298. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar

 

 

298. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn í Aratungu, Reykholti,

fimmtudaginn 20. janúar 2022, kl. 15:15.

 

 

Fundinn sátu:

Helgi Kjartansson, Valgerður Sævarsdóttir, Óttar Bragi Þráinsson, Kolbeinn Sveinbjörnsson, Guðrún S. Magnúsdóttir, Róbert Aron Pálmason, Axel Sæland og Ásta Stefánsdóttir.

 

 

Fundargerð ritaði: Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri.

 

 

1.   Fundargerð skipulagsnefndar – 2201007
231. fundur skipulagsnefndar haldinn 12. janúar 2022.
-liður 3, Kjóastaðir 1 land 2 L220934; Skjól; Deiliskipulagsbreyting – 2112037
Lögð er fram umsókn frá Þorgeiri Óskari Margeirssyni er varðar breytingu á deiliskipulagi Kjóastaða. Í breytingunni felst skilgreining á nýjum byggingarreit B3. Innan byggingarreits verði heimilt að byggja allt að þrjú 150 fm hús.
Málinu frestað vegna ófullnægjandi gagna. Skipulagsfulltrúa falið að annast samskipti við málsaðila.

-liður 4, Skálholt L167166; Endurheimt votlendis; Fyrirspurn – 2112061
Lögð er fram fyrirspurn til skipulagsnefndar og sveitarstjórnar um hvort að fyrirhuguð framkvæmd vegna endurheimt votlendis sé framkvæmdaleyfisskyld í samræmi við lög, en þó sérstaklega reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012, í landi Skálholts.
Sveitarstjórn telur að endurheimt votlendis teljist til framkvæmdaleyfisskyldra verkefna sbr. 5 gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Slíkt er þó í öllum tilfellum háð mati á umfangi verkefnisins hverju sinni.

-liður 5, Efsti-Dalur 1 vegsvæði L229944; Framkvæmdaleyfi – 2201003
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi vegna vegagerðar innan lands Efsta-Dals 1 vegsvæði L229944. Í framkvæmdinni felst vegagerð um sameiginlegt land í Efsta-dal 1. Vegurinn tengir land Hlauptungu við Laugarvatnsveg. Nánari lýsingu á framkvæmd er að finna í framkvæmdalýsingu sem komin er í hendur skipulagsembættisins á Laugarvatni. Í sama skjali má finna uppdrátt af legu vegar. Tenging vegarins við Laugarvatnsveg hefur þegar verið samþykkt af Vegagerðinni.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar sem fyrir liggur skriflegt samþykki landeigenda á svæðinu fyrir umræddri framkvæmd, auk þess sem viðkomandi landsvæði var sérstaklega merkt sem vegsvæði við landskipti landsins árið 2020, telur sveitartjórn ekki þörf á grenndarkynningu vegna útgáfu framkvæmdaleyfisins.

-liður 6, Útey 2; Frístundasvæði í Mýrarskógi; Deiliskipulag – 2201011
Lögð er fram umsókn um deiliskipulag sem tekur til frístundabyggðar í landi Úteyjar 2 í Bláskógabyggð. Í tillögunni felst skipulagning 8 ha frístundahúsasvæðis í Mýrarskógi. Innan svæðisins hafa nú þegar verið byggð 6 frístundahús og nær deiliskipulagið yfir þær lóðir auk þess sem bætt er við 4 lóðum innan reitsins svo lóðirnar verða 10 samtals. Lóðamörk mót suðri hafa verið aðlöguð að lóðarmörkum lóða í landi Úteyjar 1, lóða L168174 og L220202. Ekkert deiliskipulag er til fyrir svæðið.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir deiliskipulagstillögu til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn mælist til þess að tillagan verði sérstaklega kynnt eigendum þegar byggðra lóða innan skipulagssvæðisins.

-liður 7, Færsla vegar innan Laugarvatns; Kæra til ÚUA nr. 184.2021 – 2112057
Lögð er fram stjórnsýslukæra vegna útgáfu framkvæmdaleyfis sem tekur til færslu vegar innan Laugarvatns. Lagt fram til kynningar.

-liður 8, Suðurhlið Langjökuls; Íshellir; Fyrirhuguð framkvæmd og skilmálar; Deiliskipulag – 2004047
Lögð er fram deiliskipulagstillaga vegna íshellis í sunnanverðum Langjökli eftir auglýsingu. Í deiliskipulaginu felst afmörkun lóðar fyrir íshelli auk þess sem gert er grein fyrir heimiluðum framkvæmdum innan svæðisins, aðkomu og viðhaldi hellisins, frágangi svæðisins og umhverfisáhrifum. Samhliða er unnið að breytingu á aðalskipulagi Bláskógabyggðar þar sem skilgreint er afþreyingar- og ferðamannasvæði á því svæði sem deiliskipulagið tekur til. Athugasemdir við gildistöku deiliskipulagsins bárust frá Skipulagsstofnun og var afgreiðslu málsins frestað á 227. fundi skipulagsnefndar. Uppfærð gögn eru lögð fram við afgreiðslu málsins.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu. Sveitarstjórn telur að brugðist hefur verið við athugasemdum og umsögnum sem bárust vegna málsins. Sveitarstjórn mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samhliða gildistöku aðalskipulagsbreytingar sem tekur til svæðisins.

Fundargerðin var lögð fram til kynningar hvað aðra liði varðar.

 
2.   Fundargerð framkvæmda- og veitunefndar – 2201002
23. fundur haldinn 14. janúar 2022
-liður 4, 2106039, verðkönnun fráveita Laugarvatni 1. áfangi. Sveitarstjórn samþykkir að gengið verði frá samningi við Fögrusteina ehf um verkið. Kostnaður rúmast innan fjárhagsáætlunar.
-liður 12, 2101058, hitaveita í Reykholti. Sveitarstjórn samþykkir að samið verði við ÍSOR á grundvelli tilboðs í verkefni sem varðar nýtingu heitavatnsforðans í Reykholti og mat á stærð kerfisins og staðsetningu á nýrri heitavatnsholu. Kostnaður rúmast innan fjárhagsáætlunar.
Fundargerðin var staðfest.
 
3.   Fundargerð skólanefndar – 2201003
21. fundur haldinn 18. janúar 2022
Fundargerðin var staðfest.
 
4.   Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga – 2201025
905. fundur stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga haldinn 14. janúar 2022.
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
 
5.   Fundargerð stjórnar SASS – 2201022
577. fundur stjórnar SASS, haldinn 7. janúar 2022.
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
 
6.   Fundargerð stjórnar Bergrisans bs – 2201021
35. fundur stjórnar Bergrisans bs haldinn 10. janúar 2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
 
7.   Fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa – 2201008
156. fundur haldinn 5. janúar 2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
 
8.   Lántökur 2022 – 2201040
Lántökur skv. fjárhagsáætlun 2022
Sveitarstjóri gerði grein fyrir áætlunum um tímasetningar á lántökum vegna ársins 2022. Sveitarstjórn samþykkir að sótt verði um s.k. græn lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga vegna fráveituframkvæmda.
 
9.   Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2022-2033 – 2201046
Erindi Mannvits, dags. 14. janúar 2022, þar sem óskað er eftir staðfestingu á svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs fyrir árin 2022-2033.
Tillaga að svæðisáætlun fyrir árin 2022-2033 var lögð fram. Tillagan er unnin á samstarfsvettvangi Sorpu bs, Sorpurðunar Vesturlands hf, Sorpstöðvar Suðurlands bs og Kölku, sorpeyðingarstöðvar sf. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar staðfestir svæðisáætlunina.
 
10.   Styrkumsókn vegna fasteignaskatts af golfskála – 2201048
Beiðni gjaldkera Golfklúbbsins Dalbúa, dags. 4. janúar 2022, um styrk vegna fasteignaskatts af golfskála.
Sveitarstjóra er falið að afgreiða umsóknina í samræmi við reglur um lækkun, niðurfelllingu eða styrki vegna fasteignaskatts.
 
11.   Álagsgreiðslur og launamál í leikskólum – 1905056
Endurskoðun viðmiðunarreglna frá 2019 um álagsgreiðslur á leikskólum.
Sveitarstjórn samþykkir að skipa starfshóp til að fara yfir reglurnar frá 2019. Hópinn skipi Guðrún S. Magnúsdóttir, Óttar Bragi Þráinsson, Ásta Stefánsdóttir, Lieselot Simoen og Elfa Birkisdóttir.
 
12.   Umdæmisráð barnaverndar – 2201049
Erindi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, dags. 18. janúar 2022, þar sem lagt er til að sveitarfélögin á Suðurlandi kanni möguleika á að sameinast um rekstur umdæmisráðs barnaverndar í landshlutanum á grundvelli breytingar á barnaverndarlögum.
Sveitarstjórn samþykkir að stjórn Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings (NOS) verði falið að fjalla um málið og kanna vilja sveitarfélaga til samstarfs um umdæmisráð barnaverndar.
 
13.   Skil lóðar, Brekkuholt 3 – 2008094
Erindi Brynjólfs Sigurðssonar, dags. 18. janúar, um skil á lóðinni Brekkuholti 3, Reykholti.
Sveitarstjórn samþykkir að lóðinni verði skilað og felur sveitarstjóra að láta auglýsa hana lausa til umsóknar að nýju.
 
14.   Deiliskipulag Syðri-Reykja 2. – 1909017
Deiliskipulag Syðri-Reykja. Áður til afgreiðslu á 288. fundi. Um er að ræða lið 4 á 222. fundi skipulagsnefndar, Syðri-Reykir 2 L167163; Deiliskipulag – 2101037
Lögð er fram tillaga deiliskipulags í landi Syðri-Reykja 2 L167163 eftir kynningu. Í deiliskipulaginu felst skilgreining byggingarreita og byggingarheimilda fyrir íbúðarhúsi, gróðurhúsi, vélaskemmu og byggingar sem ætluð er fyrir ferðaþjónustu. Umsagnir og athugasemdir bárust við tillöguna og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins. Greinargerð á skipulagsuppdrætti, varðandi vatnsveitu svæðisins, hefur verið breytt til að koma til móts við athugasemdir.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir deiliskipulagið og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulags Bláskógabyggðar 2015-2027. Þeim sem athugasemdir gerðu við kynningu deiliskipulagsins verði tilkynnt sérstaklega um auglýsingu deiliskipulagsins.
 
15.   Samningur vegna skála við Sandá – 2112018
Samstarfssamningur um endurgerð skála við Sandá
Lögð voru fram drög að samningi við Geysisholt ehf. Sveitarstjórn felur oddvita og sveitarstjóra að ganga frá samningi.
 
16.   Stuðningsverkefni á leikskólum – 2201041
Stuðningsverkefni á leikskólum
Oddviti og sveitarstjóri gerðu grein fyrir verkefninu. Sveitarstjórn samþykkir að áfram verði unnið að því og til þess verði fenginn ráðgjafi.
 
17.   Aðalskipulagsbreytingar Hrunamannahreppi – 2201047
Erindi skipulagsfulltrúa, dags. 6. janúar 2022, þar sem óskað er umsagnar um tillögu að aðalskipulagsbreytingu fyrir Skollagróf í Hrunamannahreppi.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við tillöguna.
 
18.   Persónuverndarstefna Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs – 2201044
Persónuverndarstefna Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings, ásamt skjalavistunaráætlun og málalykli.
Gögnin voru lögð fram til kynningar og er persónuerndarstefnu vísað til stjórnar Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings (NOS) til samþykktar.
 
19.   Greining á stjórnsýslu og rekstri Bergrisans bs – 2201045
Erindi verkefnastjóra í málefnum fatlaðs fólks, dags. 14. janúar 2022, varðandi úttekt á stjórnsýslu og rekstri Bergrisans bs.
Erindið var lagt fram til kynningar.
 
20.   Héraðsvegur að Fellsenda – 2106001
Umsögn Vegagerðarinnar, dags. 13. janúar 2022, um að vegur að Fellsenda verði héraðsvegur, ásamt gögnum frá ábúanda um ástand vegarins.
Gögnin voru lögð fram. Sveitarstjórn hvetur til þess að brú á veginum að Fellsenda verði lagfærð sem fyrst, eða ræsi sett í staðinn.
 
21.   Snjómokstur á vegum Vegagerðarinnar – 2112015
Tölvupóstur forstjóra Vegagerðarinnar, dags. 12. janúar 2022, um rýni á vetrarþjónustu í kjölfar fundar með fulltrúum Bláskógabyggðar og Hrunamannahrepps.
Sveitarstjórn fagnar því að ráðast eigi í skoðun á fyrirkomulagi vetrarþjónustu í framhaldi af samtali fulltrúa sveitarfélaganna og Vegagerðarinnar.
 

 

 

Fundi slitið kl. 16:30.

 

 

 

 

 

Helgi Kjartansson Valgerður Sævarsdóttir
Óttar Bragi Þráinsson Kolbeinn Sveinbjörnsson
Guðrún S. Magnúsdóttir Róbert Aron Pálmason
Axel Sæland Ásta Stefánsdóttir