308. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar

 

 

308. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn í Aratungu, Reykholti,

miðvikudaginn 29. júní 2022, kl. 09:00.

 

 

Fundinn sátu:

Helgi Kjartansson, Stefanía Hákonardóttir, Sveinn Ingi Sveinbjörnsson, Guðrún S. Magnúsdóttir, Guðni Sighvatsson, Anna Gréta Ólafsdóttir, Jón Forni Snæbjörnsson og Ásta Stefánsdóttir.

 

 

Fundargerð ritaði: Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri.

Lagt var til að tilkynning um skil á lóð verði tekin inn á dagskrá fundarins. Var það samþykkt samhljóða og verður 4. mál á dagskrá.

 

1.   Fundargerð skipulagsnefndar – 2201007
242. fundur haldinn 22. júní 2022. Afgreiða þarf sérstaklega liði 4 til 12 og 25.
Jón Forni Snæbjörnsson vék af fundi við afgreiðslu liðar 4 og 5.
-liður 4, Austurey 1 (L167622) og 3 (L167623); Breytt landnotkun; Breytt vegstæði; Aðalskipulagsbreyting – 2107015
Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar sem tekur til breytinga á aðalskipulagi Bláskógabyggðar í landi Austureyjar 1 og 3 eftir kynningu. Í breytingunni felst að frístundalóðinni Eyrargötu 9 er breytt í svæði fyrir verslun og þjónustu. Hús er til staðar á lóðinni og hefur það verið leigt út fyrir gistingu. Einnig verður gerð breyting á aðkomuleið, Vagnbraut, auk annarra minniháttar breytinga á götum. Athugasemdir og umsagnir bárust á kynningartíma tillögunnar og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins.
Sveitarstjórn telur rétt að innan breytingar á aðalskipulagi verði tilgreindur hámarksfjölda gesta innan fyrirhugaðs verslunar- og þjónustusvæðis. Að mati sveitarstjórnar er eðlilegt að fjöldi gesta miðist við núverandi hús og hugsanlegt hámarksbyggingarmagn innan lóðar. Samþykkir sveitarstjórn því að hámarksfjöldi gesta verði allt að 15. Sveitarstjórn telur ekki ástæðu til að bregðast frekar við framlögðum athugasemdum vegna kynningar málsins. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir framlagða tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna Austureyjar 1 og 3 í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um lagfærð gögn í takt við framlagða bókun. Sveitarstjórn mælist til þess að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 31 sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar. Þeim sem athugasemdir gerðu við kynningu skipulagsbreytingar verði sérstaklega tilkynnt um auglýsingu málsins.

-liður 5, Austurey 1 og 3; Eyrargata 9 og Illósvegur 6; Deiliskipulagsbreyting – 2202048
Lögð er fram tillaga er varðar breytingu á deiliskipulagi fyrir Austurey I og III eftir kynningu. Í breytingunni felst að lóð Eyrargötu 9 er skilgreind sem lóð fyrir gistihús í stað frístundahúss auk þess sem breyting er gerð á legu lóðar og byggingarreitar Illósvegar 6 og skilgreindar byggingarheimildir. Samhliða er unnið að breytingu á aðalskipulagi Bláskógabyggðar. Athugasemd barst á kynningartíma deiliskipulagsbreytingar og er hún lögð fram við afgreiðslu málsins. Málinu var frestað afgreiðslu á 240. fundi skipulagsnefndar. Samhliða er lagt fram minnisblað er varðar flóðahættu á svæðinu unnið af EFLU verkfræðistofu.
Sveitarstjórn telur rétt að innan breytingar á deiliskipulagi verði tilgreindur hámarksgestafjöldi innan fyrirhugaðs verslunar- og þjónustusvæðis. Að mati sveitarstjórnar er eðlilegt að fjöldi gesta miðist við núverandi hús og hugsanlegt hámarksbyggingarmagn innan lóðar. Sveitarstjórn samþykkir því að hámarksfjöldi gesta verði allt að 15. Sveitarstjórn telur ekki ástæðu til að bregðast frekar við framlögðum athugasemdum vegna kynningar málsins. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir viðkomandi breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar breytingar á deiliskipulagi. Þeim sem athugasemdir gerðu við kynningu málsins verði sérstaklega tilkynnt um auglýsingu þess.

-liður 6, Skálabrekka L224848; Færsla á byggingareit; Fyrirspurn – 2206035
Lögð er fram fyrirspurn frá Arnari Grétarssyni er varðar færslu á byggingarreit innan deiliskipulags sem tekur til Skálabrekku L224848.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að farið verði að skilmálum gildandi deiliskipulags fyrir svæðið sem tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda þann 29. desember 2021. Fyrirspurn synjað.

-liður 7, Heiðarbær við Þingvallavatn; Frístundabyggð; Deiliskipulag – 2206013
Lögð er fram umsókn frá Ármanni Halldórssyni fh. Ríkiseigna er varðar nýtt deiliskipulag frístundabyggðar Heiðarbæjar við Þingvallavatn. Markmið deiliskipulagsins er að hafa til staðar deiliskipulag sem gefur heildarmynd af svæðinu þar sem lóðarmörk, aðgengi og gönguleiðir eru skýrar. Jafnframt að fylgja eftir stefnu Bláskógabyggðar um að til skuli vera deiliskipulag fyrir eldri frístundasvæði. Með deiliskipulagsgerðinni er unnið að því að samþætta lóðamörk, auka skilvirkni við umsýslu á lóðum ásamt því að ramma inn svæðið og nýtingu þess í heild og einstaka þætti þess s.s. innviði, náttúruvernd og aðgengi.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir deiliskipulagið og að það verði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem allar meginforsendur liggi fyrir innan aðalskipulags sveitarfélagsins þar sem svæðið er skilgreint sem frístundasvæði F3. Innan svæðisins eru 42 þegar byggðar lóðir á um 53 ha svæði.

-liður 8, Bæjarholt 14 (L202323); umsókn um byggingarheimild; bílskúr-geymsla – 2206017
Fyrir liggur umsókn Hafsteins Helgasonar, móttekin 07.06.2022, um byggingarheimild fyrir 44,3 m2 bílskúr/geymslu á íbúðarhúsalóðinni Bæjarholt 14 L202323 í Bláskógabyggð.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur að um óverulegt frávik frá gildandi deiliskipulagsskilmálum sé að ræða. Auk þess sem framlögð umsókn er í takt við nýtt deiliskipulag fyrir Laugarás sem samþykkt hefur verið til auglýsingar. Mælist sveitarstjórn því til þess að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

-liður 9, Efsti-Dalur 2 L167631; Byggingareitur; Deiliskipulagsbreyting – 2206042
Lögð er fram umsókn frá Efstadalskoti ehf. er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi að Efsta-Dal 2 L167631. Í breytingunni felst að núverandi byggingarreit G-1 er skipt upp í tvennt og stofnaðar verði 2 lóðir. Lóð G-1 verður 1.749 fm að stærð sem er verslunar- og þjónustulóð þar sem gert er ráð fyrir gistihúsi. Lóð Ú-4 verður 2.482 fm að stærð og ætluð verslunar- og landbúnaðartengdri starfsemi. Lóðirnar fá heitin Efsti Dalur 2G og Efsti Dalur 2H.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi.

-liður 10, Iða 1 167123 L167123; Framkvæmdarleyfi – 2205126
Lögð er fram umsókn frá Guðmundi Ingólfssyni og Magnúsi Eyjólfssyni er varðar útgáfu framkvæmdaleyfis á jörðum Iðu 1 og 2. Í framkvæmdinni felst efnistaka úr námum E57 og E58 allt að 20.000 m3 úr hvorri námu fyrir sig.
Sveitarstjórn samþykkir að ekki verði gerð athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og heimilda aðalskipulags. Sveitarstjórn mælist til þess að óskað verði eftir umsögn fiskistofu vegna efnistöku úr námum E58. Mælst er til þess að umsækjandi setji fram tímasetta áætlun um efnistöku og geri grein fyrir lokun námunnar að henni lokinni. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að unnið verði að heildarúttekt á námumálum sveitarfélagsins þar sem skilgreindar námur innan aðalskipulags verði metnar m.t.t. framtíðarnotkunar þeirra.

-liður 11, Bergstaðir 167060, Bergsstaðir (Efra-Berg) L167202, Bergsstaðir lóð A2-1 (Kelduholt) L221076, Bergsstaðir lóð A3-1 (Holtsendi) L221077 og Bergsstaðir lóð A3 (Kelduendi) L219953; Skipting lands – 2202074
Lögð er fram umsókn Einars E. Sæmundsen, f.h. landeigenda, um landskipti, stækkun lands og breytt og ný staðföng skv. meðfylgjandi uppdráttum og gögnum.

Bergsstaðir L167060 skiptist í 5 landeignir; Hrísholtsmýri (23,9 ha), Kringlubraut 1 (13.200 fm), Kringlubraut 3 (12.500 fm), Neðra-Berg (8.300 fm utan um þegar byggt íbúðarhús) og Bergstaði sem verður 40.100 fm (utan um núverandi útihús og tún) eftir skiptin.
Kringlubraut 1 og 3 eru frístundalóðir skv. skipulagi sem er í auglýsingu í máli nr. 2201066 og Neðra-Berg er íbúðarhúsalóð skv. skipulagi frá 2016.

Bergstaðir lóð A3 L219953 sem óskað er eftir að fái staðfangið Kelduendi skiptist í 3 landeignir; Birkiberg (12.100 fm), Birkiholt (12.100 fm) og Kelduendi sem verður 55.000 fm eftir skiptin. Birkiholt og Birkiberg eru frístundalóðir skv. skipulagi frá 2016.
Einnig er óskað er eftir að staðfangi L221077 verði breytt úr Bergsstaðir lóð A3-1 í Holtsendi.

Bergsstaðir L167202 sem óskað er eftir að fái staðfangið Efra-Berg skiptist í 7 landeignir; Lyngberg (13.700 fm), Brekkuberg (6.700 fm), Syðra-Berg (25,91 ha), Syðra-Berg 1 (7.200 fm), Syðra-Berg 2 (7.200 fm), Syðra-Berg 3 (7.100 fm) og Efra-Berg sem verður 7.100 fm (utan um þegar byggt frístundahús) eftir skiptin að teknu tilliti til 23,13 ha viðbótarlands sem einnig er óskað eftir að stofna úr landinu í þeim tilgangi að sameina við L221076 sem verður 25,3 ha eftir stækkun. Jafnframt er óskað eftir að staðfangi L221076 verði breytt úr Bergsstaðir lóð A2-1 í Kelduholt.
Efra-Berg, Brekkuberg og Syðra-Berg 1, 2 og 3 eru frístundalóðir skv. skipulagi frá 2013.

Fyrir liggur samþykki flestra eigenda aðliggjandi landeigna fyrir ytri afmörkun L167060, L167202 og L219953.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við landskipti og lóðastofnanir á grundvelli fyrirliggjandi umsóknar með fyrirvara um að samþykki allra eigenda aðliggjandi landeigna liggi fyrir. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir erindið.

-liður 12, Útey 2; Aukið byggingamagn; Deiliskipulagsbreyting – 2206043
Lögð er fram umsókn frá Útey 2 ehf. er varðar breytingu á deiliskipulagi að Útey 2. Óskað er eftir breytingum á byggingarskilmálum lóða innan svæðisins. Skv. gildandi skipulagi er nýtingarhlutfall 0,03 og byggingarheimild hvers húss um 75 fm. Óskað er eftir að byggingarmagn verði aukið til samræmis við ákvæði sem birt voru með breyttu aðalskipulagi Bláskógabyggðar er varðar lóðir undir 1/3 af ha að stærð þar sem segir: Nýtingarhlutfall skal ekki vera hærra en 0,03 nema á lóðum sem eru minni en 1/3ha að stærð, en þar er leyfilegt byggingarmagn 100 fm. Stærð aukahúss/gestahúss getur verið allt að 40 m² og geymslu allt að 15 fm. Þessar byggingar teljast með í heildarbyggingarmagni lóðar.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi og verði kynnt sérstaklega fyrir lóðarhöfum innan skipulagssvæðisins.

-liður 25, Grímsnes- og Grafningshreppur og Bláskógabyggð:
Gatfellsskáli, Skjaldborg og Lambahlíðar; Skipulagslýsing; Deiliskipulag – 2206049
Lögð er fram skipulagslýsing sem tekur til deiliskipulagstillagna fyrir fjallaselin Gatfellsskála, Skjaldborg og Lambahlíðar. Gatfellsskáli er í Bláskógabyggð en í eigu Grímsnes- og Grafningshrepps, Skjaldborg er í Bláskógabyggð og þar eru skálar í eigu beggja sveitarfélaga. Lambahlíðar eru í Grímsnes- og Grafningshreppi og eru skálar þar í einkaeigu. Með gerð deiliskipulags verður settur rammi um starfsemi á hverju svæði og framkvæmdir verða í samræmi við samþykkt deiliskipulag.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir skipulagslýsingu til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Fundargerðin var lögð fram til kynningar hvað aðra liði varðar.

 
2.   Hjólhýsasvæði Laugarvatni – 2004032
Erindi Samhjóls um framtíð hjólhýsasvæðisins við Laugarvatn. Á 304. fundi sveitarstjórnar var samþykkt að vísa erindinu til nýrrar sveitarstjórnar að loknum sveitarstjórnarkosningum.
Lagt er fram erindi Samhjóls, félags hjólhýsaeigenda á Laugarvatni, dags. 22. mars 2022, ásamt kostnaðaryfirliti fyrir lagningu vatnslagnar, fundargerð aðalfundar Samhjóls þann 10. febrúar 2022, kort af svæðinu og viljayfirlýsingar félagsmanna. Samkvæmt því sem fram kemur í erindinu er Samhjól reiðubúið til þess að skuldbinda sig til þess að standa að nánar tilteknum framkvæmdum á hjólhýsasvæðinu á Laugarvatni með það að leiðarljósi að hjólhýsabyggðinni verði tryggð örugg tilvist til framtíðar. Í erindinu lýsir félagið vilja til að standa straum af kostnaði og sjá um allt utanumhald vegna þeirra framkvæmda sem sveitarfélagið telur nauðsynlegar til þess að svæðið standist allar kröfur og sé öruggt fólki sem þar dvelur í frítíma sínum. Samkvæmt því sem fram kemur í erindinu virðist yfirlýsingin um þátttöku í framkvæmdum bundin því skilyrði að samið yrði við félagið um rekstur svæðisins til a.m.k. 10 ára, en að þeim tíma liðnum yrði um hefðbundna tveggja ára samninga að ræða við félagið. Félagið gerir ráð fyrir að framkvæmdir taki um 4-5 ár, en á þeim tíma sé gert ráð fyrir að sveitarfélagið deiliskipuleggi svæðið. Einnig er lagt fram erindi frá lögmanni Samhjóls, dags. 29. mars 2022, þar sem gerð er tillaga um að Bláskógabyggð geri áframhaldandi lóðarleigusamning við Fýlinn slf. sem hefur séð um rekstur svæðisins, án útboðs, eins og gert er almennt með byggingarlóðir. Rökstuðningur Samhjóls fyrir þessari tillögu styðst við almennt verklag þegar lóðarleigusamningar renni út þar sem standi mannvirki þurfi leigutakar ekki almennt að sæta því að lóðin sé boðin út og leigð öðrum heldur sé gerður áframhaldandi samningur við viðkomandi leigutaka.
Lagt er fram minnisblað frá Lögmönnum Suðurlandi, dags. 4. maí 2022, þar sem fjallað er um breytingu á byggingarreglugerð sem gerð var með reglugerð nr. 1321/2021 og áhrif breytinganna á stöðu hjólhýsasvæðisins. Í minnisblaðinu kemur fram að breyting hafi orðið á skilgreiningu á hugtakinu stöðuhýsi sem er nú skilgreint með eftirfarandi hætti: „Tímabundnar og lausar byggingar sem ekki eru tengdar lagna- eða veitukerfum og ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað svo sem húsvagnar og tjaldhýsi úr léttum byggingarefnum.„ Það þarf því ekki lengur byggingarleyfi fyrir hjólhýsi og aðra húsvagna svo hægt sé að leyfa hýsum að standa á hjólhýsasvæðum á árs grundvelli heldur er mögulegt fyrir eigendur að sækja um stöðuleyfi fyrir hýsin yfir vetrarmánuðina, sé það þeirra ósk að hýsin standi á afnotareit yfir veturinn. Fyrir hendi er því ekki sá ómöguleiki sem áður var og rekstur heilsárs svæðis fyrir hjólhýsi og húsvagna ekki útilokaður, skv. lögum.
Í minnisblaðinu er einnig fjallað um erindi Samhjóls og möguleika Bláskógabyggðar á því að taka boði félagsins um þátttöku í kostnaði og umsýslu við nauðsynlegar framkvæmdir á svæðinu til þess að tryggja öryggi þeirra sem þar dvelja. Í fyrsta lagi þyrfti sveitarfélagið að ákveða með hvaða hætti væri hægt að halda rekstri svæðisins áfram þ.e. ráða starfsfólk til þess að sjá um svæðið, ráða verktaka til þess að sjá um reksturinn eða leigja landsvæðið út til þriðja aðila sem myndi sjá um hjólhýsasvæðið. Ef sveitarfélagið færi þá leið að ráða verktaka til að sjá um reksturinn eða leigja landsvæðið út til þriðja aðila þá þyrfti val á slíkum aðila að standast almennar meginreglur stjórnsýsluréttar sem leiða til þess að þegar opinber aðili úthlutar takmörkuðum gæðum þá skuli slíkt ferli vera gagnsætt og þannig viðhaft að öllum sem áhuga hafa sé veitt tækifæri til þess að taka þátt í valferlinu. Val þess aðila sem hlýtur gæðin skal jafnframt byggja á málefnalegum forsendum. Niðurstaða minnisblaðsins hvað erindi Samhjóls varðar er því að sveitarfélagið geti ekki orðið við beiðni Samhjóls um að tryggja félaginu samning til 10 ára og síðan til 2ja ára í senn eftir þann tíma, gegn þátttöku í umsýslu og kostnaði við nauðsynlegar framkvæmdir. Í minnisblaðinu er jafnframt umfjöllun um önnur atriði sem þyrfti að huga að ef ákveðið verður að halda áfram rekstri hjólhýsasvæðisins s.s. sjónarmið samkeppnisréttar þegar opinber aðili rekur starfsemi í samkeppni við einkaaðila, framkvæmd aðgerða við fækkun afnotareita eða stækkun hjólhýsasvæðisins og álitamál við úthlutun afnotareita.
Lögð er fram kostnaðaráætlun frá sviðsstjóra framkvæmda og veitusviðs Bláskógabyggðar þar sem áætlaður er kostnaður við nauðsynlegar umbætur hjólhýsasvæðis við Laugarvatn. Fram kemur í minnisblaðinu að um sé að ræða lágmarks kostnað og gera megi ráð fyrir ófyrirséðum liðum en um sé að ræða grófa áætlun. Kostnaður skv. kostnaðaráætlun er að fjárhæð kr. 49.459.800.- Í minnisblaðinu er ekki tilktekinn kostnaður við umsýslu útboðs á framkvæmdum eða eftirlit með framkvæmdum enda liggja ekki fyrir upplýsingar um hvort ráðist verði í framkvæmdir á svæðinu eða hvort það kæmi í hlut Bláskógabyggðar að standa að þeim.
Lagðir eru fram minnispunktar varðandi umræður á vinnufundi sveitarstjórnar þann 27. júní 2022 þar sem eftirtaldir komu á fund sveitarstjórnar: forsvarsmenn Fýlsins slf. sem hefur verið rekstraraðili hjólhýsasvæðisins, formaður Samhjóls ásamt lögmanni félagsins og slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur ekki mögulegt að taka því tilboði sem fram kemur í erindi Samhjóls, félags hjólhýsaeigenda á Laugarvatni, dags. 22. mars 2022, og vísar til fyrri ákvörðunar sveitarstjórnar um að endurnýja ekki leigusamninga. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar er bundin almennum grundvallarreglum stjórnsýsluréttar sem gilda um þau tilvik þegar opinber aðili úthlutar takmörkuðum gæðum sem leiða til þess að sveitarfélaginu er nauðsynlegt að auglýsa með opinberum hætti eftir rekstraraðila svæðisins eða leigutaka landsins. Sveitarstjórn telur ekki mögulegt að fara þá leið að gera áframhaldandi samning við Fýlinn slf. sem hefur staðið að rekstri svæðisins undanfarin ár enda leiða engin rök til forgangsréttar þess aðila umfram aðra. Sveitarfélagið getur því ekki tryggt Samhjóli eða núverandi rekstraraðila, umfram aðra, afnot af svæðinu. Ennfremur er ekki vilji sveitarstjórnar að endurskoða fyrri ákvörðun um lokun hjólhýsasvæðisins. Það er afstaða sveitarstjórnar að nauðsynlegt sé að rýma svæðið áður en ákvörðun verði tekin um framtíðar nýtingu þess. Sveitarstjóra er falið að fylgja ákvæðum leigusamninga eftir.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með sex atkvæðum. Jón F. Snæbjörnsson (Þ-lista) sat hjá.

 
3.   Lóðarumsókn Bæjarholt 6, Laugarási – 2206026
Umsókn Helgu Loftsdóttur og Sigurbjörns Þorbergssonar um lóðina Bæjarholt 6, Laugarási.
Ein umsókn liggur fyrir um lóðina Bæjarholt 6, Laugarási. Lóðin hefur verið auglýst til úthlutunar. Sveitarstjórn samþykkir að úthluta lóðinni til Helgu Loftsdóttur og Sigurbjörns Þorbergssonar.
 
4.   Skil á lóð, Traustatún 6, Laugarvatni – 2204029
Tilkynning um skil á lóð. Tillaga um að lóðin verði auglýst til úthlutunar að nýju.
Lögð var fram tilkynning Sveitadurgs ehf um skil á lóðinni Traustatúni 6, Laugarvatni. Sveitarstjórn samþykkir að lóðin verði auglýst til úthlutunar að nýju.
 

 

 

Fundi slitið kl. 10:30.

 

 

 

 

 

Helgi Kjartansson Stefanía Hákonardóttir
Sveinn Ingi Sveinbjörnsson Guðrún S. Magnúsdóttir
Guðni Sighvatsson Anna Gréta Ólafsdóttir
Jón Forni Snæbjörnsson Ásta Stefánsdóttir