302. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar

 

 

 

 

 

302. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn í Aratungu, Reykholti,

fimmtudaginn 7. apríl 2022, kl. 15:15.

 

 

Fundinn sátu:

Helgi Kjartansson, Valgerður Sævarsdóttir, Óttar Bragi Þráinsson, Kolbeinn Sveinbjörnsson, Guðrún S. Magnúsdóttir, Róbert Aron Pálmason, Axel Sæland og Ásta Stefánsdóttir.

 

 

Fundargerð ritaði: Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri.

Leitað var afbrigða til að taka á dagskrá erindi vegna Fontana, var það samþykkt samhljóða og verður mál nr. 22 á dagskrá fundarins.

 

1.   Fundargerð framkvæmda- og veitunefndar – 2201002
25. fundur haldinn 24. mars 2022
-liður 6, 2005048, viðhald íþróttamannvirkja í Reykholti, sveitarstjórn samþykkir að gerðar verði úrbætur á myndavélakerfi sundlaugarinnar. Gert er ráð fyrir kostnaði, 1.000.000 kr, í viðauka við fjárhagsáætlun sem er til afgreiðslu undir 19. lið á dagskrá fundarins.
Fundargerðin var staðfest.
2.   Fundargerð framkvæmda- og veitunefndar – 2201002
26. fundur haldinn 7. apríl 2022
-liður 1, 2111018, íþróttahús á Laugarvatni, gólf: Yfirferð tilboða stendur yfir. Sviðsstjóra og sveitarstjóra er falið að tilkynna um töku tilboðs að yfirferð lokinni. Kostnaðaráætlun nam kr. 49.105.000. Sveitarstjórn samþykkir að gerð verði breyting á fjárhagsáætlun ársins, þannig að 42.000.000 kr af áætlaðri fjárveitingu til þakskipta á íþróttahúsinu á Laugarvatni verði færð yfir á gólfskipti. Er gert ráð fyrir þeirri breytingu í viðauka við fjárhagsáætlun sem liggur fyrir fundinum.
-liður 2, 2006014, leikskólalóð Laugarvatni, viðhald: Sveitarstjórn samþykkir að taka tilboði lægstbjóðanda, Jóhanns Helga og co verði tekið. Tilboðið er að fjárhæð kr. 26.825.000, kostnaðaráætlun var kr. 24.853.300. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að auka við fjárhagsáætlun vegna verksins kr. 9.000.000, og er gert ráð fyrir því í viðauka við fjárhagsáætlun sem liggur fyrir fundinum.
-liður 3, 2105023, gatnagerð Traustatún: Sveitarstjórn samþykkir að taka tilboði lægstbjóðanda, Ketilbjarnar ehf, kr. 63.002.420. Kostnaðaráætlun nam kr. 71.521.930. Gert er ráð fyrir breytingu á fjárhagsáætlun vegna verksins í viðauka sem liggur fyrir fundinum, þ.e. fjárfestingaáætlun eignasjóðs vegna gatnagerðar og B-hluta vegna fráveitu, vatnsveitu og Bláskógaveitu til samræmis við niðurstöður útboðs.
-liður 5, 2106013, ráðning starfsmanna hjá Bláskógaveitu: Sveitarstjórn samþykkir að starfið verði auglýst. Gert er ráð fyrir kostnaði í launaáætlun.
-liður 6, 2204014, kaup á bíl fyrir þjónustumiðstöð (gámasvæði): Sveitarstjórn samþykkir að keyptur verði bíll fyrir gámasvæði í stað þess sem nú er í notkun. Gert verði ráð fyrir kostnaði, kr. 3.000.000, í viðauka við fjárhagsáætlun sem liggur fyrir fundinum.
Fundargerðin staðfest.
3.   Fundargerð skipulagsnefndar – 2201007
236. fundur haldinn 23. mars 2022, afgreiða þarf sérstaklega mál nr. 1 til 4.
-liður 1, Lækjarhvammur L167642; Lækjarhvammsvegur (Bakkabraut) 2 L167917 og 4 L216467; Stækkun lóða – 2111084
Lögð er fram beiðni Gunnars Hafsteinssonar um nýjan staðvísi innan jarðarinnar Lækjarhvammur. Fyrir liggur umsókn um stækkun lóðanna Lækjarhvammur lóð L167917 og L216467 í samræmi við samþykkta skipulagsbreytingu fyrir lóðirnar í máli nr. 2103047. Óskað er eftir að aðkomuvegurinn að lóðunum fái staðvísinn Bakkabraut í stað Lækjarhvammsvegar eins og kemur fram í skipulagsbreytingunni.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við staðvísinn Bakkabraut og samþykkir erindið og að aðrar lóðir sem hafa aðkomu um sama veg fái einnig nafnið Bakkabraut og viðeigandi númer.
-liður 2, Stakksárhlíð; Þakhalli; Skilmálar; Deiliskipulagsbreyting – 2203036
Lögð er fram umsókn frá Þórdísi Geirsdóttur er varðar breytingu á skilmálum frístundabyggðar Stakksárhlíð. Í breytingunni felst að skilmálar er varðar þakhalla eru felldir úr deiliskipulagi.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi.

-liður 3, Klif L167134; Skilgreining landsvæðis; Aðalskipulagsbreyting – 2201035
Lögð er fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi Bláskógabyggðar er varðar jörðina Klif L167134. Breytingin var samþykkt á fundi sveitarstjórnar þann 17. febrúar 2022 þar sem mælst var til þess að breytingin tæki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar. Skipulagsstofnun afgreiddi málið með bréfi til embættis UTU dags. 11. mars 2022 þar sem stofnunin hafnaði því að um óverulega breytingu væri að ræða. Málið lagt fram að nýju ásamt afgreiðslu Skipulagsstofnunar. Vinna þarf verulega breytingu á aðalskipulagi sem tekur til svæðisins í takt við umsögn Skipulagsstofnunar. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir gerð skipulagslýsingar vegna fyrrgreindra breytinga og að hún verði kynnt og send til umsagnar í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

-liður 4, Böðmóðsstaðir 1 L167625 og Böðmóðsstaðir (4) L167628; Rimaskógur; Stofnun lóðar og breytt heiti – 2203053
Lögð er fram umsókn Auðuns Árnasonar um stofnun lands úr Böðmóðsstöðum. Óskað er eftir að stofna 30,4 ha land sem fengi staðfangið Rimaskógur. Landið kemur úr sameignarlandi Böðmóðsstaða 1 L167625 og Böðmóðsstaða L167628 skv. þinglýstri landskiptagerð nr. 409/2000. Aðkoma að landinu er um núverandi veg sem liggur m.a. að frístundasvæðinu við Kolviðarholt. Jafnframt er óskað eftir að staðfangi L167628 verði breytt úr Böðmóðsstaðir í Böðmóðsstaðir 4.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við stofnun landsins skv. fyrirliggjandi umsókn eða skilgreiningu nýs staðfangs og samþykkir erindið.

Fundargerðin var lögð fram til kynninar hvað aðra liði hennar varðar.

4.   Fundargerð skólaþjónustu og velferðarnefndar Árnesþings – 2201009
54. fundur haldinn 16. mars 2022
-liður 1, tillaga að gjaldskrárhækkun vegna stuðningsfjölskyldna í barnavernd. Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi tillög um hækkun á gjaldskrá vegna stuðningsfjölskyldna í barnavernd.
5.   Fundargerð aðildarsveitarfélaga Bergrisans bs – 2201021
Fundargerð fundar aðildarsveitarfélaga Bergrisans bs., dags. 21. mars 2022.
Fundargerðin var lögð fram.
6.   Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga – 2201025
908. fundur haldinn 25. mars 2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
7.   Fundargerð stjórnar Byggðasafns Árnesinga – 2201013
23. fundur haldinn 21. mars 2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
8.   Fundargerðir stjórnar Markaðsstofu Suðurlands – 2201029
5. fundur haldinn 13. desember 2022
6. fundur haldinn 7. febrúar 2022
Fundargerðirnar voru lagðar fram til kynningar.
9.   Fundargerð stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands – 2201020
310. fundur haldinn 29. mars 2022 ásamt samantekt um úrgangsmagn á svæði SOS vegna ársins 2021.
Fundargerðin var lögð fram til kynningar ásamt fylgigögnum.
10.   Fundargerðir NOS (stjórn skóla- og velferðarþjónustu) – 2201010
Fundir haldnir 24. og 30. mars 2022
Fundargerðirnar voru lagðar fram til kynningar.
11.   Fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa – 2201008
161. fundur haldinn 16. mars 2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
12.   Fundargerð Héraðsnefndar Árnesinga – 2201023
24. fundur (aukafundur) haldinn 7. febrúar 2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
13.   Ungmennaráð Bláskógabyggðar, fundir með sveitarstjórn – 2201005
Fundur sveitarstjórnar með ungmennaráði

 

Á fundinn mættu Sólmundur Sigurðsson, Henný Lind Brynjarsdóttir, Kjartan Helgason, Ragnar Dagur Hjaltason og Sara Rósíta Guðmundsdóttir, ásamt Ragnheiði Hilmarsdóttur, umsjónarmanni.

Rætt var um erindisbréf ungmennaráðs, einkum ákvæði um skipan ráðsins, og er sveitarstjóra falið að yfirfara erindisbréfið í samráði við Ragnheiði.

Farið var yfir þau mál sem rædd voru á síðasta fundi.

Ungmennaráð kom fram með eftirfarandi atriði: Kjartan Helgason nefndi það hvort hægt væri að fá fleiri tæki við hjólabrettarampinn, en auk þess vanti slík tæki við skólann á Laugarvatni og hafa þurfi samráð við skólana um útfærslu.

Ragnar Dagur Hjaltason nefndi varðandi íþróttahúsið að það væri ekki eðlilegt að unglingar mættu fara einir í ræktina og lyfta þungum lóðum en ekki fara í salinn án fylgdar fullorðinna. Miðað er við 14 ár í líkamsræktinni, en miðað sé við 18 ára í íþróttasalnum. Mögulega séu reglur einnig mismunandi milli íþróttahúsanna. Lagt er til að við 14 ára aldur megi fara í salinn, ef hann er tómur.

Henný Lind Brynjarsdóttir nefndi það að ungmennaráð sé búið að undirbúa kynningu á sínu starfi til að fara með í skólana og í framhaldinu verði kosnir nýir fulltrúar í ráðið.

Sara Rósíta Guðmundsdóttir nefndi skipan í hóp um endurskoðun á forvarnastefnu og gögn varðandi það og mun sveitarstjóri senda gögnin.

Sólmundur nefndi hvort umræða hafi farið fram um í hvað fjármagn sem ungmennafélögin fá fari. Samstarfssamningar eru tilbúnir til undirritunar, en ekki hefur náðst að funda með formönnum og ganga frá undirritun. Ákvæði samninga eru skýr um þessi atriði, en fara þarf yfir framkvæmdina.

Varðandi vinnu fyrir unglinga á sumrin var nefnt hve fábreytt störfin væru. Ragnar nefndi einnig að laun í unglingavinnu væru lág. Rætt var um hvort starfsfólk í unglingavinnu fengi t.d. sundkort á meðan þau eru að vinna.

Umræða varð um mikilvægi þess að leggja áherslu á íþróttastarf og aðstöðu og fræðslumál, t.d. fjármálalæsi og kennslu um samfélagið. Einnig um það að kynfræðslu væri ábótavant. Rætt var um kennslu hvað varðar forvarnir, en t.d. fá unglingar ekki að fara á Samfés nema vera búin að fara á fyrirlestur hjá Stígamótum, „Sjúk ást“.

14.   Styrkbeiðni Hestamannafélagsins Jökuls – 2204009
Stykbeiðni Hestamannafélagsins Jökuls, ódags, móttekin 4. apríl 2022, til sveitarfélaga í uppsveitum Árnessýslu.
Sveitarstjórn samþykkir styrkbeiðni félagsins og að gerður verði samningur til fimm ára um stykrveitingar, ráðstöfun styrks og réttindi og skyldur aðila. Kostnaður vegna ársins 2022, kr. 500.000, rúmast innan fjárhagsáætlunar.
15.   Grænn auðlindagarður – 2203020
Viljayfirlýsing Bláskógabyggðar, Orkideu og eigenda þriggja garðyrkjustöðva í Reykholti um samstarf um könnun á fýsileika þess að koma á grænum auðlindgarði í Reykholti.
Lögð var fram viljayfirlýsing Blaskógabyggðar, Orkídeu, Friðheima, Espiflatar og Gufuhlíðar um samstarf um könnun á fýsileika þess að koma á grænum auðlindagarði í Reykholti. Sveitarstjórn staðfestir viljayfirlýsinguna og fagnar frumkvæði Orkídeu í málinu og áhuga fyrirtækja á samstarfi.
16.   Taka jarðvegssýna við Sandvatn vegna rannsókna – 2104037
Beiðni Michael T. Thorpe, Texas State University, dags. 1. apríl 2022, um leyfi til áframhaldandi töku jarðvegssýna úr Sandvatni.
Lögð var fram umsókn Michaels T. Thorpe um heimild til að taka jarðvegssýni við Sandvatn og flytja þau með sér úr landi. Sveitarstjórn heimilar Micahel T. Thorpe að taka jarðvegssýni við Sandvatn, allt að 500 kg, og að flytja þau úr landi.
17.   Lóðarumsókn Hverabraut 5, Laugarvatni – 2104041
Erindi Sólstaða ehf, dags. 4. apríl 2022, þar sem óskað er upplýsinga um stöðu mála vegna umsóknar um lóðina Hverabraut 5, Laugarvatni.
Sveitarstjórn samþykkir að vísa málefnum lóða neðan Hverabrautar til starfshóps sem vann að deiliskipulagi Laugarvatns og til framkvæmda- og veitunefndar vegna nálægðar við vatnsöflunarsvæði Bláskógaveitu.
18.   Úthlutun lóða á Laugarvatni – 2103032
Tillaga um að auglýstar verði til úthlutunar lóðir á Laugarvatni.
Sveitarstjórn samþykkir að auglýstar verði lausar til úthlutunar lóðir við Traustatún nr. 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 10, 12, 14 og 16. Lóðirnar verði auglýstar með fyrirvara um það að þær verði ekki byggingarhæfar fyrr en gatnagerð hefur verið lokið, en áætluð verklok eru 15. nóvember 2022.
Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að auglýstar verði lausar til úthlutunar lóðir við Hverabraut nr. 4, 8 og 14, en deiliskipulagi hefur verið breytt á svæðinu frá því að lóðirnar voru fyrst auglýstar til úthlutunar, þannig að götuheiti og númeraröð hefur breyst. Verklok við gatnagerð að lóðum nr. 4 og 8 eru áætluð 15. júní 2022. Lóð nr. 14 er auglýst með fyrirvara um samkomulag um aðkomu að lóðinni.
19.   Viðaukar við fjárhagsáætlun 2022 – 2204012
Viðauki við fjárahgsáætlun 2022
Lagður var fram viðauki við fjárhagsáætlun ársins 2022. Sveitarstjórn samþykkir viðauka við fjárhagsáætlun. Rekstrarkostnaður hækkar um 31,8 mkr, og vegur þar þyngst fyrirséð fjárþörf Bergrisans bs á árinu 2022. Rekstrarniðurstaða A-hluta verður neikvæð upp á 24,3 mkr. Rekstrarniðurstaða samstæðu verður neikvæð, fer úr 31,716 mkr í -84 þús. Áður áætlaðar fjárfestingar hækka um 127,5 mkr., þar af 42 mkr í A-hluta. Gert er ráð fyrir viðbótarlántöku upp á 100 mkr. og að gengið verði á handbært fé Bláskógaveitu vegna þess hluta fjárfestingar sem tilheyrir veitunni. Handbært fé samstæðu lækkar samtals um 59,3 mkr vegna aukins rekstrarkostnaðar og fjárfestinga og verður 38,090 mkr.
20.   Útsvarstekjur og framlög Jöfnunarsjóðs – 2202017
Yfirlit yfir staðgreiðsluskil janúar til mars 2022.
Lagt var fram yfirlit yfir skil á útsvari fyrir janúar til mars.
21.   Málefni hjólhýsasvæðis Laugarvatni – 2004032
Fulltrúar Samhjóls koma inn á fundinn.
Eftirfarandi gögn eru lögð fram:
Kostnaðaráætlun Samhjóls, mótt. 18. mars 2022.
Kostnaðaráætlun sviðsstjóra, dags. 18. mars 2022.
Samantekt Landforms, dags. 18. mars 2022.
Tölvupóstur Samhjóls, dags. 29. mars 2022, þar sem framsendur er tölvupóstur lögmanns Samhjóls, dags. sama dag.
Minnispunktar Samhjóls, dags. 22. mars 2022.
Framangreind gögn eru lögð fram til kynningar. Í minnispunktum Samhjóls, dags. 22. mars 2022, kemur m.a. fram að Samhjól, félag hjólhýsaeigenda á Laugarvatni, sé reiðubúið til að skuldbinda sig til þess að koma í framkvæmd ýmsum nánar tilgreindum aðgerðum sem miði að því að hjólhýsasvæðið á Laugarvatni standist allar kröfur og sé öruggt fólki sem dvelji þar í frítíma sínum. Einnig er lagt til að gerður verði samningur milli sveitarfélagsins, leigutaka og hjólhýsaeigenda til 10 ára. Þá eru settar fram hugmyndir um hvernig sveitarfélagið geti haft meiri tekjur af nýtingu svæðisins.
Af hálfu Samhjóls eru mætt Hrafnhildur Bjarnadóttir, formaður, Þóra Guðjónsdóttir, gjaldkeri, og lögmaður félagsins, Þórir Helgi Sigvaldason. Hrafnhildur fylgdi minnisblaðinu úr hlaði.
Sveitarstjórn þakkar fulltrúum Samhjóls fyrir fundinn og þau gögn sem lögð hafa verið fram. Sveitarstjórn fer með opinbera stjórnsýslu sveitarfélagsins og þarf að vanda til verka við ákvarðanatöku, ekki síst þegar um er að ræða úthlutun á opinberum gæðum. Mikilvægt er að uppfylla skyldur sveitarfélagsins og gæta þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra í samstarfi við lögmenn sveitarfélagsins að fara yfir þau atriði sem þarf að leysa og skila minnisblaði til sveitarstjórnar.
22.   Beiðni um stækkun lóðar Fontana, fjölgun bílastæða ofl – 2204016
Beiðni stjórnar Gufu ehf, dags. 6. apríl 2022, um stækkun lóðar Fontana, fjölgun bílastæða og samstarf um markaðssetningu Laugarvatns, auk upplýsinga um aukna heitavatnsþörf og ábendingu um mögulega þörf fyrir uppbyggingu innviða vegna fjölgunar íbúa.
Sveitarstjórn samþykkir að vísa málinu til starfshóps um deiliskipulag Laugarvatns og til framkvæmda- og veitunefndar.
23.   Frumvarp til laga um fjarskipti, 461. mál – 2204002
Erindi Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, dags. 30. mars 2022, þar sem sent er til umsagnar frumvarp til laga um fjarskipti, 461. mál

Umsagnarfrestur er til 13. apríl nk.

Frumvarpið var lagt fram til kynningar.
24.   Frumvarp til laga um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur), mál 450 – 2204005
Erindi Velferðarnefndar Alþingis, dags. 24. mars 2022, þar sem sent er til umsagnar frumvarp til laga um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur), mál 450.

Umsagnarfrestur er til 6. apríl nk.

Frumvarpið var lagt fram til kynningar.
25.   Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum vegna tilfærslu fasteignaskrár frá Þjóðskrá Íslands til Húsnæðis-og mannvirkjastofnunar. – 2204008
Erindi Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, dags. 4. apríl 2022, þar sem vakin er athygli á að drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum vegna tilfærslu fasteignaskrár frá Þjóðskrá Íslands til Húsnæðis-og mannvirkjastofnunar hafa verið birt til umsagnar.

Umsagnarfrestur er til 11. apríl 2022.

Frumvarpsdrögin voru lögð fram til kynningar.
26.   Þingsályktunartillaga um mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaráætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030, 418. mál – 2204006
Erindi Velferðarnefndar Alþingis, dags. 24. mars 2022, þar sem send er til umsagnar tillaga til þingsályktunar um mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaráætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030, 418. mál

Umsagnarfrestur er til 6. apríl nk.

Þingsályktunartillagan var lögð fram til kynningar.
27.   Héraðsþing HSK 2022 – 2204001
Ársskýrsla HSK og Héraðsþing HSK 2022, erindi frá framkvæmdastjóra HSK dags. 1. apríl 2022.
Gögnin voru lögð fram til kynningar.
28.   Breytt skipulag barnaverndar – 2112010
Erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 30. mars 2022, þar sem send er til kynningar bókun stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi innleiðingu nýrra barnaverndarlaga.
Lagt fram til kynningar.
29.   Viðmiðunarreglur um framlög til stjórnmálaflokka – 2204003
Erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 30. mars 2022, varðandi framlög til stjórnmálaflokka.
Viðmiðunarreglur um framlög til stjórnmálaflokka voru lagðar fram til kynningar.
30.   Verkefni vegna innleiðingar hringrásarhagkerfis – 2111018
Erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 30. mars 2022, þar sem send er til kynningar bókun stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga um átak um hringrásarhagkerfið.
Bókunin innifelur hvatningu til sveitarfélaga um frekara samstarf varðandi innleiðingu nýrra krafna um úrgangsstjórnun sveitarfélaga.
31.   Römpum upp Ísland – 2204004
Erindi stjórnar Römpum upp Ísland, ódags., móttekið 28. mars 2022, varðandi átak í að bæta aðgengi með verkefninu Römpum upp Ísland.
Erindið var lagt fram. Sveitarstjórn lýsir yfir áhuga á þátttöku í verkefninu, sem felst í úrbótum í aðgengismálum.
32.   Færsla Laugarvatnsvegar á Laugarvatni – 2109042
Úrskurður Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 184/2021, dags. 23. mars 2022, vegna kæru Ásvéla ehf vegna samþykkis sveitarstjórnar Bláskógabyggðar fyrir færslu Laugarvatnsvegar (Dalbrautar) á um 500 m kafla.
Úrskurðurinn var lagður fram. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar er að vísa kærumálinu frá nefndinni.
33.   Endurskipulagning á sýslumannsembættum – 2204007
Erindi dómsmálaráðherra, dags. 22. mars 2022, um endurskipulagningu á sýslumannsembættum.
Erindið var lagt fram til kynningar. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar leggur áherslu á að jafnt aðgengi að þjónustu verði tryggt um allt land og að þjónusta ríkisins verði sem víðast á landinu. Aukin stafræn þjónusta eykur möguleika á að flytja störf út á landsbyggðina, þ.m.t. sérhæfð störf sérfræðinga, og má með því styrkja starfsstöðvar sýslumannsembætta um land allt. Við breytingar sem urðu þegar sýslumanns- og lögreglustjóraembætti voru aðskilin var lýst yfir vilja til að færa ýmis verkefni til sýslumannsembætta. Ekki hefur orðið mikið úr þeim áformum. Þróun í stafrænum lausnum og fjarvinnu á síðustu árum gerir það að verkum að nú er auðvelt að sinna ýmsum verkefnum hvar á landinu sem er. Miklu skiptir fyrir byggðaþróun í landinu að verkefni ríkisins safnist ekki fyrir á höfuðborgarsvæðinu, heldur verði leitast við að koma þeim fyrir sem víðast um land, þannig að fjölbreytt störf verði í boði í öllum landshlutum. Nauðsynlegt er að við endurskipulagningu sýslumannsembætta verði haft víðtækt samráð við sveitarfélög og samtök þeirra og horft til sjónarmiða um vöxt og viðgang landsbyggðarinnar.
34.   Aðalfundur Veiðifélags Hvítárvatns – 2204010
Auglýsing um aðalfund Veiðifélags Hvítárvatns.
Tilkynning um fundinn var lögð fram til kynningar.
35.   Skýrsla um reynslu kjörinna fulltrúa í bæjar- og sveitarstjórnum – 2204011
Erindi Innviðaráðuneytisins, dags. 18. mars 2022, varðandi skýsrlu um reynslu kjörinna fulltrúa í bæjar- og sveitarstjórnum.
Skýrslan var lögð fram til kynningar.

 

 

Fundi slitið kl. 19:10.

 

 

 

 

 

Helgi Kjartansson Valgerður Sævarsdóttir
Óttar Bragi Þráinsson Kolbeinn Sveinbjörnsson
Guðrún S. Magnúsdóttir Róbert Aron Pálmason
Axel Sæland Ásta Stefánsdóttir