145. fundur
- fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn
fimmtudaginn 7. febrúar 2013, kl 15:15
í Aratungu
Mætt voru:
Drífa Kristjánsdóttir, Helgi Kjartansson, Margeir Ingólfsson, Kjartan Lárusson sem varamaður Jóhannesar Sveinbjörnssonar, Valgerður Sævarsdóttir, Þórarinn Þorfinnsson, Sigurlína Kristinsdóttir, Valtýr Valtýsson sveitarstjóri og Sigurrós H. Jóhannsdóttir, sviðsstjóri, sem ritaði fundargerð.
- Fundargerðir til staðfestingar:
1.1 Fundargerð 133. fundar byggðaráðs Bláskógabyggðar.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu byggðaráðs í dagskrárlið 1.2 um nýja samþykkt fyrir Skipulags- og byggingarfulltrúa Uppsveita bs. Að öðru leyti samþykkir sveitarstjórn samhljóða fundargerð 133. fundar byggðaráðs Bláskógabyggðar.
1.2. 55. fundur skipulagsnefndar Uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps, ásamt 92. afgreiðslufundi byggingarfulltrúa.
Mál nr. 1: Haukadalur 4 – Hótel Geysir.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við afgreiðslu nefndarinnar um að fela byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi þegar fullnægjandi teikningar liggja fyrir.
Mál nr. 2: Laugarbraut 1-3.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við afgreiðslu nefndarinnar um útgáfu rekstrarleyfis vegna reksturs gististaðar í flokki 2.
Mál nr. 3: Afgreiðslur byggingarfulltrúa.
Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 1. til 18. janúar 2013.
Mál nr. 7: Efri-Reykir lóð 167298.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við afgreiðslu nefndarinnar og samþykkir skv. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 breytta afmörkun og stærð lóðar með lnr. 167298. Eftir stækkun verður lóðin 9.684 fm að stærð.
Mál nr. 8: Efri-Reykir lóð 2.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við afgreiðslu nefndarinnar varðandi stofnun um 2,5 ha lóðar úr landi Efri-Reykja lnr. 167080 og samþykkir þá beiðni skv. 48. Gr. skipulagslaga nr. 123/2010 auk þess sem ekki er gerð athugasemd við landsskipti skv. 13. gr. jarðalaga.
Varðandi stofnun lögbýlis, þá óskar sveitarstjórn eftir frekari upplýsingum og forsendum vegna stofnunar lögbýlis áður en sveitarstjórn afgreiðir þá beiðni formlega.
Mál nr. 11: Heiði.
Sótt er um að flytja á staðinn hús og innrétta sem veitingastað á lóð í landi Heiðar við fossinn Faxa. Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir með þeim skilyrðum að húsið verði ekki tekið í notkun fyrr en það er fullklárað í samræmi við útgefið byggingarleyfi. Sveitarstjórn samþykkir afgreiðslu skipulagsnefndar þó með þeim breytingum að umsækjendum verði gefinn tveggja ára frestur eða til 1. júní 2015 til þess að fullklára húsið að utanverðu.
Mál nr. 22: Brennimelslína-Breyting á aðalskipulagi.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við afgreiðslu nefndarinnar og samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að kynna lýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi Þingvallasveitar skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og leita umsagnar Skipulagsstofnunar.
Mál nr. 23: Deiliskipulag fyrir Hlöðuvelli.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við afgreiðslu nefndarinnar og samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að kynna lýsingu vegna deiliskipulags fyrir Hlöðuvelli skv. 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og leita umsagna viðeigandi umsagnaraðila.
Mál nr. 24: Dsk við Hagavatn.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við afgreiðslu nefndarinnar og samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að kynna lýsingu vegna deiliskipulags við Hagavatn skv. 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og leita umsagna viðeigandi umsagnaraðila.
Mál nr. 25: Dsk Þjófadalir – skálasvæði.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við afgreiðslu nefndarinnar og samþykkir fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi fyrir Þjófadali og felur skipulagsfulltrúa að senda málið til afgreiðslu Skipulagsstofnunar í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Mál nr. 26: Dsk Þverbrekknamúli – skálasvæði.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við afgreiðslu nefndarinnar og samþykkir fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi fyrir Þverbrekknamúla og felur skipulagsfulltrúa að senda málið til afgreiðslu Skipulagsstofnunar í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Mál nr. 27: Dskbr. Miðdalur – frístundasvæði FBM.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við afgreiðslu nefndarinnar og samþykkir fyrirliggjandi tillögu að breytingu á deiliskipulagi í landi Miðdals og felur skipulagsfulltrúa að senda málið til afgreiðslu Skipulagsstofnunar í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Mál nr. 28: Endurskoðun deiliskipulags fyrir Skálholt.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við afgreiðslu nefndarinnar um að um gott framtak sé að ræða og gerir ekki athugasemd við að vinna hefjist við endurskoðun deiliskipulags fyrir Skálholtsjörðina.
Mál nr. 29: Markholt – deiliskipulag lögbýla úr landi Einiholts.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við afgreiðslu nefndarinnar og samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að kynna lýsingu vegna deiliskipulags lögbýla á svæði úr landi Einiholts skv. 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Mál nr. 30: Skálabrekka_Lindarbrekka-, Unnar- og Guðrúnargata – deiliskipulag.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við afgreiðslu nefndarinnar og frestar afgreiðslu málsins þar til fyrir liggja myndir sem sýna ásýnd svæðisins frá þjóðvegi og Þingvallavatni auk þess sem afmarka þurfi byggingarreiti til samræmis við ákvæði greinargerðar.
1.3. 23. fundur fræðslunefndar Bláskógabyggðar.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fundargerðina.
- Samþykkt um stjórn sveitarfélagsins Bláskógabyggð (þriðja umræða).
Umræða varð um fyrirliggjandi drög að samþykkt og tillögur að breytingum frá síðustu umræðu í sveitarstjórn. Sveitarstjóra falið að vinna áfram að gerð samþykktarinnar og útfærslu á einstaka greinum hennar í takt við umræðu sem varð á fundinum. Samþykktin verður á dagskrá næsta fundar sveitarstjórnar.
- Drög að siðareglum kjörinna fulltrúa hjá Bláskógabyggð (önnur umræða).
Lögð fram drög að siðareglum kjörinna fulltrúa hjá Bláskógabyggð til annarrar og lokaumræðu. Ekki hafa komið fram neinar tillögur til breytinga á fyrirliggjandi tillögu að siðareglum. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi siðareglur og felur sveitarstjóra að birta þær á heimasíðu sveitarfélagsins.
- Endurskoðun innkaupareglna Bláskógabyggðar.
Lagðar fram endurskoðaðar innkaupareglur Bláskógabyggðar. Byggðaráð Bláskógabyggðar hafði fjallað um breytingar á áður samþykktum innkaupareglum, en um er að ræða viðbót við grein 6, um umsjón og ábyrgð á innkaupum og ný 20. grein um tengda aðila. Einnig voru viðmiðunarfjárhæðir hækkaðar í greinum 4 og 13. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi tillögu að innkaupareglum Bláskógabyggðar með fyrrgreindum breytingum.
- Endurskoðun leigu Leiguíbúða og Félagslegra íbúða.
Lagt fram minnisblað sveitarstjóra um endurskoðun á leigufjárhæðum hjá Leiguíbúðum og Félagslegum íbúðum í Bláskógabyggð. Ekki hafa verið gerðar breytingar á leigufjárhæðum síðan 2009.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða þær tillögur sem fram koma í minnisblaðinu og skulu því allir leigusamningar vegna íbúðarhúsnæðis og bílskúra taka verðbreytingum skv. neysluverðsvísitölu með húsnæðiskostnaði, og skal gert tvisvar á ári þann 1. janúar og 1. júlí ár hvert þar til annað verður ákveðið af sveitarstjórn.
- Raforkuöflun garðyrkjunnar í Uppsveitum Árnessýslu.
Lögð fram tvö minnisblöð vegna fundar um leiðir til raforkuöflunar fyrir garðyrkjustöðvar í Uppsveitum Árnessýslu. Tillaga lögð fram þess efnis að stofnað verði einkahlutafélag af sveitarfélögunum Bláskógabyggð og Hrunamannahreppi í samstarfi við garðyrkjubændur með það markmið að afla hagkvæmra lausna í raforkuöflun fyrir garðyrkjustöðvar og annan atvinnurekstur á svæðinu. Lögð fram drög að stofnsamningi og samþykktum fyrir félagið. Hlutfjáreign Bláskógabyggðar og Hrunamannahrepps yrði 52% og skiptist jafnt milli sveitarfélaganna. Stofnhlutafé verði kr. 2 milljónir, eða kr. 520 þúsund á hvort sveitarfélag.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að standa að stofnun þessa einkahlutafélags að 26% hlut. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn samhljóða að tilnefna Valtý Valtýsson í væntanlega stjórn félagsins. Kynntar voru nokkrar hugmyndir að nafni fyrir félagið og felur sveitarstjórn tilnefndum stjórnarmanni að taka ákvörðun um nafn félagsins í samráði við aðra hluthafa félagsins. Jafnframt er Valtý Valtýssyni veitt fullt umboð, að undirrita öll þau skjöl er varða stofnun einkahlutafélagsins, fyrir hönd Bláskógabyggðar. Sveitarstjórn samþykkir einnig að mæta útgjöldum vegna stofnunar félagsins með lækkun á rekstarhagnaði sveitarfélagsins skv. fjárhagsáætlun.
- Þingmál til umsagnar:
7.1. Tölvuskeyti nefndarsviðs Alþingis, dags. 17. janúar 2013; frumvarp til laga um náttúruvernd (heildarlög – þingmál 429).
Lagt fram tölvuskeyti nefndarsviðs Alþingis er varðar frumvarp til laga um náttúruvernd. Einnig voru lögð fram drög að umsögn sveitarstjórnar Bláskógabyggðar um fyrirliggjandi frumvarp. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi umsögn og felur sveitarstjóra að senda hana til nefndarsviðs Alþingis.
7.2. Tölvuskeyti nefndarsviðs Alþingis, dags. 31. janúar 2013; frumvarp til laga um barnalög (þingmál 323).
Lagt fram tölvuskeyti nefndarsviðs Alþingis er varðar frumvarp til laga um barnalög. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við framlagt frumvarp.
7.3. Tölvuskeyti nefndarsviðs Alþingis, dags. 4. febrúar 2013; frumvarp til sveitarstjórnarlaga (þingmál 449).
Lagt fram tölvuskeyti nefndarsviðs Alþingis er varðar frumvarp til sveitarstjórnarlaga. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við framlagt frumvarp.
7.4. Tölvuskeyti nefndarsviðs Alþingis, dags. 4. febrúar 2013; frumvarp til sveitarstjórnarlaga (þingmál 204).
Lagt fram tölvuskeyti nefndarsviðs Alþingis er varðar frumvarp til sveitarstjórnarlaga. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við frumvarpið.
7.5. Tölvuskeyti nefndarsviðs Alþingis, dags. 4. febrúar 2013; tillaga til þingsályktunar um millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll (þingmál 174).
Lagt fram tölvuskeyti nefndarsviðs Alþingis er varðar þingsályktunartillögu um millilandaflug um Hornarfjarðarflugvöll. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við fyrirliggjandi þingsályktunartillögu.
- Innsend erindi:
8.1. Bréf Hótels Geysis, dags. 28. janúar 2013; háhraða nettenging.
Lagt fram bréf Hótels Geysis þar sem komið er á framfæri alvarlegri kvörtun um lélegar nettengingar. Hótel Geysir hefur barist fyrir því frá árinu 2006 að fá háhraðanet á þennan fjölsóttasta ferðamannastað landsins. Staða nettenginga hjá hótelinu hefur háð möguleikum til uppbyggingar s.s. vegna ráðstefnuhalds m.m. og skerðir einnig til muna samkeppnisstöðu fyrirtækisins. Að auki er símasamband enn í dag slæmt á vissum stöðum sem hindrar einnig verulega starfsemi hótelsins.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar vill minna á eitt af markmiðum með lögum um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. nr. 133/2005 er að allir landsmenn, sem þess óska, hafi aðgang að háhraðanettengingum árið 2007. Nú er runnið upp árið 2013 og enn viðgengst mismunun og ójafnræði hvað þetta varðar víða um landsbyggðina. Áætlað hefur verið ljóshraðanet til 90% landsmanna á meðan stór hluti landsbyggðarinnar og þyngsti ferðamannastaður landsins Geysir og nágrenni hans þar sem mörg fyrirtæki og heimili eru staðsett fá ekki einu sinni notið ADSL þjónustu. Hraðasta línubundin nettenging á þessu svæði er ISDN tenging. Þessi staða er algerlega óviðunandi og er alltof algeng í sveitarfélaginu. Það hefur sýnt sig og sannað að örbylgjusamband er ekki sá tryggi og góði tengimöguleiki á nærri öllum stöðum í dreifbýli sem honum er ætlað að vera í hjá Fjarskiptasjóði. Hinir ýmsu ytri þættir hafa þar veruleg áhrif og því ógerningur að setja þá hluti sem rök í þessari umræðu og kröfu um betri nettengingar í gegnum línufjarskiptakerfi sem fyrir er.
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að koma þessari bókun og áskorun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar á framfæri við fjarskiptafyrirtæki, þingmenn, ráðuneyti, Póst- og fjarskiptastofnun og aðra aðila sem málið varðar.
8.2. Bréf Gullkistunnar, dags. 3. febrúar 2013; Héraðsskólahúsnæðið.
Lagt fram bréf Gullkistunnar þar sem óskað er eftir aðkomu sveitarfélagsins að rekstri Héraðsskólahússins í samstarfi við Gullkistuna.
Sveitarstjórn fagnar hugmyndum Gullkistunnar um nýtingu húsnæðisins og ítrekar fyrri ályktanir sínar um nauðsyn þess að húsnæðinu verði fundið hlutverk og komist í fulla nýtingu.
Jafnframt vísar sveitarstjórn í fyrri ályktanir sínar að sveitarsjóður Bláskógabyggðar mun ekki fara í fjárhagslegar skuldbindingar vegna nýtingar eða reksturs húsnæðisins.
8.3. Bréf Brynjars S. Sigurðssonar og Mörtu S. Gísladóttur, dags. 4. febrúar 2013; byggingarleyfi á Heiði við fossinn Faxa.
Lagt fram bréf Brynjars og Mörtu sem varðar byggingarleyfi ferðaþjónustuhúsnæðis við fossinn Faxa. Vísað er í bókun liðar 1.2, mál 11 hér að framan.
8.4. Tölvuskeyti Lionsklúbbs Laugardals, dags. 5. febrúar 2013; göngustígar á Laugarvatnsfjall.
Lagt fram tölvuskeyti Andra Páls Hilmarssonar, f.h. Lionsklúbbs Laugardals, þar sem óskað er eftir aðkomu sveitarfélagsins að verkefni sem klúbburinn hefur hug á að ráðast í. Um er að ræða uppbyggingu göngustíga og gönguleiða á Laugarvatnsfjall, skv. uppdráttum sem fylgdi tölvuskeytinu. Sveitarstjórn fagnar hugmyndum klúbbsins og lýsir sig reiðubúna til viðræðna um aðkomu að verkefninu. Þegar frekari áætlanir liggja fyrir um fjármögnun og framkvæmd verksins mun sveitarstjórn taka endanlega ákvörðun um aðkomu sína.
8.5. Bréf Landslags ehf, dags. 20. janúar 2013; skipulagsmál Skálholts.
Lagt fram bréf Landslags ehf sem varðar skipulagsmál Skálholts. Sveitarstjórn vísar til afgreiðslu sinnar í dagskrárlið 1.2, mál 28, varðandi endurskoðun skipulags í Skálholti. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn samhljóða að tilnefnda Drífu Kristjánsdóttur og Pétur Inga Haraldsson sem fulltrúa sveitarfélagsins í stýrihóp fyrir verkefnið.
- Efni til kynningar:
9.1. Minnisblað fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga í ráðgjafanefnd um landsskipulagsstefnu, dags. 4. febrúar 2013.
9.2. Úthlutun styrkja úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.
Þann 31. janúar s.l. var úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Eftirtaldir styrkir fengust í verkefni innan Bláskógabyggðar:
Hugmyndasamkeppni og deiliskipulagsvinna, Geysir í Haukadal: 20 mkr.
Þjónustuhús í Þjóðskógunum við Laugarvatn – Skógrækt ríkisins: 7,5 mkr.
Deiliskipulag við Gullfoss – Umhverfisstofnun: 1,8 mkr.
Sveitarstjórn fagnar úthlutun þessara styrkja, sem munu án nokkurs vafa nýtast afar vel til uppbyggingar umræddra ferðamannastaða. Sveitarstjórn þakkar stjórn sjóðsins fyrir veitta styrki.
Fundi slitið kl. 17:00.