29. fundur

 1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 13:30 í Fjallasal Aratungu.

 

 

Mætt voru:

Sveinn A. Sæland oddviti, Margeir Ingólfsson, Drífa Kristjánsdóttir, Kjartan Lárusson, Gunnar Þórisson, Margrét Baldursdóttir, Sigurlaug Angantýsdóttir og Ragnar Sær Ragnarsson sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

 

 

 1. Árseikningar Bláskógabyggðar fyrir árið 2003, fyrri umræða.

Einar Sveinbjörnsson frá KPMG mætti á fundinn.

Ársreikningur aðalsjóðs Bláskógabyggðar fyrir árið 2003 ásamt ársreikningi B-hluta fyrirtækja, Biskupstugnaveitu, Hitaveitu Laugarvatns, Leiguíbúða, Félagslegra íbúða, Vatnsveitu og Fráveitu,  þ.e. samstæða sveitarfélagsins,  fyrri umræða.

Einar Sveinbjörnsson endurskoðandi KPMG kynnti reikninginn sem hefur verið áritaður af skoðunnarmönnum og endurskoðanda sveitarfélagsins.

Samkvæmt ársreikningi A og B hluta eru rekstrartekjur kr. 425.175.000- en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir kr. 413.495.000- og er það frávik frá áætlun upp á 2,8%,  rekstrargjöld eru kr. 418.457.000- en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir kr. 396.718.000 og er það frávik frá áætlun upp á 5,5% og fjármagnsliðir eru            kr. 28.888.000- en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir kr. 25.374.000.   Rekstrarniðurstaðan var neiknæð um kr. 22.170.000- en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu upp á kr. 8.597.000-.

 

Eins og að framan greinir voru heildartekjur ársins um 2,8% hærri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir og rekstrargjöld í heild fóru um 5,5% fram úr áætluninni. Heildarniðurstaðan er að gjöld umfram tekjur eru um kr. 13,6 millj. hærri en áætlun gerði ráð fyrir eða um 3,2% af rekstrartekjum.

 

Samkvæmt yfirliti um lykiltölur var rekstrarkostnaður A hluta á árinu 1,0% hærri en heildartekjur samkvæmt rekstrarreikningi, eða kr.  3,9 millj.  Samsvarandi niðurstöður fyrir samantekin reikningsskil A og B hluta eru 5,2% eða kr. 22,2millj.

 

Laun og launatengd gjöld A hluta námu 49,1% af rekstrartekjum sem er um 2,9% stigum hærri en áætlun gerði ráð fyrir.  Annar rekstrarkostnaður sem hlutfall af rekstrartekjum nam 48,4%, sem er 2,0% stigum umfram áætlun.  Fjármagnsliðir námu 1,3% af rekstrartekjum og voru um 0,5% innan fjárheimilda.

 

Veltufé frá rekstri A og B hluta samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi á árinu 2003 nemur kr. 7,0 millj.  Samkvæmt þeirri niðurstöðu eru  kr. 7,0 millj. eftir af tekjum ársins til greiðslu skulda og fjárfestinga. Samningar um afborganir langtímalána gera ráð fyrir að greiða þurfi um kr. 33,1 millj. árlega næstu ár.  Með vísan til þess er ljóst að miðað við óbreytta niðurstöðu veltufjár frá rekstri vantar árlega um      kr. 26,7 millj. svo unnt verði að standa við afborgunarsamningana án nýrra lántökuheimilda.  Nauðsynlegt er að fara yfir rekstur allra rekstrareininga og stofnana og gæta hagkvæmni svo unnt verði að standa við skuldbindingar sveitarfélagsins.

Samþykkt að taka fjárhagsáætlun ársins 2004 til endurskoðunar, þar sem niðurstaða ársins 2003 liggur fyrir og enn marktækari upplýsingar til að byggja á bæði hvað varðar rekstur og fjárhagsstöðu.  Við þá endurskoðun þarf að huga að enn frekari hagræðingu í rekstri.  Þá er lagt til að gera 9 mánaða milliuppgjör á ársreikningi ársins 2004 til þess að styrkja enn frekar gerð fjárhagsáætlana vegna komandi ára. Reikningnum vísað til síðari umræðu á næsta fundi sveitarstjórnar   1. júní 2004.  Samþykkt.

 

 1. Fundargerð byggðaráðs frá 4. maí 2004. 

Kynnt og samþykkt.

 

 1. Samningur um slátt á opnum svæðum í Bláskógabyggð.

Samningur til eins árs, kynntur á fundinum.  Verkið var boðið út og voru þrír aðilar sem tóku þátt í því.   Samkvæmt drögum að  verksamningi er lagt til að gengið verði til samninga við Gæðaslátt ehf.  en samkvæmt tilboði þeirra, sem var lægst,  er kostnaður við verkið á árinu 2004,  kr. 3.058.224. – með vsk.    Samþykkt að oddviti undirriti samning við viðkomandi fyrirtæki.

 

 1. Nýr vegur milli Þingvalla og Laugarvatns

Ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar um staðsetningu vegarins.

 

Á fundi sínum þann 17.apríl síðastliðinn ákvað Þingvallanefnd vegurinn skyldi lagður utan Gjábakkalands. Sú ákvörðun þýðir að nefndin fellst ekki á leið 12 í tillögu Vegagerðarinnar sem sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur eindregið óskað eftir.

 

Skýring:

Þessi niðurstaða nefndarinnar er sveitarstjórn Bláskógabyggðar vonbrigði og þrátt fyrir mikla fyrirhöfn sem fólst í rökstuðningi fyrir niðurstöðu sveitarstjórnar um leið 12 og tillögum um róttækar breytingar á þjóðgarðsmörkum til eflingar þjóðgarðinum og umsókn til UNESCO tókst ekki að hnika stefnu nefndarinnar sem var mörkuð í umsókninni.

Skipulagsfulltrúi hefur óskað eftir því við Sigurð Oddsson framkvæmdastjóra Þingvallanefndar að formlegt svar berist sveitarstjórn ásamt rökstuðningi nefndarinnar fyrir niðurstöðu sinni enda er það í samræmi við anda skipulags-og byggingarlaga um gegnsæi stjórnvaldsákvarðana. Stutt greinargerð hefur nú borist þar sem fram kemur rökstuðningur nefndarinnar.

 

 

 

Sveitarstjórn sér nú tvo kosti við afgreiðslu málsins:

 1. Að ákveða að leið 7 skuli vera merkt inn á aðalskipulagsuppdrátt Þingvallasveitar sem nú er á vinnslustigi.
 2. Að ákveða að nýr vegur í vegstæði núverandi Gjábakkavegar verði merktur inn á aðalskipulaguppdrátt, leið 1.

    

Vegleið 1 var hafnað í tillögu Vegagerðarinnar að matsáætlun frá maí 2003, þar sem umferðaröryggi og gæði vegar eru lakari en hinir framkvæmdakostirnir  enda er leiðin um 100 metrum hærri og brattari. Við það má bæta að sú veglagning hefði haft í  för með sér mikil áhrif á landslagsásýnd í Barmaskarði og á Laugarvatnsvöllum.  Með þeirri veglagningu yrði hugmyndin um gamla Kóngsveginn sem friðsælan reiðveg að engu höfð.   Þar að auki yrði 50 km hámarkshraði frá fyrirhuguðum þjóðgarðsmörkum við Stóra-Dímon. Kostirnir eru að leiðin er styttri og að útsýni er einstakt.

Um  vegleið 7 er það að segja að hún er góð með tilliti til umferðaröryggis og kostnaðar. Ókostirnir eru þeir eins og áður hefur verið tekið fram að hún er lengri, við leiðina frá Gjábakka bætist við slæm brekka sunnan Gjábakka, umferðarþunginn mun liggja nálægt vatnsbakkanum og  frá veginum verður ekkert útsýni til Þingvallavatns fyrr en við Gjábakka. Þessi leið mun þar að auki beina umferð um Vatnsvik og hafa aukningu á umferð um viðkvæm svæði þjóðgarðsins í för með sér. Gera þarf tillögu að nýju heiti á veginum þar sem að hann liggur ekki um Gjábakka t.d. Lyngdalsheiðarvegur.

 

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að nú þegar verði hafist handa við veglagningu Lyngdalsheiðarvegar (vegleið 7 og 3) þar sem að ákvörðun Þingvallanefndar er sú að vegurinn skuli liggja utan Gjábakkalands. Sveitarstjórn hvetur til  samvinnu allra aðila svo veglagningunni ljúki hið fyrsta.  Vegstæðið verður auglýst  strax í samræmi við skipulagslög á aðalskipulagsuppdráttum.

 

 1. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

Lokadrög að stefnumótun fyrir þjóðgarðinn 2004-2024, útgefin af Þingvallanefnd í maí 2004. Kynnt.  Sveitarstjórn fagnar því að Þingvallanefnd skuli leggja fram nýja stefnumótun fyrir þjóðgarðinn sem skerpir á framtíðarsýn í flestum þeim málum sem lúta að þjóðgarðinum. Áherslur eru að mörgu leiti svipaðar þeim sem fram komu í fyrri stefnu frá 1988 þar sem meginmarkmiðið er að vernda náttúru, sögusvið og minjar til framtíðar en búa jafnframt í haginn fyrir gestakomur sem ætla má að fjölgi jafnt og þétt. Aðferðarfræði þessarar stefnumótunar er til fyrirmyndar og afrakstur hennar getur verið gott leiðarljós til framtíðar.

Þó setur sveitarstjórn athugasemdir við nokkur atriði stefnumótunarinnar og felur Drífu Kristjánsdóttur og Sigurlaugu Angantýsdóttur að ganga frá þeim ábendingum í samræmi við umræðu sem varð á fundinum.

 

 

 1. Skipulagsmál:
 1. a) Lyngdalsheiðarvegur, aðalskipulagsbreyting vestan Laugarvatns vegna legu vegarins um frístundasvæði og mögulega breytt hljóðvistarviðmið.

Lagt fram bréf Vegargerðarinnar: Vegna legu vegarins vestan Laugarvatns í landi Eyvindartungu og sveitarfélagsins þarf að gera aðalskipulagsbreytingu á frístundasvæði.  Stærð þeirrar breytingar á svæðinu er háð því hvort að sveitarstjórn ákveður að fara í aðalskipulagsbreytingu á mörkum frístundabyggðar eða að óska eftir breytingu á viðmiðunarmörkum hljóðvistar. Ekki er nauðsyn á að breyta landnotkun skv. aðalskipulagi á ræmunni 30 – 70 m fjarlægð frá miðlínu vegar, ef Bláskógabyggð óskar eftir leyfi hjá Heilbrigðisnefnd Suðurlands þess efnis að hávaði verði yfir viðmiðunarmörkum á umræddu svæði.

 

Sveitarstjórn samþykkir að óska eftir því við Heilbrigðisnefnd að hún geri tilslakanir á hljóðvistarkröfum í samræmi við erindi Vegagerðarinnar. Um leið lýsir hún sig reiðubúna til að beita sér fyrir breyttri afmörkun frístundasvæðis í landi Eyvindartungu í aðalskipulagi í samvinnu við landeigendur þegar matsnefnd eignarnámsbóta hefur komist að niðurstöðu um eignarbætur vegna vegagerðarinnar.

 1. b) Lyngdalsheiðarvegur, aðalskipulagsbreyting austan Reyðarbarms.

Tillaga skipulagsfulltrúa að aukinni hverfisvernd við aðalskipulagsbreytingar sem tengjast legu Lyngdalsheiðarvegar hjá Blöndumýri. Nauðsynlegt er að afmarka nánar hverfisvernd Blöndumýrar og Kringlumýrar. Auk þess leggur skipulagsfulltrúi til að hverfisvernd á svæðinu verði útvíkkuð þannig að hún nái til Beitivalla og Laugarvatnsvalla vegna náttúrufars og menningarsögulegs gildis.

Sveitarstjórn fellst á hugmynd um vegtengingu frá nýja veginum við núverandi Gjábakkaveg um malarhrygginn milli Beitivalla og Blöndumýrar. Sú tenging er ódýrust og hefði minnst umhverfisáhrif  og þannig yrði til góð leið frá veginum yfir á Laugarvatnsvelli og að Laugarvatnshellum.

Sveitarstjórn tekur undir tillöguna og felur skipulagsfulltrúa að vinna að útfærslu tillögunnar í samvinnu við Náttúrufræðistofnun og hönnuð aðalskipulagsins.

 1. c) Skálabrekka.

Tillaga um framkvæmdaleyfi fyrir íbúðarhús að Skálabrekku í Þingvallasveit skv. 3.tl. viðauka við skipulags-og byggingarlög enda er hér um staka framkvæmd að ræða þar sem ekki liggur fyrir aðalskipulag. Ekkert íbúðarhús er fyrir á jörðinni þar sem að gamla íbúðarhúsið brann fyrir nokkrum árum. Staðsetning hússins er norðan við gamla bæjarhúsið en í miðju túni og notast við sömu vegtengingu.

Samþykkt og skipulagsfulltrúa falin vinnsla málsins.

 

 

 

 1. d) Skálabrekka, stöðvun skipulagsfulltrúa á óleyfilegri efnistöku í fjöruborði Þingvallavatns.

Þriðjudaginn 10. maí stöðvaði skipulagsfulltrúi uppsveita óleyfilega efnistöku í vatnsborði Þingvallavatns í landi Skálabrekku með vísan í      47. grein laga um náttúruvernd nr. 44/1999, 7. grein vatnalaga nr. 15/1923 og 27. grein skipulags-og byggingarlaga. Kynnt.

 1. e) Goðatún á Reykjavöllum,

Lagt fram deiliskipulag tveggja frístundalóða og einnar landbúnaðarlóðar í Goðatúni úr landi Reykjavalla. Deiliskipulagið var í auglýsingu 24. mars til  21. apríl 2004 og athugasemdarfrestur var til 5. maí 2004. Athugasemdir bárust frá FSHR (félag sumarhúsaeigenda í landi Reykjavalla) innan tilskilins frests og eru þær lagðar fyrir fundinn. Samþykkt voru drög skipulagsfulltrúa að svari við athugasemdum.

Sveitarstjórn  samþykkir skipulagið en ákveðið að hámarksstærð frístundahúsa skuli vera 160 m2, hámarksmænishæð 5 metrar og húsin einnar hæðar.

 1. f) Útey 1, breyting notkunar fyrrverandi íbúðarhúss (gamla bæjarhússins) úr frístundahúsi í íbúðarhús. Vísað til byggingarnefndar.
 2. g) Úthlíð, tvö lóðablöð

Lögð fram tvö lóðablöð fyrir núverandi íbúðarhús.  Úthlíð 1a sem er      785 m2 og Úthlíð 2a sem er 4.316 m2.

Lóðaskiptingin samþykkt

 1. h) Skálabrekka, land Völu Thoroddsen o.fl.

Lagður fram eignaskiptasamningur ásamt hnitsettum lóðablöðum af landi því sem Guðmann Ólafsson seldi 1957 til fimm aðila.

Sveitarstjórn samþykkir skiptinguna og fellur frá forkaupsrétti.

 1. i) Syðri-Reykir, lóðablöð tveggja sumarhúsalóða

Lögð fram tvö lóðablöð sumarhúsalóða úr landi Syðri-Reykja. Önnur lóðin er 4.480 m2 og er í eigu Eddu Kolbrúnar Metúsalemsdóttur,  hin lóðin er 5.744 m2 og er í eigu Guðmundar G. Þórarinssonar.

Sveitarstjórn samþykkir lóðaskiptinguna og fellur frá forkaupsrétti.

 1. j) Efri-Reykir

Lagður fram uppdráttur með landskiptum úr landi Efri-Reykja. Land norðan Laugarvatnsvegar sem er sumarhúsasvæði verður aðskilið frá landi jarðarinnar. Sveitarstjórn samþykkir skiptinguna og fellur frá forkaupsrétti.

 

 

 1. Frumvarp til laga um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

Ósk umhverfisnefndar Alþingis um umsögn Bláskógabyggðar.

Sveitarstjóra falið að svara erindinu í samræmi við 3. lið í fundargerð sveitarstjórnar 6. apríl 2004.

 

 1. Lánasjóður sveitarfélaga.

Bréf frá Lánasjóði sveitarfélaga dags. 12. maí 2004 þar sem samþykkt er lánsumsókn sveitarfélagsins frá 20. janúar 2004.   Í samræmi við það er samþykkt lán af eigin ráðstöfunarfé sjóðsins að fjárhæð 19 milljónir vegna skuldbreytinga,  með breytilegum vöxtum nú  4,5%,  bundið vísitölu neysluverðs,  til 15 ára.  Einnig af endurlánafé sjóðsins kr. 24 milljónir með föstum vöxtum 4,23% bundið vísitölu neysluverð,  til 15 ára.  Sveitarstjórn samþykkir lántökuna, lánsfjárhæð, lánskjör og að veita tryggingu í tekjum sveitarfélagsins vegna lántökunnar,        sbr. 3. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og 13. gr. laga um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 35/1966.   Samþykkt.

 

 

 

Fundi slitið kl. 18:45