295. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar

 

 

 

 

 

295. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn í Aratungu, Reykholti,

fimmtudaginn 9. desember 2021, kl. 15:15.

 

 

Fundinn sátu:

Helgi Kjartansson, Valgerður Sævarsdóttir, Óttar Bragi Þráinsson, Kolbeinn Sveinbjörnsson, Guðrún S. Magnúsdóttir, Róbert Aron Pálmason, Axel Sæland og Ásta Stefánsdóttir.

 

 

Fundargerð ritaði: Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri.

 

 

1.   Fundargerð skipulagsnefndar – 2101007
229. fundur haldinn 8. desember 2021. Afgreiða þarf sérstaklega liði nr. 2 til 5.
-liður 2, Stakkholt og Vallarholt í landi Reykjavalla; Skilmálabreyting; Deiliskipulagsbreyting – 2111050
Lögð er fram umsókn frá Kress ehf. er varðar breytingu á deiliskipulagi Stakkholts og Vallarholts í landi Reykjavalla. Í breytingunni felst skilgreining nýrra skilmála fyrir deiliskipulagssvæðið.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir viðkomandi breytingu á deiliskipulagi svæðisins verði samþykkt. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar breytingar á deiliskipulagi og verði sérstaklega kynnt sumarhúsafélagi innan svæðisins.
-liður 3, Eyvindartunga L167632; Stækkun Lönguhlíðarnámu E19; Aðalskipulagsbreyting – 2103067
Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar sem tekur til stækkunar á Lönguhlíðarnámu E19 í landi Eyvindartungu. Í breytingunni felst að náman stækkar úr 2 ha í 4,95 ha og efnismagn úr 50.000 m3 í 149.500 m3. Lýsing verkefnisins var kynnt frá 19. maí – 9. júní, umsagnir bárust á kynningartíma lýsingar og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir tillögu aðalskipulagsbreytingar til kynningar í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

-liður 4, Tungubakkar L216003; Frístundabyggð; Fyrirspurn – 2112006
Lögð er fram fyrirspurn frá Konráð Erni Skúlasyni er varðar uppbyggingu sumarhúsahverfis á landi Tungubakka L216003.
Sveitarstjórn frestar afgreiðslu málsins og felur oddvita og sveitarstjóra að funda með umsækjanda og Vegagerðinni vegna málsins.

-liður 5, Stekkatún 1 L222637 og Stekkatún 5 L224218; Skilmálar og fyrirhuguð uppbygging; Deiliskipulagsbreyting – 2009066
Lögð er fram umsókn vegna deiliskipulags að Stekkatúni 1 og 5 eftir auglýsingu. Í deiliskipulaginu felst skilgreining byggingarreita og byggingaskilmála innan svæðisins. Eftir auglýsingu hafa verið gerðar breytingar á deiliskipulagstillögunni sem taka til athugasemda Skipulagsstofnunar auk þess sem bætt hefur verið við byggingarheimild fyrir allt að 300 fm skemmu á lóðum 1 og 5.
Sveitarstjórn telur að þær breytingar sem gerðar hafa verið séu ekki grundvallarbreyting á deiliskipulagi eftir auglýsingu og telur því ekki þörf á að auglýsa tillöguna á nýjan leik. Sveitarstjórn mælist þó til þess að breytingin verði kynnt innan skipulagssvæðisins áður en tillagan tekur gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu og að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar.

Fundargerðin var lögð fram til kynningar hvað aðra liði varðar.

2.   Fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa – 2101008
154. fundur haldinn 1. desember 2021.
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
Mál nr. 24 er sérstakur liður á dagskrá þessa fundar, nr. 33.
3.   Fundargerð skólaþjónustu- og velferðarnefndar Árnesþings – 2101009
52. fundur haldinn 30. nóvember 2021
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
4.   Fundargerð aðalfundar Bergrisans – 2101021
Aðalfundur Bergrisans bs haldinn 24. nóvember 2021. Afgreiða þarf sérstaklega tillögu stjórnar um stofnun sjálfseignastofnunar um byggingu og rekstur íbúðakjarna fyrir fatlað fólk.
Fundargerðin var lögð fram til kynningar, að undanskilinni tillögu stjórnar um stofnun sjálfseignarstofnunar um byggingu og rekstur íbúðakjarna fyrir fatlað fólk. Bláskógabyggð samþykkir, fyrir sitt leyti, að stofnuð verði sjálfseignarstofnun um byggingu og rekstur íbúðakjarna fyrir fatlað fólk, sem muni eiga og annast rekstur húsnæðisins. Stofnfé verði samtals 1.000.000 kr og samþykkir Bláskógabyggð að hlutur sveitarfélagsis verði 46.402 kr.
5.   Fundargerðir stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga 2021 – 2101025
903. fundur haldinn 26. nóvember 2021
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
6.   Fundargerðir stjórnar SASS 2021 – 2101022
Ályktanir aðalfundar SASS, sem haldinn var 28. og 29. október 2021.
Ályktanir aðalfundar SASS voru lagðar fram til kynningar.
7.   Samþykkt um verndarsvæði vatnsbóla – 2111037
Samþykkt um verndarsvæði vatnsbóla innan lögsagnarumdæma sveitarfélaganna á svæði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. Síðari umræða.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir fyrir sitt leyti samþykkt um verndarsvæði vatnsbóla innan lögsagnarumdæma sveitarfélaganna á svæði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.
8.   Lóðin Brekkuholt 9 Reykholti – 2111021
Beiðni Lyngheiðar ehf, dags. 6. desember 2021, um að skila lóðinni Brekkuholti 11, Reykholti.
Sveitarstjórn samþykkir að lóðinni verði skilað og felur sveitarstjóra að sjá til þess að hún verði auglýst að nýju.
9.   Lóðin Brekkuholt 11 Reykholti – 2111022
Beiðni Lyngheiðar ehf, dags. 6. desember 2021, um að skila lóðinni Brekkuholti 9, Reykholti.
Sveitarstjórn samþykkir að lóðinni verði skilað og felur sveitarstjóra að sjá til þess að hún verði auglýst að nýju.
10.   Umsókn um stofnun lögbýlis Ferjuvegur 1 og Langholtsvegur 2 og 4 – 2112005
Beiðni Vernharðs Gunnarssonar, dags. 5. desember 2021, um umsögn um stofnun lögbýlis að Ferjuveg nr.1 (F 2205558), Langholtsvegi nr. 2(F 2346135) og nr. 4 (F 2346137).
Sveitarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti að stofnað verði lögbýli á lóðunum Ferjuveg nr. 1 (F 2205558), Langholtsvegi nr. 2 (F 2346135) og nr. 4 (F 2346137) í Laugarási. Breytingu á deiliskipulagi vegna þess er vísað til vinnu að nýju deiliskipulagi fyrir Laugarás.
11.   Íbúðarlóðir við Traustatún, Laugarvatni – 2112006
Erindi Jórunnar Elvu Guðmundsdóttur o.fl., dags. 4. desember 2021, varðandi lóðir við Traustatún og úthlutun þeirra.
Í erindi bréfritara er þess farið á leit að flýtt verði gatnagerð og úthlutun lóða í Traustatúni, reit 2.
Deiliskipulag fyrir Laugarvatn var samþykkt af sveitarstjórn 20. maí 2021, og tók það gildi 25. júní 2021. Í því skipulagi er gert ráð fyrir að á reit 2 séu lóðir við Traustatún 12-16 og 1-13. Lóðir númer 11 og 13 voru auglýstar lausar til úthlutunar í mars 2021 með fyrirvara um gildistöku deiliskipulagsins.
Í tengslum við deiliskipulagsvinnuna var tekin sú ákvörðun á fundi framkvæmda- og veitustjórnar í mars sl. að láta hanna götuna Traustatún frá Laugarbraut að Traustatúni 9. Leitað var tilboða í verkið, samhliða sambærilegu verki í Reykholti, en verkefnastaða á verkfræðistofum var með þeim hætti að engin tilboð bárust. Var þá leitað til Eflu, verkfræðistofu, en fyrir vann Efla að hönnun fráveitu á Laugarvatni. Í lok maí lá fyrir að Efla myndi gefa tilboð í verkefnið, án þess að geta sett það í forgang, og samþykkti framkvæmda- og veitunefnd í byrjun júní að taka tilboði Eflu. Áætlað er að verkið, gatnagerð og lagnavinna, verði tilbúið til útboðs í febrúar n.k. og verði það þá boðið út. Ekki er mögulegt að flýta gatnagerð umfram það.
Á þessu ári hefur sveitarstjórn úthlutað tveimur einbýlishúsalóðum á Laugarvatni og tveimur parhúsalóðum og eru nú 10 lóðir lausar til úthlutunar. Áætlað er að unnt verði að bjóða fleiri lóðir, tengt áformaðri gatnagerð. Ákvörðun um hvenær lóðirnar verða auglýstar lausar til úthlutunar verður tekin að lokinni gatnahönnun og útboði. Gangi það ferli skv. áætlun má vænta þess að lóðunum verði úthlutað áður en gatnagerð lýkur, með fyrirvara um lok gatnagerðar.
12.   Aðstaða fyrir ferðamenn í Kerlingarfjöllum – 2112008
Erindi Skipulagsstofnunar, dags. 2. desember 2021, þar sem óskað er eftir umsögn um fyrirhugaða framkvæmd Fannborgar hvað varðar uppbyggingu aðstöðu fyrir ferðamenn í Kerlingafjöllum og skipulagslýsingu Hrunamannahrepps, dags. 25. október 2021.
Í umsögninni skal koma fram eftir því sem við á, hvort umsagnaraðili telji að nægjanlega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun eftir því sem við á. Jafnframt hvort og þá hvaða atriði umsagnaraðili telur þurfa að skýra frekar og hvort þau kalli að hans mati á að framkvæmdin fari í umhverfismat að teknu tilliti til viðmiða í 2. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Jafnframt skal í umsögn gera grein fyrir leyfum sem framkvæmdin er háð og eru á starfssviði umsagnaraðila. Þá skal, eftir því sem við á, benda á atriði sem nýst geta við endanlega útfærslu deiliskipulagstillögunnar og vinnslu hennar.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur að nægilega sé gerð grein fyrir fyrirhugagðri framkvæmd í framlögðum gögnum, umhverfi hennar, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun. Það er mat sveitarstjórnar að framkvæmdin þurfi ekki að fara í umhverfismat. Framkvæmdir á grundvelli fyrirspurnarinnar eru ekki háðar leyfisveitingum af hálfu Bláskógabyggðar.
13.   Lántökur 2021 – 2101047
Lántökur skv. fjárhagsáætlun 2021. Tillaga um að tekið verði 110 millj.kr. lán hjá Lánasjóði íslenskra sveitarfélaga.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir hér með á sveitarstjórnarfundi að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 110.000.000, þar af kr. 69.000.000 með lokagjalddaga þann 23. mars 2040, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem sveitarstjórnin hefur kynnt sér. Þá hefur sveitarstjórnin kynnt sér gildandi græna umgjörð Lánasjóðs sveitarfélaga og samþykkir að rástöfun lánsins falli að henni. Sveitarstjórn samþykkir að kr. 41.000.000 verði til 12 ára í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem sveitarstjórnin hefur kynnt sér.
Sveitarstjórn samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól, uppgreiðslugjaldi auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Er lánið tekið annars vegar til framkvæmda við fráveitulagnir, kaupa á hreinsistöð og göngustígagerð, og hinsvegar til framkvæmda við lagningu ljósleiðara sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Jafnframt er Ástu Stefánsdóttur, sveitarstjóra, kt. 251070-3189, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Bláskógabyggðar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.
14.   Innleiðing Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna – 2109037
Verkfærakista um heimsmarkmiðin fyrir sveitarfélög, kynning á næstu skrefum í innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna hjá Bláskógabyggð. https://www.heimsmarkmidin.is/verkfaeri
Oddviti og sveitarstjóri gerðu grein fyrir fundi sem haldinn var með sveitarfélögum sem taka þátt í sameiginlegu verkefni um innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og næstu skrefum í vinnunni, sem snúa að kortlagningu á því hvaða þættir í starfsemi sveitarfélagsins styðja nú þegar við sjálfbærni, hverjir eru helstu samráðs- og samstarfsaðilar og hvernig aðstæður eru innan sveitarfélagsins í efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu tilliti.
15.   Stafræn húsnæðisáætlun Bláskógabyggðar – 2112012
Húsnæðisáætlun Bláskógabyggðar
Sveitarstjóri gerði grein fyrir vinnu við stafræna húsnæðisáætlun, sem lögð verður fram til samþykktar á næsta fundi.
16.   Reglur um skólaakstur – 2108013
Reglur um skólaakstur
Sveitarstjórn samþykkir reglur um skólaakstur.
17.   Hönnun húsnæðis fyrir UTU – 2106036
Staðsetning húsnæðis UTU við Hverabraut.
Í tengslum við hönnun aðkomu að fyrirhugaðri nýbyggingu fyrir embætti skipulags- og byggingarfulltrúa hafa komið fram ábendingar um að einfalda mætti framkvæmdir við aðkomu að húsinu. Sveitarstjórn felur oddvita og sveitarstjóra að gera tillögu að útfærslu á breytingu á deiliskipulagi í takt við umræður á fundinum.
18.   Íþróttahúsið á Laugarvatni, gólf – 2110018
Minnisblað starfshóps varðandi endurbætur á gólfi íþróttahússins á Laugarvatni.
Lagt var fram minnisblað starfshóps frá 9. desember 2021, ásamt ástandsmati eignarinnar frá 2017 og töflu um notkun íþróttahússins á haustönn 2021. Í minnisblaðinu er farið yfir ástand gólfsins og lagt mat á tvo kosti við endurbætur, annarsvegar að klæða það með dúk og hinsvegar að leggja parket á gólfið. Mat starfshópsins er að parketgólf sé betri og hentugri kostur með tilliti til þeirrar nýtingar sem er í húsinu. Einnig megi búast við betri nýtingu æfingahópa á húsinu ef parketgólf verður fyrir valinu. Hópurinn leggur jafnframt áherslu á að komið verði í veg fyrir þann leka sem er í þakinu yfir íþróttagólfinu.
Sveitarstjórn samþykkir að á árinu 2022 verði ráðist í skipti á gólfefnum í íþróttahúsinu á Laugarvatni og verði lagt parketgólf á íþróttasalinn. Jafnframt verði þak hússins lagfært til að koma í veg fyrir leka. Í fjárhagsáætlun ársins er gert ráð fyrir fjármagni til verkefnisins.
19.   Raforkuverð á Laugarvatni – 2112014
Ályktun sveitarstjórnar um að þéttbýlið á Laugarvatni verði fellt undir þéttbýlistaxta í gjaldskrá RARIK, þar sem íbúafjöldi er nú kominn yfir 200 íbúa markið sem skilgreiningar RARIK miða við.
Samkvæmt 25. gr. regugerðar nr. 1040/2005 um framkvæmd raforkulaga er dreifiveitu einungis heimilt að hafa sérstaka gjaldskrá á dreifbýlissvæðum og er þar miðað við staði þar sem færri en 200 manns búa. Íbúar á Laugarvatni eru nú 206 talsins skv. upplýsingum þjóðskrár, en Laugarvatn er enn fellt undir dreifbýlistaxta RARIK. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar beinir því til RARIK að breyta gjaldtöku fyrir raforkunotkun á Laugarvatni, þannig að miðað verði við almenna gjaldskrá sem gildir í þéttbýli. Sveitarstjóra er falið að senda RARIK bókun þessa, svo og Orkustofnun, sem veitir dreifiveitum heimild til undanþága frá notkun almennrar gjaldskrár og fer með eftirlitshlutverk gagnvart dreifiveitum.
20.   Snjómokstur á vegum Vegagerðarinnar – 2112015
Ályktun Bláskógabyggðar um stig vetrarþjónustu Vegagerðarinnar
Bláskógabyggð hefur verið í samskiptum við Vegagerðina á liðnum vikum vegna vetrarþjónustu sem Vegagerðin sinnir í sveitarfélaginu og hefur m.a. verið mælst til þess að vegir séu mokaðir snemma á morgnana, áður en fólk fer til vinnu og snjór treðst. Hefur einnig verið þrýst á að vetrarþjónusta verði aukin á Skálholtsvegi, Reykjavegi, Bræðratunguvegi, Kjósarskarðsvegi, Þingvallavegi (frá gatnamótum Lyngdalsheiðarvegar og Biskupstungnabrautar) og Skeiða- og Hrunamannavegi, en allir þessir vegir eru í þeim flokki að aðeins er veitt vetrarþjónusta fimm daga í viku, ekki á þriðjudögum og laugardögum. Vegagerðin hefur í einhverjum tilvikum brugðist við og sinnt vetrarþjónustu á dögum sem ekki falla undir daga sem veita skal þjónustu á. Af hálfu Bláskógabyggðar er lögð áhersla á að vegir þessir verði mokaðir eftir þörfum, ekki bara þá daga sem skipulag Vegagerðarinnar gerir ráð fyrir. Alla jafna skapast ekki þörf fyrir slíkt oftar en fimm daga í viku, a.m.k. ef horft er til veðurlags síðustu ára. Þá er einnig mikilvægt að þessir vegir séu mokaðir það snemma að snjór troðist ekki og svell myndist, með tilheyrandi hálku. Nauðsynlegt er að hálkuverja (sanda) þegar mikil hálka er og getur mokstur áður en snjór treðst komið í veg fyrir að ráðast þurfi í slík verkefni. Á Skálholtsvegi eru t.d. miklar brekkur sem geta orðið mjög hættulegar í hálku. Skálholtsvegur er mikilvæg umferðaræð, enda er heilsugæsla fyrir allar uppsveitir Árnessýslu staðsett í Laugarási og nauðsynlegt að íbúar hafi greitt aðgengi að henni. Um framangreinda vegi fara skólabörn alla virka daga og er nauðsynlegt að huga að öryggi þeirra, sem og annarra vegfarenda. Fjölmargir sækja vinnu milli sveitarfélaganna í uppsveitum Árnessýslu og er nauðsynlegt fyrir þessi samfélög að vegir séu greiðfærir. Góð vetrarþjónusta kemur í veg fyrir að fólk missi úr vinnu, börn komist ekki í skóla og getur dregið úr kostnaði samfélagsins við tjón á ökutækjum og slys á vegfarendum. Góð vetrarþjónusta verður því að teljast hagkvæm og stuðla að sjálfbærni sveitarfélaga og svæða, í anda Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
21.   Samstarf við N4 um þáttagerð – 2112013
Erindi N4 um samstarf um þáttagerð.
Lagðar voru fram upplýsingar um áhorfstölur N4 og hvar unnt er að nálgast efni fjölmiðilsins. Þá var einnig lagt fram, sem trúnaðarskjal, samningsform, komi til þess að Bláskógabyggð ráðist í samstarf við N4 um þáttagerð og sýninar á miðlum N4 á árinu 2022. Umræða varð um málið.
Sveitarstjórn samþykkir að taka þátt í verkefninu og felur sveitarstjóra að undirrita samning við N4. Gert er ráð fyrir kostnaði í fjárhagsáætlun sem er til afgreiðslu á fundinum.
°
22.   Fjárhagsáætlun 2022 og 2023 til 2025 – 2108026
Forsendur fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022.
Sveitarstjóri gerði grein fyrir helstu forsendum fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021. Sveitarstjórn samþykkir eftirfarandi forsendur fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022:

1. Útsvar:
Útsvar fyrir árið 2022 verði 14,52%.

2. Verðlag:
Gert er ráð fyrir 3,3% verðbólgu skv. þjóðhagsspá.

3. Aðrar forsendur:
Gert er ráð fyrir að íbúafjöldi haldist óbreyttur.

4. Fasteignagjöld:
i) Fasteignaskattur:
A-liður Fasteignaskattur íbúðarhúsnæðis eins og það er skilgreint í a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 verður 0,5% af heildarfasteignamati.
B-liður Fasteignaskattur af opinberum byggingum eins og þær eru skilgreindar í b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 verður 1,32% af heildarfasteignamati.
C-liður Fasteignaskattur atvinnuhúsnæðis og annarra eigna eins og þær eru skilgreindar í c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 verður 1,50% af heildarfasteignamati.
Afsláttur sem er veittur tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum sem eiga lögheimili í viðkomandi fasteign fer eftir samþykkt um tekjuviðmið sem samþykkt var í sveitarstjórn Bláskógabyggðar þann 7. apríl 2011.

ii) Vatnsgjald:
Vatnsgjald verður 0,3% af heildarfasteignamati eigna sem tengst geta vatnsveitu sveitarfélagsins. Hámarksálagning verður 59.049 á sumarhús og íbúðarhús. Lágmarksálagning verður 17.727.

iii) Gjaldskrá fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Bláskógabyggð:

Fráveitugjald verði 0,27% af heildarfasteignamati eigna sem tengjast fráveitukerfum sveitarfélagsins.
Sveitarfélagið innheimtir árlega rotþróargjald til niðurjöfnunar á kostnaði við tæmingu rotþróa, skv. 18. gr. samþykktar um fráveitur og rotþrær í Bláskógabyggð.
Árlegt rotþróargjald þar sem tæming á sér stað þriðja hvert ár skal vera eftirfarandi:
Rotþró 0 ?6000 lítra kr. 12.894.
Rotþró 6001 lítra og stærri kr. 2.866 pr./m3
Árlegt rotþróargjald þar sem tæming á sér stað annað hvert ár skal vera eftirfarandi:
Rotþró 0 ?6000 lítra kr. 19.335.
Rotþró 6001 lítra og stærri kr. 4.313 pr./m3
Árlegt rotþróargjald þar sem tæming á sér stað á hverju ári skal vera eftirfarandi:
Rotþró 0 ?6000 lítra kr. 38.683
Rotþró 6001 lítra og stærri kr. 8.602 pr./m3
Fyrir aukahreinsun, að beiðni eiganda, greiðist eftirfarandi:
Aukahreinsun á rotþró í tengslum við aðra hreinsun kr. 46.000.
Aukahreinsun á rotþró sem sérferð kr. 113.000.
Afsláttur sem er veittur tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum sem eiga lögheimili í viðkomandi fasteign fer eftir samþykkt um tekjuviðmið sem samþykkt var í sveitarstjórn Bláskógabyggðar þann 7. apríl 2011.

iv) Lóðarleiga:
Lóðarleiga verði 1% af fasteignamati lóða.

v) Gjaldskrá vegna meðhöndlunar úrgangs 2022:
Sorphirðugjald:
Ílátastærð
240 l ílát 42.947 kr.
360 l ílát 55.240 kr.

240 l ílát, stækkun 1 46.847 kr. (stækkun á brún/blá/græntunnu)
240 l ílát, stækkun 2 63.841 kr. (stækkun á grátunnu)
240 l lílát, stækkun 3 46.847 kr. (stækkun á tveimur tunnum af brún/blá/græntunnum)

Sorpeyðingargjald vegna heimilisúrgangs:
Íbúðarhúsnæði 29.921 kr.
Frístundahúsnæði 25.237 kr.
Lögbýli 16.850 kr.
Fyrirtæki 62.355 kr.

Klippikort verða afhent greiðendum sorpeyðingargjalda.
Móttökugjald á einn m3: 6.000 kr.
Gjalddagar fasteignagjalda verði 6 talsins, innheimt mánaðarlega frá 1. febrúar 2022. Eindagar eru 30 dögum eftir gjalddaga.
5. Gjaldskrár aðrar:
Aðrar gjaldskrár hækka almennt um 3% og er vísað í texta þeirra á heimasíðu.

Texti gjaldskráa eins og hann er birtur í B-deild Stjórnartíðinda gengur framar þessum texta ef misræmi reynist vera.

23.   Gjaldskrá Bláskógaljóss 2022 – 2111040
Gjaldskrá Bláskógaljóss 2022, síðari umræða
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrána.
24.   Gjaldskrá mötuneytis 2022 – 2111007
Gjaldskrá mötuneytis, síðari umræða
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrána.
25.   Gjaldskrá frístundar 2022 – 2112011
Gjaldskrá frístundar fyrir árið 2022
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrána.
26.   Gjaldskrá Bláskógaljóss 2022 – 2111040
Gjaldskrá Bláskógaljóss, síðari umræða.
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrána.
27.   Gjaldskrá sorphirðu og gámasvæða 2022 – 2111006
Gjaldskrá sorphirðu og gámasvæða. Síðari umræða.
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrána.
28.   Gjaldskrá leikskóla 2022 – 2111005
Gjaldskrá leikskóla, síðari umræða.
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrána.
29.   Gjaldskrá fráveitu 2022 – 2111004
Gjaldskrá fráveitu og rotþróa. Síðari umræða.
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrána.
30.   Gjaldskrá vatnsveitu – 2111003
Gjaldskrá vatnsveitu. Síðari umræða.
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrána.
31.   Gjaldskrá hitaveitu 2022 – 2111002
Gjaldskrá hitaveitu. Síðari umræða.
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrána.
32.   Fjárhagsáætlun 2022 og 2023 til 2025 – 2108026
Fjárhagsáætlun 2022 og þriggja ára áætlun 2023-2025. Síðari umræða.
Fjárhagsáætlun 2022-2025 fyrir Bláskógabyggð var lögð fram til lokaumræðu og afgreiðslu. Sveitarstjóri fór yfir ýmsa liði áætlunarinnar.
Lögð var fram eftirfarandi greinargerð með fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 og þriggja ára áætlun 2023-2025.
Fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar fyrir árið 2022 er lögð fram til síðari umræðu í sveitarstjórn fimmtudaginn 9. desember 2021.
Grunnur fjárhagsáætlunar 2022-2025 byggir á áætlun 2021 með viðaukum.
Almenna reglan er að tölulegur hluti fjárhagsáætlunar ræður ef misræmi kann að vera á milli texta í greinargerð og tölulega hlutans.

I Fjárhagsáætlun 2022
Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2022, eins og hún er lögð fram til síðari umræðu í sveitarstjórn, er áætlað að rekstrarafgangur verði 31,7 millj.kr. eftir fjármagnsgjöld, afskriftir og skatta.
Líkt og fyrir ári síðan er óvissa um þróun útsvarstekna vegna samdráttar af völdum Covid-19. Útsvarstekjur vegna ársins 2021 voru varlega áætlaðar og lítur ekki út fyrir að tekjur verði umfram áætlun. Ef útsvarstekjur sveitarfélaga fyrstu 9 mánuði þessa árs eru skoðaðar kemur í ljós að hækkun á landsvísu miðað við fyrstu 9 mánuði síðasta árs nemur 6,6% og á Suðurlandi er hækkunin 8,9% að meðaltali. Í Bláskógabyggð standa útsvarstekjur hinsvegar í stað á milli ára, þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi aðeins mælst 2,2% á haustmánuðum. Í fjárhagsáætluninni er fylgt áætlun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um þróun greiðslna úr Jöfnunarsjóði og horft til áætlunar Sambands íslenskra sveitarfélaga um þróun útsvarstekna.
Rekstrarútgjöld hækka milli ára, bæði vegna aukinnar verðbólgu, sem kemur fram sem hækkun á ýmsum liðum sem snúa að vöru- og þjónustukaupum, en einnig vegna áhrifa af kjarasamningsbundnum launahækkunum. Kjarasamningar fjölmennra starfsstétta sveitarfélaga eru lausir á næsta ári. Breytingar á kjarasamningum sem voru gerðar á árinu 2020 hafa leitt til aukins launakostnaðar, en samið um breytingar á vinnutíma, svo sem lengingu orlofs fyrir alla í 30 daga, fjölgun undirbúningstíma á leikskólum og styttingu vinnuvikunnar. Rekstrarafgangur fyrir fjármagnsgjöld og skatta er áætlaður 113,8 millj.kr. og veltufé verði 115 millj.kr. eða 6,0% af heildartekjum.
Óverulegar breytingar eru á rekstri einstaka eininga og stofnana, útgjöld aukast þó, m.a. vegna kjarasamningshækkana og verðlagshækkana, líkt og að framan er getið. Áætlað er að útgjöld til fræðslumála, sem eru sá málaflokkur sveitarfélagsins sem tekur til sín mest fjármagn hækki um 13% og æskulýðs- og íþróttamál um 23%. Áætlað er að taka upp frístundastyrki fyrir börn og ungmenni og verða reglur þar að lútandi mótaðar í upphafi næsta árs. Útgjöld aukast talsvert við nokkur af samstarfsverkefnum sveitarfélaganna, á það m.a. við um velferðarþjónustu, þar sem framlög hækka um rúm 37%, en fjölga þarf stöðugildum, einkum vegna aukins álags í barnavernd og Brunavarnir Árnessýslu, þar sem kostnaðarhlutdeild Bláskógabyggðar hækkar um tæp 8% á milli ára.
Gjaldskrár vegna leikskólagjalda og mötuneytis hækka um 3%. Kostnaður vegna sorpeyðingar hefur farið stighækkandi á síðustu árum, langt umfram verðlagshækkanir. Ástæður þess eru ýmsar, magn úrgangs eykst stöðugt, leiðir til afsetningar úrgangs verða sífellt flóknari og kostnaðarsamari, m.a. er almennur úrgangur nú fluttur erlendis til brennslu til orkuöflunar. Leitast hefur verið við að lækka hlutfall almenns úrgangs með aukinni flokkun, en betur má ef duga skal. Þá hefur kostnaður við rekstur gámasvæða aukist, enda hefur opnunartími þeirra verið lengdur á síðustu árum og stöðugildum starfsmanna verið fjölgað, m.a. til að bæta flokkun. Tekjur sveitarfélaga af sorphirðu- og sorpeyðingargjöldum eiga að standa undir rekstri málaflokksins, en um árabil hefur verið verulegur halli á rekstrinum. Gjaldskrá sorphirðugjalda hækkar nú um 2%, en gjald fyrir sorpeyðingu hækkar um 18%. Þetta þýðir að heimili sem greiðir sorphirðu- og sorpeyðingargjald mun greiða 5.406 kr meira á árinu 2022 en 2021 og sumarhús 3.850 kr meira 2022 en 2021. Þrátt fyrir þessar hækkanir á gjaldskrá er áætlað að greiða þurfi um 30,5 millj.kr. með málaflokknum á næsta ári. Klippikort verða áfram til reiðu fyrir greiðendur sorpeyðingargjalda. Íbúar eru hvattir til að minnka sorpmagn sem kostur er, og flokka úrgang eins og sorphirðukerfi sveitarfélagsins gerir ráð fyrir.
Framkvæmdir við fasteignir sveitarfélagsins skiptast annars vegar í viðhald og hins vegar í fjárfestingar. Nokkrum fjármunum verður varið til viðhalds, sem ekki er eignfært, og er þannig áætlað að ráðast í málningarvinnu við Bláskógaskóla Laugarvatni, endurbætur á Aratungu og að skipt verði um gervigras á öðrum sparkvelli sveitarfélagsins, viðhald á leiguíbúðum, auk fleiri verkefna.
Fjárfestingar eru áætlaðar fyrir um 368,5 millj.kr. á næsta ári. Stærsta einstaka verkefnið er bygging nýs húsnæðis fyrir embætti skipulags- og byggingarfulltrúa, sem leysa mun af hólmi húsnæðið að Dalbraut 12, sem hentar starfseminni illa og þarfnast verulegs viðhalds. Húsið að Dalbraut 12 veður selt til að mæta kostnaði við nýbygginguna og er gert er ráð fyrir söluhagnaði, þ.e. mismun á söluverði og bókfærðu verði, vegna fyrirhugaðrar sölu.
Endurnýjun gatna og göngustíga verður framhaldið og byggt á fyrri forgangsröðun sveitarstjórnar. Haldið verður áfram endurbótum sem teljast til fjárfestingar á íþróttahúsinu á Laugarvatni, á Reykholtsskóla og á Hverabraut 6-8, sem sveitarfélagið leigir UMFÍ, leikskólalóðin á Laugarvatni verður endurnýjuð og gert ráð fyrir framkvæmdum við gatnagerð bæði á Laugarvatni og í Reykholti. Er því ráðgert að framboð byggingarlóða aukist á næsta ári.
Unnið hefur verið að hönnun nýs fráveitukerfis fyrir Laugarvatn og verða tilboð í verkframkvæmdir 1. áfanga opnuð fyrir áramót. Vatnsveita verður endurnýjuð samhliða. Fest hafa verið kaup á hreinsistöð fyrir Reykholt og verður hún sett niður og tengd á næsta ári. Áætlað er að framkvæmdir fráveitu nemi 70 millj.kr.
Lagningu ljósleiðara í dreifbýli í Bláskógabyggð er um það bil að ljúka. Framkvæmdir við útboðsverkið hófust í nóvember 2019. Nú stendur yfir vinna við að tengja tvo bæi í Þingvallasveit, sem ekki voru inni í útboðsverkinu. Áætlað er að hefja framkvæmdir við lagningu ljósleiðara í Laugarási á árinu 2022. Auglýst var eftir fjarskiptafélögum sem hefðu áhuga á að leggja ljósleiðara í þéttbýliskjarna sveitarfélagsins og í framhaldinu hófst Míla handa við að leggja ljósleiðara í Reykholt og Laugarvatn, og hyggst ljúka því verki á þremur árum.
Sem fyrr er áhersla á uppbyggingu grunninnviða og áætlað að verja talsverðu fjármagni til hitaveitu og vatnsveitu. Hjá Bláskógaveitu eru áætlaðar fjárfestingar fyrir 13 millj.kr. Hjá vatnsveitu eru áætlaðar framkvæmdir fyrir 24 millj.kr. Tengigjöld veitna á móti framkvæmdakostnaði eru áætluð um 5 millj.kr.
Enn er því gert ráð fyrir miklum fjárfestingum hjá Bláskógabyggð á næsta ári, fyrir hærri fjárhæð en á árinu 2021. Áfram þarf að gera ráð fyrir lántökum, en samdráttur í tekjum sveitarfélagsins gerir það að verkum að minna fjármagn er til framkvæmda. Leitast er við að forgangsraða fjárfestingum og áfangaskipta eins og unnt er. Gert er ráð fyrir að greidd verði niður lán að fjárhæð 96 millj.kr. en tekin ný lán að fjárhæð 250 millj.kr. Áætlað er að skuldaviðmið skv. sveitarstjórnarlögum verði áfram langt undir lögboðnu hámarki, sem er 150%, en skv. áætluninni mun það vera um 73,6% í lok ársins 2022.
Óverulegar breytingar verða á fasteignamati íbúðarhúsnæðis á milli ára. Þannig hækkar fasteignamat sérbýlis um 1,4% að meðaltali og fjölbýlis um 4,7%. Fasteignamat frístundahúsa hækka um 3,7%, atvinnuhúsnæðis um 6,0% og jarða um 6,4%. Álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði er óbreytt á milli ára, 0,5%. Álagningarhlutfall fasteignaskatts atvinnuhúsnæðis er óbreytt á milli ára, 1,50%. Álagningarhlutfall vatnsgjalds verður einnig óbreytt, 0,3%, en hámarksgjald vatnsgjalds verður 59.094 á sumarhús og íbúðarhús og lágmarksgjald verður 17.727. Álagningarhlutfall fráveitugjalds hækkar úr 0,25% í 0,27%. Gjald fyrir hreinsun rotþróa hækkar um 18%, eða um 1.967 kr. pr. rotþró. Kostnaður við málaflokkinn hefur hækkað verulega á síðustu árum, en tekjur sveitarfélagsins af fráveitugjaldi og rotþróargjöldum eiga að standa undir kostnaði. Við endurskoðun ársreiknings fyrir árið 2020 voru gerðar athugasemdir við hallarekstur fráveitu og er því nauðsynlegt að bregðast við með hækkun gjalda. Brýnt er að sýna stöðugt aðhald í rekstri til að kostnaður við rekstur málaflokka sé í sem bestu samræmi við þær tekjur sem sveitarfélagið hefur.

 


II Nokkrar lykiltölur
Rekstur :
Fjárhagsáætlun sem nú liggur fyrir til síðari umræðu gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðunnar án afskrifta og fjármagnsliða sé jákvæð um 217,4 millj.kr. Afskriftir eru áætlaðar 103 millj.kr., fjármagnskostnaður nettó er áætlaður 82,1 millj.kr. Heildarniðurstaða samstæðunnar er því jákvæð um 31,7 millj.kr.
Áætlunin gerir ráð fyrir að samanlagðar tekjur A og B hluta verði 1.919.089 millj.kr. á árinu 2022. Hlutur skatttekna (útsvar, fasteignagjöld og Jöfnunarsjóður) í samanlögðum tekjum í A hluta er 1.365,7 millj.kr. eða 71,2%.
Samkvæmt áætluninni þá verða skatttekjur (útsvar, Jöfnunarsjóður og fasteignaskattur) á íbúa 1.156 þús.kr. og heildareignir á íbúa verða 2.694 þús.kr.
Heildarlaunakostnaður er áætlaður 853,4 millj.kr. sem er 44,4% af heildartekjum og 62,4% af skatttekjum. Annar rekstrarkostnaður er áætlaður um 848,1 millj.kr.
Fjárfestingar :
Nettófjárfestingar ársins eru áætlaðar 368,5 millj.kr. Afborganir lána eru áætlaðar 96 millj.kr. og nýjar lántökur eru áætlaðar 250 millj.kr. Í töflunni hér að neðan má sjá skiptingu helstu framkvæmda (nettó) á málaflokka:

 

Eignasjóður 239,5 millj.kr.
Fráveita 70 millj.kr.
Bláskógaveita 13 millj.kr.
Vatnsveita 24 millj.kr.
Fjarskiptafélag (ljósleiðari) 22 millj.kr.
Samtals fjárfesting nettó 368,5 millj.kr.


Á móti framkvæmdum í umferðar- og samgöngumálum koma gatnagerðargjöld og tengigjöld veitna sem dragast frá í fjárfestingaráætlun.


III 3ja ára fjárhagsáætlun fyrir árin 2023 – 2025
Þriggja ára áætlun er ekki staðfest fjárhagsáætlun fyrir árin 2023-2025 heldur yfirlit yfir það sem er á dagskrá þessi ár. Við fjárhagsáætlanagerð hvers árs fer fram nánari útfærsla á þriggja ára áætlun miðað við þær forsendur sem þá liggja fyrir og því geta fjárhæðir og framkvæmdahraði vegna einstakra verkefna breyst frá því sem fram kemur í þriggja ára áætlun hverju sinni.
Almenna reglan er að tölulegur hluti fjárhagsáætlunar ræður ef misræmi kann að vera á milli texta í greinargerð og tölulega hlutans.

Stefnumörkun
Til grundvallar þeirri þriggja ára áætlun sem hér er lögð fram liggur fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 en jafnframt er byggt á þriggja ára áætlun 2022-2024. Ekki er gert ráð fyrir breytingum í rekstri málaflokka.

Fjárfestingar eru áætlaðar fyrir 877 millj.kr. samtals á tímabilinu 2023-2025 og eru fjölbreytt verkefni sem falla þar undir. Áhersla er áfram lögð á að byggja upp innviði samfélagsins og að grunnkerfi þau sem sveitarfélagið rekur, s.s. gatnakerfi og veitur geti annað því álagi sem á þeim er.

 

Helstu forsendur áætlunar 2023 – 2025

Til að unnt sé að setja fram áætlunina hafa ákveðnar forsendur verið lagðar til grundvallar.  Þriggja ára áætlun er byggð á áætlun ársins 2023 og er gerð á föstu verðlagi.

Gert er ráð fyrir óbreyttum rekstri allra málaflokka næstu 3 árin.

 

Skatttekjur

Áætlun á skatttekjum er byggð á áætlun ársins 2022.

 

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Áætlun á framlögum Jöfnunarsjóðs er byggð á áætlun ársins 2022.

 

Fasteignaskattur

Gert er ráð fyrir óbreyttum tekjum af fasteignaskatti frá árinu 2022 árin 2023– 2025.

 

Þjónustutekjur

Ekki er gert ráð fyrir hækkun á gjaldskrám vegna þjónustu sveitarfélagsins í áætluninni.

 

Laun

Áætlun launa og launatengdra gjalda er byggð á launaáætlun árisins 2022. 

 

Rekstrarkostnaður

Áætlun rekstrarkostnaðar er byggð á áætlun ársins 2022.

 

Helstu niðurstöður áætlunar 2022 – 2025

Helstu kennitölur áætlunarinnar fyrir samstæðureikning (í þús. króna):

Samstæða (A- og B-hluti) 2022 2023 2024 2025
Rekstrarreikningur
Tekjur 1.919.089 1.973.339 2.097.458 2.228.590
Gjöld 1.701.675 1.756.135 1.814.084 1.873.615
Niðurstaða án fjármagnsliða 113.831 102.128 156.285 224.687
Fjármunatekjur og (fjármagnsgjöld) (82.116) (64.127) (70.162) (73.633)
Rekstrarniðurstaða 31.716 38.001 86.123 151.054
Efnahagsreikningur 2022 2023 2024 2025
Eignir
Fastafjármunir 2.630.165 2.800.089 3.069.000 3.134.711
Veltufjármunir 343.186 385.804 435.174 481.712
Eignir samtals 3.182.714 3.389.184 3.702.832 3.810.447
31. desember 2022 2023 2024 2025
Eigið fé og skuldir
Eigið fé 1.318.743 1.356.744 1.442.867 1.593.920
Langtímaskuldir 1.545.546 1.709.157 1.925.950 1.879.158
Skammtímaskuldir 316.985 323.283 334.015 337.368
Skuldir og skuldbindingar samtals 1.862.531 2.032.440 2.259.965 2.216.527
Eigið fé og skuldir samtals 3.181.274 3.389.184 3.702.832 3.810.447
Gert er ráð fyrir nettó fjárfestingu í þúsundum króna, sem hér segir:

                                                                                               2022                   2023                   2024                   2025

Eignasjóður                                                                 239.500              188.000              214.000                34.000

Fráveita                                                                          70.000                20.000                45.000                25.000

Bláskógaveita                                                               13.000                13.000                23.000                23.000

Vatnsveita                                                                     24.000                64.000              114.000             114.000

Bláskógaljós                                                                 22.000                          0                          0                          0

Samtals fjárfesting nettó                                           368.500              285.000              396.000             196.000

 

Fjármagnsliðir

Fjármagnsliðir eru reiknaðir miðað við þau vaxtakjör sem sveitarfélagið býr við. 

 

Fjárfestingar

Gert er ráð fyrir fjárfestingum fyrir 285 millj.kr. árið 2023, 396 millj.kr. árið 2024 og 196 millj.kr. árið 2025.

 

Lántökur

Ný langtímalán á árunum 2023-2025 eru áætluð 578 millj.kr. og niðurgreiðslur eldri lána eru áætlaðar á sama tímabili 371,8 millj.kr.


IV Lokaorð
Í fjárfestingarhluta þriggja ára ætlunar er leitast við að forgangsraða verkefnum, áfangaskipta og dreifa þeim með það að markmiði að halda skuldsetningu sveitarfélagsins sem minnstri og þar með að lágmarka fjármagnskostnað. Sá hluti áætlunarinnar sem snýr að rekstri byggir á því að ekki verði miklar breytingar á rekstri málaflokka milli ára. Nánari útfærsla áætlunar fyrir hvert ár fyrir sig er unnin í fjárhagsáætlun hverju sinni. Forsendur á borð við verðlagsþróun, íbúafjölgun, þróun tekna og útgjalda geta því haft áhrif á áætlun hvers árs fyrir sig.
Eftir tímabil þar sem tekjur sveitarfélagsisns fóru talsvert vaxandi á milli ára komu árin 2020 og 2021 þar sem verulega hægði á vexti tekna, og þegar þetta er ritað standa tekjur á milli áranna 2020 og 2021 af útsvari nánast í stað. Vonir standa til þess að við getum horft til bjartari tíma hvað þetta varðar á árinu 2022 og að komandi ár verði góð. Þar ræður þó miklu um hversu vel tekst að ráða niðurlögum Covid-19 á heimsvísu. Reynslan sýnir að tekjustofnar Bláskógabyggðar eru viðkvæmir fyrir sveiflum í ferðaþjónustu. Ekki er þó að sjá nein merki stöðnunar í samfélögunum sem mynda Bláskógabyggð. Talsverð eftirspurn hefur verið eftir lóðum og eru nú margar íbúðir í byggingu. Ber það vitni um bjartsýni og trú manna á að svæðið í heild haldi áfram að verða gott til búsetu og atvinnu. Sveitarfélagið leitast við að halda áfram háu þjónustustigi og byggja upp nauðsynlega innviði og viðhalda eignum.
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 hefur verið unnin í góðri samvinnu sveitarstjórnarfulltrúa og stjórnenda. Ber að þakka það óeigingjarna starf sem hér hefur verið unnið.

Oddviti bar fyrirliggjandi tilllögu að fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar 2022-2025 upp til samþykktar. Tillagan var samþykkt samhljóða og sveitarstjóra falið að annast skil á áætluninni til viðkomandi aðila.

33.   Rekstrarleyfisumsókn Kjóastaðir 1, land 2 (234 6402) – 2112007
Beiðni Sýslumannsins á Suðurlandi, dags. 10. september 2021 um umsögn um rekstraleyfi vegna leyfis til reksturs veitinga í flokki II-C, veitingastofa og greiðasala að Kjóastöðum 1, land 2, 234 6402, Skjól-Bistró. Umsækjandi Fjörukambur ehf.
Umsögn byggingarfulltrúa liggur fyrir. Sveitarstjórn veitir jákvæða umsögn um erindið.
34.   Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2021-2023 – 2109038
Erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 2. desember 2021, varðandi uppfærslu svæðisáætlana um með höndlun úrgangs vegna lagabreytinga.
Lagt fram til kynningar.
35.   Ársreikningur og skýrsla hestamannafélagsins Loga – 2112009
Skýrsla stjórnar Loga og ársreikningur fyrir árið 2020.
Lagt fram til kynningar.
36.   Breytt skipulag barnaverndar – 2112010
Erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 30. nóvember 2021, varðandi breytt skipulag barnaverndar sem tekur gildi vorið 2022.
Lagt fram til kynningar.
37.   Samþætt þjónusta í þágu farsældar barna – 2109013
Gögn frá málstofu um innleiðingu á lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem haldin var 24. nóvember 2021.
Lagt fram til kynningar.

 

 

Fundi slitið kl. 17:27.

 

 

 

Helgi Kjartansson Valgerður Sævarsdóttir
Óttar Bragi Þráinsson Kolbeinn Sveinbjörnsson
Guðrún S. Magnúsdóttir Róbert Aron Pálmason
Axel Sæland Ásta Stefánsdóttir