21. fundur

  1. fundur – fundargerð
  1. fundur fræðslunefndar Bláskógabyggðar haldinn í Grunnskólanum að Laugarvatni fimmtudaginn 10. júní 2004 kl. 16.00.

Mætt á fundi : Sigurlaug Angantýsdóttir, Erlingur Jóhannsson, Arndís Jónsdóttir,   Sigmar Ólafsson, Svanhildur Eiríksdóttir, Sólrún Héðinsdóttir,Sigríður Kjartansdóttir. Hjördís Ásgeirsdóttir aðalfulltrúi í fræðslunefnd boðaði forföll og var Aðalheiður Helgadóttir varamaður fyrir hana.

Dagskrá:

  1. Áheyrnarfulltrúi Grímsnes- og Grafningshrepps. Sigurlaug rakti aðdraganda málsins og sagði frá því að nemendur úr áðurnefndum hreppum í 7. – 10. bekk sæki skóla að Reykholti næsta vetur. Byggðaráð mælti með því að orðið yrði við erindi um að Grímsnes- og Grafningshreppsbúar fengju í framhaldi þessa áheyrnarfulltrúa í fræðslunefnd Bláskógabyggðar. Sveitarstjórn hefur samþykkt að verða við þessum óskum og mun fulltrúi Grímsnes- og Grafningshrepps væntanlega sitja fundi fræðslunefndar Bláskógabyggðar meðan börn úr Grímsnes- og Grafningshreppi sækja skóla í Bláskógabyggð.
  1. Umhverfisskóli. Sigurður St. Helgason kennari, formaður umhverfisnefndar Bláskógabyggðar, mætti á fundinn og kynnti hugmyndir nefndarinnar varðandi umhverfisskóla. Hann hafði áður sent út gögn sem lúta að þessari hugmynd. Hann yfirfór og kynnti betur þær hugmyndir sem þar koma fram ásamt þeim markmiðum sem nefndin hefur sett sér og fram koma í áðurnefndum gögnum. Þá sagði hann frá því sem þegar hefur verið gert í þessu sambandi og óskaði eftir því að fá fram viðbrögð við framkomnum hugmyndunum frá fundarmönnum. Fundarmenn skiptust á skoðunum varðandi málið. Erlingur veitti svolitlar upplýsingar um hvað “Útiskóli” er og hvað Kennaraháskólinn hyggðist fyrir hvað það varðaði og kom fram  að Grunnskólinn á Laugarvatni hyggðist hefja samstarf við Kennaraháskólann í haust með markvissa vinnu við útiskóla. Talsverðar umræður urðu um vinnuskóla og vinnu unglinga og hvernig mætti breyta viðhorfi fólks almennt um vinnu og fræðslu unglinga utan skóla að sumarlagi. Arndís lagði til að útiskólinn færi af stað næsta haust eins og ráðgert hefur verið og séð yrði til hvernig hægt væri að tengja saman markmið útiskólans  og markmið umhverfisnefndar.
  1. Grunnskóli Bláskógabyggðar. Arndís Jónsdóttir skólastjóri fór yfir ráðningarmál næsta vetrar og sagði þau í nokkuð góðum farvegi, en sagði jafnframt frá því að tveir kennarar sem þegar höfðu gert ráðningarsamning vegna kennslu á Laugarvatni hefðu fallið frá ráðningu sinni og sagt starfinu lausu. Hún greindi frá því að tekist hefði að ráða einn leiðbeinanda í þeirra stað en enn vantaði í u,þ.b. eina og hálfa stöðu fyrir utan sérkennslu. Miklar umræður urðu um stöðu mála við skólann og þær auknu kröfur sem ríkið gerir sífellt til sveitarfélaganna sem leiða af sér aukinn kostnað fyrir sveitarfélögin, s.s. vegna lesskimana o.fl.

Þá kynnti Arndís uppkast að bréfi sem hún fyrir hönd grunn- og leikskólans á Laugarvatni skrifaði. Í þessu bréfi er óskað eftir því við væntanlega nýnema við Kennaraháskólann, íþróttaskor, að þeir tilkynni skólunum strax og þeir hafa fengið staðfestingu á skólavist hvort þeir eigi börn á leik- og grunnskólaaldri sem þurfa skólavist á komandi vetri. Hún mun fyrir hönd grunnskólans óska eftir því að bréfið verði sent væntanlegum nýnemum með tilkynningum til þeirra um skólavist næsta vetur. Erlingur tók þessu vel og lofaði að koma þessu erindi á framfæri með tilkynningum til væntanlegra nema um leið og þeir fá að vita hvort þeir fái skólavist.

Arndís ræddi um tölvumál skólans og fjallaði um nauðsyn þess að ráða mann til þess að sjá um tölvumálin almennt og hafa yfirumsjón með tölvum skólanna og mæltist til þess að fræðslunefnd beitti sér fyrir því að sveitarstjórn kannaði hvort hægt væri að koma betra lagi á þessi mál.

Var þetta mál rætt og tók fólk undir orð Arndísar og vildi að kannaður yrði hugsanlegur möguleiki á að uppsveitirnar réðu sameiginlegan starfsmann til að hafa umsjón og eftirlit með tölvum í eigu sveitarfélaganna, þ.e. í skólum og á skrifstofum.

  1. Leikskólastjóri leikskólans Álfaborgar kynnti niðurstöður úr foreldrakönnun leikskólans, sagði frá Ecers kvarðanum sem er mat á leikskólastarfi og fór yfir vistunarmál næsta skólaárs.

Leikskólastjóri fór yfir niðurstöðurnar og kynnti fyrir nefndarfólki. Almennt talað má segja að könnunin leiði í ljós að foreldrar séu ánægðir með skólann, ef frá er talinn opnunartíminn sem þó einungis þrír foreldrar af 17 sem svöruðu könnuninni gerðu athugasemdir við.  Almennt litu nefndarmenn svo á að könnunin væri jákvæð fyrir leikskólann.

Leikskólastjóri greindi frá því að hún væri mjög ánægð með störf Hrafnhildar Karlsdóttur, leikskólaráðgjafa á skólaskrifstofu og sagði að hún vildi fyrir engan mun missa hana og störf hennar.

Miklar umræður urðu um sveigjanleika í vistunartíma barnanna.

Hvenær má sækja börnin án þess að fá “sekt”?, spyr leikskólastjórinn. Viðmið fræðslunefndar er að foreldrar séu búin að fá börnin í hendurnar kl. 17.00.

Þá ræddi Svanhildur um stöðu starfsmannamála næsta vetur. Hún sagði að einn starfsmaður  í fullu starfi hætti nú í vor og ætlaði hún ekki að ráða nýjan starfsmann í hennar stað, en það stendur mjög glöggt og má börnum ekki fjölga frá því sem nú stendur. Þá sagði hún að engar framkvæmdir væru hafnar í íbúðinni til stækkunar leikskólans, en hún sagði að nú væri sér lofað að eitthvað færi að gerast í næstu viku í húsnæðismálum leikskólans.

Þá kynnti Svanhildur svokallaðan Ecers kvarða sem miðar að því að kanna viðhorf starfsmanna til starfsemi leikskólans. Heildarniðurstaða skólans í könnuninni, sem er stöðluð, er 4,9 og er það rétt yfir almennu meðaltali.

 

Helstu niðurstöður einstakra þátta eru :

Rými og búnaður,           meðaltal 4,5

Umönnun og daglegt líf,         5,9

Mál og hugtakanám,                     5,7

Leikur/Viðfangsefni,                      4,3

Samskipti/Skipulag,                    5,3

Starfsmenn og foreldrar,       3,7

 

Lægst er hægt að fá 1,0 og hæst 7,0

 

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið.

Fundargerð ritaði Sigmar Ólafsson