmi við deiliskipulag þéttbýlisins á Laugarvatni, þegar skipulagið hefur tekið gildi.  Lagning slitlags á þennan hluta Torfholts verður tímasettur með lagningu slitlags á Háholt.

7.6.         Tillaga um sameiningu AÞS og SASS.

Lögð fram tillaga um sameiningu Atvinnuþróunarfélags Suðurlands og Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, sem lögð verður fyrir aðalfundi félaganna á næsta ársþingi SASS.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar fellst á þessa hugmynd um sameiningu félaganna og felur fulltrúum sínum á aðalfundum AÞS og SASS að fylgja þeim málum eftir.

 

  1. Trúnaðarmál.

Fært í trúnaðarmálabók.

 

 

Fundi slitið kl. 18:30.