247. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar

 

 

 

 

 

  1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn í Aratungu, Reykholti, 12. desember 2019, kl. 15:15.

 

 

Fundinn sátu:

Helgi Kjartansson, Valgerður Sævarsdóttir, Óttar Bragi Þráinsson, Kolbeinn Sveinbjörnsson var fjarverandi en í staðinn sat fundinn Agnes Geirdal, Guðrún S. Magnúsdóttir, Eyrún Margrét Stefánsdóttir, Róbert Aron Pálmason og Ásta Stefánsdóttir.

 

 

Fundargerð ritaði: Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri.

Leitað var afbrigða til að taka á dagskrá fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa frá 4. desember 2019 og beiðni um umsögn um rekstrarleyfi. Var það samþykkt og verða málin tekin fyrir undir 2. og 42. lið.

 

1. Fundargerð skipulagsnefndar – 1901037
187. fundur skipulagsnefndar haldinn 27. nóvember 2019, asfgreiða þarf sérstaklega liði 2-8.
-liður 2, Skipholt 1 L205374 og 2 L205375; Lögbýli; Sameining lóða og stækkun byggingarreits; Fyrirspurn – 1911044
Lögð er fram fyrirspurn Maríu Þórunnar Jónsdóttur, dags. 29. maí 2019, móttekið 19. nóvember 2019, hvort heimilað verði að sameina lóðirnar Skipholt 1, L205374, og Skipholt 2, L205375, í landi Kjaransstaða í Bláskógabyggð. Einnig er óskað eftir að lóðunum verði breytt í landbúnaðarland þar sem fyrirhugað er að á þeim verði stofnað lögbýli. Þá er jafnframt óskað eftir að byggingareitur verði stækkaður til suðurs um 30m og á lóðinni verði leyft aukið byggingamagn um allt að 3000 fermetrar af útihúsum. Lóðirnar í dag eru innan samþykkts deiliskipulags frístundabyggðar þar sem gert er ráð fyrir að fólk geti haft aðstöðu fyrir frístundabúskap ýmiskonar s.s. hestamennsku eða skógrækt. Samkvæmt skýringauppdrætti er áfram gert ráð fyrir aðkomu að lóðinni frá sameiginlegum vegi frístundasvæðisins.
Sveitarstjórn tekur jákvætt í fyrirspurnina og telur að stofnun lögbýlis sé heppileg vegna nálægðar landsspildna við vegtengingu. Landið er í gildandi aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027 skilgreint sem landbúnaðarland.
-liður 3, Drumboddsstaðir 1 lóð 1 (L221321); umsókn um byggingarleyfi; véla- og verkfærageymsla – 1911018
Í framhaldi af afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 20. nóvember 2019 er lögð fram umsókn Friðriks Friðrikssonar fyrir hönd Straumhvarf ehf. um byggingarleyfi til að byggja véla- og verkfærageymslu 169,1 m2 á íbúðarhúsalóðinni Drumboddsstaðir 1 lóð 1 (L221321) í Bláskógabyggð. Málinu var vísað til skipulagsnefndar þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við að byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi fyrir véla- og verkfærageymslu með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, fyrir lóðarhöfum aðliggjandi lóða.

-liður 4, Gullfoss 1-2, L167192; Friðlandið; Snjóvarnargirðing; Framkvæmdaleyfi – 1911039
Lögð er fram umsókn Valdimars Kristjánssonar, dags. 1. október 2019, fyrir hönd Umhverfisstofnunar, um framkvæmdaleyfi vegna tilraunaverkefnis við stiga á Friðlandinu Gullfoss. Óskað er eftir að reisa snjóvarnargirðingu vegna tilraunaverkefnisins sem fjarlægt verður vorið 2020. Alls er um að ræða 12 metra af girðingu sem fest verður niður með bergboltum og er um að ræða að hæð geti verið allt að 1,5 m.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykki framkvæmdina og felur skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi í samræmi við reglugerð nr. 772/2012 og fyrirliggjandi gögn umsækjanda.

-liður 5, Eyvindartunga; Frístundabyggð neðan Laugarvatnsvegar; Aðalskipulagsbreyting – 1807011
Lögð er fyrir að nýju skipulags- og matslýsing vegna aðalskipulagsbreytingar í landi Eyvindartungu. Í ljós kom að gefin var upp, vegna mistaka, röng stærð á stækkun frístundasvæðisins F23. Stærð svæðisins verði stækkað um 16 ha en ekki 6 ha eins og fram kemur í eldri útgáfu. Annað er óbreytt í greinargerðinni.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir fyrirliggjandi lýsingu EFLU dagsetta 20. nóvember 2019 , sem skýrir væntanlega breytingu á gildandi aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027, skv. 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsfulltrúa er falið að senda Skipulagsstofnun lýsinguna til umsagnar skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga og kynna lýsinguna almenningi skv. sömu grein skipulagslaga.

-liður 6, Ferjuholt 12 L203689; Stækkun byggingarreits; Fyrirspurn – 1911045
Lögð er fram fyrirspurn Rebecca Schonobl, dags. 12. nóvember 2019, um hvort heimilað verði að verði að stækka byggingarreit til samræmis hvað almennt gerist á skipulögðum svæðum þ.e. 10 metra frá lóðamörkum. Lóðin sem um ræðir er Ferjuholt 12, L203689, sem stækkuð hefur verið um rúmlega 4000 fermetra.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar tekur jákvætt í erindið og heimilar að byggingareitur verði stækkaður og einnig heimilað að gerð verði óveruleg breyting á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga 123/2010, og að breytingartillagan verði grenndarkynnt lóðarhöfum aðliggjandi lóða.

-liður 7, Efsti-Dalur 1 L167630; Efsti-Dalur 1B, Hlauptunga, Efsti-Dalur 1 vegsvæði; Hlauptunga 1-6 og Setberg 1-2; Landskipti og sameining lóða – 1903023
Lögð fram umsókn Ólafs Björnssonar f.h. landeigenda, dags. 22. nóvember 2019, ásamt uppdráttum og greinagerð frá Eflu. Óskað er eftir staðfestingu á afmörkun jarðarinnar Efsti-Dalur 1, L167630, ásamt afmörkun þriggja þegar stofnaðra lóða, L167736, L167737 og L167738, úr jörðinni þar sem nákvæm afmörkun þeirra hefur ekki legið fyrir áður. Jörðin er í dag skráð með stærðina 591,3 ha en skv. nákvæmari afmörkun er hún 621,1 ha að stærð að teknu tilliti til afmarkana þegar stofnaðra sumar- og íbúðarhúsalóða.
Einnig er sótt um skiptingu jarðarinnar í þrjá hluta milli núverandi eigenda og eitt sameiginlegt vegsvæði með nýrri vegtengingu við Laugarvatnsveg (37).
Samhliða skiptingunni liggja fyrir umsóknir viðkomandi eigenda um sameiningu annars vegar lóðanna Setberg 1 og 2 inn í Efsta-Dal 1 og hins vegar lóðanna Hlauptunga 1-6 inn í landið Hlauptunga sem þær eru innan afmörkunar skv. skiptingu. Lóðirnar sem munu verða felldar niður eru hver um sig 1 ha að stærð.
Jörðin mun því skiptast í eftirtaldar landeignir: 218,4 ha land sem fengi staðfangið Efsti-Dalur 1B, 169,6 ha land sem fengi staðfangið Hlauptunga, 1,52 ha vegsvæði sem fengi staðfangið Efsti-Dalur 1 vegsvæði og Efsta-Dal 1 L167630 sem verður 229,2 ha eftir skiptin. Heitið Hlauptunga vísar í örnefni á svæðinu. Fyrir liggur samþykki Vegagerðarinnar á vegtengingunni með undanþágu frá veghönnunarreglum að uppfylltum skilyrðum sem fram koma í umsögn dags. 18. október 2019. Gert er ráð fyrir samþykki allra hagsmunaaðila á landamerkjum í greinagerð frá Eflu dags. 21. nóvember 2019.
Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemd við erindið í samræmi við fyrirliggjandi umsóknir og gögn, með fyrirvara um samþykki eigenda aðliggjandi landeigna á landamerkjum. Ekki er gerð athugasemd við staðfangið Hlauptunga. Þá er ekki gerð athugasemd við staðfestingu landskipta skv. 13. jarðalaga. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir fyrirliggjandi umsóknir.

-liður 8, Stíflisdalur 2 L170166; Stíflisdalur 2A; Stofnun lóðar – 1911046
Lögð fram umsókn Sigríðar H. Sigurbjörnsdóttur, dags. 12. júlí 2019 um stofnun 5.200 fm lóðar utan um þegar byggt íbúðarhús í landi Stíflisdals 2 L170166 skv. lóðablaði. Gert er ráð fyrir að lóðin fái heitið Stíflisdalur 2A. Aðkoma er um núverandi heimreið frá Kjósaskarðsvegi. Fyrir liggur samþykki meðeigenda upprunalands á afmörkun lóðarinnar.
Skipulagsnefnd UTU gerir ekki athugasemd við stofnun lóðarinnar skv. umsókn. Ekki er gerð athugasemd við landskipti skv. 13. gr. jarðalaga. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir fyrirliggjandi umsókn.

Fundargerðin staðfest.

2. Fundargerð skipulagsnefndar – 1901037
188. fundur skipulagsnefndar haldinn 12. desember 2019, afgreiða þarf liði 3, 5 og 6 sérstaklega.
-liður 3, Miðholt 2-12; Deiliskipulagsbreyting – 1912008
Ásta Stefánsdóttir f.h. Bláskógabyggðar leggur fram umsókn og tillögu að óverulegri breytingu á gildandi deiliskipulagi þéttbýlis í Reykholti, Bláskógabyggð. Breytingin tekur lóðarinnar Miðholt 2-12,sem áður gerði ráð fyrir sex íbúða raðhúsi. Lóðinni verður skipt upp í tvær lóðir sem fá númerin 10 og 12. Heimilt verður að byggja á hvorri lóð, fjögurra íbúða raðhús.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að tillagan verði grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
-liður 5, Vatnsleysa land B L188581; Breytt notkun lands innan frístundasvæðis F67; Aðalskipulagsbreyting – 1901019
Lögð fram umsögn umhverfisstofnunar 27.9.2019 til afgreiðslu og umfjöllunar. Í umsögn Umhverfisstofnunar er bent á að land það sem breyta á í landbúnaðarland, njóti sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013.
Sveitarstjórn áréttar að uppbygging á svæðinu mun einungis ná yfir svæði sem er afmarkað sem byggingarreitur. Ekki verður um framkvæmdir að ræða á vesturhluta svæðis þar sem um er að ræða birkikjarr sem nýtur verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Gerð hefur verið breyting á greinargerð tillögunnar, þar sem ofangreint er áréttað. Helgi Kjartansson vék af fundi við afgreiðslu málsins og Valgerður Sævarsdóttir, varaoddviti tók við stjórn fundarins.

-liður 6, Kjarnholt 3 L167129; Ferðaþjónusta, frístundabyggð og íbúðir; Deiliskipulag – 1903026
Lög fram í samræmi við 1.mgr 42. gr. skipulagslaga nr.123/2010,umsögn Skipulagsstofnunar dags. 30.10.2019, til afgreiðslu og umsagnar.
Skipulagsstofnun gerir athugasemdir við að sveitarstjórn Bláskógabyggðar hafi ekki rökstutt með nægjanlega ítarlegum hætti svör við athugasemdum sem bárust í kjölfar auglýsingar á deiliskipulagi fyrir Kjarnholt 3, í Bláskógabyggð.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar bregðist við umsögn Skipulagsstofnunar með eftirfarandi hætti:
Deiliskipulagið er í samræmi við staðfest Aðalskipulag Bláskógabyggðar 2015-2027. Svæði þetta er skilgreint sem frístundasvæði, merkt F99, Kjarnholt 3 í Aðalskipulagi sveitarfélagsins. Deiliskipulagið samræmist því markmiði í Aðalskipulagi Bláskógabyggðar varðandi frístundabyggð, að ný hverfi skuli að jafnaði vera í tengslum við núverandi frístundabyggð og að á frístundasvæðum skulu lóðir að jafnaði vera á stærðarbilinu ½ – 1 ha og nýtingarhlutfall skal ekki vera hærra en 0,03, (sbr. kafla 2.3.2 Frístundabyggð). Ennfremur er í aðalskipulagi gert ráð fyrir verslun- og þjónustu á deiliskipulagssvæðinu, merkt V17, Kjarnholt 3. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir uppbyggingu þjónustu fyrir, s.s. gistihúsi, smáhýsum og tjaldstæði. Fyrirhugað deiliskipulag samræmist því markmiði aðalskipulags Bláskógabyggðar 2015-2027, að stuðlað verði að nýjum atvinnutækifærum á sviði verslunar- og þjónustu og styrkari þjónusta við ferðamenn verði efld og afþreyingarmöguleikum fjölgað til að fjölga atvinnutækifærum og renna stoðum undir byggð, (sbr. kafla 2.4.3 Verslun og þjónusta). Reynt verður eftir bestu getu að minnka neikvæð umhverfisáhrif með því að mannvirki skuli falla sem mest að svipmóti lands og lita- og efnisval miðað við náttúrulega liti.

Fundargerðin staðfest.

3. Fundargerðir afgreiðslufunda byggingarfulltrúa – 1901038
110. afgreiðslufundur byggingarfulltrúa haldinn 20. nóvember 2019
111. afgreiðslufundur byggingarfulltrúa haldinn 4. desember 2019
Fundargerðirnar staðfestar.
4. Fundargerð stjórnar Bláskógaveitu – 1901039
97. fundur stjórnar Bláskógaveitu, haldinn 5. desember 2019
Fundargerðin staðfest.
5. Haustfundur Héraðsnefndar Árnesinga – 1909003
Aðalfundur Héraðsnefndar Árnesinga, haldinn 15. október 2019.
Fundargerðin lögð fram.
6. Fundargerð stjórnar Bergrisans bs – 1905012
11. fundur stjórnar Bergrisans bs haldinn 28. nóvember 2019
Fundargerðin lögð fram.
7. Fundargerð stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands – 1901018
288. fundur stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands haldinn 26. nóvember 2019
Fundargerðin lögð fram.
8. Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga – 1902005
876. fundur stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga haldinn 29. nóvember 2019
Fundargerðin lögð fram.
9. Fundargerð stjórnar Tónlistarskóla Árnesinga – 1902041
194. fundur stjórnar Tónlistarskóla Árnesinga, haldinn 29. nóvember 2019
Fundargerðin lögð fram.
10. Fundargerð oddvitanefndar UTU – 1903005
Fundargerð oddvitanefndar UTU, fundur haldinn 19. nóvember 2019
Fundargerðin lögð fram.
11. Aðalfundur Sorpstöðvar Suðurlands – 1912009
Aðalfundur Sorpstövar Suðurlands, haldinn 25. október 2019.
Fundargerðin lögð fram.
12. Aðalfundur Heilbrigðisnefndar Suðurlands – 1912004
Aðalfundur Heilbrigðisnefndar Suðurlands, haldinn 24. október 2019, ásamt afriti af dómi Landsréttar í máli Krónunnar gegn Sveitarfélaginu Árborg og Heilbrigðiseftirliti Suðurlands.
Fundargerðin lögð fram, ásamt afriti dóms Landsréttar.
13. Deiliskipulag fyrir Laugarvatn, starfshópur – 1809017
Fundargerðir (minnisblöð) vegna vinnu starfshóps um gerð deiliskipulags fyrir Laugarvatn.
Lagt fram til kynningar.
14. Samningur um álagningarkerfi fasteignagjalda – 1912005
Erindi Þjóðskrár Íslands, dags. 4. desember 2019, varðandi þjónustusamning vegna álagningarkerfis fasteignagjalda.
Sveitarstjórn samþykkir samninginn og felur sveitarstjóra að undirrita hann.
15. Samningur um afsetningu úrgangs – 1912002
Boð Terru hf, dags. 9. desember 2019, um þjónustu við afsetningu úrgangs þar sem ekki verður tekið við óendurvinnanlegum úrgangi frá Suðurlandi í Fíflholtum og Stekkjarvík frá og með næstu áramótum.
Á fundi sveitarstjórnar þann 21. nóvember 2019 voru lögð fram drög að samningi við Íslenska gámafélagið vegna móttöku á almennum blönduðum úrgangi sem ætlunin er að fara til orkuvinnslu erlendis.

Þrjú sveitarfélög í Árnessýslu njóta þjónustu Terra, áður Gámaþjónustunnar, hvað varðar sorphirðu, Hveragerðisbær, Grímsnes- og Grafningshreppur og Bláskógabyggð. Hefur Terra séð um að koma blönduðum úrgangi þessara sveitarfélaga í förgun annað hvort í Fíflholtum eða í Stekkjarvík en á þessum tveimur stöðum var í gildi samkomulag milli Sorpstöðvar Suðurlands og viðkomandi urðunarstaðar. Þeim samningi hefur nú verið sagt upp og því eru þau mál enn og aftur í uppnámi.
Í því ljósi hefur Íslenska gámafélagið boðið sveitarfélögum á Suðurlandi að blandaður úrgangur frá þeim verði fluttur erlendis til brennslu.

Í bréfi frá Terra sem er lagt fram á fundinum fullvissar fyrirtækið sveitarfélögin um að afsetning á blönduðum úrgangi frá Bláskógabyggð verði á næsta ári í ásættanlegum farvegi og eftir fremsta megni verði leitast við að finna farveg fyrir blandaðan úrgang innanlands.

Terra leggur jafnframt ríka áherslu á að reynt verði eins og nokkur er kostur að auka flokkun í sveitarfélaginu við upprunastað enda sé það langbest frá umhverfislegu og fjárhagslegu sjónarmiði.
Sveitarstjórn samþykkir að ekki verði gerðar breytingar á afsetningu sorps frá því sem nú er og að Terra verði áfram sá aðili sem tryggi að slíkt sé gert með ásættanlegum hætti.

16. Samningur um útflutning á sorpi – 1911037
Boð Íslenska gámafélagsins hf um gerð samnings um útflutning á úrgangi þar sem ekki verður tekið við óendurvinnanlegum úrgangi frá Suðurlandi í Fíflholtum og Stekkjarvík frá og með næstu áramótum. Áður á dagskrá á 246. fundi.
Sveitarstjórn þakkar Íslenska gámafélaginu fyrir erindið, ákveðið hefur verið að halda áfram samstarfi við Terra hf um afsetningu úrgangs frá Bláskógabyggð.
17. Lántökur vegna Byggðasafns Árnesinga 2020 – 1912008
Erindi safnstjóra Byggðasafns Árnesinga, dags. 2. desember 2019, vegna fyrirhugaðrar lántöku.
Ákvörðun sveitarstjórnar um að veita stofnun/félagi sem sveitarfélagið á í samvinnu við önnur sveitarfélög, einfalda ábyrgð vegna lántöku þess hjá Lánasjóði sveitarfélaga og hún tryggð með tekjum sveitarfélagsins:

Bláskógabyggð samþykkir hér með að veita einfalda ábyrgð á sínum hluta vegna lántöku stofnunar Héraðsnefndar Árnesinga, Byggðasafni Árnesinga hjá Lánasjóði sveitarfélaga að upphæð 120.000.000 kr. til allt að 15 ára.
Er ábyrgð þessi veitt sbr. heimild í 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og er hún óskipt (in solidum) gagnvart kröfuhafa, en innbyrðis skiptist hún í hlutfalli við eignarhluti í Byggðasafni Árnesinga.
Bláskógabyggð veitir lánasjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar þeirri ábyrgð, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til allra greiðslna sem og hvers kyns kostnaðar sem hlýst af vanskilum. Er lánið tekið til að ljúka framkvæmdum á fasteigninni Búðarstígur 22 sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Byggðasafns Árnesinga til að breyta ekki ákvæði samþykkta stofnunar sem leggur hömlur á eignarhald að félaginu að því leyti að félagið megi ekki fara að neinu leyti til einkaaðila.
Fari svo að Bláskógabyggð selji eignarhlut í Byggðasafni Árnesinga til annarra opinberra aðila, skuldbindur Bláskógabyggð sig til að sjá til þess að jafnframt yfirtaki nýr eigandi á sig ábyrgð á láninu að sínum hluta.
Jafnframt er Ástu Stefánsdóttur, kt. 251070-3189, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að staðfesta f.h. Bláskógabyggðar veitingu ofangreindrar ábyrgðar með áritun á lánssamninginn.

18. Beiðni um vilyrði fyrir lóð við Einbúa, Krikinn þjóðmenningarsetur – 1810008
Beiðni Þórarins Þórarinssonar, dags. 6 desember 2019, um framlengingu á vilyrði fyrir lóð við Einbúa.
Sveitarstjórn samþykkir framlengingu á vilyrði fyrir lóðinni til sex mánaða, eða til loka maí 2020.
19. Samningur um afnot af landi fyrir óvirkan úrgang – 1911057
Samningur, dags 20.11.19, við Eyvindartungu ehf um land til að urða óvirkan úrgang, til staðfestingar.
Sveitarstjórn samþykkir samninginn.
20. Beiðni um samning eða samstarfsyfirlýsingu vegna verndunar hraunhella – 1802018
Erindi Hellarannsóknafélags Íslands, beiðni um samstarfssamning, áður á dagskrá á 226. fundi
Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi samning og felur oddvita að undirrita hann.
21. Verðkönnun vegna trygginga sveitarfélagsins 2019 – 1910036
Niðurstöður verðkönnunar vegna trygginga fyrir Bláskógabyggð.
Lagt var fram yfirlit yfir niðurstöðu verðkönnunar vegna trygginga fyrir sveitarfélagið.
Sveitarstjórn samþykkir að taka tilboði Sjóvár í tryggingar og felur sveitarstjóra að undirrita samning við tryggingafélagið.
22. Skáknámskeið á landsbyggðinni – 1912011
Erindi Birkis Karls Sigurðssonar, dags. 24. nóvember 2019, þar sem kynnt eru skáknámskeið fyrir ungmenni og fullorðna.
Sveitarstjórn vísar erindinu til ungmennaráðs til umsagnar.
23. Samþykktir um stjórn Bláskógabyggðar – 1912015
Samþykktir um stjórn Bláskógabyggðar, breytingar á nefndaskipan, fyrri umræða
Samþykkt að vísa tillögu um breytingar á samþykktum til síðari umræðu.
24. Styrkbeiðni Aflsins – 1912003
Styrkbeiðni Aflsins, dags. 9. desember 2019.
Sveitarstjórn hafnar erindinu.
25. Gjaldskrá hitaveitu 2020 – 1911051
Gjaldskrá hitaveitu 2020 síðari umræða
Sveitarstjórn samþykkir framlagða gjaldskrá.
26. Gjaldskrá vatnsveitu 2020 – 1911050
Gjaldskrá vatnsveitu 2020 síðari umræða
Sveitarstjórn samþykkir framlagða gjaldskrá.
27. Gjaldskrá íþróttamannvirkja 2020 – 1911053
Gjaldskrá íþróttamannvirkja 2020
Sveitarstjórn samþykkir að gjaldskrá íþróttamannvirkja verði óbreytt á milli áranna 2019 og 2020.
28. Gjaldskrá Aratungu og Bergholts – 1911056
Gjaldskrá Aratungu og Bergholts 2020, síðari umræða
Afgreiðslu frestað til næsta fundar.
29. Gjaldskrá fráveitu 2020 – 1911049
Gjaldskrá fráveitu 2020 síðari umræða
Sveitarstjórn samþykkir framlagða gjaldskrá.
30. Gjaldskrá sorphirðu 2020 – 1911055
Gjaldskrá sorphirðu fyrir árið 2020, síðari umræða
Óttar Bragi Þráinsson lagði til að ekki verði innheimt sorphirðu og sorpeyðingargjald fyrir brúnu tunnuna í þeim tilvikum sem fólk nýtir hana ekki, hann leggur jafnframt til að hvatt verði til að fara í átak til moltugerðar.

Tillagan var borin undir atkvæði og greiddu ÓBÞ og EMS atkvæði með tillögunni, en á móti HK, RAP, GSM, AG og VS.

Framlögð gjaldskrá var borin undir atkvæði og samþykkt með 6 atkvæðum, ÓBÞ greiddi atkvæði gegn tillögunni og óskaði eftir að gera grein fyrir atkvæði sínu: Ég er samþykkur gjaldskránni að öðru leyti en því að ég er andvígur gjaldtöku fyrir brúnu tunnuna.

31. Gjaldskrá mötuneytis 2020 – 1911054
Gjaldskrá mötuneytis fyrir árið 2020, síðari umræða
Sveitarstjórn samþykkir framlagða gjaldskrá. Áfram verði gjaldfrjálst í mötuneyti fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri.
32. Gjaldskrá leikskóla 2020 – 1911052
Gjaldskrá leikskóla 2020, síðari umræða
Sveitarstjórn samþykkir framlagða gjaldskrá.
33. Fjárhagsáætlun 2020 og 3ja ára áætlun 2021-2023 – 1910029
Fjárhagsáætlun 2020 og þriggja ára áætlun 2021-2023, síðari umræða
Fjárhagsáætlun 2020 – 2023 fyrir sveitarfélagið Bláskógabyggð lögð fram til lokaumræðu og afgreiðslu.
Sveitarstjóri gerði grein fyrir fjárhagsáætluninni og skýrði ýmsa liði.
Helstu forsendur fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020 eru eftirfarandi:
1. Útsvar:
Útsvar fyrir árið 2020 verði 14,52%.

2. Verðlag:
Gert er ráð fyrir 2,6% verðbólgu skv. þjóðhagsspá frá því í nóvember.

3. Aðrar forsendur:
Gert er ráð fyrir 1% fjölgun íbúa.

4. Fasteignagjöld:
Álögð fasteignagjöld 2020 verða sem hér segir:
i) Fasteignaskattur:
A-liður Fasteignaskattur íbúðarhúsnæðis eins og það er skilgreint í a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 verður 0,5% af heildarfasteignamati.
B-liður Fasteignaskattur af opinberum byggingum eins og þær eru skilgreindar í b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 verður 1,32% af heildarfasteignamati.
C-liður Fasteignaskattur atvinnuhúsnæðis og annarra eigna eins og þær eru skilgreindar í c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 verður 1,50% af heildarfasteignamati.
Afsláttur sem er veittur tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum sem eiga lögheimili í viðkomandi fasteign fer eftir samþykkt um tekjuviðmið sem samþykkt var í sveitarstjórn Bláskógabyggðar þann 7. apríl 2011.

ii) Vatnsgjald:
Vatnsgjald verður 0,3% af heildarfasteignamati eigna sem tengst geta vatnsveitu sveitarfélagsins. Hámarksálagning verður 55.811 á sumarhús og íbúðarhús. Lágmarksálagning verður 16.743.

iii) Gjaldskrá fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Bláskógabyggð:

Fráveitugjald verði 0,25% af heildarfasteignamati eigna sem tengjast fráveitukerfum sveitarfélagsins.
Sveitarfélagið innheimtir árlega rotþróargjald til niðurjöfnunar á kostnaði við tæmingu rotþróa, skv. 18. gr. samþykktar um fráveitur og rotþrær í Bláskógabyggð.
Árlegt rotþróargjald þar sem tæming á sér stað þriðja hvert ár skal vera eftirfarandi:
Rotþró 0 -6000 lítra kr. 10.630.
Rotþró 6001 lítra og stærri kr. 2.363 pr./m3
Árlegt rotþróargjald þar sem tæming á sér stað annað hvert ár skal vera eftirfarandi:
Rotþró 0 -6000 lítra kr. 15.940
Rotþró 6001 lítra og stærri kr. 3.545 pr./m3
Árlegt rotþróargjald þar sem tæming á sér stað á hverju ári skal vera eftirfarandi:
Rotþró 0 -6000 lítra kr. 31.890.
Rotþró 6001 lítra og stærri kr. 7.092 pr./m3
Fyrir aukalosun, að beiðni eiganda, skal innheimta gjald kr. 39.500 fyrir hverja losun af rotþró 0 ?6000 lítra. Fyrir aukalosun, að beiðni eiganda, skal innheimta gjald kr. 7.092 fyrir hvern rúmmetra, ef rotþró er 6001 lítra eða stærri. Að auki skal greiða kr. 512 fyrir ekinn kílómetra fyrir aukalosun.
Grunnvísitala gjaldskrárinnar er byggingarvísitala (grunnur 2010) í október 2019, 146,3 stig.
Afsláttur sem er veittur tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum sem eiga lögheimili í viðkomandi fasteign fer eftir samþykkt um tekjuviðmið sem samþykkt var í sveitarstjórn Bláskógabyggðar þann 7. apríl 2011.

iv) Lóðarleiga:
Lóðarleiga verði 1% af fasteignamati lóða.

v) Gjaldskrá vegna meðhöndlunar úrgangs 2019:

Sorphirðugjald fyrir grunneiningu íláta

Ílátastærð
240 l ílát 40.959 kr.
660 l ílát 122.248 kr.

240 l ílát, stækkun 1 44.678 kr. (stækkun á brún/blá/græntunnu)
240 l ílát, stækkun 2 60.885 kr. (stækkun á grátunnu)
240 l lílát, stækkun 3 44.678 kr. (stækkun á tveimur tunnum af brún/blá/græntunnum)

Grátunna: söfnun á 21 dags fresti.
Brúntunna: söfnun á 21 dags fresti.
Blátunna: söfnun á 42 daga fresti.
Græntunna: söfnun á 42 daga fresti.

Sorpeyðingargjald vegna heimilisúrgangs:
Íbúðarhúsnæði 24.150 kr.
Frístundahúsnæði 20.369 kr.
Lögbýli 13.600 kr.
Fyrirtæki 50.327 kr.

Allir fasteignaeigendur sem greiða sorpeyðingargjald fyrir íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði fá afhent klippikort sem veitir þeim gjaldfrjálsan aðgang að gámastöð í 12 skipti á ári, fyrir samtals 4,5 m³.
Allir fasteignaeigendur sem greiða sorpeyðingargjald fyrir lögbýli fá afhent klippikort sem veitir þeim gjaldfrjálsan aðgang að gámastöð í 12 skipti á ári, fyrir samtals 9 m³.
Allir fasteignaeigendur sem greiða sorpeyðingargjald fyrir fyrirtæki fá afhent klippikort sem veitir þeim gjaldfrjálsan aðgang að gámastöð í 12 skipti á ári, fyrir samtals 9 m³.

Umframmagn er gjaldskylt á móttökustöð, miðast við m³ þess úrgagnsmangs sem afsett er. Allur úrgangur er gjaldskyldur við afsetningu nema brotamálmar og úrgangur sem ber úrvinnslugjald Úrvinnslusjóðs.

Fyrirtæki, lögbýli eða frístundahúsafélög sem afsetja rekstrarúrgang á móttökustöðvum eða nýta þjónustu verktaka vegna hirðingar og eyðingar úrgangs vegna atvinnureksturs skulu greiða móttökugjald á móttökustöð eða verktaka fyrir þá þjónustu. Gjaldtaka á móttökustöð eða gjaldtaka þjónustuverktaka er ekki hluti af gjaldi sveitarfélagsins skv. 2. og 3. gr gjaldskrár þessarar.

Gjaldtaka á móttökustöð miðast við m3 þess úrgangsmagns sem afsett er. Allur úrgangur er gjaldskyldur við afsetningu nema brotamálmar og úrgangur sem ber úrvinnslugjald Úrvinnslusjóðs.

Móttökugjald á einn m³ af flokkuðum eða óflokkuðum úrgangi 5.500 kr.

Gjalddagar fasteignagjalda verði 6 talsins, innheimt mánaðarlega frá 1. febrúar 2020. Eindagar eru 30 dögum eftir gjalddaga.

5. Gjaldskrár aðrar:
a) Gjaldskrá leikskóla Bláskógabyggðar hækkar um 2,5% frá og með janúar 2020.
b) Gjaldskrá mötuneytisins í Aratungu, hækkar um2,5% á mat til starfsmanna, eldri borgara og kostgangara.
2020: Gjald til starfsmanna verði 675 kr. Gjald til kostgangara verði 2.119 með 11% vsk.
2020: 10 miða kort starfsmanna verði 6.750 kr. 10 miða kort kostgangara verði 21.190 með 11% vsk.
Frítt verður fyrir börn á leik- og grunnskólum sveitarfélagsins.
c) Gjaldskrá íþróttamannvirkja verður óbreytt á milli áranna 2019 og 2020.
d) Gjaldskrá Bláskógaveitu (hitaveitu) notkunargjöld hækka um 2,5%.

Lögð var fram eftirfarandi greinargerð með fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 og þriggja ára áætlun 2021-2023:

Greinargerð með fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 og þriggja ára áætlun 2021-2023
Fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar fyrir árið 2020 er lögð fram til síðari umræðu í sveitarstjórn fimmtudaginn 12. desember 2019.
Grunnur fjárhagsáætlunar 2020-2023 byggir á áætlun 2019 með viðaukum og útkomuspá.
Almenna reglan er að tölulegur hluti fjárhagsáætlunar ræður ef misræmi kann að vera á milli texta í greinargerð og tölulega hlutans.
I Fjárhagsáætlun 2020
Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2020, eins og hún er lögð fram til síðari umræðu í sveitarstjórn, er áætlað að rekstrarafgangur verði 93,6 millj.kr. eftir fjármagnsgjöld, afskriftir og skatta.
Líkt og var í lok síðasta árs er enn nokkur óvissa um þróun launaliðar á næsta rekstrarári, en ekki hefur tekist að ljúka gerð kjarasamninga við marga hópa starfsmanna sveitarfélaga. Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir fjármagni til að mæta kjarasamningshækkunum, a.m.k. að hluta.
Í fjárhagsáætluninni er fylgt áætlun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um þróun greiðslna úr Jöfnunarsjóði og horft til áætlunar Sambands íslenskra sveitarfélaga um þróun útsvarstekna. Hvað útsvarið varðar er gert ráð fyrir 3,5% hækkun frá áætlun ársins 2019.
Rekstrarútgjöld hækka milli ára vegna áhrifa af kjarasamningsbundnum launahækkunum, fjölgunar stöðugilda og vegna hækkana á ýmsum liðum sem snúa að vöru- og þjónustukaupum. Rekstrarafgangur fyrir fjármagnsgjöld og skatta er áætlaður 141,8 millj.kr. og veltufé verði 139,7 millj.kr. eða 11,7% af heildartekjum.
Rekstur einstakra málaflokka verður með sambærilegu sniði á árinu 2020 og verið hefur á árinu 2019. Í byrjun nýs árs verða áætlanir um rekstur grunnskólanna á Laugarvatni og í Reykholti teknar til endurskoðunar í ljósi þeirrar ákvörðunar sveitarstjórnar að breyta fyrirkomulagi kennslu á unglingastigi frá og með næsta skólaári. Skólanefnd og skólastjórnendur munu greina áhrif breytinganna á rekstur hvors skóla um sig. Nýtt húsnæði leikskólans Álfaborgar var tekið í notkun í október sl og fylgir því nokkur kostnaður, umfram þann kostnað sem áður var við rekstur leikskólans, svo sem vegna innri leigu til eignasjóðs og annars rekstrarkostnaðar húsnæðisins. Þá er starfemi skólans rekin í þremur deildum, í stað tveggja áður og börnum hefur fjölgað nokkuð. Á móti kemur að greiðslur til nágrannasveitarfélaga vegna leikskólavistar barna með lögheimili í Bláskógabyggð falla niður.
Á árinu 2019 var ákveðið að auka mönnun í íþróttamannvirkjum í Reykholti, til að uppfylla kröfur eftirlitsaðila, auk þess sem aukið var við opnunartíma. Nokkur aukning er því á rekstrarkostnaði á milli ára. Stöðugildum fjölgar nokkuð í byggðasamlögum og samstarfsverkefnum sem Bláskógabyggð er aðili að, og er tekið tillit til þess í áætluninni.
Mikil áhersla er á uppbyggingu og viðhald grunninnviða og áætlað að verja talsverðu fjármagni til hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu. Áfram verður unnið að uppsetningu fjarálestrarmæla og innmælingu lagna á vegum Bláskógaveitu.
Á árinu 2020 verður lokið við endurskoðun deiliskipulags Laugarvatns og gert ráð fyrir að áfram verði unnið við að deiliskipuleggja lóðir fyrir afréttarhús í eigu sveitarfélagsins, þannig að unnt verði að ljúka samningagerð við ríkið um þær eignir sem liggja innan þjóðlendna.
Fjárfestingar eru áætlaðar fyrir um 292,5 millj.kr. nettó á næsta ári. Er það nokkuð lægri fjárhæð en á síðasta ári, enda var þar ráðist í stærstu einstöku framkvæmd sem sveitarfélagið hefur ráðist í um árabil, sem var bygging leikskólans Álfaborgar. Á árinu 2020 verður stórum hluta framkvæmdafjár varið til lagningar ljósleiðara, eða um 140 millj.kr., en framkvæmdir við það verkefni eru um það bil að hefjast. Þá er gert ráð fyrir að áfram verði umtalsverðum fjármunum varið til viðhalds fasteigna sveitarfélagsins, á það m.a. við um grunnskóla og íþróttamannvirki. Áhersla verður lögð á að byggja upp leikskvæði við grunnskólana á Laugarvatni og í Reykholti og leikvöll í Laugarási.
Gert er ráð fyrir framlagi Bláskógabyggðar til að ljúka framkvæmdum við byggingu húsnæðis yfir þau tæki sem sveitarfélögin eiga til verkunar seyru á Flúðum. Haldið verður áfram lokafrágangi gatna og göngustíga í þéttbýliskjörnum sveitarfélagsins og er áætlað að verja 20 millj.kr. til gatnagerðar og 10 millj.kr. til frágangs göngustíga, auk þess sem áætlað er að byrja framkvæmdir við gatnagerð við Brekkuholt í Reykholti, en hönnunarvinnu við það verkefni lýkur í byrjun ársins. Innan eignasjóðs er áætlað að festa kaup á bifreið fyrir áhaldahús og vinna áfram að viðhaldi Hverabrautar 6-8 sem hýsir ungmennabúðir UMFÍ. Gert er ráð fyrir fjármagni til hönnunarvinnu vegna endurbóta á sundlauginni í Reykholti og útisvæði við hana, svo og til að meta möguleika á að byggja ofan á hluta íþróttahússins á Laugarvatni.
Á sviði fráveitumála er áætlað að veita 4 millj.kr. til hönnunar hreinsistöðvar og lagningar fráveitu í nýja götu í Reykholti. Lengi hefur verið þrýst á að ríkið komi að framkvæmdum sveitarfélaga í fráveitumálum, t.d. með því að endurgreiða virðisaukaskatt af slíkum framkvæmdum og virðist loks sem skriður sé að komast á þau mál, sem getur gert það að verkum að unnt verði að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir í fráveitu á næstu árum. Innan Bláskógaveitu eru áætlaðar fjárfestingar fyrir 27 millj.kr. Vatnsveita Bláskógabyggðar er með áætlaða fjárfestingu fyrir 18 millj.kr.
Gert er ráð fyrir lántökum vegna lagningar ljósleiðara og annarra framkvæmda. Áætlað er að greidd verði niður lán að fjárhæð 89,8 millj.kr. en tekin ný lán að fjárhæð 240 millj.kr. Þá er gert ráð fyrir að nýfjárfesting verði fyrir 292 millj.kr. Áætlað er að skuldaviðmið skv. sveitarstjórnarlögum verði áfram langt undir lögboðnu hámarki, sem er 150%, en skv. áætluninni mun það vera um 51,4% í lok ársins 2020. Hækkar það nokkuð á milli ára þar sem sveitarfélagið hefur þurft að ráðast í lántökur vegna brýnna framkvæmda.
Gjaldskrár vegna þjónustugjalda hækka almennt um 2,5%. Gjaldskrá vegna sorphirðu hækkar þó meira, enda hefur orðið breyting á fyrirkomulagi sorphirðu og möguleikum til afsetningar sorps og eykst kostnaður við þann málaflokk talsvert á milli ára. Sorphirðugjöldum og gjöldum skv. gjaldskrá fyrir gámasvæði er ætlað að standa undir kostnaði við sorphirðu og rekstur gámasvæðis. Talsverð aukning hefur verið á sorpmagni og hækka því urðunargjöld, þrátt fyrir aukna flokkun. Íbúar eru hvattir til að minnka sorpmagn sem kostur er, og flokka úrgang eins og sorphirðukerfi sveitarfélagsins gerir ráð fyrir. Tekin verður upp gjaldheimta á gámasvæðum sveitarfélagsins og munu allir greiðendur sorpeyðingargjalds, sem er hluti fasteignagjalda, fá sent svokallað klippikort sem veitir þeim ákveðna inneign á gámasvæðum.
Álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði er óbreytt á milli ára, 0,5%. Álagningarhlutfall fasteignaskatts atvinnuhúsnæðis hækkar úr 1,42% af fasteignamati í 1,50%. Álagningarhlutfall fráveitugjalds er óbreytt, 0,25% og vatnsgjalds 0,3%, en hámarksgjald vatnsgjalds verður 55.811 á sumarhús og íbúðarhús og lágmarksgjald verður 16.743. Gjald fyrir hreinsun rotþróa hækkar um 2,5%.
Brýnt er að sýna stöðugt aðhald í rekstri til að kostnaður við rekstur málaflokka sé í sem bestu samræmi við þær tekjur sem sveitarfélagið hefur.
II Nokkrar lykiltölur
Rekstur :
Fjárhagsáætlun sem nú liggur fyrir til fyrri umræðu gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðunnar án afskrifta og fjármagnsliða sé jákvæð um 141,8 millj.kr. Afskriftir eru áætlaðar 78,4 millj.kr., fjármagnskostnaður nettó er áætlaður 54 millj.kr. Tekjuskattur vegna Bláskógaveitu reiknast 4,3 millj.kr. Heildarniðurstaða samstæðunnar er því jákvæð um 93,6 millj.kr.
Áætlunin gerir ráð fyrir að samanlagðar tekjur A og B hluta verði 1.699,5 millj.kr. á árinu 2020. Hlutur skatttekna (útsvar, fasteignagjöld og Jöfnunarsjóður) í samanlögðum tekjum í A hluta er 1.266,5 millj.kr. eða 74,5%.
Samkvæmt áætluninni þá verða skatttekjur (útsvar, Jöfnunarsjóður og fasteignaskattur) á íbúa 1.067 þús.kr. og heildareignir á íbúa verða 2.205 þús.kr.
Heildarlaunakostnaður er áætlaður 661,2 millj.kr. sem er 38,9% af heildartekjum og 52,2% af skatttekjum. Annar rekstrarkostnaður er áætlaður 817,9 millj.kr.
Fjárfestingar :
Nettófjárfestingar ársins eru áætlaðar 292 millj.kr. Afborganir lána eru áætlaðar 89,8 millj.kr. og nýjar lántökur eru áætlaðar 240 millj.kr. Í töflunni hér að neðan má sjá skiptingu helstu framkvæmda (nettó) á málaflokka:
Eignasjóður 103 millj.kr.
Fráveita 4 millj.kr.
Bláskógaveita 27 millj.kr.
Vatnsveita 18 millj.kr.
Fjarskiptafélag (ljósleiðari) 140 millj.kr.
Samtals fjárfesting nettó 292 millj.kr.

Á móti framkvæmdum í umferðar- og samgöngumálum koma gatnagerðargjöld og tengigjöld veitna sem dragast frá í fjárfestingaráætlun.
III 3ja ára fjárhagsáætlun fyrir árin 2021 – 2023
Þriggja ára áætlun er ekki staðfest fjárhagsáætlun fyrir árin 2021-2023 heldur yfirlit yfir það sem er á dagskrá þessi ár. Við fjárhagsáætlanagerð hvers árs fer fram nánari útfærsla á þriggja ára áætlun miðað við þær forsendur sem þá liggja fyrir og því geta fjárhæðir og framkvæmdahraði vegna einstakra verkefna breyst frá því sem fram kemur í þriggja ára áætlun hverju sinni. Þriggja ára áætlun er gerð á föstu verðlagi hvað varðar tekjur og gjöld.
Almenna reglan er að tölulegur hluti fjárhagsáætlunar ræður ef misræmi kann að vera á milli texta í greinargerð og tölulega hlutans.

Stefnumörkun
Til grundvallar þeirri þriggja ára áætlun sem hér er lögð fram liggur fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 en jafnframt er byggt á þriggja ára áætlun 2020-2023. Ekki er gert ráð fyrir breytingum í rekstri málaflokka.

Fjárfestingar eru áætlaðar fyrir um 600 millj.kr. samtals á tímabilinu 2021-2023 og eru fjölbreytt verkefni sem falla þar undir. Áhersla er áfram lögð á að byggja upp innviði samfélagsins og að grunnkerfi þau sem sveitarfélagið rekur, s.s. gatnakerfi og veitur geti annað því álagi sem á þeim er.

Helstu forsendur áætlunar 2021 – 2023
Til að unnt sé að setja fram áætlunina hafa ákveðnar forsendur verið lagðar til grundvallar. Þriggja ára áætlun er byggð á áætlun ársins 2020 og er gerð á föstu verðlagi.

Skatttekjur
Áætlun skatttekna er byggð á áætlun ársins 2020.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga
Áætlun á framlögum Jöfnunarsjóðs er byggð á áætlun ársins 2020.

Fasteignaskattur
Gert er ráð fyrir óbreyttum tekjum af fasteignaskatti frá árinu 2020 árin 2021- 2023.

Þjónustutekjur
Ekki er gert ráð fyrir hækkun á gjaldskrám vegna þjónustu sveitarfélagsins í áætluninni.

Laun
Áætlun launa og launatengdra gjalda er byggð á launaáætlun árisins 2020.

Rekstrarkostnaður
Áætlun rekstrarkostnaðar er byggð á áætlun ársins 2020.

Helstu niðurstöður áætlunar 2020 – 2023
Helstu kennitölur áætlunarinnar fyrir samstæðureikning (í þús. króna):
Samstæða (A- og B-hluti) 2020 2021 2022 2023
Rekstrarreikningur
Tekjur 1.699.508 1.719.993 1.720.137 1.720.285
Gjöld 1.557.615 1.560.893 1.571.055 1.576.339
Niðurstaða án fjármagnsliða 141.893 159.010 149.082 105.348

Fjármunatekjur og (fjármagnsgjöld) (43.989) (49.894) (47.031) (44.484)

Rekstrarniðurstaða 93.597 104.900 97.744 95.155

Efnahagsreikningur 2020 2021 2022 2023

Eignir
Fastafjármunir 2.126.809 2.316.376 2.403.797 2.448.450
Veltufjármunir 292.867 293.756 318.183 333.616

Eignir samtals 2.642.114 2.827.114 2.934.042 2.989.507

31. desember 2020 2021 2022 2023

Eigið fé og skuldir
Eigið fé 1..355.685 1.460.585 1.558.328 1.653.483
Langtímaskuldir 993.103 1.060.603 1.061.042 1.015.491
Skammtímaskuldir 293.326 305.926 314.671 320.532
Skuldir og skuldbindingar samtals 1.286.429 1.366.528 1.375.713 1.336.023

Eigið fé og skuldir samtals 2.642.114 2.827.113 2.934.042 2.989.507
Gert er ráð fyrir nettó fjárfestingu í þúsundum króna, sem hér segir:
2020 2021 2022 2023
Eignasjóður 103.050 149.500 76.000 40.000
Fráveita 4.000 40.000 40.000 40.000
Bláskógaveita 27.000 30.000 10.000 10.000
Vatnsveita 18.000 60.000 60.000 60.000
Fjarskiptafélag 140.000 0 0 0
Samtals fjárfesting nettó 292.050 279.500 186.000 150.000

Fjármagnsliðir
Fjármagnsliðir eru reiknaðir miðað við þau vaxtakjör sem sveitarfélagið býr við.

Fjárfestingar
Gert er ráð fyrir fjárfestingum fyrir 279.500 millj.kr. árið 2021, 186 millj.kr. árið 2022 og 150 millj.kr. árið 2023.

Lántökur
Ný langtímalán á árunum 2021-2023 eru áætluð 260 millj.kr. og niðurgreiðslur eldri lána eru áætlaðar á sama tímabili 298,9 millj.kr.

IV Lokaorð
Í fjárfestingarhluta þriggja ára ætlunar er leitast við að forgangsraða verkefnum og dreifa þeim með það að markmiði að halda skuldsetningu sveitarfélagsins sem minnstri og þar með að lágmarka fjármagnskostnað. Sá hluti áætlunarinnar sem snýr að rekstri byggir á því að ekki verði miklar breytingar á rekstri málaflokka milli ára. Nánari útfærsla áætlunar fyrir hvert ár fyrir sig er unnin í fjárhagsáætlun hverju sinni. Forsendur á borð við verðlagsþróun, íbúafjölgun, þróun tekna og útgjalda geta því haft áhrif á áætlun hvers árs fyrir sig.
Tekjur sveitarfélagsins hafa vaxið heldur síðustu ár. Íbúum í Bláskógabyggð hefur fjölgað jafnt og þétt og fasteignum fjölgað. Nokkuð hefur borið á skorti á íbúðarhúsnæði, bæði fyrir fólk sem vill koma til starfa hjá sveitarfélaginu, og hjá öðrum aðilum, en um þessar mundir eru talsvert margar íbúðir í byggingu. Þá er ætlunin að hefja framkvæmdir við nýja götu, þannig að nokkrar lóðir verði byggingarhæfar. Hönnun nýrrar götu á grundveli nýlegs deiliskipulags í Reykholti er að ljúka og að lokinni vinnu við deiliskipulag á Laugarvatni verður metið hvar best sé að byrja á gatnagerð skv. því deiliskipulagi. Sveitarfélagið mun því geta aukið framboð byggingarlóða á næstu misserum. Mikil uppbygging hefur verið í ferðaþjónustu innan Bláskógabyggðar síðustu misseri, auk þess sem framkvæmdum við virkjun við Brú er við það að ljúka. Atvinnuleysi mælist lítið innan Bláskógabyggðar, 1,58%, en er að meðaltali 3,4% á landsbyggðinni. Rétt er þó að hafa í huga að hlutfall starfa innan ferðaþjónustunnar og tengdra þjónustustarfa er hátt í sveitarfélaginu, og geta sveiflur í fjölda ferðamanna haft nokkur áhrif á þennan þátt, svo og á útsvarstekjur sveitarfélagsins.
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 hefur verið unnin í góðri samvinnu sveitarstjórnarfulltrúa og stjórnenda. Ber að þakka það óeigingjarna starf sem hér hefur verið unnið.

Umræða varð um tillögu að fjárhagsáætlun. Oddviti bar upp fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar 2020 til 2023 til samþykktar. Tillagan var samþykkt samhljóða og sveitarstjóra falið að annast skil á áætluninni til viðkomandi aðila.

34. Lántökur 2020 – 1912014
Lántökur skv fjárhagsáætlun 2020
Ákvörðun um að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga sem tryggt er með veði í tekjum sveitarfélagsins:
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir hér með á sveitarstjórnarfundi að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 240.000.000, með lokagjalddaga þann 5.apríl 2034, í samræmi við þau lánskjör þegar lánið er tekið.
Sveitarstjórnin samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól, auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Er lánið tekið til að fjármagna lagningu ljósleiðara í sveitarfélaginu, gatnagerð, veituframkvæmdir og aðrar framkvæmda ársins, sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Jafnframt er Ástu Stefánsdóttur, sveitarstjóra, kt. 251070-3189, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Bláskógabyggðar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.
35. Frumvarp til nýrra fjarskiptalaga – 1912013
Tilkynning Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, dags. 10. desember 2019, um drög að frumvarpi til nýrra fjarskiptalaga sem eru til umsagnar til 6. janúar nk.
Lagt fram til kynningar.
36. Hagavatnsvirkjun – 1810032
Beiðni Skipulagsstofnunar dags. 19. nóvember 2019 um umsögn um tillögu að matsáætlun um Hagavatnsvirkjun. Áður á dagskrá á 246. fundi.
Sveitarstjórn lýsir yfir ánægju með það að Skipulagsstofnun hafi samþykkt að fyrirhuguð framkvæmd fari í fullt ferli mats á umhverfisáhrifum eins og um væri að ræða framkvæmd í flokki A. Af hálfu sveitarstjórnar er ekki gerð athugasemd við fyrirliggjandi tillögu að matsáætlun hvað varðar þá umhverfisþætti sem áætlað er að meta. Sveitarstjórn óskar þó eftir að kannað verði hvaða áhrif framkvæmdin kemur til með að hafa á grunnvatnsstöðu á svæðinu og hvaða áhrif sveifla á vatnsyfirborði um allt að 5 metra komi til með að hafa hvað varðar fok jarðvegsefna og svifryksmengun. Sveitarstjórn leggur sérstaka áherslu á að ítarlega verði kannað hver áhrif framkvæmdarinnar kunna að verða á jarðvegsfok og svifryksmengun frá svæðinu.
37. Kerfisáætlun Landsnets 2020-2029 – 1912010
Tilkynning frá Landsneti hf, dags. 22. nóvember 2019, varðandi kerfisáætlun 2020-2029. Umsagnarfrestur er til 23. desember 2019.
Lagt fram til kynningar.
38. Lög um tekjustofna sveitarfélaga – 1910019
Erindi Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, dags. 29. nóvember 2019,til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og sveitarstjórnarlögum (forsendur úthlutana úr Jöfnunarsjóði), 391. mál.

Umsagnarfrestur til 9. desember.

Lagt fram til kynningar.
39. Tillaga til þingsályktunar fimm ára samgönguáætlun 434. mál og samgönguáætlun fyrir árin 2020 – 2034, 435. mál – 1912016
Erindi Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, dags. 9. desember 2019,til umsagnar tillaga til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020 til 2024, 434. mál og tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2020 til 2034, 435. mál

Umsagnarfrestur er til 10. janúar n.k.

Sveitarstjórn fagnar því að í samgönguáætlun 2020 til 2024 skuli vera gert ráð fyrir fjármagni til að ljúka framkvæmdum við Reykjaveg og Skeiða- og Hrunamannaveg á milli Einholtsvegar og Biskupstungnabrautar árið 2020. Varðandi þann hluta áætlunarinnar sem varðar greiðar samgöngur, þar sem tilgreind eru markmið hvað varðar fækkun einbreiðra brúa á hringvegi, vill sveitarstjórn Bláskógabyggðar benda á að rík þörf er fyrir fækkun einbreiðra brúa á umferðarmiklum stofnvegum, t.d. er umferðarmesta einbreiða brú landsins á Biskupstungnabraut yfir Tungufljót á milli fjölsóttra ferðamannastaða að Gullfossi og Geysi. Þá er einnig nauðsynlegt að tryggja Vegagerðinni fjármagn til að viðhalda malarvegum á svæðinu, en á mörgum þeirra er mjög þung umferð allt árið um kring, sama gildir um viðhald vega sem lagðir eru bundnu slitlagi. Sveitarstjórn fer þess á leit að tryggt verði að lagt verði bundið slitlag á Einholtsveg um Eystri-Tungu, sem er mikilvæg samgönguæð innan sveitarfélagsins. Sveitarstjórn fagnar því að veita skuli fjármagni til gerðar hjólastíga utan höfuðborgarsvæðisins.
Á 2. tímabili samgönguáætlunar 2025-2029 er gert ráð fyrir fjármagni í færslu Biskupstungnabrautar á svæðinu við Geysi og Tungufljót. Nauðsynlegt er að sú áætlun haldist, en svæðið ber mjög illa þann umferðarþunga sem þar er í dag. Loks vill sveitarstjórn minna á að nauðsynlegt er að sveitarfélögin hafi aðkomu að ákvarðanatöku um hugsanleg veggjöld og útfærslu þeirra.
40. Frumvarp til laga um um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125 1999 (öldungaráð), 383. mál. – 1912018
Erindi Velferðarnefndar Alþingis, dags. 4. desember 2019, til umsagnar frumvarp til laga um um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999 (öldungaráð), 383. mál.

Umsagnarfrestur er til 13. janúar nk.

Lagt fram.
41. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 71998 436. mál – 1912017
Erindi Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, dags. 9. desember 2019, til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7 1998, með síðari breytingum (viðaukar). 436. mál

Umsagnarfrestur er til 10. janúar n.k

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar tekur undir bókun heilbrigðisnefndar Suðurlands um frumvarpið.
42. Rekstrarleyfisumsókn Gullfosskaffi (224 9760) – 1912020
Beiðni Sýslumannsins á Suðurlandi, dags. 12. nóvember 2019, um umsögn um rekstrarleyfisumsókn vegna sölu veitinga í flokki II, veitingahús að Gullfossi (Brattholti) fnr. 224-9760, Gullfosskaffi. Jákvæð umsögn byggingarfulltrúa liggur fyrir.
Sveitarstjórn veitir jákvæða umsögn um rekstrarleyfisumsóknina.
43. Ársfundur umhverfisstofnunar og náttúruverndarnefnda – 1911006
Erindi og samantekt umræðna frá ársfundi Umhverfisstofnunar, sem haldinn var 14. nóvember sl.
Lagt fram.
44. Leiðbeiningar um breytingar á samþykktum sveitarfélaga – 1912007
Leiðbeiningar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 2. desember 2019, varðandi breytingar á samþykktum sveitarfélaga vegna breytinga á lögum um mat á umhverfisáhrifum
Lagt fram.
45. Saga Fræðslunets Suðurlands – 1912006
Erindi Fræðslunets Suðurlands, dags. 3. desember 2019, tilkynning um að Saga Fræðslunets Suðurlands hafi verið gefin út í rafrænum búningi.
Lagt fram til kynningar.

 

 

 

Fundi slitið kl. 18:02.