232. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar

232. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn í Aratungu, Reykholti,
9. maí 2019, kl. 09:30.

Fundinn sátu:
Helgi Kjartansson, Valgerður Sævarsdóttir, Óttar Bragi Þráinsson, Kolbeinn Sveinbjörnsson, Guðrún S. Magnúsdóttir, Eyrún Margrét Stefánsdóttir, Róbert Aron Pálmason og Ásta Stefánsdóttir.

Fundargerð ritaði: Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri.

1. Fundargerð skipulagsnefndar – 1901037
175. fundur skipulagsnefndar haldinn 10. apríl 2019. Afgreiða þarf sérstaklega liði nr. 1, 2, 3, 4, 8 og 9.
-liður 1, Einiholt 3 L192608; Skógarholt; Lögbýli og skógræktarbýli; Deiliskipulag – 1903040
Í framhaldi af umsókn frá Þóri Njálssyni dags. 8.3.2019, vegna tillögu um deiliskipulag og nýtt heiti á lögbýli fyrir skógrækt, og umsögn skipulagsnefndar á fundi 27.3.2019 er nú lögð fram til kynningar skipulagslýsing deiliskipulags dags. 01.4.2019. Í lýsingunni er gert ráð fyrir íbúðarhúsi og bílskúr, skemmu/hesthúsi, skemmu, geymslu/gróðurhúsi og tveimur gestahúsum. Afmarkaðar verða lóðir fyrir hvort gestahús. Alls getur byggingarmagn orðið allt að 790 m2.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir fyrirliggjandi lýsingu dagsetta 19.3.2019. Skipulagsfulltrúa er falið að senda Skipulagsstofnun lýsinguna til umsagnar skv. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og kynna hana almenningi skv. sömu grein skipulagslaga. Einnig verður leitað umsagna hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Vegagerðinni og Minjastofnun Íslands.

-liður 2, Iða 2 lóð L167367 (lóð 6); Aukið byggingarhlutfall á lóð; Fyrirspurn – 1903051
Lögð er fram fyrirspurn Ólínu Valgerðar Hansdóttur, dags 25. mars 2019, eiganda lóðar nr. 6 í landi Iðu, L167367, í Bláskógabyggð, hvort heimilað verði að miða byggingarmagn lóðar við nýtingarhlutfall 0,05. Stærð lóðar er 3559 m2.
Sveitarstjórn heimilar að nýtingarhlutfall lóðarinnar verði 0,05 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar skv. 44. gr. skipulagslaga.

-liður 3, Holtslóð: Frístundabyggð: Neðri-Dalur: Deiliskipulagsbreyting – 1706003
Lögð fram að nýju umsókn Einars B. Jónssonar f.h. N8 ehf. og Neðri-dals ehf., um breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar. Skipulagstillagan hefur verið auglýst áður (árið 2018) en láðist að koma tillögunni í B-deild stjórnartíðinda. Í breytingunni felst að lóðum fjölgar úr 33 í 40 auk þess heiti og afmörkun nokkurra núverandi lóða breytist. Þá er einnig gert ráð fyrir að stærð aukahúsa verði 40 fm í stað 25 fm.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir breytingu á gildandi deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. sömu laga.

-liður 4, Skógarnes – Orlofssvæði Rafiðnaðarsambands Íslands; Austurey lóð L167697; Stækkun byggingarreits; Deiliskipulagsbreyting – 1903054
Lögð er fram umsókn Rafiðnaðarsambands Íslands, dags. 26. mars 2019, Austurey lóð L167697, um deiliskipulagsbreytingu vegna stækkunar á byggingarreit vegna fyrirhugaðrar skemmubyggingar. Stærð byggingarreits stækkar úr 1500 m2 í 2600 m2. Stærð vélaskemmu er allt að 250 m2 með mænishæð allt að 6 m yfir jörðu.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir stækkun byggingarreits með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar skv. 44.gr. skipulagslaga nr. 123/2010, fyrir lóðarhöfum aðliggjandi lóða.

-liður 8, Austurey 3 L167623; Eyrargata 9; Deiliskipulagsbreyting – 1902022
Í framhaldi af umsókn um breytingu á deiliskipulagi frístundalóðar L167623 Austurey 3 er nú lögð fram uppfærð tillaga dags. 4. apríl 2019. Deiliskipulagstillagan felur í sér skilmálabreytingu heildar svæðisins varðandi nýtingarhlutfall sem breytist í 0,03. Heimilt er að reisa eitt frístundahús og eitt smáhýsi/aukahús. Jafnframt að lóðin Eyrargata 9 er stækkuð úr 5444 m2 í 7179 m2. Samhliða er gert ráð fyrir 5 m belti fyrir göngustíg milli lóðanna Eyrargötu 7 og 9 í framhaldi af aðkomuvegi.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir framkomna tillögu skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. sömu laga.

-liður 9, Brúarhvammur lóð 1 lnr. 167225 og lóð 2 lnr. 174434 Aukið byggingarmagn og stækkun byggingarreita Deiliskipulagsbreyting – 1708021
Lögð fram ný tillaga að breytingu á deiliskipulagi sem nær til lóðanna Brúarhvammur 1 og 2 í Bláskógabyggð.
Á fundi skipulagsnefndar 10. apríl 2018 var málið tekið fyrir og bókað að ekki yrði gerð athugasemd við að deiliskipulagsbreytingin yrði samþykkt í samræmi við fyrirliggjandi beiðni. Sveitarfélaginu barst athugasemd, þ. 3. maí 2019, við afgreiðslu skipulagsnefndar. Málið var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar sama dag og var málinu frestað. Umsækjandi leggur nú fram breytta tillögu með nýrri aðkomu inn á deiliskipulagssvæðið.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir framkomna tillögu skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og mælist til að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Eigendum jarðarinnar Brúarhvamms L167071 verði send hin breytta tillaga til kynningar.

2. Fundargerð skipulagsnefndar – 1901037
176. fundur skipulagsnefndar haldinn 8. maí 2019. Afgreiða þarf sérstaklega liði 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9, 10 og 11.
-liður 2, Sandskeið úr landi Miðfells Bláskógabyggð Deiliskipulag – 1806005
Lögð fram í samræmi við 1.mgr. 42.gr. skipulagslaga, umsögn og athugasemdir Skipulagsstofnunar dags. 17. janúar 2019 um deiliskipulag frístundabyggðarinnar Sandskeiðs í landi Miðfells. Er þar gerð athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda, mest vegna ákvæða um fráveitu. Gerðar hafa verið lagfæringar á deiliskipulagsgögnum til samræmis við athugasemdir stofnunarinnar. Þá liggur fyrir umsögn Umhverfisstofnunar frá 4.3.2019, auk umsagnar Heilbrigðiseftirlits Suðurlands frá 7. ágúst 2018. Breytingar í kjölfar atugasemda umsagnaraðila og eftir auglýsingu gera ráð fyrir að skerpt er á skilmálum og greinargerð er varðar gr. 3.10.Frárennsli, gr.4.6.Gróður, gr.5.2 Stærð húsa, gr.5.6 Hæð sökkla og gr.5.11 Fornleifar.
Varðandi umsagnir Heilbrigðiseftirlit Suðurlands þá telur skipulagsnefnd að þar sem um er að ræða eitt elsta sumarhúsahverfi á Íslandi, þá sé óraunhæft að gera kröfur um sameiginlegt frárennsli á svæðinu, en gerir þess í stað kröfu um að hreinsibúnaður verði bættur með ítarlegri hreinsun, þ.e. meira en tveggja þrepa hreinsun. Þá skuli stefnt að því að afla neysluvatns úr vatnsbóli sem geti annað vatnsþörf svæðisins í heild.
Vegna umsagnar Umhverfisstofnunar hefur verið skerpt á ákvæðum er varða gróður og plöntun trjáa á deiliskipulagssvæðinu. Ekki verður orðið við ábendingum vegna fjarlægðar byggingarreita frá vegi.
Tekið hefur verið tillit til umsagna og ábendinga og Minjastofnunar Íslands.
Þá hafa verið gerðar breytingar á skilmálum og uppdrætt í kjölfar ábendinga Skipulagsstofnunar.
Tekið skal fram að lagfærð og uppfærð gögn hafa verið send umsagnaraðilum og ekki komið viðbrögð við þeim.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar felur skipulagsfulltrúa að birta auglýsingu um niðurstöðu sveitarstjórnar í samræmi gr. 5.7.1 skv. skipulagsreglugerð nr. 90/2013 og senda Skipulagsstofnun tillöguna til varðveislu í samræmi við 42.gr. skipulagalag nr. 123/2010 og birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda.

-liður 3, Eyrún Margrét Stefánsdóttir vék af fundi við afgreiðslu 3. liðar: Gullfoss 1-2 L167192; Endurgerð mannvirkja útsýnissvæðis; Framkvæmdaleyfi – 1904023
Lögð er fram umsókn Eyrúnar Margrétar Stefánsdóttur, dags. 11. apríl, Gullfoss 1-2 L167192 í Bláskógabyggð, fyrir hönd Umhverfisstofnunar, um framkvæmdaleyfi sem felur í sér endurgerð mannvirkja á hluta efra útsýnissvæðisins á friðlandi við Gullfoss og tengingu við núverandi stiga.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að skipulagsfulltrúi gefi út framkvæmdaleyfi í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 772/2012, um framkvæmdaleyfi.

-liður 4, Laugargerði L167146; Lyngbrekka; Nýir byggingarreitir fyrir íbúðarhús og spennistöð, Breytt notkun í verslunar og þjónustulóð; Deiliskipulagsbreyting – 1904010
Lögð er fram umsókn Bjarna H. Bragasonar, dags 4. apríl, Laugargerði L167146 í Bláskógabyggð, fyrir hönd Hjörts ehf. um breytingu á deiliskipulagi að Laugarási. Í skipulagsbreytingunni er skilgreindir 3 byggingarreitir. Íbúðarhúsareitur, spennistöðvarreitur og reitur þar sem veitt er heimild fyrir verslun og þjónustu vegna reksturs veitinga- og kaffihúss.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir framkomna tillögu skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og mælist til að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um samhliða breytingu á núverandi aðalskipulagi þar sem lóðin fellur undir svæði landbúnaðar. Gerður er fyrivari um lagfæringu gagna.

-liður 5, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum; Frá Haki að Leirum; Deiliskipulag – 1904036
Lögð er fram umsókn Ómars Ívarssonar, dags 16. apríl, fyrir hönd Þingvallarnefndar, um heimild til að hefja vinnu við breytingu á deiliskipulagi að Þingvöllum frá Haki að Leirum. Jafnframt er lögð fram skipulags- og matslýsing Landslags,fyrir verkefnið, dagsett 8.4.2019.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir skipulags- og matslýsingu skv. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að lýsing á skipulagsverkefninu verði kynnt skv. 3. mgr. 40. gr. sömu laga, og óskað eftir umsögn Skipulagsstofnunar. Leitað skal eftir umsögnum frá Umhverfisstofnun,Þingvallanefnd, Heilbrigðiseftirliti Suðurlands og Vegagerðinni.

-liður 6, Launrétt 1 lnr 167386 Laugarás Breytt notkun í verslunar- og þjónustulóð Aðalskipulagsbreyting – 1803055
Lögð fram að lokinni kynningu skv. 2.mgr 30.gr skipulagslaga, tillaga að aðalskipulagsbreytingu sem felur í sér að lóðinni Launrétt 1 L167386 í Laugarási, er breytt úr reit sem merktur er í gildandi aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027 sem samfélagsreitur, í verslunar- og þjónustureit, þannig að heimilt verði að gefa út rekstraleyfi í fl. II á lóðinni vegna sölu á gistingu.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir tillöguna skv. 3.mgr 30.gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og að tillagan verði auglýst skv.1.mgr. 31.gr. sömu laga.
Skipulagsfulltrúa er falið að senda tillöguna Skipulagsstofnun til athugunar áður en tillagan verður auglýst.

-liður 7, Leynir Rimatjörn L207855; Landbúnaðarsvæði; Breytt notkun; Aðalskipulagsbreyting – 1803062
Lögð fram að lokinni kynningu skv. 2.mgr 30.gr skipulagslaga, tillaga að aðalskipulagsbreytingu sem felur í sér að hluti frístundasvæðis, merkt F42 í gildandi aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027, minnkar um 9 ha og þessum hluta svæðisins breytt í landbúnaðarsvæði.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir tillöguna skv. 3.mgr 30.gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og að tillagan verði auglýst skv.1.mgr. 31.gr. sömu laga.
Skipulagsfulltrúa er falið að senda tillöguna Skipulagsstofnun til athugunar áður en tillagan verður auglýst.

-liður 8,Stekkjarlundur; Byggingarreitir skilgreindir; Deiliskipulagsbreyting – 1904043
Ásta Stefánsdóttir f.h. Bláskógabyggðar leggur fram umsókn um breytingu á gildandi deiliskipulagi frístundabyggðar í Stekkjarlundi, Miðfellslandi, í Bláskógabyggð. Breytingin fellst í að afmarkaðir eru byggingarreitir fyrir lóðir við Asparstekk 2,4,6,1,3 og 5a, Birkistekk 1,3 og 5, Arnarstekk 2,4,6,8, og 10, Lóustekk 1,3,5,7,og 9.
Þá er gerð breyting á skilmálum og greinargerð er varðar gr. 3.10.Frárennsli, gr.4.6.Gróður, gr.5.2 Stærð húsa, gr.5.6 Hæð sökkla og gr.5.11 Fornleifar.
Sveitarstjórn Bláksógabyggðar samþykkir breytingu á gildandi deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. sömu laga.

-liður 9, Lindarbraut 8 L167841 (Ösp); Breytt landnotkun á lóð; Aðalskipulagsbreyting – 1905003
Ásta Stefánsdóttir f.h. Bláskógabyggðar leggur fram umsókn um breytingu á gildandi aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027. Breytingin fellst í að landnotkun lóðarinnar við Lindarbraut 8, á Laugarvatni verður breytt úr íbúðabyggð í samfélagsþjónustu. Samhliða aðalskipulagsbreytingu verður gerð samsvarandi breyting á gildandi deiliskipulagi þéttbýlis á Laugarvatni, vegna Lindarbrautar 8.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að gerð verði óveruleg breyting á gildandi aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027, skv. 2. mgr.36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Einungis er verið að gera breytingu á landnotkun lóðar og ekki er talin þörf á grenndarkynningu þar sem breytingin er ekki talin hafa nein umhverfisleg áhrif.
Skipulagsfulltrúa er falið að senda tillöguna Skipulagsstofnun til varðveislu og auglýsa niðurstöðu sveitarstjórnar i samræmi við 2. mgr. 36.gr skipulagslaga.

-liður 10, Lindarbraut 8 L167841 (Ösp); Íbúðarsvæði í stofnanasvæði; Breytt landnotkun lóðar; Deiliskipulagsbreyting – 1905004
Ásta Stefánsdóttir f.h. Bláskógabyggðar leggur fram umsókn um óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi þéttbýlis á Laugarvatni. Breytingin fellst í að landnotkun lóðarinnar við Lindarbraut 8 (Ösp), á Laugarvatni verður breytt úr íbúðabyggð í svæði fyrir stofnanir.
Breytingin kemur til vegna aukinnar þarfar grunnskólans á Laugarvatni fyrir kennsluhúsnæði.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að gerð verði óveruleg breyting á gildandi deiliskipulagi skv. 2.mgr.43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki er talin ástæða að grenndarkynna málið.
Skipulagsfulltrúa er falið að senda Skipulagsstofnun tillöguna til varðveislu og auglýsa um gildistöku í B-deild Stjórnartíðinda.

-liður 11, Efri-Reykir 167080; Hótelbygging og baðlón; Deiliskipulag – 1610007
Lagt fram bréf/umsögn Skipulagsstofnunar dags. 11.4.2019, þar sem óskað er eftir skriflegri greinargerð skipulagsyfirvalda vegna framkominna athugasemda/ábendinga umsagnaraðila við deiliskipulagstillögu hótels og baðlóns við Efri-Reyki.
Sveitarstjórn Bláskógarbyggðar samþykkir að skipulagsfulltrúi, sveitarstjóri og oddviti Bláskógarbyggðar svari Skipulagsstofnun með skriflegri greinargerð.

3. Afgreiðslur byggingarfulltrúa – afgreiðslufundur – 1901038
98. afgreiðslufundur byggingarfulltrúa haldinn þann 3. apríl 2019.
99. afgreiðslufundur byggingarfulltrúa haldinn þann 16. apríl 2019.
Fundargerðirnar staðfestar.

4. Fundargerð umhverfisnefndar – 1905011
25. fundur umhverfisnefndar haldinn 14. febrúar 2019.
Fundargerðin staðfest.

5. Fundargerð stjórnar Bláskógaveitu – 1901039
92. fundur stjórnar Bláskógaveitu, haldinn 17. apríl 2019.
Fundargerðin staðfest.

6. Fundargerð skólaþjónustu- og velferðarnefndar Árnesþings – 1903002
32. fundur skólaþjónustu- og velferðarnefndar haldinn 30. apríl 2019.
Fundargerðin staðfest.

7. Fundargerð stjórnar SASS – 1901045
545. fundur stjórnar SASS haldinn 4. apríl 2019
Fundargerðin lögð fram.

8. Fundargerð stjórnar Brunavarna Árnessýslu – 1902009
5. fundur stjórnar Brunavarna Árnessýslu, haldinn 30. apríl 2019, ásamt ársreikningi fyrir árið 2018.
Fundargerðin lögð fram.

9. Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga – 1902005
870. fundur stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, haldinn 11. apríl 2019.
Fundargerðin lögð fram.

10. Fundargerð stjórnar Bergrisans bs – 1905012
5. fundur stjórnar Bergrisans bs haldinn 9. apríl 2019
Fundargerðin lögð fram.

11. Fundargerð verkfundar vegna byggingar leikskólans Álfaborgar, fyrri áfangi, uppsteypa. – 1808001
10. verkfundur vegna byggingar leikskólans Álfaborgar, fyrri áfangi.
Fundargerðin lögð fram.

12. Fundargerð verkfundar vegna byggingar leikskólans Álfaborgar, síðari áfangi, innanhúsfrágnagur og lóð. – 1810005
1. verkfundur vegna byggingar leikskólans Álfaborgar, 2. áfangi.
Fundargerðin lögð fram.

13. Ársreikningur Bláskógabyggðar fyrir árið 2018. – 1811018
Ársreikningur Bláskógabyggðar fyrir árið 2018, síðari umræða.
Greinargerð með ársreikningi Bláskógabyggðar fyrir árið 2018
Ársreikningur Bláskógabyggðar fyrir árið 2018 er lagður fram til síðari umræðu í sveitarstjórn miðvikudaginn 9. maí 2019. Fjalla skal um ársreikning á tveimur fundum í sveitarstjórn og fór fyrri umræða fram miðvikudaginn 17. apríl s.l.
Helstu niðurstöður:
Samstæða sveitarfélagsins (A- og B-hluti) skilar afgangi frá rekstri upp á 110,5 millj. króna. samanborið við 128 millj. kr. afgang árið 2017. Aðalsjóður er nú rekinn með 94,8 millj. kr. afgangi. A-hluti skilar nú 77,5 millj.kr. rekstrarafgangi, samanborið við 83,4 millj.kr. afgang árið 2017.

Rekstrarniðurstaða samstæðu fyrir afskriftir nam 202,9 millj. kr. Fjármagnsgjöld nema 30,6 millj. kr. nettó. Afskriftir nema 49,7 millj. kr. og er afgangur fyrir skatta 153,2 millj.kr. Tekjuskattur nemur 12 millj. kr.

Útsvarstekjur hækkuðu um 56 millj.kr. á milli ára, og voru heildartekjur sveitarfélagsins 64 millj.kr. yfir áætlun. Útsvar og fasteignaskattar nema 881,9 millj.kr., framlög Jöfnunarsjóðs 170 millj.kr. og aðrar tekjur 370 millj.kr. Að teknu tilliti til millifærslna nema heildartekjur 1.422,7 millj.kr.

Fræðslu- og uppeldismál er umfangsmesti málaflokkurinn í rekstri sveitarfélagsins, tekur til sín 605,7 millj.kr., eða 56% af skatttekjum. Bláskógabyggð greiðir alls 605,8 millj.kr. í laun og launatengd gjöld. Fjöldi starfsmanna í árslok var 82.

Skuldahlutfall samstæðunnar hækkar úr 42% árið 2017 í 65% og skýrist það af lántökum vegna fjárfestingar og uppgjörs við Brú lífeyrissjóð. Skuldaviðmið sveitarfélagsins, eins og það er reiknað skv. reglugerð þar um, lækkar á hinn bóginn úr 30,9% 2017 í 21,3% árið 2018. Stafar það af breyttum útreikningsreglum sem gildi tóku á árinu 2018.

Fjárfestingar námu 254,8 millj.kr., sem er 95 millj. kr. minna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Skýrist það m.a. af því að hluti fjárfestingar vegna nýs leikskóla færðist yfir áramót, en einnig var fjárfesting í ljósleiðara og gatnakerfi minni en áætlun gerði ráð fyrir, sama gildir um fjárfestingu í veitum sveitarfélagsins.

Fjárfest var í fasteignum innan A-hluta fyrir 208,6 millj.kr. og í gatnakerfi o.fl. fyrir 1.116 millj. kr. nettó. Stærsta einstaka fjárfestingin var í nýbyggingu leikskólans Álfabogar, 144,9 millj.kr. og í íþróttahúsi og sundlaug á Laugarvatni fyrir 29,1 millj. kr. Innan B-hluta var fjárfest fyrir 45,1 millj.kr., að stærstum hluta í fráveitu, þ.m.t. vegna seyruverkefnis.

Ný lán voru tekin á árinu fyrir 382,5 millj.kr. Hluti þess, 180 millj. kr., var nýttur til uppgjörs við Brú lífeyrissjóð vegna samkomulags milli stéttarfélaga, ríkis og sveitarfélaga um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna. Afborganir langtímalána námu 62,5 millj.kr.
Veltufé frá rekstri nam 177,9 millj.kr. og var um 61 millj.kr. yfir áætlun.

Heildarniðurstaða ársreiknings fyrir árið 2018 er að öllu leyti jákvæð. Afgangur er af rekstri aðalsjóðs, A-hluta og samstæðu, tekjur aukast á milli ára og sjóðstreymi er gott. Eftir sem áður er mikilvægt að gæta aðhalds í rekstri og forgangsraða fjárfestingum.

Rekstur ársins 2018:
Samstæðureikningur samanstendur af A- og B-hluta. Í A-hluta eru aðalsjóður, eignasjóður og þjónustustöð. Um er að ræða rekstrareiningar sem fjármagnaðar eru að hluta eða öllu leyti með skatttekjum.

Í B-hluta eru vatnsveita, Bláskógaveita, leiguíbúðir, félagslegar íbúðir og fráveita. Um er að ræða rekstrareiningar, stofnanir og fyrirtæki, sem reknar eru sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar og hafa lagaheimild til að innheimta þjónustugjöld.

Helstu niðurstöður rekstrar eru (í þús.kr):
Rekstrartekjur: 1.422.708
Rekstrargjöld: -1.219.740
Afskriftir -49.703
Fjármagnsgjöld: -30.623
Tekjuskattur: -12.073
Rekstrarniðurstaða: 110.569

Efnahagsreikningur:
Eignir:
Fastafjármunir: 1.614.540
Veltufjármunir: 501.535
Eignir samtals: 2.116.075

Skuldir og eigið fé:
Eigið fé: 1.190.127
Langtímaskuldir: 680.522
Skammtímaskuldir: 245.426
Skuldir alls: 925.948
Eigið fé og skuldir samtals: 2.116.075

Nettó fjárfestingar ársins: 254.875

Handbært fé um áramót: 321.478

Veltufjárhlutfall samstæðu: 2,04
Eiginfjárhlutfall samstæðu: 56,2%
Skuldahlutfall: 65,1%
Skuldaviðmið skv. reglugerð 21,3%
Jafnvægisregla – rekstrarjöfnuður 371.831

Umræður urðu um ársreikninginn.
Ársreikningurinn var samþykktur samhljóða og áritaður af sveitarstjórn.

14. Friðlýsingaráform vegna Gamla-Þingvallavegarins – 1904002
Erindi umhverfisstjóra Mosfellsbæjar, dags. 16. apríl 2019, varðandi áform um friðlýsingu gamla Þingvallavegarins.
Bláskógabyggð óskar eftir því við Minjastofnun að unnið verði að friðlýsingu Gamla-Þingvallavegarins.

15. Styrkbeiðni útskriftarárgangs ML vegna útskriftarferðar – 1905004
Styrbeiðni Sölva Rúnars Þórarinssonar, dags. 30. apríl 2019, f.h. útskriftarárgangs Menntaskólans að Laugarvatni áheitaróður á Laugarvatni dagana 30. apríl og 1. maí til fjármögnunar á útskriftarferð til Krítar.
Sveitarstjórn hafnar erindinu og óskar nemendum góðrar ferðar.

16. Þjónustusamningar Bergrisans bs 2019 – 1905013
Þjónustusamningar Bergrisans bs til staðfestingar:
Þjónustusamningur við Sveitarfélagið Árborg um sameiginleg verkefni sem sveitarfélagið annast fyrir Bergrisann.
Þjónustusamningur við sveitarfélögin sem standa að Bergrisanum bs um þjónustu við fatlað fólk.
Lagður var fram samningur milli Sveitarfélagsins Árborgar og Bergrisans bs um sameiginleg verkefni byggðasamlagsins á sviði þjónustu við fatlað fólk á Suðurlandi. Samningurinn gildir til 31. desember 2019. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar staðfestir samninginn fyrir sitt leyti.
Lagður var fram þjónustusamningur milli sveitarfélaganna þrettán sem standa að Bergrisanum bs um málefni fatlaðs fólks. Samningurinn er ótímabundinn. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar staðfestir samninginn fyrir sitt leyti.

17. Forgangsröðun gatnagerðar og göngustíga – 1905006
Stefnumótun vegna frágangs göngustíga og gatnagerðar í Bláskógabyggð 2019 til 2022.
Lagður var fram listi yfir götur sem eftir er að ganga frá.
Samþykkt var að stefna að eftirfarandi forgagnsröðun í gatnagerð fyrir árin 2019-2022 og með þeim fyrirvara að fjárhagsáætlun hvers árs ræður framkvæmdahraða:

Árið 2019 verði ráðist í eftirfarandi framkvæmdir:
Sólbraut, Reykholti
Bæjarholt, Laugarási
Dalbraut, Reykholti

Árið 2020 verði ráðist í eftirfarandi framkvæmdir:
Miðholt, Reykholti
Lyngbraut, Reykholti
Lindarskógar, Laugarvatn

Árið 2021 verði ráðist í eftirfarandi framkvæmdir:
Hverabrekka/Austurbyggð, Laugarási.
Vegur að Asparlundi/Kirkjuholti, Laugarási.
Bjarkarbraut (fyrir neðan Norðurbrún), Reykholti.

Árið 2022 verði ráðist í eftirfarandi framkvæmdir:
Langholtsvegur, Laugarási.
Vegholt/Logaholt, Reykholti.
Traustatún/Guststún, Laugarvatn.

Lagður var fram listi yfir göngustíga/gangstéttar sem eftir er að ganga frá.
Samþykkt var að stefna að eftirfarandi forgagnsröðun í stígagerð fyrir árin 2019-2022 og með þeim fyrirvara að fjárhagsáætlun hvers árs ræður framkvæmdahraða og með fyrirvara um deiliskipulagsbreytingar á Laugarvatni:
Árið 2019 verði ráðist í eftirfarandi framkvæmdir:
Stígur á milli Sundlaugar og Bjarnabúðar, Reykholti
Stígur meðfram Laugarbraut á milli Héraðsskólans og íþróttahúss, Laugarvatni
Gangstéttar settar samhliða gatnagerð á Sólbraut í Reykholti og Bæjarholti í Laugarási

Árið 2020 verði ráðist í eftirfarandi framkvæmdir:
Miðholt, Reykholti
Holtsgata frá Skálholtsvegi að Slakka, Laugarási
Bjarkarbraut, Reykholt, 1. áfangi

Árið 2021 verði ráðist í eftirfarandi framkvæmdir:
Bjarkarbraut, Reykholt, 2. áfangi
Vesturbyggð, Laugarási
Stígur fyrir neðan Norðurbrún (tengir saman Sólbraut og Bjarkarbraut), Reykholt
Stígur á milli Héraðsskólans og Menntaskólans á Laugarvatni.

Árið 2022 verði ráðist í eftirfarandi framkvæmdir:
Kistuholt, Reykholti
Stígur á milli Lindargarðs og Heimakletts, Laugarvatni
Skúlagata, Laugarási.

18. Afsláttur af lóðagjöldum – 1905016
Tillaga um að tilteknar lóðir verði auglýstar til úthlutunar með afslætti af gatnagerðargjöldum
Lögð var fram tillaga um að eftirtaldar lóðir verði auglýstar lausar til úthlutunar út þetta ár á 50% afslætti.

Reykholt:
Miðholt: 7, 24, 37 og 2-12
Bjarkarbraut: 14 og 16

Laugarárs:
Vesturbyggð: 7

Laugarvatn:
Háholt: 4, 6 og 8

Umræða varð um málið.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að auglýsa lóðirnar lausar til úthlutunar út þetta ár með 50% afslætti af gatnagerðargjöldum. Teknir verði saman sérstakir skilmálar vegna lóðanna við Háholt á Laugarvatni.

19. Ályktun um jöfnun raforkuverðs – 1905015
Ályktun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar um jöfnun raforkuverðs milli þéttbýlis og dreifbýlis.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar beinir því til ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar að raforkuverð í dreifbýli og þéttbýli verði jafnað. Frá því að skipulagsbreytingar voru gerðar á raforkukerfinu árið 2005 hafa fyrirtæki sem annast dreifingu á raforku í þéttbýli og dreifbýli haft tvær mismunandi gjaldskrár, aðra fyrir dreifingu raforku í þéttbýli og hina fyrir dreifingu raforku í dreifbýli. Þrátt fyrir niðurgreiðslu frá ríkinu, með svonefndu dreifbýlisframlagi, er raforkuverð í dreifbýli enn hærra en raforkuverð í þéttbýli. Frá árinu 2015 hefur dreifbýlisframlagið verið fjármagnað með svonefndu jöfnunargjaldi, sem er lagt á alla almenna raforkunotkun.
Til að ná fullri jöfnun raforkuverðs fyrir alla landsmenn er áætlað að þurfi viðbótarframlag sem nemur um 900 milljónum á ári. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur að nýta megi hluta af arði af rekstri Landsvirkjunar sem framlag til niðurgreiðslu raforkuverðs. Bent er á að í gegnum tíðina hefur verið rætt um að þegar skuldir Landsvirkjunar hafi verið greiddar niður muni arður af henni nýtast í þágu landsmanna. Það liggur beinast við að sá arður verði nýttur á sviði raforkumála og beinlínis í þágu landsbyggðarinnar, þar sem allar virkjanir Landsvirkjunar standa. Tímabært er að íbúar hinna dreifðu byggða sitji við sama borð og íbúar í þéttbýli hvað varðar raforkuverð og í raun hálfhjákátlegt að þeir sem búa næst uppsprettu raforkunnar, nærri virkjununum eða undir raflínum sem flytja orkuna á suðvesturhornið, skuli greiða hærra verð fyrir orkuna en þeir sem fjær búa.

20. Beiðni um lóð fyrir íshelli í Langjökli. – 1905018
Beiðni Herberts Haukssonar, f.h. Mountaineers of Iceland, dags. 29. apríl 2019, um lóð fyrir íshelli í Suðurjökli Langjökuls.
Lögð var fram umsókn Mountaineers of Iceland um 50 x 500 metra lóð á Suðurjökli við Skálpanes til að gera manngerð ísgöng í Suðurjökli.
Sveitarstjórn frestar afgreiðslu málsins og felur sveitarstjóra að afla frekari gagna.

21. Tillaga um afslætti af aðgangseyri (kortum) í sund og tækjasal í tengslum við hreyfiseðla – 1905019
Tillaga um að veittur verði afsláttur af aðgangseyri (kortum) í sundlaugar og tækjasali til aðila sem hafa fengið uppáskrifaðan hreyfiseðil.
Verkefnastjóri Heilsueflandi samfélags hefur verið að ýta undir að hreyfiseðillinn verði meira notaður í uppsveitunum. Það er úrræði sem heimilislæknar geta notað við ákveðnum lífsstílssjúkdómum. Úrræðið hefur verið mjög lítið notað í uppsveitunum. Á Suðurlandi öllu voru í síðasta mánuði virkjaðir 68 hreyfiseðlar. Nú ætlar hreyfistjórinn á heilsugæslunni að reyna að ýta undir notkun hreyfiseðilins með því að koma í Laugarás og hitta sína skjólstæðinga þar. Fyrsta skiptið er núna 16. maí.
Tillaga verkefnastjóra er að þeir íbúar Bláskógabyggðar sem fá hreyfiseðil geti keypt sér 3ja mánaða kort í sund og þrek á 50% afslætti. 3ja mánaða kort kostar þá með afslætti: 10.500 kr. og miðað við að það væru 20 stk. á ári þá væri það afsláttur uppá 210.000.

Sveitarstjórn samþykkir að til reynslu út þetta ár verði veittur 50% afsláttur af 3ja mánaða kortum í sund og tækjasali til þeirra sem eru handhafar hreyfiseðla.

22. Frístundaheimili fyrir 6-9 ára börn – 1905022
Erindi Erlu Jóhannsdóttur, f.h. foreldra, dags. 3. maí 2019, þar sem óskað er eftir að komið verði á fót frístundaheimili fyrir börn 6-9 ára.
Lögð var fram beiðni um að komið verði á fót frístundaheimili fyrir 6-9 ára börn í Bláskógaskóla, Reykholti, frá næsta hausti.
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að vinna málið áfram í samstarfi við formann skólanefndar og skólastjóra.

23. Sláttur og hirðing, Laugarás og Reykholt 2019-2021 – 1903033
Yfirlit yfir tilboð sem bárust í verkið Sláttur og hirðing í Laugarási og Reykholti, fundargerð frá 23. apríl 2019. Niðurstaða útboðs.
Lagt var fram yfirlit yfir tilboð sem bárust í verkið Sláttur og hirðing í Laugarási og Reykholti, Bláskógabyggð. Tilboðin voru opnuð hinn 23. apríl s.l. og bárust alls fimm tilboð. Lægsta boð var frá Þoku eign ehf. og samþykkir sveitarstjórn að samið verið við Þoku eign ehf um slátt og hirðingu í Laugarási og Reykholti.

24. Reiðhjólaleiga á Laugarvatni – 1905028
Erindi Óðins Þórs Kjartanssonar, dags. 6. maí 2019, þar sem hann óskar eftir tímabundinni heimild til að reka reiðhjólaleigu og reiðhjólaferðasölu að Hrísholti 7, Laugarvatni.
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að ræða við umsækjanda. Hugmyndum um framtíðarstaðsetningu er vísað inn í starfshóp um endurskoðun deiliskipulags á Laugarvatni.

25. Ráðstöfun arðs úr sjóði Laugaráslæknishéraðs – 1905030
Tillaga um ráðstöfun arðs úr sjóði Laugaráslæknishéraðs, hlutur Bláskógabyggðar er 9.960.000 kr.
Lögð var fram tillaga að skiptingu arðs v/ Laugaráslæknishéraðs, alls kr. 9.960.000:
Leiksvæðið í Laugarási.
Svæðið á milli Aratungu og grunnskólans.
Svæði við skólann á Laugarvatni.
Umræða varð um málið. Sveitarstjórn samþykkir skiptinguna og felur oddvita og sviðsstjóra framkvæmda- og veitusviðs að undirbúa framkvæmdir og áætla kostnað við hvert verkefni fyrir sig og gera í samráði við sveitarstjóra tillögu að viðauka við fjárhagsáætlun fyrir viðkomandi deildir eignasjóðs.

26. Aðalskipulagsbreyting í Reykjavík – Sjómannaskólareitur og Veðurstofuhæð – 1905007
Erindi skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, dags. 23. apríl 2019, kynning á aðalskipulagsbreytingu í Reykjavík – Sjómannaskólareitur og Veðurstofuhæð – drög að tillögu.
Lögð voru fram til kynningar og umsagnar, drög að tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, varðandi breytta landnotkun og fjölgun íbúða á Sjómannaskólareit og Veðurstofuhæð. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við breytingarnar.

27. Aðalskipulagsbreyting í Mosfellsbæ, aðalskipulag 2011 til 2030 – 1905008
Erindi umhverfissviðs Mosfellbæjar, dags. 17. apríl 2019, varðandi tillögu að breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030:
Frístundasvæði í suðurhluta Mosfellsbæjar, þétting núverandi frístundabyggðar og breytt landnotkun.
Lögð var fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030. Tillagan varðar frístundasvæði í suðurhluta Mosfellsbæjar, þéttingu núverandi frístundabyggðar og breytta landnotkun.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við tillöguna.

28. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2019-2022, 771. mál. – 1905002
Beiðni velferðarnefndar Alþingis, dags. 30. apríl 2019, um umsögn um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2019-2022, 771. mál.

Umsagnarfrestr er til 14. maí nk.
Lagt fram.

29. Frumvarp til laga um skráningu einstaklinga, 772. mál. – 1905001
Beiðni allsherjar- og menntamálanefndar, dags. 30. apríl 2019, um umsögn um frumvarp til laga um skráningu einstaklinga, 772. mál.

Umsagnarfrestur er til 14. maí nk
Lagt fram.

30. Stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu – 1812008
Lögð fram til kynningar umsögn Bláskógabyggðar, dags. 30. apríl 2019, um tillögu að stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðs á miðhálendi.
Lagt fram.

31. Tillaga til þingsályktunar um ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 932017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (þriðji orkupakkinn), 777. mál. – 1904039
Lögð fram til kynningar umsögn Bláskógabyggðar vegna þingsályktunartillögu um 3ja orkupakkann.
Lagt fram.

32. Grænbók um stefnu í málefnum sveitarfélaga – 1905017
Ábending Sambands íslenskra sveitarfélaga um að grænbók um stefnu í málefnum sveitarfélaga sé til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda.
Lagt fram.

33. Frumvarp til laga um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða, 778. mál. – 1904042
Umsögn sveitarstjórnar um frumvarp til laga um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða, áður á dagskrá á 231. fundi.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerði athugasemdir við frumvarpsdrög um sama mál sem voru til umsagnar s.l. haust. Í því frumvarpi sem nú er lagt fram hefur verið tekið tillit til hluta þeirra sjónarmiða sem Bláskógabyggð og önnur sveitarfélög komu á framfæri í vinnsluferli frumvarpsins og er þakkað fyrir það.

Nokkur atriði eru þó sem sveitarstjórn vill árétta eða koma með ábendingar um:

Áréttað er að nauðsynlegt sé að gæta þess að skerða ekki skipulagsvald sveitarfélaga. Í frumvarpinu hefur verið tekið tillit til ábendingar um að samþykki sveitarstjórnar þurfi til friðlýsingar lands sem þjóðgarðs. Bent er á að enn getur það gerst að sveitarfélag lendi í minnihluta við afgreiðslu stjórnunar- og verndaráætlunar sem varðar land innan marka viðkomandi sveitarfélags. Nauðsynlegt er að slík áætlun fái samþykki sveitarstjórnar. Þá er einnig lagt til að í heiti áætlunarinnar verði horft til hugtakanna „nýtingar“ og „samráðs“ sbr. hugmyndir sem koma fram í textadrögum nefndar um stofnun miðhálendisþjóðgarðs vegna stjórnunar- og verndaráætlana.

Ákvæði um að ráðherra geti ákveðið stækkun þjóðgarðs með reglugerð er óbreytt frá frumvarpsdrögum. Í greinargerð með 3. mgr. 3. gr. segir að áskilnaður um samþykki sveitarsstjórna eigi við hvort sem um nýjan þjóðgarð eða stækkun þjóðgarðs sé að ræða. Skýrara væri að geta þess beinlínis í 3. mgr. 3. gr. Þá vekur athygli að ekki sé gert ráð fyrir aðkomu Alþingis að málum varðandi stækkun þjóðgarða.

Í ummælum um 6. gr. í greinargerð með frumvarpsdrögunum var gerð grein fyrir því að um verulega stækkun þjóðgarðsins gæti verið að ræða sem væri ekki takmörkuð við nánasta nágrenni Þingvalla við Öxará og næði svæðið eftir stækkun til fleiri sveitarfélaga en áður yrðu viðkomandi sveitarstjórnir að koma sér saman um fulltrúa í stjórn. Þessu var mótmælt af hálfu Bláskógabyggðar. Þessi ummæli hafa nú verið felld út úr greinargerðinni, hugsanlega á þeim grunni að með breytingu á 12. gr. er ætlað að tryggja að fulltrúi viðkomandi sveitarfélags bætist við umdæmisráð, ef það á ekki fastan fulltrúa í því, þegar fjallað erum málefni friðlýstra svæða innan marka þess. Bláskógabyggð telur þetta ákvæði ekki fullnægjandi hvað varðar þjóðgarðinn á Þingvöllum og leggur áherslu á að umfjöllun í umdæmisráði getur ekki komið í stað beins samráðs við viðkomandi sveitarstjórn þegar um er að ræða stærri ákvarðanir, enda er umdæmisráð eingöngu almennt til ráðgjafar um málefni náttúruverndar á viðkomandi svæði, sbr. 14. gr. Af hálfu Bláskógabyggðar er það ekki talið ásættanlegt að til þess gæti komið að sveitarfélagið ætti ekki fastan fulltrúa í stjórn stækkaðs þjóðgarðs. Gæti þetta fyrirkomulag leitt til þess að sveitarfélög ættu ekki aðkomu að gerð stjórnunar- og verndaráætlana þjóðgarða innan sinna marka nema í gegnum almennan athugasemdarétt almennings og hagsmunaaðila skv. 28. gr. og getur það ekki talist fullnægjandi.
Heimildir ríkisins til eignarnáms eru mjög víðtækar. Mikilvægt er að þær séu ekki víðtækari en brýna nauðsyn ber til.

34. Rekstrarleyfisumsókn fyrir Bjarkarbraut 6 (L191091) – 1902017
Beiðni Sýslumannsins á Suðurlandi, dags. 8. janúar 2019, um umsögn um rekstrarleyfisumsókn vegna umsóknar Hartmanns Ásgríms Halldórssonar, um leyfi til sölu gistingar í flokki II, minna gistiheimili( C) vegna Bjarkarbrautar 6 (227-4874). Umsögn byggingarfulltrúa, þar sem ekki er gerð athugasemd við leyfisveitinguna, er meðfylgjandi.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við að veitt verði rekstrarleyfi til sölu gistingar í flokki II, minna gistiheimili (C) vegna Bjarkarbrautar 6, fastanr. 227-4874.

35. Rekstrarleyfisumsókn vegna Kóngsvegar 10 (220-5780) Úthlíð. – 1905024
Beiðni Sýslumannsins á Suðurlandi, dags. 31. janúar 2019, um umsögn um rekstrarleyfisumsókn vegna umsóknar Ferðaþjónustunnar Úthlíð ehf um leyfi til sölu veitinga í flokki II, skemmtistaður, veitingastofa og greiðasala, krá, samkomusalir (B, C, F og G) vegna Kóngsvegar 10 (220-5780). Umsögn byggingarfulltrúa, þar sem ekki er gerð athugasemd við leyfisveitinguna, er meðfylgjandi.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við að veitt verði rekstrarleyfi til sölu veitinga í flokki II, skemmtistaður, veitingastofa og greiðasala, krá, samkomusalir (B, C, F og G) vegna Kóngsvegar 10 (220-5780).

36. Rekstrarleyfisumsókn Austurbyggð 3 (L193786), Laugarási – 1905023
Beiðni Sýslumannsins á Suðurlandi, dags. 26. febrúar 2019, um umsögn um rekstrarleyfisumsókn vegna umsóknar Lágskógar ehf um rekstrarleyfi til sölu gistingar í flokki II, íbúðir (F) að Austurbyggð 3, Laugarási. Fyrir liggur umsögn byggingarfulltrúa þar sem ekki er gerð athugasemd við að veitt verði leyfi í rekstrarflokki II.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við að veitt verði rekstrarleyfi til sölu gistingar í flokki II,íbúðir (F) að Austurbyggð 3, Laugarási.

37. Efnistaka og lagning Kjalvegar frá Árbúðum að afleggjara til Kerlingarfjalla, beiðni um umsögn – 1905021
Erindi Skipulagsstofnunar, dags. 24. apríl 2019, þar sem óskað er eftir umsögn sveitarstjórnar um hvort og á hvaða forsendum efnistaka og lagning Kjalvegar frá Árbúðum að afleggjara til Kerlingarfjalla skuli háð mati á umhverfisáhrifum.
Umrædd framkvæmd er framkvæmdaleyfisskyld af hálfu Bláskógabyggðar. Sú lega Kjalvegar sem kynnt er í fylgigögnum er í samræmi við veglínu í aðalskipulagi sveitarfélagsins og samræmist uppbygging Kjalvegar stefnu sveitarstjórnar um að haldið verði áfram endurbótum á Kjalvegi og öðrum helstu hálendisvegum í sveitarfélaginu, s.s. Kerlingarfjallavegi. Í stefnu sveitarfélagsins er gert ráð fyrir að vegirnir verði byggðir lítillega upp úr landinu, yfirborð þeirra verði varanlegt og ár og lækir brúaðir. Þá eru efnistökusvæði nokkur og eru þær námur sem ráðgert er að taka efni úr allar skilgreindar í aðalaskipulagi Bláskógabyggðar og var fjallað um þær í umhverfisskýrslu aðalskipulags, þar sem segir m.a.: „Með því að gera ráð fyrir mörgum efnistökustöðum með Kjalvegi er hægt að nýta þau svæði sem eru næst framkvæmdastað hverju sinni og lágmarka þannig þá vegalengd sem aka þarf með efni. Einnig er hægt að velja að nýta þau efnistökusvæði sem hafa minnst áhrif á umhverfið. Þá má ætla að minna efni verði tekið af hverju svæði.“ Einnig segir í umhverfisskýrslu að sveitarstjórn leggi áherslu á að efnistaka á hálendinu verði að jafnaði úr litlum námum, sem næst vegstæði og að gengið verði frá hverju efnistökusvæði fyrir sig strax að efnistöku lokinni.
Sveitarstjórn telur að nægilega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, mótvægisaðgerðum og vöktun í kynningu á lagfæringum sem fylgdi erindinu. Með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar veglagningar og efnistöku telur sveitarstjórn að framkvæmdin sé ekki háð umhverfismati.

38. Umsögn um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun 2020-2024. – 1905029
Umsögn um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun 2020-2024.
Hinn 21. mars 2019 samþykkti sveitarstjórn Bláskógabyggðar bókun þar sem mótmælt var harðlega fyrirhuguðum skerðingum á tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og var þess krafist að áform um skerðingu tekna Jöfnunarsjóðs yrðu afturkölluð þegar í stað. Bókunin var send viðkomandi ráðuneytum og þingmönnum Suðurkjördæmis.
Hinn 23. mars 2019 var útbýtt þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun 2020-2024, þar sem er að finna tillögu um að tekjur Jöfnunarsjóðs verði frystar og verði óbreytt að krónutölu í þrjú ár, 2019, 2020 og 2021.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar mótmælir þessum áformum enn á ný og krefst þess að Alþingi dragi til baka þau áform ríkisstjórnarinnar sem fram koma í fjármálaáætluninni um frystingu framlaga til Jöfnunarsjóðs. Útilokað er að una við þessa tekjuskerðingu.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir einnig alvarlegar athugasemdir við þau vinnubrögð sem fulltrúar ríkisvaldsins hafa beitt í málinu, en þau ganga gegn öllum venjum um samskipti ríkis og sveitarfélaga og gegn lögum um opinber fjármál, auk þess sem þau fela í sér algeran trúnaðarbrest.

Eftirfarandi er bókun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 21. mars 2019 vegna áforma fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar um að skerða tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og er hún hér með ítrekuð:

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar mótmælir harðlega þeim áformum fjármálaráðherra og ríkisstjórnar að skerða framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um a.m.k. 3,3 milljarða á árunum 2020 og 2021. Skerðingin kemur harðast niður á útgjaldajöfnunarframlögum, en þau renna einkum til sveitarfélaga á landsbyggðinni sem hafa mörg hver veikan fjárhag. Skerðingin kemur einnig niður á framlögum til þjónustu við fatlað fólk og getur falið í sér að dregið verði úr þeirri þjónustu.
Áætlað tekjutap sveitarfélaga á Suðurlandi af framlögum til útgjaldajöfnunar og vegna fasteignaskatts er um 505 millj.kr. og vegna málefna fatlaðra 29 millj.kr. Framlög til málefna fatlaðra hafa ekki staðið undir rekstrarkostnaði og bætir þetta ekki stöðu þess málaflokks.

Árið 2015 voru samþykktar leiðréttingar á framlögum til málefna fatlaðra sem námu um 1,5 milljarði króna. Sú niðurstaða var samkomulag sem byggði á löngu og ítarlegu samráðsferli milli ríkis og sveitarfélaga. Að þurrka nánast út með einu pennastriki þann árangur sem þá náðist er í hróplegu ósamræmi við það samstarf við ríkið sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur lagt mikla vinnu í að styrkja á liðnum áratug.

Einhliða ákvörðun ríkisvaldsins af þessu tagi er í andstöðu við það formlega samráðsferli ríkis og sveitarfélaga sem hefur þróast á undanförnum árum og fela áform þessi í sér algeran trúnaðarbrest gagnvart sveitarfélögunum í landinu. Ekki getur með nokkrum hætti talist eðlilegt að áhersla á að bæta afkomu ríkissjóðs skili sér í skerðingum á tekjum sveitarfélaganna, sem standa undir mjög stórum hluta almannaþjónustu í landinu.

Sveitarstjórn krefst þess að áform um skerðingu tekna Jöfnunarsjóðs verði afturkölluð þegar í stað.

39. Breytingar á lögum um opinber innkaup – 1905009
Erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 17. apríl 2019, þar sem kynntar eru breytingar á lögum um opinber innkaup.
Lagt fram.

40. Skapandi dagar fyrir stjórnendur hjá sveitarfélögum – 1905003
Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 30. apríl 2019, kynning á fræðslu fyrir kjörna fulltrúa og stjórnendur, „Skapandi dagar fyrir stjórnendur sveitarfélaga“ dagana 3. til 4. júní n.k.
Lagt fram.

41. Einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, kynning frá Jafnréttisstofu – 1905010
Erindi Jafnréttisstofu og Vinnueftirlitsins, dags. 17. apríl 2019, varðandi einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.
Lagt fram.

42. Aðalfundur Límtrés-Vírnets 2019 – 1905005
Boð á aðalfund Límtrés-Vírnets ehf, sem haldinn verður 15. maí 2019.
Lagt fram.

43. Eftirlit samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins með rekstri sveitarfélaga – 1905020
Bréf samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, dags. 23. apríl 2019, þar sem farið er yfir ákvæði sveitarstjórnarlaga um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga og frumkvæðisathugun ráðuneytisins á því hvernig hefði verið staðið að breytingum á fjárhagsáætlunum.
Lagt fram.

44. Örnefni – leiðbeiningar handa sveitarfélögum um nafngiftir býla, gatna, sveitarfélaga og náttúrufyrirbæra – 1905026
Bréf Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, dags. 26. apríl 2019, leiðbeiningar til handa sveitarfélögum um nafngiftir, sjá bækling á slóðinni:
https://www.arnastofnun.is/is/leidbeiningar-um-nafngiftir-byla-gatna-sveitarfelaga-og-natturufyrirbaera
Lagt fram.

45. Breyting á innheimtu – 1905027
Erindi Motus ehf og Lögheimtunnar, dags. 8. apríl 2019.
Sveitarstjóra falið að svara erindinu.

46. Ályktanir af 97. héraðsþingi HSK – 1905031
Ályktanir af 97. hérðasþingi HSK frá 14. mars 2019, áskorun um aukið framlag til reksturs íþróttafélaga og niðurgreiðslna æfingagjalda, ályktun varðandi ungmenna- og tómstundabúðir á Laugarvatni og þakkir til sveitarfélaga og Héraðsnefnda fyrir framlag til HSK.
Lagt fram.

Fundi slitið kl. 12:00.