183. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar

183. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn

fimmtudaginn 3. mars 2016, kl. 15:15

í Aratungu

 

 

Mætt voru:

Helgi Kjartansson, Valgerður Sævarsdóttir, Óttar Bragi Þráinsson, Kolbeinn Sveinbjörnsson, Guðrún S. Magnúsdóttir, Eyrún M. Stefánsdóttur, Bryndís Á. Böðvarsdóttir, Valtýr Valtýsson sveitarstjóri og Sigurrós H. Jóhannsdóttir, sviðsstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

 

Oddviti bar upp tillögu til dagskrárbreytingar, að inn komi nýr dagskrárliður 6.3. Tillagan samþykkt samhljóða.

 

  1. Fundargerðir til staðfestingar:

1.1.    169. fundur byggðaráðs Bláskógabyggðar. Samþykkt samhljóða.

 

1.2.    104. fundur skipulagsnefndar ásamt afgreiðslum byggingarfulltrúa.

 

Mál nr. 14; Miðholt 14-16: Reykholt: Deiliskipulagsbreyting – 1602023.

Lögð fram umsókn Geysis ehf. dags. 4. febrúar 2016 um breytingu á deiliskipulagi Miðholts í Reykholti. Breytingin nær til lóðarinnar Miðholt 14-16 þar sem skv. gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir parhúsi. Óskað er eftir að í stað parhúss verði gert ráð fyrir raðhúsi með 5 íbúðum á bilinu 40-80 fm. Heildarbyggingarmagn breytist ekki og heldur ekki útmörk byggingarreits.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við að deiliskipulagi svæðisins verði breytt til samræmis við fyrirliggjandi umsókn. Að mati sveitarstjórnar er um óverulega breytingu að ræða og skal hún grenndarkynnt fyrir eigendum Miðholts 17-23.

 

Mál nr. 15; Miðholt 33 og 35: Reykholt: Deiliskipulagsbreyting – 1602022.

Lögð fram umsókn Geysis ehf. dags. 4. febrúar 2016 um breytingu á deiliskipulagi Miðholts í Reykholti. Breytingin nær til lóðanna Miðholt 33 og 35 þar sem skv. gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir einbýlishúsum. Óskað er eftir að í stað einbýlishúsa verði gert ráð fyrir raðhúsi með 3 íbúðum á bilinu 40-100 fm á hvorri lóð. Heildarbyggingarmagn breytist ekki og heldur ekki útmörk byggingarreits.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við að deiliskipulagi svæðisins verði breytt til samræmis við fyrirliggjandi umsókn. Að mati sveitarstjórnar er um óverulega breytingu að ræða og skal hún grenndarkynnt fyrir eigendum Miðholts 17-31 og Kistuholt 10-16.

 

Mál nr. 16; Efri-Reykir (Stekkatún) lnr. 167080: Stekkatún 3, 4 og 5: Stofnun lóða – 1602021.

Lögð fram umsókn Eflu verkfræðistofu f.h. eigenda Efri-Reykja dags. 4. febrúar 2016 um stofnun þriggja lóða úr landi Efri-Reykja lnr. 167080.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við stofnun lóðanna en bendir á að áður en hægt er að sækja um byggingarleyfi á einstökum lóðum þarf að vinna deiliskipulag fyrir svæðið í heild, þ.e. allar lóðir við Stekkatún. Ekki er gerð athugasemd við landsskipti skv. 13. gr. jarðalaga.

 

Mál nr. 17; V-gata 16 og 18: Sameining lóða: Úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála – 1602017.

Lagður fram til kynningar úrskurður Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda dags. 28. janúar 2016 um ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar um að hafna sameiningu frístundahúsalóða nr. 16 og 18 við V-götu í landi Miðfells. Niðurstaðan var að hafna kröfu um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar.

 

Mál nr. 18; Veiðilundur frístundasvæði: Miðfell: Deiliskipulag – 1511043.

Lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir frístundabyggðina Veiðilund úr landi Miðfells. Er tillagan sett fram á ódags. uppdrætti í mkv. 1:2.500 og er greinargerð á uppdrætti auk þess að fylgja með í sér hefti. Þá fylgir einnig með bréf eigenda lóða við Eikarlund og Asparlund þar sem farið er fram á sameiningu lóðar í þeirra eigu.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar fagnar því að unnið sé að deiliskipulagi fyrir hluta Miðfellshverfisins sem felur í sér að settir eru samræmdir skilmálar fyrir hverfi sem hefur verið í töluverðri endurnýjun. Að mati sveitarstjórnar skulu skilmálar miðað við að hámarksstærð húsa sé 100 fm og að hámarks mænishæð sé 5,5 m frá jörðu. Einnig að ekki megi vera fleiri aukahús en eitt sem að hámarki getur verið 30 fm. Mælt er með að áður en tillagan verði auglýst að þá verði hún kynnt öllum lóðarhöfum í 1-3 vikur og þeim gefinn kostur á að koma með athugasemdir og ábendingar.

 

Mál nr. 19; Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 16-23 – 1602001F.

Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 3. febrúar 2016.

 

1.3.    105. fundur skipulagsnefndar ásamt afgreiðslum byggingarfulltrúa.

 

Mál nr. 13; 1502075 – Fljótsholt: Reykholt: Fyrirspurn.

Lögð fram að lokinni auglýsingu tillaga að deiliskipulagi sem nær til lóðarinnar Fljótsholt í Reykholti sem felst í að gert er ráð fyrir 6 parhúsum á bilinu 100-140 fm að stærð auk 4 einbýlishúsa á bilinu 100-120 fm. Öll hús verða á einni hæð. Tillagan var auglýst 7. janúar 2016 með athugasemdafresti til 19. febrúar. Ein athugasemd barst sbr. bréf dags. 18. febrúar 2016 þar sem gerð er athugasemd við þéttleika byggðar á lóðinni sem muni hugsanlega valda ónæði. Þá liggja fyrir viðbrögð skipulagshönnuðar dags. 22. febrúar 2016, f.h. umsækjanda, við atriðum athugasemdar.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur að fyrirliggjandi athugasemd gefi ekki tilefni til breytinga á deiliskipulaginu enda er nýtingarhlutfall svæðisins í samræmi við það sem almennt tíðkast á íbúðarsvæðum í þéttbýli. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir deiliskipulagið óbreytt.

 

Mál nr. 14; 1602042 – Gistiheimilið Iðufell 167389: Verslunar- og þjónustusvæði: Aðalskipulagsbreyting.

Lögð fram umsókn Norverk efh. dags. 17. febrúar 2016 þar sem óskað er eftir breytingu á aðalskipulagi Bláskógabyggðar sem nær til lóðar Iðufells í Laugarási. Óskað er eftir að svæði fyrir verslun- og þjónustu stækki á kostnað íbúðarsvæðis.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við að aðalskipulagi lóðarinnar verði breytt til samræmis við ofangreinda umsókn. Sveitarstjórn samþykkir að kynna lýsingu aðalskipulagsbreytingar skv. 1. mgr. 30. gr. og strax í kjölfarið tillögu að breytingu á aðalskipulagi í samræmi við 2. mgr. 30. gr.

 

Mál nr. 15; 1602044 – Tröllhálsnáma við Kaldadalsveg (550-02): Efnistaka: Framkvæmdaleyfi.

Lögð fram umsókn Vegagerðarinnar dags. 18. febrúar 2016 um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr námu við Tröllháls (Ormavelli) í Þingvallasveit, sem merkt er sem náma e2a í gildandi aðalskipulagi. Efnistakan er ætluð vegna lagningar slitlags á hluta Kaldadalsvegar og er gerð ráð fyrir að taka um 12.500 m3 á um 5.000 m2 svæði. Framkvæmdin fellur undir ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, þ.e. er tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar (liður 2.02 í 1. viðauka).

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við að gefið verði út framkvæmdaleyfi fyrir efnistökunni með fyrirvara um umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.

 

Mál nr. 16; 1602046 – Stekkjartún lnr. 167352: Stekkjartún 1 og 2: Stofnun lóðar.

Lögð fram umsókn Jóhanns Gunnarssonar dags. 28. janúar 2016 þar sem óskað er eftir að lóðinni Stekkjartún lnr. 167352 verði skipt í tvær lóðir. Á lóðinni er í dag 53 fm sumarhús byggt 1967.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við skiptingu lóðarinnar en bendir á að ekki er hægt að byggja á nýrri lóð nema á grundvelli deiliskipulags.

 

Mál nr. 17; 1602051 – Stíflisdalur lóð 1 lnr. 170790: Byggingarleyfi fyrir skemmu: Fyrirspurn.

Lögð fram fyrirspurn Eiríks Karlssonar dags. 17. febrúar 2016 um hvort að heimilt sé að byggja 100 fm skemmu á lóðinni Stíflisdalur lóð 1 lnr. 170790. Lóðin er frístundahúsalóð og er skráð 5.000 fm að stærð. Samhliða framkvæmd yrðu 3 smáhýsi sem eru á lóðinni fjarlægð. Á lóðinni er líka skráð 66 fm frístundahús.

Að mati sveitarstjórnar Bláskógabyggðar samræmist bygging 100 fm skemmu á 5.000 fm lóð ekki samþykktum Bláskógabyggðar um stærð aukahúsa á frístundahúsalóðum, þ.e. að þau geti að hámarki verið 30 fm. Umsókninni er því hafnað.

 

Mál nr. 18; 1602052 – Skálabrekka lóð: Umsókn um byggingarleyfi: Sumarhús og bátaskýli: Kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Lagt fram bréf úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 19. febrúar 2016 þar sem kynnt er kæra Axels Helgasonar dags. 16. febrúar 2016 varðandi ákvörðun skipulagsnefndar frá 7. janúar 2016 um umsókn um endurnýjun á byggingarleyfi á lóð hans í landi Skálabrekku.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar staðfestir afgreiðslu skipulagsnefndar sem fól skipulagsfulltrúa að senda úrskurðarnefnd gögn varðandi afgreiðslu málsins.

 

Mál nr. 19; 1602053 – Einiholt 1 land 1: Verslun- og þjónusta: Aðalskipulagsbreyting: Kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Lagt fram bréf úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 19. febrúar 2016 þar sem kynnt er kæra dags. 12. febrúar 2016 vegna breytingar á aðalskipulagi á spildu úr landi Einiholts.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar bendir á að skv. 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra staðfesta ekki kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Skipulagsfulltrúa er falið að svara bréfi nefndarinnar.

 

 

 

Mál nr. 25; 1602004F – Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 16-24.

Lagðar fram til kynningar afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 17. febrúar 2016.

 

  1. Fundargerðir lagðar fram til kynningar:

2.1.    33. fundur stjórnar Skipulags- og byggingarfulltrúi Uppsveita bs.

2.2.    Oddvitafundur Laugaráslæknishéraðs, dags. 22. febrúar 2016.

 

  1. Minka- og refavinnsla í Bláskógabyggð.

Lagðar fram skýrslur um minka- og refavinnslu í Bláskógabyggð fyrir veiðiárin 2013 – 2014 og 2014 – 2015. Umræða varð um skýrslurnar og árangur af vinnslu minka í sveitarfélaginu.

 

  1. Ljósleiðaravæðing í Bláskógabyggð.

Lögð fram kynning á verkefninu „Ísland ljóstengt“ sem kynnt var á kynningarfundi stjórnar SASS með sveitarstjórnarmönnum, sem haldinn var 10. febrúar s.l. Einnig lögð fram drög að samningi milli Bláskógabyggðar og Guðmundar Daníelssonar um frumhönnun og kostnaðargreiningu á lagningu á ljósleiðarakerfi um Bláskógabyggð.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að ganga til samninga við Guðmund Daníelsson á forsendum fyrirliggjandi draga að samningi og felur oddvita að undirrita samninginn fyrir hönd Bláskógabyggðar.

 

  1. Skipulagsmál:

5.1.    Tillaga að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 – 2030; Rúv-reitur.

Lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 – 2030, Rúv-reitur.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir engar athugasemdir við fyrirliggjandi tillögu að breytingu á aðalskipulagi.

 

5.2.    Tölvuskeyti HS Orku, dags. 19. febrúar 2016; breyting aðalskipulags í tengslum við Brúarvirkjun.

Lagt fram tölvuskeyti HS Orku ásmat tillögu breytingu aðalskipulags Biskupstungna, skipulags- og matslýsing.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að gera breytingu á aðalskipulagi í samræmi við fyrirliggjandi umsókn og felur skipulagsfulltrúa að kynna lýsingu skipulagsbreytingarinnar skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

5.3.    Bréf Skipulagsstofnunar, dags. 24. febrúar 2016; umsögn um mat á umhverfismati vegna Brúarvirkjunar í Tungufljóti.

Lagt fram bréf Skipulagsstofnunar þar sem óskað er eftir umsögn um mat á umhverfismati vegna Brúarvirkjunar í Tungufljóti.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að veita skipulagsfulltrúa umboð til þess að svara erindinu og veita umsögn fyrir hönd sveitarstjórnar Bláskógabyggðar.

 

5.4.    Tillaga að endurskoðun Aðalskipulags Bláskógabyggðar.

Lögð fram tillaga að endurskoðuðu aðalskipulagi Bláskógabyggðar, þ.e. forsenduskýrsla, greinargerð og uppdrættir.  Umræða varð um framlögð skipulagsgögn.

Drög að tillögu að endurskoðun aðalskipulags Bláskógabyggðar voru kynnt á íbúafundi sem haldinn var í félagsheimilinu Aratungu 3. febrúar sl. Á fundinum bárust ýmsar athugasemdir og ábendingar auk þess sem haft hefur verið samráð við einstaka hagsmunaaðila á svæðinu í tengslum við ákveðna þætti aðalskipulagsins. Í kjölfar þessa hafa verið gerðar ýmsar breytingar og lagfæringar á gögnum aðalskipulagsins sem hér eru lögð fram til afgreiðslu. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að fela skipulagsfulltrúa til kynna áætlunina skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga 123/2010.

 

  1. Innsend bréf og erindi:

6.1.    Bréf foreldraráðs leikskólans Álfaborgar, dags. 1. mars 2016; sumarfríslokun.

Lagt fram bréf foreldraráðs leikskólans Álfaborgar þar sem óskað er eftir því að sumarfríslokun leikskólans verði stytt úr 6 vikum í 4 vikur.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar bendir á að ekki er gert ráð fyrir slíkum kostnaðarauka skv. gildandi fjárhagsáætlun ársins 2016 og því ekki hægt að verða við þessum óskum á þessu ári. Sveitarstjórn felur skólastjórum leikskóla sveitarfélagsins að skoða þetta mál og kostnaðarmeta þessa breytingu og útfæra hugmyndir um framkvæmd hennar.  Sveitarstjórn leggur áherslu á samræmda þjónustu hjá leikskólum sveitarfélagsins hvað þetta varðar.  Sveitarstjórn óskar eftir greinargerð frá skólastjórum leikskólanna um þessa skipulagsbreytingu sem liggi fyrir í vor svo hægt verði að taka umræðu og ákvarðanir fyrir gerð fjárhagsáætlunar 2017.

 

6.2.    Umsókn Skálholtssóknar vegna framkvæmda við lagfæringu á nýja garðinum áamt kostnaðaráætlun.

Erindið var lagt fram á 181. fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar og þá vísað til næsta reglubundna fundar sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar bendir á að best hefði verið að framlögð umsókn hefði borist fyrir gerð fjárhagsáætlunar 2016. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur takmarkað rými innan gildandi fjárhagsáætlunar og samþykkir að veita styrk að upphæð kr. 180.000 til verkefnisins sem verður bókaður sem styrkur til menningartengdra verkefna.

 

6.3.    Bréf Lánasjóðs sveitarfélaga, dags. 22. febrúar 2016; auglýsing eftir framboðum í stjórn.

Lagt fram bréf Lánasjóðs sveitarfélaga þar sem óskað er eftir framboðum eða tilnefningum í stjórn eða varastjórn sjóðsins. Skulu framboð eða tilnefningar hafa borist kjörnefnd fyrir 7. mars n.k.  Jafnframt kemur fram í bréfinu að aðalfundur félagsins verður haldinn 8. apríl n.k.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að Helgi Kjartansson verði fulltrúi Bláskógabyggðar á fundinum og Valgerður Sævarsdóttir til vara. Fundurinn verður haldin sama dag og 30. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 

  1. Bréf Stígavina, félags um göngustígagerð, dags. 28. febrúar 2016; kynning á félaginu.

Lagt fram til kynningar.

 

Fundi slitið kl. 17:10.