41. fundur

 1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar þriðjudaginn 19. apríl 2005, kl. 13:30,

í Fjallasal, Aratungu.

 

 

 

 

Mætt voru:

Sveinn A. Sæland, Sigurlaug Angantýsdóttir, Snæbjörn Sigurðsson, Margrét Baldursdóttir, Drífa Kristjánsdóttir, Margeir Ingólfsson,  Kjartan Lárusson  og Ragnar Sær Ragnarsson sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

 

 

 

 1. Athugasemd við dagskrá.    T-listinn gerir eftirfarandi athugasemd við dagskrá fundarins.   Kjartan Lárusson fulltrúi T-listans sendi oddvita Bláskógabyggðar laugardaginn 16. apríl kl.15:42 beiðni um að malarnám í landi Grafar yrði tekið á dagskrá í tölvupósti.                                                                                       Svar oddvita:  Þessi dagskrártillaga og tímasetning er ekki í samræmi við samþykktir sveitarstjórnar Bláskógabyggðar og var því hafnað.   

Bókun T-lista.

T-listinn lýsir yfir furðu sinni á vinnubrögðum oddvitans og fordæmir höfnun hans á að fá umfjöllun um málið á fundinum.  T-listinn hefur aldrei neitað Sveini A. Sæland að leggja fram mál á fundinum, þótt þau hafi ekki verið á dagskrá fundarins.

 

 1. Fundargerð byggðaráðs frá 12. apríl 2005.  Viðbótar gögn við 3. tölulið.  Lögð fram samþykkt Búnaðarþings frá 21. mars 2005 vegna stuðnings við hugsanlega áfríun Hæstaréttardóms um þjóðlendumál til Mannréttindadómsstóls Evrópu.   Að öðru leiti kynnt og staðfest.
 2. Greinargerð vinnuhóps um skipulag þéttbýlis á Laugarvatni.  Gestir fundarins vegna þessa máls voru Sigmar Ólafsson og Halldór Páll Halldórsson.      Sigmar Ólafsson formaður vinnuhópsins kynnti tillögur hópsins ásamt Halldóri Páli og Drífu sem einnig voru í vinnuhópnum.   Nefndarmenn sögðu frá því hugarflugi sem hópurinn leyfði sér að fara í.  Farið yfir byggingarvalkosti á Laugarvatni og þörf á rannsóknum vegna þessa.  Sagt frá að hópurinn hefði haldið fund með fulltrúum Vegagerðarinnar m.a. vegna aðkomu Gjábakkavegar.    Lögð fram greinargerð sem hópurinn hefur tekið saman auk fundargerða hópsins.  

Sveitarstjórn samþykkir að fylgja eftir tillögum vinnuhóps um skipulagsmál á Laugarvatni með því að kjósa þriggja manna vinnuhóp.   Aðalhlutverk vinnuhópsins verði:  a).  Að ná samningi við ríkið um að það gefi sveitarfélaginu heimild til að vinna skipulagstillögurnar.  b) fylgja eftir breytingum á aðalskipulagi Laugarvatns.  c)  tillögur að nýju deiliskipulagi Laugarvatns. Eftirtaldir aðilar voru kosnir í vinnuhópinn: aðalmenn Sveinn A Sæland, Snæbjörn Sigurðsson og Drífa Kristjánsdóttir. Til vara Margeir Ingólfsson, Sigurlaug Angantýsdóttir og Kjartan Lárusson.   

 

 

 1. Skólamál.  Bréf sveitarstjóra, svar skólastjórnenda og fundargerð fundar  fræðslunefndar með foreldrum Grunnskóla Bláskógabyggðar, Laugarvatni vegna umræðna um kennslu á unglingastigi í Bláskógabyggð.  Fundargerð fræðslunefndar ásamt ályktunum nefndarmanna.                                                                     Sveitarstjóri kynnti sitt bréf til skólastjórnenda. Arndís rakti tímann frá því að hún tók við Reykholtsskóla 1998 og hvernig hann hefur styrkst á s.l. árum.  Frásögn Arndísar var sundurliðuð og ítarleg og fjallaði um námshópa á unglingastigi og nauðsyn þess að ákvarða stærð námshópa og skipulag kennslu.  Sigmar fór einnig yfir málin og sagði frá sameiginlegri skoðun skólastjórnenda.   Málin voru rædd ítarlega og fóru sveitarstjórnarmenn yfir skoðanir sínar.  Skólastjórnendur þökkuðu fyrir traustyfirlýsingu á stjórnun skólans sem kom fram hjá öllum sveitarstjórnarmönnum.

 

Eftirfarandi tillaga var lögð fram.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar tekur undir álit skólastjórnenda og formanns fræðslunefndar við Grunnskóla Bláskógabyggðar um að faglega og félagslega sé heppilegt að auka samstarf og samvistir elstu nemenda við Grunnskóla Bláskógabyggðar.   Þar sem ljóst er að ekki næst góð sátt um þessi mál samþykkir sveitarstjórn að fara þess á leit við skólastjórnendur að ekki verði gerðar verulegar breytingar á þessum þætti skólastarfsins heldur verði áfram unnið að þróun kennslu barna á unglingastigi.      Samþykkt samhljóða.

 

 

Bókun Sigurlaugar Angantýsdóttur formanns fræðslunefndar.

 

Ég lít svo á að hlutverk mitt sem fræðslunefndarfulltrúi í Bláskógabyggð sé að starfa á faglegan hátt að fræðslumálum. Ég á  m.a. að kosta kapps um að skólahald í Bláskógabyggð sé til fyrirmyndar, að gera tillögur til sveitarstjórnar um umbætur ef  þurfa þykir og síðast en ekki síst að gæta þess að í ákvarðanatöku nefndarinnar séu almannahagsmunir settir ofar sérhagsmunum.

Ég vil hag nemenda og skóla sem mestan og því hef ég ályktað um skipulag kennslu á unglingastigi á þann hátt sem kemur fram í fundargerð fræðslunefndar frá 14. apríl 2005.

Sem sveitarstjórnarmanneskja verð ég þó einnig að taka tillit til annarra þátta en þeirra faglegu,  þ.e. hvernig snýr málið að samfélaginu sem við búum í.    Það er greinilegt að ekki er sátt um þær breytingar sem hugmynd skólastjórnenda felur í sér og vill samfélagið hafa sama hátt á skipulagi kennslu og verið hefur undanfarið.  Ég er ósátt við að hafa skipulagið óbreytt, tel það ekki hafa skilað þeim árangri sem skyldi.

Þar sem ekki hefur tekist að ná sátt um breytingu mun ég greiða óbreyttu skipulagi atkvæði mitt í þeirri trú og von að skólastjórnendur vinni áfram að þróun kennslu á unglingastigi í Grunnskóla Bláskógabyggðar.

 

 

Bókun Drífu og Kjartans vegna skólamála á Laugarvatni

 

Á fundi með foreldrum þann 6. apríl s.l. kom fram eindreginn vilji foreldra og nemenda um að skólastarfinu verði ekki breytt.

Fagleg rök foreldra voru eftirfarandi:

 1. a) Að félagslega hefðu börnin mjög gott af íþróttastarfi sem fer fram á Laugarvatni. Það sé mjög snar þáttur í lífi barnanna og slæmt ef breyting verður á skólastarfinu.  Íþróttirnar stunda þau í beinu framhaldi af skólastarfi og hentar börnunum mjög vel.
 2. b) Að mikilvægt sé að öll skólastig séu á Laugarvatni. Það skiptir foreldra miklu að halda því.
 3. c) Að auðvelt verði að ráða kennara og starfsfólk við Íþróttafræðasetur Kennaraháskóla Íslands og Menntaskólann á Laugarvatni ef boðið er uppá heildstæðan skóla. Þannig styrki góður grunnskóli ML og KHÍ.
 4. d) Að eingöngu séu ókostir við það að heimangöngunemendum verði ekið í skóla a.m.k. 54 km leið daglega.
 5. e) Að auðvelt verði að veita fagkennslu á Laugarvatni, enda kennarar við Menntaskólann og Kennaraháskólann með mikla sérþekkingu.  Það geti nýst grunnskólanum vel þegar krafan eykst um aukna sérþekkingu kennara.

Jafnframt er vakin athygli á, að börn úr Þingvallasveit bíða eftir að komast í skólann.  Ekki verður unað við, að akstur með þau aukist um 54 kílómetra, daglega, vegna kennslu í Reykholti.

Vöxtur Laugarvatns og fjölgun íbúa er forsenda þess að auka vægi staðarins sem menntaseturs og heilsustaðar um leið og það eykur tekjur sveitarfélagsins.  Kennarar og starfsfólk stofnananna eru einnig foreldrar nemenda grunnskólans.  Sveitarstjórn verður að gera allt til að styðja við þetta fólk, þann áhuga og kraft sem það sýnir við að efla stofnanirnar á Laugarvatni, ML og KHÍ.  Breyting á starfi grunnskólans er foreldrum svo á móti skapi að líklegt er að sumir þeirra geri breytingu á eigin högum og flytji úr sveitarfélaginu ef sveitarstjórn tekur ákvarðanir gegn vilja foreldra.

Sveitarstjórn þarf alltaf að taka mið af heildarhagsmunum.  Því er meira virði að styðja við eflingu og vöxt samfélagsins á Laugarvatni en að setja stein í götu þess.

 

 

 1. Sameining sveitarfélaga í uppsveitum Árnessýslu.  Kjör tveggja fulltrúa í sameiningarnefnd.  Lögð fram tillaga Þ-listans um að Sveinn A. Sæland og Margeir Ingólfsson verði kjörnir sem fulltrúar Bláskógabyggðar í sameiginlegri nefnd sem undirbýr kosningar sem ákveðnar hafa verið þann 8. október n.k.  Breytingatillaga  T- lista um að T-listi fái fulltrúa í nefndinni. Tillagan var borin upp og  felld með 5 atkvæðum gegn 2. Síðan var tillaga Þ-listans borin upp og var hún samþykkt með 5 atkvæðum gegn 2.   

 

Bókun T-lista.                                                                                 

T- listinn gleðst yfir framgöngu félagsmálaráðuneytisins við að koma á sameiningarkosningum. Nágrannasveitarfélögin í uppsveitum Árnessýslu eru öll áþekk hvort öðru og samvinna á milli þeirra er mikil.  Ekkert er því til fyrirstöðu að sameina sveitarfélögin.  Það sem vinnst með sameiningu eru gegnsæjar reglur, meiri fagmennska í stjórnun, heildarsýn og hagsmunir allra, meiri og faglegri þjónusta.  Sveitarfélagið verður sterkari eining og getur betur stutt og styrkt þá aðila sem vilja vöxt sveitarfélagsins sem mestan.  Mennta- og heilsusamfélagið á Laugarvatni myndi t.d. örugglega styrkjast við sameiningu.  Í því liggur mikill fjarsjóður fyrir allar uppsveitirnar.  Nýjar háskólastofnanir hafa verið einn öflugasti vaxtarbroddur sveitarfélaganna.  Ætla má að ferðaþjónusta yrði einnig enn öflugri og samþættari auk annarrar þjónustu t.d. við aldraða.  Öfluga þjónustu við aldraða vantar sárlega í uppsveitirnar.  Öflugra sameinað sveitarfélag er forsenda fyrir að koma slíkri þjónustu á laggirnar.  Engin sjáanleg rök mæla gegn sameiningunni og því er ekki eftir neinu að bíða að mati Drífu og Kjartans.

 

 1.  Dómur Hæstaréttar frá 14. apríl 2005 varðandi lögheimili í frístundahúsi.  Samkvæmt niðurstöðu dómsins er heimilt að skrá lögheimili í frístundahúsi en það er í andstöðu við þær reglur sem ríki og sveitarfélög hafa starfað eftir.  Sveitarstjórn Bláskógabyggðar lýsir verulegum áhyggjum vegna niðurstöðu dómsins og undrast að ekki skuli tekið tillit til annarra laga s.s. bygginga- og skipulagslaga í niðurstöðu hans.  Fyrirséð er að verulega erfitt verður að bjóða upp á lögbundna þjónustu við íbúa á mörgum frístundasvæðum og þá sérstaklega að vetrarlagi. Frístundahúsin eru dreifð um allt sveitarfélagið og aðgengi að þeim er í mörgum tilfellum erfitt.  Einnig ber að virða rétt þeirra fjölmörgu sem hafa reist sér frístundahús á skipulögðum frístundsvæðum og hafa réttmætar væntingar til þess að þar yrði til framtíðar sumarhúsabyggð með takmarkaðri búsetu en ekki heilsársbúseta margra manna.  Sveitarstjórn Bláskógabyggðar vill ítreka áskorum sína frá 16. nóvember 2004, en þar skoraði hún á félagsmálaráðherra „að beita sér fyrir því að lög nr. 21/1990 um lögheimili verði endurskoðuð með það í huga að á skipulögðum frístundasvæðum verði ekki heimil lögheimilisskráning.“  Þessa breytingu verður að gera nú þegar, þ.e. nú á vorþinginu 2005.

 

 1. Skólamál.  Beiðni frá sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps frá 8. apríl 2005 um samstarf í skólamálum.  Sveitarstjórn Bláskógabyggðar fagnar auknu samstarfi og samvinnu í skólamálum en ljóst er að það mun auka námsleg gæði og koma öllum nemendum til góða.  Samstarfið mun auka möguleika á ráðningu starfsmanna sem hafa meiri sérþekkingu og draga úr áhrifum þess að kennarar og annað starfsfólk skólanna einangrist.

Sveitarstjórn samþykkir að ganga til samninga við Grímsnes- og Grafningshrepp á grundvelli erindisins.   Samþykkt með 5 atkvæðum en Drífa og Kjartan sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.  Kjartan gerði grein fyrir atkvæði sínu  á eftirfarandi hátt: „Ég sit hjá þar sem ég tel að búið sé að ganga frá þessu máli.

 

 

 

 

 1. Breyting á samþykktum Bláskógabyggðar, fyrri umræða.

Tillaga að breytingu á samþykktum sveitarfélagsins um skipan fræðslunefndar      í kjölfar samvinnu við Grímsnes – og Grafningshrepps, fyrri umræða.

 

Var:

Fræðslunefnd:               Þrír aðalmenn og þrír til vara. Fræðslunefnd fer með málefni grunnskóla skv. 13. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla og leikskóla skv. 9. gr. laga um leikskóla nr. 78/1994.

Verður:

Fræðslunefnd:               Þrír aðalmenn og þrír til vara.  Tveir kjörnir af Bláskógabyggð og einn af Grímsnes – og Grafningshreppi.   Fræðslunefnd fer með málefni grunnskóla skv. 13. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla og leikskóla skv. 9. gr. laga um leikskóla nr. 78/1994.

 

T-listinn lagði fram eftirfarandi breytingartillögu:  Samþykkt verði að fimm fulltrúar verði kosnir í sameiginlegra fræðslunefnd sveitarfélaganna Bláskógabyggðar og Grímsnes- og Grafningshrepps.

Samþykkt að vísa tillögunum til síðari umræðu á næsta fundi sveitarstjórnar.

 

 1. Athugasemdir við aðalskiplag Þingvallasveitar. 

      Komið hafa athugasemdir frá 16 aðilum

Samþykkt að fela skipulagsfræðingum sveitarfélagsins að vinna drög að svörum, sem síðan verða tekin fyrir í sveitarstjórn.

 

 1. Úthlutun lóða í Bláskógabyggð.

      Oddviti lagði fram minnisblað um lóðaúthlutanir á yfirstandandi kjörtímabili.

Fram kom að úthlutað hefur verið 16  einbýlishúsalóðum, 11 parhúsalóðum, 3  raðhúsalóðum, 1 iðnaðarlóð, 4 garðyrkjulóðum og 2 hesthúsalóðum.

Fyrir liggja umsóknir um 15 einbýlishúsalóðir og 2 iðnaðarlóðir á svæðum     sem ekki til fullbúið skipulag af. Einnig hafa borist nokkrar fyrirspurnir um einbýlishúsa- og atvinnulóðir ásamt svæði undir þjónustubyggð.

 

 

Fundi slitið kl. 20:15