3. fundur

3.fundur menningarmálanefndar Bláskógabyggðar,
haldinn í Aratungu  30. september 2010 kl. 17.30. Mætt voru: Skúli
Sæland, Kristinn Ólason og Valgerður Jónsdóttir, aðalmenn og
Geirþrúður Sighvatsdóttir  varamaður. Auk þess var á fundinum Dorothee
Lubecki, menningarfulltrúi Suðurlands.
Skúli Sæland stjórnaði fundinum og Valgerður Jónsdóttir ritaði
fundargerð.

1.  Fundargerð síðasta fundar lesin.
2.  Tengsl Bláskógabyggðar og Menningarráðs Suðurlands.
Dorothee afhenti ársskýrslu Menningarráðs Suðurlands.
Menningarráðið hefur það hlutverk að vera tengiliður fyrir fólk
sem vinnur að menningartengdum hlutum í sveitarfélögunum.
Ráðið veitir styrki til menningarmála og  farið var yfir yfirlit þar
sem umsóknir um styrki eru flokkaðar eftir sveitarfélögum.
Dorthee telur vera velvilja fyrir áframhaldandi starfsemi ráðsins,
en ekki hefur komið í ljós hvort fjárveiting fæst til áframhaldandi
starfsemi þess.
Hún telur mikilvægt að gera úttekt á því hvernig
menningarstarfsemi er háttað hér í Bláskógabyggð. Stefnan er að
byggja upp gagnagrunn  fyrir allt Suðurland og reyndar allt landið.
Þannig er hægt að greina t.d. hvaða menningarþættir standa
höllum fæti og hvað mætti styðja sérstaklega við. SS er þegar
byrjaður að skrá starfsemi hér í sveitarfélaginu og mun nefndin
halda þeirri skráningu áfram í samstarfi við Dorothee. Jafnvel gæti
Bláskógabyggð orðið  tilraunasvæði í skráningu af þessu tagi.
Gagnagrunnurinn gæti m.a.  nýst fólki sem er að leita að ákveðinni
menningarstarfsemi eða afþreyingu.
Dorthee telur það henta best að Menningarráðið úthluti styrkjum
einu sinni á ári og segir að nú virðist sem þessar styrkveitingar séu farnar
að festa sig í sessi í hugum fólks í byrjun hvers árs.

Mikil ánægja er með hina árlegu safnahelgi á Suðurlandi. Í ár
verður hún haldin 4.-7. nóvember n.k. Dorthee er framkvæmdastjóri
safnahelgarinnar og hefur tengiliði í hverju sveitarfélagi. Hjá
Bláskógabyggð verður m.a. dagskrá í Skálholti og fleira er í bígerð sem
verður auglýst nánar þegar nær dregur. Dorothee leggur til að settur
verði tengill á heimasíðu Bláskógabyggðar sem vísar á síðu
safnahelgarinnar. Þar verður auglýst eftir aðilum sem vilja taka þátt í
hátíðinni.

Rætt var um það hverju menningarmálanefndin gæti einbeitt sér
að varðandi styrkveitingar, hvort fyrirtæki komi jafnvel til greina sem
umsækjendur. Oft er erfitt að draga mörkin milli einstaklinga og
fyrirtækja þar sem sama fólkið starfar gjarnan að menningarmálum á
margvíslegum vettvangi.
Dorthee hefur haldið námskeið í styrkumsóknum og hefur áhuga á að
gera slíkt aftur. Oft vantar heildstæð markmið og raunhæfan ramma utan
um verkefni í styrkumsóknum.

3.  Farið var yfir samantekt á kostnaðarliðum deildar 05-
Menningarmál frá Bláskógabyggð á árunum 2007-2009.
4.  Umræður um að hafa fleiri en eitt menningarhús á Suðurlandi og
stöðu t.d. Héraðsskólans í því samhengi. Lítill áhugi virðist vera hjá
mennta- og menningarmálaráðuneytinu til að greiða fyrir þess
konar starfsemi, þrátt fyrir áhuga heimafólks í sveitarfélögum
landsins. Miklir möguleikar gætu skapast við opnun menningarhús
hér í Bláskógabyggð t.d. tengt Skálholti og Laugarvatni.
5.  Tekið fyrir erindi frá atvinnu- og ferðamálanefnd varðandi
menningartengd verkefni sem menningarmálanefnd gæti tekið
þátt í. Áhugi er fyrir hendi á þess konar samstarfi af hendi
menningarmálanefndar.

6.  Ákveðið var að kalla til fundar þá aðila sem starfa að
menningarstarfsemi til að fá fram hugmyndir varðandi
stefnumótun í menningarmálum. Kallað verður eftir aðstoð
ferðamálafulltrúa, menningarfulltrúa og ráðgjafa
atvinnuþróunarfélags. Menningarmálanefnd mun leggja drög að
texta til að senda í Bláskógafréttir til að auglýsa fundinn. Eftir
fundinn með menningaraðilum er ætlunin að fá fulltrúa annarra
nefnda innan Bláskógarbyggðar til samráðs.

Fundi slitið kl. 19.40.