313. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar

 

313. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn í Aratungu, Reykholti,

miðvikudaginn 5. október 2022, kl. 09:00.

 

 

Fundinn sátu:

Helgi Kjartansson, Stefanía Hákonardóttir, Sveinn Ingi Sveinbjörnsson, Guðrún S. Magnúsdóttir var fjarverandi en í staðinn sat fundinn Áslaug Alda Þórarinsdóttir, Guðni Sighvatsson, Anna Greta Ólafsdóttir, Jón Forni Snæbjörnsson og Ásta Stefánsdóttir.

 

 

Fundargerð ritaði: Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri.

 

 

1.   Fundargerð skipulagsnefndar – 2201007
244. fundur haldinn 24.08.2022
-liður 2, Bláskógabyggð: Fellsendi land L222604; Uppbygging íbúðar- og úthúsa; Fyrirspurn. Áður á dagskrá á 311. og 312. fundi sveitarstjórnar. Fyrirspyrjendur koma á fundinn.
VSÓ Ráðgjöf sendir fyrir hönd Hundasleða Íslands ehf. formlega fyrirspurn um heimildir til uppbyggingar í landi Fellsenda land L222604, Bláskógabyggð, í samræmi við ráðleggingar skipulagsfulltrúa. Landeigendur óska eftir að fá afstöðu sveitarfélags til uppbyggingarinnar og eftir atvikum heimild til að hefja vinnu við gerð deiliskipulags. Landeigendur óska eftir að fá að byggja tvö íbúðarhús og hlöðu á landinu. Hlaðan er byggð til að halda hunda og rækta. Eigendur fyrirtækisins hyggjast byggja sér íbúðarhús á landinu.
Á fundinn komu Andrea Kristinsdóttir frá VSÓ og Quentin Thuilliez og Klara Thuilliez, f.h. landeiganda. Gerðu þær grein fyrir áformum um uppbyggingu og fyrirhugaðri starfsemi.
Sveitarstjórn samþykkir að unnið verði deiliskipulag fyrir svæðið í samræmi við framangreindar forsendur fyrirspurnarinnar.
2.   Fundargerð skipulagsnefndar – 2201007
246. fundur haldinn 27.09.2022. Afgreiða þarf sérstaklega liði nr. 1-4.
-liður 1, Úthlíð L167514; VÞ15 Breyttar heimildir; Aðalskipulagsbreyting – 2209074
Lögð er fram umsókn frá ferðaþjónustu Úthlíðar ehf. er varðar breytingu á aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027 ásamt skipulagslýsingu. Svæðið sem lýsingin tekur til nær yfir hluta jarðarinnar Úthlíðar, norðvestan Laugarvatnsvegar (37) og beggja vegna vegar að Úthlíð. Í Úthlíð er verslunar- og þjónustusvæðið VÞ15. Þar er verslun, veitingastaður, sundlaug, tjaldsvæði, eldsneytissala, orlofshús, starfsmannahús, hestaleiga og afþreyingarferðir. Gert er ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu ferðaþjónustu s.s. byggingu gistiheimilis/hótels fyrir allt að 180 gesti og stækkun sundlaugarsvæðis. Stærð svæðis er um 21 ha. Með breytingunni stækkar svæðið í u.þ.b. 25 ha, yfir svæði sem í dag er landbúnaðarsvæði. Hluta verslunar- og þjónustusvæðisins VÞ15 verður breytt í afþreyingar- og ferðamannasvæði þar sem heimild verður fyrir hjólhýsasvæði og tjaldsvæði. Stærð þess svæðis er u.þ.b. 5 ha. Í Úthlíð er mikil frístundabyggð og einnig ýmiss konar þjónustustarfsemi tengd henni. Markmiðið með breytingunni er að efla þjónustu á staðnum.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir skipulagslýsingu til kynningar og umsagna í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
-liður 2, Bergsstaðir L167060; Kringlubraut 1 og 3; Skilgreining lóða; Deiliskipulag – 2201066
Lögð er fram að nýju umsókn frá Einari E Sæmundsen er varðar nýtt deiliskipulag í landi Bergsstaða L167060 eftir auglýsingu. Í deiliskipulaginu felst skilgreining lóða og byggingarheimilda á lóðum Kringlubraut 1 og 3.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu. Sveitarstjórn telur að brugðist hafi verið við umsögnum sem bárust vegna málsins með fullnægjandi hætti innan gagnanna. Sveitarstjórn mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

-liður 3, Eyjarland L167649; Seiðaeldi; Deiliskipulag – 2204070
Lögð er fram umsókn frá Veiðifélagi Eystri-Rangár er varðar nýtt deiliskipulag á lóð Eyjarlands L167649 eftir auglýsingu. Markmið deiliskipulagsins er að stuðla að frekari uppbyggingu fiskeldis og ákvarða byggingarmagn, hæðir húsa, nýtingarhlutfall, aðkomu og frárennsli fyrir starfsemina. Skilgreina byggingarreiti fyrir eldistjarnir, settjarnir og starfsmannaaðstöðu. Ráðgert er að bæta aðstöðu og aðbúnað á svæðinu bæði fyrir seiði og starfsfólk. Umsagnir bárust á auglýsingatíma skipulagsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu þess ásamt uppfærðri skipulagstillögu.
Sveitarstjórn Bláksógabyggðar samþykkir framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu. Nefndin telur að brugðist hafi verið við umsögnum sem bárust vegna málsins með fullnægjandi hætti innan gagnanna. Sveitarstjórn mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

-liður 4, Laugarvatn; Bjarkarbraut 2 og 4; Niðurrif húsa og skilmálabreytingar; Fyrirspurn – 2209077
Lögð er fram fyrirspurn frá Efstadal 2 ehf er varðar niðurrif og breytingar á skipulagsskilmálum innan lóðar Bjarkarbrautar 2 og 4 á Laugarvatni.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við framlagða fyrirspurn og samþykki að unnin verði viðeigandi breyting á deiliskipulagi sem tekur til lóða Bjarkarbrautar 2 og 4. Sveitarstjórn telur mikilvægt að breytingin verði unnin í samráði við hönnuð skipulagsins og Minjastofnun Íslands. Breyttir skipulagsskilmálar miði að því að halda í og styrkja núverandi byggðarmynstur.

Fundargerðin var lögð fram til kynningar hvað aðra liði varðar.

3.   Fundargerð framkvæmda- og veitunefndar – 2201002
30. fundur haldinn 22.09.2022. Afgreiða þarf sérstaklega lið nr. 7.
-liður 7, viljayfirlýsing vegna kaupa á heitu vatni til uppbyggingar í ferðaþjónustu (baðlón, hótel) 1906021. Framkvæmda- og veitunefnd leggur til við sveitarstjórn að beiðni Norverks ehf um endurnýjun viljayfirlýsingar um sölu á heitu vatni verði endurnýjuð til eins árs. Fyrri yfirlýsing var gerð til eins árs, eða til 22. ágúst 2022, og tók til sölu á allt að 6 sekúndulítrum á heitu vatni vegna verkefnis á sviði ferðaþjónustu í Laugarási. Sveitarstjórn samþykkir að endurnýja yfirlýsinguna til eins árs.
Fundargerðin var staðfest.
4.   Fundargerð skólanefndar – 2201003
25. fundur haldinn 26.09.2022
-liður 6, vinnutímastytting, lagt var til að samningurinn yrði staðfestur. Var það gert með sex atkvæðum. Anna Greta Ólafsdóttir situr hjá og óskar eftir að bókað verði: Í útgefnum leiðbeiningum KÍ um styttingu vinnuvikunnar kemur skýrt fram að megin forsenda vinnustyttingarinnar í grunnskólum sé að starfsemi skólans raskist ekki og að skólastarf sé af sömu eða betri gæðum og áður. Einnig er eitt helsta markmið með styttingu vinnuvikunnar að minnka álag og forföll. Ég lýsi yfir áhyggjum að umrædd útfærsla sé ekki í nægilega góðu samræmi við þær forsendur og þau markmið.


Fundargerðin staðfest.

5.   Fundargerð atvinnu- og ferðamálanefndar – 2210010
1. fundur haldinn 19.09.2022
Fundargerðin var staðfest.
6.   Fundargerð æskulýðsnefndar – 2210015
10. fundur haldinn 29.09.2022
Fundargerðin var staðfest.
7.   Fundargerð stjórnar Tónlistarskóla Árnesinga – 2201015
203. fundur haldinn 27.09.2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
8.   Fundargerð almannavarnanefndar Árnessýslu – 2201017
1. fundur haldinn 16.09.2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
9.   Fundargerð stjórnar Héraðsskjalasafns Árnesinga – 2201024
Fundur haldinn 20.09.2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
10.   Fundargerð heilbrigðisnefndar Suðurlands – 2201019
221. fundur haldinn 23.09.2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
11.   Fundargerð NOS (stjórn skóla- og velferðarþjónustu) – 2201010
Fundur haldinn 21.09.2022. Afgreiða þarf sérstaklega lið nr. 1, framtíð byggðasamlagsins, þ.e. tillögu stjórnar til sveitarstjórnar um að samþykkt að starfsemi byggðasamlagsins Skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings bs. verði hætt og byggðasamlaginu verði slitið, auk tillögu um að ráðinn verði verkefnastjóri til að annast slitin.
Lögð var fram fundargerð NOS, stjórnar Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs frá 21. september 2022. Í fundargerðinni leggur stjórn NOS til við bæjar- og sveitarstjórnir aðildarfélaganna að á næsta fundi þeirra verði samþykkt að starfsemi byggðasamlagsins Skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings bs. (SVÁ) verði hætt og byggðasamlaginu verði slitið. Einnig er óskað eftir samþykki bæjar- og sveitarstjórna fyrir því að ráðinn verði verkefnastjóri til að annast slitin og kostnaður greiðist af SVÁ í sömu hlutföllum og annar rekstrarkostnaður byggðasamlagsins. Tillagan hefur verið kynnt í sveitarstjórn.
Umræða varð um málið. Á síðustu misserum hefur verið unnið að því að skoða framtíð byggðasamlagsins og var í tilefni af því m.a. gerð úttekt á starfseminni og lágu niðurstöður fyrir í lok síðasta árs.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir tillögu stjórnar NOS um að starfsemi Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs verði hætt og byggðasamlaginu verði slitið. Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að ráðinn verði verkefnastjóri til að annast slitin og að kostnaður vegna þessa greiðist í sömu hlutföllum og annar rekstrarkostnaður byggðasamlagsins.
Í ljósi framangreinds samþykkir sveitarstjórn Bláskógabyggðar að skoða samstarf sveitarfélaganna Bláskógabyggðar, Flóahrepps, Grímsnes- og Grafningshrepps, Hrunamannahrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps á sviði skóla- og velferðarþjónustu. Löng hefð er fyrir samstarfi þessara sveitarfélaga í þessum málaflokkum. Er oddvita og sveitarstjóra falið að vinna að málinu.
12.   Fundargerð afgreiðslufunda byggingarfulltrúa – 2201008
170. fundur haldinn 21.09.2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
13.   Fundargerðir stjórnar Bergrisans bs – 2201021
43. fundur haldinn 06.09.2022
44. fundur haldinn 14.09.2022
45. fundur haldinn 16.09.2022
46. fundur haldinn 26.09.2022
Fundargerðirnar voru lagðar fram til kynningar.
14.   Fundargerð stjórnar Byggðasafns Árnesinga – 2201013
2. fundur haldinn 13.09.2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
15.   Fundargerð oddvitanefndar uppsveita Árnessýslu – 2201011
1. fundur haldinn 16.08.2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
16.   Fundargerð stjórnar Brunavarna Árnessýslu – 2201016
3. fundur haldinn 19.09.2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
17.   Fundargerðir Héraðsnefndar Árnesinga 2022 – 2201023
1. fundur framkvæmdastjórnar Héraðsnefndar Árnesinga kjörtímabilið 2022-2026, dags. 12. ágúst 2022
2. fundur framkvæmdastjórnar Héraðsnefndar Árnesinga kjörtímabilið 2022-2026, dags. 29. ágúst 2022.
Fundargerðirnar voru lagðar fram til kynningar.
18.   Kostnaður við íþróttaæfingar UMFL utan sveitarfélagsins – 2210002
Erindi UMFL, dags. 26.09.2022, varðandi kostnað við leigu húsnæðis á Flúðum vegna æfinga og leikja í körfubolta á meðan íþróttahúsið á Laugarvatni er lokað vegna framkvæmda. Óskað er eftir að Bláskógabyggð greiði 250.000 kr. kostnað félagsins með vísan til samnings um íþróttaaðstöðu.
Erindi UMFL var lagt fram. Þar kemur fram að leigja hafi þurft aðstöðu á Flúðum vegna íþróttastarfs. Með vísan til samnings Bláskógabyggðar við UMFL samþykkir sveitarstjórn að greiða 250.000 kr. kostnað félagsins við æfingar á Flúðum. Kostnaður rúmast innan fjárhagsáætlunar.
19.   Samstarf um frístund á Laugarvatni – 2210003
Beiðni UMFL, dags. 16.09.2022, um endurskoðun samnings um frístundaskólann á Laugarvatni.
Erindið var lagt fram ásamt samningi Bláskógaskóla Laugarvatni og UMFL um starfrækslu frístundaskóla. Óskað er eftir endurskoðun á fyrirkomulagi frístundar, auk þess sem fram kemur að óskir hafi komið fram um að frístundaskólinn starfi til kl. 16 á daginn, alla virka daga. Sveitarstjóra er falið að ræða við fulltrúa UMFL og skólastjóra Bláskógaskóla Laugarvatni um fyrirkomulag frístundar. Auk þess sem rætt verði við fulltrúa foreldrafélags Bláskógaskóla Laugarvatni um opnunartíma og fyrirkomulag.
20.   Íþróttavöllur á Laugarvatni – 2210004
Erindi UMFL, dags. 16.09.2022, þar sem óskað er eftir því að ástand íþróttavallarins á Laugarvatni verði metið með því tilliti að hægt verði að áætla hversu mikið þurfi að kosta upp á íþróttavöllinn til þess að gera ástand hans samkeppnishæft við aðra slíka velli á landinu.
Erindið var lagt fram. Sveitarstjórn felur verkefnastjóra Heilsueflandi samfélags að kanna ástand íþróttavallarins og meta kostnað við að lagfæra hann.
21.   Samstarfsnefnd um friðland í Þjórsárverum – 2210005
Beiðni Umhverfisstofnunar, dags. 24.08.2022 um tilnefningu eins aðila í samstarfsfnefnd fyrir friðland í Þjórsárverum.
Sveitarstjórn tilnefnir Guðna Sighvatsson og Ásgerði Elínu Magnúsdóttur til setu í samstarfsnefnd fyrir friðlandi í Þjórsárverum. Forstjóri Umhverfisstofnunar skipar í nefndina og velur úr tilnefningum svo kynjaskiptingin sé sem jöfnust.
22.   Námsvist utan lögheimilissveitarfélags (US) – 2210007
Beiðni um að nemandi með lögheimili í öðru sveitarfélagi fái að stunda nám í Reykholtsskóla skólaárið 2022-2023.
Sveitarstjórn samþykkir að viðkomandi nemandi stundi nám í Reykholtsskóla skólaárið 2022-2023. Um greiðslur fari skv. viðmiðunarreglum Sambands íslenskra sveitarfélaga.
23.   Styrkbeiðni vegna söngkeppni framhaldsskólanna – 2210008
Styrkbeiðni Mímis, nemendafélags ML, dags. 20.09.2022, vegna undankeppni söngkeppni framhaldsskólanna.
Erindið var lagt fram. Sveitarstjórn samþykkir að veita nemendafélaginu styrk sem nemur leigu af íþróttahúsinu á Laugarvatni vegna keppninnar.
24.   Umdæmisráð barnaverndar – 2201049
Samningur um rekstur umdæmisráðs barnaverndar á landsbyggðinni skv. 14. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, ásamt viðauka I, erindisbréfi valnefndar umdæmisráðs barnaverndar á landsbyggðinni og viðauka II, þóknun ráðsmanna. Áður á dagskrá 311. fundar.
Á 311. fundi voru lögð fram drög að samningi um sameiginlegt umdæmisráð barnaverndar á landsbyggðinni, ásamt viðaukum og erindisbréfi valnefndar og sveitarstjóra falið að vinna að framgangi málsins og í framhaldinu undirrita samning. Nú liggur fyrir endanlegur samningur ásamt tveimur viðaukum, annars vegar erindisbréf valnefndar umdæmisráðs barnaverndar og hins vegar um þóknun ráðsmanna. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar staðfestir framlögð gögn.
25.   Erindi Sigríðar Jónsdóttur, Arnarholti, til sveitarstjórnar frá 312. fundi. – 1809055
Skriflegar fyrirspurnir Sigríðar Jónsdóttur, dags. 18.09.2022, sem lagðar voru fram á 312. fundi sveitarstjórnar.
Erindi Sigríðar Jónsdóttur, dags. 18.09.2022, sem lagt var fram á 312. fundi sveitarstjórnar.
Fyrirspurnir Sigríðar Jónsdóttur liggja frammi. Þær varða annars vegar skilgreiningar á hugtakinu fyrirsvarsmaður eins og það er notað í lögum um meðferð einkamála. Hins vegar varða þær uppgjör vegna fjallskila og tengjast báðar fyrirspurninar dómsmálum Sigríðar gegn sveitarfélaginu.
Í ljósi þess að nú eru rekin tvö mál gegn sveitarfélaginu, bæði fyrir héraðsdómi og Landsrétti, telur sveitarfélagið rétt að upplýsa bréfritara um að við slík tækifæri gilda ákvæði laga um meðferð einkamála. Samkvæmt málsforræðisreglunni er aðilum máls í sjálfsvald sett hvort og þá hvaða upplýsingar eru lagðar fram í dómsmáli. Í greinargerð bréfritara fyrir Landsrétti er m.a. fjallað um hver teljist fyrirsvarsmaður sveitarfélagsins. Í stefnu málsins er Ásta Stefánsdóttir tilgreind sem fyrirsvarsmaður þess. Líklega mun vera fjallað um þessi atriði við flutning málsins fyrir Landsrétti. Hið sama gildir um síðari spurningar bréfritara varðandi fjallskil. Telji bréfritari þau atriði sem koma fram í greinargerðum sveitarfélagsins röng gefst lögmanni bréfritara kostur á að leiðrétta þann misskilning fyrir dómstólum. Þar sem málið er í þessum farvegi og þar sem að ákvæði laga um meðferð einkamála gilda um meðferð málsins telur sveitarfélagið eðlilegt að tekist verði á um þessi sjónarmið fyrir dómstólum.
Erindi Sigríðar liggur einnig frammi. Í erindinu, sem fyrst var birt í aðsendri grein í sumar á Vísir.is, sækir Sigríður um starf sveitarstjóra. Varðandi starfsumsókn vegna starfs sveitarstjóra Bláskógabyggðar er á það bent að skv. 54. gr. sveitarstjórnarlaga er það sveitarstjórn sem ræður framkvæmdastjóra til að annast framkvæmd ákvarðana sveitarstjórnar og verkefni sveitarfélags. Samkvæmt dómaframkvæmd hefur verið gengið út frá því að starf framkvæmdastjóra sveitarfélags sé í eðli sínu pólitískt trúnaðarstarf gagnvart sveitarstjórn. Hefur Umboðsmaður Alþingis einnig komist að þessari niðurstöðu. Vegna þessa hafa sveitarstjórnir töluvert meira svigrúm við ráðningu sveitarstjóra en annarra starfsmanna sveitarfélaga. Er þannig ekki að finna í sveitarstjórnarlögum almenn hæfisskilyrði sem framkvæmdastjóri þarf að uppfylla auk þess sem ekki er kveðið á um skyldu til að auglýsa starf framkvæmdastjóra. Stjórn sveitarfélagsins tók þá ákvörðun að endurnýja ráðningarsamning við núverandi framkvæmdastjóra þess. Bar sveitarfélaginu ekki að auglýsa stöðuna, né að kalla eftir umsóknum. Verður umsóknin því ekki tekin til meðferðar.
26.   Fjárhagsáætlun 2023 og 2024-2026 – 2208029
Forsendur fjárhagsáætlunar
Rætt var um fjárhagsáætlun ársins 2023.
27.   Lóðarumsókn Tungurimi 3, Reykholti – 2210012
Umsókn Lexiu ehf um lóðina Tungurima 3, Reykholti.
Lóðin hefur verið auglýst laus til umsóknar og ein umsókn borist. Sveitarstjórn samþykkir að úthluta lóðinni til Lexíu ehf.
28.   Lóðarumsókn Tungurimi 5, Reykholti – 2210013
Umsókn Lexiu ehf um lóðina Tungurima 5, Reykholti.
Lóðin hefur verið auglýst laus til umsóknar og ein umsókn borist. Sveitarstjórn samþykkir að úthluta lóðinni til Lexíu ehf.
29.   Lóðarumsókn Tungurmi 7, Reykholti – 2210011
Umsókn Markúsar Más Árnasonar, dags. 29.09.2022, um lóðina Tungurima 7, Reykholti.
Lóðin hefur verið auglýst laus til umsóknar og ein umsókn borist. Sveitarstjórn samþykkir að úthluta lóðinni til Markúsar Más Árnasonar.
30.   Afsláttur af árskortum í sund og tækjasal – 2210016
Beiðni Félags eldri borgara í Biskupstungum, dags. 28.09.2022, um samning um afslátt fyrir félagsmenn af árskortum í sund og tækjasalinn.
Erindið var lagt fram. Þar er óskað eftir að samið verði um afslátt fyrir félaga í Félagi eldri borgara í Biskupstungum (FEBB) af árskortum í sund og tækjasalinn, þ.e. fyrir þá félagsmenn sem ekki hafa náð 67 ára aldri.
Samkvæmt gjaldskrá íþróttamannvirkja fá 67 ára og eldri frían aðgang að íþróttamannvirkjum. Sveitarstjórn telur sér ekki fært að binda afslætti af gjaldskrá íþróttamannvirkja við tiltekna félagsaðild.
31.   Snjómokstur í þéttbýli útboð 2022 – 2208034
Útboð á snjómokstri í þéttbýli
Unnið er að gagnaöflun skv. útboðsgögnum. Samþykkt er að halda aukafund þegar öll gögn liggja fyrir.
32.   Stofnun Arnardrangs hses – 2210020
Erindi stjórnar Arnardrangs hses, dags. 21.09.2022, samþykktir félagsins, tillaga að breytingum á samþykktum, staðfesting á kjöri stjórnar og tilnefning fulltrúa á aukafund stofnenda þann 07.10.2022.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samþykktir Arnardrangs hses með þeim breytingartillögum sem liggja fyrir. Sveitarstjórn samþykkir jafnframt kjör eftirtalinna aðila í stjórn félagsins: Fjóla St. Kristinsdóttir, formaður, Ása Valdís Árnadóttir og Anton Kári Halldórsson. Til vara Bragi Bjarnason, Sandra Sigurðardóttir og Eggert Valur Guðmundsson.
Sveitarstjórn tilnefnir Ástu Stefánsdóttur, sveitarstjóra, sem fulltrúa Bláskógabyggðar á aukafund stofnenda sem haldinn verður 7. október nk.
33.   Leigusamningur vegna sjúkraþjálfunar – 2210022
Beiðni Lindu Rósar Sigurbjörnsdóttur, dags. 3. okt. 2022 um breytingar á samningi um leigu á aðstöðu fyrir sjúkraþjálfara í íþróttamannvirkjum að Laugarvatni.
Erindið var lagt fram. Sveitarstjórn samþykkir breytingar á leigufjárhæð með tilliti til þeirra breytinga sem orðið hafa á afnotum sjúkraþjálfara af tækjum í tækjasal.
34.   Ályktun Skógræktarfélgs Íslands um skipulagsáætlanir og framkvæmdaleyfi – 2210006
Ályktun aðalfundar Skógræktarfélags Íslands, skv. bréfi dags. 22.09.2022, þar sem skorað er á sveitarstjórnir landsins að vinna að skipulagsáætlunum í takt við stefnu stjórnvalda um skógrækt á landsvísu og eru sveitarfélög hvött til að koma sér upp skilvirkum verkferlum og forðast óþarfa tafir og kostnað við afgreiðslu framkvæmdaleyfa vegna skógræktar.
Erindið var lagt fram til kynningar.
35.   Umhverfismat vegna stækkunar seiðaeldisstöðvar Eyjarland – 2206010
Tilkynning Skipulagsstofnunar, dags. 20.09.2022 um að stækkun seiðaeldisstöðvar Eyjarland skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Kærufrestur er til 19. október 2022.
Tilkynningin var lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn ítrekar fyrri ósk um vöktunarplan.
36.   Héraðsvegur að Dalsholti – 2210019
Umsögn Vegagerðarinnar, dags. 28.09.2022, um umsókn um nýjan héraðsveg að Dalsholti.
Umsögnin var lögð fram. Þar kemur fram að Vegagerðin samþykki nýjan héraðsveg að Dalsholti.
37.   Ungmennaráð og þátttaka barna í starfi sveitarfélaga – 2210018
Hvatning UNICEF til sveitarfélaga, dags. 28.09.2022, um stofnun ungmennaráða og þátttöku barna í starfi sveitarfélaga.
Erindið var lagt fram til kynningar.

 

 

Fundi slitið kl. 12:07.

 

 

 

 

 

Helgi Kjartansson Stefanía Hákonardóttir
Sveinn Ingi Sveinbjörnsson Áslaug Alda Þórarinsdóttir
Guðni Sighvatsson Anna Greta Ólafsdóttir
Jón Forni Snæbjörnsson Ásta Stefánsdóttir