155. fundur

  1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn

fimmtudaginn 6. febrúar 2014, kl 15:15

í Aratungu

 

 

Mætt voru:

Drífa Kristjánsdóttir, Helgi Kjartansson, Margeir Ingólfsson,  Jóhannes Sveinbjörnsson, Valgerður Sævarsdóttir, Jens Pétur Jóhannsson sem varamaður Þórarins Þorfinnssonar, Kristín Ingunn Haraldsdóttir, Valtýr Valtýsson sveitarstjóri og Sigurrós H. Jóhannsdóttir sviðsstjóri sem ritaði fundargerð.

 

  1. Fundargerðir til staðfestingar:

1.1     144. fundur byggðaráðs Bláskógabyggðar.
Samþykkt samhljóða.

 

1.2.    67. fundur skipulagsnefndar Uppsveita, ásamt afgreiðslum byggingarfulltrúa frá 28. desember  til 30. janúar 2014.

 

Mál nr. 1; Fyrirspurn Áningarstaður / bálhús við Laugarvatn.

Erindi Birgis Teitssonar, dags. 15. janúar 2014, þar sem óskað er eftir mati á því hvort vinningstillaga að bálhúsi á Laugarvatni samræmist gildandi skipulagi.  Skipulagsnefnd metur það svo að vinningstillagan samrýmist gildandi skipulagi.  Sveitarstjórn samþykkir samhljóða afstöðu skipulagsnefndar.

 

Mál nr. 2; Fyrirspurn_Dalbraut 10 farfuglaheimili.

Lögð fram tillöguteikningar sbr. bókun skipulagsnefndar frá 31.10. 2013.  Nefndin telur að nýtingarhlutfall verði að hámarki 0,8.  Einnig þarf að finna lausn á bílastæðum miðað við umfang starfseminnar í samráði við skipulagshönnuð.  Sveitarstjórn vísar einnig til afgreiðslu byggðaráðs á 144. fundi ráðsins, dagskrárlið 6.2.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010  að auglýsa breytingu á skipulagsskilmálum lóðarinnar Dalbraut 10 þannig að hámarksnýtingarhlutfall lóðarinnar verði 0,8.  Það hefur í för með sér að hámarks byggingarmagn á lóðinni verði allt að 1050 ferm.

 

Mál nr. 3; Fyrirspurn_Laugarvatn – skilti.

Lögð fram tillag að útliti og staðsetningu sameiginlegs skiltis nokkurra rekstraraðila á Laugarvatni, á horni Laugarvatnsvegar og Laugarbrautar.  Einnig er tillaga að staðsetningu skilta fyrir hvern rekstraraðila fyrir sig.  Sveitarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulagsnefndar samhljóða og gerir ekki athugasemd við fyrirliggjandi tillögur með fyrirvara um leyfi landeigenda og Vegagerðarinnar.

 

Mál nr. 4; Framkvæmdaleyfi Bláfell – smávirkjun / heimarafstöð.

Lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir 10 – 20 kW smávirkjun / heimarafstöð við Bláfell í Bláskógabyggð.  Lýsing deiliskipulagsins var kynnt skv. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga með auglýsingu sem birtist 21. janúar 2014 með athugasemdarfresti til 29. janúar s.l.  Engar athugasemdir bárust.  Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að kynna tillöguna skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga 123/2010 og felur skipulagsfulltrúa að leita umsagnar Forætisráðuneytis og Umhverfisstofnunar.

 

 

 

Mál nr. 5; Framkvæmdaleyfi Eyvindartunga – Lönguhlíðarnáma.

Lagt fram erindi Helgu Jónsdóttur dags. 27. janúar 2014 f.h. Eyvindartungu ehf þar sem sótt er um stækkun Lönguhlíðarnámu upp í 150.000 m3.   Skipulagsnefnd frestaði afgreiðslu og óskaði eftir nákvæmari gögnum.  Sveitarstjórn mun taka afstöðu til erindisins þegar skipulagsnefnd hefur fengið nákvæmari gögn og tekið afstöðu til umsóknarinnar.

 

Mál nr. 6;  Malartekja í og við veiðiár í Bláskógabyggð.

Lagt fram erindi Þorfinns Snorrasonar, dags. 7. janúar 2014.  Í erindinu er kynnt könnun sem gerð var f.h. Veiðifélags Árnesinga á staðsetningu og umfangi malartekju í Bláskógabyggð. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulagsnefndar.

 

Mál nr. 7; Afgreiðslur byggingarfulltrúa.

Afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 28. desember 2013 til 30. janúar 2014 lagðar fram til kynningar og samþykktar.

 

Mál nr. 9; Miðdalskot.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að skv. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga 123/2010 sé fallið frá grenndarkynningu þar sem ekki eru aðrir hagsmunaaðilar en umsækjandi og sveitarfélagið. Málinu vísað til afgreiðslu hjá byggingarfulltrúa.

 

Mál nr. 16; ASKBR Reykholt: Vegtenging Lyngbraut – Biskupstungnabraut.

Lögð fram ný tillaga að breytingu aðalskipulags þéttbýlisins í Reykholti, varðandi tengingu Lyngbrautar við Biskupstungnabraut.  Tillagan gerir ráð fyrir að hluti Lyngbrautar verði botnlangi út frá Biskupstungnabraut sem mun ná inn fyrir aðkomuna að Lyngbraut nr. 5.  Þá er aðkoma frá Bjarkarbraut að lóðinni Lyngbraut nr. 5 felld út.  Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að kynna tillögu að aðalskipulagsbreytingu skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og leita nýrrar umsagnar Vegagerðarinnar.

 

Mál nr. 17; Dsk Iða II – frístundabyggð við gamla Skálholtsveg.

Lögð fram að lokinn auglýsingu tillaga að deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Iðu II. Deiliskipulagssvæðið er um 11 ha að stærð og liggur á milli núverandi þjóðvegar og gamla Skálholtsvegar, neðan við frístundabyggð í austurhlíð Vörðufells.  Lóðirnar er 12 talsins og allar 0,8 ha að stærð.  Tillagan var auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þann 17. október 2013 með athugasemdafresti til 29. nóvember 2013.  Engar athugasemdir bárust.  Fyrir liggja umsagnir Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Minjastofnunar Íslands og Vegagerðarinnar. Deiliskipulagið er lagt fram með breytingum til að koma til móts við athugasemdir Vegagerðarinnar, þ.e. veghelgunarsvæði er sýnt auk þess sem fram kemur að óheimilt sé að gróðursetja innan veghelgunarsvæðis.  Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögunar með ofangreindum breytingum og með fyrirvara um að lóðirnar nái ekki inn fyrir veghelgunarsvæði.

 

Mál nr. 18; Dsk Miðdalskot.

Lögð fram að lokinni kynningu skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tillaga að deiliskipulagi fyrir bæjartorfu Miðdalskots auk nærliggjandi svæðis.  Tillagan var kynnt með auglýsingu sem birtist 21. janúar  með athugasemdarfresti til 29. janúar.  Fyrir liggja tvær athugasemdir / ábendingar.  Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu þar til fyrir liggja viðbrögð landeigenda við innkomnum athugasemdum / ábendingum.

 

Mál nr. 19; Dskbr. Laugarvatn – færsla á endurvarpsstöð.

Lögð fram tillaga Landforms ehf f.h. Mílu, um breytingu á deiliskipulagi Laugarvatns vegna nýrrar endurvarpsstöðvar MÍLU.  Í breytingunni felst að gert er ráð fyrir nýrri lóð fyrir endurvarpsstöð norðan við Dalbraut 12 og um leið verður núverandi fjarskiptamastur á húsi Dalbrautar 10 fjarlægt. Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu málsins og felur skipulagsfulltrúa að ræða við umsækjendur um aðra möguleika á staðsetningu endurvarpsstöðvar.

 

Mál nr. 20; Efri-Reykir – Deiliskipulag.

Lögð fram tillaga að deiliskipulagi 2,5 ha spildu úr landi Efri-Reykja við Brúará.  Fyrirhugað er að stofna lögbýli á spildunni og er í tillögunni gert ráð fyrir að heimilt verði að reisa allt að 180 fm íbúðarhús, 40 fm gestahús og 300 fm skemmu.  Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að skipulagsfulltrúa verði falið að kynna tillöguna skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og leita umsagnar Vegagerðarinnar.

 

Mál nr. 21; Kjóastaðir 1 – Breyting á aðalskipulagi.

Lögð fram að lokinni kynningu skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tillaga að breytingu á aðalskipulagi á spildu úr landi Kjóastaða.  Í breytingunni felst að 12 ha spilda vestan aðkomu að bæjartorfu Kjóastaða breytist úr landbúnaðarsvæði í svæði fyrir verslun og þjónustu. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að auglýsa tillöguna skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samhliða tillögu að deiliskipulagi svæðisins, þegar gerðar hafa verið lagfæringar í samræmi við athugasemdir Skipulagsstofnunar.

 

Mál nr. 22; Kjóastaðir 1 – Deiliskipulag.

Lögð fram tillaga að deiliskipulagi tæplega 12 ha spildu úr landi Kjóastaða (lnr. 220934), vestan við aðkomuveg að bæjartorfu Kjóastaða.  Í tillögunni er gert ráð fyrir að nýta svæðið að hluta fyrir tjaldsvæði auk þess sem heimilt verður að reisa tvö hús fyrir gistingu og veitingarekstur.  Tillagan er í samræmi við tillögu að breytingu á aðalskipulagi svæðisins, sem er einnig til umfjöllunar á fundinum.  Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að auglýsa tillöguna skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samhliða breytingu á aðalskipulagi svæðisins.

 

Mál nr. 23; VR í Miðhúsaskógi – tilfærsla byggingarreits nr. 25.

Lagt fram erindi Yngva Þórs Loftssonar Landmótun, f.h. VR, þar sem óskað er eftir heimild til að færa byggingarreit á húsi nr. 25 á orlofssvæði VR í Miðhúsaskógi um 8 metra til suðurs. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða afstöðu og afgreiðslu skipulagsnefndar og telur ekki þörf á að breyta deiliskipulaginu vegna þessa þar sem hagsmunir nágranna skerðast í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.  Útgáfu byggingarleyfis er vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

 

1.3.    8. vinnufundur um endurskoðun aðalskipulags Bláskógabyggðar.
Samþykkt samhljóða.

 

1.4.    9. vinnufundur um endurskoðun aðalskipulags Bláskógabyggðar.
Samþykkt samhljóða.

 

1.5.   30. fundur fræðslunefndar Bláskógabyggðar.
Sveitarstjórn samþykkir að leikskólastjóri  hefji undirbúning að taka inn yngri börn

en nú er í samráði við fræðslunefnd Bláskógabyggðar og skili inn tillögu um

skipulag og framkvæmd inn til sveitarstjórnar Bláskógabyggðar til samþykktar.

Samþykkt samhljóða.

 

  1. Fundargerðir til kynningar:

2.1.    476. fundur stjórnar SASS.

2.2.    165. fundur skólanefndar Tónlistarskóla Árnesinga.

 

  1. Starf sviðsstjóra Þjónustu- og framkvæmdasviðs Bláskógabyggðar.

Vísað er til 5. dagskrárliðar á 144. fundi byggðaráðs Bláskógabyggðar.  Sveitarstjóri hefur haft samband við ráðningaskrifstofu og fyrir liggur verðtilboð fyrir þá þjónustu. Lögð var fram til umræðu auglýsing sem birt var þegar þetta starf var auglýst laust til umsóknar 2011.  Einnig var lögð fram til umræðu starfslýsing starfs sviðsstjóra ásamt skipuriti Bláskógabyggðar.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að starf sviðsstjóra Þjónustu- og framkvæmdasviðs verði auglýst sem fyrst laust til umsóknar og að samið verði við Capacent um ráðningarferlið á grundvelli fyrirliggjandi tilboðs um þá þjónustu.

Oddvita og sveitarstjóra falið að gera lagfæringar á starfslýsingu fyrir sviðsstjóra Þjónustu- og framkvæmdasviðs samkvæmt umræðu sem átti sér stað á fundinum.

 

  1. Umræða um landsvæði sem hafa verið sett í verndarflokk í rammaáætlun.

Umræða varð um fyrirhugaða vinnu Umhverfisstofnunar um friðlýsingu landsvæða sem sett voru í verndarflokk í rammaáætlun.  Oddviti upplýsti að engin vinna væri í gangi núna og að engir fundir hafa verið haldnir í vinnuhópum sem skipaðir voru.

 

  1. Mál nr. 3 í fundargerð 65. fundar skipulagsnefndar; Vað 3 í landi Brúar.

Umræddu máli var frestað á 153. fundi sveitarstjórnar.  Sveitarstjórn Bláskógabyggðar óskar eftir því við embætti skipulags- og byggingarfulltrúa að gerð verði úttekt á gámum sem staðsettir eru í sveitarfélaginu án heimildar, hvort sem þeir eru ofan jarðar eða neðan.  Út úr úttektinni skal m.a. koma hversu margir gámarnir eru, hvar þeir eru staðsettir og síðan fylgi tillögur embættisins þess efnis hvernig taka skuli á þessum gámum og umsóknum um leyfi fyrir gámum. Málinu frestað þar til tillögur embættisins liggja fyrir.

 

  1. Þingmál til umsagnar:

6.1.    Þingmál nr. 250; frumvarp til laga um framkvæmdavald og stjórnsýslu ríkisins í héraði.

Lagt fram frumvarp til laga um framkvæmdavald og stjórnsýslu ríkisins í héraði.  Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemdir við fram lagt frumvarp og telur jafnframt að um framfararskref sé að ræða.

6.2.    Þingmál nr. 251; frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum nr. 90/1996.

Lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum.  Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemdir við fram lagt frumvarp og telur jafnframt að um framfararskref sé að ræða.

 

  1. Innsend erindi:

7.1.    Bréf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, dags. 13. janúar 2014; gjaldskrárbreytingar.

Lagt fram bréf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, dags. 13. janúar 2014, þar sem hvatt er til þess að endurskoða ákvarðanir um gjaldskrárhækkanir hjá hitaveitum, dreifiveitum og flutningsfyrirtækjum raforku.  Ráðuneytið hefur ítrekað ósk sína um afstöðu sveitarstjórnar til gjaldskrárhækkunar Bláskógaveitu sem samþykkt hefur verið.  Er óskað eftir svari sveitarstjórnar áður en ný gjaldskrá Bláskógaveitu verður afgreidd hjá ráðuneytinu.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar staðfestir að ekki verði gerð breyting á fyrri ákvörðun um gjaldskrárhækkun Bláskógaveitu.  Sveitarstjórn vill benda á að ítrasta  aðhald og varkárni var viðhöfð við endurskoðun gjaldskrárinnar.  Hækkunin sem þar kemur fram er allnokkru lægri en verðbreyting síðasta árs.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar óskar eftir því að ráðuneytið staðfesti fyrirliggjandi gjaldskrá Bláskógaveitu.

 

7.2.    Tölvuskeyti Frjálsíþróttasambands Íslands dags. 29. janúar 2014; styrkbeiðni.

Lagt fram tölvuskeyti Frjálsíþróttasambands Íslands þar sem óskað er eftir fjárstyrk með kaupum á happdrættismiðum.  Erindinu hafnað.

 

7.3.    Bréf Óbyggðanefndar dags. 20. janúar 2014;  krafa um þjóðlendu á Langjökli.

Lagt fram bréf Óbyggðanefndar þar sem fram kemur krafa íslenska ríkisins um þjóðlendur í Mýra- og Borgarfjarðarsýslum ásamt Langjökli.

Oddviti kynnti að haldinn hafi verið fundur með Ólafi Björnssyni, lögmanni hjá Lögmönnum Suðurlandi.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að veita Ólafi Björnssyni fullt umboð til þess að koma athugasemdum og afstöðu sveitarstjórnar Bláskógabyggðar á framfæri við Óbyggðanefnd.

 

7.4.    Bréf Astrid Kooij og fl. dags. 4. febrúar 2014; vegna lokunar Lyngbrautar.

Lagt fram bréf frá Astrid Kooij, Steinari Jensen og Hólmfríði Geirsdóttur þar sem gerðar eru athugasemdir við hugmyndir um lokun Lyngbrautar.  Sveitarstjórn vísar til afgreiðslu dagskrárliðar nr. 2.1. mál nr. 16.  Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að umrætt bréf verði sent til skipulagsfulltrúa þar sem efni bréfsins snertir fyrirhugaða breytingu á aðalskipulagi Reykholts hvað varðar vegtengingu Lyngbrautar við Biskupstungnabraut og að Lyngbraut verði lokaður botnlangi.

 

Fundi slitið kl. 17:15.