152. fundur

  1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn

fimmtudaginn 7. nóvember 2013, kl 15:15

í Aratungu

 

Mætt voru:

Drífa Kristjánsdóttir, Helgi Kjartansson, Margeir Ingólfsson,  Jóhannes Sveinbjörnsson, Valgerður Sævarsdóttir, Þórarinn Þorfinnsson, Kristín Ingunn Haraldsdóttir og Valtýr Valtýsson sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

 

Oddviti lagði fram tillögu að dagskrárbreytingu, að inn komi tveir nýir liðir, 6.3 og 8.3.  Tillagan samþykkt samhljóða.

 

  1. Fundargerðir til staðfestingar:

1.1     Fundargerð 142. fundar byggðaráðs Bláskógabyggðar.

Samþykkt samhljóða.

1.2.    64. fundur skipulagsnefndar Uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps, ásamt afgreiðslum byggingarfulltrúa frá 19. september til 29. október 2013.

 

Mál nr. 1:   Fyrirspurn_Dalbraut 10 farfuglaheimili.

Óskað eftir heimild til stækkunar húss að Dalbraut 10, Laugarvatni, um 400 fm þannig að heildar stærð húss verði 1000 fm.  Óskað er eftir breytingu deiliskipulagsskilmála til samræmis við fyrirspurnina.  Sveitarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsnefndar og tekur jákvætt í erindið en óskar eftir tillöguteikningum til samræmis við fyrirliggjandi beiðni.

 

Mál nr. 2:   Mountaineers – veitingaskáli.

Óskað er eftir stöðuleyfi fyrir 100 fm veitingahús á einni hæð við Geldingafell þar sem núverandi búðir Mountaineers eru staðsettar við Skálpanesveg nr. 336.

Sveitarstjórn samþykkir afgreiðslu skipulagsnefndar og tekur jákvætt í erindið en vegna óvissu í skipulagsmálum miðhálendisins er ekki hægt að samþykkja að veita leyfi fyrir veitingaaðstöðu þarna að svo stöddu.

 

Mál nr. 4:   Framkvæmdaleyfi Bláfell- smávirkjun.

Neyðarlínan ohf óskar eftir framkvæmdaleyfi fyrir smávirkjun við Bláfell.  Stærð virkjunarinnar er fyrirhuguð 10-20 kW og mun nýtast fjarskiptastöð á Bláfelli.

Sveitarstjórn samþykkir afgreiðslu skipulagsnefndar og samþykkir að veita framkvæmdaleyfi fyrir virkjuninni með fyrirvara um meðmæli Skipulagsstofnunar í samræmi við 1. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulagslaga.

 

Mál nr. 5:   Framkvæmdaleyfi Geysir – hverasvæði.

Um er að ræða tillögu að skipulagi aðkomu og efra bílastæðis að hversvæði Geysis.  Sveitarstjórn samþykkir afgreiðslu skipulagsnefndar  og telur ekki tímabært að skoða breytingar á fyrirkomulagi aðkomu að hverasvæðinu við Geysi þar sem nú er í gangi hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun svæðisins.  Bíða ætti eftir niðurstöðu samkeppninnar áður en ráðist verði í breytingar á skipulagi svæðisins.

 

Mál nr. 6:   Framkvæmdaleyfi Svartagil – efnistaka.

Um er að ræða beiðni þjóðgarðsins á Þingvöllum um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í Svartagili.  Umfang efnistökunnar til skemmri tíma er 1.500 – 2.000 m3, en um 20.000 m3 á næstu fimm árum.  Svæðið er skilgreint sem efnistökusvæði á aðalskipulagi.   Umhverfisstofnun gerir ekki athugasemdir við efnistöku úr umræddri námu.

Sveitarstjórn samþykkir afgreiðslu skipulagsnefndar og felur skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir allt að 20.000 m3 efnistöku úr umræddi námu í Svartagili í samræmi við fyrirliggjandi erindi.

 

Mál nr. 7:   Afgreiðslur byggingarfulltrúa.

Afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 19. september – 29. október 2013 lagðar fram til kynningar.

 

Mál nr. 10: fyrirspurn _Heiðarbær lóð 170247 – landskipti.

Um er að ræða erindi ásamt uppdráttum sem sýnir fyrirhugaða skiptingu lóðarinnar ásamt fyrirhugðum nýjum bústað.

Sveitarstjórn samþykkir afgreiðslu skipulagsnefndar og getur ekki heimilað að skipta umræddri frístundahúsalóð sem er staðsett í þegar byggðu hverfi.  Sveitarstjórn bendir einnig á að tillaga að deiliskipulagi fyrir land Heiðarbæjar hefur verið auglýst og þar er ekki gert ráð fyrir skiptingu lóðarinnar.

 

Mál nr. 16: V-gata 16, í landi Miðfells.

Um er að ræða umsókn um að byggja nýtt hús á grunni eldra húss sem á að fjarlægja ásamt geymslu.  Sveitarstjórn samþykkir afgreiðslu skipulagsnefndar og samþykkir erindið skv. 44. gr. skipulagslaga.  Grenndarkynningu telst lokið þar sem hagsmunaaðilar hafa staðfest að þeir gera ekki athugasemdir.

 

Mál nr. 26: Brennimelslína – Breyting á aðalskipulagi.

Um er að ræða skipulagslýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi Þingvallasveitar 2004 – 2016, er varðar endurbyggingu á Brennimelslínu 1, sem lögð er fram að lokinni kynningu skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Breytingin er gerð vegna stækkunar Brennimelslínu úr 220 kV í 400 kV.  Núverandi lína liggur innan marka Bláskógabyggðar á 1,8 km kafla.  Gert er ráð fyrir að ný lína verði byggð 30 m austan við núverandi línu.  Í gildandi aðalskipulagi láðist að merka inn núverandi 220 kV línu.  Sveitarstjórn samþykkir að auglýsa breytinguna skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

Mál nr. 27: Deiliskipulagsbreyting Kjarnholt I lóð 3 lnr. 209270.

Lögð fram að lokinni kynningu skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslanga nr. 123/2010 tillaga að breytingu á aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 sem felst í að um 14 ha spilda úr landi Kjarnholta breytist úr svæði fyrir frístundabyggð í landbúnaðarsvæði.  Fyrirhugað er að breyta núverandi frístundahúsalóð á svæðinu í lögbýli.  Jafnframt  er lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi svæðisins sem felst í að frístundahúsalóðum á svæðinu verði breytt í lögbýli til samræmis við breytingu á aðalskipulagi.  Á tveimur lóðum (V og IV) verður heimilt að reisa gistihús í stað frístundahúss og lóð nr. III sameinast 9 ha spildu og verður þar gert ráð fyrir að breyta núverandi frístundahúsi í íbúðarhús auk þess að heimilt verður að reisa á lóðinni skemmu / útihús á þremur stöðum (byggingarreitir B-2, B-3 og B-4).  Sveitarstjórn samþykkir að auglýsa breytingu á aðalskipulagi svæðisins skv. 1 mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og samsvarandi breytingu á deiliskipulagi svæðisins skv. 1. mgr. 41. gr. laganna.

 

Mál nr. 29: Markholt – deiliskipulag lögbýla úr landi Einiholts.

Lögð fram að lokinni auglýsingu skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tillaga að deiliskipulagi nokkurra lögbýla á landsspildum úr landi Einiholts.  Skipulagssvæðið er um 150 ha að stærð úr norðurhluta Einiholts og er fyrirhugað að skipta landinu í nokkur minni lögbýli þar sem sum verða nýtt til landbúnaðar en önnur að mestu í ferðaþjónustu.  Tillagan var auglýst 4. júlí 2013 með athugasemdafresti til 16. ágúst 2013.  Engar athugasemdir bárust en nú liggja fyrir umsagnir fram Minjastofnun Íslands dags. 23. ágúst 2013 og Heilbrigðiseftirliti Suðurlands dags. 11. september 2013.  Þá liggur einnig fyrir bréf Skipulagsstofnunar þar sem fram kemur að gera þurfi grein fyrir hvernig áform á byggingarreit B 10 samræmist aðalskipulagi.  Sveitarstjórn samþykkir samþykkt og afgreiðslu skipulagsnefndar og samþykkir deiliskipulagið að nýju með þeirri breytingu að byggingarmagn á reit B 10 minnki niður í 2.000 fm.  Skipulagsfulltrúa falið að svara öðrum ábendingum sem fram hafa komið.

 

1.3.    7. fundur samgöngunefndar Bláskógabyggðar.
Samþykkt samhljóða.

 

1.4.    3. fundur fagráðs Brunavarna Árnessýslu ásamt bréfi og tillögu að gjaldskrá.
Varðandi dagskrárlið 3 um gjaldskrá BÁ þá samþykkir sveitarstjórn samhljóða fyrir sitt leyti fyrirliggjandi drög að gjaldskrá BÁ.

Varðandi dagskrárlið 6 um lánamál BÁ:

Afgreiðslu frestað.

 

  1. Fundargerðir til kynningar:

2.1.    Fundur formanna sumarhúsafélaga og sveitarstjórnar Bláskógabyggðar, dags. 10. október 2013.

2.2.    157. fundur stjórnar Skólaskrifstofu Suðurlands.

2.3.    231. fundur stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands.

2.4.    152. fundur Heilbrigðisnefndar Suðurlands.

2.5.    471. fundur stjórnar SASS.

2.6.    472. fundur stjórnar SASS.

2.7.    809. fundur stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 

  1. Skipulagsmál:

3.1.    Færsla spennustöðvar RARIK á Laugarvatni.

Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Laugarvatns sem felst í að spennistöð sem ráðgerð var sunnan við Háskóla Íslands verði frekar byggð norðan við skólahúsnæðið.  Að mati sveitarstjórnar er um óverulega breytingu að ræða og samþykkir hana skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki er talin þörf á að grenndarkynna breytinguna þar sem fyrir liggur samþykki Háskólans sem er umráðandi lóðarinnar.

 

3.2.    Umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir Eflingu Stéttarfélags til að leggja veg að fyrirhuguðu byggingalandi sínu í Reykholti.

Lagt fram bréf Verkfræðistofu Suðurlands, dags. 24. október 2013, þar sem óskað er eftir fyrir hönd Stéttafélagsins Eflingar að fá framkvæmdaleyfi til að leggja nýjan veg að lóðum félagsins í Reykholti.  Umræddur vegur er að mestu skv. gildandi aðalskipulagi, en aðeins er breyting frá deiliskipulagi á legu vegar innan svæðis á eignarlandi Eflingar.  Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er aðkoma að svæðinu um núverandi veg að Gufuhlíð og Reykholtshver.  Umræddur vegur er brattur og erfitt vegstæði.  Hefur Efling fengið Verkfræðistofa Suðurlands til að hanna lagfæringu á veginum og hönnunargögn liggja fyrir fundinum.  Vegurinn mun skv. fyrirliggjandi tillögu færast lítillega til vesturs vegna breikkunar og þrengsla við lóð Gufuhlíðar.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að oddviti ásamt sveitarstjóra og sviðsstjóra þjónustu-og framkvæmdasviðs fundi með fulltrúum Eflingar og Verkfræðistofu Suðurlands um fyrirhugaðar framkvæmdir áður en endanleg afstaða verður tekin til erindisins.

 

3.3.    Framkvæmdaleyfi við endurgerð göngustíga á efra svæði á friðlandinu við Gullfoss.

Lagt fram erindi frá Marey arkitektar, f.h. Umhverfisstofnunar, í tölvupósti dags. 23. október 2013. Um er að ræða endurgerð á stíg frá núverandi Sigríðarstíg á efra svæði og í um 113 m til norðaustur að stað  þar sem hann beygir í átt að klöpp ofan við Gullfoss. Gert er ráð fyrir að stígurinn verði 2,7 m á breidd og úr lerki.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við veitingu framkvæmdaleyfis og vísar málinu til endanlegrar afgreiðslu hjá skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa.

 

  1. Ákvörðun um álagningu útsvars 2014.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að útsvarshlutfall haldist óbreytt árið 2014 og verði 14,48%.

 

  1. Fjárhagsáætlun.

5.1.    Tillaga um viðauka við fjárhagsáætlun 2013.

Lögð var fram tillaga um viðauka við fjárhagsáætlun 2013. Um er að ræða breytingar á eftirfarandi tekju- og útgjaldaliðum sveitarsjóðs:

 

  

  

   Deild  Textalýsing                                                                        Samþykkt          Ný áætlun         Fjárauki

                                                                                                                 áætlun                                     áætlunar

0006   Fasteignaskattur (0011)                                              -227.900.000    -236.900.000      -9.000.000

0010   Jöfnunarsjóður (0112, 0141, 0145)                                 -109.710.000    -119.010.000      -9.300.000

0400   Fræðslumál (0201, 0204, 0212, 0215, 0219, 0241, 0244)             363.665.203     366.693.203       3.028.000

0500   Menningarmál (0501, 0561)                                                7.592.152          9.062.152       1.470.000

0900   Skipulags- og byggingarmál (0926)                                                 0          2.250.000       2.250.000

1000   Umferðar- og samgöngumál (1053)                               1.012.069          1.412.069          400.000

1100   Umhverfismál (1142, 1145, 1162)                                        6.030.000          6.680.000          650.000

1300   Atvinnumál (1301, 1326, 1361)                                             4.255.564          5.130.564          875.000

2100   Sameiginlegur kostnaður (2143, 2154, 2160)                      2.400.000          4.495.000       2.095.000

Samtals fjárauki 2013:                                  -7.532.000

 

Kostnaðarheimildir leikskóla- og grunnskóladeildar Bláskógaskóla eru skipt niður á tvær deildir í bókhaldi, en heimilt er að flytja fjárheimildir milli þeirra deilda, en sameiginlegar fjárheimildir deildanna haldast óbreyttar.  Kostnaðarauka vegna aukinna útgjalda verður mætt með auknum áætluðum tekjum sveitarsjóðs.  Afkoma sveitarsjóðs batnar sem nemur kr. 7.532.000 fyrir rekstrarárið 2013.

 

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða fram lagða tillögu um viðauka við fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar fyrir rekstrarárið 2013 og felur sveitarstjóra að senda upplýsingar um samþykktan viðauka til innanríkisráðuneytis.

 

5.2.    Fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar 2014 – 2017.

Lögð fram tillaga að fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar fyrir árin 2014 – 2017.  Tillagan fékk kynningu á síðast fundi byggðaráðs þann 31. október s.l.  Umræða varð um forsendur fjárhagsáætlunar og fyrirliggjandi drög að áætlun.  Sveitarstjórn samþykkir forsendur fjárhagsramma fyrir stofnanir og deildir sveitarfélagsins og felur sveitarstjóra og stjórnendum stofnana og deilda að ljúka frágangi áætlana fyrir næstu umræðu í sveitarstjórn.  Stefnt er að því að ljúka afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2014 – 2017 á næsta reglubundna fundi sveitarstjórnar sem haldinn verður þann 5. desember 2013.

 

 

 

  1. Samningar:

6.1.    Samstarfssamningur um sameiginlegt tæknisvið Uppsveita Árnessýslu.

Lögð fram drög að samstarfssamningi um sameiginlegt tæknisvið Uppsveita Árnessýslu, en gildandi samningur rennur út í árslok þessa árs.  Drög að nýjum samningi gerir ráð fyrir sama fyrirkomulagi við rekstur tæknisviðsins og verið hefur og taki nýr samningur gildi frá 1. janúar 2014.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að ganga til samninga við samstarfssveitarfélögin á grundvelli þessara samningsdraga og felur sveitarstjóra að vinna málið áfram fyrir hönd Bláskógabyggðar.  Endanlegur samningur verði lagður fyrir sveitarstjórn á næsta reglubundna fundi.

 

6.2.    Samstarfssamningur um skóla- og félagsþjónustu ásamt tillögu að breytingu á samþykktum Bláskógabyggðar.

Lögð fram drög að samstarfssamningi um skóla- og félagsþjónustu.  Aðilar að þessum samstarfssamningi eru þau sveitarfélög sem standa sameiginlega að félagsþjónustu og Velferðarnefnd Árnesþings.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða fyrir sitt leyti fyrirliggjandi drög að samstarfssamningi og felur oddvita að vinna málið áfram.

Við gildistöku þessa samstarfssamnings er nauðsynlegt að gera breytingar á samþykkt um stjórn Bláskógabyggðar.  Fyrir fundinum liggur tillaga að breytingu á 48. grein samþykkta Bláskógabyggðar, undir kaflanum „Stjórnir og samstarfsnefndir“, töluliðir 7 og 8.  Fyrirliggjandi tillaga að breytingu samþykkta um stjórn Bláskógabyggðar er vísað til lokaumræðu á næsta reglubundna fundi sveitarstjórnar.  Á þeim tíma þyrfti endanleg útfærsla á samstarfssamningi að liggja fyrir svo og afstaða annarra sveitarfélaga til samningsins.

 

6.3.    Drög að viljayfirlýsingu við Mílu.

Lögð fram drög að viljayfirlýsingu við Mílu ehf vegna samstarfs um greiningu á kostnaði við ljósleiðaravæðingu sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela oddvita að undirrita viljayfirlýsinguna fyrir hönd Bláskógabyggðar.

 

  1. Húsnæðismál leikskólans í Reykholti.

Bókun og tillaga Þ-listans.

Meirihluti sveitarstjórnar Bláskógabyggðar hefur ítrekað komið í veg fyrir að farið verði í að skoða framtíðarfyrirkomulag húsnæðismála leikskólans í Reykholti eins og minnihlutinn hefur lagt til. Það er í raun með öllu óskiljanlegt að ekki megi skoða þessi mál og þannig hefja undirbúning að því að koma leikskólanum Álfaborg í húsnæði sem uppfyllir kröfur sem gerðar eru til leikskóla í dag. Seinast þegar meirihlutinn felldi tillögu minnihlutans þessa efnis, þá var það gert með þeim rökum að það væri ekki tímabært að skoða þessi mál. Eins og fram hefur komið þá telur minnihlutinn löngu tímabært að hefja þessa vinnu og vonar að tími meirihlutans sé nú runnin upp og leggur Þ-listinn því fram eftirfarandi tillögu:

 

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að stofna vinnuhóp sem fær það verkefni að skoða framtíðarfyrirkomulag húsnæðismála leikskólans  Álfaborgar í Reykholti. Hlutverk vinnuhópsins verður að skoða framtíðarfyrirkomulag húsnæðismála leikskólans  þar sem m.a. komi fram hvort þörf sé á nýbyggingu, og þá stærð og staðsetningu hennar, ásamt  grófri kostnaðaráætlun. Gert er ráð fyrir því að vinnuhópurinn skili tillögum sínum, eða valkostum til sveitarstjórnar eigi síðar en á fundi sveitarstjórnar í apríl 2014. Lagt er til að vinnuhópinn skipi leikskólastjóri Álfaborgar, formaður fræðslunefndar og sveitarstjóri en hann verði jafnframt formaður vinnuhópsins.

Tillagan borin undir atkvæði og hún felld með 4 atkvæðum (DK, HK, JS og VS) en 3 greiddu atkvæði með tillögunni (MI, ÞÞ og KIH).

 

  1. Innsend erindi:

8.1.    Bréf Suðurlands FM 963, móttekið 29. október 2013; beiðni um samstarf.

Lagt fram bréf Suðurlands FM 963 þar sem óskað er eftir samstarfi við sveitarfélagið með það að markmiði að fundinn verði fréttaritari í sveitarfélaginu sem myndi vinna vikulegt fréttainnslag frá Bláskógabyggð með dagskrárgerðarfólki útvarpsstöðvarinnar.  Kostnaður Bláskógabyggðar fyrir utan vinnu fréttaritara væri kr. 7.000 + vsk á mánuði.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hafnar boðinu en óskar útvarpsstöðinni góðs gengis með verkefnið.

 

8.2.    Tölvuskeyti Kammerkórs Suðurlands, dags. 16. október 2013; styrkbeiðni.

Lagt fram tölvuskeyti Kammerkórs Suðurlands þar sem óskað er eftir fjárstyrk vegna tónleikaferðar kórsins til Lundúna þar sem kórinn mun m.a. koma fram í beinni útsendingu BBC fyrir tónleikanna.  Kórinn mun halda tónleika í Skálholti í lok maí n.k. þar sem styrktaraðilum verður sérstaklega boðið.

Lögð fram tillaga að sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykki að kaupa birtingu merkis Bláskógabyggðar á efnisskrá tónleikanna.

Samþykkt með 5 atkvæðum (DK, HK, JS, VS og KIH), einn á móti (MI) og einn sat hjá (ÞÞ).

 

Margeir Ingólfsson lagði fram eftirfarandi bókun:

Það hefur verið meginstefna sveitarstjórnar Bláskógabyggðar að beina styrkjum fyrst og fremst í barna- og unglingastarfið í sveitarfélaginu. Ég vil að sveitarstjórn „skerpi“ á þessari stefnu sinni og starfi í anda þess. Styrkveitingar til lista og menningar hafa verið settar í ákveðin farveg, t.d. með Menningarráði Suðurlands og á sveitarstjórn að beina umsækjendum þangað. Í þeirri umræðu sem hér hefur verið, hefur komið fram mikilvægi þess að til séu skýrar og einfaldar reglur sem sveitarstjórn beri að fara eftir við styrkveitingar. Ég tel það ekki  vera hlutverk sveitarstjórnar að ráðstafa skattfé sveitunga til fullfrískra, fullorðna einstaklinga svo þeir geti farið í skemmtiferðir erlendis. Með styrkveitingu þeirri sem sveitarstjórn var nú að samþykkja er verið að gefa ákveðið fordæmi og geri ég ráð fyrir því að í framtíðinni geti þeir sem ætla í utanlandsferðir sótt um styrk til þess til sveitarstjórnar. Það getur ekki verið á færi sveitarstjórnarmanna að segja til um það hvaða ferðir og hvaða áhugamál séu merkilegri en önnur og því „styrkhæf“. Ég hvet því alla sveitunga sem ætla að sinna sínum áhugamálum erlendis að sækja um styrk til sveitarstjórnar, enda hefur fordæmið verið gefið og jafnræði hlýtur að gilda.

 

8.3.    Erindi Rangárbakka ehf, móttekið 6. nóvember 2013; framlag til Hollvinasamtaka Rangárbakka.

Lagt fram bréf Rangárbakka ehf þar sem óskað er eftir loforði um fjárframlag í Hollvinasamtök Rangárbakka sem nýtt verði af Rangárbökkum ehf til greiðslu langtímaleigu á Rangárhöllinni.  Er þetta gert í þeim tilgangi að tryggja lausn á fjárhagsvanda Rangárhallarinnar.  Ef endanleg lausn á fjárhagsvanda Rangárhallarinnar  næst ekki mun lofað fjárframlag ekki verða innheimt.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða hafna erindinu.

 

  1. Efni til kynningar:

9.1.    Bréf Mannvirkjastofnunar, dags. 30. október 2013; gæðastjórnunarkerfi byggingarfulltrúa.

9.2.    Bréf Minjastofnunar, dags. 29. október 2013; deiliskipulagstillaga frístundabyggðar í landi Iðu II.

9.3.    Bréf Minjastofnunar, dags. 29. október 2013; lýsing deiliskipulagsáætlunar fyrir Kjóastaði 1, land 2.

9.4.    Bréf Minjastofnunar, dags. 29. október 2013; lýsing deiliskipulagsáætlunar fyrir Efri-Reyki, lóð 2.

9.5.    Greinargerð vinnuhóps um safnamál í Uppsveitum Árnessýslu 2013.

9.6.    Kerfisáætlun 2014 – 2023 Landsnets, Matsáætlun dags. október 2013.

 

Fundi slitið kl. 18:10.