296. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar

296. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn í Aratungu, Reykholti,
fimmtudaginn 6. janúar 2022, kl. 15:15.

Fundinn sátu:
Helgi Kjartansson, Valgerður Sævarsdóttir, Óttar Bragi Þráinsson, Kolbeinn Sveinbjörnsson, Guðrún S. Magnúsdóttir, Róbert Aron Pálmason, Axel Sæland og Ásta Stefánsdóttir.

Fundargerð ritaði: Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri.

1. Fundargerð skipulagsnefndar – 2101007
230. fundur skipulagsnefndar haldinn 20. desember 2021. Afgreiða þarf sérstaklega liði 1 til 5.
-liður 1, Skálholt L167166; Úr landbúnaðarsvæði í skógræktarsvæði; Aðalskipulagsbreyting – 2104083
Lögð er fram tillaga er varðar breytingu á aðalskipulagi Bláskógabyggðar. Í umsókninni felst breytt landnotkun á landbúnaðarlandi í skógrækt innan Skálholtsjarðarinnar. Lýsing málsins var í kynningu frá 14. júlí til og með 6. ágúst. Umsagnir bárust við lýsingu og er þær lagðar fram við afgreiðslu skipulagstillögunnar.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir tillögu aðalskipulagsbreytingar til kynningar í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

-liður 2, Brautarhóll lóð (L167200); umsókn um byggingarheimild; fjarskiptamastur – 2112026
Fyrir liggur umsókn Jóns G. Magnússonar fyrir hönd Mílu ehf., móttekin 09.12.2021, um byggingarheimild til að reisa 12 m stálmastur og fjarlægja tré-tvístauramastur á viðskipta- og þjónustulóðinni Brautarhóll lóð L167200 í Bláskógabyggð.
Sveitarstjórn frestar afgreiðslu málsins og felur oddvita og sveitarstjóra að ræða við umsækjanda.

-liður 3, Laugarás – tækjahús (L176855); umsókn um byggingarheimild; fjarskiptamastur – 2112028
Fyrir liggur umsókn Jóns G. Magnússonar fyrir hönd Mílu ehf., móttekin 10.12.2021, um byggingarheimild til að reisa 18 m stálmastur á viðskipta- og þjónustulóðinni Laugarás, tækjahús L176855 í Bláskógabyggð.
Sveitarstjórn frestar afgreiðslu málsins og felur oddvita og sveitarstjóra að ræða við umsækjanda.

-liður 4, Klif L167134; Skilgreining landsvæðis; Fyrirspurn – 2112014
Lögð er fram fyrirspurn frá Hannesi Garðarssyni er varðar vinnslu deiliskipulags á jörðinni Klif L167134 í Bláskógabyggð. Við deiliskipulagsvinnu kom í ljós að innan aðalskipulags Bláskógabyggðar virðist jörðin vera skilgreind sem frístundasvæði. Jörðin Klif er innan lögbýlisskrár og ætti því að vera staðsett innan landbúnaðarsvæðis samkvæmt skilgreiningu jarðarlaga. Fyrirspyrjandi telur því ljóst að lögbýlið hafi lent innan landnotkunar frístundabyggðar fyrir mistök við heildarendurskoðun aðalskipulags Bláskógabyggðar. Óskað er eftir því að aðalskipulag verði breytt með þeim hætti að jörðin verði skilgreind sem landbúnaðarsvæði.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að unnin verði óveruleg breyting á aðalskipulagi Bláskógabyggðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 í takt við framlagða fyrirspurn.

-liður 5, Skólatún, Traustatún, Hverabraut; Lóðarmörk; Vegferill; Deiliskipulagsbreyting – 2112043
Lögð er fram tillaga að óverulegri deiliskipulagsbreytingu sem tekur til þéttbýlisins á Laugarvatni. Í breytingunni felst m.a. óverulegar tilfærslur á legu lóða innan skipulagsins. Engar breytingar eru gerðar á skipulagsskilmálum.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi.

Fundargerðin var lögð fram til kynningar hvað aðra liði varðar.

2. Fundargerðir ungmennaráðs – 2101005
Fundur haldinn 10. mars 2021
Fundur haldinn 30. nóvember 2021
Fundur haldinn 2. desember 2021
Fundur haldinn 14. desember 2021
Fundargerðirnar voru lagðar fram til kynningar.
Farið var yfir flesta þætti sem snert er á í fundargerðunum á fundi sveitarstjórnar með ungmennaráði í desember og stendur til að funda að nýju í febrúar.

3. Fundargerð NOS (nefndar oddvita sveitarfélaga) – 2101010
Fundur haldinn 13. desember 2021
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.

4. Fundargerð afgreiðslufunda byggingarfulltrúa – 2101008
155. fundur haldinn 15. desember 2021
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.

5. Fundargerð stjórnar SASS – 2101022
576. fundur haldinn 3. desember s.l.
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.

6. Fundargerð stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands – 2101020
307. fundur haldinn 1. desember 2021
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.

7. Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga – 2001022
904. fundur haldinn 10. desember 2021
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.

8. Verkefni ferðamálafulltrúa – 2201030
Ásborg Ósk Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi, kemur inn á fundinn.
Ásborg fór yfir helstu verkefni og stöðu ferðaþjónustunnar á tímum kórónuveirufaraldurs. Einnig var rætt um breytingar sem verða í kjölfar þess að Skeiða- og Gnúpverjahreppur hættir þátttöku í samstarfi um ferðamálafulltrúa í Uppsveitum Árnessýslu.

9. Styrkbeiðni Soroptimistaklúbbs Suðurlands vegna Sigurhæða – 2112020
Styrkbeiðni Soroptimistaklúbbs Suðurlands, dags. 16. desember 2021,vegna Sigurhæða, þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi.
Styrbeiðnin var lögð fram. Óskað er eftir styrk að fjárhæð kr. 240.484 til reksturs starfsemi Sigurhæða. Sveitarstjórn samþykkir styrkveitinguna. Kostnaður rúmast innan fjárhagsáætlunar.

10. Verðkönnun fráveita Laugarvatni 1. áfangi – 2106039
Verðkönnun vegna fráveitu á Laugarvatni, 1. áfangi, fundargerð vegna opnunar tilboða 16. desember 2021.
Fundargerðin var lögð fram. Unnið er að yfirferð tilboða og fylgigagna og mun sviðsstjóri leggja niðurstöður fyrir sveitarstjórn.

11. Skaðabótakrafa – 1809055
Stefna Söru Pálsdóttur, lögmanns, f.h. Sigríðar Jónsdóttur, á hendur Bláskógabyggð.
Sveitarstjóri gerði grein fyrir því að stefna hefði verið birt sveitarfélaginu vegna skaðabótakröfu á hendur því.

12. Stafræn húsnæðisáætlun Bláskógabyggðar – 2112012
Húsnæðisáætlun Bláskógabyggðar.
Frestað til næsta fundar.

13. Beiðni um lögheimilisskráningu á skilgreindu sumarhúsasvæði – 2112023
Beiðni Karls Helga Gíslasonar og Guðrúnar Bjarnadóttur, dags. 8. desember 2021, um heimild til að skrá lögheimili að Skyrklettagötu 3, Laugarási.
Erindið var lagt fram. Samkvæmt aðalskipulagi Bláskógabyggðar er Skyrklettagata 3 í Laugarási á svæði fyrir frístundahúsnæði og húsið að Skyrklettagötu 3 skráð sem sumarbústaður. Er því ekki uppfylltur áskilnaður 2. gr. lögheimilislaga nr. 80/2018 um að lögheimili skuli skráð í húsi sem skráð er sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá. Ekki eru áform um að gera breytingu á aðalskipulagi þannig að viðkomandi svæði verði fyrir íbúðarhúsnæði.

14. Samningur við Björgunarsveitina Ingunni 2022-2024 – 2112027
Drög að samningi við Björgunarsveitina Ingunni 2022-2024.
Lögð voru fram drög að samningi. Sveitarstjórn staðfestir samninginn og felur oddvita og sveitarstjóra að ganga frá samningi í samræmi við umræður á fundinum og undirrita hann.

15. Samningur við Björgunarsveit Biskupstungna 2022-2024 – 2112026
Samningur við Björgunarsveit Biskupstungna 2022-2024.
Lögð voru fram drög að samningi. Sveitarstjórn staðfestir samninginn og felur oddvita og sveitarstjóra að ganga frá samningi í samræmi við umræður á fundinum og undirrita hann.

16. Samningur við UMFL 2022-2024 – 2112025
Samningur við Ungmennafélag Laugdæla 2022-2024
Lögð voru fram drög að samningi. Sveitarstjórn staðfestir samninginn og felur oddvita og sveitarstjóra að ganga frá samningi í samræmi við umræður á fundinum og undirrita hann.

17. Samningur við UMFB 2022-2024 – 2112024
Samningur við Ungmennafélag Biskupstungna 2022-2024.
Lögð voru fram drög að samningi. Sveitarstjórn staðfestir samninginn og felur oddvita og sveitarstjóra að ganga frá samningi í samræmi við umræður á fundinum og undirrita hann.

18. Hjólhýsasvæði á Laugarvatni – 2004032
Álit samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins vegna kvörtunar Samhjóls vegna stjórnsýslu sveitarfélagsins Bláskógabyggðar, dags. 29. desember 2021.
Álit Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins var lagt fram. Álitið er unnið í framhaldi af kvörtun Samhjóls, félags hjólhýsaeigenda á Laugarvatni vegna stjórnsýslu Bláskógabyggðar varðandi þá ákvörðun að hætta rekstri hjólhýsabyggðar á Laugarvatni. Niðurstaða ráðuneytisins er sú að sú ákvörðun að hætta starfseminni hafi ekki verið stjórnvaldsákvörðun og er ekkert í málsmeðferð sveitarfélagsins talið valda ógildingu ákvörðunar sveitarfélagsins.
Rætt var um næstu skref í málinu og er oddvita og sveitarstjóra falið að funda með rekstraraðilum svæðisins og stjórn Samhjóls og afla upplýsinga um hversu margir af þeim leigutökum sem þegar eiga að hafa fjarlægt hýsi og mannvirki af landinu hafa gert það.

19. Útsvar og framlög Jöfnunarsjóðs 2021 – 2106030
Yfirlit yfir útsvarstekjur (staðgreiðslu) og framlög Jöfnunarsjóðs árið 2021
Lagt var fram yfirlit yfir útsvarstekjur (staðgreiðslu skatta) og framlög úr Jöfnunarsjóði fyrir árið 2021. Jafnframt var lagt fram til samanburðar yfirlit yfir útsvarstekjur frá árinu 2017. Á tímabilinu 2017-2020 hafa útsvarstekjur sveitarfélagsins hækkað um nærri 20%. Á milli áranna 2019 og 2020 lækkuðu útsvarstekjur þó um 0,6%, en á milli áranna 2020 og 2021 hækkuðu þær um 2,1%, sem er umtalsvert lægra en almennar verðlagshækkanir og hækkun launavísitölu á milli áranna 2020 og 2021. Ljóst er að á árunum 2020 og 2021 gætir talsverðra áhrifa af kórónuveirufaraldinum á þróun tekna af staðgreiðslu.

20. Lóðarumsókn Brekkuholt 9, Reykholti – 2201033
Umsókn Sindra Fannars Sigurbjörnssonar, f.h. Gullverks ehf, dags. 3. janúar 2022, um lóðina Brekkuholt 9, Reykholti.
Helgi Kjartansson, oddviti, vék af fundi við afgreiðslu 20. og 21. liðar og tók Valgerður Sævarsdóttir, varaoddviti, við stjóran fundarins. Lóðarumsóknin er gerð með fyrirvara um að deiliskipulagi lóðarinnar verði breytt þannig að um einbýlishús verði að ræða í stað parhúss. Sveitarstjórn samþykkir að úthluta lóðinni og að gerði verði breyting á deiliskipulagi í samræmi við umsóknina.

21. Lóðarumsókn Brekkuholt 11, Reykholti – 2201032
Umsókn Egils Björns Guðmundssonar, dags. 3. janúar 2022, um lóðina Brekkuholt 11, Reykholti.
Helgi Kjartansson, oddviti, vék af fundi við afgreiðslu 21. og 22. liðar og tók Valgerður Sævarsdóttir, varaoddviti, við stjóran fundarins. Lóðarumsóknin er gerð með fyrirvara um að deiliskipulagi lóðarinnar verði breytt þannig að um einbýlishús verði að ræða í stað parhúss. Sveitarstjórn samþykkir að úthluta lóðinni og að gerði verði breyting á deiliskipulagi í samræmi við umsóknina.

22. Frumvarp til fjárlaga 2022 – 2112022
Umsögn SASS, dags. 12. desember 2021, um frumvarp til fjárlaga.
Umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 8. desember 2021.
Umsagnirnar voru lagðar fram til kynningar.

23. Skýrsla stjórnar Byggðasafns Árnesingaum kaup á húsnæði – 2101013
Skýrsla, dags. 15. desember 2021, um kaup Byggðasafns Árnesinga á Búðarstíg 22 á Eyrarbakka og framkvæmdir í kjölfarið
Skýrslan var lögð fram til kynningar.

24. Niðurfelling Kjarnholtsvegar 7 af vegaskrá – 2109036
Ákvörðun Vegagerðarinnar, dags. 22. desember 2021, um niðurfellingu Kjarnholtsvegar 7 af vegaskrá.
Bréf Vegagerðarinnar var lagt fram til kynningar.

25. Ráðgjafarstofa fyrir innflytjendur New in Iceland – 2112019
Erindi Félagsmálaráðuneytisins, dags. 21. desember 2021, varðandi Ráðgjafarstofu fyrir innflytjendur, New in Iceland.
Erindið var lagt fram til kynningar.

26. Lokaskýrsla Landshlutateymis Suðurlands skv. framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks – 2112021
Lokaskýrsla landshlutateymis Suðurlands, dags. desember 2021.
Lagt fram til kynningar.

27. Breytt skipulag barnaverndar – 2112010
Slóð á upptöku af fræðslu- og kynningarfundi um breytta skipan barnaverndar sem haldinn var 13. desember s.l.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið kl. 17:20.

Helgi Kjartansson            Valgerður Sævarsdóttir
Óttar Bragi Þráinsson      Kolbeinn Sveinbjörnsson
Guðrún S. Magnúsdóttir Róbert Aron Pálmason
Axel Sæland                       Ásta Stefánsdóttir