184. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar

184. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn

fimmtudaginn 7. apríl 2016, kl. 15:15

í Aratungu

 

 

Mætt voru:

Helgi Kjartansson, Valgerður Sævarsdóttir, Óttar Bragi Þráinsson, Kolbeinn Sveinbjörnsson, Guðrún S. Magnúsdóttir, Eyrún M. Stefánsdóttur, Bryndís Á. Böðvarsdóttir, Valtýr Valtýsson sveitarstjóri og Sigurrós H. Jóhannsdóttir, sviðsstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

 1. Fundargerðir til staðfestingar:

1.1.    170. fundur byggðaráðs Bláskógabyggðar.

Fundargerð samþykkt samhljóða.

 

1.2.    106. fundur skipulagsnefndar ásamt afgreiðslum byggingarfulltrúa.

Mál nr. 7; Höfðaflatir í Úthlíð: Malarnáma: Framkvæmdaleyfi – 1509053.

Lögð fram að nýju umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir námu við Höfðaflatir í sameignarlandi Úthlíðar, Stekkholts og Hrauntúns. Náman er á 2,4 ha svæði og er ráðgert að vinna allt að 30.000 m3. Fyrir liggur álit Skipulagsstofnunar dags. 26. febrúar 2016 varðandi ákvörðun um matsskyldu en niðurstaða stofnunarinnar var að ekki var talið að fyrirhuguð efnistaka sé líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við að gefið verði út framkvæmdaleyfi fyrir efnistökunni í samræmi við fyrirliggjandi umsögn þegar fyrir liggur undirrituð umsókn allra landeigenda

 

Mál nr. 8; Lindarbraut 3: Laugarvatn: Nýtingarhlutfall: Deiliskipulagsbreyting – 1603009.

Lögð fram umsókn Róberts Arons Pálmasonar dags. 3. mars 2016 um breytingu á skilmálum lóðarinnar Lindarbraut 3 þannig að byggja megi allt að 260 fm hús á einni hæð á lóðinni. Gildandi skilmálar gera ráð fyrir að nýtingarhlutfall lóðarinnar sé 0,20 en teikningar að nýju húsi fela í sér að nýtingarhlutfall verði um 0,23.

Að mati sveitarstjórnar Bláskógabyggðar er um svo óveruleg frávík að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Í ljósi þessa gerir nefndin ekki athugasemd við að gefið verði út byggingarleyfi fyrir 260 fm húsi á einni hæð.

 

Mál nr. 9; Einiholt 1 lnr. 167081: 3 nýjar lóðir: Stofnun lóða – 1512037.

Lögð fram að nýjum umsókn eiganda Einiholts 1 lnr. 167081 um stofnun þriggja lóða úr jörðinni í samræmi við meðfylgjandi uppdrátt. Um er að ræða 720 fm lóð utan um fjós á bæjartorfunni, 10,9 ha spildu sem kallast Dyngjubakki og 3,9 ha spilda sem kallast Dyngja.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við stofnun lóðanna með fyrirvara um að ekki verði gert ráð fyrir hnitsetningu Einiholtslækjar og með fyrirvara um samþykki aðliggjandi landeigenda á hnitsetningu landamarka. Ekki er gerð athugasemd við landsskipti skv. 13. gr. jarðalaga.

 

Mál nr. 10; Hvannalundur 8: UUA – 1505031.

Með úrskurði Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 17. apríl 2015 var byggingarleyfi fyrir stækkun sumarhúss á lóðinni Hvannalundur 8 í landi Miðfells sem samþykkt var 13. september 2011 fellt úr gildi. Í kjölfarið óskuðu eigendur Hvannalundar 10, sem kærðu málið, eftir því að húsið yrði fjarlægt frá lóðarmörkum, sbr. tölvupóst dags. 25. maí og 13. júní 2015. Leitað hefur verið eftir viðbrögðum eigenda Hvannalundar 8 og liggja þau fyrir í bréfi 12. febrúar 2016.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar fellst ekki á að efnisrök eða hagsmunir séu fyrir því að fjarlægja húsið frá lóðarmörkum. Vinna við breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins stendur nú yfir og er fyrirhugað að þeirri vinnu ljúki á haustmánuðum. Afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi er því frestað til 1. október 2016.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir alvarlegar athugasemdir við málshraða Úrskurðarnefndar þar sem niðurstaða á að liggja fyrir innan 6 mánaða. Fjögur ár eru liðin frá því að málið var kært og þessi málshraði veldur öllum aðilum máls umtalsverðum erfiðleikum og er í engu samræmi við lögboðinn afgreiðslutíma.

 

Mál nr. 11; Borgarhólsstekkur 1: Umsókn um byggingarleyfi: Gestahús – 1501075.

Með úrskurði Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 19. september 2014 var byggingarleyfi fyrir byggingu 25,8 fm gestahúss á lóðinni Borgarhólsstekkur 1 í landi Miðfells sem samþykkt var 12. júlí 2007 fellt úr gildi. Í kjölfarið óskuðu kærendur eftir því að húsið yrði fjarlægt, sbr. tölvupóst frá 11. júní 2015. Leitað hefur verið eftir viðbrögðum eigenda Borgarhólsstekks 1 og liggja þau fyrir í bréfi 18. febrúar og 22. febrúar 2016.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar fellst ekki á að efnisrök eða hagsmunir séu fyrir að fjarlæga gestahúsið. Þá er byggingin í samræmi við það sem almennt hefur tíðkast að veita leyfi fyrir í sumarhúsahverfum í sveitarfélaginu. Vinna við breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins stendur nú yfir og er fyrirhugað að þeirri vinnu ljúki á haustmánuðum. Afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi er því frestað til 1. október 2016.

 

Mál nr. 12; Hamarsvegur 2: Umsókn um byggingarleyfi: Sumarhús – 1603011.

Lögð fram umsókn eigenda Hamarsvegar 2 úr landi Iðu um leyfi til að byggja 15 fm sumarhús á lóðinni.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að grenndarkynna umsóknina fyrir aðliggjandi lóðarhöfum. Ef engar athugasemdir berast er málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

 

Mál nr. 15; Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 16-25 – 1603001F.

Afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 2. mars 2016 lagðar fram til kynningar.

 

1.3.    107. fundur skipulagsnefndar ásamt afgreiðslum byggingarfulltrúa.

Mál nr. 1; Brekka: Frístundabyggð: Aðalskipulagsbreyting – 1506082.

Lögð fram að lokinni auglýsingu skv. 1.mgr. 31. gr. tillaga að breytingu á 7 ha svæði í landi Brekku í Bláskógabyggð úr landbúnaðarsvæði í svæði fyrir frístundabyggð. Tillagan var auglýst 7. janúar 2016 með athugasemdarfresti til 19. febrúar. Ein athugasemd barst, frá BHM með bréfi dags. 10. febrúar 2016. Þá liggja fyrir viðbrögð umsækjenda við athugasemd, í bréfi dags. 16. mars 2016.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur að athugasemd gefi ekki tilefni til breytinga á tillögunni og samþykkir hana óbreytta.

 

 

 

Mál nr. 2; Haukadalur: Deiliskipulag – 1502036.

Lagt fram bréf Skipulagsstofnunar dags. 12. febrúar 2016 þar sem gerðar eru nokkrar athugasemdir við deiliskipulag fyrir Geysissvæðið í Haukadal. Þá eru jafnframt lögð fram lagfærð deiliskipulagsgögn þar sem komið er til móts við athugasemdir Skipulagsstofnunar.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir deiliskipulagið að nýju með breytingum til að koma til móts við athugasemdir Skipulagsstofnunar.

 

Mál nr. 3; Sporðholt 1 lnr. 202230: Breyting á stærð lóðar – 1603028.

Lögð fram umsókn eigenda lóðarinnar Sporðholt 1 um að hnitsett afmörkun lóðarinnar verði staðfest. Lóðin er í dag skráð 10.000 fm en er skv. meðfylgjandi lóðablaði dags. 28. febrúar 2016 11.190 fm.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við nýtt lóðablað með fyrirvara um samþykki aðliggjandi landeigenda á hnitsetningu lóðamarka.

 

Mál nr. 4; Dalsmynni lóð 189781 og 189782: Breyting á heitum lóða – 1603029.

Lagt fram erindi Sigurðar I. Halldórssonar hdl. dags. 15. mars 2016, f.h. eigenda jarðarinnar Dalsmynnis lnr. 167074 um breytingu á heiti lóða með lnr. 189781 og 189782. Óskað er eftir að lóðirnar fái heitið Sölvagil 3 og 5, til vara Hæðagil.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við að lóðirnar fái heitið Sölvagil.

 

Mál nr. 5; Miðhús 167418: Umsókn um byggingarleyfi: Sumarhús – 1603018.

Sótt er um leyfi til að byggja sumarhús með svefnlofti úr timbri, 79,6 ferm og 277 rúmmetra, eldra hús verður fjarlægt af lóð.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að grenndarkynna umsóknina fyrir aðliggjandi lóðarhafa skv. 44. gr. skipulagslaga nr.123/2010. Ef engar athugasemdir berast er málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

 

Mál nr. 13; Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 16-26 – 1603004F.

Afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 16. mars 2016 lagðar fram til kynningar.

 

1.4.    108. fundur skipulagsnefndar ásamt afgreiðslum byggingarfulltrúa.

Mál nr. 6; Hrauntún 167113: Byggingareitur nr. 3: Stofnun lóðar – 1604001.

Lögð fram umsókn eigenda jarðarinnar Hrauntúns dags. 13. mars 2016 um stofnun lóðar 3 undir sumarhúsalóð, með vísun í gildandi deiliskipulag fyrir frístundabyggð. Í skipulaginu eru afmarkaðir 10 byggingarreitir sem eru 50 x 50 m að stærð en ekki eru afmarkaðar sérstakar lóðir utan um þá.

Að mati sveitarstjórnar Bláskógabyggðar er forsenda lóðarstofnunar að gerð verði breyting á deiliskipulagi svæðisins sem felst í að afmarkaðar verði lóðir utan um byggingareitina. Slík breyting er óveruleg að mati sveitarstjórnar Bláskógabyggðar og samþykkir hana skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga með fyrirvara um samþykki allra landeigenda.

 

Mál nr. 8; Koðrabúðir lóð 12 lnr. 193027: Heiði: Fyrirspurn – 1511006.

Lögð fram að nýju umsókn um viðbyggingu við sumarhús á lóðinni Koðrabúðir 12 í landi Heiðar. Ferli skipulagsbreytingar hefur verið í gangi í nokkurn tíma og er nú til afgreiðslu hjá Skipulagsstofnun. Við þá málsmeðferð kom í ljós að upphaflegt deiliskipulag svæðisins tók líklega aldrei gildi með auglýsingu í B-deild stjórnartíðinda og þess vegna er ekkert deiliskipulag í gildi á svæðinu.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur að þar sem ekki er í gildi deiliskipulag á svæðinu megi afgreiða umsókn um viðbyggingu í samræmi við 44. gr. skipulagslaga, þ.e. grenndarkynna byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi. Sveitarstjórn samþykkir að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina fyrir aðliggjandi lóðarhöfum. Ef engar athugasemdir berast á kynningartíma að þá er málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

 

Mál nr. 11; Afgreiðslur byggingarfulltrúa – 16-27 – 1603006F.

Afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 31. mars 2016 lagðar fram til kynningar.

 

 

1.5.    5. fundur vinnuhóps um íþróttamiðstöðina í Reykholti; minnisblað.

Einnig var lagt fram tölvuskeyti Kristins J. Gíslasonar ásamt frumkostnaðaráætlun.

Fundargerð samþykkt samhljóða og tillaga vinnuhóps um að lokið verði við hönnun á endurnýjun og breytingum á íþróttamiðstöðinni í Reykholti. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela vinnuhópi um íþróttamiðstöðina í Reykholti að vinna áfram að framgangi verkefnisins.

 

1.6.    1. fundur vinnuhóps um þjónustuíbúðir fyrir aldraða í Bláskógabyggð.

Fundargerð samþykkt samhljóða.

 

 1. Fundargerðir lagðar fram til kynningar:

2.1.    34. fundur stjórnar Skipulags- og byggingarfulltrúi Uppsveita bs.

2.2.    35. fundur stjórnar Skipulags- og byggingarfulltrúi Uppsveita bs.

2.3.    176. fundur fagráðs Tónlistarskóla Árnesinga.

2.4.    1. fundur stjórnar Brunavarna Árnessýslu.

2.5.    2. fundur stjórnar Brunavarna Árnessýslu.

2.6.    3. fundur stjórnar Brunavarna Árnessýslu.

2.7.    24. fundur stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga ásamt ársskýrslu 2015.

 

 1. Ársreikningur Bláskógabyggðar 2015 ( fyrri umræða ).

Auðunn Guðjónsson, endurskoðandi hjá KPMG, mætti á fundinn undir þessum dagskrárlið.

Auðunn Guðjónsson og sveitarstjóri kynntu fyrirliggjandi ársreikning Bláskógabyggðar 2015 ásamt endurskoðunarskýrslu 2015. Umræða varð um niðurstöðu rekstrar Bláskógabyggðar á síðast liðnu ári og svöruðu Auðunn og sveitarstjóri framkomnum spurningum.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að vísa ársreikningi til síðari umræðu í sveitarstjórn á næsta reglubundna fundi sveitarstjórnar. Einnig er ársreikningi Bláskógaveitu vísað til stórnar Bláskógaveitu og óskað eftir afstöðu hennar fyrir síðari umræðu sveitarstjórnar.

 

 1. Tillaga um samþykktir fyrir Skipulags- og byggingarfulltrúa Uppsveita bs. ásamt fjárhagsáætlun 2016.

Lögð fram tillaga um samþykkt fyrir Skipulags- og byggingarfulltrúa Uppsveita bs. ásamt fjárhagsáætlun fyrir árið 2016. Oddviti kynnti framlagða tillögu og gerði grein fyrir þeirri vinnu sem átt hefur sér stað við gerð samþykktarinnar og svaraði fyrirspurnum. Einnig kynnti hann framlagða fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 en hún fellur að áætluðum kostnaði skv. fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar 2016.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða fyrir sitt leyti framlagða samþykkt og felur oddvita sveitarstjórnar að undirrita hana fyrir hönd Bláskógabyggðar.

 

 1. Samstarfssamningur um umsjón á sameiginlegu seyrusvæði Uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps.

Lagður fram samstarfssamningur um umsjón á sameiginlegu seyrusvæði Uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps. Samningurinn felur í sér samstarf sveitarfélaganna um verkun og förgun seyru.   Hrunamannahreppur mun sjá um framkvæmd og umsjón verkefnisins og verður umsjónarfélag þess.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir fyrir sitt leyti framlagðan samstarfssamning og felur oddvita eða sveitarstjóra að undirrita samninginn fyrir hönd Bláskógabyggðar.

 

 1. Drög að viljayfirlýsingu um áframhaldandi starfsemi Háskóla Íslands á Laugarvatni.

Lögð fram drög að viljayfirlýsingu um áframhaldandi starfsemi Háskóla Íslands á Laugarvatni. Um er að ræða mótvægisaðgerðir í kjölfar ákvörðunar Háskóla Íslands um að flytja nám í íþrótta- og heilsufræði til Reykjavíkur.  Um er að ræða samstarfsverkefni Háskóla Íslands, forsætisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Háskólafélags Suðurlands og Bláskógabyggðar.

Umræða var um fyrirliggjandi drög að viljayfirlýsingu. Stefnt er að undirritun viljayfirlýsingarinnar í tengslum við íbúafund sem haldinn verður á Laugarvatni þar sem þessi málefni verða kynnt og rædd.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir framlagða viljayfirlýsingu fyrir sitt leyti og felur oddvita sveitarstjórnar að undirrita hana fyrir hönd Bláskógabyggðar. Jafnframt er oddvita falið að finna tímasetningu fyrir íbúafund sem fyrst eftir að allir hlutaðeigandi aðilar hafa samþykkt fyrirliggjandi viljayfirlýsingu.  Sveitarstjórn Bláskógabyggðar leggur áherslu á að niðurstaða liggi fyrir sem allra fyrst þannig að hægt verið að halda íbúafund eins fljótt og auðið er.

 

 1. Útboðsgögn vegna sorphirðu í Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppi.

Lögð fram útboðsgögn vegna sorphirðu í Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppi. Oddviti og sveitarstjóri kynntu helstu atriði útboðsgagna og svöruðu fyrirspurnum.

 

 1. Eignayfirlýsing vegna jarðarinnar Laugarvatn.

Lögð fram eignayfirlýsing vegna jarðarinnar Laugarvatns. Nauðsynlegt er að koma þessari eignayfirlýsingu sem fyrst til þinglýsingar þannig að hægt verði að ganga frá skráningum lóða skv. deiliskipulagi Laugarvatns.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur engar athugasemdir við framlagða eignayfirlýsingu og felur sveitarstjóra að undirrita hana fyrir hönd Bláskógabyggðar.

 

 1. Tillaga um ráðningu náms- og starfsráðgjafa í Uppsveitum og Flóa, dags. 15. mars 2016.

Lögð fram tillaga frá Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings um að ráðinn verði náms- og starfsráðgjafi í fullt starf.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir fyrir sitt leyti að ráðinn verði náms- og starfsráðgjafi til Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings og að umrætt starf verði auglýst sem fyrst laust til umsóknar.

 

 1. Innsend bréf og erindi:

10.1.  Bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 31. mars 2016; heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga.

Lagt fram bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem óskað er eftir umræðu og afstöðu sveitarfélaga, heilbrigðisnefnda og stjórna landshlutasamtaka um framtíðar fyrirkomulag heilbrigðiseftirlits, hlutverk þess og verkefni.

Umræða varð um framlagt erindi og samþykkt samhljóða að fresta afgreiðslu þess til næsta reglubundna fundar sveitarstjórnar í byrjun maí.

 

10.2.  Tölvuskeyti Oddnýjar G. Harðardóttur, dags. 30. mars 2016; styrkbeiðni vegna útgáfu blaðs Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

Lagt fram tölvuskeyti Oddnýjar G. Harðardóttur, f.h. Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, þar sem óskað er eftir fjárstuðningi við útgáfu blaðs í tilefni 1. maí, baráttudegi verkalýðsins og 100 ára afmælis ASÍ.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að styrkja verkefnið um kr. 15.000. Umræddur styrkur samræmist fjárhagsáætlun 2016 og verði bókaður á lykil 2159-9991.

 

10.3.  Bréf Skógræktarfélags Íslands, móttekið 31. mars 2016; boð um heiðursáskrift.

Lagt fram bréf Skógræktarfélags Íslands þar sem Bláskógabyggð er boðið heiðursáskrift Skógræktarritsins. Bláskógabyggð hefur verið með heiðursáskrift undanfarin ár.  Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að vera áfram með heiðursáskrift að upphæð kr. 15.000 enda samræmist það fjárhagsáætlun 2016.  Umræddur kostnaður verði bókaður á lykil 2159-9991.

 

10.4.  Bréf Hollvina Grensásdeildar, móttekið 1. apríl 2016; styrkbeiðni.

Lagt fram bréf Hollvina Grensásdeildar þar sem óskað er eftir fjárstyrk að upphæð kr. 10.000 í formi afmæliskveðju, í tilefni útgáfum afmælisblaðs vegna 10 ára afmælis.

Erindinu hafnað.

 

10.5.  Tölvuskeyti Elínar Ó. Hreiðarsdóttur, f.h. Fornleifastofnunar, dags. 1. apríl 2016; styrkur úr Fornleifasjóði vegna skráningar í Skálholti.

Lagt fram tölvuskeyti Fornleifastofnunar þar sem kynnt er að úthlutað hefur verið styrk úr Fornleifasjóði vegna skráningar í Skálholti. Áður hafði sveitarstjórn samþykkt að veita kr. 500.000 í verkefnið ef styrkur fengist til verkefnisins úr Fornleifasjóði.  Stefnt er að því að verkefnið verði unnið í sumar.  Jafnframt samþykkir sveitarstjórn Bláskógabyggðar að ekki verið ráðist í aðra skráningarvinnu á þessu ári, en eiga skal viðræður við Fornleifastofnun um framhald skráningarvinnu skv. gildandi samstarfssamningi á haustmánuðum.

 

10.6.  Tölvuskeyti Jóhanns G. Friðgeirssonar, dags. 4. apríl 2016; reiðvegamál í Laugardal.

Lagt fram tölvuskeyti Jóhanns G. Friðgeirssonar þar sem hann kemur fram með nokkur mál sem tengjast reiðvegamálum í Laugardal, þ.e. í gegnum þéttbýlið á Laugarvatni. Einnig óskar hann eftir að sveitarstjórn beiti sér fyrir að tryggja rétt landeigenda gagnvart almennri umferð ferðamanna um lönd þeirra og að ferðamenn nýti þá aðstöðu sem til staðar er á tjaldsvæðum til næturdvalar, þar sem fullnægjandi hreinlætisaðstaða er fyrir hendi.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að vísa þessu erindi til umfjöllunar í vinnuhóp um endurskoðun aðalskipulags Bláskógabyggðar.

 

10.7.  Bréf skipulagsfulltrúa Uppsveita, dags. 23. mars 2016; endurskoðun aðalskipulags Hrunamannahrepps.

Lagt fram bréf skipulagsfulltrúa Uppsveita þar sem kynnt er mótuð tillaga að aðalskipulagi Hrunamannahrepps 2016 – 2028.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur engar athugasemdir við framlögð gögn.

 

10.8.  Bréf Sigurlínu Kristinsdóttur, dags. 5. apríl 2016; umsókn um launalaust leyfi frá kennslu.

Lagt fram bréf Sigurlínu Kristinsdóttur þar sem hún sækir um launalaust leyfi frá kennslu í Bláskógaskóla, Reykholti, frá 1. ágúst 2016, þar sem hún stefnir á frekara nám við Listaháskóla Íslands.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að heimila skólastjóra Bláskógaskóla í Reykholti að veita Sigurlínu launalaust leyfi til eins árs, frá 1. ágúst 2016 að telja.

 

 1. Erindi til kynningar:

11.1.  Boðun aðalfundar Markaðsstofu Suðurlands sem haldinn verður 12. apríl 2016.

11.2.  Landbótaáætlun fyrir Biskupstungnaafrétt 2016 – 2025.

 

 1. Ráðning sviðsstjóra Framkvæmda- og veitusviðs Bláskógabyggðar.

Oddviti og sveitarstjóri kynntu innsendar umsóknir um starf sviðsstjóra Framkvæmda- og veitusviðs Bláskógabyggðar. Alls bárust 12 umsóknir, en 3 umsækjenda drógu síðan umsóknir sínar til baka.

Lögð voru fram gögn umsækjenda og umsóknir kynntar sveitarstjórn. Umræða varð um málið og svöruðu oddviti og sveitarstjóri fyrirspurnum.  Fram kom að eftir úrvinnslu umsókna voru 8 umsækjendur teknir í viðtöl og í framhaldi af því voru 2 umsækjendur teknir í framhaldsviðtal.

Gerð er tillaga um að Bjarna D. Daníelssyni, viðskiptafræðingi, verði boðin staðan. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða tillöguna.

 

 1. Trúnaðarmál.

Fært í trúnaðarmálabók.

 

Fundi slitið kl. 19:20.