20. fundur
20. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn í Fjallasal Aratungu, fimmtudaginn 4. september 2003, kl 14:30.
Mætt voru: Sveinn A. Sæland, Margeir Ingólfsson, Snæbjörn Sigurðsson, Sigurlaug Angantýsdóttir, Bjarni Þorkelsson, Drífa Kristjánsdóttir og Kjartan Lárusson.
1. Ársreikningur Bláskógabyggðar vegna ársins 2002 síðari umræða. Við fyrri umræðu um ársreikninginn var spurt um uppgjör fjallskila í Laugardal en þegar þau mál voru könnuð þá kom í ljós að uppgjör hafði ekki verið gert og verða þau mál skoðuð með uppgjöri þessa árs. Fulltrúar T-listans komu með fyrirspurnir um ýmsa liði og urðu umræður um þá. Fulltrúar T-listans lögðu fram eftirfarandi bókun: “Það vekur furðu T- listans að ársreikningur skuli fara 15 milljónum fram úr endurskoðaðri fjárhagsáætlun sem afgreidd var af sveitarstjórn 18. desember 2002. Athygli vekur að eftirtaldir liðir hafa farið mjög fram yfir fjárhagsáætlun. Félagsþjónustan 6,9 milljónir, byggingarfulltrúi 2 milljónir, atvinnumá/ tjaldsvæði við Laugarvatn 1,4 milljónir. Sameiginlegur kostnaður/ sveitarstjórn 2 milljónir, endurskoðun 1 milljón, skrifstofukostnaður 5 milljónir. Samtals fer sameiginlegur kostnaður 10 milljónir framúr fjárhagsáætlun. Áhaldahús kr. 4,5 milljónir.” Fulltrúar Þ-listans lögðu fram eftirfarandi bókun: “Þ-listinn álítur að hluta af þessari bókun T-listans hafi verið svarað. Að öðru leyti vísum við til bókunar í 1. lið 19. fundar sveitarstjórnar.”
Þá lagði T-listinn fram eftirfarandi bókun: “Sveitarstjórn skorar á veitustjórn að endurskoða og samræma gjaldskrá beggja veitnanna, Biskupstungnaveitu og Hitaveitu Laugarvatns, þar sem ekki verður séð af framlögðum reikningum veitnanna, að tekjur dugi fyrir gjöldum og afskriftum.” ´Tillagan var borin upp og var hún felld með 4 atkvæðum Þ-listans gegn 2 atkvæðum T-listans og einn sat hjá. Þ-listinn lagði fram eftirfarandi tillögu: ”Skorað er á veitustjórn að hún endurskoði gjaldskrár sínar í ljósi breyttra aðstæðna og niðurstöðu ársreikninga veitnanna.” Tillagan var borin upp og var hún samþykkt með 4 atkvæðum Þ-listans en 3 sátu hjá. Ársreikningur Bláskógabyggðar var síðan samþykktur samhljóða.
2. Umræða um eyðingu refa og minka.
Tillaga T- listans:
Hvatning til ríkisstjórnarinnar (umhverfisráðherra)
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hvetur stjórnvöld til að leggja fram aukið fjármagn til eyðingar refa og minka og stuðli þannig að því að þessi meindýr hafi hvergi griðland. Tillagan var samþykkt samhljóða og var Drífu og Margeiri falið að semja greinargerð með tillögunni.
3. Fyrirspurn T- um framtíðarskipan áhaldahúsanna. Fram kom í svari Margeirs að nefnd sú sem skipuð var til að koma með tillögur að framtíðarskipan áhaldahúsanna hefur sett sér það markmið að skila tillögum til byggðaráðs fyrir fund ráðsins í október.
4. Fyrirspurn T-listans um heimasíðu Bláskógabyggðar.
Fram kom í svari oddvita að gerð heimasíðunnar er lokið og búið að safna saman miklu magni af grunnupplýsingum. Vegna sumarleyfa hefur enn ekki tekist að færa inn á hana þær upplýsingar.
Heimasíðan verður opnuð á næsta sveitarstjórnarfundi 7. október 2003. Bjarni lagði til að á næsta fundi sveitarstjórnar verði tekin upp umræða um sameiningu sveitarfélaga í uppsveitum Árnessýslu.
5. Fyrirspurn T-listans: Hvað líður reglugerð um hundahald. Hundareglugerð fyrir Bláskógabyggð var staðfest í Umhverfisráðuneytinu 1. sept. 2003. Gjaldskrá um hundahald í Bláskógabyggð var lögð fram til staðfestingar og var hún staðfest með 6 atkvæðum en 1 sat hjá.
6. Grenndarkynning við Háholt á Laugarvatni.
Grenndarkynningin hefur fengið meðferð samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 400/1998 gr. 7.2.3. með síðari breytingum.
Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 17:50