15. fundur

  1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn í Fjallasal Aratungu þriðjudaginn 1. apríl 2003, kl 13:30.

Mætt voru:

Sveinn A. Sæland, Margeir Ingólfsson, Sigurður Örn Leósson, Sigurlaug Angantýsdóttir, Gunnar Þórisson, Drífa Kristjánsdóttir og Kjartan Lárusson.

  1.  Fundargerð byggðaráðs frá 24. mars 2003.  Í samræmi við 8. lið  fundargerðarinnar þá er formanni byggðaráðs, oddvita, formanni veitustjórnar ásamt Kjartani Lárussyni falið að ganga til viðræðna við Orkuveitu Reykjavíkur.
  2. Sólveig Pétursdóttir félagsmálastjóri uppsveitanna kom á fundinn og kynnti störf sín og félagsmálanefndarinnar.
  3. Erindisbréf Bláskógabyggðar: Erindisbréf fyrir veitustjórn er til kynningar og er vísað til veitustjórnar.   Eftirfarandi erindisbréf voru samþykkt með smávægilegum breytingum:  erindisbréf fyrir skoðunarmenn, æskulýðs- og menningarmálanefnd, umhverfisnefnd, atvinnu- og samgöngumálanefnd, yfirkjörstjórn, fjallskilanefnd Þingvallasveitar, fjallskilanefnd Laugardals, fjallskilanefnd Biskupstungna, fræðslunefnd, húsnæðisnefnd, nefnd fyrir samþykktir sveitarstjórnar, rekstrarnefndar Aratungu og Íþróttamiðstöðvar.
  4. Ályktun um samgöngumál.
    Sveitarstjórn Bláskógarbyggðar tekur undir ábendingar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga um nauðsyn þess að taka upp mun ítarlegri mælingar á umferð en verið hefur, svo hægt sé að byggja samgöngukerfið upp á skynsamlegan hátt.

Á næstu árum 2003-2006 eru heildarframlög til vegagerðar á landsbyggðinni kr. 20,9  milljarðar. skv. samgönguáætlun.  Hlutur Suðurlands er kr. 1,308 milljarður að meðtöldu nýlegu viðbótarfjárframlagi  ríkisstjórnarinnar.  Þetta gerir 6,6% af heildarframkvæmdafé.    Umferðarþungi á Suðurlandi er margfalt meiri en 6,6% af heildarumferðarþunga landsbyggðarinnar eins og umferðarmælingar myndu leiða í ljós, væru þær fyrir hendi.  Sveitarstjórn Bláskógarbyggðar fullyrðir að umferðarþungi í Bláskógabyggð er einna mestur á Suðurlandi og er nauðsynlegt að mæla umferðina, svo ákvarðanir um framkvæmdir verði teknar af fagmennsku.

Framkvæmdafé til vegamála í uppsveitum Árnessýslu hefur ekki verið í neinu samræmi við þann umferðarþunga sem er á hverjum degi, að fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins.

Því er það ánægjuefni að Gjábakkavegur og Hvítárbrú skuli vera inni á áætlun næstu ára, auk þess að veitt hefur verið kr. 200 millj. af svokölluðu flýtifé til Gjábakkavegar, þannig að gera má ráð fyrir að framkvæmdir við hann geti hafist árið 2004.

Í könnun Ferðamálaráðs sem gerð var í sept. 2001 fram í maí 2002  kemur fram að á veturna hefur umferð aukist í Bláskógabyggð, svo um munar, undanfarin ár.  Þennan tíma komu um 65% erlendra ferðamanna að Þingvöllum og 89% að Geysi.  Ferðamálaráð áætlar að ferðamenn hafi komið í um 700-950 þúsund heimsóknir í uppsveitir Árnessýslu árið 2001.  Þetta segir sína sögu um umferð í frístundabyggðir, og á ferðamannastaði í Bláskógabyggð.  Umferð íbúa sveitarinnar er ekki í þessum tölum.  Nú liggur fyrir að uppbygging verður á næstu árum á menntastofnunum á Laugarvatni og mun efling skólanna enn auka umferð.

Árlega koma a.m.k. 6000 langferðabifreiðar að Geysi, samkvæmt upplýsingum frá staðarhaldara.

Fjöldi stórra áætlunarbifreiða, auk annarra bifreiða, er  gífurlegur um alla vegi Uppsveitanna ekki síst um Biskupstungnabraut sem í dag er stysta leið að Geysi, en tilkoma heilsársvegar milli Laugarvatns og Þingvalla mun dreifa umferðinni um vegi Bláskógarbyggðar og létta mikið umferðarþunga af Suðurlandsvegi.  Jafnframt eykst umferðaröryggið um Hellisheiði vegna minni umferðar þar, bæði á sumrum og vetrum.

Fjallaferðamennska á vetrum og sumrum er vaxandi og mörgum sinnum á dag ekur floti fjallabifreiða um Biskupstungur og Laugardal á Kjalveg með fjölda ferðamanna, allan ársins hring.

Uppsveitir Árnessýslu eru orðnar eitt atvinnu og þjónustusvæði og því má alls ekki fresta fé til framkvæmda á Hvítárbrú en henni hefur verið frestað nokkrum sinnum.

Ákvörðun um flýtifé til framkvæmda í Suðurstrandaveg  má því ekki verða til þess að breyta forgangsröð vega áætlunar í uppsveitum Árnessýslu.

Hafa ber í huga að milljarða króna tekjur eru af ferðalögum fólks sem fer á Þingvelli, að Skálholti, að Gullfossi og Geysi og um Laugardal.  Hluta teknanna fá þeir sem selja ferðirnar, koma fólkinu á staðina og það hlýtur að vera krafa þeirra að vegirnir séu öruggir og beri þá umferð sem um þá fer.

5.

Þjónustusamningur milli Bláskógabyggðar og Grímsnes- og Grafningshrepps um nemendur í Ljósafossskóla.  Oddviti kynnti samninginn og var hann samþykktur og honum falið að ganga frá honum.
Kaupsamningur vegna Borgarholts í Biskupstungum.  Seljendur eru Kristján Kristjánsson kt:280254-4289 og Guðrún S Hárlaugsdóttir kt:060754-3069 en kaupendur Agnes Geirdal kt:180963-3169 og Guðfinnur Eiríksson kt:231264-4429.  Sveitarstjórn samþykkir að falla frá forkaupsrétti.
Fundi slitið kl 15:40