304. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar

 

 

  1.  fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn í Aratungu, Reykholti,

þriðjudaginn 10. maí 2022, kl. 15:30.

 

 

Fundinn sátu:

Helgi Kjartansson, Valgerður Sævarsdóttir, Óttar Bragi Þráinsson, Kolbeinn Sveinbjörnsson, Guðrún S. Magnúsdóttir, Róbert Aron Pálmason, Axel Sæland og Ásta Stefánsdóttir.

 

 

Fundargerð ritaði: Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri.

Leitað var afbrigða til að taka á dagskrá lóðarumsókn, beiðni um umsögn um leyfi til að starfrækja ökutækjaleigu og yfirlit yfir útsvarstekjur. Var það samþykkt samhljóða og verða liðir nr. 13, 22 og 28.

 

1.   Fundargerð framkvæmda- og veitunefndar – 2201002
28. fundur haldinn 10. maí 2022
Fundargerðin var staðfest.
 
2.   Fundargerð skólanefndar – 2201003
24. fundur haldinn 9. maí 2022
Fundargerðin var staðfest.
 
3.   Fundargerð skipulagsnefndar – 2201007
238. fundur haldinn 27. apríl 2022. Afgreiða þarf sérstaklega liði nr. 2-6.
-liður 2, Laugarás – tækjahús (L176855); umsókn um byggingarheimild; fjarskiptamastur – 2112028
Fyrir liggur umsókn Jóns G. Magnússonar fyrir hönd Mílu ehf., móttekin 10.12.2021, um byggingarheimild til að reisa 18 m stálmastur á viðskipta- og þjónustulóðinni Laugarás tækjahús L176855 í Bláskógabyggð. Lagðar eru fram athugasemdir sem bárust við grenndarkynningu málsins.
Skipulagsnefnd UTU mæltist til þess á fundi sínum að málinu verði frestað til þess að haft verði samráð við MÍLU um hugsanlega breytta staðsetningu á viðkomandi mastri í ljósi framkominna athugasemda nágranna. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að málinu verði frestað og skipulagsfulltrúa verði falið að annast samráð við umsækjanda.

-liður 3, Kjóastaðir 1 land 2 L220934; Skjól; Deiliskipulagsbreyting – 2112037
Lögð er fram umsókn frá Þorgeiri Óskari Margeirssyni er varðar breytingu á deiliskipulagi Kjóastaða. Í breytingunni felst skilgreining á nýjum byggingarreit B3. Innan byggingarreits verði heimilt að byggja allt að þrjú 150 fm hús.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir viðkomandi breyting á deiliskipulagi svæðisins með fyrirvara um lagfærð gögn. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar breytingar á deiliskipulagi.

-liður 4, Efra-Apavatn 1 B L226188; Fyrirspurn – 2204022
Lögð er fram fyrirspurn frá Guðmundi H Baldurssyni er varðar stofnun lóðar innan Efra-Apavatns 1B L226188 og hugsanlegar framkvæmdir innan hennar.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við framlögð áform, æskilegt vari að útbúið yrði deiliskipulag sem tæki til framkvæmda innan landsins þar sem það er óraskað í dag. Huga skal að fjarlægð frá vatni og að vegi komi til þess að hann verði héraðsvegur í takt við hugsanlega notkun lóðarinnar. Sveitarstjórn bendir jafnframt á að vegurinn að lóðinni er innan annars lands og þyrfti því að leita eftir samþykki landeigenda fyrir aðkomu að landinu um veginn.

-liður 5, Skálholt L167166; Skógrækt; Framkvæmdaleyfi – 2204042
Lögð er fram umsókn frá Kolviði er varðar framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt í landi Skálholts.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfis vegna skógræktar í landi Skálholts. Aðalskipulagsbreyting sem tekur til svæðisins í heild og gerir ráð fyrir skilgreiningu skógræktarsvæðis í stað landbúnaðarsvæðis er í auglýsingu og verður lokið í kynningarferli í lok maí. Þar sem framkvæmdin spannar 5 ára tímabil telur sveitarstjórn forsendur fyrir útgáfu leyfis á grundvelli fyrri samþykkta sveitarfélagsins um breytingu á skipulagi jarðarinnar. Skipulagsfulltrúa er því falið að gefa út framkvæmdaleyfi í samræmi við umsóknina.

-liður 6, Hulduland L180194; Efri-Reykir; Deiliskipulag – 2202006
Lögð er fram tillaga deiliskipulags er varðar lóð Huldulands L180194 úr landi Efri-Reykja eftir auglýsingu. Skipulagstillagan gerir ráð fyrir tveimur byggingarreitum á lóðinni B1 og B2. Innan B1 verður heimilt að byggja íbúðarhús og gestahús auk geymsluhúss eða skemmu. Á B2 verður heimilt að byggja útihús, svo sem tækjaskemmu eða fjárhús. Samhliða er gert ráð fyrir breytingu á aðkomu. Umagnir bárust á auglýsinga tíma skipulagsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu þess.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu með fyrirvara um að svæði á náttúruminjaskrá umhverfis Brúará verði bætt við á uppdrátt skipulagsins og fjallað verði um svæðið í greinargerð í takt við umsögn Umhverfisstofnunar. Sveitarstjórn mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda eftir að gögn málsins hafa verið lagfærð og að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Fundargerðin var lögð fram til kynningar hvað aðra liði varðar.

 
4.   Fundargerð stjórnar Brunavarna Árnessýslu – 2101016
20. fundur haldinn 19. nóvember 2021
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
 
5.   Fundargerðir stjórnar Brunavarna Árnessýslu – 2201016
21. fundur haldinn 2. febrúar 2022
22. fundur haldinn 9. mars 2022
23. fundur haldinn 29. apríl 2022
Fundargerðirnar voru lagðar fram til kynningar.
 
6.   Fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa – 2201008
163. fundur haldinn 4. maí 2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
 
7.   Fundargerð stjórnar Tónlistarskóla Árnesinga – 2201015
201. fundur haldinn 3. maí 2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
 
8.   Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga – 2201025
909. fundur haldinn 27. apríl 2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
 
9.   Fundargerð stjórnar SASS – 2201022
581. fundur haldinn 25. apríl 2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
 
10.   Lóðarumsókn Vegholt 3-3a Reykholti – 2205005
Umsókn Bláskógaveitu um lóðina Vegholt 3-3a, Reykholti
Lóðin hefur verið auglýst laus til umsóknar og ein umsókn borist. Sveitarstjórn samþykkir að úthluta lóðinni til Bláskógaveitu.
 
11.   Lóðin Traustatún 2, Laugarvatni – 2204030
Tilkynning um að lóðinni Traustatúni 2, Laugarvatni, sem úthlutað var á síðasta fundi sé skilað.
Lögð var fram tilkynning um að lóðarhafi óski eftir að skila lóðinni Traustatúni 2. Sveitarstjórn samþykkir að lóðinni verði skilað.
 
12.   Lóðarumsókn Traustatún 2, Laugarvatni – 2204025
Umsókn Bjarna Þorkelssonar og Margrétar Hafliðadóttur um lóðina Traustatún 2, Laugarvatni.
Lóðin hefur verið auglýst laus til úthlutunar, ein umsókn hefur borist. Sveitarstjórn samþykkir að úthluta lóðinni til Bjarna Þorkelssonar og Margrétar Hafliðadóttur.
 
13.   Lóðarumsókn Skólatún 16-18-20 Laugarvatni – 2205024
Umsókn M8 flísa ehf um lóðina Skólatún 16-20
Lóðin hefur verið auglýst laus til umsóknar og ein umsókn hefur borist. Sveitarstjórn samþykkir að úthluta lóðinni til M8 flísa ehf.
 
14.   Þríþrautarkeppni að Laugarvatni 2022 – 2205016
Erindi Ægis3 – Þríþrautarfélags Reykjavíkur, dags. 27. apríl 2022, þar sem óskað er eftir leyfi sveitarstjórnar fyrir að halda þríþrautarkeppni hinn 25. júní 2022. Samþykki Vegagerðarinnar liggur fyrir. Einnig er óskað eftir leyfi til að nota búningsaðstöðu í sundlauginni.
Sveitarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti að félagið haldi þríþrautarkeppni hinn 25. júní n.k. Jafnframt er samþykkt að búningsaðstaða í sundlauginni verði nýtt vegna keppninnar.
 
15.   Beiðni um styrk í formi niðurfellingar leigu af íþróttahúsi vegna norræns móts – 2205020
Erindi Sverris Sverrissonar vegna norrænnar hátíðar geðfatlaðra einstaklinga sem haldin verður á Laugarvatni í júní n.k. Óskað er formlegs leyfis til að setja upp tjöld, auk þess sem óskað er stuðnings í formi niðurfellingar á leigu af íþróttahúsi.
Sveitarstjórn samþykkir að sett verði upp tjöld á landi sveitarfélagsins vegna hátíðarinnar, staðsetning verði ákveðin að höfðu samráði við sviðsstjóra framkvæmda- og veitusviðs. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að ræða við umsækjanda vegna beiðni um afslátt af leigu.
 
16.   Framlög sveitarfélaga til Tónlistarskóla Árnesinga 2022 – 2205017
Tilkynning Tónlistarskóla Árnesinga, dags. 26. apríl 2022, um áhrif hagvaxtarauka á launakostnað skólans og framlög sveitarfélaga til rekstrarins.
Tilkynningin var lögð fram, kostnaðarauki rúmast innan fjárhagsáætlunar.
 
17.   Hjólhýsasvæði Laugarvatni – 2004032
Erindi Samhjóls um framtíð hjólhýsasvæðisins við Laugarvatn, áður á dagskrá á 302. og 303. fundi. Lagt er fram minnisblað Lögmanna Suðurlandi frá 4. maí 2022.
Hrafnhildur Bjarnadóttir, formaður Samhjóls, og Þóra Guðjónsdóttir, gjaldkeri, komu inn á fundinn og vísaði Hrafnhildur til þess að mikil samstaða væri meðal Samhjóls félaga um málið.
Lagt var fram minnisblað Lögmanna Suðurlandi, dags. 4. maí. Þar er farið yfir breytingar sem hafa orðið á byggingarreglugerð nr. 112/2012 er varðar svokölluð stöðuhýsi, en skv. nýjum reglum þarf ekki lengur að sækja um og fá útgefið byggingarleyfi fyrir stöðuhýsum, sé staðsetning í samræmi við deiliskipulag. Einnig eru reifuð ýmis atriði sem varða möguleika sveitarfélagsins á að taka boði Samhjóls um að kosta uppbyggingu á svæðinu gegn því skilyrði að félagið fái samning til amk 10 ára með framlengingarheimild, svo sem sjónarmið um kröfur stjórnsýsluréttar um gagnsætt og málefnalegt valferli, samkeppnissjónarmið o.fl. Umræða varð um málið.
Lögð var fram tillaga að afgreiðslu: Sveitarstjórn þakkar boð Samhjóls og skilur áhuga félagsmanna á áframhaldandi dvöl á svæðinu. Í ljósi þess að sveitarstjórnarkosningar fara fram eftir fjóra daga og ný sveitarstjórn mun taka við hinn 29. maí nk. samþykkir sveitarstjórn að fresta afgreiðslu málsins og vísa því til nýrrar sveitarstjórnar. Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með fimm atkvæðum, gegn atkvæðum Róberts Arons Pálmasonar og Axels Sæland.
 
18.   Ársreikningur Bláskógaveitu 2021 – 2204038
Ársreikningur Bláskógaveitu 2021
Ársreikningur Bláskógaveitu var lagður fram til síðari umræðu. Umræða varð um ársreikninginn. Var hann borinn undir atkvæði og samþykktur samhljóða og áritaður af sveitarstjórn.
 
19.   Ársreikningur Bláskógaljóss 2021 – 2204037
Ársreikningur Bláskógaljóss, til síðari umræðu
Ársreikningur Bláskógaljóss var lagður fram til síðari umræðu. Umræða varð um ársreikninginn. Var hann borinn undir atkvæði og samþykktur samhljóða og áritaður af sveitarstjórn.
 
20.   Ársreikningur Bláskógabyggðar 2021 – 2204039
Ársreikningur Bláskógabyggðar til síðari umræðu
Ársreikningur Bláskógabyggðar var lagður fram til síðari umræðu, ásamt greinargerð sveitarstjóra: Ársreikningur Bláskógabyggðar fyrir árið 2021 er lagður fram til síðari umræðu í sveitarstjórn 10. maí 2022. Fjalla skal um ársreikning á tveimur fundum í sveitarstjórn og fór fyrri umræða fram 28. apríl s.l. Helstu niðurstöður:Helstu niðurstöður: Rekstrarniðurstaða samstæðu sveitarfélagsins (A- og B-hluti) var neikvæð um 39,8 millj.kr. króna samanborið við 61,1 millj. kr. afgang árið 2020. A-hluti var rekinn með 81 millj.kr. halla, samanborið við 26,6 millj.kr. afgang árið 2020.

Rekstrarniðurstaða samstæðu fyrir afskriftir nam 148 millj. kr. Fjármagnsgjöld nema 90,2 millj. kr. nettó og hækka um 24,2 millj.kr á milli ára. Afskriftir nema 82,3 millj. kr. og er afgangur fyrir skatta 65,6 millj.kr. Tekjuskattur nemur 15,3 millj. kr.

Útsvarstekjur hækkuðu um 31,9 millj.kr. á milli ára. Útsvar og fasteignaskattar nema 1.031 millj.kr., framlög Jöfnunarsjóðs 234,9 millj.kr. og lækka um 2,1 millj.kr, á milli ára, aðrar tekjur 492,9 millj.kr. Að teknu tilliti til millifærslna nema heildartekjur 1.776 millj.kr.

Fræðslu- og uppeldismál er umfangsmesti málaflokkurinn í rekstri sveitarfélagsins, tekur til sín 819,6 millj.kr. Bláskógabyggð greiðir alls 832,4 millj.kr. í laun og launatengd gjöld. Fjöldi starfsmanna í árslok var 107 í 81 stöðugildi.

Umræður urðu um ársreikninginn. Ársreikningurinn var samþykktur samhljóða og áritaður af sveitarstjórn.
Skuldahlutfall samstæðunnar hækkar úr 82,2% árið 2020 í 90,4% og skýrist það af lántökum vegna fjárfestingar. Skuldaviðmið sveitarfélagsins, eins og það er reiknað skv. reglugerð þar um, er 63,8% árið 2021.

Fjárfestingar námu 253,1 millj.kr., sem er lægra en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Fjárfest var í fasteignum innan A-hluta fyrir 34,7 millj.kr. og í gatnakerfi o.fl. fyrir 39,4 millj. kr. nettó. Stærstu einstöku fjárfestingarnar voru í gatnagerð, þar sem fjárfest var fyrir 42,7 millj.kr. Innan B-hluta var fjárfest fyrir 162,1 millj.kr., að stærstum hluta í ljósleiðara og í fráveitu.

Ný lán voru tekin á árinu fyrir 220 millj.kr. Afborganir langtímalána námu 97,7 millj.kr. Veltufé frá rekstri nam 101,9 millj.kr. og var um 48 millj.kr. yfir áætlun. Handbært fé frá rekstri nam 138,1 millj.kr.

Rekstrarhalla A- og B-hlulta má rekja til nokkurra þátta. Fjármagnsgjöld eru um 24 millj.kr hærri en áætlað var, sem skýrist af aukinni verðbólgu. Í mars 2022 barst sveitarfélaginu tilkynning um að greiða þyrfti 19 millj.kr. viðbótarframlag til byggðasamlagsins Bergrisans vegna ársins 2021, sem var umfram áætlun í þeim málaflokki. Útsvarstekjur Bláskógabyggðar þróuðust ekki með sama hætti á árinu 2021 og útsvarstekjur flestra annarra sveitarfélaga, þar sem útsvar stóð í stað stærstan hluta ársins, en tók að rísa lítið eitt í lok ársins. Útsvarstekjur flestra annarra sveitarfélaga þróuðust með jákvæðari hætti. Ætla má að það hversu hátt hlutfall útsvarstekna kemur frá ferðaþjónustu hafi haft áhrif hjá Bláskógabyggð, en áhrifa Covid-19 faraldursins gætti nánast allt árið í þeirri atvinnugrein. Vísbendingar eru um jákvæðari þróun útsvarstekna það sem af er árinu 2022 og því bjart framundan í rekstri sveitarfélagsins.

Rekstur ársins 2021:
Samstæðureikningur samanstendur af A- og B-hluta. Í A-hluta eru aðalsjóður, eignasjóður og þjónustustöð. Um er að ræða rekstrareiningar sem fjármagnaðar eru að hluta eða öllu leyti með skatttekjum.

Í B-hluta eru vatnsveita, Bláskógaveita, leiguíbúðir, félagslegar íbúðir, fráveita og Bláskógaljós. Um er að ræða rekstrareiningar, stofnanir og fyrirtæki, sem reknar eru sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar og hafa lagaheimild til að innheimta þjónustugjöld.

Helstu niðurstöður rekstrar eru (í þús.kr):
Rekstrartekjur: 1.776.445
Rekstrargjöld: -1.628.400
Afskriftir -82.349
Fjármagnsgjöld: -90.248
Tekjuskattur: -15.300
Rekstrarniðurstaða: -39.853

Efnahagsreikningur:
Eignir:
Fastafjármunir: 2.596.604
Veltufjármunir: 364.976
Eignir samtals: 2.961.580

Skuldir og eigið fé:
Eigið fé: 1.355.502
Langtímaskuldir: 1.233.634
Skammtímaskuldir: 372.444
Skuldir alls: 1.606.079
Eigið fé og skuldir samtals: 2.961.580

Nettó fjárfestingar ársins: 253.177

Handbært fé um áramót: 110.488

Veltufjárhlutfall samstæðu: 0,98
Eiginfjárhlutfall samstæðu: 45,8%
Skuldahlutfall: 90,4%
Skuldaviðmið skv. reglugerð 63,8%
Jafnvægisregla – rekstrarjöfnuður 70.013
Sveitarstjórn samþykkir ársreikninginn og áritar hann.

 
21.   Lántökur 2022 – 2201040
Tillaga um lántökur að upphæð kr. 180.000.000 kr. skv. fjárhagsáætlun ársins 2022
Ákvörðun um að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga sem tryggt er með veði í tekjum sveitarfélagsins:
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir hér með á sveitarstjórnarfundi að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að 180.000.000 kr. með lokagjalddaga þann 20. mars 2039, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir fundinum og sveitarstjórn hefur kynnt sér. Sveitarstjórn samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól, uppgreiðslugjaldi auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar) standi tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Er lánið tekið til fjármögnunar á gatnagerð og framkvæmdum á skóla- og íþróttamannvirkjum sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Jafnframt er Ástu Stefánsdóttur, kt. 251070-3189, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Bláskógabyggðar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hverskyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.
 
22.   Útsvarstekjur og framlög Jöfnunarsjóðs – 2202017
Yfirlit yfir útsvarstekjur og framlög Jöfnunarsjóðs janúar til apríl 2022
Lagt var fram yfirlit yfir útsvarstekjur Bláskógabyggðar í janúar til apríl 2022, þar sem fram kemur að það sem af er ári eru útsvarstekjur nokkuð yfir áætlun.
 
23.   Rekstrarleyfisumsókn Gallerí Laugarvatn Háholt 1 – 2205010
Beiðni Sýslumannsins á Suðurlandi, dags. 11. apríl 2022, um umsögn um rekstrarleyfirumsókn vegna Gallerí Laugarvatns, flokkur III, minna gistiheimili, Háholti 1, 226 4544, Laugarvatni. Umsögn byggingarfulltrúa dags. 4. maí 2022 liggur fyrir.
Sveitarstjórn veitir jákvæða umsögn um erindið.
 
24.   Frumvarp til laga um sorgarleyfi, 593. mál. – 2205011
Erindi Velferðarnefndar Alþingis, dags. 2. maí 2022, þar sem sent er til umsagnar frumvarp til laga um sorgarleyfi, 593. mál.

Umsagnarfrestur er til 16. maí nk.

Lagt fram til kynningar.
 
25.   Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum í þágu barna (samþætting þjónustu í þágu barna, snemmtækur stuðningur), 530. mál. – 2205012
Erindi Velferðarnefndar Alþingis, dags. 2. maí 2022, þar sem sent er til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum í þágu barna (samþætting þjónustu í þágu barna, snemmtækur stuðningur), 530. mál.

Umsagnarfrestur er til 16. maí nk.

Lagt fram til kynningar.
 
26.   Frumvarp til laga um atvinnuréttindi útlendinga (einstaklingar sem flytjast til innan viðskiptafyrirtækis), 482. mál. – 2205013
Erindi Velferðarnefndar Alþingis, dags. 2. maí 2022, þar sem sent er til umsagnar frumvarp til laga um atvinnuréttindi útlendinga (einstaklingar sem flytjast til innan viðskiptafyrirtækis), 482. mál.

Umsagnarfrestur er til 16. maí nk.

Lagt fram til kynningar.
 
27.   Frumvarp til laga um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar (umhverfivæn orkuöflun), 582. mál. – 2205014
Erindi Atvinnuveganefndar Alþingis, dags 29. apríl 2022, þar sem sent er til umsagnar frumvarp til laga um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar (umhverfivæn orkuöflun), 582. mál.

Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 13. maí nk.

Lagt fram til kynningar.
 
28.   Umsögn um starfsemi ökutækjaleigu (hjólhýsaleigu) – 2205023
Beiðni Bjarna Finnssonar, dags. 3. maí 2022, um umsögn sveitarstjórnar vegna starfsemi ökutækjaleigu/hjólhýsaleigu að Stórholti, Laugarvatni.
Erindið var lagt fram, þar kemur fram að um er að ræða að föst starfsstöð ökutækjaleigu fyrir hjólhýsi verði að Stórholti við Laugarvatn. Með vísan til 3. gr. laga nr. 65/2015 veitir sveitarstjórn jákvæða umsögn um erindið. Sveitarstjórn telur staðsetingu ökutækjaleigunnar og aðkomu að henni henta fyrir væntanlega starfsemi.
 
29.   Innleiðing Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna – 2109037
Kynning á stöðu innleiðingar Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna
Minnisblað sveitarstjóra var lagt fram. Í því er bent á að í tengslum við vinnu við kortlagningu og greiningu á því hvaða þættir í starfsemi sveitarfélagsins styðji nú þegar við sjálfbærni hafi komið í ljós að uppfæra þurfi nokkrar af stefnum sveitarfélagsins og er vinna við það hafin að hluta, en ráðgert að ráðast í uppfærslu annarra stefna síðar á þessu ári. Jafnframt er bent á að æskilegt sé að vinna eina heildarstefnu fyrir sveitarfélagið, sem aðrar stefnur myndu byggja á. Sé það í samræmi við ráðleggingar þeirra ráðgjafa sem hafa komið að stuðningsverkefni því sem Bláskógabyggð hefur tekið þátt í með öðrum sveitarfélögum. Stuðningsverkefninu er nú að ljúka en sveitarstjórn samþykkir að unnið verði áfram að innleiðingu Heimsmarkmiðanna með aukinni vitundarvakningu og stefnumótunarvinnu.
 
30.   Almenningssamgöngur á Suðurlandi viðhorfskönnun – 2205008
Erindi SASS, dags. 5. maí 2022, þar sem kynnt er skýrsla um niðurstöður viðhorfskönnunar um almenningssamgöngur sem framkvæmd var í febrúar-mars 2022.
Lagt fram til kynningar.
 
31.   Orlof húsmæðra 2022 – 2205009
Tilkynning Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 6. maí 2022, um fjárhæð framlags sveitarfélaga til orlofsnefnda.
Lagt fram til kynningar.
 
32.   Hjólað í vinnuna 2022 – 2205015
Erindi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, dags. 27. apríl 2022, þar sem kynnt er vinnustaðakeppnin Hjólað í vinnuna 2022 og hvatt til þátttöku.
Lagt fram til kynningar.
 
33.   Stuðningur vegna móttöku barna á flótta frá Úkraínu – 2205018
Erindi mennta- og barnamálaráðuneytisins, dags. 6. maí 2022, þar sem tilkynnt er um tímabundinn fjárhagslegan stuðning til sveitarfélaga þar sem börn á flótta frá Úkraínu og fjölskyldur þeirra verða með búsetu.
Lagt fram til kynningar.
 
34.   Sveitarfélagaskólinn 2022 – 2205019
Erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 6. maí 2022, þar sem kynnt er fræðsla sem Samband íslenskra sveitarfélaga stendur fyrir í upphafi kjörtímabils fyrir nýkjörið sveitarstjórnarfólk.
Lagt fram til kynningar.
 
35.   Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga 2022 – 2205021
Tilkynning Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 6. maí 2022, um landsþing sem haldið verður 28. – til 30. september n.k.
Lagt fram til kynningar.
 

 

 

Fundi slitið kl. 17:25.

 

 

 

 

 

Helgi Kjartansson Valgerður Sævarsdóttir
Óttar Bragi Þráinsson Kolbeinn Sveinbjörnsson
Guðrún S. Magnúsdóttir Róbert Aron Pálmason
Axel Sæland Ásta Stefánsdóttir