310. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar

 

 

 310. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn í Aratungu, Reykholti,

miðvikudaginn 17. ágúst 2022, kl. 09:00.

 

 

Fundinn sátu:

Helgi Kjartansson, Stefanía Hákonardóttir, Sveinn Ingi Sveinbjörnsson, Guðrún S. Magnúsdóttir, Guðni Sighvatsson var fjarverandi en í staðinn sat fundinn Elías Bergmann Jóhannsson, Anna Greta Ólafsdóttir, Jón Forni Snæbjörnsson var fjarverandi en í staðinn sat fundinn Stephanie E. M. Langridge og Ásta Stefánsdóttir.

 

 

Fundargerð ritaði: Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri.

Oddviti bauð Elías og Stephanie velkomin á sinn fyrsta fund sem varamenn.

 

1.   Fundargerð framkvæmda- og veitunefndar – 2201002
29. fundur haldinn 10.08.2022. Afgreiða þarf sérstaklega liði nr. 18 og 26.
-liður 18, umsókn í Styrkvegasjóð, 2203021. Fyrir liggur tillaga framkvæmda- og veitunefndar um að gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun vegna 6.000.000 kr styrks úr styrkvegasjóði Vegagerðarinnar til lagfæringar vegar að fjallaskálunum Gíslaskála og Fremstaveri. Sveitarstjórn óskar eftir kostnaðaráætlun sviðsstjóra framkvæmda- og veitusviðs vegna verksins og samþykkir að þegar hún liggur fyrir verði gerður viðauki við fjárhgsáætlun vegna styrksins og kostnaðar við vegagerðina.
-liður 26, Tungurimi og Borgarrimi, 2. áfangi, 2208024. Fyrir liggur tillaga framkvæmda- og veitunefndar um að hafin verði vinna við hönnun gatna í 2. áfanga, þ.e. þeirra hluta Borgarrima og Tungurima sem ekki voru boðnir út í fyrri áfanga. Sveitarstjórn samþykkir tillöguna og óskar eftir kostnaðaráætlun vegna verksins.
Fundargerðin var staðfest.
 
2.   Fundargerð afgreiðslufunda byggingarfulltrúa – 2201008
168. fundur haldinn 11. ágúst 2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
 
3.   Grænn auðlindagarður – 2203020
Kynning á Orkideu og samstarfsverkefni um grænan auðlindagarð.
Sveinn Aðalsteinsson og Helga Gunnlaugsdóttir komu inn á fundinn og kynntu starfsemi Orkídeu og samstarfsverkefni Bláskógabyggðar, Espiflatar, Friðheima, Gufuhlíðar og Orkídeu um að skoða möguleika á því að koma á fót Grænum auðlindagarði innan Bláskógabyggðar.
 
4.   Hugmyndir um gerð baðlóns í Laugarási – 2109039
Kynning fulltrúa Yls Nature Baths á hugmyndum að uppbyggingu baðlóns og veitingastaðar í Laugarási. Fulltrúar Yls koma inn á fundinn kl. 10.
Árni Georgsson og Þorbjörn Sigurbjörnsson komu inn á fundinn og kynntu hugmyndir sínar um gerð baðlóns og veitingastaðar í Laugarási, hugmyndir um samstarf um val á staðsetningu og ræddu um þörf fyrir heitt og kalt vatn.
 
5.   Útsvarstekjur og framlög Jöfnunarsjóðs – 2202017
Yfirlit yfir útsvarstekjur (staðgreiðslu) og framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Lagt var fram yfirlit yfir útsvarstekjur sveitarfélagsins og framlög Jöfnunarsjóðs fyrir janúar til júlí 2022.
 
6.   Styrkbeiðni Aflsins 2022 – 2208026
Beiðni Aflsins, samtaka gegn kynferðis og heimilisofbeldi, dags. 8. ágúst 2022, um styrk til starfseminnar.
Erindið var lagt fram. Þar er óskað eftir styrk til starfsemi samtakanna á Akureyri. Sveitarstjórn sér sér ekki fært að styrkja verkefnið.
 
7.   Þjónustusamningur um frístundakerfi – 2208030
Drög að samningi um frístundakerfi
Íþrótta- og tómstundafulltrúi/verkefnastjóri Heilsueflandi samfélags kynnti drög að samningi við Abler ehf um afnot, rekstur og þjónustu við Hvata styrkjakerfið og Sportabler SHOP skráningar og greiðslukerfið, sem hefur það markmið að sveitarfélagið geti komið frístundastyrkjum til íbúa í rafrænt ferli. Sveitarstjórn samþykkir samninginn fyrir sitt leyti.

 
8.   Reglur um frístundastyrki – 2208027
Tillaga að reglum um frístundastyrki.
Lögð var fram tillaga að reglum um frístundastyrki. Umræða varð um málið. Sveitarstjórn samþykkir reglurnar. Þar kemur fram að veittur verður 50.000 kr. styrkur til barna og ungmenna á aldrinum 5 til 17 ára vegna þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi sem uppfyllir nánari skilyrði. Umsóknarferli verður í gegnum stafrænt kerfi, Sportabler, og nýta foreldrar þá styrkinn til lækkunar á þátttökugjöldum. Sveitarstjórn samþykkir reglurnar og vísar þeim til æskulýðsnefndar til kynningar.
 
9.   Deiliskipulagsbreyting Ártunga 2 og 4 – 2208028
Erindi Markúsar Jóhannssonar og Guðnýjar Bjargar Kristjánsdóttur, dags. 2. ágúst 2022, varðandi breytingu á deiliskipulagi vegna Ártungu 2 og 4. Áður á dagskrá 258. fundar.
Erindið var lagt fram. Þar kemur fram að bréfritarar hafi safnað samþykki 97 sumarhúsaeigenda í Reykjaskógi fyrir því að þau reki gististað í flokki II að Ártungu 2 og óska þau eftir að þeim grundvelli verði samþykkt að gerð verði breyting á deiliskipulagi þannig að rekstur gististaðar verði heimill og veitt verði leyfi til reksturs gististaðar í flokki II fyrir Ártungu 2. Eigendur þriggja sumarhúsa hafa ekki veitt samþykki sitt. Fram kemur að fallið er frá beiðni hvað varðar Ártungu 4.
Samkvæmt kafla 2.3.2 í aðalskipulagi Bláskógabyggðar er útleiga sumarhúsa heimil á grundvelli reglugerðar um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald með þeim takmörkunum að samþykki eigenda sumarhúsa á svæðinu þurfi að liggja fyrir komi fram ósk um atvinnurekstur. Í bókun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 258. fundi var deiliskipulagsbreytingin samþykkt með fyrirvara um samþykki allra sumarhúsaeigenda innan frístundasvæðis F73 Reykjaskógur og Stekkjatún. Ekki hefur verið aflað samþykkis allra sumarhúsaeigenda innan frístundasvæðis F73 fyrir atvinnustarfsemi, svo sem áskilið var, og telst því fyrirvari sá sem sveitarstjórn setti fyrir samþykkt deiliskipulagsins ekki uppfylltur og getur sveitarstjórn því ekki fallist á erindið.
 
10.   Lóðarumsókn Hverabraut 14 – 2208033
Umsókn Melavíkur ehf um lóðina Hverabraut 14, Laugarvatni
Lögð var fram umsókn Melavíkur ehf um lóðina Hverabraut 14, Laugarvatni. Lóðin hefur verið auglýst laus til umsóknar og ein umsókn borist. Sveitarstjórn samþykkir að úthluta lóðinni til Melavíkur ehf. Lóðinni er úthlutað með fyrirvara um samkomulag um aðkomu að lóðinni.
 
11.   Lóðarumsókn Hverabraut 4 – 2208032
Umsókn Melavíkur ehf um lóðina Hverabraut 4, Laugarvatni
Lögð var fram umsókn Melavíkur ehf um lóðina Hverabraut 4, Laugarvatni. Lóðin hefur verið auglýst laus til umsóknar og ein umsókn borist. Sveitarstjórn samþykkir að úthluta lóðinni til Melavíkur ehf.
 

 

 

Fundi slitið kl. 11:39.

 

 

 

 

 

Helgi Kjartansson Stefanía Hákonardóttir
Sveinn Ingi Sveinbjörnsson Guðrún S. Magnúsdóttir
Elías Bergmann Jóhannsson Anna Greta Ólafsdóttir
Stephanie E. M. Langridge Ásta Stefánsdóttir