237. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar

  1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn í Aratungu, Reykholti,

mánudaginn 12. ágúst 2019, kl. 09:00.

 

Fundinn sátu:

Helgi Kjartansson, Valgerður Sævarsdóttir, Óttar Bragi Þráinsson, Kolbeinn Sveinbjörnsson, Guðrún S. Magnúsdóttir, Eyrún Margrét Stefánsdóttir, Róbert Aron Pálmason, og Ásta Stefánsdóttir.

 

Fundargerð ritaði: Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri.

Lagt var til að taka á dagskrá umsögn um samráðsskjal S-135/2019 – Skilgreining á mörkum miðhálendisþjóðgarðs, skiptingu í verndarflokka o.fl. Var það samþykkt samhljóða og verður 5. mál á dagskrá fundarins.

 

1. Fundargerðir skipulagsnefndar 2019 – 1901037
180. fundur skipulagsnefndar, haldinn 10. júlí 2019. Afgreiða þarf sérstaklega liði nr. 2, 3, 4, 5 og 6.
-liður 2, Austurey 3 L167623; Eyrargata 9; Deiliskipulagsbreyting – 1902022. Lagt var fram bréf Snæbjörns Þorkelssonar, ódagsett, en móttekið 10. ágúst 2019, vegna málsins, auk tölvuskeytis, dags. 11. ágúst 2019.
Lögð fram að lokinni auglýsingu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, deiliskipulagbreyting fyrir Eyrargata 9, Austurey 3 L167623, Bláskógabyggð. Deiliskipulagstillagan felur í sér skilmálabreytingu heildar svæðisins varðandi nýtingarhlutfall sem breytist í 0,03. Heimilt er að reisa eitt frístundahús og eitt smáhýsi/aukahús. Jafnframt að lóðin Eyrargata 9 er stækkuð úr 5444 m2 í 7179 m2. Samhliða er gert ráð fyrir 5 m belti fyrir göngustíg milli lóðanna Eyrargötu 7 og 9 í framhaldi af aðkomuvegi. Tillagan var auglýst frá 22. maí til 3. júlí s.l. Athugasemdir bárust.

Umræða varð um málið. Sveitarstjórn samþykkir að fara í vettvangsferð vegna málsins og frestar afgreiðslu þess til næsta fundar.

-liður 3, Heiðarbær lóð L170266; Niðurrif og endurbygging sumarhúss; Fyrirspurn – 1907027
Lögð er fyrir umsókn Harðar Ólafssonar og Jórunnar Frímannsdóttur, dags. 2. júlí 2019, um rif eldra húss og byggingu nýs sumarhúss með sömu staðsetningu í huga. Stærð nýs húss yrði allt að 115 m2 og jafnframt viðmið byggingar fari ekki yfir 0,03 nýtingarhlutfall.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við fyrirhugð byggingaráform og felur byggingarfulltrúa að veita byggingarleyfi með fyrirvara um niðurstöður grenndarkynningar.

-liður 4, Skógarnes – Orlofssvæði Rafiðnaðarsambands Íslands; Austurey lóð L167697; Stækkun byggingarreits; Deiliskipulagsbreyting – 1903054
Lögð fram að nýju umsókn Rafiðnaðarsambands Íslands, dags. 26. mars 2019, Austurey lóð L167697, um deiliskipulagsbreytingu vegna stækkunar á byggingarreit vegna fyrirhugaðrar skemmubyggingar. Tillagan var kynnt með grenndarkynningu frá 14.maí 2019 með athugasemdafresti til 18.júní 2019. Athugasemdir bárust.
Umsækjandi hefur með innsendum skýringauppdrætti gert nánari grein fyrir afstöðu og hæðarlegu fyrirhugaðrar vélageymslubyggingar en þar kemur fram að byggingin mun verða staðsett í hvilft í framhaldi af þegar byggðri vélageymslu í sömu hvilft. Mænishæð mun aðeins ná um það bil 1,5m upp fyrir landhæð aðliggjandi lóðar og að auki innan við trjágróður sem í dag nær um það bil 6m upp fyrir sömu lóð. Skipulagsnefnd metur athugasemdir sem bárust óverulegar.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir deiliskipulagsbreytinguna í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr.123/2010. Skipulagsfulltrúa er falið að senda Skipulagsstofnun tillöguna til afgreiðslu og er einnig falið að svara þeim aðilum sem gerðu athugasemdir.

-liður 5, Skútabraut 4 L167559; Úthlíð 2 L167181; Staðfesting á afmörkun og breytt stærð lóðar – 1907023
Lögð fram umsókn Ólafs Björnssonar f.h. Geirs Goða ehf, dags. 21. júní 2019 um staðfestingu á afmörkun og breytingu á stærð lóðarinnar Skútabraut 4 L167559 í landi Úthlíðar. Hnitsetning lóðarinnar hefur ekki legið fyrir áður. Stærð lóðarinnar breytist úr 3.500 m2 í 5.742,9 m2 skv. meðfylgjandi hnitsettu lóðablaði. Fyrir liggur samþykki landeigenda Úthlíðar og lóðarhafa aðliggjandi lóðar L167558 á hnitsetningu lóðamarka. Þegar liggur fyrir áður samþykkt lóðablað fyrir Skútabraut 5.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við afmörkun og breytingu á skráningu lóðar miðað við fyrirliggjandi gögn. Ekki er gerð athugasemd við landskipti skv. 13. gr. jarðalaga. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir fyrirliggjandi umsókn.

-liður 6, Snorrastaðir lóð L168107; Geymsla og baðhús á lóð; Fyrirspurn – 1906062
Lögð er fram fyrirspurn Runólfs Þ. Sigurðssonar, dags. 22. júní 2019, fyrir hönd Höskuldar Ólafssonar. Óskað er svara við hvort leyfi fengist til að staðsetja geymslu og baðhús 5m frá lóðarmörkum. Umsækjandi vill að fram komi að eldra hús á lóðinni sem nú hefur verið rifið var staðsett um 1,5m frá sömu lóðamörkum.
Sveitastjórn Bláskógabyggðar hafnar beiðninni í ljósi þess að byggingarmagn fari yfir nýtingarhlutfall 0,03 og byggingin fari of nærri lóðarmörkum.

Fundargerðin staðfest.

2. Lagning ljósleiðara í Bláskógabyggð – 1805099
Tilboð í gerð útboðsgagna vegna lagningar ljósleiðara í Bláskógabyggð. Ákvörðunartaka um framhald verkefnisins.
Guðmundur Daníelsson, ráðgjafi, kom inn á fundinn. Lagt var fram tilboð Eflu ehf í gerð í útboðsgagna. Önnur tilboð bárust ekki. Samþykkt var að taka tilboði Eflu í gerð útboðsgagna.
Guðmundur fór yfir kostnaðaráætlun vegna málsins, fjölda umsókna og mögulegan tímaramma verkefnisins. Einnig svaraði hann fyrirspurnum fundarmanna.
Sveitarstjórn samþykkir að bjóða út lagningu ljósleiðara í sveitarfélaginu. Útboðsauglýsing verði birt 17. ágúst n.k.
3. Mat á umhverfisáhrifum, hótel og baðlón á Efri-Reykjum – 1908013
Erindi Skipulagsstofnunar, dags. 22. júlí 2019, þar sem óskað er umsagnar um hvort og á hvaða forsendum framkvæmdir við hótel og baðlón á Efri-Reykjum skuli háð mati á umhverfisáhrifum.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur fengið til umsagnar frá Skipulagsstofnun tilkynningu um framkvæmd við hótel og baðlón á Efri-Reykjum í Bláskógabyggð. Sveitarstjórn telur framkvæmdina háða mati á umhverfisáhrifum út frá staðsetningu framkvæmdarinnar, nánar tiltekið á þeim forsendum að um er að ræða svæði sem fellur að hluta undir náttúruminjar skv. náttúruminjaskrá, sjá 2. tl. lið iii a) í viðauka 2 í lögum nr. 106/2000, svæðið er einnig ofarlega á víðáttumiklu vatnasviði, sjá 2.tl. lið iii d) í framangreindum viðauka og horfa ber til þátta sem varða álagsþol náttúrunnar, sbr. 2. tl. lið iv d) viðauka 2 um svæði á náttúruminjaskrá, svo sem þátta sem varða álag á lífríki árinnar, fuglalíf og gróður, bæði á framkvæmdatíma og til lengri tíma litið.
Framkvæmdin er háð útgáfu byggingarleyfis.
4. Mat á umhverfisáhrifum, efnistaka úr landi Gýgjarhólskots – 1908007
Erindi Skipulagsstofnunar, dags. 30. júlí 2019, þar sem óskað er umsagnar um hvort og á hvaða forsendum efnistaka úr Gýgjarhólskoti vegna endurbóta á Skeiða- og Hrunamannavegi skuli háð mati á umhverfisáhrifum.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur fengið til umsagnar frá Skipulagsstofnun tilkynningu um fyrirhugaða efnistöku úr Gýgjarhólskoti vegna endurbóta á Skeiða- og Hrunamannavegi. Sveitarstjórn telur framkvæmdina ekki háða mati á umhverfisáhrifum þrátt fyrir að svæðið sé á náttúruminjaskrá. Er þar horft til eðlis framkvæmdarinnar, þess að svæðið er þegar raskað og áætlana um frágang svæðisins.
Framkvæmdin er háð útgáfu framkvæmdaleyfis af hálfu sveitarfélagsins.
5. Stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu – 1812008
Umsögn um samráðsskjal S-135/2019 – Skilgreining á mörkum miðhálendisþjóðgarðs, skiptingu í verndarflokka o.fl.
Umsögn sveitarstjórnar Bláskógabyggðar um textadrög þverpólitískrar nefndar sem vinnur að stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands um skilgreiningu marka þjóðgarðsins, áherslur um skiptingu landsvæða í verndarflokka, umfjöllun um aðkomuleiðir og þjónustumiðstöðvar. Sjá tilkynningu í samráðsgátt Stjórnarráðsins frá 22. maí sl. um verkefni nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Í umsögninni er annars vegar fjallað almennt um stofnun miðhálendisþjóðgarðs, hins vegar er fjallað um mörk þjóðgarðs, skiptingu í verndarflokka, aðkomuleiðir og þjónustumiðstöðvar.

Almennt um stofnun miðhálendisþjóðgarðs:
Af hálfu Bláskógabyggðar eru ítrekaðar fyrri athugasemdir þess efnis að ekki hefur farið fram grunnvinna sem sveitarfélagið telur algerlega nauðsynlegan undanfara að vinnu þverpólitísku nefndarinnar sem vinnur að stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands, þ.e. varðandi það að meta kosti og galla þess að ráðast í það verkefni að stofna þjóðgarð á miðhálendi Íslands.
Sveitarstjórn tekur undir öll eftirfarandi áhersluatriði sem Húnavatnshreppur tiltekur í umsögn sinni:
A. Ekki hefur verið tekið til umfjöllunar og tekið upp samráð á vegum lýðræðislega kjörinna fulltrúa um kosti og galla þjóðgarðsstofnunar m.a. með tilliti til annarra friðunar- og verndarheimilda, sbr. t.d. nýleg náttúruverndarlög og heimildir til hverfisverndar samkvæmt skipulagsáætlunum.
B. Umfjöllun og skýringar um þýðingu alþjóðlegra viðmiða um þjóðgarða hefur ekki komið fram. Lýsingar á heimildum til annarra notkunar svæða en fellur undir kjarnasvæðis þjóðgarðs og kröfur um lágmarksumfang slíks svæðis er því óáreiðanleg til að byggja á ákvarðanatöku sveitarfélaga.
C. Ljóst er að stofnun þjóðgarðs felur í sér verulega takmörkun á skipulagsvaldi sveitarfélaga og þar með forræði sveitarstjórna á að marka stefnu um þróun byggðar og landnotkunar í sveitarfélagi.
D. Stofnun þjóðgarðs takmarkar ráðstöfunarheimildir sveitarfélaga yfir þjóðlendum og heimildir til að afla tekna vegna starfsemi í þjóðlendum, sem sveitarfélög geta nýtt í þágu þjóðlenda innan sveitarfélagamarka.
E. Ófyrirséðar breytingar geta orðið á lagalegri umgjörð um þjóðgarð og stjórnunar- og verndaráætlun í framtíðinni, sbr. t.d. breytingar sem raskað hafa forsendum sem til staðar voru við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.
F. Nýting afréttareignar innan þjóðgarðs, sem og önnur starfssemi, verður háð stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðs.
G. Aðkoma sveitarfélags að stjórn þjóðgarðs verður óveruleg.

Mörk miðhálendisþjóðgarðs:
Sveitarstjórn leggst gegn því að landsvæði innan marka sveitarfélagsins verði felld undir miðhálendisþjóðgarð. Fer sveitarstjórn fram á að í því tilviki að ekki verði tekið tillit til andmæla hennar verði teknar upp samningaviðræður við sveitarfélagið í þeim tilgangi að skilgreina mörk miðhálendisþjóðgarðs innan marka þess.
Sveitarstjórn telur rétt að ákvörðun um mörk þjóðgarðs byggi á faglegu mati sem byggt verði á eiginleikum svæða, en ekki verði horft eingöngu til eignarhalds og umráðaréttar yfir landi. Þá tekur sveitarstjórn undir ábendingu Húnavatnshrepps þar sem fram kemur að stofnun þjóðgarðs, sem aðallega væri byggð á eignarréttarlegum atriðum, yrði þannig forsenda takmörkunar á skipulagsvaldi sveitarfélaga. Vandséð er að hægt sé að rökstyðja það að eðlilegt sé að takmarka skipulagsvald sveitarfélaga út frá þáttum sem snúa að eignarhaldi eða umráðum lands. Verður því að koma til fagleg skoðun út frá sjónarmiðum náttúruverndar og inntaks aðalskipulags sveitarfélaga, þar sem ákvæði kunna að vera um hverfisvernd, landnotkun er skilgreind og settar takmarkanir útfrá forsendum sem varða m.a. vernd náttúru.

Skipting í verndarflokka:
Sveitarstjórn leggur áherslu á að vanda þarf til verka við skiptingu í verndarflokka þar sem horft verði til verndarmarkmiða svæða og að hafa verði samráð við alla hagsmunaaðila við þá vinnu, sem væntanlega verður unnin sem hluti af gerð stjórnunar- og verndunaráætlun fyrirhugaðs þjóðgarðs.

Aðkomuleiðir og þjónustumiðstöðvar:
Bláskógabyggð bendir á að sumar þjónustugáttir eru nokkuð langt frá hinum fyrirhugaða þjóðgarði. Telur sveitarstjórn eðlilegra að gáttirnar verði sem næst þjóðgarði. Verði af stofnun þjóðgarðs leggst sveitarstjórn ekki gegn staðsetningu þjónustugáttar á svæðinu við Gullfoss. Sveitarstjórn telur að þjónustugátt við Þingvelli væri of langt frá hinum fyrirhugaða þjóðgarði.

Ferli málsins:
Sveitarstjórn þakkar það samráð sem viðhaft hefur verið og fundi fulltrúa í nefndinni með sveitarstjórn. Sveitarstjórn hefði þó gjarnan viljað hitta fleiri nefndarmenn á samráðsfundum. Gott hefði verið að eiga beint og milliliðalaust samtal við sem allra flesta nefndarmenn.

 

Fundi slitið kl. 11:30.

 

 

 

 

 

 

Helgi Kjartansson   Valgerður Sævarsdóttir
Óttar Bragi Þráinsson   Kolbeinn Sveinbjörnsson
Guðrún S. Magnúsdóttir   Eyrún Margrét Stefánsdóttir
Róbert Aron Pálmason    
Ásta Stefánsdóttir