171. fundur

  1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn

fimmtudaginn 16. apríl 2015, kl. 15:15

í Aratungu

 

 

Mætt voru:

Helgi Kjartansson, Valgerður Sævarsdóttir, Óttar Bragi Þráinsson, Kolbeinn Sveinbjörnsson, Guðrún S. Magnúsdóttir, Eyrún M. Stefánsdóttur, Bryndís Á. Böðvarsdóttir, Valtýr Valtýsson sveitarstjóri, Sigurrós H. Jóhannsdóttir, sviðsstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Oddviti lagði til dagskrárbreytingu, að inn komi nýr liður nr. 9.  Samþykkt samhljóða.

 

  1. Fundargerðir til staðfestingar:

1.1.    158. fundur byggðaráðs Bláskógabyggðar. Staðfest samhljóða.

 

1.2.    159. fundur byggðaráðs Bláskógabyggðar. Staðfest samhljóða.

 

1.3.    86. fundur skipulagsnefndar Uppsveitanna.

Mál nr. 5.   Árgil: Haukadalur: Veitingastaður: Fyrirspurn – 1502092.

Lagt fram erindi Gests Ólafs Auðunssonar og Vignis Daða Valgeirssonar dags. 16. febrúar 2015 þar sem kynntar eru hugmyndir um byggingu veitingahúss á lögbýlinu Árgil lnr. 167054. Á landinu er í dag skráð 227,7 fm íbúðarhús sem hefur verið nýtt sem gistihús undanfarin ár.

Að mati sveitarstjórnar Bláskógabyggðar er forsenda byggingu veitingahúss á lóðinni að gerð verði breyting á aðalskipulagi svæðisins og að unnið verði deiliskipulag fyrir lóðina

 

Mál nr. 6. Hakið: Þingvellir: Aðkoma að þjóðgarði í landi Brúsastaða og Svartagils:  Deiliskipulagsbreyting – 1503015.

Lögð fram matsáætlun vegna breytingar á deiliskipulaginu Aðkoma að þjóðgarði í landi Brúsastaða og Svartagils sem nær til lóðar svæðis við fræðslumiðstöðina á Hakinu. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir 800 fm viðbyggingu við fræðslumiðstöð á tveimur hæðum en nú er verið að vinna að breytingu sem felur í sér að viðbyggingin verði 850 fm og á einni hæð. Deiliskipulagið fellur undir ákvæði laga um umhverfismat áætlana og er matsáætlunin því lögð fyrst fram.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við fyrirliggjandi matsáætlun og samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að leita samráðs við Skipulagsstofnun í samræmi við ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga um umhverfismat áætlana.

 

Mál nr. 7.  Höfðaflatir: Úthlíð, Stekkholt og Hrauntún: Aðalskipulagsbreyting vegna efnistökusvæðis – 1412009.

Lögð fram að lokinni auglýsingu skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepp í sameignarlandi Úthlíðar, Stekkholts og Hrauntúns.  Breytingin felur í sér að gert er ráð fyrir nýju efnistökusvæði sunnan Högnhöfða, í jaðri Úthlíðarhrauns. Svæðið hefur þegar verið raskað að hluta í tengslum við efnistöku til eigin nota innan jarðarinnar en nú er gert ráð fyrir að heimilt verði að taka allt 30 þúsund rúmmetra efnis. Gerð er breyting á hálendisuppdrætti aðalskipulagsins og greinargerð. Tillagan var auglýst 8. janúar 2015 með athugasemdafresti til 20. febrúar. Engar athugasemdir bárust en fyrir liggur ný umsögn frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands þar sem ekki er gerð athugasemd við tillöguna.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða aðalskipulagsbreytinguna og felur skipulagsfulltrúa að senda hana til staðfestingar Skipulagsstofnunar.

 

Mál nr. 8.  Hrosshólsnáma: Syðri-Reykir: Aðalskipulagsbreyting – 1412010.

Lögð fram að lokinni auglýsingu skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 í landi Syðri-Reykja ásamt umhverfisskýrslu. Í aðalskipulagsbreytingunni er gert ráð fyrir nýju efnistökusvæði syðst í landi Syðri-Reykja. Aðkoma að námunni verður frá Reykjavegi um veg meðfram suðurmörkum jarðarinnar. Tillagan var auglýst 8. janúar 2015 með athugasemdafresti til 20. febrúar. Engar athugasemdir bárust en fyrir liggja umsagnir frá Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirliti Suðurlands.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða aðalskipulagsbreytinguna með minniháttar breytingum til að koma til móts við ábendingar í umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og felur skipulagsfulltrúa að senda hana til staðfestingar Skipulagsstofnunar.

 

1.4.    87. fundur skipulagsnefndar Uppsveitanna.

Mál nr. 15.  Efri-Reykir: Endurnýjun á holutoppi ER-23: tilkynning um framkvæmd – 1503047.

Lagt fram bréf Orkuveitu Reykjavíkur dag. 17. mars 2015 þar sem tilkynnt er um framkvæmdir við endurnýju á holutoppi ER-23 í landi Efri-Reykja, Bláskógabyggð.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við fyrirhugaðar framkvæmdir með fyrirvara um að þær verði unnar í samráði við og með samþykki landeigenda.

 

Mál nr. 16. Skálabrekka lóð 201323:  Umsókn um byggingarleyfi: Gestahús – 1501065.

Sótt er um að byggja gestahús 28,8 ferm. úr timbri.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að byggingarleyfisumsóknin verði grenndarkynnt fyrir aðliggjandi lóðarhöfum. Ef engar athugasemdir berast er endanlegri afgreiðslu vísað til byggingarfulltrúa.

 

Mál nr. 17. Kjarnholt III spilda 212298: Umsókn um byggingarleyfi: Breyting -1503052.

Lögð fram að lokinni grenndarkynningu beiðni um að breyta notkun íbúðarhúss á lóðinni Kjarnholt III (lnr. 212298). Ein athugasemd barst á kynningartíma.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir breytta notkun íbúðarhússins. Skipulagsfulltrúa er falið að svara innkominni athugasemd.

 

Mál nr. 18. Geysir: Haukadalur: Deiliskipulag – 1502036.

Lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir Geysissvæðið í Haukadal, Bláskógabyggð. Tillagan er sett fram í greinargerð dags. 20. mars 2015 sem einnig innifelur umhverfisskýrslu ásamt skipulagsuppdrætti og yfirlitsuppdrætti dags. 19. mars 2015. byggir tillagan á nánari úrvinnslu á vinningstillögu í „Hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun Geysissvæðisins í Haukadal“ sem haldin var 2013-2014.

Málinu vísað til 5. dagskrárliðar þessa fundar, en þar verður afgreiðsla sveitarstjórnar færð til bókar.

 

Mál nr. 19. Austurey 1: Verslun- og þjónusta í stað íbúðarsvæðis: deiliskipulagsbreyting – 1502012.

Lögð fram lagfærð tillaga að deiliskipulagi verslunar- og þjónustusvæðis í landi Austureyjar 1 í Bláskógabyggð þar sem komið hefur verið til móts við ábendingar Skipulagsstofnunar í bréfi dags. 19. febrúar 2015. Nú kemur fram að byggja megi 1.600 fm húsnæði, í 1-2 byggingum og að bílastæði verði innan lóðar og fjöldi þeirra í samræmi við fyrirhugaða notkun. Einnig kemur fram að ekki er verið að breyta hámarkshæð húsa miðað við gildandi deiliskipulag.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við breytingar á gögnum og felur skipulagsfulltrúa að senda lagfærð gögn til Skipulagsstofnunar.

 

Mál nr. 20.  Vatnsleysa 1 land 5:  Vatnsleysa 3: Stofnun lóðar – 1503055.

Lagt fram lóðablað unnið af Landhönnun efh. sem sýnir 4 nýjar lóðir úr landi Vatnsleysu 3 lnr. 217915.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við stofnun lóðanna en bendir á að ekki er hægt að sækja um byggingarleyfi fyrir frístundahúsum nema á grundvelli deiliskipulags.

Helgi Kjartansson vék af fundi við afgreiðslu þessa dagskrárliðar.

 

1.5.    69. fundur stjórnar Bláskógaveitu.

Staðfest samhljóða.

 

1.6.    17. fundur atvinnu- og ferðamálanefndar Bláskógabyggðar.

Staðfest samhljóða. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar tekur undir ályktun nefndarinnar sbr. 4. dagskrárlið. Stefnt er að taka málið fyrir á næsta fundi sveitarstjórnar.

 

  1. Fundargerðir til kynningar:

2.1.    23. fundur stjórnar Skipulags- og byggingarfulltrúa Uppsveita bs.

2.2.    163. fundur Heilbrigðisnefndar Suðurlands.

2.3.    239. fundur stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands.

2.4.    826. fundur stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

2.5.    827. fundur stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 

  1. Ársreikningur Bláskógabyggðar 2014 (fyrri umræða).

Einar Sveinbjörnsson, endurskoðandi KPMG, mætti á fundinn undir þessum dagskrárlið.

Ársreikningur Bláskógabyggðar fyrir rekstrarárið 2014 lagður fram til fyrri umræðu.  Byggðaráð Bláskógabyggðar hefur tekið ársreikninginn fyrir á 159. fundi sínum og samþykkt að hann skuli lagður fyrir sveitarstjórn.

Einar Sveinbjörnsson og sveitarstjóri kynntu ársreikninginn og svöruðu fyrirspurnum sem fram komu í umræðu um ársreikninginn.  Helstu kennitölur sem fram komu í samstæðureikningi Bláskógabyggðar eru í þúsundum króna:

 

Rekstrarekjur:                         999.940

Rekstrargjöld:                        874.604

Fjármagnsgjöld:                      -29.550

Tekjuskattur:                             -4.981

Rekstrarniðurstaða:                   90.804

 

Fastafjármunir:                    1.003.111

Veltufjármunir:                        235.067

Eigið fé:                                 562.102

Langtímaskuldir:                     518.919

Skammtímaskuldir:                 157.157

 

Nettó fjárfestingar ársins:         25.850

 

Handbært fé um áramót:         121.855

 

Veltufjárhlutfall:                             1,5

Eiginfjárhlutfall:                           45%

Skuldahlutfall:                             68%

 

Sveitarstjórn samþykkir að vísa ársreikningi 2014 til síðari umræðu á næsta reglubundna fundi sveitarstjórnar sem haldinn veður þann 7. maí 2015.

 

  1. Innkaupareglur Bláskógabyggðar. Innkaupareglur Bláskógabyggðar voru lagðar fram til umræðu um ákvörðun fjárhæða sbr. 21. grein reglnanna.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að fyrir árið 2015 verði fjárhæðum ekki breytt frá gildandi innkaupareglum, sbr. 4. og 13. grein.

Fjárhæðir innkaupareglna Bláskógabyggðar verði teknar til endurskoðunar í byrjun árs 2016.

 

  1. Drög að deiliskipulagi fyrir Geysissvæðið í Haukadal.

5.1.    Tölvuskeyti Drífu Kristjánsdóttur, dags. 16. mars 2015; Laugafell, Laugarfell og Laugarfjall.

Lagt fram tölvuskeyti Drífu Kristjánsdóttur þar sem umræðuefnið eru vangaveltur um rétt nafn fellsins ofan Laugar í Haukadal.  Nauðsynlegt er að samræma almennt í skriflegum gögnum nafn fellsins.  Hafa komið upp mismunandi skoðanir, s.s. Laugafell, Laugarfell og Laugarfjall.  Eftir þeim heimildum sem skoðaðar hafa verið og rökstuðningi þar að lútandi er það skoðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar að á skipulagsgögnum skuli nafnið vera Laugarfell.

 

5.2.    Drög að deiliskipulagi fyrir Geysissvæðið í Haukadal.

Einar E. Sæmundsen er mættur á fundinn undir þessum dagskrárlið og gerir grein fyrir tillögum að deiliskipulagi fyrir Geysissvæðið í Haukadal ásamt greinargerð.  Einnig liggur fyrir bókun skipulagsnefndar sbr. dagskrárlið 1.4, dagskrárliður 18, hér fyrr á fundinum ásamt athugasemdum Drífu Kristjánsdóttur sem er fulltrúi Bláskógabyggðar í vinnu við deiliskipulag Geysissvæðisins.

Umræður urðu um fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að óska eftir endanlegum gögnum frá skipulagsaðila fyrir næsta fund sveitarstjórnar 7. maí 2015.

 

  1. Tilboð Arev verðbréfafyrirtækis hf dags. 8. apríl 2015; Gufa ehf.

Lagt fram tilboð Arev verðbréfafyrirtækis í hlutabréf Bláskógabyggðar í Gufu ehf.

Sveitarstjóri kynni fyrirliggjandi tilboð og svaraði framkomnum fyrirspurnum.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að taka tilboði Arev í kaup hlutabréfa skv. hlutabréfaskrá 31.12 2014 með fyrirvara um að tilboðsgjafi kaupi á sömu kjörum greitt hlutafé Bláskógabyggðar 2015, svo og að samningur verði gerður um ógreidd hlutafjárloforð Bláskógabyggðar sem koma til greiðslu á árunum 2016 og 2017 að lágmarki á sama gengi og kauptilboðið tilgreinir.

Samþykkt með sex atkvæðum (HK,VS,BÁB,KS,GSM og EMS) einn sat hjá (ÓBÞ).

 

 

  1. Innsend bréf og erindi:

7.1.    Erindi frá Eflu verkfræðistofu, dags. 9. mars 2015; ljósleiðaratengingar.

Lagt fram bréf Eflu verkfræðistofu þar sem Bláskógabyggð er boðin gerð forhönnunar og frumkostnaðaráætlun á ljósleiðarakerfum í Bláskógabyggð.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar líst vel á fyrirliggjandi boð.  Að mati sveitarstjórnar er mikilvægt að fleiri sveitarfélög í Uppsveitum taki sameiginlega þátt í slíku verkefni til að gæta hagkvæmni og að heildarhagsmunir verði hafðir að leiðarljósi.  Oddvita falið að ræða við nágrannasveitarfélög um slíkt verkefni.  Æskilegt er að afstaða annarra sveitarfélaga liggi fyrir sem fyrst varðandi verkefnið og sveitarstjórn Bláskógabyggðar mun þá taka endanlega afstöðu til erindisins á næsta fundi sveitarstjórnar.

 

7.2.    Tölvuskeyti SASS, dags. 18. mars 2015; menntaþing á Suðurlandi, skipun fulltrúa í samstarfshóp (sjá bókun byggðaráðs, 158. fundur, dagskrárliður 5.4).

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar staðfestir afgreiðslu byggðaráðs.

 

7.3.    Bréf umhverfis- og auðlindaráðuneytis, dags. 9. mars 2015; sorphirða í Bláskógabyggð.

Lagt fram bréf umhverfis- og auðlindaráðuneytisins vegna erindis Bonafide Lögmanna um sorphirðu í Bláskógabyggð.  Byggðaráð Bláskógabyggðar vísaði erindinu til sveitarstjórnar á 158. fundi sínum, dagskrárliður 5.8. Lögð fram drög að svarbréfi sem unnið hefur verið af Óskari Sigurðssyni, JP lögfræðingum, sbr. bókun byggðaráðs á fyrrgreindum fundi.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir fyrirliggjandi drög að svarbréfi og felur sveitarstjóra að óska eftir því við JP lögmenn að svarbréfið verði sent til ráðuneytisins.

 

7.4.    Svar skólastjóra Bláskógaskóla vegna bréf NKG-verkefnalausna, dags. 11. febrúar 2015; sjá dagskrárlið 6.2 á 157. fundi byggðaráðs Bláskógabyggðar.

Lagt fram svar skólastjóra vegna bréfs NKG – verkefnalausna þar sem óskað var eftir fjárstyrk til verkefnisins.

Í svari skólastjóra kemur fram að skólinn mun ekki taka þátt í verkefninu í ár.  Í ljósi þess er erindi NKG-verkefnalausna hafnað.

 

7.5.    Bréf Sambands garðyrkjubænda, dags. 25. mars 2015; Íslensk garðyrkja í 60 ár. Heimildarmynd.

Lagt fram bréf Sambands garðyrkjubænda þar sem óskað er eftir fjárstyrk vegna gerðar heimildakvikmyndar í tilefni þess að 60 ár eru nú liðin frá stofnun sambandsins.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að styrkja verkefnið um 100.000.

 

7.6.    Bréf Sýslumannsins á Suðurlandi, dags. 1. apríl 2015; beiðni um umsögn vegna rekstrarleyfis að Vörðuási til gististaðar í flokki II.

Lagt fram bréf Sýslumannsins á Suðurlandi þar sem óskað er eftir umsögn vegna umsóknar Kvarnarinnar ehf. kt. 410376-0169 um rekstrarleyfi til reksturs gististaðar í flokki II að Vörðuási.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemdir við að umrætt leyfi verði veitt þar sem þessi starfssemi samræmist gildandi skipulagi.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar óskar eftir því við Sýslumann á Suðurlandi að staðfesting á leyfisveitingu verði send til skrifstofu Bláskógabyggðar og til byggingarfulltrúa Uppsveitanna.

 

7.7.    Bréf Sýslumannsins á Suðurlandi, dags. 9. apríl 2015; beiðni um umsögn vegna rekstrarleyfis að Árgili til gististaðar í flokki II.

Lagt fram bréf Sýslumannsins á Suðurlandi þar sem óskað er eftir umsögn vegna umsóknar Lóms ehf. kt. 560514-0850 um rekstrarleyfi til reksturs gististaðar í flokki II að Árgili.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemdir við að umrætt leyfi verði veitt þar sem þessi starfssemi samræmist gildandi skipulagi.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar óskar eftir því við Sýslumann á Suðurlandi að staðfesting á leyfisveitingu verði send til skrifstofu Bláskógabyggðar og til byggingarfulltrúa Uppsveitanna

 

7.8.    Bréf starfsfólks grunnskóladeildar Bláskógaskóla Laugarvatni, dags. 9. apríl 2015; aðbúnaður skóla.

Lagt fram bréf starfsfólks grunnskóladeildar Bláskógaskóla á Laugarvatni þar sem sett er fram yfirlit yfir þætti sem óskað er eftir úrbótum á, vegna aðbúnaðar skólans.  Jafnframt er sveitarstjórn boðið í heimsókn til skólans klukkan 15:00 þann 21. apríl n.k.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar þakkar bréfriturum innsend gögn og vísar þeim til Þjónustu- og framkvæmdasviðs og skólastjóra til úrvinnslu.  Jafnframt þakkar sveitarstjórn fyrir heimsóknarboð og munu fulltrúar sveitarstjórnar mæta eftir því sem aðstæður leyfa.

 

 

  1. Efni til kynningar:

8.1.    Kynning á verkefninu „Virkjum hæfileikana – alla hæfileikana, á vegum Vinnumálastofnunar, Öryrkjabandalags Íslands og Landssamtakanna Þroskahjálpar.

8.2.    Bréf Félags íslenskra félagsliða, dags. 7. apríl 2015; fagleg þjónusta í ummönnunar- og velferðarþjónustu.

8.3.    Bréf frá Ráðrík ehf, dags. 24. mars 2015; kynning á starfi ráðgjafafyrirtæki.

8.4.    Bréf Minjastofnunar Íslands, dags. 26. mars 2015; Lækjarhvammsvirkjun í Laugardal.

8.5.    Bréf Minjastofnunar Íslands, dags. 7. apríl 2015; mótvægisaðgerðir vegna Lækjarhvammsvirkjunar í Laugardal.

8.6.    Bréf Héraðssambandsins Skarphéðins, dags. 26. mars 2015; samþykktar tillögur á 93. héraðsþingi HSK.

8.7.    Bréf Skipulagsstofnunar, dags. 19. mars 2015; umsögn um framkomnar athugasemdir við auglýsta tillögu að landsskipulagsstefnu 2015 – 2026.

8.8.    Bréf forsætisráðuneytis, dags. 15. mars 2015; fundur um málefni þjóðlendna 18. maí 2015.

 

  1. Drög að lýsingu vegna endurskoðunar aðalskipulags Bláskógabyggðar 2015-2027.

Lögð fram að nýju drög að lýsingu endurskoðunar aðalskipulags Bláskógabyggðar, en gerðar hafa verið smávægilegar breytingar frá samþykkt sveitarstjórnar þann 5. febrúar s.l.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir fyrirliggjandi drög að lýsingu og að hún verði auglýst til kynningar.  Skipulagsfulltrúa er falið að vinna málið áfram og koma lýsingunni í auglýsingu og kynningu.

Eyrún M. Stefánsdóttir vék af fundi undir þessum lið.

 

 

Fundi slitið kl. 19:10.