257. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar

 

  1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn í Aratungu, Reykholti,

fimmtudaginn 7. maí 2020, kl. 15:15.

 

 

Fundinn sátu:

Helgi Kjartansson, Valgerður Sævarsdóttir, Óttar Bragi Þráinsson, Kolbeinn Sveinbjörnsson, Guðrún S. Magnúsdóttir, Eyrún Margrét Stefánsdóttir, Róbert Aron Pálmason, og Ásta Stefánsdóttir.

 

 

Fundargerð ritaði: Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri.

 

 

1. Fundargerð stjórnar Bláskógaveitu – 2001004
100. fundur stjórnar Bláskógaveitu
Fundargerðin var staðfest. Sveitarstjórn þakkar fráfarandi stjórn Bláskógaveitu fyrir vel unnin störf. Afar ánægjulegt er að á síðasta starfsári stjórnarinnar náðist sá áfangi að greiða upp langtímalán veitunnar við Lánasjóð sveitarfélaga og er Bláskógaveita því ekki í skuld við lánastofnanir.
2. Fundargerð skólanefndar – 2001003
11. fundur skólanefndar haldinn 28. apríl 2020
Fundargerðin staðfest.
3. Fundargerð skipulagsnefndar – 2001006
194. fundur skipulagsnefndar haldinn 29. apríl 2020. Afgreiða þarf sérstaklega mál nr. 3 til 10.
-liður 3, Stakksárhlíð 1 L217504, 2 L217505, 7 L217510 og 8 L217511; Stækkun útihúss á lóðum; Deiliskipulagsbreyting – 2004035
Lögð er fram umsókn Egils Geirssonar þar sem óskað er eftir breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar við Stakksárhlíð sem staðsett er í Múla í Biskupstungum, Bláskógabyggð. Í breytingunni felst að byggingarheimild fyrir útihús er stækkuð úr 25 m2 í 40 m2. Samkvæmt umsókn tekur breytingin til lóða Stakksárhlíðar 1, 2, 7 og 8.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við breytingu á deiliskipulagi og samþykkir að erindið fái málsmeðferð í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og verði grenndarkynnt lóðarhöfum innan deiliskipulagssvæðisins. Jafnframt mælist sveitarstjórn til þess að breytingin verði almenn og nái til deiliskipulagsins í heild fremur en til stakra lóða.

-liður 4, Hrísbraut 2 L218845; Breytt byggingarmagn lóða 4 og 5; Fyrirspurn – 1910011
Lögð er fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi Drumboddsstaða 1, frístundabyggð í Bláskógabyggð. Í breytingunni felst að byggingarreitum er fækkað úr þremur í tvo. Heildar byggingarmagn lóðar eykst við breytinguna þar sem í gildandi deiliskipulagi er heimilt að byggja 80 m2 innan hvers byggingarreits, alls 240 m2. Við breytingu er gert ráð fyrir að heimild verði fyrir 172,6 m2 frístundahúsi á reit 1 auk 40 m2 bílskúr/gestahúsi og á reit 2 verði gert ráð fyrir frístundahúsi allt að 210 m2 og 40 m2 bílskúr/gestahúsi. Heildar byggingarheimildir innar lóðarinnar að breytingu lokinni verði því 462,6 m2 og nýtingarhlutfall 0,03.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hafnar framlagðri breytingu á deiliskipulagi þar sem í henni felst umtalsverð aukning á byggingarheimildum á stakri lóð innan deiliskipulagsins umfram núverandi byggingarheimildir. Mælst er til þess að unnið verði nýtt deiliskipulag fyrir svæðið í heild sinni.

-liður 5, Syðri-Reykir lóð 31A (L167467); umsókn um byggingarleyfi; sumarbústaður – viðbygging – 2004001
Fyrir liggur umsókn Guðna Sigurbjörns Sigurðssonar fyrir hönd Iðinn ehf., móttekin 31.03.2020, um byggingarleyfi til að byggja við 35,1 m2 sumarhús á sumarhúsalóðinni Syðri-Reykir lóð 31A (L167467) í Bláskógabyggð. Heildarstærð á sumarhúsi eftir stækkun verður 80,9 m2.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemdir við útgáfu byggingarleyfis fyrir viðbyggingu við sumarhús að undangenginni grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

-liður 6, Syðri-Reykir lóð (L167465); umsókn um byggingarleyfi; sumarbústaður – viðbygging – 2004028
Fyrir liggur umsókn Aðalsteins Snorrasonar fyrir hönd Páls Gunnars Pálssonar, móttekin 16.04.2020, um byggingarleyfi til að byggja við 52,3 m2 sumarhús á sumarhúsalóðinni Syðri-Reykir lóð (L167465) í Bláskógabyggð. Heildarstærð á sumarhúsi eftir stækkun verður 122,1 m2.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að gefið verði út byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu í samræmi við 44. gr. skipulagslaga.

-liður 7, Suðurhlið Langjökuls; Íshellar; Aðalskipulagsbreyting – 2004046
Lögð er fram skipulags- og matslýsing vegna breytinga á aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027 og tveggja deiliskipulaga fyrir íshella. Fyrirhuguð breyting á aðalskipulagi felur í sér að skilgreind verða afþreyingar- og ferðamannasvæði á Langjökli. Í nýju deiliskipulagi verður m.a. gerð grein fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum og settir fram skilmálar um landnotkun og landnýtingu, lóðir, byggingar og vernd náttúru- og menningarminja. Áformað er að gera íshelli í suðurhlið Langjökuls nálægt innstu Jarlhettum annars vegar, og hins vegar neðarlega á Suðurjökli, til að tryggja viðkomustaði fyrir ferðamenn í vélsleðaferðum á jöklinum. Innan skipulagslýsingar er jafnfram lögð fram matslýsing til samráðs um umfang og nákvæmni upplýsinga í umhverfisskýrslu.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að skipulags-og matslýsing verkefnisins verði kynnt á grundvelli 30. og 40. gr. skipulagslaga og gr. 4.2.2 og gr. 5.2.2. skipulagsreglugerðar. Samhliða kynningu skal leitað umsagna helstu umsagnaraðila auk þess sem leitað skal samráðs við Skipulagsstofnun um umfang og áherslur í umhverfismati skipulagsverkefnisins, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um umhverfismat áætlana.

-liður 8, Útey 1 lóð 40 L191733; Stærð húss og þakhalli; Fyrirspurn – 2004044
Bjarki Már Sveinsson fh. lóðarhafa Úteyjar 1 nr. 40 L191733 leggur fram fyrirspurn er varðar byggingarheimild innan lóðar í samræmi við meðfylgjandi umsókn.
Sveitarstjórn staðfestir ákvörðun skipulagsnefndar UTU um að vísa málinu til afgreiðslu skipulagsfulltrúa.

-liður 9, Skálabrekka lóð L170768; Staðfesting á afmörkun og breytt stærð lóðar – 2004057
Lögð er fram umsókn Jóns Benediktssonar, dags. 8. apríl 2020, þar sem óskað er eftir staðfestingu á afmörkun og breytingu á skráningu lóðarinnar Skálabrekka lóð L170768 skv. meðfylgjandi hnitsettu lóðablaði. Lóðin er skráð 3.000 fm í fasteignaskrá en er 4.430 fm skv. hnitsetningu sem áður hefur ekki legið fyrir. Fyrir liggur rafrænt samþykki lóðareigenda aðliggjandi lóðar L201323 á meðfylgjandi lóðablaði og áður liggur fyrir samþykkt lóðablað fyrir L224848.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við afmörkun né breytingu á skráningu lóðarinnar skv. umsókn og samþykkir fyrirliggjandi umsókn.

-liður 10, Lækjarhvammur lóð L167917 og L216467; Starfræksla ferðaþjónustu; Deiliskipulagsbreyting – 2004059
Lögð er fram beiðni um skilmálabreytingu fyrir deiliskipulag að Lækjarhvammi. Í breytingunni felst að heimiluð er atvinnustarfsemi innan deiliskipulagsins í formi sölu á gistiþjónustu.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir breytingu á deiliskipulagi að Lækjarhvammi með fyrirvara um samþykki allra sumarhúsaeigenda innan frístundasvæðis F20 auk landeigenda upprunalands. Innan svæðisins hafa 12 lóðir verið byggðar og tekur umsótt deiliskipulagsbreyting til tveggja lóða innan svæðisins. Eftir að samþykki allra lóðarhafa liggur fyrir skal breytingin unnin í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Samkvæmt heimildum innan kafla 2.3.2 í aðalskipulagi Bláskógayggðar 2015-2027 er útleiga sumarhúsa heimild á grundvelli reglugerðar um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald með þeim takmörkunum að samþykki eigenda sumarhúsa á svæðinu þurfi að liggja fyrir komi fram ósk um atvinnurekstur.
Fundargerðin staðfest.

4. Fundargerðir framkvæmda- og veitunefndar – 2004029
1. fundur framkvæmda- og veitunefndar haldinn 22. apríl 2020
2. fundur framkvæmda- og veitunefndar haldinn 30. apríl 2020, ásamt tillögu að kostnaðaráætlun og áfangaskiptingu.
1. fundur:
-liður 5, ársreikningur Bláskógaveitu, sveitarstjórn frestar afgreiðslu þar til ársreikningur sveitarfélagsins verður tekinn til afgreiðslu.
2. fundur:
-liður 2, gatnagerð Brekkuholt, sveitarstjórn samþykkir að ráðast í framkvæmdir við 1. áfanga gatnagerðar í Brekkuholti, Reykholti, sviðsstjóra framkvæmda- og veitusviðs er falið að undirbúa útboð/verðkönnun og sveitarstjóra að leggja tillögu að viðauka við fjárhagsáætlun fyrir næsta fund.
Fundargerðirnar staðfestar.
5. Fundargerðir skólaþjónustu og velferðarnefndar Árnesþings – 2001008
38. fundur Skólaþjónustu- og velferðarnefndar haldinn 25. febrúar 2020.
39. fundur Skólaþjónustu- og velferðarnefndar haldinn 26. mars 2020.
40. fundur Skólaþjónustu- og velferðarnefndar haldinn 20. apríl 2020.
Fundargerðirnar staðfestar.
6. Fundargerðir stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga – 2001022
881. fundur stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga haldinn 24. apríl 2020.
882. fundur stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga haldinn 29. apríl 2020.
Fundargerðirnar voru lagðar fram til kynningar.
7. Verkfundargerðir vegna lagningar ljósleiðara – 2001032
Verkfundargerðir vegna lagningar ljósleiðara, 7. fundur haldinn 8. apríl og 8. fundur haldinn 22. apríl 2020.
Fundargerðirnar voru lagðar fram til kynningar.
8. Afgreiðslur byggingarfulltrúa – afgreiðslufundir – 2001045
119. afgreiðslufundur byggingarfulltrúa haldinn 22. apríl 2020
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
Mál nr. 28, rekstrarleyfi fyrir Launrétt 1 verður afgreitt undir 23. lið á fundinum.
9. Fundargerð stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands – 2001025
292. fundur stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands, haldinn 22. apríl 2020.
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
10. Fundargerð stjórnar SASS – 2001007
557. fundur stjórnar SASS haldinn 22. apríl 2020
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
11. Fundargerð stjórnar Byggðasafns Árnesinga – 2001015
14. fundur stjórnar Byggðasafns Árnesinga, haldinn 16. apríl 2020.
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
12. Náttúrufræðistofa í Bláskógaskóla Reykholti – 1912024
Viðbrögð skólastjóra Bláskógaskóla Reykholti, dags. 20. apríl 2020, við beiðni nemenda í 9. og 10. bekk um að komið verði upp náttúrufræðistofu í skólanum.
Sveitarstjórn samþykkir að fresta afgrei[slu málsins þar til liggur fyrir hvort unnt verður að nýta gamla húsnæði Álfaborgar sem kennsluhúsnæði. Úttekt á því fer fram nú á næstu vikum.
13. Framkvæmdarleyfisumsókn vegna efnistöku úr Vilborgarkeldu – 2005009
Umsókn Vegagerðarinnar, dags. 22. apríl 2020, um framkvæmdarleyfi vegna efnistöku úr Vilborgarkeldu í landi Heiðarbæja 1 og 2.
Kolbeinn Sveinbjörnsson vék af fundi undir þessum lið.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar felur skipulagsfulltrúa að veita Vegagerðinni framkvæmdarleyfi til efnistöku úr Vilborgarkeldu í landi Heiðarbæjar 1 og 2, Bláskógabyggð, vegna efnistöku sem áætluð er um 20.000 rúmmetrar. Náman er á aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015 til 2027, merkt E2, fastanúmer 16726.

Kolbeinn kom inn að nýju.

14. Breyting á skráningu fasteignar, Helludalur 225 -9968 – 2005005
Erindi AX lögmannsstofu, dags. 24. apríl 2020, um breytingu á skráningu fasteignar
Lagt var fram bréf Jóhanns Fannars Guðjónssonar, hdl, þar sem þess er farið á leit að skráning á fasteigninni 225 9968, sem nú er skráð sem sumarhús á Helludal 1 og 2, landi 193 422, verði skráð sem íbúðarhús.
Sveitarstjórn vísar erindinu til byggingarfulltrúa til umsagnar.
15. Styrkjum Ísland, átaksverkefni fyrir gististaði – 2005011
Fyrirspurn um aðkomu Bláskógabyggðar að stuðningi við verkefnið Styrkjum Ísland, erindi Sverris Steins Sverrissonar, f.h. Godo, dags. 17. apríl 2020.

Eyrún M. Stefánsdóttir vék af fundi undir þessum lið.

Sveitarstjórn þakkar erindið, en sér sér ekki fært að styðja við verkefnið.

Eyrún kom inn á fundinn að nýju,

16. Kaup á spjaldtölvum fyrir eldri borgara, styrkveiting – 2005010
Fyrirspurn Félags eldri borgara í Biskupstungum um fjárstuðning til kaupa á spjaldtölvum fyrir eldri borgara.
Sveitarstjórn felur oddvita og sveitarstjóra að ræða við formann félagsins.
17. Bláskógablíða, tillaga um að boða til hátíðar – 2005002
Tillaga Jóns Snæbjörnssonar, dags. 3. maí 2020, um að tekið verði til umræðu á fundi sveitarstjórnar að boða á ný til Bláskógablíðu.
Sveitarstjórn þakkar fyrir erindið. Með vísan til leiðbeininga almannavarnadeildar og sóttvarnalæknis um hátíðarhöld sumarið 2020 telur sveitarstjórn ekki ráðlegt að efna til bæjarhátíðar í sumar.
18. Beiðni um framlengingu vilyrðis fyrir lóð við Einbúa, Krikinn þjóðmenningarsetur – 1810008
Beiðni Þórarins Þórarinssonar, dags. 30. apríl 2020, um framlengingu á vilyrði fyrir lóð.
Í erindinu er óskað eftir forgangi að lóðinni í eitt ár til viðbótar. Sveitastjórn samþykkir framlengingu vilyrðis til eins árs, en þar sem áður hefur verið framlengt er samþykkt að réttur Þórarins til forgangs að svæðinu verði uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara.
19. Ályktun um nauðsyn þess að huga að fæðuöryggi þjóðarinnar – 2005012
Ályktun sveitarstjórnar um nauðsyn þess að huga að fæðuöryggi þjóðarinnar.

 

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hvetur stjórnvöld og landsmenn alla að taka fæðuöryggi þjóðarinnar föstum tökum. Fæðuöryggi er skilgreint sem stöðugur aðgangur allra að nægilegum, öruggum og næringarríkum mat til að mæta næringarþörfum sínum. Það er aðeins nú síðustu öldina sem fæðuöryggi Íslendinga hefur verið nokkuð stöðugt, en aldirnar á undan varð reglulega mannfellir vegna hungursneyða. Sú jákvæða breyting sem varð á fæðuöryggi landsmanna á 20. öldinni byggir á byltingu í landbúnaði, sjávarútvegi og samgöngum, almennt batnandi efnahag þjóðarinnar, auknu frelsi í viðskiptum milli ríkja, ásamt fleiru. Þetta virðast sjálfsagðir hlutir þegar fólk þekkir ekki annað, en þegar vá steðjar að, sem vegur að einhverjum þessara þátta, er fólk minnt á að fæðuöryggi er ekki sjálfgefið. Þá koma oft fram yfirlýsingar um að hlúa þurfi að innlendri matvælaframleiðslu, tryggja flutningsleiðir og birgðahald. Um leið og váin er afstaðin virðist þetta þó oft gleymast. Á Íslandi er og hefur afkoma sumra búgreina lengi verið óörugg og á þolmörkum. Ábyrgð neytenda er mikil en stjórnvöld leggja línurnar.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar vill skora á stjórnvöld að tryggja til framtíðar þá grunnþætti er mestu skipta varðandi fæðuöryggi þjóðarinnar. Þar má nefna eignarhald á jörðum, varðveislu ræktunarlands, tollvernd sem heldur, og almenna þekkingu og viðurkenningu á hæfi mismunandi landgerða til mismunandi landnota, ekki síst matvælaframleiðslu. Tryggja þarf afkomu bænda til að í framtíðinni verði einhverjir til að framleiða þau matvæli sem þjóðin þarf og hægt er að framleiða hér. Annað er ábyrgðarleysi gagnvart komandi kynslóðum og þegar allt er rakið til enda hvort sem er kolefnisspor, virðisaukandi afleiðingar, sjálfbærni, byggðamál eða búmannleg hugsun er það hið rétta enda landbúnaður styrktur og tollverndaður hjá flestum þjóðum heims. Stuðla þarf að aukinni fjölbreytni í matvælaframleiðslu, meðal annars með því að styðja við ylrækt, garðyrkju og kornrækt. Miklir vannýttir möguleikar eru varðandi nýtingu íslensks korns bæði í manneldi og búfjárrækt. Í ylræktinni eru frábær tækifæri til að nýta hreinar orku- og vatnsauðlindir til að framleiða úrvals matvæli og blóm sem gleðja. Á sama tíma þarf að nýta styrkleika Íslands til grasræktar, sem undirstöðu nautgripa- og sauðfjárræktar. Öll viljum við að lífsgæði okkar séu og verði sem mest, til að svo verði þurfum við að lifa á því sem landið gefur okkur á sjálfbæran hátt og vera stolt af því.

20. Atvinnuleysi og skert starfshlutfall upplýsingar frá Vinnumálastofnun – 2004002
Atvinnuleysistölur fyrir apríl.
Endanlegar upplýsingar um atvinnuleysi í apríl liggja ekki enn fyrir.
Lagt var fram yfirlit Vinnumálastofnunar frá 5. maí s.l., þar sem áætlað atvinnuleysi, að meðtöldum fjölda þeirra sem eru á hlutabótum, er áætlað 32,2% í apríl og 27,3% í maí.
21. Útvarstekjur og framlög úr Jöfnunarsjóði – 2003015
Yfirlit yfir útsvarstekjur janúar til apríl og framlög frá Jöfnunarsjóði janúar til apríl.
Lagt var fram yfirlit yfir útsvarstekjur fyrstu 4 mánuði ársins og framlög frá Jöfnunarsjóði.
22. Áhrif mögulegs samdráttar í tekjum vegna afleiðinga af COVID-19 á tekjustreymi Bláskógabyggðar – 2003015
Sviðsmyndir vegna mögulegs samdráttar í tekjum Bláskógabyggðar vegna lækkaðs atvinnustigs í sveitarfélagsinu. Uppfært frá síðasta fundi.

Lagt fram til kynningar.

23. Rekstrarleyfisumsókn Launrétt 1, fnr. 220-5534 – 2005008
Beiðni Sýslumannsins á Suðurlandi, dags. 14. janúar 2020, um umsögn um rekstrarleyfisumsókn vegna Launréttar 1, 220-5534, flokkur II, minna gistiheimili.
Umsögn byggingarfulltrúa liggur fyrir.
Sveitarstjórn gefur jákvæða umsögn um útgáfu rekstrarleyfis vegna Launréttar 1, flokkur II.
24. Frumvarp til laga um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni – 2005006
Beiðni Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um umsögn um frumvarp til laga um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021-2025, 643. mál.

Umsagnarfrestur er til 6. maí n.k.

Lagt fram til kynningar.
25. Frumvarp til laga um breytingu á lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna – 2005003
Beiðni Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna (aðilar utan Evrópska efnahagssvæðisins, landeignaskrá, ráðstöfun landeigna, aukið gagnsæi o.fl.), 715. mál.

Umsagnarfrestur er til 21. maí nk.

Lagt fram til kynningar.
26. Viðbragðsáætlun Tónlistarskóla Árnesinga vegna COVID-19 2020 – 2003029
Minnisblað skólastjóra Tónlistarskóla Árnesinga, dags. 29. apríl 2020, varðandi áhrif COVID-19 á starfsemi skólans.
Lagt fram til kynningar.
27. Hreyfivika UMFÍ 2020 – 2005007
Hvatning UMFÍ og HSK til sveitarfélaga til að taka þátt í Hreyfiviku UMFÍ.
Sveitarstjórn hvetur til þátttöku í Hreyfivikunni.
28. Lækkun Jöfnunarsjóðsframlaga – 2003015
Tilkynning frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, dags. 28. apríl 2020, um lækkun áætlaðra mánaðargreiðslna til sveitarfélaga vegna útgjaldajöfnunarframlaga og framlaga vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti um 12,5%.
Lagt fram til kynningar.
29. Viðbragðsáætlanir, leiðbeiningar og tilmæli vegna Kórónaveiru COVID-19, tilslakanir – 2002012
Tilkynning almannavarnadeildar og sóttvarnalæknis um tilslakanir á samkomubanni, ásamt minnisblaði sóttvarnalæknis.
Lagt fram til kynningar.
30. Viðbragðsáætlanir, leiðbeiningar og tilmæli vegna Kórónaveiru COVID-19, hátíðir og samkomur – 2002012
Leiðbeiningar almannavarnadeildar og sóttvarnalæknis vegna hátíða í sumar og 17. júní.
Lagt fram til kynningar.
31. Átaksverkefnið sumarstörf fyrir námsmenn 2020 v COVID-19 – 2004039
Erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 22 apríl 2020 varðandi sumarstörf fyrir námsmenn, átaksverkefni.
Sveitarstjórn samþykkir að sækja um störf fyrir námsmenn.
32. Aðalfundur Gufu ehf 2020 – 2005001
Boð á aðalfund Gufu ehf sem haldinn verður 16. maí 2020.
Lagt fram til kynningar.
33. Aðalfundur Límtré Vírnets ehf 2020 – 2005004
Boð á aðalfund Límtrés Vírnets ehf sem haldinn verður 13. maí 2020.
Lagt fram til kynningar.

 

 

 

Fundi slitið kl. 17.45.

 

 

 

 

 

 

Helgi Kjartansson   Valgerður Sævarsdóttir
Óttar Bragi Þráinsson   Kolbeinn Sveinbjörnsson
Guðrún S. Magnúsdóttir   Eyrún Margrét Stefánsdóttir
Róbert Aron Pálmason    
Ásta Stefánsdóttir