169. fundur

  1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn

fimmtudaginn 5. mars 2015, kl. 18:15

í Aratungu

 

 

Mætt voru:

Helgi Kjartansson, Valgerður Sævarsdóttir, Óttar Bragi Þráinsson, Kolbeinn Sveinbjörnsson, Guðrún S. Magnúsdóttir, Eyrún M. Stefánsdóttur, Bryndís Á. Böðvarsdóttir, Valtýr Valtýsson sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

 

  1. Fundargerðir til staðfestingar:

1.1.    157. fundur byggðaráðs Bláskógabyggðar.
Samþykkt samhljóða.

 

1.2.    84. fundur skipulagsnefndar ásamt afgreiðslum byggingarfulltrúa 15-01. fundur.

 

Mál 12; Bátaleiga við Laugarvatn: Fyrirspurn – 1502031.

Lagt fram erindi Benjamíns Inga Böðvarssonar dags. 11. janúar 2015 þar sem óskað er eftir leyfi til að koma upp bátaskýli og bryggju niður við Laugarvatn, Bláskógabyggð, með það í huga að starfrækja þar bátaleigu. Samkvæmt deiliskipulagi eru tvær lóðir fyrir bátaskýli og er umsækjandi opinn fyrir báðum möguleikum þó svo að frekar er óskað eftir lóð rétt við hitaveithver. Fram kemur að gert er ráð fyrir byggingu húss í samræmi við gildandi skilmála.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við að byggt verði bátaskýli í samræmi við gildandi skipulag og felur skipulagsfulltrúa að leita eftir viðbrögðum landeigenda við stofnun og úthlutun lóðar.

 

Mál 13: Orlofssvæði BHM:  Deiliskipulagsbreyting – 1502035.

Í byrjun árs 2014 var grenndarkynnt tillaga að breytingu á deiliskipulagi orlofssvæðis BHM í Brekkuskógi, Bláskógabyggð, sem fólst í að afmarkaður var byggingarreitur fyrir áhaldahús andspænis núverandi þjónustumiðstöðvar. Athugasemdir bárust og á fundi skipulagsnefndar 9. maí 2014 var málinu frestað og byggingarfulltrúa falið að ræða við umsækjendur um aðra möguleika á staðsetningu áhaldshússins. Nú liggur fyrir endurskoðuð tillaga sem m.a. felur í sér að gert verði ráð fyrir að hámarki 120 fm húsi með hámarkshæð upp á 3,8 m, en er þó á sama stað og áður.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að endurskoðuð tillaga að breytingu að deiliskipulagi, þar sem komið hefur verið til móts við athugasemdir sem bárust við fyrri tillögu, verði grenndarkynnt fyrir aðliggjandi lóðarhöfum og landeigendum skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

Mál 14: Geysir: Haukadalur: Deiliskipulag – 1502036.

Lögð fram til kynningar drög að deiliskipulagi fyrir Geysissvæðið í Haukadal, Bláskógabyggð. Þá eru jafnframt lagðar frá athugasemdir og ábendingar skipulagsfulltrúa við fyrirliggjandi tillögu.

Drög að skipulagi fyrir Geysissvæðið verður til umræðu undir 4. dagskrárlið þessa fundar.

 

Mál 15: Krossholtsmýri: Austurey 2: Deiliskipulag: Kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála – 1502028.

Lagður fram til kynningar úrskurður Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 30. janúar 2015. Málið varðar deiliskipulag fyrir frístundabyggð í Krossholtsmýri í landi Austureyjar í Bláskógabyggð sem samþykkt var í sveitarstjórn 11. nóvember 2008 en tók þó ekki gildi með auglýsingu í B-deild stjórnartíðinda 10. nóvember 2009. Málið var kært til úrskurðarnefndar með bréfi dags. 27. nóvember 2009 og nú rúmum fjórum árum síðar liggur niðurstaða nefndarinnar fyrir. Er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar hafnað þar sem ekki liggja fyrir annmarkar á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar.

 

Mál 16: Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 15-01 – 1501001F.

Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 10. febrúar 2015.

 

1.3.    85. fundur skipulagsnefndar ásamt afgreiðslum byggingarfulltrúa 15-02. fundur.

 

Mál 6: Efling: Reykholt: deiliskipulagsbreyting – 1502074.

Lögð fram tillaga Landforms ehf. að breytingu á deiliskipulagi íbúðarbyggðar innan lands Eflingar í Reykholti, Bláskógabyggð. Í breytingunni felst að íbúðarhúsalóðum fjölgar úr 8 í 12 auk þess sem gert er ráð fyrir nýrri aðkomu að svæðinu.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að deiliskipulagsbreytingin verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með fyrirvara um að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands fallist á útfærslu fráveitu frá svæðinu.

 

Mál 7: Fljótsholt: Reykholt: Fyrirspurn – 1502075.

Lögð fram fyrirspurn Ólafs Tage Bjarnasonar dags. 16. febrúar 2015 f.h. eiganda lóðarinnar Fljótsholt í Reykholti lnr. 167089, Bláskógabyggð, um breytta nýtingu lóðarinnar. Meðfylgjandi erindi er uppdráttur sem sýnir tillögu að uppbyggingu lóðarinnar sem felst í að gert er ráð fyrir tólf 50 fm og þrjú 70 fm orlofshúsum til útleigu. Auk þeirra er gert ráð fyrir allt að 200 fm aðstöðuhúsi fyrir starfsmenn.

Að mati sveitarstjórnar Bláskógabyggðar er um að ræða verulega breytingu á landnotkun lóðarinnar sem felur ekki eingöngu í sér breytingu á deiliskipulagi heldur einnig aðalskipulagi. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar getur ekki mælt með ákveðinni afgreiðslu að svo stöddu þar sem áður er nauðsynlegt að umsækjandi fari yfir málið með fulltrúa sveitarfélagsins og skipulagsfulltrúa.

 

Mál 8: Haukadalur 2 lnr. 167100: Haukadalur 4 spilda 1:  Stofnun lóðar – 1501038.

Lagt fram að nýju lóðarblað sem sýnir 5,15 ha spildu sem taka á úr landi Haukadals 2 lnr. 167100. Á fundi skipulagsnefndar 29. janúar 2015 var afgreiðslu frestað þar til fyrir lægi samþykki aðliggjandi landeigenda, sem nú liggur fyrir.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við stofnun lóðarinnar og ekki er gerð athugasemd við landsskipti skv. 13. gr. jarðalaga.

 

Mál 9: Skipholt 1 og 2: Kjaransstaðir: Fyrirspurn – 1502081.

Lagt fram erindi Maríu Þórunnar Jónsdóttur dags. 10. febrúar 2015 þar sem óskað er eftir að skipulagi sem nær yfir lóðirnar Skipholt 1 og 2 (lnr. 205374 og 205375) úr landi Kjaranstaða, Bláskógabyggð, verði breytt. Lóðirnar eru í dag frístundahúsalóðir en óskað er eftir að lóðirnar verði sameinaðar og breytt í lögbýli. Einnig er óskað eftir að byggingarreitur á annarri lóðinni verði stækkaðar/færður þar sem land er óhagstætt til bygginga.

Að mati sveitarstjórnar Bláskógabyggðar er ekki æskilegt að breyta skipulagi svæðisins eingöngu fyrir þessar tvær lóðir. Ef vilji er til að gera ráð fyrir nýju lögbýli á svæðinu er að mati sveitarstjórnar nauðsynlegt að taka allt deiliskipulagið upp í samráði við aðra lóðarhafa á svæðinu og þá einnig gera breytingu á aðalskipulagi svæðisins.

 

Mál 10: Einiholt 1 land 1: Verslun- og þjónusta: Aðalskipulagsbreyting – 1502087.

Lagt fram erindi Sjafnar Kolbeins dags. 18. febrúar 2015 þar sem óskað er eftir að landnotkun á um 6 ha svæði úr landi Einiholts 1 verði breytt úr landbúnaðarsvæði í svæði fyrir verslun- og þjónustu til samræmis við bókun skipulagsnefndar 29. janúar 2015 og sveitarstjórnar 5. febrúar 2015.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við að gerð verði breyting á aðalskipulagi svæðisins sem felur í sér að gert verði ráð fyrir verslunar- og þjónustusvæði til uppbyggingar ferðaþjónustu með útleiguhúsum. Að mati sveitarstjórnar er um verulega breytingu að ræða og felur hún skipulagsfulltrúa að kynna lýsingu aðalskipulagsbreytingar í samræmi við 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

Mál 13: Eskilundur 7: Umsókn um byggingarleyfi: Sumarhús – 1502043.

Lagðar fram reyndarteikningar að lokinni byggingu sumarhús. Húsið er 8,5 ferm og 22,8 rúmmetrum stærra en upphaflegar teikningar sögðu til um.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við að byggingarfulltrúi afgreiði erindið þar sem stærð hússins er innan við 60 ferm og form þess það sama.

 

Mál 14: Reynilundur 6: Umsókn um byggingarleyfi: Viðbygging sumarhús – 1502024.

Granni 20141111-5716. Sótt er um viðbyggingu við sumarhús úr timbri, stærð 3 ferm. Eftir stækkun 39,5 ferm.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að falla frá grenndarkynningu, skv. ákvæðum 3. mgr. 44. greinar skipulagslaga þar sem framkvæmdin sem sótt er um varðar ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og umsækjanda.

 

Mál 22: Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 15-02 – 1502001F.

Lagðar fram til kynningar fundargerð 2. afgreiðslufundar 2015 hjá byggingarfulltrúa.

 

 

  1. Samstarfssamningur um notkun seyru til landgræðslu.

Lögð fram drög að samstarfssamningi um notkun seyru til landgræðslu.  Samningsaðilar eru annars vegar Landgræðsla ríkisins og hinsvegar sveitarfélögin; Bláskógabyggð, Hrunamannahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Flóahreppur.  Tilgangur samningsins er að nýta seyru sem til fellur í sveitarfélögunum til landgræðslu á svæðum í umsjón Landgræðslu ríkisins.  Samningurinn er til átta ára, eða til ársloka 2022.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir framlagðan samning fyrir sitt leyti og felur oddvita eða sveitarstjóra að undirrita samninginn fyrir hönd Bláskógabyggðar.

 

  1. Tillaga um breytingu á samþykkt um stjórn sveitarfélagsins Bláskógabyggðar, nr. 592/2013. (fyrri umræða)

Lögð fram drög að tillögu um breytingu á samþykkt um stjórn sveitarfélagsins Bláskógabyggðar nr. 592/2013.  Umræður urðu um framlögð drög að breytingum.  Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að vísa tillögunni til síðari umræðu á næsta fundi sveitarstjórnar.  Við þá umræðu verða samþykktir fyrir byggðasamlag um Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings, ásamt starfslýsingum og erindisbréfum, teknar til síðari umræðu og afgreiðslu.

 

  1. Drög að deiliskipulagi fyrir Geysissvæðið í Haukadal, dags. 10. febrúar 2015.

Lögð fram drög að deiliskipulagi fyrir Geysisvæðið í Haukadal ásamt minnisblaði skipulagsfulltrúa sem lagt var fram á 84. fundi skipulagsnefndar.  Umræða varð um fyrirliggjandi drög að deiliskipulagi og tekið undir athugasemdir skipulagsfulltrúa sem fram koma í framlögðu minnisblaði.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hvetur skipulagsráðgjafa að halda áfram vinnu við deiliskipulagið og láti ekki skipulagsmál aðliggjandi svæða hægja á framvindu verksins.

 

  1. Greinargerð Tæknissviðs Uppsveita um sorpmál, – vinnuskjal.

Lögð fram ófullgerð greinargerð frá Tæknisviði Uppsveita sem varðar sorpmál og fyrirhugað útboð á sorphirðu hjá sveitarfélögunum.  Umræða varð um efni greinargerðarinnar og forsendur fyrir sameiginlegt útboð á sorphirðu nú í sumar.  Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að kannaður verði forsendur og vilji annarra sveitarfélaga Uppsveitum og Flóa til sameiginlegs útboðs. Þegar forsendur og vilji sveitarstjórnanna liggja fyrir og niðurstaða umhverfisþings Bláskógabyggðar þann 20. mars n.k. mun sveitarstjórn Bláskógabyggðar taka endanlega afstöðu til málsins.

 

  1. Þingmál til umsagnar:

6.1.    Tölvuskeyti frá nefndarsviði Alþingis, dags. 19. febrúar 2015; frumvarp til laga um farmflutninga á landi (503. mál).

Lagt fram tölvuskeyti nefndarsviðs Alþingis þar sem kynnt er frumvarp til laga um farmflutninga á landi. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur engar athugasemdir á þessu stigi málsins.

 

6.2.    Tölvuskeyti frá nefndarsviði Alþingis, dags. 19. febrúar 2015; frumvarp til laga um farþegaflutninga á landi í atvinnuskyni (504. mál).

Lagt fram tölvuskeyti nefndarsviðs Alþingis þar sem kynnt er frumvarp til laga um farþegaflutninga á landi í atvinnuskyni.  Einnig var lögð fram umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarpið, dags. 3. mars 2015.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar tekur undir umsögn og athugasemdir Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 

6.3.    Tölvuskeyti frá nefndarsviði Alþingis, dags. 26. febrúar 2015; tillaga til þingsályktunar um seinkun klukkunnar og bjartari morgna (338. mál).

Lagt fram tölvuskeyti nefndarsviðs Alþingis þar sem kynnt er tillaga til þingsályktunar um seinkun klukkunnar og bjartari morgna.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur engar athugasemdir við umrædda tillögu til þingsályktunar.

 

  1. Innsend bréf og erindi:

7.1.    Bréf Harðar Ó. Guðmundssonar, f.h. félagsmiðstöðvarinnar, móttekið 27. febrúar 2015; umsókn um rekstrarfé.

Lagt fram bréf Harðar Ó. Guðmundssonar, f.h. félagsmiðstöðvarinnar, þar sem óskað er eftir auknu rekstrarfé til reksturs félagsmiðstöðvarinnar.  Óskað er eftir auknu rekstrarfé frá Bláskógabyggð að upphæð kr. 80.000.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir umrædda beiðni enda er rými fyrir þessum fjárauka innan samþykkts fjárhagsramma málaflokksins skv. fjárhagsáætlun 2015.

 

7.2.    Bréf Menntaskólans að Laugarvatni dags. 3. febrúar 2015; umsókn um styrk vegna ferðar kórs ML til Danmerkur.

Valgerður Sævarsdóttir vék af fundi við afgreiðslu þessa dagskrárliðar.

Lagt fram bréf Menntaskólans að Laugarvatni þar sem sótt er um fjárstyrk vegna ferðar kórs ML til Danmerkur.

Sveitarstjórn samþykkir að styrkja kórinn að upphæð kr. 100.000.

 

7.3.    Tölvuskeyti frá Einstökum börnum, dags. 25. febrúar 2015; styrkbeiðni.

Lagt fram tölvuskeyti frá Einstökum börnum þar sem óskað er eftir fjárstyrk til reksturs.  Erindinu hafnað.

 

7.4.    Bréf Hólmfríðar Ingólfsdóttur f.h. þorrablótsnefndar Skálholtssóknar 2015, dags. 24. febrúar 2015; beiðni um styrk á móti húsaleigu Aratungu vegna þorrablóts.

Lagt fram bréf Hólmfríðar Ingólfsdóttur, f.h. þorrablótsnefndar Skálholtssóknar þar sem óskað er eftir styrk á móti húsaleigu Aratungu vegna þorrablóts sem haldið var þann 23. janúar 2015.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að veita nefndinni styrk sem nemur húsaleigu Aratungu vegna þorrablótsins.

 

  1. Efni til kynningar:

8.1.    Viðbrögð við athugasemdum við matslýsingu kerfisáætlunar 2015 – 2024.

 

 

Fundi slitið kl. 19:45.