156. fundur
- fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn
fimmtudaginn 6. mars 2014, kl 13:00
í Aratungu
Mætt voru:
Drífa Kristjánsdóttir, Helgi Kjartansson, Margeir Ingólfsson, Kjartan Lárusson sem varamaður Jóhannesar Sveinbjörnssonar, Valgerður Sævarsdóttir, Þórarinn Þorfinnsson, Kristín Ingunn Haraldsdóttir, Valtýr Valtýsson sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.
- Fundargerðir til staðfestingar:
1.1 145. fundur byggðaráðs Bláskógabyggðar.
Fundargerð samþykkt samhljóða.
1.2. 68. fundur skipulagsnefndar Uppsveitanna, ásamt afgreiðslum byggingarfulltrúa frá 31. janúar til 19. febrúar 2014.
Mál nr. 2; Fyrirspurn_Rjúpnastekkur 5-7.
Lagt fram erindi eigenda lóðanna Rjúpnastekks 5 og 7 í landi Miðfells, þar sem fram kemur fyrirspurn um hversu mikið megi byggja á lóðunum, hvort sameina þurfi lóðirnar og hvort að fara þurfi með framkvæmdir í grenndarkynningu. Sveitarstjórn staðfestir svar skipulagsnefndar, að heimilt sé að byggja allt að 60 fm hús á hvorri lóð fyrir sig með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar þar sem ekki liggur fyrir staðfest deiliskipulag af svæðinu.
Mál nr. 3; Skálabrekka lóð 170768 – Fyrirspurn.
Lögð fram fyrirspurn Sigurðar Hallgrímssonar hvort leyft verði að rífa núverandi bústað á lóðinni og byggja nýjan á sama stað. Húsið sem um ræðir stendur um 15 m frá vatni og er 60 fm. Sveitarstjórn samþykkir afgreiðslu skipulagsnefndar og tekur jákvætt í erindið en leggur áherslu á að fyrirhuguð bygging og önnur mannvirki fari hvergi nær vatni en það sem fyrir er og að húsið verði ekki stærra en núverandi hús.
Mál nr. 5; Afgreiðslur byggingarfulltrúa.
Lagðar fram afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 31. janúar fram til 19. febrúar 2014.
Mál nr. 6; Heiðarbær lóð 170231 – breytt stærð.
Lagt fram erindi Magnúsar Magnússonar f.h. lóðarhafa þar sem óskað er eftir að stærð lóðarinnar sem í dag er skráð 3.750 fm verði skráð 11.100 fm skv. lóðarblaði dagsettu 27.08.07. Skv. tillögu að deiliskipulagi fyrir Heiðarbæ sem ekki hefur tekið gildi, sjá mál nr. 490, þá er ofangreind lóð sögð 11.075 fm að stærð. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða breytingu á stærð lóðarinnar í samræmi við fyrirliggjandi lóðarblað, með vísun í 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með fyrirvara um samþykki aðliggjandi lóðarhafa.
Mál nr. 16; Askbr. Bláskógabyggð – Austurey 1.
Lagt fram erindi Kjartans Lárussonar þar sem óskað er eftir breytingu á aðalskipulagi Austureyjar 1 í samræmi við meðfylgjandi deiliskipulagsuppdrátt þar sem gert er ráð fyrir að umræddu svæði verði breytt úr íbúðarlóðum í þjónustusvæði fyrir ferðamenn. Sveitarstjórn samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að kynna lýsingu breytingarinnar skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og leita umsagnar Skipulagsstofnunar. Kjartan Lárusson vék af fundi við afgreiðslu þessa dagskrárliðar.
Mál nr. 17; Askbr. Lækjarhvammur – vatnsaflsvirkjun.
Lagt fram erindi Gunnars Hafsteinssonar þar sem óskað er eftir að gerð verði breyting á aðalskipulagi sveitarfélagsins í landi Lækjarhvamms. Í breytingunni felst að gert verði ráð fyrir allt að 480 kW rennslisvirkjun í Heiðará og Þverá. Fyrir liggur niðurstaða Skipulagsstofnunar dags. 18. desember 2013 varðandi matsskyldu framkvæmdarinnar. Að mati sveitarstjórnar er um verulega breytingu á aðalskipulagi að ræða og samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að kynna lýsingu breytingarinnar skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og leita umsagnar Skipulagsstofnunar.
Mál nr. 18; Dsk friðlandið við Gullfoss – lýsing og matslýsing.
Lögð fram að lokinni kynningu skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tillaga að deiliskipulagi friðlands við Gullfoss og næsta nágrenni. Tillagan var kynnt með auglýsingu sem birtist 21. janúar 2014 auk þess sem hún var send til umsagnar ýmissa stofnanna og hagsmunaaðila. Fyrir liggja umsagnir frá Vegagerðinni, Hrunamannahreppi, Ferðamálastofu og Heilbrigðiseftirliti Suðurlands. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að auglýsa fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi og umhverfismat hennar skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með breytingum til að koma til móts við fyrirliggjandi umsagnir m.a. að breyta skipulagsmörkum þannig að þau nái ekki inn fyrir sveitarfélagsmörk Hrunamannahrepps.
Mál nr. 19; Dsk Miðdalskot.
Lögð fram að nýju, að lokinni kynningu skv. 4. mgr. 40. gr skipulagslaga, tillaga að deiliskipulagi fyrir bæjartorfu Miðdalskots auk nærliggjandi svæðis. Tillagan var kynnt með auglýsingu sem birtist 21. janúar 2014 með athugasemdarfresti til 29. janúar 2014. Fyrir liggja tvær athugasemdir / ábendingar. Nú liggur fyrir endurskoðaður deiliskipulagsuppdráttur þar sem komið er til móts við athugasemdir með því að fækka fyrirhuguðum útleiguhúsum úr 10 í 5, vegur að lóðinni færður fjær auk þess sem byggingarreitur er einnig færður fjær núverandi frístundabyggð. Að auki liggja fyrir umsagnir Minjastofnunar Íslands og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Sveitarstjórn samþykkir að auglýsa deiliskipulagstillöguna skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem komið hefur verið til móts við innkomnar athugasemdir.
Mál nr. 21; Dskbr. Torfastaðir – skilmálabreyting.
Lagt fram erindi Drífu Kristjánsdóttur þar sem óskað er eftir breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Torfastaða. Í breytingunni er gert ráð fyrir að þakhalli verði 0 – 45 gráður í stað 15 – 45. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að um óverulega breytingu sé að ræða og samþykkir hana skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar fyrir núverandi lóðarhöfum innan skipulagssvæðisins. Drífa Kristjánsdóttir vék af fundi við afgreiðslu þessa dagskrárliðar.
1.3. 10. vinnufundur um endurskoðun aðalskipulags Bláskógabyggðar.
Fundargerðin samþykkt samhljóða. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að haldinn verði opinn dagur fyrir íbúa Bláskógabyggðar þar sem lýsing verður kynnt og íbúum gefinn kostur á að eiga samtal við ráðgjafa og koma sínum hugmyndum á framfæri. Vinnuhópi er falið að finna heppilega tímasetningu fyrir opinn dag.
- Fundargerðir til kynningar:
2.1. 233. fundur stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands.
- Aðkomuvegur að lóðum Eflingar í Reykholti.
Sveitarstjóri greindi sveitarstjórn frá viðræðum sem átt hafa sér stað í kjölfar bókunar sveitarstjórnar á 153. fundi sínum þann 5. desember 2013. Fram kemur að Efling óskar eftir að gerður verði aðkomuvegur að lóðum Eflingar í Reykholti svo hægt verði að hefja framkvæmdir við byggingu húsa á lóðum nú í sumar. Ekki er algerlega um hefðbundna hönnun aðkomuvegar að ræða, að teknu tilliti til lagningu fráveitulagna við framkvæmdirnar. Sveitarstjórn þarf því að semja við Eflingu um greiðslu gatnagerðargjalda og hvernig verði staðið að lagningu fráveitu og viðtaka í tengslum við uppbyggingu húsa á skipulögðum lóðum Eflingar.
Umræða varð um með hvaða hætti skuli staðið að lagningu þessa aðkomuvegar og var sveitarstjóra ásamt oddvita og sviðsstjóra Þjónustu- og framkvæmdasvið falið að semja við Eflingu um greiðslu gatnagerðargjalda og tímasetningu framkvæmda. Jafnframt verði leitað til Tæknisviðs Uppsveitanna um tæknileg atriði frá hendi sveitarfélagsins. Samkomulag milli Bláskógabyggðar og Eflingar um verkefnið verði síðan lagt fyrir sveitarstjórn til samþykktar þegar það liggur fyrir.
- Skipulags- og byggingarmál:
4.1. Fyrirspurn frá byggingarfulltrúa, dags. 25. febrúar 2014; stækkun veitingaaðstöðu í Háholti 1, Laugarvatni.
Lagt fram tölvuskeyti byggingarfulltrúa þar sem fram kemur fyrirspurn um heimild til stækkunar á veitingaaðstöðu í Háholti 1 á Laugarvatni.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að leyfa þessa breytingu á byggingarreit skv. 2. mgr 43. gr. skipulgslaga nr. 123/2010, þ.e.a.s. að um óverulega breytingu á deiliskipulagi er að ræða sem skal grenndarkynnt. Skipulags- og byggingarfulltrúa er falið að vinna málið áfram á þessum forsendum.
4.2. Tölvuskeyti Helgu Þorbergsdóttur og Sigurgeirs M. Jenssonar, dags. 25. febrúar 2014; skógrækt í landi Helludals.
Lagt fram tölvuskeyti Helgu Þorbergsdóttur og Sigurgeirs M. Jenssonar þar sem óskað er eftir heimild til útplöntunar barrtrjáa í landi Helludals í framhaldi af skógræktarsvæði í Haukadal.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að vísa þessu erindi til embættis Skipulags- og byggingarfulltrúa Uppsveita bs. til afgreiðslu.
4.3. Bréf Skipulags- og byggingarfulltrúa Uppsveita bs. dags. 26. febrúar 2014; úttekt á gámum án leyfis í Bláskógabyggð.
Lagt fram bréf Skipulags- og byggingarfulltrúa Uppsveita bs. þar sem fram koma viðbrögð embættisins við bókun sveitarstjórnar á 155. fundi, dagskrárliður 5.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að óska eftir afstöðu þeirra sveitarfélaga sem standa að rekstri Skipulags- og byggingarfulltrúa Uppsveita bs. hvort vilji sé fyrir því að endurskoða og setja skýrari reglur um staðsetningu og nýtingu gáma á lóðum og lendum innan sveitarfélaganna.
4.4. Bréf Skipulags- og byggingarfulltrúa Uppsveita bs. dags. 27. febrúar 2014; Malarnám í landi Syðri-Reykja í Bláskógabyggð.
Lögð fram bréf sem borist hafa vegna malarnámu í landi Syðri-Reykja:
Dóru S. Gunnarsdóttur, dags. 23. febrúar 2014
Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, dags. 24. febrúar 2014
Skipulags- og byggingarfulltrúa Uppsveita bs. dags. 27. febrúar 2014
Umrædd náma er ekki merkt sem efnisnáma í aðalskipulagi. Sveitarfélagið hefur ekki gefið út framkvæmdaleyfi fyrir efnistökunni og ekki hefur verið gefið út starfsleyfi af Heilbrigðiseftirliti Suðurlands. Skipulagsfulltrúi hefur fengið upplýsingar frá landeiganda um að verið sé að vinna að umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir umræddri námu. Sveitarstjórn bendir á að efnistaka á þessum stað er óheimil og felur skipulagsfulltrúa að tryggja að óleyfisframkvæmd eigi sér ekki stað á umræddum efnistökustað. Landeigandi verði að hafa öll tilskilin leyfi eins og lög kveða á um áður en efnistaka á sér stað.
4.5. Lýsing; Landsskipulagsstefna 2015 – 2026.
Lögð fram lýsing Landsskipulagsstefnu 2015 – 2026. Sveitarstjórn hefur engar athugasemdir við fram lagða lýsingu og fagnar því að bætt hafi verið við áherslu um landnotkun í dreifbýli.
- Aratunga, starfsemi og þjónusta.
Lagt fram minnisblað oddvita, dags. 27. febrúar 2014, um störf umsjónarmanns fasteigna í Reykholti. Umræður urðu um félagsheimilið Aratungu og aukna nýtingu þess. Sveitarstjórn fagnar því að nýting húsnæðisins hafi aukist eins og raun ber vitni.
Fyrir ári síðan var samþykkt að störf umsjónarmanns verði endurmetin í lok starfsárs 2013 þar sem umrætt starf hefur verið í þróun. Verið er að vinna að yfirliti yfir störf umsjónarmanns fyrir árið 2013 með sama hætti og gert var fyrir starfsárið 2012 og verður samantekt lögð fyrir byggðaráð Bláskógabyggðar á næsta fundi. Þá liggja fyrir forsendur sem er grundvöllur fyrir endurskoðun á starfslýsingu umsjónarmanns. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela sviðsstjóra þjónustu- og framkvæmdasviðs, sveitarstjóra og formanni byggðaráðs að yfirfara starfslýsingar starfsmanna í Aratungu og skila hugmyndum sínum fyrir næsta fund byggðaráðs.
- Innsend erindi:
6.1. Bréf Ungmennafélags Íslands, dags. 28. febrúar 2014; auglýsing eftir umsóknum frá sambandsaðilum UMFÍ vegna 6. Landsmóts UMFÍ 50+ árið 2016.
Lagt fram bréf UMFÍ þar sem auglýst er eftir umsóknum frá sambandsaðilum og sveitarfélögum um að taka að sér undirbúning og framkvæmd 6. Landsmóts UMFÍ 50+ 2016. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að standa ekki að slíkri umsókn.
6.2. Bréf Ungmennafélags Íslands, dags. 28. febrúar 2014; auglýsing eftir umsóknum frá sambandsaðilum UMFÍ vegna 20. Unglingalandsmóts UMFÍ 2017.
Lagt fram bréf UMFÍ þar sem auglýst er eftir umsóknum frá sambandsaðilum og sveitarfélögum um að taka að sér undirbúning og framkvæmd 20. Unglingalandsmóts UMFÍ 2017. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að standa ekki að slíkri umsókn.
6.3. Tölvuskeyti Ásborgar Arnþórsdóttur, dags. 27. febrúar 2014; leyndardómar Suðurlands.
Lagt fram tölvuskeyti Ásborgar Arnþórsdóttur þar sem komið er á framfæri hugmyndum um viðburði í tengslum við kynningarátakið „Leyndardómar Suðurlands“. Sem dæmi er tekið að frítt verði í sund einn dag eða eina helgi og þá hugsanlega væri einhver dagskrá á þeim tíma s.s. sundleikfimi eða sundkennsla. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar tekur vel í þessar hugmyndir og samþykkir að frítt verði í sund þann 29. mars 2014.
6.4. Bréf Vina Tungnarétta, dags. 28. febrúar 2014; styrkbeiðni.
Lagt fram bréf Vina Tungnarétta þar sem óskað er eftir fjárstyrk á móti húsaleigu Aratungu vegna sviðaveislu sem haldin var þann 23. nóvember 2013. Um er að ræða styrk að upphæð kr. 70.000. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að veita umbeðinn styrk.
- Efni til kynningar.
7.1. Ársreikningur Vina Tungnarétta fyrir árið 2013.
7.2. Bréf UMFÍ, dags. 28. febrúar 2014; ungmennaráðstefna UMFÍ 9. – 11. apríl 2014.
7.3. Niðurstaða skoðunarkönnunar SASS um gjaldtöku á ferðamannastöðum.
Fundi slitið kl. 14:30.