151. fundur

  1. fundur byggðaráðs Bláskógabyggðar, haldinn í Aratungu þann 11. ágúst 2014 kl. 14:00.

 

Mætt: Valgerður Sævarsdóttir, formaður, Helgi Kjartansson, Óttar Bragi Þráinsson og Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð. 

 

  1. Fundargerðir til staðfestingar:

1.1.    73. fundur skipulags- og byggingarnefndar Uppsveita ásamt afgreiðslum byggingarfulltrúa frá 22. maí – 19. júní 2014.

 

Mál nr. 1; Valhallarstígur Nyrðri 1.

Byggðaráð staðfestir afgreiðslu skipulagsnefndar, þ.e. að miða skuli við nýtingarhlutfall 0,03 á lóðinni.  Byggðaráð samþykkir samhljóða að hafna erindinu.

 

Mál nr. 5; Borgarhólsstekkur 1 Miðfellslandi – Kæra til UUA

Lagt fram bréf frá Jóhannesi Bjarnasyni, eiganda Krummastekks 1, þar sem krafist er að byggingarleyfi fyrir 25,8 ferm gestahúsi frá 12. júlí 2007, verði fellt úr gildi og húsið sem er í smíðum verði fjarlægt. Einnig fylgir afrit af kæru Jóhannesar til Úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindarmála, þar sem hann kærir umrætt byggingarleyfi.  Byggðaráð staðfestir afgreiðslu skipulagsnefndar, en þar sem fyrir liggur að málið er til umfjöllunar hjá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og að embættið er þegar búið að senda inn greinargerð um málið telur byggðaráð ekki ástæðu til að taka frekari afstöðu til málsins á þessu stigi.

 

Mál nr. 6; Geldingafell á Bláfellshálsi – Stöðuleyfisumsókn.

Byggðaráð gerir ekki athugasemd við að veitt sé stöðuleyfi til loka apríl 2015 í samræmi við óskir umsækjanda og ákvæði byggingarreglugerðar.

 

Mál nr. 7; Afgreiðslur byggingarfulltrúa.

Afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 22. maí til 19. júní 2014 lagðar fram til kynningar.

 

Mál nr. 19; Askbr. Bláskógabyggð – Austurey 1.

Lögð fram að lokinni kynningu skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tillaga að breytingu á aðalskipulagi Laugardalshrepps 2000-2012 í landi Austureyjar sem felur í sér breytingu íbúðarsvæðis í svæði fyrir verslun- og þjónustu. Tillagan var kynnt með auglýsingu sem birtist 22. maí 2014 og var gefinn frestur til 12. júní til að koma með ábendingar eða athugasemdir. Tvö athugasemdabréf bárust með sambærilegum athugasemdum og bárust við lýsingu tillögunnar. Byggðaráð samþykkir samhljóða að fela skipulagsfulltrúa að auglýsa aðalskipulagsbreytinguna skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga samhliða breytingu á deiliskipulagi svæðisins.

 

Mál nr. 20; Askbr. Lækjarhvammur – vatnsaflsvirkjun.

Lögð fram að lokinni kynningu skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tillaga að breytingu á aðalskipulagi Laugardalshrepps 2000-2012 í landi Lækjarhvamms. Í breytingunni felst að gert verði ráð fyrir allt að 480 kW rennslisvirkjun í Heiðará og Þverá. Tillagan var kynnt með auglýsingu sem birtist 22. maí 2014 og var gefinn frestur til 12. júní til að koma með ábendingar eða athugasemdir. Byggðaráð samþykkir samhljóða að fela skipulagsfulltrúa að auglýsa aðalskipulagsbreytinguna skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga samhliða breytingu á deiliskipulagi svæðisins.

 

Mál nr. 22; Austurey – brdsk hótel í stað íbúða.

Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Austureyjar I og III til samræmis við breytingu á aðalskipulagi sama svæðis sem einnig er til meðferðar. Í breytingunni felst að á svæði þar sem í gildandi skipulagi er gert ráð fyrir fjórum íbúðarhúsalóðum fyrir allt að 400 fm íbúðarhús verði í staðinn gert ráð fyrir einni 13.424 fm verslunar- og þjónustulóð þar sem heimilt verður að byggja allt að 1.600 fm gistihús. Þá er einnig gert ráð fyrir að hluti Hálshúsvegar og Austurvegar verði breytt í göngustíg. Byggðaráð samþykkir samhljóða að fela skipulagsfulltrúa að auglýsa breytinguna skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samhliða breytingu á aðalskipulagi svæðisins.

 

Mál nr. 23; Brdsk Geysi – stækkun hótels.

Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi við Hótel Geysi og Geysistofu. Í tillögunni felst að afmörkun byggingarreitar fyrir viðbyggingu við Hótel Geysi breytist auk þess sem gert er ráð fyrir að heimilað byggingarmagn nýs hótels fari úr 4.500 fm í allt að 9.000 fm. Hluti aukins byggingarmagns kemur til þar sem nú er gert ráð fyrir kjallara undir viðbyggingunni. Stækkun byggingarreits og aukið byggingarmagn felur einnig í sér að núverandi baðhús, áhaldahús og tvö smáhýsi verða fjarlægð. Þá breytast einnig aðkomuleiðir sem og afmörkun bílastæða. Byggðaráð samþykkir samhljóða að fela skipulagsfulltrúa að auglýsa tillöguna skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga og jafnframt leita umsagnar Umhverfisstofnunar.

 

Mál nr. 24; DSK virkjun í landi Lækjarhvamms.

Lögð fram tillaga að deiliskipulagi smávirkjunar í landi Lækjarhvamms sem er í samræmi við tillögu að breytingu á aðalskipulagi sem hefur verið til meðferðar hjá skipulagsnefnd og sveitarstjórn og búið er að kynna skv. 1. og 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga. Um er að ræða 480 KW rennslisvirkjun í Heiðará og Þverá og er gert ráð fyrir að tvær stíflur með um 0,2 og 0,5 ha lónum. Þá er gert ráð fyrir um 50 fm stöðvarhúsi á 256 fm lóð suðaustan við bæjartorfu Lækjarhvamms. Byggðaráð samþykkir samhljóða að fela skipulagsfulltrúa að auglýsa deiliskipulagið skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga samhliða breytingu á aðalskipulagi svæðisins.

 

Mál nr. 25; Laugarás – Hverabrekka 1.

Lagt fram erindi Jóhanns Sigurðssonar dags. 5. mars 2014 þar sem kynntar eru tvær tillögur að breytingu á legu vegar framhjá húsi hans við Hverabrekku að lóðum þar fyrir innan. Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við mögulega færslu vegarins. Byggðaráð samþykkir samhljóða að fela skipulagsfulltrúa að kynna málið fyrir lóðarhöfum þeirra lóða sem málið varðar.

 

Mál nr. 26; Reykjavegur – aðalskipulag.

Lagt fram erindi Vegagerðarinnar dags. 23. júní 2014 þar sem kynnt eru áform um endurbyggingu Reykjavegar. Jafnframt er óskað eftir breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins þar sem sú lega sem fyrirhugað er að fara (að mestu í núverandi legu) er ekki að öllu leyti í samræmi við legu vegarins í gildandi aðalskipulagi. Byggðaráð samþykkir samhljóða að fela skipulagsfulltrúa að kynna lýsingu aðalskipulagsbreytingar skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga til samræmis við erindi Vegagerðarinnar.

 

 

 

Mál nr. 28; Formaður og varaformaður nefndar.

Byggðaráð staðfestir fyrir sitt leyti að Gunnar Þorgeirsson verði formaður skipulagsnefndar og Ragnar Magnússon varaformaður.

 

Mál nr. 29; Fundartími nefndar.

Byggðaráð staðfestir fyrir sitt leyti ákvörðun skipulagsnefndar um fundartíma nefndarinnar. Haldnir verða tveir fundir í skipulagsnefnd í hverjum mánuði í stað eins líkt og verið hefur.  Fundir verða þá almennt annan og fjórða fimmtudag í hverjum mánuði kl. 9:00.

 

1.2.    74. fundur skipulags- og byggingarnefndar Uppsveita.

 

Mál nr. 9; LB_Efri-Reykir lnr. 167080 – ný 4,3 ha spilda, Stekkatún 1.

Lagt fram erindi Verkfræðistofu Eflu dags. 25. júlí 2014, f.h. landeigenda, þar sem óskað er eftir að stofnuð verði ný 4,3 ha spilda úr landi Efri-Reykja lnr. 167080 sem fá mun nafnið Stekkatún 1. Meðfylgjandi er lóðarblað sem sýnir hnitsetta afmörkun spildunnar. Byggðráð Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við stofnun lóðarinnar Stekkatún 1.

 

Mál nr. 10; LB_Efri-Reykir lóð 167297 (Stekkatún 2).

Lagt fram erindi Verkfræðistofu Eflu dags. 25. júlí 2014, f.h. landeigenda, þar sem óskað er eftir að stærð lóðarinnar Efri-Reykir lóð 167297 verði lagfærð til samræmis við hnitsetta afmörkun auk þess að nafni hennar verði breytt í Stekkatún 2. Lóðin verður 9.071,1 fm að stærð í stað 2.500 fm. Byggðaráð Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við breytingu á heiti og stærð lóðarinnar Efri-Reykir lóð 167297 (verður Stekkatún 2).

 

Mál nr. 14; Árbakki 167197.

Byggðaráð Bláskógabyggðar staðfestir afgreiðslu skipulagsnefndar og gerir ekki athugasemd við fyrirhugaða stækkun íbúðarhússins með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar fyrir aðliggjandi lóðarhöfum. Ef engar athugasemdir berast við grenndarkynningu er málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

 

Mál nr. 30; Askbr. Syðri-Reykir – Hrosshóll.

Lögð fram tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 í landi Syðri-Reykja. Í breytingunni felst að gert er ráð fyrir nýju efnistökusvæði við Hrosshól syðst í landi Syðri-Reykja, upp við landamerki Torfastaða. Lýsing tillögunnar var kynnt með auglýsingu sem birtist 22. maí. Fyrir liggur umsögn Skipulagsstofnunar og Vegagerðarinnar. Byggðaráð Bláskógabyggðar felur skipulagsfulltrúa að kynna tillöguna skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem komið hefur verið til móts við ábendingar Skipulagsstofnunar og Vegagerðarinnar.

 

Mál nr. 31; Askbr. Úthlíð – Höfðaflatir.

Lögð fram að nýju tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 í sameignarlandi Úthlíðar, Hrauntúns og Stekkholts sem felur í sér að gert er ráð fyrir allt að 30 þúsund rúmmetra efnistöku á Höfðaflötum neðan við Högnhöfða. Fyrir liggja umsagnir Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar um lýsingu tillögunnar auk athugasemdar sem barst á kynningartíma hennar. Skipulagsfulltrúi og oddviti Bláskógabyggðar fóru á vettvang til að skoða aðstæður. Að mati skipulagsnefndar er ekki gerð athugasemd við að gert verði ráð fyrir efnistökusvæði í samræmi við umsókn. Skilyrði fyrir framkvæmdaleyfi er að eingöngu verði gefið leyfi til tveggja ára og að gengið verði frá námunni jafnóðum og efnistaka fer fram.  Byggðaráð samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulagsnefndar.

 

Mál nr. 32; Dsk Geysissvæðið.

Lögð fram lýsing skipulagsverkefnis fyrir deiliskipulag Geysissvæðisins sem byggir á vinningstillögu í „Hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun Geysissvæðisins í Haukadal“ sem haldin var 2013-2014. Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við fyrirliggjandi lýsingu að því undanskildu að umfang skipulagsins nái eingöngu yfir hverasvæðið og nauðsynlegs athafnasvæðis. Byggðaráð Bláskógabyggðar samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að kynna lýsinguna skv. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga með ofangreindum breytingum.

 

1.3.    18. fundur stjórnar Skipulags- og byggingarfulltrúa Uppsveita bs.

Byggðaráð Bláskógabyggðar staðfestir fundargerðina fyrir sitt leyti.

 

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14:45.