246. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar

 

  1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn í Aratungu, Reykholti, 5 desember 2019, kl. 15:15.

 

 

Fundinn sátu:

Helgi Kjartansson, Valgerður Sævarsdóttir, Óttar Bragi Þráinsson, Kolbeinn Sveinbjörnsson, Guðrún S. Magnúsdóttir, Eyrún Margrét Stefánsdóttir var fjarverandi en í staðinn sat fundinn Axel Sæland, Róbert Aron Pálmason og Ásta Stefánsdóttir.

 

 

Fundargerð ritaði: Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri.

 

 

1. Fjárhagsáætlun 2020 og 3ja ára áætlun 2021-2023 – 1910029
Fjárhagsáætlun 2019 og 3ja ára áætun. Fjárfestingaáætlun.
Lieselot Simoen kom inn á fundinn undir þessum lið og fór yfir rektstraráætlun leikskólans Álfaborgar.
Farið var yfir fjárfestingaáætlun áranna 2020-2023 og ýmsa þætti rekstararáætlunar.
Sveitarstjórn samþykkir að álagningarhlutfall fasteignaskatta vegna ársins 2020 verði sem hér segir:
A-liður Fasteignaskattur íbúðarhúsnæðis eins og það er skilgreint í a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 verður 0,5% af heildarfasteignamati.
B-liður Fasteignaskattur af opinberum byggingum eins og þær eru skilgreindar í b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 verður 1,32% af heildarfasteignamati.
C-liður Fasteignaskattur atvinnuhúsnæðis og annarra eigna eins og þær eru skilgreindar í c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 verður 1,5% af heildarfasteignamati.

Síðari umræða um fjárhagsáætlun ársins 2020 og þriggja ára áætlun 2021-2023 fer fram 12. desember n.k.

2. Lántökur 2019 – 1910002
Tillaga um að veitt verði heimild til skammtímafjármögnunar með allt að 100 mkr yfirdráttarheimild hjá Landsbanka Íslands.
Sveitarstjórn heimilar sveitarstjóra að sækja um skammtímafjármögnun á formi yfirdráttarheimildar hjá Landsbanka Íslands að fjárhæð allt að 100.000.000 kr.
3. Yfirlit yfir útsvar og greiðslur frá Jöfnunarsjóði 2019 – 1906001
Yfirlit yfir útsvar og greiðslur frá Jöfnunarsjóði janúar til október 2019
Lagt var fram yfirlit yfir útsvarsgreiðslur og greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
4. Stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu – 1812008
Umsögn um áform umhverfis- og auðlindaráðherra um framlagningu frumvarps til laga um þjóðgarð á miðhálendi Íslands.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir eftirfarandi umsögn:
Til kynningar eru í samráðsgátt stjórnvalda áform umhverfis- og auðlindaráðherra um að leggja fram frumvarp til laga um þjóðgarð á miðhálendi Íslands.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur skilað inn umsögnum um allar þær hugmyndir að þáttum sem þverpólitísk nefnd um stofnun þjóðgarðs hefur fjallað um og birt í samráðsgáttinni. Í störfum nefndarinnar hefur verið tekið mið af ýmsum ábendingum og athugasemdum sem fram hafa komið í ferlinu, en eftir sem áður er afstaða sveitarstjórnar Bláskógabyggðar sú að leggjast alfarið gegn áformum um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu eins og boðað hefur verið.
Sveitarstjórn gerir því athugasemdir við áform um framlagningu frumvarps til laga um þjóðgarð á miðhálendi Íslands. Ítrekað er að samráð um það hvort yfirhöfuð skuli stofna þjóðgarð á miðhálendinu hefur aldrei farið fram og því ekki tímabært að leggja fram frumvarp um að stofna skuli slíkan þjóðgarð. Að mörgu leyti eru það sporin sem hræða, auk þess sem sveitarstjórn telur að inngrip í skipulagsvald sveitarfélagsins verði of mikið og aðkoma þess að stjórnun á þeim svæðum sem liggja innan marka sveitarfélagsins verði ekki nægjanleg.
Mikið hefur verið lagt upp úr því í kynningu á verkefninu um miðhálendisþjóðgarð að umtalsvert fjármagn fylgi og nefnt hefur verið að á móti hverri krónu sem lögð eru í þjóðgarð komi 23 krónur á móti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna Vatnajökulsþjóðgarðs kemur fram að enn sé stjórnun og rekstri ábótavant, þó málin hafi eitthvað lagast. Í skýrslunni segir síðan: „Auknar rekstrartekjur þjóðgarðsins hafa því fyrst og fremst komið fram á suðursvæðinu en önnur svæði hafa setið eftir. Stærstu stofnar rekstrartekna suðursvæðisins, og þar með þjóðgarðsins í heild, eru verslun og þjónusta annars vegar og veitingasala hins vegar. Auk þess voru umtalsverðar tekjur vegna reksturs bílastæðis í Skaftafelli árin 2017-18.“ Það er mat sveitarstjórnar að fullyrðingar um verulegar tekjur af rekstri þjóðgarðs eigi helst við þar sem aðgengi að þjóðgarði er gott allt árið, þar sem eru fjölsóttir ferðamannastaðir (massatúrismi), þar sem samgöngur eru greiðar við höfuðborgarsvæðið og þar sem svæðin liggja nærri þjóðvegi 1. Bílastæði við Skaftafell og Jökulsarlón geti þannig skilað umtalsverðum tekjum allt árið um kring, en svæði líkt og við Kjalveg innan Bláskógabyggðar, þar sem illfærir vegir eru opnir nokkrar vikur á ári, hafi afar takmarkaða möguleika til öflunar tekna.
Sveitarstjórn hefur ítrekað bent á þá þversögn sem felst í því að þjóðgarður feli í sér mikla þjóðhagslega hagkvæmni á grundvelli þess að um ákveðið vörumerki verði að ræða sem laði að sér ferðamann, á sama tíma og eitt af meginmarkmiðunum er að vernda náttúru og víðerni og sinna umhverfis- og loftslagsmálum. Ef byggja á rekstur miðhálendisþjóðgarðs á þjónustugjöldum þarf að koma til massatúrismi inn á allt hálendið, en það hlýtur að stangast verulega á við markmið í umhverfis- og loftslagsmálum.
Sveitarstjórn telur að stofnun þjóðgarðs muni takmarka það aðgengi sem almenningur á Íslandi hefur nú að svæðum á miðhálendinu, þar sem koma mun til aukinnar gjaldtöku og skerts aðgengis inn á sum svæði. Þar að auki mun skattfé landsmanna að hluta verða nýtt til að reka garðinn, en til þessa hafa almenn félög og samtök íbúa lagt verulegt fjármagn til gróðurverndar og uppgræðslu, merkinga og þjónustu við þá sem um svæðið fara. Viðbúið er að breyting verði á aðkomu slíkra aðila að fjármögnun verkefna sem koma til með að heyra alfarið undir ríkisstofnun.
Í skjali um áform um lagasetningu er rætt um náið samráð við sveitarfélög og hagsmunaaðila og m.a. tiltekið að haldnir voru þrír opnir kynningarfundir í Reykjavík. Í því ljósi er bent á að einungis einn opinn fundur var haldinn fyrir íbúa Árnessýslu í öllu ferlinu, hinn 27. ágúst 2018, í upphafi vinnu nefndarinnar. Fundi sem halda átti 21. ágúst 2019 var frestað fram í september, en var síðan aldrei haldinn. Ekki var því haldinn neinn fundur, hvorki fyrir íbúa né kjörna fulltrúa til að kynna hver niðurstaða vinnu nefndarinnar væri. Á fund með sveitarstjórn mættu einungis formaður þverpólitísku nefndarinnar og starfsmenn umhverfisráðuneytisins, en enginn fulltrúa þingflokkanna í nefndinni. Fulltrúar úr sveitarstjórn hafa fundað með umhverfis- og auðlindaráðherra og hefur samráð því að mestu verið í gegnum embættis- og starfsmenn, en minna í gegnum kjörna fulltrúa.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur ekki tímabært að leggja fram frumvarp til laga um þjóðgarð á miðhálendi Íslands. Mikið verk er óunnið varðandi t.d. samráð og samkomulag við sveitarfélög og hagsmunaaðila, svo sem hvað varðar mörk þjóðgarðs, fyrirkomulag skipulagsmála, stjórnfyrirkomulag og heimildir til hefðbundinna nytja.

 

 

 

Fundi slitið kl. 17:30.