158. fundur

  1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn

fimmtudaginn 3. apríl 2014, kl 15:15

í Aratungu

 

Mætt voru:

Drífa Kristjánsdóttir, Helgi Kjartansson, Margeir Ingólfsson,  Jóhannes Sveinbjörnsson, Valgerður Sævarsdóttir, Þórarinn Þorfinnsson, Kristín Ingunn Haraldsdóttir boðaði forföll, Valtýr Valtýsson sveitarstjóri og Sigurrós H. Jóhannsdóttir sviðsstjóri sem ritaði fundargerð.

 

Oddviti lagði fram tillögu að dagskrárbreytingu, að inn komi tveir nýir dagskrárliðir 4.3 og 4.4.  Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

  1. Fundargerðir til staðfestingar:

1.1     146. fundur byggðaráðs Bláskógabyggðar.

Samþykkt samhljóða.

 

1.2.    69. fundur skipulagsnefndar Uppsveitanna, ásamt afgreiðslum byggingarfulltrúa frá 20. febrúar  til 20. mars 2014.

 

Mál nr. 1; Erindi_Laugarvatn – göngustígur.

Lagt fram erindi Sigurðar R. Hilmarssonar, dags. 13. mars 2014 þar sem óskað er eftir leyfi til að gera timburgöngustíg milli girðingar og vatns fyrir framan hverasvæðið á Laugarvatni og malarstíg frá austurhorni girðingar við hver og upp að rútustæði við Laugarvatn Fontana.  Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við að settur verði upp timburgöngustígur við hverinn og malarstígur í framhaldi af honum sbr. ofangreinda beiðni, með fyrirvara um að þess verði gætt að ekki verði lokað á svæði sem íbúar á svæðinu nota til að baka brauð.

 

Mál nr. 5; Kæra til ÚUA_Miðfell – sameining lóða 16 og 18.

Lagt fram, til kynningar, bréf úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 5. mars 2014 þar sem tilkynnt er um kæru vegna synjunar um sameiningu frístundalóða nr. 16 og 18 í landi Miðfells.  Sveitarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsnefndar og felur skipulagsfulltrúa að vinna drög að umsögn um ofangreinda kæru sem lögð verði fram á næsta fundi skipulagsnefndar.

 

Mál nr. 6; Afgreiðslur byggingarfulltrúa.

Lagðar fram afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 20. febrúar til 20. mars 2014 til kynningar.

 

Mál nr. 10; LB_Brattholt – 2 spildur.

Lagt fram erindi Svavars Njarðarsonar dags. 28. febrúar 2014 þar sem óskað er eftir að stofnaðar verði tvær spildur úr landi Brattholts (lnr. 167065) til samræmis við meðfylgjandi afsal.  Annars vegar er um að ræða 58 ha spilda í kringum Gullfosskaffi og hinsvegar  8,4 ha spilda sem kallast Stekkjartún umhverfis íbúðarhúsalóð Svavars, suðvestan bæjartorfu Brattholts.  Með erindinu fylgja lóðarblöð sem sína hnitsetta afmörkun spildnanna, undirrituð af núverandi eigenda. Sveitarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsnefndar og gerir ekki athugasemd við að stofnun ofangreindra lóða með vísun í 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og ekki er gerð athugasemd við landsskipti skv. 13. gr. jarðalaga, með fyrirvara um samþykki aðliggjandi landeigenda á hnitsetningu lóðarmarka.

 

Mál nr. 11; LB_Fellskot.

Lagður fram uppdráttur sem sýnir hnitsetningu frístundahúsalóða úr landi Fellskots. Óskað hefur verið eftir að stærð lóðanna verði breytt til samræmis við nýja hnitsetningu lóðanna. Sveitarstjórn gerir ekki athugsemd við að stærð og afmörkun lóða innan svæðisins verði breytt til samræmis við fyrirliggjandi gögn ef fyrir liggur samþykki eigenda og umráðenda þess lands sem hnitsetning nær til.

 

Mál nr. 13; Sandskeið G-Gata 4.

Sveitarstjórn samþykkir að grenndarkynna umsóknina í samræmi við 44. gr. skipulagslaga.

 

Mál nr. 23; Askbr. Kjarnholt 1 lóð 3 lnr. 209270.

Lögð fram að lokinni auglýsingu skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslanga nr. 123/2010 tillaga að breytingu á aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 sem felst í að um 14 ha spilda úr landi Kjarnholta breytist úr svæði fyrir frístundabyggð í landbúnaðarsvæði. Fyrirhugað er að breyta núverandi frístundahúsalóð á svæðinu í lögbýli. Aðalskipulagsbreytingin var auglýst 23. janúar 2014, ásamt tillögu að breytingu á deiliskipulagi svæðisins, með athugasemdafresti til 7. mars 2014. Engar athugasemdir bárust.  Sveitarstjórn samþykkir aðalskipulagsbreytinguna óbreytta og felur skipulagsfulltrúa að senda málið til staðfestingar Skipulagsstofnunar í samræmi við 2. mgr. 32. gr. skipulagslaga.

 

Mál nr. 24; Askbr. Úthlíð – Höfðaflatir.

Lagt fram erindi Eflu verkfræðistofu dags. 17. mars 2014, f.h. landeigenda, þar sem óskað er eftir að gerð verði breyting á aðalskipulagi Biskupstungnahrepps þannig að heimiluð verði efnistaka í námu á Höfðaflötum í landi Úthlíðar. Óskað er eftir allt að 30 þúsund rúmmetra efnistöku. Svæðið er í aðalskipulagi á grannsvæði vatnsverndar. Sveitarstjórn samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að kynna lýsingu aðalskipulagsbreytingar í samræmi við fyrirliggjandi gögn og leita umsagnar Skipulagsstofnunar.

 

Mál nr. 25; Dskbr. Kjarnholt 1 lóð 3 lnr. 209270.

Lögð fram, að lokinni auglýsingu skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga, tillaga að breytingu á deiliskipulagi sem í dag nær yfir fimm frístundahúsalóðir á bilinu 0,7 til 12,3 ha að stærð, auk 10 ha svæðis sem eingöngu ætlað er til beitar, skógræktar, jarðyrkju eða annarrar frístundaiðju. Í breytingunni felst að fyrirhugað er að breyta hluta deiliskipulagssvæðisins í landbúnaðarsvæði þar sem stofnað verður nýtt lögbýli. Landbúnaðarsvæðið mun ná til alls svæðisins utan lóða I og II, eða samtals til um 12 ha svæðis. Í dag er eingöngu heimilt að reisa frístundahús og geymslu, en breytt deiliskipulag gerir ráð fyrir að í stað frístundahúss verði heimilt að reisa íbúðarhús, skemmu og/eða útihúss auk þess sem heimilt verður að vera með minniháttar ferðaþjónustu í samræmi við ákvæði aðalskipulags. Tillagan var auglýst 23. janúar 2014, samhliða breytingu á aðalskipulagi svæðisins, með athugasemdafrest til 7. mars 2014. Engar athugasemdir bárust. Sveitarstjórn samþykkir deiliskipulagsbreytinguna óbreytta og felur skipulagsfulltrúa að senda málið til afgreiðslu Skipulagsstofnunar í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga.

 

1.3.    70. fundur skipulagsnefndar Uppsveitanna ásamt afgreiðslum byggingarfulltrúa frá 21. mars til 26. mars 2014.

 

Mál nr. 4; Fyrirspurn_Fellsendi.

Lagt fram erindi Sigurðar B. Baldvinssonar og Claire Thulliez um hvort að samþykkt yrði stofnun nýs lögbýlis á 119 ha spildu úr landi Fellsenda sem þau hafa hug á að kaupa. Ef leyfi fengist gera þau ráð fyrir að reisa íbúðarhús, starfsmannahús og hús undir starfsemi fyrirtækis þeirra, Hundasleðaferðir ehf. Nefndin mælir ekki með að stofnað verði nýtt lögbýli á þessum stað þar sem vegna aðstæðna gæti verið erfitt að veita íbúum lögbundna þjónustu. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að staðfesta afgreiðslu skipulagsnefndar.

 

Mál nr. 5; Haukadalur 4.

Fyrirspurn hvort leyft verði að stækka söluskála, um 3m til austurs. Ekki er byggingarreitur fyrir stækkunina á gildandi deiliskipulagi. Nefndin samþykkir óverulega breytingu á deiliskipulagi, þannig að byggingarreitur fyrir þjónustumiðstöð stækki um 3m til austurs. Sveitarstjórn samþykkir afgreiðslu skipulagsnefndar og telur ekki þörf á grenndarkynningu.

 

Mál nr. 8; Frkvl. Biskupstungnabraut frá Múla að Neðra-Dal.

Lagt fram erindi Vegagerðarinnar dags. 20. mars 2014 þar sem óskað er eftir framkvæmdarleyfi þar sem fyrirhuguð er breikkun vegarins í 8 m og endurbætur á 3,8 km kafla Biskupstungnabrautar frá Múla að Neðra-Dal, sem áætlað er að muni eiga sér stað áfangaskipt komandi sumar og standa fram undir lok sumars 2015. Sveitarstjórn samþykkir að veitt verði framkvæmdaleyfi fyrir ofangreindri framkvæmd en minnt er á að allt efni sem fer í veginn þarf að koma úr efnistökusvæðum sem eru í samræmi við gildandi aðalskipulag og með framkvæmdaleyfi.

 

Mál nr. 9; Frkvl. Kjalvegur – efnistaka.

Lagt fram erindi Vegagerðarinnar dags. 25. mars 2014 þar sem óskað er eftir framkvæmdarleyfi fyrir efnistöku úr 10 námum, staðsettum sbr. meðfylgjandi yfirlitsmynd, alls um 42.000 m3, þar sem fyrirhugað er að vinna meira í Kjalvegi en hefðbundið hefur verið. Sveitarstjórn samþykkir að veita framkvæmdaleyfi fyrir ofangreindri framkvæmd þar sem allar námurnar eru í aðalskipulagi, og óskar eftir lagfærðum gögnum í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi.

 

Mál nr. 10; Kæra til ÚUA_Miðfell – sameining lóða 16 og 18.

Lögð fram tillaga skipulagsfulltrúa að umsögn vegna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála varðandi ákvörðun um að hafna sameiningu frístundahúsalóða í landi Miðfells. Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi umsögn.

 

Mál nr. 11; Úttekt á gámum án leyfis í Bláskógabyggð.

Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar dags. 6. mars 2014 var lagt fram bréf skipulagsfulltrúa dags. 26. febrúar 2014 varðandi úttekt á gámum án leyfis í Bláskógabyggð. Samþykkti sveitarstjórn að óska eftir afstöðu þeirra sveitarfélaga sem standa að rekstri Skipulags- og byggingarfulltrúa Uppsveita bs. hvort vilji sé fyrir því að endurskoða og setja skýrari reglur um staðsetningu og nýtingu gáma á lóðum og lendum innan sveitarfélaganna. Skipulagsnefnd telur mikilvægt að unnar séu sameiginlegar vinnureglur um leyfisveitingu fyrir gáma.  Sveitarstjórn fagnar þeirri afstöðu skipulagsnefndar.

 

Mál nr. 13; Afgreiðslur byggingarfulltrúa.

Lagðar fram afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 21. mars til 26. mars 2014 til kynningar.

 

Mál nr. 15; LB_Einiholt lnr. 167081 – ný spilda.

Lagt fram lóðablað sem sýnir nýja 1.450 fm lóð úr landi Einiholts lnr. 167081. Á lóðinni er hlaða fnr. 220-4498 mhl. 22. Tengibygging á milli hlöðu og fjóss sem stendur yfir lóðamörk verður rifin. Sveitarstjórn samþykkir stofnun lóðarinnar með vísun í 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gerir ekki athugasemd við landsskipti skv. 13. gr. jarðalaga.

 

Mál nr. 17; LB_Heiðarbær lóð lnr. 170186.

Lagt fram erindi Haraldar Arnar Jónssonar dags. 7. janúar 2014 þar sem óskað er eftir að stærð lóðar úr landi Heiðarbæjar með lnr. 170186 verði lagfærð þannig að hún verði 1,5 ha að stærð í stað 1,4 ha. Jafnframt er óskað eftir að stofnuð verði ný 14.995 fm lóð til samræmis við samkomulag ráðuneytisins og fyrirhugaðra lóðarhafa og að heimilaðar verði byggingarframkvæmdir á grunni 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á málið sér langa forsögu og liggur m.a. fyrir niðurstaða hæstaréttar varðandi lóðarréttindi á svæðinu. Fyrir liggur samþykki landeigenda dags. 6. janúar 2014 fyrir ofangreindum gjörningi. Sveitarstjórn samþykkir lagfæringu á stærð lóðar með lnr. 170186 og stofnun nýrrar lóðar með vísan í 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 í samræmi við fyrrliggjandi uppdrátt. Erindi sem varðar byggingarframkvæmdir verður tekið fyrir sérstaklega þegar fyrir liggja teikningar af fyrirhuguðu húsi. Að mati nefndarinnar er þó ekkert því til fyrirstöðu að samþykkja hús á lóðinni á grunni málsmeðferðar skv. 44. gr. skipulagslaga á sama hátt og gert hefur verið á öðrum sumarhúsalóðum innan lands Heiðarbæjar.

Jóhannes sat hjá við afgreiðslu þessa dagskrárliðar.

 

Mál nr. 20; Valhallarstígur nyrðri 9.

Sveitarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsnefndar og telur að miða beri við nýtingarhlutfall 0,03 og því sé hámarks byggingarmagn á lóðinni 93 ferm, sbr. einnig bókun skipulagsnefndar í máli nr. 200808861024 frá 22. ágúst 2008.  Erindinu er því hafnað í þessari mynd.

 

Mál nr. 29; Askbr. Syðri-Reykir – Hrosshóll.

Lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi Syðri-Reykja. Í breytingunni felst að gert er ráð fyrir svæði fyrir efnisnámu í stað landbúnaðar við Hrosshól sem er syðst í landi Syðri-Reykja. Náman kemur til með að ná yfir um 49.900 fm lands og gert er ráð fyrir að tekið verði allt að 149.900 m3af efni úr henni. Óskað er eftir að málið verði afgreitt sem óveruleg breyting á aðalskipulagi. Að mati skipulagsnefndar er ekki hægt að fara með málið sem óverulega breytingu á aðalskipulagi þar sem breytingin fellur undir ákvæði laga um umhverfismat áætlana.  Sveitarstjórn samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að kynna lýsingu aðalskipulagsbreytingar skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga byggt á fyrirliggjandi gögnum og leita umsagnar Skipulagsstofnunar.

 

Mál nr. 31; Dskbr. Laugarvatn – færsla á endurvarpsstöð.

Lögð fram endurskoðuð tillaga að breytingu á deiliskipulagi Laugarvatns sem varðar nýja lóð fyrir endurvarpsstöð Mílu. Fram kemur að færa þarf fjarskiptastöð Mílu úr núverandi símstöð á Dalbraut 10. Nýtt staðarval stöðvarinnar byggir m.a. á fjarskiptastrengjum sem liggja á þessu svæði, bæði koparstrengjum og ljósleiðara. Staðurinn samsvarar jafnframt til núverandi GSM sendistað Símans á Laugarvatni. Búast má við miklum vexti á slíkri þjónustu með tilkomu GSM-3 og stendur einnig fyrir dyrum uppsetning á nýrri kynslóð, GSM-4, sem er hraðvirkari tækni með meiri bandbreitt. Lóð fjarskiptastöðvar er 126m² að stærð. Heimilt er að reisa 18m háan stálstólpa á lóðinni og 15m² tækjahús. Gefnir eru upp tveir möguleikar á aðkomu, kostur A frá Dalbraut og kostur B frá Torfholti. Staðsetning tækjanna er látin í hendur skipulagsnefndar og sveitarstjórnar og báðir kostir jafnvígir gagnvart Mílu. Að mati skipulagsnefndar færi betur á því að gera ráð fyrir fjarskiptastöð Mílu inn á núverandi lóð Dalbrautar 12. Lóð 12 yrði minnkuð sem því næmi. Sveitarstjórn samþykkir að grenndarkynna breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðarhöfum í Torfholti.

 

Mál nr. 32; Geysir – hugmyndasamkeppni um skipulag.

Lögð fram til kynningar niðurstaða dómnefndar í hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun hverasvæðisins á Geysi. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að fara af stað með vinnu við deiliskipulag svæðisins sem byggir á verðlaunatillögunum.

 

Mál nr. 33; Vígðalaug –Laugarvatni.

Lögð fram til kynningar tillaga að framkvæmdum við Vígðulaug á Laugarvatni. Tillagan er unnin af Landformi fyrir Minjastofnun Íslands. Sveitarstjórn fagnar framkomnum hugmyndum um lagfæringar á umhverfi Vígðulaugar.

 

1.4.    Fundargerð atvinnumálanefndar Bláskógabyggðar, haldinn þann 26. mars 2014.

Samþykkt samhljóða.

 

  1. Fundargerðir til kynningar:

2.1.    478. fundur stjórnar SASS.

2.2.    814.  fundur stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 

  1. Ráðning sviðsstjóra Þjónustu- og framkvæmdasviðs Bláskógabyggðar.

Umræða var um stöðu mála varðandi ráðningu í starf sviðsstjóra Þjónustu- og framkvæmdasviðs Bláskógabyggðar.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að bjóða Kristni L. Aðalbjörnssyni stöðuna. Sveitarstjóra falið að ganga frá ráðningarsamningi við Kristinn.

 

  1. Skipulagsmál:

4.1.    Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2015 – 2040, kynning á vinnslustigi.
Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 24. mars 2014.  Í bréfinu er óskað eftir endurgjöf á tillöguna frá lögbundnum umsagnaraðilum áður en hún verður þróuð frekar.  Sveitarstjórn vísar erindinu til skipulagsfulltrúa Uppsveitanna og felur honum að veita umsögn í umboði Bláskógabyggðar.

 

4.2.    Nýting lóðar við Einbúa (lóð fyrir ferðaþjónustu) á Laugarvatni.
Umræða varð um hvort rétt væri að breyta deiliskipulagi við Einbúa, en þar er stór lóð samkvæmt skipulagi undir verslun og þjónustu.  Umræða varð um þetta mál á 146. fundi byggðaráðs Bláskógabyggðar.  Byggðaráð beindi því til sveitarstjórnar og skipulagsnefndar að taka ákvörðun um hvort skipta eigi upp umræddri lóð í smærri lóðir undir verslun og þjónustu. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að óska eftir áliti og sjónarmiðum skipulagsfulltrúa og skipulagsnefndar  áður en ákvörðun verður tekin um breytingu deiliskipulags umræddrar lóðar.

 

4.3.    Aðkomuvegur að íbúðarsvæði Eflingar í Reykholti.

Lagður fram uppdráttur sem sýnir tillögu að nýrri aðkomu að íbúðarsvæði í landi Eflingar í Reykholti.  Samkvæmt gildandi skipulagi er aðkoma að landi Eflingar um veg sem liggur að Reykholtshver og þar áfram. Nú liggur fyrir ósk um að gera ráð fyrir nýrri aðkomu að svæðinu sunnan megin við holtið, þ.e. gert er ráð fyrir að aðkoman verði um nýjan veg sunnan megin við skólastjórabústað, um land Brautarholts og að landi Eflingar. Samkvæmt gildandi aðalskipulagi er umrætt svæði skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota auk þess sem 100 ha hverfisverndarsvæði milli Reykholts og Tungufljóts, niður að Hrosshagavík, nær einnig þar yfir. Hverfisverndin er aðallega tilkomin til að vernda votlendissvæði en það svæði sem vegurinn kemur til með að ná yfir telst ekki vera votlendi. Þar sem ný aðkoma er ekki í samræmi við gildandi skipulag er nauðsynlegt að breyta bæði aðal- og deiliskipulagi svæðisins.

Að mati sveitarstjórnar er um verulega breytingu á aðalskipulagi að ræða og felur skipulagsfulltrúa að kynna lýsingu aðalskipulagsbreytingar, til samræmis við fyrirliggjandi tillögur, skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga og leita umsagnar Skipulagsstofnunar. Er samþykktin gerð með fyrirvara um að áður liggi fyrir skriflegt samþykki eigenda þess lands sem nýr vegur fer yfir.

 

4.4.    Erindi Skipulagsstofnunar, dags. 28. mars 2014;beiðni um umsögn vegna Bleikjubæjar.

Lagt fram erindi Skipulagsstofnunar dags. 28. mars 2014 þar sem stofnunin óskar eftir að Bláskógabyggð gefi umsögn um hvort og á hvaða forsendum, ársframleiðsla Bleikjubæjar á 60 tonnum af bleikju að Eyjarlandi, skuli háð mati á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til 3. viðauka í tilteknum lögum. Einnig óskar stofnunin eftir því að í umsögn komi fram, eftir því sem við á, hvaða leyfi framkvæmdin er háð og varðar starfssvið umsagnaraðila. Umsögnin óskast send fyrir 14. apríl nk.

Að mati sveitarstjórnar er ekki talið að framleiðsla bleikju í samræmi við fyrirliggjandi gögn skuli háð mati á umhverfisáhrifum.  Sveitarstjórn felur skipulagsfulltrúa að svara erindi Skipulagsstofnunar.

 

  1. Ársreikningur Bláskógabyggðar 2013 (fyrri umræða).

Einar Sveinbjörnsson, endurskoðandi hjá KPMG, mætti á fundin undir þessum dagskrárlið.  Lagður fram ársreikningur Bláskógabyggðar fyrir rekstrarárið 2013.  Byggðaráð hafði tekið til umræðu ársreikninginn á 146. fundi sínum.  Einar Sveinbjörnsson og sveitarstjóri kynntu ársreikninginn og helstu niðurstöður og lykiltölur.  Umræða varð um framlagðan ársreikning og honum vísað til síðari umræðu á næsta fundi sveitarstjórnar sem haldinn verður fimmtudaginn 10. apríl 2014 klukkan 15:15.

 

  1. Trúnaðarmál.

Fært í trúnaðarmálabók.

 

  1. Innsend erindi:

7.1.    Bréf Hjálparstarfs kirkjunnar, móttekið þann 24. mars 2014; styrkbeiðni.

Lagt fram bréf Hjálparstarfs kirkjunnar þar sem óskað er eftir fjárstyrk.  Erindinu hafnað.

 

7.2.    Minnisblað frá Berki Brynjarssyni – „Seyruhótel“, dags. 31. mars 2014.

Lagt fram minnisblað Berki Brynjarssyni hjá Tæknisviði Uppsveitanna þar sem fjallað er um hugmyndir að lausnum við söfnun og afsetningu seyru þar sem Sorpa hefur tekið ákvörðun um að hætta að taka við seyru líkt og undanfarin ár.  Einnig var lagt fram minnisblað eftir skoðunarferð á seyrudreifingarsvæði á Hrunamannaafrétti, dags. 25. september 2012.

Í minnisblaði Barkar er gerð tillaga um að Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppur fari í samstarf við Hrunamannahrepp við að skapa aðstöðu  á söfnunarstað Hrunamannahrepps.  Um er að ræða að koma upp steyptum þróm alls 600 rúmmetra á gámasvæði Hrunamanna, en þar er þegar fyrir hendi starfsleyfi fyrir þessari starfssemi.  Afsetning yrði síðan samstarfsverkefni þessara þriggja sveitarfélaga í samstarfi við Landgræðsluna.  Samstarf sveitarfélaganna myndi byggjast á því að Hrunamannahreppur myndi leggja til landsvæði undir starfsemina en Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppur munu standa fyrir kostnaði við gerð þrónna.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að vinna áfram að framgangi þessa verkefnis.  Samkomulag um samstarf sveitarfélaganna verði síðan lagt fyrir sveitarstjórn til endanlegrar afgreiðslu og til samþykktar.

 

7.3.    Minnisblað frá Mannviti, dags. 11. mars 2014; áhættumat fyrir sumarhúsabyggðir í Bláskógabyggð.

Lagt fram minnisblað frá Mannviti um  áhættumat fyrir sumarhúsabyggðari í Bláskógabyggð. Verkefnið gengur út á að Mannvit geri grófa greiningu á þéttbýlustu sumarhúsasvæðum Bláskógabyggðar.  Niðurstöður verði síðan nýttar sem grunnur fyrir Bláskógabyggð hvort ráðast þurfi í sértækar aðgerðir og hvaða svæði þyrfti að leggja áherslu á með tilliti til gróðurs- og kjarrelda.  Kostnaður við verkefnið er áætlaður kr. 1.960.000 án vsk.  Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að semja við Mannvit um þetta verkefni á þeim forsendum sem fram koma í minnisblaðinu.  Jafnframt samþykkir sveitarstjórn viðauka við fjárhagsáætlun 2014 til að mæta þessum útgjöldum og mun rekstrarafgangur ársins lækka sem nemur áætluðum kostnaði við verkefnið.

 

7.4.    Bréf Hveragerðisbæjar, dags. 19. mars 2014; sameining sveitarfélaga.

Lagt fram bréf Hveragerðisbæjar þar sem kynnt eru áform um að láta fara fram skoðanakönnun um sameiningu sveitarfélaga í Árnessýslu samhliða sveitarstjórnarkosningum. Bréfið lagt fram til kynningar og efni þess rætt.

 

  1. Efni til kynningar.

8.1.    Bréf SASS, dags. 26. mars 2014; ályktun stjórnar SASS um gjaldtöku á ferðamannastöðum.

8.2.    Bréf HSK, dags. 31. mars 2014; tillögur frá 92. héraðsþingi HSK ásamt ársskýrslu.

 

 

Fundi slitið kl. 17:45.