36. fundur

  1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar þriðjudaginn 16. nóvember 2004, kl. 15:30,

í Fjallasal, Aratungu.

 

Mætt voru:

Sveinn A. Sæland, Sigurlaug Angantýsdóttir, Margeir Ingólfsson, Gunnar Þórisson, Drífa Kristjánsdóttir, Margrét Baldursdóttir, Kjartan Lárusson auk Ragnars S. Ragnarssonar sveitarstjóra sem ritaði fundargerð.

 

  1. Fundargerð byggðaráðs frá 26. október 2004.   Kynnt og staðfest.
  2. Fundargerð 8. fundar skipulagsnefndar uppsveita frá 26. október 2004.  Kynnt og staðfest.
  3. Skipulagsmál. Arinbjörn Vilhjálmsson skipulagsfulltrúi kynnti.

 

  1. a) Aðalskipulagsbreyting Laugarvatni, breyting í þéttbýli á Laugarvatni. Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar þann 7. september síðastliðinn var samþykkt tillaga um að auglýsa breytingu á aðalskipulagi Laugardalshrepps 2000-2012,  á tveimur reitum í þéttbýlinu á Laugarvatni.  Tillagan var sett fram á einum uppdrætti en tekin fyrir í tveimur liðum þar sem að um tvo aðskilda reiti er að ræða.

 

a-1  Við Grunnskóla Bláskógabyggðar.  Opið svæði til sérstakra nota breytist í svæði fyrir þjónustustofnanir og tengist það fyrirhugaðri viðbyggingu við skólann.  Tillagan var auglýst frá og með 29. 9. – 27. 10. 2004, athugasemdafrestur var til 10. 11. 2004.  Engin athugasemd hefur borist við þennan lið tillögunnar að breytingu á aðalskipulagi. Tillaga að breytingu á landnotkun við grunnskólann samþykkt skv. 17. og 18. gr. skipulags – og byggingarlaga.  Skipulagsfulltrúa falið að senda samþykktina til Skipulagsstofnunar og ráðherra til staðfestingar.

 

a-2  Við syðri reit sem afmarkast af innri mörkum íbúðarhúsalóða við Reykjabraut, Bjarkarbraut og Lindarbraut og felst breytingin í því að opið svæði sem ætlað var fyrir opinberar stofnanir (leikskóla) breytist í íbúðarsvæði.  Tillagan var auglýst frá og með 29. 9. – 27. 10. 2004, athugasemdafrestur var til 10. 11. 2004.  Alls bárust 117 athugasemdir.  Sjá meðfylgjandi gögn og nafnalista.  Skipulagsfulltrúi lagði fram lista sem lýsir athugasemdum í 51 lið.  Málið rætt og frestað til næsta fundar sveitarstjórnar.  Oddviti lagði til að boðað yrði til fundar með fulltrúum þeirra sem gera athugasemdir fyrir næsta fund sveitarstjórnar.   Samþykkt.

 

  1. b)    Tillaga að deiliskipulagi eldri byggðar á Laugarvatni og þéttingu hennar.

Svæðið afmarkast af Reykjabraut, Bjarkarbraut og Lindarbraut.  Tillagan var auglýst frá og með 29. 9. – 27. 10. 2004, athugasemdafrestur var til 10. 11. 2004. Tillagan var auglýst samhliða auglýsingu tillögu að breytingu aðalskipulags.

Alls bárust 117 athugasemdir.  Sjá meðfylgjandi gögn og nafnalista.  Skipulagsfulltrúi lagði fram lista sem lýsir athugasemdum í 51 lið.  Oddviti lagði til að boðað yrði til fundar með fulltrúum þeirra sem gera athugasemdir fyrir næsta fund sveitarstjórnar.  Samþykkt.

 

  1. c)    Galtalækur í Biskupstungum, tillaga að breytingu á aðalskipulagi Biskupstungna 2000-2012 og tillaga að deiliskipulagi tveggja frístundalóða.

Lögð fram tillaga frá Landform ehf. að breytingu á aðalskipulagi Biskupstungna í landi Galtalækjar. Tillagan gerir ráð fyrir að 2 ha svæði austan við núverandi þjóðveg nr. 359 breytist úr landbúnaðarsvæði í frístundasvæði.  Einnig tillaga að deiliskipulagi sem gerir ráð fyrir 2 sumarhúsalóðum.  Samþykkt að auglýsa breytingartillöguna skv.18.grein skipulags-og byggingarlaga og deiliskipulagstillöguna samkv. 25. gr. sömu laga.  Samþykkt.

  1. d)     Skálabrekka í Þingvallasveit, tillaga að deiliskipulagi 8 frístundalóða.

Tillagan var í auglýsingu frá og með 29. 9. – 27. 10. 2004 og athugasemdafrestur var til 10. 11. 2004.  Þrjár athugasemdir bárust frá alls 20 aðilum sem flestir eru eigendur frístundahúsa í landi Skálabrekku. Athugasemdirnar lagðar fram til kynningar.

  1. e)    Skálabrekka í Þingvallasveit. Lóð við gamla bæjarstæðið.

Ósk frá Einari Erni Jónssyni um að lóð hans verði skilgreind í aðalskipulagi sem landbúnaðarland en ekki frístundasvæði eins og tillagan að aðalskipulagi sem samþykkt hefur til auglýsingar gerir ráð fyrir. Samþykkt  að verða við ósk Einars Arnar og skipulagsfulltrúa falið að koma samþykktinni á framfæri við skipulagsráðgjafa og að hún verði hluti af auglýstri tillögu eða að samþykktin liggi frammi með aðalskipulagstillögu við auglýsingu.

  1. f)      Tvö lóðarblöð, í Úthlíð.

Vörðuhálsvegur 4 og 5.  Samþykkt í samræmi við 30. gr. byggingar – og skipulagslaga.

  1. g)    Deiliskipulag íbúðarbyggðar syðst í byggðinni í Reykholti.

Lögð fram tillaga Péturs H.Jónssonar arkitekts sem unnin var að beiðni sveitarstjórnar að deiliskipulagi íbúðarbyggðar á flatlendi vestan Kistuholts í Reykholti. Svæðið er 7 ha og er landið í eigu Bláskógabyggðar og er skilgreint sem íbúðarsvæði í aðalskipulagi. Tillagan gerir ráð fyrir 72 lóðum undir íbúðarhús sem eru 34 einbýlishúsalóðir, 20 parhúsalóðir og 18 raðhúsalóðir. Vegtenging verður frá Miðholti og frá Skólabraut.

Samþykkt að auglýsa tillöguna skv. 25.grein skipulags-og byggingarlaga. Götunöfn verða ákveðin síðar.

  1. h)    Deiliskipulag athafnasvæðisins Vegholts í Reykholti norðan Biskupstungnabrautar.

Lögð fram tillaga Péturs H.Jónssonar að deiliskipulagi athafnasvæðisins Vegholts norðan Biskupstungnabrautar sem unnin var að beiðni sveitarstjórnar. Tillagan gerir ráð fyrir sex athafnalóðum 5.800-6.200 m2 að stærð og nær til 4 ha lands sem er í eigu Bláskógabyggðar. Landið er skilgreint sem athafnasvæði í aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012.

Samþykkt að auglýsa tillöguna skv. 25.grein skipulags-og byggingarlaga.

 

  1. Gjábakkavegur (365)  Úrskurður Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum.  Niðurstaða Skipulagsstofnunar er að hún fellst á lagningu vegarins.  Sveitarstjórn fagnar ákvörðun Skipulagsstofnunar og vonar að þessi ákvörðun muni verða til þess lagning vegarins hefjist örugglega á árinu 2005.
  2. Seyrulosun.  Samþykktir, fyrri umræða.  Lagðar fram samþykktir um hreinsun fráveituvatns og reglubundinnar losunar, vinnslu eða förgun seyru í samræmi við reglugerðir um fráveitur og seyru; nr. 798/1999 og reglugerð um fráveitur og skólp, nr. 799/1999,  um meðhöndlun seyru.   Vísað til næsta fundar til síðari umræðu.
  3. Ákvörðun um álagningu gjalda 2005.

Eftirfarandi tillögur voru samþykktar.

  1. Útsvarsstofn 13,03 %.
  2. Álagningarprósenta fasteignagjalda, A-flokkur 0,6% og B-flokkur 1,2%. Ákveðið að fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði sem aldraðir eiga og búa einir í, falli niður samkvæmt heimild í lögum. Þetta á ekki við um þjónustugjöld þ.e. vatnsskatt, seyrulosunargjald, sorpeyðingargjald né annað húsnæði í eigu viðkomandi.  Fasteignagjöld verði innheimt með 5 gjalddögum mánaðarlega frá 15. febrúar 2005.
  3. Vatnsskattur 0,3% af álagningarstofni fasteigna. Hámarksálagning verði kr. 17.000.- á sumarhús og íbúðarhús. Fyrirtæki sem safna vatni í eigin miðlun fá 30% lækkun á vatnsskatti.
  4. Sorpeyðingargjöld verði kr. 8.419.- á íbúðarhús, kr. 6.203.- á sumarhús og kr. 18.610.- á lögbýli og smárekstur. Aukagjald fyrir að sækja rusl heim að húsum á Laugarvatni verði kr. 8.756.- innheimtist með fasteignagjöldum.
  5. Holræsagjald vegna kostnaðar við fráveitukerfi/seyrulosun í Bláskógabyggð verði vísað til fullnaðarafgreiðslu í byggðaráði.
  6. Leitast verði við að samræma innheimtu lóðarleigu með því að senda sérstakt bréf til allra lóðarhafa. Sveitarstjórn samþykkir að miða lóðarleigu við 0,7% af lóðarmati í öllu sveitarfélaginu. Lagt fram lögfræðiálit lögmanns Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 5. apríl 2004.
  1. Fjárhagsáætlun ársins 2005.  Aðalsjóður og samstæðureikningur sveitarfélagsins, fyrri umræða. Kynnt og vísað til síðari umræðu í desember 2004.  Í millitíðinni verður áætlunin til skoðunar í byggðaráði,  nefndum og stjórnendum deilda sveitarfélagsins.
  2. Niðurstöður Héraðsdóms Reykjavíkur vegna lögheimilis í sumarhúsi.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar lýsir furðu sinni á niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá 11. nóvember 2004, þar sem heimilt er að skrá lögheimili í skipulagðri frístundabyggð.  Skorað er á félagsmálaráðherra að beita sér fyrir því að lög nr. 21/1990 um lögheimili verði endurskoðuð með það í huga að á skipulögðum frístundasvæðum verði ekki heimil lögheimilisskráning.  Sveitarstjórn samþykkir að áfrýja málinu til Hæstaréttar og fer fram á stuðning Sambands íslenskra sveitarfélaga enda verði niðurstaða dómsins fordæmisgefandi  fyrir öll sveitarfélög í landinu.

  1. Ársreikningar vegna fjallskila í Laugardal og Þingvallasveit, 2002 og 2003, þar sem þeir hafa ekki verið lagðir fyrir.   Fyrirspurn frá Kjartani.  Svar sveitarstjóra:  Unnið hefur verið að fjallskilum með fjallskilaseðli og þeir lagðir fyrir árlega en samandregin ársreikningur er ekki tilbúinn. Sveitarstjóra falið að vinna að málinu.
  2. Ósk frá Kjartani Lárussyni um breytingar á fundartíma sveitarstjórnar, eftir áramót og fram að maí.   Óskað er eftir að fundir hefjist ekki fyrr en kl. 15:30.  Er ekki er hægt að verða við því þá óskar hann eftir að annar dagur verði valinn fyrir fundi sveitarstjórnar.  Fundardagur og tími var ákveðin í upphafi kjörtímabils og er bundinn í samþykktum sveitarfélagsins.  Ekki hægt að verða við viðkomandi breytingu.  Bókun Kjartans. Þar sem ekki er hægt að verða við þessari ósk reikna ég ekki með að komast á fundi sveitarstjórnar vegna skólagöngu minnar fyrr en í júní.
  3. Umræða um lokun KB – banka.   Sveitarstjórn samþykkir að beita sér fyrir því að áframhaldandi bankaþjónusta verði á Laugarvatni
  4. Heimasíða Bláskógabyggðar.  Bókun Drífu:  Árétta að heimasíðan hefur ekkert lifnað við undanfarna mánuði.  Svar Ragnars:  Heimasíðan hefur verið lagfærð síðustu daga.
  5. Umræða um merkingu við innkomu á Mosfellsheiðinni í Þingvallasveit.  Tillaga Drífu:    T-listinn leggur til að merki því  sem segir „velkominn í Þingvallahrepp“ verði breytt þannig að þar standi „velkominn í Þingvallasveit“  Einnig verði þau merki sem nú þegar standa við innkomu í fyrrverandi sveitarfélaga í Bláskógabyggð lagfærð með sama hætti.   Þ-listi leggur til að málinu verði frestað þar til fyrir liggur niðurstaða í umræðum um sameiningar í uppsveitum Árnessýslu.  Tillaga um frestun samþykkt með fjórum atkvæðum gegn tveim.
  6. Fjarfundarbúnaður að gjöf.  Oddviti kynnti gjöf sem Bláskógabyggð hefur borist frá hjónum sem ekki vilja láta nafn síns getið.  Um er að ræða fullkomin fjarfundabúnað að verðmæti kr. 720.000.   Að ósk gefanda hefur búnaðinum verið komið fyrir í Fjallasal, Aratungu.  Sveitarstjórn þakkar höfðinglega gjöf.

 

 

Fundi slitið kl. 21:30