303. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar

 

 303. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn í Aratungu, Reykholti,

fimmtudaginn 28. apríl 2022, kl. 15:15.

 

 

Fundinn sátu:

Helgi Kjartansson, Valgerður Sævarsdóttir, Óttar Bragi Þráinsson var fjarverandi en í staðinn sat fundinn Sigurjón Pétur Guðmundsson, Kolbeinn Sveinbjörnsson, Guðrún S. Magnúsdóttir, Róbert Aron Pálmason, Axel Sæland og Ásta Stefánsdóttir.

 

 

Fundargerð ritaði: Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri.

Leitað var afbrigða til að taka á dagskrá beiðni um stækkun lóðar Fontana o.fl., tvær umsóknir um lóðirnar Hverabraut 5 og trúnaðarmál. Var það samþykkt samhljóða og bætast við liðir nr. 31-34.

 

1.   Fundargerð skólanefndar – 2201003
23. fundur haldinn 25. apríl 2022, afgreiða þarf sérstaklega 3. lið.
-liður 3, Rýmisþörf leik- og grunnskóla Bláskógabyggðar – 2204023
Skólanefnd samþykkti eftirfarandi tillögu um að ráðist verði í greiningu á húsakosti og rýmisþörf leik- og grunnskóla.
Skólanefnd Bláskógabyggðar leggur til við sveitarstjórn að skipaður verði starfshópur til að greina stöðu húsnæðismála grunn- og leikskóla í Bláskógabyggð og gera áætlun um úrbætur til næstu ára. Horft verði til þeirra gagna sem þegar hafa verið unnin vegna húsnæðismála, en upplýsingar uppfærðar miðað við breytingar sem orðið hafa á síðustu árum. Jafnframt verði tekið mið af húsnæðisáætlun sveitarfélagsins.
Íbúum í Bláskógabyggð fer fjölgandi og talsvert er af íbúðarhúsnæði í byggingu og lóðaframboð að aukast. Breytingar hafa orðið í skólamálum frá því að síðasta var farið yfir rýmisþörf skólastofnana, svo sem breytingar á samkennslu unglinga, aukið framboð frístundar, auk þess sem húsið Ösp á Laugarvatni hefur nú verið tekið undir kennslu. Skólanefnd telur því rétt að greina stöðu mála og telur æskilegt að niðurstöður liggir fyrir áður en vinnu við fjárhagsáætlunargerð verður lokið í haust.
Sveitarstjórn samþykkir að skipa í starfshópinn formann og varaformann skólanefndar og oddvita. Með hópnum vinni sveitarstjóri, sviðsstjóri framkvæmda- og veitusviðs og skólastjórnendur eftir því sem við á.

Fundargerðin var staðfest.

 
2.   Fundargerð framkvæmda- og veitunefndar – 2201002
27. fundur haldinn 26. apríl 2022
-liður 1 Tungurimi/Borgarrimi, fráveita og gatnagerð 2106013: Sveitarstjórn samþykkir tillögu framkvæmda- og veitunefndar um að taka tilboði lægstbjóðanda, Fögrusteina ehf, kr. 86.029.900 í verkið, kostnaðaráætlun nam kr. 96.756.385.
-liður 2, Íþróttahúsið á Laugarvatni, gólf, 2110018, sveitarstjórn staðfestir töku tilboðs Sport-Tækja ehf, kr. 43.118.549. Kostnaðaráætlun nam kr. 49.105.000.
-liður 4, Þjónustsamningur um rekstur ljósleiðarakerfis, 2204021, sveitarstjórn samþykkir þjónustusamning við Snerru ehf um rekstur ljósleiðarakerfis.
Fundargerðin var staðfest.
 
3.   Fundargerð skipulagsnefndar – 2201007
237. fundur haldinn 13. apríl. Afgreiða þarf sérstaklega liði nr. 3 til 13.
-liður 3, Litla-Fljót 4 L225223; Skilmálabreytingar; Hústegundir; Deiliskipulagsbreyting – 2203060
Lögð er fram umsókn frá Sigríði Garðarsdóttur er varðar breytingu á deiliskipulagi vegna Litla- Fljóts 4 L225223. Í breytingunni felst breyting á byggingarskilmálum innan lóða.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi.

-liður 4, Syðri-Reykir 2 L167163; Deiliskipulag – 2101037
Lögð er fram tillaga deiliskipulags í landi Syðri-Reykja 2 L167163 eftir auglýsingu. Í deiliskipulaginu felst skilgreining byggingarreita og byggingarheimilda fyrir íbúðarhúsi, gróðurhúsi, vélaskemmu og byggingar sem ætluð er fyrir ferðaþjónustu. Umsagnir og athugasemdir bárust við tillöguna og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu. Að mati sveitarstjórnar hefur verið brugðist við athugasemdum og umsögnum sem bárust vegna málsins með fullnægjandi hætti innan greinargerðar tillögunnar. Sveitarstjórn mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

-liður 5, Einiholt 1 land 1 L217088; Úr landbúnaðarsvæði í verslun- og þjónustu; Aðalskipulagsbreyting – 2110061
Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar sem tekur til Einiholts 1 land 1 L217088 eftir kynningu. Í breytingunni felst breytt landnotkun landbúnaðarsvæðis í verslunar- og þjónustusvæði.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir fyrirliggjandi tillögu um breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna Einiholts 1 land 1 í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að mati sveitarstjórnar tekur umrædd skipulagsbreyting ekki til meira lands en þörf krefur vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar innan svæðisins. Ekki er talið að breytt landnotkun muni hafa áhrif á aðlæg svæði eða takmarki búrekstarnot til framtíðar. Sveitarstjórn telur skynsamlegt að beina áframhaldandi uppbyggingu á verslun- og þjónustu á sama svæði m.t.t. núverandi landnotkunar svæðisins og sameiginlegra vegtenginga frá stofnvegi. Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins er umrætt land að mestu misgróinn melur sem landeigendur hafa reynt að græða upp undanfarin ár og telst landið því ekki vera gott landbúnaðarland að mati nefndarinnar. Svetiarstjórn samþykkir að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 31 sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar.

-liður 6, Bergsstaðir L167060; Kringlubraut 1 og 3; Skilgreining lóða; Deiliskipulag – 2201066
Lögð er fram umsókn frá Einari E Sæmundsen er varðar nýtt deiliskipulag í landi Bergsstaða L167060 eftir kynningu. Í deiliskipulaginu felst skilgreining lóða og byggingarheimilda á lóðum Kringlubraut 1 og 3.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir deiliskipulagið og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins.

-liður 7, Eyvindartunga: Frístundabyggð neðan Laugarvatnsvegar: Deiliskipulag – 1706048
Lögð er fram tillaga að deiliskipulagi svæðis úr landi Eyvindartungu sem liggur frá Laugarvatnsvegi að Laugarvatni, milli Litluár og Djúpár eftir kynningu. Deiliskipulagið tekur til svæða sem eru skilgreind sem F23 og F24 innan aðalskipulags Bláskógabyggðar þar sem gert er ráð fyrir heimild fyrir allt að 60 frístundalóðum. Markmið deiliskipulagsins er m.a. að ákvarða lóðamörk, byggingarmagn og nýtingarhlutfall innan svæðisins auk þess sem gert er grein fyrir aðkomu og veitum.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að deiliskipulagið með fyrirvara um að byggingarreitir á óbyggðum lóðum sem skilgreindir eru innan við 50 metra fjarlægð frá ám og vötnum verði felldir út innan deiliskipulagsins. Sveitarstjórn mælist til þess að málið verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins.

-liður 8, Stekkatún 5 L224218; Sveinsstaðir; Breytt heiti lóðar – 2204001
Lögð er fram umsókn frá Sveini Sigurjónssyni er varðar breytt staðfang lóðarinnar Stekkatún 5 L224218. Óskað er eftir að landið fái staðfangið Sveinsstaðir.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við framlagða beiðni um breytingu á staðfangi landsins. Sveitarstjórn mælist til þess að staðföng innan svæðisins í heild verði tekin til skoðunar.

-liður 9, Stekkatún 1 L222637; Hóll; Breytt heiti lóðar – 2204005
Lögð er fram umsókn frá Halldóri Sigþóri Harðarsyni er varðar breytt staðfang lóðarinnar Stekkatún 1 L222637. Óskað er eftir að landið fái staðfangið Hóll.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við framlagða beiðni um breytingu á staðfangi landsins. Sveitarstjórn mælist til þess að staðföng innan svæðisins í heild verði tekin til skoðunar.

-liður 10, Efsti-Dalur 2 (L167631); umsókn um byggingarheimild; geymsla – 2203058
Fyrir liggur umsókn Bent L. Fróðasonar fyrir hönd Efstadalskot ehf., móttekin 21.03.2022, um byggingarheimild fyrir 77 m2 geymslu á jörðinni Efsti-Dalur 2 L167631 í Bláskógabyggð.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

-liður 11, Böðmóðsstaðir; Frístundabyggð; Deiliskipulagsbreyting – 2201041
Lögð er fram tillaga deiliskipulagsbreytingar vegna frístundabyggðar að Böðmóðsstöðum eftir auglýsingu. Umsögn barst frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands vegna málsins og er hún lögð fram við afgreiðslu þess.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir framlagða deiliskipulagsbreytingu eftir auglýsingu. Innan umsagnar frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands er gerð athugasemd við skilgreiningu rotþróa. Umrædd breyting tekur ekki til skigreiningar á rotþróm innan svæðisins eða breytinga á staðsetningum þar sem staðsetning þeirra eru merkt inn á gildandi deiliskipulag svæðisins frá 1999 auk þess sem settir eru fram skilmálar sem tekur til þeirra innan 8. gr. skipulagsskilmála. Sveitarstjórn mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

-liður 12, Úthlíð 2 L167181; Vörðuás 5, 7 og 9; Úr frístundasvæði í verslunar- og þjónustusvæði; Aðalskipulagsbreyting – 2103021
Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar sem tekur til frístundasvæðis í landi Úthlíðar eftir auglýsingu. Í breytingunni felst að landnotkun lóða nr. 5, 7 og 9 við Vörðuás er breytt úr frístundabyggð í verslun- og þjónustu. Engar athugasemdir bárust á auglýsingatíma aðalskipulagsbreytingarinnar. Umsagnir sem bárust vegna málsins eru lagðar fram við afgreiðslu þess.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir breytingu á aðalskipulagi eftir auglýsingu. Engar athugasemdir bárust á auglýsingatíma skipulagsbreytingarinnar og telur sveitarstjórn að brugðist hafi verið við athugasemdum með fullnægjandi hætti innan framlagðra gagna. Sveitarstjórn óskar eftir því við Skipulagsstofnun að aðalskipulagsbreytingin taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr.123/2010.

-liður 13, Eyjavegur 3 L(195859); umsókn um byggingarheimild; sumarbústaður – 2204027
Fyrir liggur umsókn Bent L. Fróðasonar fyrir hönd Geysis ehf., móttekin 07.04.2022, um byggingarheimild fyrir 139,6 m2 sumarbústað á sumarbústaðalandinu Eyjavegur 3 L195859 í Bláskógabyggð.
Sveitarstjórn samþykkir að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.
Sveitarstjórn mælist til þess að deiliskipulag svæðisins verði tekið upp og sett í viðeigandi ferli. Skipulagsfulltrúa falið að vinna að úrlausn málsins.

Fundargerðin var lögð fram til kynningar hvað aðra liði varðar.

 
4.   Framlög til Bergrisans 2022 – 2203014
Erindi frá Bergrisanum, dags. 24. apríl 2022, varðandi breytingu á greiðslum til byggðasamlagsins.
Erindið var lagt fram. Áætlaðar greiðslur Bláskógabyggðar til byggðasamlagsins Bergrisans, vegna þjónustu við fólk með fötlun, umfram áður samþykkta fjárhagsáætlun eru kr. 16.149.829. Þegar hefur verið gert ráð fyrir aukningunni í viðauka við fjárhagsáætlun. Sveitarstjórn telur að endurskoða þurfi samninga um framlög ríkisins til málaflokksins.
 
5.   Fundargerð stjórnar Byggðasafns Árnesinga – 2201013
24. fundur haldinn 11. apríl 2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
 
6.   Fundargerð NOS (stjórn skóla- og velferðarþjónustu) – 2201010
Fundur haldinn 6. apríl 2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
 
7.   Fundargerð stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga – 2201028
50. fundur haldinn 1. apríl 2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
 
8.   Fundargerð stjórnar SASS – 2201022
580. fundur haldinn 1. apríl 2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
 
9.   Fundargerð afgreiðslufunda byggingarfulltrúa – 2201008
162. fundur haldinn 6. apríl 2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
 
10.   Fundargerð heilbrigðisnefndar Suðurlands – 2201019
217. fundur haldinn 30. mars 2022, ásamt ársreikningi og samþykkt um vatnsvernd á Suðurlandi.
Fundargerðin var lögð fram til kynningar, ásamt meðfylgjandi gögnum.
 
11.   Fundargerð framkvæmdaráðs almannavarna – 2201018
Fundur haldinn 26. apríl 2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
 
12.   Ársreikningur Bláskógabyggðar 2021 – 2204039
Ársreikningur Bláskógabyggðar til fyrri umræðu
Haraldur Örn Reynisson, endurskoðandi kom inn á fundinn og kynnti ársreikninginn. Samþykkt var að vísa ársreikning til síðari umræðu í sveitarstjórn.
 
13.   Ársreikningur Bláskógaveitu 2021 – 2204038
Ársreikningur Bláskógaveitu til fyrri umræðu
Haraldur Örn Reynisson, endurskoðandi, kynnti ársreikninginn. Samþykkt var að vísa honum til framkvæmda- og veitunefndar fyrir síðari umræðu í sveitarstjórn.
 
14.   Ársreikningur Bláskógaljóss 2021 – 2204037
Ársreikningur Bláskógaljós til fyrri umræðu
Haraldur Örn Reynisson, endurskoðandi, kynnti ársreikninginn. Samþykkt var að vísa honum til síðari umræðu í sveitarstjórn.
 
15.   Hjólhýsasvæðið á Laugarvatni – 2004032
Upplýsingar frá Samhjóli um vilja félagsmanna til þátttöku í kostnaði við uppbyggingu hjólhýsasvæðis á Laugarvatni.
Lögð voru fram gögn frá Samhjóli sem bárust með bréfi dags. 22. apríl 2022, en um er að ræða viljayfirlýsingar hluta félagsmanna til þátttöku í kostnaði, afrit af fundargerð aðalfundar Samhjóls og uppdrátt af svæðinu.
Sveitarstjórn samþykkir að fresta afgreiðslu erindis Samhjóls til næsta fundar, en þá mun liggja fyrir álit lögmanna sveitarfélagsins á málinu.
 
16.   Lóðarumsókn Traustatún 1, Laugarvatni – 2204026
Umsókn Smára Stefánssonar um lóðina Traustatún 1, Laugarvatni.
Lóðin hefur verið auglýst laus til úthlutunar. Ein umsókn hefur borist og er samþykkt að úthluta lóðinni til Smára Stefánssonar. Gatnagerð við Traustatún er að hefjast og er gerður fyrirvari um að lóðin verði ekki byggingarhæf fyrr en að loknum framkvæmdum, sem er áætlað að verði 15. nóvember 2022.
 
17.   Lóðarumsókn Traustatún 2, Laugarvatni – 2204025
Umsókn Bjarna Þorkelssonar og Margrétar Hafliðadóttur um lóðina Traustatún 2, Laugarvatni.
Lóðin hefur verið auglýst laus til úthlutunar. Þrjár umsóknir hafa borist, sbr. liði 17, 18 og 19 á dagskrá fundarins, sem allar eru afgreiddar undir þessum lið. Allir umsækjendur sækja um lóðina til byggingar einbýlishúss, en skv. skipulagi er heimilt að byggjar þar einbýlishús eða lítið fjölbýli. Samkvæmt reglum um úthlutun lóða í Bláskógabyggð hafa einstaklingar forgang við úthlutun einbýlishúsalóða. Einn umsækjenda er lögaðili og nýtur því ekki forgangs. Dregið er á milli umsóknar Bjarna Þorkelssonar og Margrétar Hafliðadóttur og umsóknar Hreins Heiðars Jóhannssonar og kom lóðin í hlut Hreins Heiðars Jóhannssonar. Sveitarstjórn samþykkir því að úthluta lóðinni til Hreins Heiðars Jóhannssonar.
Gatnagerð við Traustatún er að hefjast og er gerður fyrirvari um að lóðin verði ekki byggingarhæf fyrr en að loknum framkvæmdum, sem er áætlað að verði 15. nóvember 2022.
 
18.   Lóðarumsókn Traustatún 2 – 2204032
Umsókn Sveitadurgs ehf um lóðina Traustatún 2, Laugarvatni.
Umsóknin var afgreidd undir 17 lið á dagskrá fundarins.
 
19.   Lóðarumsókn Traustatún 2, Laugarvatni – 2204030
Umsókn Hreins Heiðars Jóhannssonar um lóðina Traustatún 2, Laugarvatni.
Umsóknin var afgreidd undir 17 lið á dagskrá fundarins.
 
20.   Lóðarumsókn Traustatún 4, Laugarvatni – 2204033
Umsókn Hreins Heiðars Jóhannssonar um lóðina Traustatún 4, Laugarvatni.
Lóðin hefur verið auglýst laus til úthlutunar. Tvær umsóknir hafa borist, sbr. liði 20 og 21 á dagskrá fundarins, sem báðar eru afgreiddar undir þessum lið. Báðir umsækjendur sækja um lóðina til byggingar einbýlishúss, en skv. skipulagi er heimilt að byggjar þar einbýlishús eða lítið fjölbýli. Samkvæmt reglum um úthlutun lóðar í Bláskógabyggð hafa einstaklingar forgang við úthlutun einbýlishúsalóða. Annar umsækjenda er lögaðili og nýtur því ekki forgangs. Sveitarstjórn samþykkir því að úthluta lóðinni til Hreins Heiðars Jóhannssonar.
Gatnagerð við Traustatún er að hefjast og er gerður fyrirvari um að lóðin verði ekki byggingarhæf fyrr en að loknum framkvæmdum, sem er áætlað að verði 15. nóvember 2022.
 
21.   Lóðarumsókn Traustatún 4, Laugarvatni – 2204031
Umsókn Sveitadurgs ehf um lóðina Traustatún 4, Laugarvatni
Umsóknin var afgreidd undir 20 lið á dagskrá fundarins.
 
22.   Lóðarumsókn Traustatún 6, Laugarvatni – 2204029
Umsókn Sveitadurgs ehf um lóðina Traustatún 6, Laugarvatni.
Lóðin hefur verið auglýst laus til úthlutunar. Ein umsókn hefur borist og er samþykkt að úthluta lóðinni til Sveitadurgs ehf sem sækir um lóðina til að byggja á henni fjölbýlishús. Gatnagerð við Traustatún er að hefjast og er gerður fyrirvari um að lóðin verði ekki byggingarhæf fyrr en að loknum framkvæmdum, sem er áætlað að verði 15. nóvember 2022.
 
23.   Lóðarumsókn Traustatún 10, Laugarvatni – 2204028
Umsókn Karldýrs ehf um lóðina Traustatún 10, Laugarvatni.
Róbert Aron Pálmason vék af fundi við afgreiðslu málsins. Lóðin hefur verið auglýst laus til úthlutunar. Tvær umsóknir hafa borist, sbr. liði 23 og 24 á dagskrá fundarins, sem báðar eru afgreiddar undir þessum lið. Báðir umsækjendur sækja um lóðina til byggingar einbýlishúss, en skv. skipulagi er heimilt að byggjar þar einbýlishús eða lítið fjölbýli. Samkvæmt reglum um úthlutun lóðar í Bláskógabyggð hafa einstaklingar forgang við úthlutun einbýlishúsalóða. Annar umsækjenda er lögaðili og nýtur því ekki forgangs. Sveitarstjórn samþykkir því að úthluta lóðinni til Þórs Lína Sævarssonar.
Gatnagerð við Traustatún er að hefjast og er gerður fyrirvari um að lóðin verði ekki byggingarhæf fyrr en að loknum framkvæmdum, sem er áætlað að verði 15. nóvember 2022.
 
24.   Lóðarumsókn Trasutatún 10, Laugarvatni – 2204027
Umsókn Þórs Lína Sævarssonar um lóðina Traustatún 10, Laugarvatni.
Umsóknin var afgreidd undir 23. lið á dagskrá fundarins.
 
25.   Lóðarumsókn Langholtsvegur, Laugarási – 2204040
Umsókn Þrastar Gylfasonar og Unu Bjarkar Ómarsdóttur um lóð við Langholtsveg í Laugarási.
Umsóknin var lögð fram. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra og oddvita að ræða við umsækjendur í ljósi þeirrar stöðu sem er uppi með núverandi lóð þeirra vegna fornleifa sem þar eru og vegna breytinga á deiliskipulagi á svæðinu, sem nú eru til meðferðar.
 
26.   Kjörstjórn – kjör fulltrúa 2022 – 2204034
Kjör fulltrúa í kjörstjórn
Sigurjón Pétur Guðmundsson og Róbert Aron Pálmason viku af fundi við afgreiðslu málsins.
Eftirtaldir aðilar eru kjörnir til setu í yfirkjörstjórn Bláskógabyggðar:
Aðalmenn:
Kristófer A. Tómasson í stað Guðrúnar Sveinsdóttur.

Varamenn:
Sigurjón Pétur Guðmundsson í stað Kristjáns Kristjánssonar
Sveinn Sæland í stað Evu Hálfdánardóttur
Sigríður Emilía Eiríksdóttir í stað Sveinbjörns Einarssonar

Eftirtaldir aðilar eru kjörnir til setu í undirkjörstjórn fyrir Laugardal og Þingvallasveit:
Aðalmaður:
Margrét Þórarinsdóttir í stað Harðar Bergsteinssonar

Varamenn:
Pálmi Hilmarsson í stað Ólafar Bjargar Einarsdóttur
Ragnhildur Sævarsdóttir í stað Margrétar Þórarinsdóttur, sem verður aðalmaður.

 
27.   Umbótaáætlun ytra mats Bláskógaskóla Laugarvatni – 1911028
Erindi Menntamálastofnunar, dags. 11. apríl 2022, þar sem óskað er staðfestingar frá sveitarfélagi á því að vinnu samkvæmt umbótaáætlun sveitarfélagsins og skólans sé lokið og mati sveitarfélags á því hvernig til tókst að vinna að umbótunum
Erindið var lagt fram, ásamt lokasamantekt skjólastjóra Bláskógaskóla Laugarvatni, sem var kynnt á síðasta fundi skólanefndar. Sveitarstjórn telur vinnu samkvæmt umbótaáætlun lokið og er mat hennar að vel hafi tekist að vinna að umbótum skv. áætluninni.
 
28.   Ástand vega í Bláskógabyggð – 2204036
Úttekt Ólafs Guðmundssonar fyrir Bláskógabyggð 2022.
Lagðar voru fram glærur sem sýna niðurstöður úttekrar Ólafs Guðmundssonar á vegum í Bláskógabyggð. Sveitarstjóra og oddvita er falið að kynna niðurstöðurnar fyrir Vegagerðinni og fara fram á nauðsynlegar endurbætur.
 
29.   Lagning ljósleiðara að Fellsenda og Stíflisdal – 2106008
Vinnuskjal verkefnastjóra um lagningu ljósleiðara að Fellsenda og Stíflisdal og mögulega samtengingu kerfa.
Lögð voru fram vinnugögn þar sem gerð er grein fyrir mögulegri samtenginu ljósleiðarakerfs Bláskógaljóss og Leiðarljóss í Kjósarhreppi, samhliða tengingu bæjanna Fellsenda og Stíflisdals í Þingvallasveit. Samtenging myndi draga úr rekstraráhættu kerfanna, sem eiga það sameiginlegt að gegna mikilvægu öryggishlutverki á viðkomandi svæðum. Sveitarstjórn felur oddvita og sveitarstjóra að vinna áfram að verkefninu. Náist samkomulag við aðra sem að málinu koma samþykkir sveitarstjórn þátttöku Bláskógabyggðar. Þegar er gert ráð fyrir kostnaði við lagningu ljósleiðara að Fellsenda og Stíflisdal í fjárhagsáætlun.
 
30.   Lagning ljósleiðara í þéttbýli í Bláskógabyggð – 2009002
Lagning ljósleiðara í Laugarás, umræður. Lagt fram minnisblað verkefnastjóra, dags. 27. apríl 2022.
Lagt var fram minnisblað verkefnastjóra um lagningu ljósleiðara í Laugarás. Sveitarstjórn telur rétt að kanna áhuga fjarksiptafélaga á að leggja ljósleiðara í Laugarás með meðgjöf frá Bláskógabyggð með formlegum hætti. Sveitarstjórn samþykkir því að fram fari útboð sem beint verður að fjarskiptafyrirtækjum sem hafa víðtæka reynslu af rekstri ljósleiðaraaðgangskerfa. Í kjölfar þess fari fram hagkvæmnimat samanborið við fyrirliggjandi kostnaðaráætlun og sveitarstjórn taki ákvörðun um það hvort samið verður við fjarskiptafélag um uppbyggingu, eignarhald og rekstur á kerfi fyrir Laugarás eða hvort Bláskógaljós standi fyrir framkvæmdinni.
 
31.   Trúnaðarmál – 2204017
Trúnaðarmál
Fært í trúnaðarbók.
 
32.   Beiðni um stækkun lóðar Fontana, fjölgun bílastæða ofl – 2204016
Beiðni Fontana um stækkun lóðar o.fl. áður á dagskrá á 302. fundi. Minnisblað starfshóps um deiliskipulag Laugarvatns og framkvæmda- og veitunefndar, dags. 27. apríl 2022, lagt fram.
Í beiðni Gufu ehf, móðurfélags Fontana ehf, kemur fram að til standi að endurnýja og stækka baðstaðinn Fontana og er óskað eftir að sveitarstjórn tæki afstöðu til nokkurra atriða.
Óskað er eftir forgangi til afnota af svæði til rúgbrauðsbaksturs, án þess að skerða aðgengi íbúa Laugarvatns að bökunarsvæðinu. Oddvita og sveitarstjóra er falið að ræða málið við umsækjendur.
Óskað er eftir fjölgun bílastæða. Sveitarstjórn samþykkir að samið verði við umsækjanda um afnot af svæði fyrir bílastæði neðan við Heimaklett og í Lindargarði. Jafnframt verði gerð tillaga að breytingu á deiliskipulagi til að stækka bílastæði, en þegar er gert ráð fyrir í deiliskipulagi að 10 stæði verði neðst í garðinum. Sveitarstjórn samþykkir einnig að gerð verði tillaga að breytingu á deiliskipulagi hvað varðar byggingarreit út í Laugarvatn, þannig að hann stækki lítilsháttar.
Óskað er eftir að gerður verði samningur við félagið um aukna notkun á heitu vatni. Hvað varðar afnot af tvöfalt meira magni af heitu vatni en félagið notar nú þá er slíkt vatnsmagn ekki fyrirliggjandi eins og er, en á næstu vikum stendur til að bora nokkrar hitastigulsholur til að meta hvar sé vænlegt að bora eftir meira heitu vatni á Laugarvatni. Unnið hefur verið að kortlagningu hitakerfa á svæðinu með aðstoð ÍSOR. Sveitarstjórn er jákvæð fyrir samningum við félagið, gangi áform um aukna vatnsöflun eftir.
Félagið vekur athygli á því að vegna fjölgunar starfsmanna verði innviðir sveitarfélagsins að vera tilbúnir að taka á móti fleiri íbúum. Sveitarfélagið stendur nú fyrir talsverðir uppbyggingu innviða á Laugarvatni. Nýlegt deiliskipulag er í gildi sem skapar forsendur fyrir uppbyggingu á Laugarvatni. Nú eru að hefjast framkvæmdir við gatnagerð við Traustatún og hafa lóðir þegar verið auglýstar lausar til úthlutunar, með því skapast tækifæri til að fjölga íbúðum. Þá er, eins og fyrr segir, unnið að öflun meira heits vatns. Umfangsmikið viðhald á þeim mannvirkjum sveitarfélagsins sem nýtt eru til að sinna þjónustu við íbúa hefur staðið yfir sl. ár og verður framhaldið, á það t.a.m. við um fráveitu, íþrótta- og skólamannvirki. Þá stendur fyrir dyrum að greina rýmisþörf leik- og grunnskóla, til að meta þörf fyrir uppbyggingu. Innviðir Bláskógabyggðar á Laugarvatni munu því geta staðið undir fjölgun íbúa.
Óskað er eftir samstarfi um markaðssetningu Laugarvatns til framtíðar. Sveitarstjórn lýsir yfir vilja til að taka þátt í vinnu með félaginu að markaðssetningu Laugarvatns.
 
33.   Lóðarumsókn Hverabraut 5, Laugarvatni – 2104041
Umsókn um lóðina Hverabraut 5, áður á dagskrá á 302. fundi. Minnisblað starfshóps um deiliskipulag Laugarvants og framkvæmda- og veitunefndar lagt fram.
Afgreiðslu tveggja umsókna sem bárust vegna lóðarinnar að Hverabraut 5 var frestað á 281. fundi sveitarstjórnar. Úthlutun var frestað þar sem unnið hafði verið að kortlagningu jarðhitakerfa á Laugarvatni vegna fyrirhugaðrar borunar eftir heitu vatni og er einn möguleikinn sá að borað verði í nágrenni við hverinn, sem er við hlið Hverabrautar 5. Þar er dælustöð hitaveitunnar og ljóst að stækkunar er þörf á henni, sem líklegt er að verði gert með viðbyggingu við núverandi dælustöð. Annar umsækjenda um lóðina að Hverabraut 5 hefur óskað upplýsinga um stöðu málsins og fól sveitarstjórn starfshópi um deiliskipulag Laugarvatns og framkvæmda- og veitunefnd að fjalla um málið á 302. fundi.
Starfshópur um deiliskipulag Laugarvatns og framkvæmda- og veitunefnd, fóru í vettvangsferð á svæðið 26. apríl sl. Sveitarfélagið hefur verið í samvinnu við ÍSOR um staðsetningu á borholu og verða á næstu vikum boraðar hitastigulsholur til að geta nánar staðsett þann stað þar sem borað verður. Starfshópurinn og framkvæmda- og veitunefnd skiluðu eftirfandi tillögu til sveitarstjórnar:
Þar sem nokkur óvissa ríkir um staðsetningu borholu og vegna nálægðar við orkuöflunarsvæði hitaveitunnar er lagt til við sveitarstjórn að auglýsing um að lóðirnar nr. 5 og 7 við Hverabraut séu til úthlutunar verði afturkölluð og umsækjendum um lóð nr. 5 tilkynnt um það. Jafnframt verði gerð tillaga að breytingu á deiliskipulagi þar sem skilgreindur verði byggingarreitur inann lóðar hversins fyrir fyrirhugaða dælustöð. Sveitarstjórn samþykkir tillöguna.
 
34.   Lóðarumsókn Hverabraut 5, Laugarvatni – 2104013
Umsókn Gufu ehf um lóðina Hverabraut 5, áður á dagskrá 281. fundar. Minnisblað starfshóps um deiliskipulag Laugarvatns og framkvæmda- og veitunefndar lagt fram, sjá 33. lið.
Sjá afgreiðslu 33. liðar, máls nr. 2104013.
 
35.   Stafrænt ráð sveitarfélaga – 2009006
Greining KPMG á skrifstofuumhverfi sveitarfélaga með tilliti til stafrænna lausna, ásamt fundargerð stafræns ráðs Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 30. mars 2022.
Lagt fram til kynningar.
 
36.   Ársskýrsla Byggðasafns Árnesinga 2021 – 2204035
Ársskýrsla Byggðasafns Árnesinga 2021
Lagt fram til kynningar.
 
37.   Römpum upp Ísland – 2204004
Erindi stjórnar verkefnisins Römpum upp Ísland, dags. 12. apríl 2022, verklagsreglur kynntar.
Lagt fram til kynningar.
 

 

 

Fundi slitið kl. .

 

 

 

 

 

Helgi Kjartansson Valgerður Sævarsdóttir
Sigurjón Pétur Guðmundsson Kolbeinn Sveinbjörnsson
Guðrún S. Magnúsdóttir Róbert Aron Pálmason
Axel Sæland Ásta Stefánsdóttir