141. fundur

  1. fundur byggðaráðs Bláskógabyggðar, haldinn í Aratungu þann 26. september 2013 kl. 13:45.

 

Mætt: Helgi Kjartansson, formaður, Drífa Kristjánsdóttir, Margeir Ingólfsson og Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð. 

 

  1. Fjarskiptastöð Neyðarlínunnar á Bláfelli.

Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri 112, mætti á fundinn undir þessum lið.

Lagt fram erindi frá Neyðarlínunni, dags. 20. september 2013, sem Þórhallur Ólafsson kynnti og gerði grein fyrir.  Um er að ræða beiðni um leyfi Bláskógabyggðar til að byggja smávirkjun í vestanverðu Bláfelli sem myndi sjá fjarskiptastöð Neyðarlínunnar fyrir orku.  Í dag er fjarskiptastöðin aflfædd með sígengis-olíurafstöð sem staðsett er í gámi neðan við Bláfell.  Með uppsetningu þessarar smávirkjunar myndi rekstraröryggi aukast, dregið úr hljóð- og loftmengun og ekki þyrfti að hafa díselolíu í tönkum á svæðinu.

Byggðaráð Bláskógabyggðar tekur vel í erindið og beinir því til Neyðarlínunnar að sækja þarf um leyfi fyrir fyrirhugaða framkvæmd hjá skipulags- og byggingafulltrúa uppsveita.  Einnig þurfi að liggja fyrir samþykki Forsætisráðuneytisins, þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir eru innan þjóðlendu.

 

  1. Fundargerðir til staðfestingar:

2.1.      Fundargerð atvinnu- og ferðamálanefndar, dags. 9. september 2013.
Varðandi dagskrárlið 2 í fundargerð, þá er sveitarstjóra falið að koma hugmynd nefndarinnar um atvinnumálaþing til stjórnar SASS.  Fundargerð staðfest samhljóða.

2.2.      Fundargerð veitustjórnar, dags. 25. september 2013.

Staðfest samhljóða.

 

  1. Fundargerðir til kynningar:

3.1.       Fundargerð fundar sem haldinn var um málefni Kjalarsvæðisins,  dags. 2. júlí 2013.

3.2.       154. fundur stjórnar Skólaskrifstofu Suðurlands.

3.3.       14. stjórnarfundur Samtaka orkusveitarfélaga.

3.4.       469. fundur stjórnar SASS.

3.5.       808. fundur stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

3.6.       Aðalfundur Vottunarstofunnar Túns ehf, dags. 27. ágúst 2013, ásamt skýrslu stjórnar og ársreikningi 2012.

 

  1. Íþróttamiðstöðin í Reykholti.

Kristinn J. Gíslason og Sigurjón Pétur Guðmundsson mættu á fundinn undir þessum lið.  Almennar umræður urðu um rekstur Íþróttamiðstöðvarinnar í Reykholti, um fyrirliggjandi  og áætluð viðhaldsverkefni.  Á næstu vikum þarf að hefja vinnu við gerð fjárhagsáætlunar Bláskógabyggðar fyrir næstu fjögur ár og er því nauðsynlegt að fara að hefja vinnu við áætlunargerð fyrir rekstur íþróttamiðstöðvarinnar og einnig önnur verkefni sem snúa að viðhaldi og endurbótum mannvirkja og búnaðar.

 

  1. Ljósnetsvæðing í þéttbýlum Bláskógabyggðar.

Í upphafi árs 2013 birti Síminn í fréttum þá þéttbýlisstaði landsins sem fyrirtækið hugðist ljósnetvæða í ár.  Þótti byggðaráði eftirtektarvert að enginn af þéttbýlisstöðunum þremur í Bláskógabyggð voru þar tilgreindir.  Byggðaráð Bláskógabyggðar vill beina þeim tilmælum til Símans að hér verði gerð bragarbót á og allir þrír þéttbýlisstaðir í Bláskógabyggð, Laugarvatn, Reykholt og Laugarás, verði ljósnetvæddir eins fljótt og auðið er.  Fullur skilningur er á því að slík vinna tekur alltaf einhvern tíma, en ekki er samt hægt að una lengi við slíka mismunun á þjónustu við almenning í landinu að sumir fái ljósnetsþjónustu en aðrir ekki þegar um svipaðar aðstæður er að ræða.

 

  1. Úthlutun styrkja til veghalds í frístundabyggðum.

Lagðar voru fram umsóknir frá frístundahúsafélögum um styrki vegna vegahalds.  Alls sóttu tvö frístundahúsafélög um styrk, en umsóknarfrestur rann út þann 15. september s.l.
Samkvæmt úthlutunarreglum Bláskógabyggðar þá verða veittir styrkir til þessara tveggja aðila, en heildar styrkfjárhæð þessa árs mun þá nema kr. 400.000.   Styrkfjárhæð til einstaka aðila verður:

Holtahverfi (Reykjavöllum)                                kr.              200.000

Fell frístundafélag                                               kr.              200.000

Byggðaráð samþykkir samhljóða að gera þá tillögu að veita umrædda styrki með fyrirvara um að öll gögn berist sveitarfélaginu fyrir lok árs 2013, þ.e. sundurliðun kostnaðar ásamt afritum af greiddum reikningum fyrir umræddum framkvæmdum.

 

  1. Samningar:

7.1.      Endurskoðun samnings vegna umhirðu opinna svæða á Laugarvatni.

Verktaki við umhirðu opinna svæða á Laugarvatni hefur óskað eftir framlengingu á samningi sínum við Bláskógabyggð, Menntaskólann að Laugarvatni og Háskóla Ísland.  Samningur um þessa þjónustu rennur út í haust.  Aðrir samningsaðilar hafa lýst yfir samþykki sínu um framlengingu þessa samnings um eitt ár, því samþykkir byggðaráð Bláskógabyggðar að samningurinn verði framlengdur um eitt ár og felur Kristni J. Gíslasyni að undirrita samkomulag um framlengingu samningsins fyrir hönd Bláskógabyggðar.

 

7.2.      Endurskoðun samnings um innheimtuþjónustu.

Á síðustu 3 mánuðum hefur skrifstofa Bláskógabyggðar verið að skoða gildandi samkomulag um innheimtuþjónustu og jafnframt kannað hvað slík þjónusta kæmi til með að kosta sveitarfélagið og hugsanleg áhrif á árangur þjónustunnar.  Í þeirri vinnu hefur verið leitað upplýsinga og haft samtal við þrjú fyrirtæki sem sinna innheimtuþjónustu, þ.e. Motus, Momentum og Lögmenn Suðurlands.  Hafa þessi þrjú fyrirtæki gefið Bláskógabyggð tilboð í þjónustuna.

Niðurstaða byggðaráðs Bláskógabyggðar er að semja skal áfram við Motus og er sveitarstjóra falið að undirrita samninga fyrir hönd Bláskógabyggðar og Bláskógaveitu.

 

7.3.      Lóðarsamningur vegna spennistöðvar; Lambamýri, Reykholti.

Lagður fram samningur um lóð undir spennistöð RARIK í leigulóðinni Lambamýri í Reykholti. Lóðarhafar hafa samþykkt fyrir sitt leyti að RARIK fái hluta lóðar sinnar undir spennistöðina. Byggðaráð Bláskógabyggðar, sem landeigandi, samþykkir fyrirliggjandi samning um ráðstöfun spildu undir spennistöð á lóðinni Lambamýri við Dalbraut og felur sveitarstjóra að árita fyrirliggjandi samninga og umsóknarblað um stofnun lóðar undir spennistöðina.

 

7.4.      Endurskoðun samnings við Hreinsitækni um tæmingu rotþróa.

Fundur var haldinn með fulltrúum Hreinsitækni og fulltrúum Bláskógabyggðar og Grímsnes- og Grafningshrepps, þar sem Hreinsitækni óskaði eftir þriggja ára framlengingu á gildandi þjónustusamningi.  Í gildandi samning er gert ráð fyrir að hægt sé að framlengja gildandi samningi um þrjú ár.

Byggðaráð Bláskógabyggðar samþykkir fyrir sitt leyti að þjónustusamningur við Hreinsitækni verði framlengdur um þrjú ár og hann muni því gilda til loka árs 2016.

 

  1. Þingmál til umsagnar:

8.1.      Tillaga til þingsályktunar um leikskóla að loknu fæðingarorlofi (37. mál).

Byggðaráð Bláskógabyggðar vill leggja áherslu á að löggjafinn gæti þess að samþykkja ekki ályktanir og löggjafir sem fela í sér aukin útgjöld fyrir sveitarfélög nema að tekjustofnar verði tryggðir samhliða.  Umrædd ályktun felur í sér aukin verkefni og aukinn kostnað fyrir sveitarfélög án þess að vikið sé að því einu orði hvar sveitarfélög skuli fá tekjur til að standa undir auknum rekstrarútgjöldum.

 

8.2.      Tillaga til þingsályktunar um hlutdeild sveitarfélaga í veiðigjaldi og tekjum af orkuauðlindum (44. mál).

Byggðaráð Bláskógabyggðar gerir engar athugasemdir við þessa tillögu til þingsályktunar.

 

  1. Innsend erindi:

9.1.      Bréf Þjónustumiðstöðvarinnar „Stopp“ vörn fyrir börn, dags. 19. september 2013; beiðni um fjárstyrk.

Lagt fram bréf Þjónustumiðstöðvarinnar „Stopp“ vörn fyrir börn þar sem óskað er eftir fjárstyrk til verkefnisins.  Erindinu hafnað.

 

9.2.      Bréf Samkeppniseftirlitsins, dags. 13. september 2013; erindi Gámaþjónustunnar frá 1. mars 2013.

Lagt fram bréf Samkeppniseftirlitsins vegna erindis Gámaþjónustunnar dags. 1. mars 2013. Samkeppnisstofnun óskar eftir upplýsingum frá Bláskógabyggð um innleiðingu endurvinnslutunnum m.m.

Byggðaráð felur Kristni J. Gíslasyni og sveitarstjóra að svara beiðni Samkeppnisstofnunar um upplýsingar.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:15.