321. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar

 

 321. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn í Aratungu, Reykholti,

föstudaginn 9. desember 2022, kl. 14:30.

 

 

Fundinn sátu:

Helgi Kjartansson, Stefanía Hákonardóttir, Sveinn Ingi Sveinbjörnsson, Guðrún S. Magnúsdóttir, Guðni Sighvatsson, Anna Greta Ólafsdóttir, Jón Forni Snæbjörnsson og Ásta Stefánsdóttir.

 

 

Fundargerð ritaði: Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri.

 

 

1.   Fundargerð heilbrigðisnefndar Suðurlands – 2201019
223. fundur haldinn 02.12.2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
 
2.   Aðalfundur Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs – 2212006
Aðalfundur haldinn 24.11.2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
 
3.   Fundargerðir NOS (stjórn skóla- og velferðarþjónustu) – 2201010
Fundur haldinn 24.11.2022. Afgreiða þarf sérstaklega lið 1, varðandi útgöngu Hveragerðisbæjar og Sveitarfélagsins Ölfuss úr Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs.
-liður 1, Staða Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir útgöngu Hveragerðisbæjar og Sveitarfélagsins Ölfuss úr Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs. Útgangan miðast við í síðasta lagi 1. mars 2023 og að öll aðildarsveitarfélög hafi komist að samkomulagi um eignir, skuldir og yfirfærslu á málum sem eru í vinnslu hjá skóla- og velferðarþjónustu sem og öðru er leysa þarf úr fyrir útgöngu sveitarfélaganna.
Fundargerðin var lögð fram til kynningar að öðru leyti.
 
4.   Svæðisskipulag Suðurhálendis, starfshópur – 1909054
21. fundur haldinn 25.10.2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
 
5.   Aðalfundur Heilbrigðiseftirlits Suðurlands – 2206003
Fundargerð aðalfundar sem haldinn var 28.10.2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
 
6.   Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga – 2201025
915. fundur sem haldinn var 25.11.2022
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
 
7.   Fundir ungmennaráðs með sveitarstjórn 2022 – 2212008
Fundur ungmennaráðs Bláskógabyggðar með sveitarstjórn
Fulltrúar úr ungmennaráði komu inn á fund sveitarstjórnar ásamt Ragnheiði Hilmarsdóttur, starfsmanni ráðsins.
Eftirtaldir fulltrúar mættu: Ragnar Hjaltason, Kjartan Helgason, Sara Rosida Guðmundsdóttir, Henný Lind Brynjarsdóttir og Stefanía Maren Jóhannsdóttir.
Farið var yfir ýmis málefni sem ungmennaráð hefur áður komið með inn á borð sveitarstjórnar og minnt á að ljúka þarf nokkrum málum sem brýnt er að ráðast í, svo sem að bæta gönguleið að íþróttahúsinu á Laugarvatni, koma upp netum við sparkvelli til að koma í veg fyrir að boltinn fari útfyrir, að bæta þurfi hjólabrettarampa við skólana, auk þess var rætt um aldurstakmörk í íþróttasal í Reykholti. Ungmennaráð mun í janúar taka þátt í vinnu við heildarstefnumótun sveitarfélagsins og innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
 
8.   Styrkbeiðni söngsveitarinnar Tvennir tímar – 2211049
Styrkbeiðni söngsveitarinnar Tvennir tímar, kórs eldri borgara í Uppsveitum. Sótt er um 100-150.000 kr styrk.
Sveitarstjórn samþykkir að styrkja kórinn um 60.000 kr með hliðsjón af því að um sé að ræða félagsstarf eldri borgara. Kostnaður rúmast innan fjárhagsáætlunar.
 
9.   Styrkbeiðni Okkar heims, stuðningsúrræðis – 2212001
Beiðni Okkar heims, stuðningsúrræðis fyrir börn og foreldra/forsjáraðila með geðrænan vanda eða geðsjúkdóma, dags. 06.12.2022, um styrk að fjárhæð kr. 300.000.
Sveitarstjórn samþykkir að styrkja verkefnið um 50.000 kr. Kostnaður rúmast innan fjárhagsáætlunar.
 
10.   Lóðarumsókn Traustatún 6, Laugarvatni – 2212002
Umsókn Pálmatrés ehf um lóðina Traustatún 6, Laugarvatni.
Lóðin hefur verið auglýst laus til umsóknar. Ein umsókn hefur borist. Sveitarstjórn samþykkir að úthluta lóðinni til Pálmatrés ehf.
 
11.   Lóðarumsókn Traustatún 8, Laugarvatni – 2212003
Umsókn Pálmatrés ehf um lóðina Traustatún 8, Laugarvatni
Lóðin hefur verið auglýst laus til umsóknar. Ein umsókn hefur borist. Sveitarstjórn samþykkir að úthluta lóðinni til Pálmatrés ehf.
 
12.   Úthlutun lóða á Laugarvatni – 2103032
Tillaga um að auglýsing um að lóðin Traustatún 16 sé laus til úthlutunar verði dregin til baka.
Minnisblað sveitastjóra var lagt fram. Þar er lagt til að auglýsing um að lóðin Traustatún 16 sé laus til umsóknar verði dregin til baka þar sem fráveitulagnir frá ML liggja í gegnum lóðina. Sveitarstjórn samþykkir að lóðin verði tekin úr auglýsingu þar til umræddar lagnir hafa verið færðar.
 
13.   Traustatún 2, Laugarvatni, skilmálar – 2204025
Erindi Bjarna Þorkelssonar, dags. 07.12.2022, varðandi byggingarskilmála vegna Traustatúns 2, ásamt fylgigögnum.
Erindi Bjarna var lagt fram. Þar er óskað eftir að heimilað verði að byggja einbýlishús á einni hæð á lóðinni Traustatúni 2, Laugarvatni. Sveitarstjórn samþykkir að fresta afgreiðslu málsins til næsta fundar.
 
14.   Niðurfelling Fellskotsvegar af vegaskrá – 2212004
Tillkynning Vegagerðarinnar, dags. 05.12.2022, um niðurfellingu Fellskotsvegar af vegaskrá.
Tilkynningin var lögð fram.
 
15.   Breytt skipulag barnaverndar – 2112010
Erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 05.12.2022, varðandi breytta skipan barnaverndar og stöðuna á undirbúningi.
Erindið var lagt fram til kynningar.
 
16.   Umdæmisráð barnaverndar – 2201049
Samningur um barnaverndarráð á landsbyggðinni, ásamt fylgiskjölum
Sveitarstjórn samþykkir að fresta afgreiðslu málsins þar til frekari gögn hafa borist.
 
17.   Fjallaskálar á Kili, verðkönnun – 2211028
Fundargerð frá opnunarfundi tilboða sem haldinn var 7. desember 2022
Fundargerð opnunarfundar var lögð fram.
Sveitarstjórn samþykkir að taka tilboði Íslandshesta ehf, kr. 3.500.000, enda uppfyllir félagið skilyrði útboðsgagna.
 
18.   Kjarasamningsumboð og samkomulag um launaupplýsingar – 2212009
Erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 18.11.2022, um uppfærslu á kjarasamningsumboði sveitarfélaga og samkomulag um sameiginlega ábyrgð til samræmis við kröfur persónuupplýsingalaga.
Lagt var fram erindi Sambands íslenska sveitarfélaga, þar sem fram kemur að í tengslum við undirbúning að kjaraviðræðum við stéttarfélög starfsmanna sveitarfélaga verði gerð breyting á miðlun launaupplýsinga sveitarfélaga til Sambandsins. Vegna þessa þarf að uppfæra kjarasamningsumboð og gera samkomulag um sameiginlega ábyrgð til samræmis við kröfur persónuupplýsingarlaga. Sveitarstjórn samþykkir að uppfæra kjarasamningsumboðið og gera samkomulag um sameiginlega ábyrgð og felur sveitarstjóra að undirrita gögnin.
 
19.   Vöktun Þingvallavatns, áætlun fyrir árið 2023 – 2212005
Erindi Náttúrufræðistofu Kópavogs, dags. 01.12.2022, varðandi áætlun um aðgerðarvöktun Þingvallavatns, ásamt kostnaðaráætlun og erindi sama aðila frá 07.12.2022, vegna verkefnaáætlunar fyrir reglubundna vöktun Þingvallavatns.
Sveitarstjórn samþykkir umræddar kostnaðaráætlanir fyrir sitt leyti.
 
20.   Snjómokstur í þéttbýli útboð 2022 – 2208034
Tilkynning kærunefndar útboðsmála um ákvörðun í máli nr. 37/2022 að því er varðar stöðvunarkröfu í málinu.
Stefanía Hákonardóttir vék af fundi undir þessum lið. Tilkynningin var lögð fram til kynningar. Kærunefndin hafnaði með ákvörðun sinni kröfu Bláskógabyggðar um afléttingu sjálfkrafa stöðvunar samningsgerðar. Í forsendum ákvörðunarinnar er tiltekið að Bláskógabyggð hafi verið rétt að hafna tilboði kæranda. Endanleg niðurstaða kærunefndar útboðsmála í formi úrskurðar er væntanleg á næstu dögum.
 
21.   Gjaldskrá íþróttamannvirkja 2023 – 2211032
Gjaldskrá íþróttamannvirkja, 2. umræða
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrá íþróttamannvirkja fyrir árið 2023.
 
22.   Gjaldskrá leikskóla 2023 – 2211031
Gjaldskrá leikskóla, 2. umræða
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrá leikskóla fyrir árið 2023.
 
23.   Gjaldskrá frístundar 2023 – 2211034
Gjaldskrá frístundar 2. umræða
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrá frístundar fyrir árið 2023.
 
24.   Gjaldskrá mötuneytis 2023 – 2211033
Gjaldskrá mötuneytis, 2. umræða
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrá mötuneytis fyrir árið 2023.
 
25.   Gjaldskrá Aratungu og Bergholts 2023 – 2211036
Gjaldskrá Aratungu og Bergholts, síðari umræða
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrá útleigu Aratungu og Bergholts fyrir árið 2023.
 
26.   Gjaldskrá Bláskógaveitu 2023 – 2210046
Gjaldskrá Bláskógaveitu, 2. umræða
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrá Bláskógaveitu fyrir árið 2023. Jón F. Snæbjörnsson, Þ-lista, sat hjá.
 
27.   Gjaldskrá vatnsveitu 2023 – 2211030
Gjaldskrá vatnsveitu, 2. umræða
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrá vatnsveitu fyrir árið 2023.
 
28.   Gjaldskrá Bláskógaljóss 2023 – 2211038
Gjaldskrá Bláskógaljóss, síðari umræða
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrá Bláskógaljóss fyrir árið 2023.
 
29.   Gjaldskrá fráveitu 2023 – 2211037
Gjaldskrá fráveitu, síðari umræða
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrá fráveitu fyrir árið 2023.
 
30.   Gjaldskrá gámasvæða 2023 – 2211039
Gjaldskrá móttökustöðva
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrá gámasvæða fyrir árið 2023.
 
31.   Gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs 2023 – 2211035
Gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs, 2. umræða
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs fyrir árið 2023.
 
32.   Fjárhagsáætlun 2023 og 2024-2026 – 2208029
Fjárhagsáætlun 2022 og 3ja ára áætlun 2023-2026, síðari umræða
Sveitarstjóri gerði grein fyrir helstu forsendum fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023. Sveitarstjórn samþykkir eftirfarandi forsendur fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023:
1. Útsvar:
Útsvar fyrir árið 2023 verði 14,52%.

2. Verðlag:
Gert er ráð fyrir 5,6% verðbólgu skv. þjóðhagsspá.

3. Aðrar forsendur:
Gert er ráð fyrir að íbúafjöldi aukist um 3,14%.

4. Fasteignagjöld:
i) Fasteignaskattur:
A-liður Fasteignaskattur íbúðarhúsnæðis eins og það er skilgreint í a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 verður 0,48% af heildarfasteignamati.
B-liður Fasteignaskattur af opinberum byggingum eins og þær eru skilgreindar í b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 verður 1,32% af heildarfasteignamati.
C-liður Fasteignaskattur atvinnuhúsnæðis og annarra eigna eins og þær eru skilgreindar í c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 verður 1,50% af heildarfasteignamati.
Afsláttur sem er veittur tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum sem eiga lögheimili í viðkomandi fasteign fer eftir samþykkt um tekjuviðmið sem samþykkt var í sveitarstjórn Bláskógabyggðar þann 7. apríl 2011.

ii) Vatnsgjald:
Vatnsgjald verður 0,3% af heildarfasteignamati eigna sem tengst geta vatnsveitu sveitarfélagsins. Hámarksálagning verður 62.001 á sumarhús og íbúðarhús. Lágmarksálagning verður 18.613,-.

iii) Gjaldskrá fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Bláskógabyggð:

Fráveitugjald verði 0,27% af heildarfasteignamati eigna sem tengjast fráveitukerfum sveitarfélagsins.
Sveitarfélagið innheimtir árlega rotþróargjald til niðurjöfnunar á kostnaði við tæmingu rotþróa, skv. 18. gr. samþykktar um fráveitur og rotþrær í Bláskógabyggð.
Árlegt rotþróargjald þar sem tæming á sér stað þriðja hvert ár skal vera eftirfarandi:
Rotþró 0 til 6000 lítra kr. 13.539.
Rotþró 6001 lítra og stærri kr. 3.009 pr./m3

Fyrir aukahreinsun, að beiðni eiganda, greiðist eftirfarandi:
Aukahreinsun á rotþró í tengslum við aðra hreinsun kr. 40.540 og kr 550 á hvern ekinn kílómeter.
Aukahreinsun á rotþró sem sérferð kr. 96.850 og kr. 550 á hvern ekinn kílómeter.

Afsláttur sem er veittur tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum sem eiga lögheimili í viðkomandi fasteign fer eftir samþykkt um tekjuviðmið sem samþykkt var í sveitarstjórn Bláskógabyggðar þann 7. apríl 2011.

iv) Lóðarleiga:
Lóðarleiga verði 1% af fasteignamati lóða.

v) Gjaldskrá vegna meðhöndlunar úrgangs 2023:
Gjald fyrir grunneiningu íláta við íbúðarhúsnæði
Tegundir úrgangs og ílát:
Blandaður heimilisúrgangur (grátunna) 240 l ílát 31.900 kr.
Lífrænn heimilisúrgangur (brúntunna) 240 l ílát 8.200 kr.
Pappi og pappír 240 l ílát (blátunna) 4.900 kr.
Plast 240 l ílát (brúntunna) 4.900 kr.

Gjald fyrir fastan kostnað, rekstur söfnunarstöðva og meðhöndlun úrgangs
Innheimta skal gjald fyrir fastan kostnað og rekstur söfnunarstöðva (gámastöðva):
Íbúðarhúsnæði, frístundahúsnæði og atvinnuhúsnæði 26.500 kr.
Innheimta skal gjald vegna meðhöndlunar úrgangs:
Lögbýli 17.690 kr.
Atvinnuhúsnæði (fyrirtæki) 38.400 kr.

Klippikort verða afhent greiðendum sorpeyðingargjalda.
Móttökugjald á einn m3: 6.300 kr.

Gjalddagar fasteignagjalda verði 8 talsins, innheimt mánaðarlega frá 1. febrúar 2023. Eindagar eru 30 dögum eftir gjalddaga.
5. Gjaldskrár aðrar:
Aðrar gjaldskrár hækka almennt um 5% og er vísað í texta þeirra á heimasíðu.

Texti gjaldskráa eins og hann er birtur í B-deild Stjórnartíðinda gengum framar þessum texta ef misræmi reynist vera.

Fjárhagsáætlun 2023-2026 fyrir Bláskógabyggð var lögð fram til lokaumræðu og afgreiðslu. Sveitarstjóri fór yfir ýmsa liði áætlunarinnar.
Lögð var fram eftirfarandi greinargerð með fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 og þriggja ára áætlun 2024-2026.

 

Greinargerð með fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 og þriggja ára áætlun 2024-2026

 

Fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar fyrir árið 2023 er lögð fram til síðari umræðu í sveitarstjórn 9. desember 2022.

Grunnur fjárhagsáætlunar 2023-2026 byggir á áætlun 2022 með viðaukum.

Almenna reglan er að tölulegur hluti fjárhagsáætlunar ræður ef misræmi kann að vera á milli texta í greinargerð og tölulega hlutans.

I          Fjárhagsáætlun 2023

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2023, eins og hún er lögð fram til síðari umræðu í sveitarstjórn, er áætlað að rekstrarafgangur verði 98,5 millj.kr. eftir fjármagnsgjöld, afskriftir og skatta.

Útsvarstekjur hafa farið vaxand á árinu 2022, eftir tvö ár þar sem útsvarstekjur stóðu nánast í stað. Tekjur yfirstandandi árs verða því umfram áætlun.  Í fjárhagsáætluninni er fylgt áætlun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um þróun greiðslna úr Jöfnunarsjóði og horft til áætlunar Sambands íslenskra sveitarfélaga um þróun útsvarstekna.

Rekstrarútgjöld hækka milli ára, bæði vegna aukinnar verðbólgu, sem kemur fram sem hækkun á ýmsum liðum sem snúa að vöru- og þjónustukaupum, en einnig er gert ráð fyrir  kjarasamningsbundnum launahækkunum. Rekstrarafgangur fyrir fjármagnsgjöld og skatta er áætlaður 254,6 millj.kr. og veltufé frá rekstri aukist um 90 millj.kr. milli ára, verði 257,3 millj.kr. eða 11,6% af heildartekjum.

Óverulegar breytingar eru á rekstri einstaka eininga og stofnana, útgjöld aukast þó, m.a. vegna kjarasamningshækkana og verðlagshækkana, líkt og að framan er getið. Áætlað er að útgjöld til fræðslumála, sem eru sá málaflokkur sveitarfélagsins sem tekur til sín mest fjármagn verði 911 millj.kr eða 41,3% af heildartekjum og æskulýðs- og íþróttamál taki til sín 148,8 millj.kr eða 6,7% af heildartekjum. Útgjöld til félagsþjónustu aukast nokkuð og tekjur málaflokkurinn nú til sín um 112,4 mkr. eða 5,1% af skatttekjum. áætlunin gerir ráð fyrir að áfram verði veittur frístundastyrkur til barna og ungmenna, líkt og byrjað var á á þessu ári. Þá verða máltíðir á leik- og grunnskólum áfram gjaldfrjálsar. Áætlað er að styðja frekar við félagsstarf eldri borgara með ráðningu starfsmanns frá og með næsta hausti. Þá verður áfram unnið að því að þróa frístund fyrir yngstu grunnskólabörnin eftir skóla.

Bláskógabyggð er aðili að mjög mörgum byggðasamlögum og samstarfsverkefnum sveitarfélaga. Útgjöld aukast vegna kjarasamningshækkana og verðlagþsróunar. Þá munu útgjöld aukast nokkuð við skóla- og velferðarþjónustu, þar sem breytingar eru að verða á rekstrarfyrirkomulagi, kostnaður eykst við samstarfsverkefni um hreinsun og meðhöndlun seyru og við rekstur Brunavarna Árnessýslu, þar sem kostnaðarhlutdeild Bláskógabyggðar hækkar um 8,7% á milli ára.

Varðandi samstarfsverkefni er rétt að taka fram að  með breytingu sem gerð var á reglugerð nr. 1212/2015 um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga á árinu 2021, þurfa sveitarfélög nú að færa í samantekin reikningsskil sín, sem og fjárhagsáætlanir, hlutdeild sína í byggðasamlögum, sameignarfélögum, sameignarfyrirtækjum og öðrum félögum með ótakmarkaðri ábyrgð.

Í tilviki Bláskógabyggðar eru þetta

•      Brunavarnir Árnessýslu bs

•      Héraðsnefnd Árnesinga

•      Byggðasafn Árnesinga

•      Listasafn Árnesinga

•      Tónlistarskóla Árnesinga

•      Héraðsskjalasafn Árnesinga

•      Umhverfis- og tæknisvið uppsveita bs (UTU)

•      Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs

•      Heilbrigðiseftirlit Suðurlands bs

•      Bergrisann bs

Vakin er athygli á að þar sem samþykktar fjárhagsáætlanir viðkomandi rekstrareininga liggja ekki fyrir á viðeigandi formi eru áhrif tiltekinna samrekstrareininga ekki meðtalin í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Gerður verður viðauki þegar áætlanir þessara rekstrareininga liggja fyrir.

 

Flestar gjaldskrár hækka um 5%, sem er undir verðlagsþróun ársins og langt undir áætlaðri verðbólgu næsta árs. Breyting verður á framsetningu gjaldskrár vegna sorpmála vegna breyttra reglna sem tengjast innleiðingu hringrásarhagkerfis.

Framkvæmdir við fasteignir sveitarfélagsins skiptast annars vegar í viðhald og hins vegar í fjárfestingar. Nokkrum fjármunum verður varið til viðhalds, sem ekki er eignfært, og er þannig áætlað að halda áfram viðhaldsvinnu við Bláskógaskóla Laugarvatni og Reykholtsskóla, auk þess sem viðhaldsverkefni eru á dagskrá í íþróttamannvirkjum í Reykholti og á Laugarvatni og endurbætur á Aratungu, auk fleiri verkefna.

Fjárfestingar eru áætlaðar fyrir um 470 millj.kr. á næsta ári.  Stærsta einstaka verkefnið er bygging nýs húsnæðis fyrir embætti skipulags- og byggingarfulltrúa, sem leysa mun af hólmi húsnæðið að Dalbraut 12, sem hentar starfseminni illa og þarfnast verulegs viðhalds. Húsið að Dalbraut 12 verður selt til að mæta kostnaði við nýbygginguna og er gert er ráð fyrir söluhagnaði, þ.e. mismun á söluverði og bókfærðu verði, vegna fyrirhugaðrar sölu. Áætlað var að bygging hússins myndi hefjast á þessu ári og að gengið yrði frá sölu Dalbrautar 12 fyrir áramót. Tilboði í byggingu húss UTU hefur nýlega verið tekið og er því ljóst að meginþungi framkvæmdanna verður á árinu 2023 og er einnig áætlað að ganga frá sölu Dalbrautar 12 á nýju ári.

Haldið verður áfram endurbótum sem teljast til fjárfestingar á Reykholtsskóla, þar sem til stendur að setja upp lyftu, og á Hverabraut 6-8, sem sveitarfélagið leigir UMFÍ, auk þess sem skipt verði um lagnir og gervigras á sparkvellinum á Laugarvatni. Unnið verður að hönnun og undirbúningi útboðs vegna framkvæmda við sundlaugarsvæðið í Reykholti, en brýnt er að endurnýja sundlaugarkerið og lagnir. Endurnýjun eldri gatna og gerð göngustíga og gangstétta verður framhaldið.  Þá er áfram gert ráð fyrir framkvæmdum við gatnagerð bæði á Laugarvatni og í Reykholti. Einungis ein íbúðarlóð er nú laus til umsóknar í Reykholti og nokkur ásókn hefur verið í lóðir á Laugarvatni, bæði við Skólatún og Traustatún.

Sem fyrr er áhersla er á uppbyggingu grunninnviða og áætlað að verja talsverðu fjármagni til hitaveitu og vatnsveitu. Hjá Bláskógaveitu eru áætlaðar fjárfestingar fyrir 171 millj.kr. Meðal annars er áætlað að byggja dælustöð á Laugarvatni. Þá er um það bil að ljúka vinnu við undirbúning að heitavatnsöflun bæði á Laugarvatni og í Reykholti og þarf í upphafi næsta árs að taka ákvörðun um næstu skref í þeim efnum. Hjá vatnsveitu eru áætlaðar framkvæmdir fyrir 22,8 millj.kr. Tengigjöld veitna á móti framkvæmdakostnaði eru áætluð um 16 millj.kr. Áfram verður haldið við endurnýjun fráveitukerfis á Laugarvatni. Lokið verður við að setja niður og tengja hreinsistöð fráveitu í Reykholti á næsta ári.  Áætlað er að framkvæmdir vegna fráveitu nemi 64 millj.kr. og tengigjöld og styrkir úr ríkissjóði komi á móti framkvæmdakostnaði sem nemur 10 millj.kr.

Enn er því gert ráð fyrir  miklum fjárfestingum hjá Bláskógabyggð á næsta ári, þó svo að stíf forgangsröðun hafi verið viðhöfð. Gæta þarf aðhalds á því sviði eins og öðrum. Sveitarfélög hafa aðgang að lánum hjá Lánasjóði sveitarfélaga, sem eru á betri kjörum en bjóðast annarsstaðar, en fjármagn er samt sem áður dýrt og á tímum aukinnar verðbólgu eykst fjármagnskostnaður verulega. Áfram þarf að gera ráð fyrir lántökum fyrir hluta framkvæmdakostnaðar. Gert er ráð fyrir að greidd verði niður lán að fjárhæð 151,8 millj.kr. en tekin ný lán að fjárhæð 311 millj.kr. Langtímaskuldir við lánastofnanir eru áætlaðar 1.833 millj.kr. í lok árs 2023, sem er 242 millj.kr. aukninga á milli ára. Áætlað er að skuldaviðmið skv. sveitarstjórnarlögum verði áfram langt undir lögboðnu hámarki, sem er 150%, en skv. áætluninni mun það vera um 81,6% í lok ársins 2023.

Fasteignamat byggist á söluverði fasteigna skv. kaupsamningum. Litlar breytingar urðu á fasteignamati íbúðarhúsnæðis á milli áranna 2021 og 2022. Breyting hefur orðið á fasteignamarkaði í sveitarfélaginu og sjást þess merki í hærra fasteignamati fyrir næsta ár, en meðaltalshækkun fasteignamats er 16,1%. Fasteignamat sérbýlis hækkar um 23% að meðaltali og fjölbýlis um 12,4%. Fasteignamat frístundahúsa hækkar um 16,4%,  atvinnuhúsnæðis um 11,7% og jarða um 16,4%. Þetta eru meðaltalstölur, en sýna ekki breytingar á fasteignamati einstaka eigna. Álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði hefur verið óbreytt um langt árabil, 0,5%, en til að koma til móts við hækkanir fasteignamats lækkar það nú og verður 0,48%. Álagningarhlutfall fasteignaskatts atvinnuhúsnæðis er óbreytt á milli ára, 1,50% og er það nokkuð undir leyfilegu hámarki. Álagningarhlutfall vatnsgjalds verður einnig óbreytt, 0,3%, en hámarksgjald vatnsgjalds verður 62.001 kr á sumarhús og íbúðarhús og lágmarksgjald verður 18.613 kr. Álagningarhlutfall fráveitugjalds verður óbreytt á milli ára, 0,27%. Gjald fyrir hreinsun rotþróa hækkar um 5%, og verður 13.539 kr. pr. rotþró. Kostnaður við málaflokkinn hefur hækkað verulega á síðustu árum, en tekjur sveitarfélagsins af fráveitugjaldi og rotþróargjöldum nægja ekki til að standa undir þeim kostnaði sem þær eiga að gera.  Gjalddagar fasteignagjalda verða átta í stað sex.

II         Nokkrar lykiltölur

Rekstur :

Fjárhagsáætlun sem nú liggur fyrir til fyrri umræðu gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðunnar án afskrifta og fjármagnsliða sé jákvæð um 256,4 millj.kr. Afskriftir eru áætlaðar 120,4 millj.kr., fjármagnskostnaður nettó er áætlaður 156 millj.kr. Heildarniðurstaða samstæðunnar er því jákvæð um 98,5 millj.kr.

Áætlunin gerir ráð fyrir að samanlagðar tekjur A og B hluta verði 2.202,1 millj.kr. á árinu 2023. Hlutur skatttekna (útsvar, fasteignagjöld og Jöfnunarsjóður) í samanlögðum tekjum í A hluta er 1.604,6 millj.kr. eða 72,8%. Áætlað er að tekjur aukist um 10,6% milli áranna 2022 og 2023.

Heildarlaunakostnaður er áætlaður 895,4 millj.kr. sem er 40,6% af heildartekjum og 55,8% af skatttekjum. Annar rekstrarkostnaður er áætlaður um 931,6 millj.kr.

 

Fjárfestingar :

Nettófjárfestingar ársins eru áætlaðar 470,3 millj.kr. Afborganir lána eru áætlaðar 151,8 millj.kr. og nýjar lántökur eru áætlaðar 311 millj.kr. Í töflunni hér að neðan má sjá skiptingu helstu framkvæmda (nettó) á málaflokka:

Eignasjóður 267,5 millj.kr.
Fráveita 54 millj.kr.
Bláskógaveita 163 millj.kr.
Vatnsveita 14,8 millj.kr.
Fjarskiptafélag (ljósleiðari) -29 millj.kr.
Samtals fjárfesting nettó 470,3 millj.kr.

 

Á móti framkvæmdum í umferðar- og samgöngumálum koma gatnagerðargjöld og tengigjöld veitna sem dragast frá í fjárfestingaráætlun. Þá er gert ráð fyrir að lokaframlag ríkisins vegna styrkja til ljósleiðaraverkefnis í gegnum fjarskiptasjóð komi til greiðslu á árinu 2023.

III        3ja ára fjárhagsáætlun fyrir árin 2024 – 2026

Þriggja ára áætlun er ekki staðfest fjárhagsáætlun fyrir árin 2024-2026 heldur yfirlit yfir það sem er á dagskrá þessi ár.  Við fjárhagsáætlanagerð hvers árs fer fram nánari útfærsla á þriggja ára áætlun miðað við þær forsendur sem þá liggja fyrir og því geta fjárhæðir og framkvæmdahraði vegna einstakra verkefna breyst frá því sem fram kemur í þriggja ára áætlun hverju sinni.

Almenna reglan er að tölulegur hluti fjárhagsáætlunar ræður ef misræmi kann að vera á milli texta í greinargerð og tölulega hlutans.

 

Stefnumörkun

Til grundvallar þeirri þriggja ára áætlun sem hér er lögð fram liggur fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 en jafnframt er byggt á þriggja ára áætlun 2023-2025. Ekki er gert ráð fyrir breytingum í rekstri málaflokka.

Fjárfestingar eru áætlaðar fyrir 1.197 millj.kr. samtals á tímabilinu 2024-2026 og eru fjölbreytt verkefni sem falla þar undir. Áhersla er áfram lögð á að byggja upp innviði samfélagsins og að grunnkerfi þau sem sveitarfélagið rekur, s.s. gatnakerfi og veitur geti annað því álagi sem á þeim er. Þá er gert ráð fyrir að sundlaugarsvæði í Reykholti verði endurnýjað á árinu 2024 og er það stærsta einstaka verkefnið í þriggja ára áætlun.

 

Helstu forsendur áætlunar 2024 – 2026

Til að unnt sé að setja fram áætlunina hafa ákveðnar forsendur verið lagðar til grundvallar.  Þriggja ára áætlun er byggð á áætlun ársins 2023 og er gerð á föstu verðlagi.

Gert er ráð fyrir óbreyttum rekstri allra málaflokka næstu 3 árin.

Skatttekjur

Áætlun á skatttekjum er byggð á áætlun ársins 2023 og áætlaðri íbúafjölgun.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Áætlun á framlögum Jöfnunarsjóðs er byggð á áætlun ársins 2023.

Fasteignaskattur

Gert er ráð fyrir óbreyttum tekjum af fasteignaskatti frá árinu 2023 árin 2024– 2026.

Þjónustutekjur

Ekki er gert ráð fyrir hækkun á gjaldskrám vegna þjónustu sveitarfélagsins í áætluninni.

Laun

Áætlun launa og launatengdra gjalda er byggð á launaáætlun árisins 2023.

Rekstrarkostnaður

Áætlun rekstrarkostnaðar er byggð á áætlun ársins 2023.

Helstu niðurstöður áætlunar 2023 – 2026

Helstu kennitölur áætlunarinnar fyrir samstæðureikning (í þús. króna):

Samstæða (A- og B-hluti) 2023 2024 2025 2026
Rekstrarreikningur
Tekjur 2.202.105 2.251.737 2.376.005 2.511.391
Gjöld 1.827.034 1.895.431 1.954.814 2.019.847
Niðurstaða án fjármagnsliða 254.616 220.326 272.460 331.181
Fjármunatekjur og (fjármagnsgjöld) (156.058) (134.692) (126.141) (125.374)
Rekstrarniðurstaða 98.558 85.634 146.319 205.806
Efnahagsreikningur 2023 2024 2025 2026
Eignir
Fastafjármunir 3.062.857 3.441.878 3.674.147 3.814.784
Veltufjármunir 372.445 382.434 379.376 417.949
Eignir samtals 3.639.718 4.024.098 4.248.675 4.423.253
31. desember 2023 2024 2025 2026
Eigið fé og skuldir
Eigið fé 1.372.312 1.457.947 1.604.266 1.810.072
Langtímaskuldir 1.833.736 2.104.860 2.159.384 2.120.894
Skammtímaskuldir 433.671 461.291 485.025 492.288
Skuldir og skuldbindingar samtals 2.267.406 2.566.151 2.644.410 2.613.181
Eigið fé og skuldir samtals 3.639.719 4.024.098 4.248.675 4.423.254
Gert er ráð fyrir nettó fjárfestingu í þúsundum króna, sem hér segir:        

                                                                                               2023                   2024                   2025                   2026

Eignasjóður                                                                                 267.500              442.000              170.000             145.000

Fráveita                                                                                          54.000                33.000                49.000                51.000

Bláskógaveita                                                                             163.000                13.000                41.000                93.000

Vatnsveita                                                                                     14.800                26.000              120.000                11.000

Bláskógaljós                                                                                -29.000                  1.000                  1.000                  1.000

Samtals fjárfesting nettó                                                           470.300              515.000              381.000             301.000

 

Fjármagnsliðir

Fjármagnsliðir eru reiknaðir miðað við þau vaxtakjör sem sveitarfélagið býr við.

Fjárfestingar

Gert er ráð fyrir fjárfestingum fyrir 515 millj.kr. árið 2024, 381 millj.kr. árið 2025 og 301 millj.kr. árið 2026.

 

Lántökur

Ný langtímalán á árunum 2024-2026 eru áætluð 717 millj.kr. og niðurgreiðslur eldri lána eru áætlaðar á sama tímabili 572 millj.kr.

 

IV       Lokaorð

Í fjárfestingarhluta þriggja ára ætlunar er leitast við að forgangsraða verkefnum, áfangsaskipta og dreifa þeim með það að markmiði að halda skuldsetningu sveitarfélagsins sem minnstri og þar með að lágmarka fjármagnskostnað. Sá hluti áætlunarinnar sem snýr að rekstri byggir á því að ekki verði miklar breytingar á rekstri málaflokka milli ára. Nánari útfærsla áætlunar fyrir hvert ár fyrir sig er unnin í fjárhagsáætlun hverju sinni. Forsendur á borð við verðlagsþróun, íbúafjölgun, þróun tekna og útgjalda geta því haft áhrif á áætlun hvers árs fyrir sig.

Útlit er fyrir að útsvarstekjur sveitarfélagsins haldi áfram að vaxa samhliða talsverðri fjölgun íbúa og snarpri endurreisn ferðaþjónstu eftir Covid-19. Reynslan sýnir að tekjustofnar Bláskógabyggðar eru viðkvæmir fyrir sveiflum í ferðaþjónustu og ýmis atriði, önnur en Covid, geta haft áhrif á þróun mála. Íbúum í Bláskógabyggð hefur fjölgað um 114 manns á yfirstandandi ári, eða um nærri 10%. Er það umtalsvert meiri fjölgun, hlutfallslega, en í öðrum sveitarfélögum í Árnessýslu. Enn er talsvert af íbúðarhúsnæði í byggingu og eftirspurn er eftir lóðum.  Raunhæft er því að ætla að íbúum muni halda áfram að fjölga. Áhugi á lóðum og uppbyggingu í sveitarfélaginu ber vitni um bjartsýni og trú manna á að svæðið í heild haldi áfram að verða gott til búsetu og atvinnu.  Sveitarfélagið leitast við að halda áfram háu þjónustustigi og byggja upp nauðsynlega innviði og viðhalda eignum. Þá leitast sveitarfélagið við að haga skipulagsmálum þannig að unnt sé að bregðast við hugmyndum um uppbyggingu atvinnutækifæra með skjótum hætti.

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 hefur verið unnin í góðri samvinnu sveitarstjórnarfulltrúa og stjórnenda. Ber að þakka það góða starf sem hér hefur verið unnið.


Oddviti bar fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar 2023-2026 upp til samþykktar, ásamt eftirfarandi bókun:
Með breytingu sem gerð var á reglugerð nr. 1212/2015 um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga á árinu 2021, þurfa sveitarfélög nú að færa í samantekin reikningsskil sín, sem og fjárhagsáætlanir, hlutdeild sína í byggðasamlögum, sameignarfélögum, sameignarfyrirtækjum og öðrum félögum með ótakmarkaðri ábyrgð.
Í tilviki Bláskógabyggðar á þetta við um eftirtalin samrekstrarverkefni:
Brunavarnir Árnessýslu bs
Héraðsnefnd Árnesinga
Byggðasafn Árnesinga
Listasafn Árnesinga
Tónlistarskóla Árnesinga
Héraðsskjalasafn Árnesinga
Umhverfis- og tæknisvið uppsveita bs (UTU)
Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs
Heilbrigðiseftirlit Suðurlands bs
Bergrisann bs
Áætlanir framangreindra rekstrareininga fyrir árin 2023 til 2026 um rekstur, efnahag og sjóðsstreymi liggja ekki fyrir og því hafa áhrif þeirra ekki verið verið færð í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Þegar samþykktar fjárhagsáætlanir framangreindra rekstrareininga liggja fyrir á viðeigandi formi er fyrirhugað að gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árin 2023 til 2026.
Tillagan var samþykkt samhljóða og sveitarstjóra falið að annast skil á áætluninni til viðkomandi aðila.

 
33.   Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4 1995 (gjaldstofn fasteignaskatts), 63. mál. – 2212007
Erindi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, dags. 28.11.2022, þar sem sent er til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995 (gjaldstofn fasteignaskatts), 63. mál.

Umsagnarfrestur er til 12. desember nk.

Lagt fram til kynningar.
 
34.   Ársskýrsla Héraðsskjalasafns Árnesinga 2021 – 2212010
Ársskýrsla Héraðsskjalasafns Árnesinga 2021, ásamt minnisblaði um rafræna langtímavarðveislu skjala og samstarfsyfirlýsingu vegna móttökuvers héraðsskjalasafna og sveitarfélaga á rafrænum gagnasöfnum sveitarfélaga
Gögnin voru lögð fram til kynningar.
 

 

 

Fundi slitið kl. 17:05.

 

 

 

 

 

Helgi Kjartansson Stefanía Hákonardóttir
Sveinn Ingi Sveinbjörnsson Guðrún S. Magnúsdóttir
Guðni Sighvatsson Anna Greta Ólafsdóttir
Jón Forni Snæbjörnsson Ásta Stefánsdóttir