30. fundur

 1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar þriðjudaginn 1. júní 2004,
 2. 13:30 í Fjallasal, Aratungu.

 

Mætt voru:

Sveinn A. Sæland oddviti, Margeir Ingólfsson, Drífa Kristjánsdóttir, Kjartan Lárusson, Snæbjörn Sigurðsson, Margrét Baldursdóttir, Sigurlaug Angantýsdóttir og Ragnar Sær Ragnarsson sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

 

 1. Skipulagsmál.  A)  Kárastaðir, Skálabrekka og Heiðarbær, óleyfilegar framkvæmdir.  B. Fundargerð skipulagsnefndar.

 

Skálabrekka 1, íbúðarhús.

Tillaga um framkvæmdaleyfi fyrir íbúðarhús að Skálabrekku 1 í Þingvallasveit skv. 3.tl. viðauka við skipulags-og byggingarlög enda er hér um staka framkvæmd að ræða þar sem ekki liggur fyrir aðalskipulag. Ekkert íbúðarhús er fyrir á jörðinni þar sem að gamla íbúðarhúsið brann fyrir nokkrum árum. Staðsetning hússins er norðan við gamla bæjarhúsið en í miðju túni og notast við sömu vegtengingu.

Lagt fram bréf frá Skipulagsstofnun dags. 26.maí 2004 þar sem tekið er fram að stofnunin gerir ekki athugasemd við að sveitarstjórn veiti byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsinu.  Sveitarstjórn staðfestir samþykki sitt frá 1. maí og vísar niðurstöðunni til byggingarnefndar og byggingarfulltrúa.

 

Skálabrekka, stöðvun skipulagsfulltrúa á óleyfilegri efnistöku í fjöruborði Þingvallavatns.

Þriðjudaginn 10. maí stöðvaði skipulagsfulltrúi uppsveita óleyfilega efnistöku í vatnsborði Þingvallavatns í landi Skálabrekku með vísan í 47. grein laga um náttúruvernd nr. 44/1999, 7. grein vatnalaga nr. 15/1923 og 27. grein skipulags-og byggingarlaga.

Sveitarstjórn staðfestir stöðvunina  með vísan í 56.grein skipulags- og byggingarlaga.

 

Heiðarbær, sumarbústaður nr. 1. Stöðvun skipulagsfulltrúa á óleyfisframkvæmdum.

Mánudaginn 17. maí stöðvaði skipulagsfulltrúi óleyfisframkvæmdir við vatnsbakka Þingvallavatns við sumarbústað nr. 1 í landi Heiðarbæjar. Ruddur hafði verið slóði niður að vatninu og gerðir tveir “hafnargarðar” úr stórgrýti út í vatnið með vélgröfu. Hafði grjótið verið tekið úr  vatnsbakkanum. Daginn eftir fór fulltrúi Umhverfisstofnunar á vettvang að beiðni skipulagsfulltrúa og voru þá framkvæmdir enn í gangi. Hann lét skipulagsfulltrúa vita sem  fór þá aftur á vettvang en kallaði þá á aðstoð lögreglu við að stöðva framkvæmdirnar en  þeim var lokið í þann mund sem komið var á vettvang.

Sveitarstjórn staðfestir stöðvunina  með vísan í 56. grein skipulags-og byggingarlaga.

 

Gjörningur þessi er ótvírætt brot á greinum V. kafla laga um náttúruvernd nr. 44/1999, 7. grein vatnalaga nr. 15/1923 og 27. grein skipulags-og byggingarlaga.  Auk þess er strandlengja Þingvallavatns á náttúruminjaskrá og gildi svæðisins mikið í þjóðarvitund eins og berlega hefur komið í ljós í umfjöllun um málið á vettvangi fjölmiðla.

Heiðarbær er ríkisjörð og frístundalóðin leigulóð.  Hefði því eigandi átt að hafa heimild landeiganda til framkvæmdarinnar og óljósar tilkynningar til ábúenda geta varla talist nægjanlegar.

Bátaaðstaða sem  þessi er ekki í samræmi við svæðisskipulag Þingvalla-, Grímsnes-, og Grafningshreppa sem vinna skal eftir og ekki í anda þeirrar stefnumótunar sem unnið er eftir við gerð aðalskipulags Þingvallasveitar sem er langt á veg komið.

 

Lagt fram erindi dags. 25. maí 2004 frá Sigurmari K.Albertssyni hrl. fyrir hönd eiganda sumarbústaðarins,  Péturs Jóhannssonar í Keflavík,  þar sem sótt er um leyfi fyrir framkvæmdinni.

 

Sveitarstjórn samþykkir ekki leyfi fyrir umræddri framkvæmd og gerir eiganda að afmá á eigin kostnað jarðrask það sem unnið hefur verið,  með vísan í 11. kafla skipulagsreglugerðar  400/1998 og 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Skipulagsfulltrúa er falið að leita til sérfræðinga Umhverfisstofnunar um tillögur að lagfæringum á staðnum og verður eiganda gert að fylgja þeim.   Lagfæringum skal lokið fyrir 15. sepember 2004.

 

Bústaður við Neðristíg 9 í landi Kárastaða, óleyfisframkvæmd.

Föstudaginn 21. maí voru byggingarfulltrúi og skipulagsfulltrúi kallaðir á vettvang í Þingvallasveit af Sigurði Oddsyni þjóðgarðsverði.  Kallaði Sigurður einnig til lögreglu en í ljós hafði komið að eigandi sumarbústaðar nr. 9 við Neðristíg í landi Kárastaða hefði reist bátaskýli og gert bátalægi í óleyfi og voru framkvæmdir langt á veg komnar.  Þær stöðvaðar og eiganda tilkynnt um stöðvunina.  Hafði verið brotið úr hrauninu fyrir skýlinu og tveir grjótgarðar gerðir út í vatnið.

 

Sveitarstjórn staðfestir stöðvunina  með vísan í 56. grein skipulags-og byggingarlaga.

 

Framkvæmd þessi er brot á þeim sömu lögum sem brotin voru í framkvæmdum við Heiðarbæ en auk þess er hér um brot á 36. grein skipulags-og byggingarlaga og 2. gr. laga nr.59/1928 um friðun Þingvalla. Að öðru leiti vísast í bókun um óleyfisframkvæmd í landi Heiðarbæjar.

 

Sveitarstjórn gerir eiganda að fjarlægja bygginguna og afmá á eigin kostnað jarðrask það sem unnið hefur verið með vísan í 11. kafla skipulagsreglugerðar  400/1998, 11. kafla byggingarreglugerðar 441/1998 og 56. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997.  Byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa er falið að leita til sérfræðinga Umhverfisstofnunar og starfsmanna Þingvallanefndar um tillögur að lagfæringum á staðnum og verður eiganda gert að fylgja þeim.  Lagfæringum skal lokið fyrir 15. september 2004.

 

Helludalur í Biskupstungum

Lögð fram tillaga að stækkun frístundasvæðis í landi Helludals í Biskupstungum.  Ný frístundasvæði eru í brekkunum ofan við bæjarstæðið í Helludal en einnig vestan við aðkomuveg heim í Helludal.

Sveitarstjórn samþykkir að auglýsa tillöguna skv. 18. gr. skipulags – og byggingarlaga og felur skipulagsfulltrúa að senda tillöguna til athugunar hjá Skipulagsstofnun. Sveitarstjórn vill vekja athygli á ákvæðum um hverfisvernd birkiskógar á umræddu svæði.

 1. Fundargerð byggðarráðs frá 25. maí 2004.   Gerðar eru þær breytingar á  14. lið að umbeðið nafn, var Fljótshamrar en ekki Fljótsholt, og er það samþykkt.   17. liður. Fyrir fund byggðaráðs voru lagðar fram sjö tillögur um byggðamerki og voru þær allar lagðar fram á fundi sveitarstjórnar.  Ákveðið var að skoða eina tillögu nánar og hönnuði boðið að þróa sína hugmynd áfram og að sú tillaga verði lögð fyrir næsta fund byggðaráðs. Kjartan sat hjá vegna vanhæfis undir umræðu um 17. lið.   Að öðru leiti var fundargerð byggðaráðs staðfest með framkomnum athugasemdum.
 2. Ársreikningur, samstæðureikningur Bláskógabyggðar 2003, síðari umræða.

Bókun T-lista:

T-listinn vill minna á varnaðarorð sem komu fram í skýrslu KPMG Endurskoðunar hf. Þar segir m.a. „Við viljum minna á ábendingar okkar frá endurskoðunarskýrslu vegna ársins 2002 um mikilvægi þess að bókhaldið sé fært reglulega frá degi til dags þannig að hægt sé að nota það við eftirlit með rekstri og fjárfestingu hverju sinni.  Mikið hefur áunnist í þessu efni, en styrkja má skráningu bókhaldsins hjá hitaveitunum, svo á hverjum tíma liggi fyrir upplýsingar um rekstur þeirra.“

T-listinn vekur athygli á, að tap á rekstri hitaveitna sveitarfélagsins er samtals tæplega kr. 9 milljónir á árinu.  Ekki njóta allir íbúar Bláskógabyggðar þess að fá heitt vatn úr hitaveitum sveitarfélagsins.  Allmargar hitaveitur eru reknar af einkaaðilum og enn eru íbúar sem njóta þess ekki að hafa heitt vatn. Tap á rekstri einkaveitna er tap eigendanna sjálfra.  Gera verður þá kröfu að tekjur veitna Bláskógarbyggðar standi undir rekstrarkostnaði.

Rekstur kaldavatnsveitu og fráveitu þarf einnig að standa undir sér.  Það vantar mikið uppá að allir íbúar og fyrirtæki fái sama aðgang að kaldavatnsveitu sveitarfélagsins. Kostnaður Bláskógabyggðar vegna veitukerfisins alls er rúmlega kr.14 milljónir árið 2003.

T-listinn ítrekar það að hann hefur alloft lagt til að unnið verði að sameiningu allra veitna í sveitarfélaginu.  Með því verði hægt að horfa til heildarhagsmuna, og virði veitnanna yrði meira.  Með slíkri vinnu gæti m.a. tekist að koma lagi á rekstur einkaveitna sem hafa verið illa nýttar fram að þessu.

Þ-listinn vill taka fram eftirfarandi: Við fyrri umræðu kom fram að ekki er rétt að segja að rekstrartap hitaveitna sveitarfélagsins sé tæplega 9 milljónir króna á árinu 2003 vegna þess að 3 milljónir af þessum 9 eru kröfur sem safnast hafa upp á undanförnum árum en eru nú afskrifaðar þar sem þær eru tapaðar s.s. vegna gjaldþrota.  Rétt er því að segja að rekstrartapið sé tæpar 6 milljónir á árinu.

Bókun sveitarstjóra:  Sveitarstjóri vill taka það fram að á árinu 2002, þ.e. sameiningarár sveitarfélaganna tók nokkurn tíma að koma bókhaldi sveitarfélaganna þriggja saman en á árinu 2003 og allt árið 2004 hefur allt bókhald verði fært frá degi til dags og er hægt að ganga að stöðu sveitarfélagsins nú á hverjum tíma.

Ársreikningurinn var samþykktur samhljóða og undirritaður af sveitarstjórn og sveitarstjóra.

 1. Kaupsamningur á Lindinni.  Tilboðsgjafi er Ríkharður Oddsson kt. 270261-5159 og er kaupverð kr. 25.000.000.- .  Tilboðið felur í sér að tilboðsgjafi yfirtaki leigusamning við núverandi leigutaka Baldur Öxdal kt. 190264-4679    Núverandi leigutaki Baldur Öxdal hefur tvær vikur til þess að ganga inní kauptilboðið í samræmi við forkaupsrétt í leigusamning frá 1. maí  2002.   Tilboðið er samþykkt með þeim fyrirvara að samkomulag takist um 5. gr. lóðarleigusamnings á milli ríkis -og sveitarfélags frá 15.06. 2001 við tilboðsgjafa.  Salan felur í sér breytingu á fjárhagsáætlun 2004 og mun koma fram í endurskoðaðri fjárhagsáætlun sem lögð verður fyrir sveitarstjórn þann   6. júlí n.k.
 2. Umræða um riðumál í Biskupstungum.
  Þann 2. febrúar 2004 var staðfest að riða hefði greinst á bænum Vegtungu í Biskupstungum og síðan greindist veikin einnig í Hrosshaga og Vatnsleysu.  Í ljósi þess var skorið niður fé á 8 bæjum á þessu svæði.  Í framhaldi af því var síðan tekin ákvörðun um að farga öllu fé í Biskupstungum vestan Tungufljóts, utan Hlíðarbæja. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um frekari niðurskurð í sveitarfélaginu en mjög strangt eftirlit verður haft með því fé sem eftir er á svæðinu.  Í ljósi þess hvetur sveitarstjórn alla íbúa til að kynna sér og fara eftir þeim reglum, sem settar hafa verið af yfirdýralækni, héraðsdýralækni og fjallskilanefnd, um það hvernig hægt er að verjast riðusmiti og eins um sóttvarnir í smölun og réttum.
 3. Félagsþjónusta uppsveita Árnessýslu.  Reglur um fjárhagsaðstoð.  Kynnt og samþykkt af sveitarstjórn en vísað til lokaafgreiðslu hjá oddvitanefnd.
 4. Kosningar í nefndir til eins árs:  Yfirkjörstjórn,  undirkjörstjórnir, oddvita, varaoddvita og byggðaráðs.
 1. a. Kosning oddvita.  Tillaga um að Sveinn A. Sæland verði kosinn oddviti.  Samþykkt með 5 atkvæðum og tveir sátu hjá.
  b. Kosning varaoddvita.  Tillaga um að Snæbjörn Sigurðsson verði kosinn varaoddviti.  Samþykkt með 5 atkvæðum og tveir sátu hjá.
  c. Kosning þriggja fulltrúa í byggðaráð og þriggja til vara. Kosin voru sem aðalfulltrúar í byggðaráð Margeir Ingólfsson formaður, Snæbjörn Sigurðsson og Drífa Kristjánsdóttir. Til vara Sveinn A. Sæland, Margrét Baldursdóttir og Kjartan Lárusson.  Samþykkt samhljóða.
  d. Kosning yfirkjörstjórnar.  Kosin voru: Pétur Skarphéðinsson, Hilmar Einarsson og Helgi Guðbjörnsson.  Til vara Guðrún Sveinsdóttir, Böðvar Ingi Ingimundarson og Sveinbjörn Einarsson.
  e. Kosning undirkjörstjórnar fyrir Þingvallasveit.  Kosin voru: Ragnar Jónsson, Jóhann Jónsson og Steinunn Guðmundsdóttr.  Til vara Gunnar Þórisson, Rósa Jónsdóttir og Guðrún S. Kristinsdóttir.
  f. Kosning undirkjörstjórnar fyrir Laugardal.  Kosin voru Árni Guðmundsson, Halldóra Guðmundsdóttar og Elsa Pétursdóttir.  Til vara Páll Pálmason. Helga Jónsdóttir og Margrét Þórarinsdóttir.
  g. Kosning undirkjörstjórnar fyrir Biskupstungur.  Kosin voru Gústaf Sæland, Sigríður J. Sigurfinnsdóttir og Óskar T. Guðmundsson.  Til vara Elínborg Sigurðardóttir, Bjarni Kristinsson og Helgi Árnason.

 

 

 

 1. Sameining sveitarfélaga.  Fundarboðun nefndar sem vinnur að sameiningu sveitarfélaga, dags. 26. maí 2004,  þar sem boðað er til fundar með sveitarfélögunum í uppsveitum Árnessýslu.
  Sveitarstjórn Bláskógabyggðar ítrekar fyrri bókanir sínar um að hún telji að sameining uppsveita Árnessýslu sé raunhæfasti kostur viðkomandi sveitarfélaga.  Ljóst er að þessi sveitarfélög hafa góða reynslu af samvinnu en af sameiningu þeirra hefur ekki orðið m.a. vegna lélegra samgangna milli sveitarfélaganna.   Því þarf að leggja mikla áherslu á að bæta samgöngur á svæðinu og þá sérstaklega þvertengingu uppsveitanna og má þar nefna brú við Hvítá sem tengir saman Hrunamannahrepp og Bláskógabyggð.  Það gerir heildarsvæðið að heildstæðu atvinnu- og þjónustusvæði.   Sveitarstjórn telur að aðlögun að misjöfnu tekjustreymi til sveitarfélaganna verði að vera óbreytt a.m.k. 8 – 12 ár,  má þar nefna tekju- og útgjaldajöfnunarframlög,  til að kostir sameiningar séu áhugaverðir.  Þá er ljóst að tryggja verður þennan þátt mun betur en áður þannig að ekki sé hægt að breyta þessu ákvæði eftirá.  Leggist ríkisvaldið á eitt með sveitarfélögunum að undirbyggja þessa liði kyrfilega má telja það áhugaverðan kost fyrir sveitarfélögin að skoða kosti sameiningar í uppsveitum Árnessýslu.

 

 

Fundi slitið kl. 19:35