27. fundur

  1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar þriðjudaginn 9. mars 2004, kl. 13:00 í Fjallasal, Aratungu.

 

 

Mætt voru:

Sveinn A. Sæland, Sigurlaug Angantýsdóttir, Margeir Ingólfsson, Snæbjörn Sigurðsson, Drífa Kristjánsdóttir, Margrét Baldursdóttir, Kjartan Lárusson auk Ragnars S. Ragnarssonar sveitarstjóra sem ritaði fundargerð.

 

 

  1. Skólamál. Arndís Jónsdóttir skólastjóri kom sem gestur inn á fund sveitarstjórnar undir lið
    1 og 2.

Beiðni frá Grímsnes – og Grafningshreppi um að börn úr 8. 9. og 10. bekk njóti kennslu við Grunnskóla Bláskógabyggðar, Reykholti frá og með hausti 2004.  Sveitarstjórn samþykkir að bjóða þessa nemendur úr Grímsnes – og Grafningshreppi velkomna og býðst til þess að leggja sig fram við að þróa kennslustarf á unglingastigi sem geti verið elstu nemendum grunnskóla styrkur til félagslegrar samstöðu og eflingar fræðilegrar kennslu á unglingastigi í umhverfi sem gerir sífellt auknar kröfur um þekkingu, fjölbreytni og færni.

Skólastjóra, sveitarstjóra og formanni fræðslunefndar verði falið að fylgja málinu eftir og undirbúa komu nemendanna.

 

  1. Fræðslumál. Umræða um framtíðarfyrirkomulag fræðslumála í Bláskógabyggð.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að nýta íbúð sem er áföst  Leikskólanum Álfaborg undir starfsemi hans haustið  2004.

Þá samþykkir sveitarstjórn að hefja nú þegar undirbúning að byggingu nýs leikskóla á Laugarvatni sem tengdur verði við húsnæði grunnskólans þar sem gert verður m.a. ráð fyrir sameiginlegum matsal fyrir leikskólann og grunnskólann.  Stefnt er að því að byggingunni verði lokið árið 2005.

Sveitarstjórn samþykkir að kynna sér þörf og kostnað á viðbyggingu við Grunnskóla Bláskógabyggðar og ef það reynist hagkvæmt þá er stefnt að því að framkvæmdum  verði  lokið haustið 2005.

Forsendur áðurnefndrar uppbyggingar í skólasamfélaginu eru sala eigna, s.s. Lindarinnar, Áhaldahússins á Laugarvatni, Hvestu og Bjarkarbrautar 20 og 22 í Reykholti svo og stofnframlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

 

Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að auglýsa fyrrgreindar eignir til sölu, einnig að fá hæfa aðila til að reikna út kostnað vegna byggingar við Grunnskóla Bláskógabyggðar.  Komi jákvætt svar frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hvað varðar stofnframlög þá er oddvita falið að koma með tillögu að skipan starfshóps til að halda utan um framkvæmdir.

 

 

Greinargerð.

Það er samdóma álit sveitarstjórnar að í börnunum sé fólginn einn mesti mannauður sveitarfélagsins og því nauðsynlegt að búa eins vel að þeim og kostur er.  Ljóst er öllum að núverandi húsnæði leikskólanna, Lindar og Álfaborgar, er að mörgu leyti óviðunandi hvort á sinn hátt. Hefur sveitarstjórn í ljósi þeirra staðreynda ákveðið að stefna annars vegar að endurbótum á húsnæði Álfaborgar sem felast í auknu rými og breyttu skipulagi á hluta núverandi húsnæðis og hins vegar að hefja nú þegar undirbúning að byggingu á nýjum leikskóla á Laugarvatni sem tengdur verður við Grunnskólann þar sem m.a. verður gert ráð fyrir sameiginlegum matsal fyrir leik- og grunnskóla.  Stefna sveitarstjórnar er að leikskóli og grunnskóli verði eftir sem áður reknir sem tvær stofnanir.  Grunnskóli Bláskógabyggðar er mjög góður skóli sem er í sífelldri þróun.  Til þess að áframhaldandi öflug uppbygging eigi sér stað í skólanum þarf aðstaða fyrir nemendur að vera sem best.   Nú þegar er vitað að húsnæði Grunnskóla Bláskógabyggðar er orðið of þröngt og telur sveitarstjórn nauðsynlegt að byggja við núverandi húsnæði skólans, reynist það hagkvæmt kostnaðarlega séð.  Selja þarf nokkrar eignir sveitarfélagsins og fá stofnframlag Jöfnunarsjóðs til þess að uppbygging  þessi geti orðið.  Þær eignir sem helst er horft til með sölu á eru Lindin, Áhaldahúsið á Laugarvatni,  Hvesta og Bjarkarbraut 20 og 22 í Reykholti.   Fullur vilji er hjá sveitarstjórn að reka áfram metnaðarfullan Grunnskóla.  Það er von okkar, sem sitjum í sveitarstjórn, og trú að allir íbúar sveitarfélagsins geti horft björtum augum til framtíðar skólasamfélagsins í Bláskógabyggð.

Arndís vék af fundi.

 

  1. Umsókn til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna uppbyggingar í fræðslumálum í Bláskógabyggð.

Sveitarstjórn samþykkir að fela sveitarstjóra að rita Jöfnunarsjóði sveitarfélaga bréf vegna nýbyggingar leikskóla á Laugarvatni og leita eftir samstarfi sjóðsins við uppbyggingu leikskólans  m.a. vegna sameiningar sveitarfélaganna og nauðsyn þess að þróa skólaþjónustu í nýju sveitarfélagi.

 

Sveitarstjóra verði einnig falið að skrifa Jöfnunarsjóði sveitarfélaga bréf vegna aðstöðuleysis Grunnskóla Bláskógabyggðar en nú þegar vantar kennslurými  auk þess að fjölgun nemanda undirstrikar þörf á betri aðstöðu kennara og nemenda.  Leitað verði eftir samstarfi sjóðsins við uppbyggingu skólans m.a. vegna sameiningar sveitarfélaganna, nýrra nemanda úr Grímsnes- og Grafningshreppi og nauðsyn þess að þróa skólaþjónustu í nýju sveitarfélagi.

 

 

Fundi slitið kl. 15:40