274. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar

 

 

 

 

 

  1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn í Aratungu, Reykholti,21. janúar 2021, kl. 15:15.

 

 

Fundinn sátu:

Helgi Kjartansson, Valgerður Sævarsdóttir, Óttar Bragi Þráinsson, Kolbeinn Sveinbjörnsson, Guðrún S. Magnúsdóttir, Róbert Aron Pálmason, Axel Sæland og Ásta Stefánsdóttir.

 

 

 

Fundargerð ritaði: Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri.

 

 

1. Fundargerð skipulagsnefndar – 2101007
209. fundur skipulagsnefndar haldinn 13. janúar 2021. Afgreiða þarf sérstaklega mál nr. 1 til 7.
-liður 1, Hrísbraut 2 L218845; Skipting lóðar og skilmálabreyting; Deiliskipulagsbreyting – 2101010
Lögð er fram umsókn frá Ragnheiði Sveinsdóttur er varðar breytingu á deiliskipulagi að Hrísbraut 2. Fyrirspurn vegna sama máls var vísað til heildar endurskoðunar deiliskipulags á svæðinu á fundi skipulagsnefndar 29. apríl 2020. Umsækjandi óskar eftir því að framlögð deiliskipulagsbreyting vegna Hrísbrautar 2 verði samþykkt með sambærilegum hætti og gert var fyrir lóð 4 með það að markmiði að gæta samræmis við deiliskipulagsskilmála svæðisins. Haft hefur verið samráð við aðliggjandi lóðir vegna heildar endurskoðunar deiliskipulags og hafa aðrir lóðarhafar ekki áhuga á að vinna viðlíka breytingar á sínum lóðum. Umsækjandi telur að samþykkt á uppskiptingu lóðar Hrísbrautar 2 hafi ekki fordæmisgefandi áhrif þar sem sveitarfélagið hafi áður ekki lagst gegn uppskiptingu lóða í kringum fleiri en eina fasteign eða byggingarrétt sbr. gildandi skipulagi þar sem gert er ráð fyrir byggingarreitum fyrir 3 hús innan lóðar. Í breytingunni felst því uppskipting lóðar Hrísbrautar 2 og skilgreining byggingarheimilda fyrir svæðið í heild sinni. Gert verði ráð fyrir að nýtingarhlutfall lóða verði 0,03 og heimild verði fyrir einu 40 fm auka húsi á lóð í takt við heimildir aðalskipulags. Byggingarreitir annarra lóða haldast óbreyttir en byggingarheimildir eru auknar á svæðinu í heild. Umsækjandi telur að komið sé á móts við fyrri bókun skipulagsnefndar með þessum hætti.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins með fyrirvara um lagfærð gögn í samráði við skipulagsfulltrúa. Skýra skal betur skilmála er varðar auka hús á lóð gagnvart lóðum innan svæðisins sem taka ekki breytingum. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar breytingu á deiliskipulagi og verði sérstaklega kynnt öðrum lóðarhöfum innan frístundasvæðisins.

-liður 2, Ketilvellir lóð (L167815); umsókn um byggingarleyfi; sumarbústaður – viðbygging – 2009086
Útgáfa byggingarleyfis fyrir viðbyggingu á Ketilvöllum lóð L167815 var samþykkt til grenndarkynningar á grundvelli 44. gr. skipulagslaga á 203. fundi skipulagsnefndar þann 14. október 2020. Málið var grenndarkynnt og athugasemdir bárust. Athugasemdir lagðar fram til afgreiðslu skipulagsnefndar.
Sveitarstjórn telur ástæðu til að bregðast við athugasemdum sem bárust er varðar afmörkun lóðar. Afgreiðslu málsins er frestað. Umsækjanda gert að skilgreina hnitsetta legu lóðarinnar í samráði við nágranna í takt við þinglýst gögn og leiðbeiningar landeigenda upprunalands. Sveitarstjórn tekur ekki afstöðu til athugasemda er varðar skerðingu á útsýni að svo stöddu.

-liður 3, Drumboddsstaðir lóð 10 (L167235); umsókn um byggingarleyfi; sumarbústaður – viðbygging – 2101007
Fyrir liggur umsókn Eiríks V. Pálssonar fyrir hönd Baldvins Valgarðssonar og Kristínar Bj. Ármanns Guðbjörnsdóttur, móttekin 04. janúar 2021 um byggingarleyfi til að byggja við sumarbústað 26,2 m2 á sumarbústaðalandinu Drumboddsstaðir lóð 10 (L167235) í Bláskógabyggð. Heildarstærð á sumarbústaði eftir stækkun verður 69,7 m2.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa

-liður 4, Miðdalur L167644; Skilmálabreyting; Aðalskipulagsbreyting – 2012037
Lögð er fram umsókn Landforms ehf. f.h. Grafíu er varðar breytingu á aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027. Í breytingunni felst endurbót á reglum er varðar hámarks byggingarmagn innan frístundalóða sem falla utan þess að vera á bilinu 5-10.000 fm. að stærð. Í tillögunni felst að breyting er gerð á lið 2.3.2 frístundabyggð innan aðalskipulags þar sem segir m.a.
„Á frístundasvæðum skulu lóðir að jafnaði vera á stærðarbilinu 0.5 – 1 ha og nýtingarhlutfall skal ekki vera hærra en 0,03. Í ákveðnum tilfellum geta frístundalóðir þó verið minni og nýtingarhlutfall allt að 0,05.“
Verður eftir breytingu:
„Á frístundasvæðum skulu lóðir að jafnaði vera á stærðarbilinu 5000 – 10.000 m2 og nýtingarhlutfall ekki hærra en 0,03. Í ákveðnum tilfellum geta frístundalóðir þó verið minni eða stærri og fer þá hámarks byggingarmagn eftir töflu x.x. Falli lóðarstærð á milli flokka reiknast byggingarheimild hlutfallslega jafnt m.v. lóðarstærð.“

Bætt er við töflu:
Stærð lóða Hámarks bygginarmagn
200 – 1000 m2 75 m2
2000 – 3000 m2 100 m2
3500 – 5000 m2 150 m2
5000 – 10.000 m2 Nh.0,03
10.000 -> 10.000 m2 400 m2
Skipulagsnefnd vísaði málinu til sveitarstjórnar þar sem umsótt breyting hefur stefnumarkandi áhrif á aðalskipulag sveitarfélagsins.
Sveitarstjórn tekur jákvætt í breytingarnar og vísar þeim til frekari umræðu í skipulagsnefnd.


-liður 5, Lindargata 7 (L186575); umsókn um byggingarleyfi; sumarhús – stækkun (sólskáli) – 1805031
Útgáfa byggingarleyfis fyrir stækkun á sólskála að Lindargötu 7, L186575 var samþykkt til grenndarkynningar á grundvelli 44. gr. skipulagslaga á 204. fundi skipulagsnefndar þann 21. október 2020. Málið var grenndarkynnt og athugasemdir bárust. Í athugasemdinni felst að nágranni lóðar Lindargötu 12 telur að hús Lindargötu 7 sé byggt mjög nálægt Lindargötu 12. Verði byggður sólskáli með gleri megi ætla að framkvæmdin verði komin ofan í húsið hjá þeim og kunni að valda ónæði. Farið er fram á að sett verði einhverskonar kvöð sem tryggi að ekki hljótist ónæði af viðbyggingu t.d. með gerð skjólveggs.
Sveitarstjórn telur að umrædd framkvæmd sé ekki líkleg til að valda auknu ónæði á milli lóða og telur því ekki ástæðu til að bregðast við framlögðum athugasemdum. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar felur byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi í takt við framlagða umsókn. Skipulagsfulltrúa falið að tilkynna þeim sem athugasemdir gerðu um niðurstöðu málsins.

-liður 6,Brattholt lóð (Gullfosskaffi) 193452; Spennistöðvarlóð, byggingarreitir fyrir skolphreinsistöð og sorpgáma, stækkun núverandi byggingarreits og sameining lóða; Deiliskipulagsbreyting – 1708076
Lögð er fram að nýju umsókn frá Svavari Njarðarsyni er varðar breytingu á deiliskipulagi að Brattholti lóð (Gullfosskaffi) L193452 ásamt uppfærðri tillögu að skipulagsbreytingu. Í breytingunni felst skilgreining á byggingarreitum fyrir skolphreinsistöð og sorpgáma, stækkun á núverandi byggingareit og sameiningu lóða auk þess sem gert er ráð fyrir nýrri lóð fyrir spennistöð.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar breytingu á deiliskipulagi.

-liður 7, Eyjarland L167649; Landbúnaðarland í iðnaðarlóð; Aðalskipulagsbreyting – 2101017
Lögð er fram umsókn frá Veiðifélagi Eystri-Rangá um breytingu á aðalskipulagi Bláskógabyggðar á lóð Eyjarlands 167649. Á lóðinni er starfrækt seiðaeldisstöð. Eftir samskipti við skipulagsfulltrúa er óskað eftir því að svæðinu verði breytt úr landbúnaðarsvæði í iðnaðarsvæði í takt við notkun þess.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir gerð skipulagslýsingar vegna umsóttrar breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Skipulagslýsing verði kynnt og send til umsagnar í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.


Fundargerðin var lögð fram til kynningar að öðru leyti.

2. Fundargerð framkvæmda- og veitunefndar – 2101004
11. fundur framkvæmda- og veitunefndar haldinn 18. janúar 2021
-liður 2, uppgjör hitaveitu vegna mælaskipta (2101061). Fyrsti álestur nýrra fjarálestrarmæla sem settir voru upp árið 2019 fór fram í lok ársins 2020. Við uppgjör komu í ljós tilvik þar sem ekki hafði farið fram uppgjör vegna næstu mælaskipta þar á undan. Um mistök var að ræða og lagði framkvæmda- og veitunefnd til að kröfur vegna uppgjörs á þeim eldri mælum sem um ræðir verði felldar niður. Sveitarstjórn samþykkir að umræddar kröfur verði felldar niður.
-liður 4, sameiginleg vatnsveita sveitarfélaga (1909062). Sveitarstjórn samþykkir tillögu framkvæmda- og veitunefndar um að oddviti, sveitarstjóri, sviðsstjóri framkvæmda- og veitusviðs og veitustjóri vinni áfram að málinu.
-liður 8, hönnun nýrrar götu á Laugarvatni (2101060). Ávörðun um hönnun nýrrar götu bíður staðfestingar nýs deiliskipulags Laugarvatns.
-liður 9, hönnun nýrrar götu í Reykholti (2101059). Sveitarstjórn samþykkir að fela sveitarstjóra að hefja undirbúningsvinnu að hönnun að gatnagerð sem myndi ná til lóðanna við Skólaveg 6, 8 og 10, Tungurima (2, 4, 6) 8 og 10 og Borgarrima 2, 4, 6 , 8, 10, 1, 3, 5, 7 og 9.
Fundargerðin staðfest.
3. Fundargerð skólanefndar – 2101002
15. fundur skólanefndar haldinn 19. janúar 2021
Fundargerðin staðfest.
4. Fundargerð NOS – 2101010
Fundur NOS (stjórnar Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings) haldinn 5. janúar 2021.
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
5. Fundargerð afgreiðslufunda byggingarfulltrúa – 2101008
134. afgreiðslufundur byggingarfulltrúa haldinn 6. janúar 2021.
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
6. Fundargerðir stjórnar Bergrisans – 2101021
24. fundur stjórnar Bergrisans haldinn 9. desember 2020
25. fundur stjórnar Bergrisans haldinn 14. desember 2020
Beiðni um aukna fjárheimild til aðildarsveitarfélaga Bergrisans bs, dags. 6. janúar 2021, sbr. 1. tl. 25. fundar, ásamt viðaukasamningi við Sólheima og kostnaðaráætlun.
Fundargerðir 24. og 25. fundar stjórnar voru lagðar fram ásamt fylgigögnum.
Sveitarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti viðaukasamning Bergrisans við Sólheima, sbr. 1. tl. 25. fundar, eins og nánar er gerð grein fyrir í erindi verkefnastjóra f.h. stjórnar Bergrisans bs.
7. Útboð á sorphirðu – 2008049
Minnisblað vegna útboðs á sorphirðu, dags. 20. desember 2020, vinnuskjal.
Farið var yfir stöðu mála vegna útboðs á sorphirðu. Sveitarstjóra og sviðsstjóra framkvæmda- og veitusviðs er falið að vinna áfram að málinu.
8. Tilnefning fulltrúa í samstarfshóp um gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Geysi – 2101068
Erindi Umhverfisstofnunar, dags. 8. janúar 2021, varðandi tilnefningu 1-2ja fulltrúa í samstarfshóp um gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir náttúruvættið Geysi.
Sveitarstjórn samþykkir að Helgi Kjartansson, odddviti, Agnes Geirdal, formaður umhverfisnefndar, taki sæti í samstarfshópnum.
9. Umsókn um lóðina Skólatún 9, Laugarvatni – 2101069
Umsókn Gríms Kristinssonar um lóðina Skólatún 9, Laugarvatni.
Lóðin hefur verið auglýst laus til úthlutunar og samþykkir sveitarstjórn að úthluta henni til Gríms Kristinssonar.
10. Stefna um meðhöndlun úrgangs – 2101066
Erindi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 12. janúar 2021, varðandi stefnu um meðhöndlun úrgangs sem birt hefur verið í samráðsgátt.
Lagt fram til kynningar.
11. Stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu – 1812008
Beiðni Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, dags. 11. desember 2020, um umsögn um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð, 369. mál. Umsagnarfrestur er til 1. febrúar 2021 nk. Áður tekið fyrir á 273. fundi.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir eftirfarandi umsögn vegna frumvarps til laga um Hálendisþjóðgarð, 369. mál:


Inngangur:
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur á fyrri stigum lýst andstöðu sinn við fyrirhugaðan hálendisþjóðgarð. Sveitarstjórn fellst ekki á það að 64,5% af því landsvæði sem fellur innan sveitarfélagamarka Bláskógabyggðar verði gert að þjóðgarði með því stjórnfyrirkomulagi sem boðað er í fram komnu frumvarpi. Skipulag og stjórnsýsla svæðisins mun færast frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum sveitafélagsins, til fulltrúa annarra sveitarfélaga, félagasamtaka og embættismanna. Umsjón, rekstur og ákvörðunartaka er varðar eignir sveitarfélagsins á hálendinu mun færast úr höndum sveitarstjórnar og íbúa sveitarfélagsins til fulltrúa annarra sveitarfélaga, félagasamtaka og embættismanna.
Sveitarstjórn hefur ítrekað bent á að ekki liggur fyrir greining og samanburður á rekstri þjóðgarða annars vegar og þjóðlendna hinsvegar. Aldrei í ferlinu hefur af hálfu umhverfisráðherra verið bent á vankanta núverandi kerfis þjóðlendulaganna, hvort sem litið er til þjóðhagslegrar hagkvæmni eða náttúruverndar.

 


Athugasemdir við einstaka greinar frumvarpsins:


I. KAFLI; Stofnun Hálendisþjóðgarðs


1. gr. Gildissvið
Vísað er til athugasemda sem settar eru hér á eftir við 5. grein. Hér er vísað til gildis og samspils laga um náttúruvernd, nr. 60/2013.


2. gr. Friðlýsing Hálendisþjóðgarðs
Gerð er athugasemd við að ekki þurfi samþykki viðkomandi sveitarfélaga fyrir því að landsvæði innan marka sveitarfélags falli undir Hálendisþjóðgarð. Sá háttur var hafður á við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og væri farsælla að svo væri einnig varðandi Hálendisþjóðgarð. Að sniðganga með þessum hætti aðkomu sveitarfélaga að ákvörðun um skilgreiningu á mörkum þjóðgarðs eykur einungis tortryggni til málsins. Eins og fram kemur víða í frumvarpinu er verið að láta í hendur ráðherra óásættanlega mikið vald. Það má segja að í öllum þeim fjölmörgu þáttum sem kallað hefur verið eftir skýrari mynd af (einnig af hinni þverpólitísku nefnd) eigi að gefa ráðherra nánast sjálfdæmi um hvernig málum skuli háttað. Gerð er athugasemd við þessi vinnubrögð. Mikil vinna er eftir við útfærslu hinna ýmsu þátta til að allir geti verið vissir um hvert er verið að stefna. Þá fyrst er hægt að taka afstöðu til málsins á heildrænan og skynsaman hátt.


3.gr. Markmið Hálendisþjóðgarðs.
Markmið þau sem framkoma í 3. gr. eru göfug, og leggst sveitarstjórn ekki gegn þeim enda lýsa þau þeim markmiðum sem nú þegar er horft til og tekið er mið af við núverandi stjórnfyrirkomulag þjóðlendna.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar bendir á að í náttúruverndarlögum 60/2013 er kveðið á um verndun náttúru s.s landslags, vistkerfa, víðerna og jarðmyndana.
Þá eru a.m.k. einar fimm ríkissstofnanir í landinu sem hafa m.a. það hlutverk að framfylgja því að lögum um náttúruvernd sé framfylgt auk þess að stunda rannsóknir og fræðslu. Auk náttúrverndarlaga er kveðið á um náttúruvernd í skipulagslögum, þjóðlendulögum og landsskipulagi. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar veltir því fyrir sér hvort þörf sé á enn einni ríkisstofnunni sem hefur sama markmið og margar aðrar stofnanir sem nú þegar eru starfandi.
Í sveitarfélaginu Bláskógabyggð er öflugt samfélag og fjölbreytt atvinnustarfsemi sem m.a. annars byggist á nálægð við hálendi. Það hefur byggst upp fyrir áeggjan íbúanna sjálfra þar sem framtakssemi, hyggjuvit og áhugi fyrir nærumhverfinu hafa ráðið för. Sveitarstjórn telur að með því stjórnfyrirkomulagi sem kveðið er á um í frumvarpinu muni draga úr lýðræðislegum rétti íbúanna til að koma að mótun þess samfélags sem þeir kjósa að búa í. Frumvarpið mun því veikja samfélagið og byggðina í sveitarfélaginu í stað þess eða efla og styrkja.
Hvað 10. tl. varðar þá hefur í áratugi verið stundað öflugt sjálfboðaliðastarf á hálendinu, hvort sem er við landbótastörf eða uppbygging innviða. Það hefur ekki þurft lagasetningu til svo slíkt sé gerlegt.
Stjórnfyrirkomulag þjóðlendna er einfalt og skilvirkt. Það stjórnfyrirkomulag sem lagt er til í frumvarpinu er flóknara, boðleiðir munu lengjast og hætt við að framkvæmdir við hin ýmsu verkefni, stór sem smá, dragist á langinn vegna tafa við ákvörðunartöku. Búast má við að aukið skrifræði og kostnaður vegna leyfisveitinga, við hin ýmsu verkefni sem sjálfboðaliðar hafa sinnt, verði til þess að fæla einstaklinga og félagasamtök frá því hugsjónastarfi að sinna hálendinu á eigin kostnað.


5. gr. Kaup, eignarnám, bætur og lóðarleigusamningar.
Eignarnámsákvæði í þessu frumvarpi er óásættanlegt. Það liggur ljóst fyrir í huga sveitarstjórnar Bláskógabyggðar, að þarna er verið að leggja línur um eignarnám eigna sveitarfélaga og nytjaréttarhafa s.s. í formi fjallaskála. Einnig liggur hér undir eignarnám óbeinna eignarheimilda s.s. grasnytja og veiði. Það, að sambærilegt ákvæði sé í náttúruverndarlögum, eru ekki nægileg rök fyrir að hafa þetta ákvæði inni í frumvarpinu, sbr. svör á kynningarfundum með sveitarstjórnum.. Í 1. grein frumvarpsins er vísað er til náttúruverndarlaga og ekki er áætlað að fella þau úr gildi.
Með þessu ákvæði er verið að bæta verulega í eða auka vægi eignarnámsheimilda. Markmið og eðli málsins birtist með öðrum hætti í þessu frumvarpi en náttúruverndarlögum. Það er því nokkuð augljóst að hugsunin að baki þessu ákvæði er að taka nytjarétt og aðrar eignir nytjaréttarhafa og sveitarfélaga eignarnámi, því að öðrum kosti myndi ákvæði náttúruverndarlaga vera fyllilega nægjanleg heimild.
Vísað er til þess í skýringum við einstaka greinar að 8. gr. jarðalaga komi í veg fyrir að hægt sé að taka óbein eignarréttindi eignarnámi. Gott er að líta á hvað segir í umræddri 8. gr. jarðalaga:
Hlunnindi sem fylgja jörð eru eign jarðareiganda, nema undantekningar séu gerðar frá þeirri
reglu með lögum.
Óheimilt er að skilja hlunnindi frá jörð, nema undantekningar séu gerðar frá þeirri reglu með lögum.
Lítil vörn er í þessari lagagrein ef á reynir. Það hefur sýnt sig að gerðar hafa verið breytingar á lögum sem farið hafa hljótt s.s. lögum um Vatnajökulsþjóðgarð.
Með þessu ákvæði getur stjórn þjóðgarðs og ráðherra ákveðið að leysa til sín eignir sem sveitarfélög og nytjaréttarhafar hafa byggt og rekgið með eignarnámi.
Þessu er mótmælt harðlega og þetta eina atriði eru nægar ástæður til þess að hafna alfarið öllum hugmyndum um stofnun Hálendisþjóðgarðs skv. fyrirliggjandi frumvarpi. Skorað er á Alþingi að þessu frumvarpi verði vísað frá og varanlega verði hætt að sækja á nytjaréttarhafa með þessum hætti. Nóg er komið af tilraunum til að rýra rétt sveitarfélaga og nytjaréttarhafa innan miðhálendis Íslands.


II. KAFLI; Stjórnun Hálendisþjóðgarðs.

8. gr. Stjórn Hálendisþjóðgarðs og 11. gr. Rekstrarsvæði Hálendisþjóðgarðs.
Sveitarstjórn Bláskógarbyggðar getur ekki fallist á að fulltrúar félagasamtaka eða áhugamannafélaga hafi svona mikla sérstöðu innan opinberrar stjórnsýslu, hvort sem um er að ræða stjórn þjóðgarðs eða umdæmisráð. Það er skoðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar að einungis lýðræðislega kjörnir aðilar, úr hópi sveitarstjórnarmanna og Alþingismanna, eigi að sitja í stjórn af þessu tagi. Mjög mikilvægt er að sveitarstjórnir hafi aukinn meirihluta í slíkri stjórn þar sem verið er að flytja málefni, sem sveitarfélögin hafa sinnt til þessa, inn á borð þessarar stjórnar. Það má þó færa sterk rök fyrir því, og er sveitarstjórn Bláskógarbyggðar því fylgjandi, að fulltrúi nytjaréttarhafa eigi að hafa aðkomu þar að, þar sem þeir aðilar hafa óbein eignaréttindi í afréttum innan þjóðlendna og hafa því mikla sérstöðu. Ef einhver aðili ætti að hafa rétt á að vera beinn þátttakandi í þessari stjórnsýslu utan lýðræðislega kjörinna fulltrúa, þá eru það nytjaréttarhafar sem eiga nytjarétt á afréttunum.
Það er lýðræðishalli að færa einstaka félagasamtökum og áhugamannafélögum þá stöðu að sitja í stjórn sem þessari. Það er aftur á móti sjálfsagt að slíkir aðilar hafi seturétt sem áheyrnarfulltrúar og geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri við stjórn.
Í grundvallaratriðum er sveitarstjórn Bláskógabyggðar mótfallin því að stjórnsýsluleg staða sveitarfélaga verði skert og skipulagsvald sveitarfélagsins tekið af sveitarstjórn og flutt í hendur fulltrúa annarra sveitarfélaga og sérhagsmunaaðila. Vegna þessara frumforsendna er sveitarstjórn Bláskógabyggðar andsnúin fyrirliggjandi hugmynd um stofnun Hálendisþjóðgarðs.


10. gr. Starfsemi stjórnar Hálendisþjóðgarðs. Gerð er athugasemd við lokamálsgrein 10. gr. frumvarpsins. Þar er ráðherra falið vald til að fella úr gildi skipun stjórnar og þá jafnframt skipun viðkomandi stjórnarmanna í umdæmisráði. Það vald hefur hann án þess að ákveðinn málsmeðferðarferill eigi sér stað, eða samráð við þá sem tilnefnt hafa fulltrúa í stjórn. Ákvörðunin gæti þá allt eins byggt á skoðun ráðherra og þá jafnvel gæti pólitísk afstaða ráðið för. Þetta ákvæði er allt of almennt og er í raun ótækt eins og það er orðað í þessu frumvarpi. Rétt er að benda á að 3. grein og 9. grein frumvarpsins um markmið þjóðgarðs og hlutverk stjórnar eru mjög almenns eðlis og því í orðanna hljóðan algerlega á valdi ráðherra hverju sinni að meta það hvort farið sé eftir markmiðum eða að stjórn sinni hlutverki sínu.


III. kafli; Stjórnunar- og verndaráætlun Hálendisþjóðgarðs.

14. gr. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar tekur undir álit hinnar þverpólitísku nefndar að þarna inn í vanti að gera ráð fyrir að um nýtingaráætlun sé að ræða. Vernd og nýting er mjög samofin og afar slæmt að nýting skuli ekki svo mikið sem ávörpuð í þessum kafla frumvarpsins. Það er í raun sett í vald ráðherra að setja nánari ákvæði um efni stjórnunar- og verndaráætlunar.
Athyglisvert er að stjórnunar- og verndaráætlun Hálendisþjóðgarðs skuli einnig ná til jaðarsvæða þjóðgarðsins. Rétt er að vekja athygli á því að ekki liggur fyrir skilgreining á hugtakinu „jaðarsvæði“ í þessu frumvarpi, enda skal það sett síðar í vald ráðherra að skilgreina hugtakið. Þetta er enn einn punkturinn sem sýnir hve þetta mál allt er illa undirbúið og illa fram sett. Á jaðarsvæði t.d. að geta náð langt niður í byggðir? Spurningum af þessu tagi verður að svara.
Enn eitt athyglisvert atriði í þessari grein er að í stjórnunar- og verndaráætlun skal koma fram almennt mat á því hvort og þá hvernig takmarka skuli atvinnutengda starfsemi innan þjóðgarðs. Ekki er kastljósi beint að uppbyggingu eða nýtingu. Samt er ein höfuð röksemd ráðherra að þjóðgarður hafi svo mikið aðdráttarafl að ferðamönnum muni fjölga stórlega við að heimsækja umræddan þjóðgarð.


15. gr. Málsmeðferð.
Athyglisvert er hvað mikil áhersla er í frumvarpinu á að valdefla ráðherra, þar sem hann getur gert breytingar á stjórnunar- og verndaráætlun ef hann „telur“ að áætlunin fari í bága við lög þessi eða reglugerð (sem hann sjálfur setur) um Hálendisþjóðgarð. Hér er endanlegt vald fært í hendur ráðherra, en enginn sérstakur farvegur eða málsmeðferð til stjórnar eða umdæmisráða ef slíkur ágreiningur kemur upp. Þetta verklag er algerlega óviðunandi og getur ekki talist lýðræðislegt.
Almennt gagnrýnir sveitarstjórn Bláskógabyggðar hvað vald ráðherra er mikið í þessu frumvarpi. Í raun getur hann nánast verið einráður með öllum þeim reglugerðum sem hann skal setja, sérstaklega í ljósi þess hvernig einstaka greinar þessa frumvarps eru óljóst orðaðar og skýringum og skilgreiningum ábótavant.


19. gr. Öryggi gesta.
Bent hefur verið á að útfærslu og viðræðum við viðbragðsaðila er ábótavant. Nauðsynlegt er að útfærsla og verksvið viðbragðsaðila séu skilgreind áður en lög sem þessi verði samþykkt. Það er algjör lágmarkskrafa að þessi mál séu á hreinu og hver og einn viti sína stöðu, hlutverk og skyldur. Einnig þarf að kostnaðarmeta þennan þátt, en það liggur ekki fyrir.


V. KAFLI; Starfsemi í Hálendisþjóðgarði, landnýting og þjónusta.
22. gr. Hefðbundnar nytjar. Í greininni er tekið fram að hefðbundin landnýting sé rétthöfum heimil í Hálendisþjóðgarði, enda sé nýtingin „sjálfbær“. Hér er ekkert komið inn á það fyrirkomulag sem í gildi hefur verið um landbótaáætlanir og vottun afrétta til beitar. Er hér verið að aftengja það fyrirkomulag sem hefur verið í gildi og gefist vel? Hérna er mörgum spurningum ósvarað og forsendur vanreifaðar. Þetta er eitt af þeim málum sem er nauðsynlegt að hafa á hreinu, þannig að allir átti sig á því hver stefnan er. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar getur ekki sætt sig við þessi vinnubrögð eða illa undirbúið upplegg sem kemur fram í þessari grein frumvarpsins.

Fjármál.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar vill benda á að fjöldi svæða hefur verið friðlýstur á undanförnum árum sem kalla þegar á mikið fjármagn. Það hefur nú þegar reynst ríkisvaldinu þungt í skauti að fjármagna þau verkefni sem stofnað hefur verið til, en mikilvægt er að fjárveitingavaldið tryggi nægjanlegt fjármagn til þeirra friðlýsinga sem þegar hefur verið stofnað til. Það er frumforsenda þess að umræddar friðlýsingar þjóni tilgangi sínum. Þá hefur umhverfisráðherra boðað stofnun nýs þjóðgarðs á Vestfjörðum sem stefnt er að að opna 17.júní í sumar. Sú stofnun hlýtur að útheimta mikla fjármuni ef vel á að vera. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gagnrýnir að ekki sé tekið mark á vinnu þverpólutískunefndarinnar. Í skýrslu hennar kom fram að ítarleg fjármálaáætlun sem taki til uppbyggingar og reksturs innviða þyrfti að fylgja frumvarpi um þjóðgarðinn.

Að lokum:
Eitt af helstu rökum ráðherra fyrir nauðsyn þess að stofna Hálendisþjóðgarð er að varðveita þurfi hálendið fyrir komandi kynslóðir. Verði frumvarpið að lögum eru núverandi stjórnvöld búin að taka sér það valdi að binda hendur komandi kynslóða um það hvernig þær kjósa að nýta stóran hluta landsins. Það er ekkert við núverandi stjórnfyrirkomulag eða framtíðarsýn ríkis og sveitarfélaga er varðar hálendið sem gefur tilefni til að ætla að á næstu árum verði gengið svo nærri hálendinu að komandi kynslóðir geti ekki notið þess. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur langt í frá að verið sé að hugsa um hag komandi kynslóða þegar teknar eru svo stórar og óafturkræfar ákvarðanir um það hvernig komandi kynslóðum ber að nýta landið.
Það er ljóst hverjum þeim sem les frumvarpið að megin tilgangur þess er að koma völdum og ákvörðunartöku á stórum hluta landsins í hendur fárra aðila.
Frumvarp líkt því sem hér er lagt fram er ekki til þess fallið að sátt verði um stofnun Hálendisþjóðgarðs, sem ætti að vera stolt þjóðarinnar.
Því leggst sveitarstjórn Bláskógabyggðar gegn framlögðu frumvarpi.

12. Ráðningarmál, staða kennara á Laugarvatni – 1809055
Erindi Sigríðar Jónsdóttur, dags. 13. janúar 2021.
Bréf Sigríðar Jónsdóttur var lagt fram til kynningar.
13. Friðlýsing svæðis í verndaráætlun. Háhitasvæði Geysis. – 2003013
Bréf umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 14. janúar 2021, um friðlýsingu háhitasvæðis Geysis: 78 Geysir.
Erindið var lagt fram til kynningar.
14. Kynning á Orkídeu samstarfsverkefni – 2101067
Erindi framkvæmdastjóra Orkídeu, dags. 12. janúar 2021, þar sem kynnt er vinna við stefnumótun og aðgerðaráætlun fyrir Orkídeu.
Erindi framkvæmdastjóra Orkídeu var lagt fram.

 

 

 

Fundi slitið kl. 17:14.

 

 

 

Helgi Kjartansson   Valgerður Sævarsdóttir
Óttar Bragi Þráinsson   Kolbeinn Sveinbjörnsson
Guðrún S. Magnúsdóttir   Róbert Aron Pálmason
Axel Sæland   Ásta Stefánsdóttir