17. júní á Þingvöllum

Samkoma í gömlum stíl verður á Þingvöllum þann 17. júní milli kl. 12.30 og 14.
Hljómskálakvintettinn leikur, Karlakór Kjalnesinga syngur, íslensk glíma sýnd og Lýðveldisbörn hittast, fjöldasöngur, nesti, messa í Þingvallakirkju.

Börn glíma við pabba og mömmu eða afa og ömmu.

Hljómskálakvitenttinn leikur nokkur lög við fræðslumiðstöðina á Almannagjárbarmi (Hakinu) og gengur síðan kl. 12.30 í skrúðgöngu niður Almannagjá og að Lögbergi. Þar í Almannagjá leikur kvintettinn og Karlakór Kjalnesinga syngur. Einnig verður fjöldasöngur samkomugesta. Ungir og vaskir menn sýna íslenska glímu og kenna börnum undirstöðuatriði í glímu. Börnin geta síðan glímt við foreldra sína eða afa og ömmu.
Lýðveldisbörn eru það núlifandi fólk sem var á Þingvöllum við lýðveldistökuna 17. júní 1944 og koma þau nú saman, syngja saman og Þór Jakobsson veðurfræðingur ávarpar hópinn. Samkomunni í Almannagjá lýkur skömmu fyrir kl. 14 en þá hefst messa í Þingvallakirkju.

Fólk er hvatt til þess að taka með sér nesti og teppi til að sitja á í brekkunni.

Messa hefst í Þingvallakrikju kl. 14.