45. fundur

 1. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar haldinn

þriðjudaginn 12. júlí  2005, kl 13:30

í Fjallasal Aratungu.

 

Mætt voru:

Sveinn A. Sæland, Sigurlaug Angantýsdóttir, Margeir Ingólfsson sem ritaði fundargerð, Margrét Baldursdóttir, Drífa Kristjánsdóttir,  Kjartan Lárusson og Snæbjörn Sigurðsson.

 

 1. Fundargerð byggðaráðs frá 28. júní.
  Kynnt og samþykkt.
 2. Ráðning sveitarstjóra.
  Lagður fram ráðningarsamningur við Valtý Valtýsson Meiri-Tungu I, Rangárþingi ytra. Samkvæmt samningnum mun Valtýr hefja störf 1. ágúst 2005 og starfa til loka kjörtímabils. Ráðningarsamningurinn var samþykktur með 5 atkvæðum og 2 sátu hjá.
  Fráfarandi sveitarstjóra, Ragnari Sæ Ragnarssyni, sem lætur af störfum þann 31. júlí, eru þökkuð góð og farsæl störf í þágu sveitarfélagsins.
 3. Breyting á prókúru.                                                                             
  Samþykkt að frá og með 1. ágúst 2005 fari nýráðinn sveitarstjóri, Valtýr Valtýsson, með prókúruumboð fyrir sveitarfélagið og frá sama tíma falli niður prókúruumboð Ragnars Sæ Ragnarssonar.
 4. Skýrsla um framþróun byggðar á Laugarvatni.
  Lögð fram til kynningar.
 5. Orkumál. Þ-listinn lagði fram eftirfarandi tillögu: „Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að sveitarstjóri og framkvæmdarstjóri veitna sveitarfélagsins verði fulltrúar sveitarfélagsins í viðræðum við Orkuveitu Reykjavíkur (OR) á grundvelli viljayfirlýsingar um samstarf í orkumálum frá 23. júlí 2003. Kanna á hvort grundvöllur sé fyrir sameiningu veitufyrirtækja Bláskógabyggðar og OR með það að markmiði að skapa frekari möguleika til eflingar byggðar og uppbyggingu atvinnulífs í Bláskógabyggð“. T-listinn lagði fram breytingartillögu þess efnis að „staðið verði við fyrri samþykktir sveitarstjórnar frá 2003 um viðræðuhóp um samstarf á sviði orkumála við Orkuveitu Reykjavíkur“. Breytingartillagan var felld með 5 atkvæðum gegn 2 tillaga Þ-listans var síðan tekin fyrir og  samþykkt  með 5 atkvæðum gegn 2.
 6. Lyngdalsheiðarvegur (Gjábakkavegur).                                                Úrskurður umhverfisráðherra lagður fram og kynntur

Eftirfarandi greinargerð var samþykkt samhljóða.                                                  “Úrskurður umhverfisráðherra um umhverfismat Gjábakkavegar í kjölfar kæruferlis er sveitarstjórn Bláskógarbyggðar mikil vonbrigði svo vægt sé til orða tekið. Allar tafir málsins setja áform og áætlanir á ýmsum sviðum í uppnám og framvinda málsins er í óvissu.

 

Sveitarstjórn lítur svo á að nýr heilsársvegur milli Laugardals og Þingvallasveitar sé lykilatriði í þróun og uppbyggingu Bláskógabyggðar og hafa væntingar til framkvæmdarinnar verið miklar. Má þar benda á að í aðalskipulagi Laugardalshrepps 2000-2012 segir í kafla um stefnumörkun:

Tengsl byggðarlagsins við höfuðborgarsvæðið og almennt við vegkerfi landsins verði styrkt; forgangsverkefni verði bygging heilsársvegar norðan Lyngdalsheiðar með endurbótum og breyttri legu núverandi Gjábakkavegar.”

Í aðalskipulagi Þingvallasveitar 2004-2016 sem nú bíður staðfestingar sama ráðuneytis segir:

“Gjábakkavegur verði endurbættur í nýju vegstæði, með það

að megin markmiði að tryggja sem bestar og öruggastar

samgöngur milli byggðarlaga innan Bláskógabyggðar og við

höfuðborgarsvæðið.”

 

Miðað við aðdraganda málsins og niðurstöðu ráðherrans er ljóst að vægi Þingvallanefndar er í huga ráðherra öllu meira en leyfisveitandans; Bláskógabyggðar og framkvæmdaaðilans;Vegagerðarinnar. Má af úrskurðinum ráða að afstaða nefndarinnar og kæranda, Péturs M.Jónassonar hefur haft úrslitaþýðingu um niðurstöðu úrskurðarins. Sú staðreynd að ráðherra leitaði sérstaklega til kæranda og þjóðgarðsvarðar, m.a. með vettvangsferð til að kynna sér málin segir meira en mörg orð. Eðlilegt má telja að ráðherra hefði einnig kallað til fulltrúa framkvæmdaaðilans og leyfisveitandans og leyft þeim að koma sínum sjónarmiðum á framfæri augliti til auglitis,  sérstaklega í ljósi þeirrar niðurstöðu sem ráðherra kemst að. Einnig má velta fyrir sér hvers vegna einum kærenda er gert hærra undir höfði en öðrum við úrvinnslu málsins.

Í úrskurði ráðherra er einungis einu sinni vitnað til umsagnar sveitarfélagsins og þá eingöngu vikið að þeirra afstöðu sveitarstjórnar að leið 1 væri óásættanleg. Ekki er vikið að hugmyndum sveitarstjórnar um það hvernig komið verði í veg fyrir tvöfalt vegakerfi eða áhyggjum hennar af áhrifum leiðar 1 á náttúru og ásýnd svæðisins, sérstaklega í Barmaskarði og á Laugarvatnsvöllum. Erfitt er að verjast þeirri hugsun að áhersla sveitarstjórnar á umferðaröryggi vegi ekki mjög þungt í afgreiðslu ráðherra.

Þá fullyrðingu í úrskurðinum um að núverandi Gjábakkavegur gegni í megindráttum sama hlutverki og fyrirhugaður nýr vegur er auðvelt að túlka sem lítilsvirðingu við íbúa sveitarfélagsins og þá sem í umboði þeirra starfa. Nauðsynlegt er að ráðherra greini betur frá afstöðu sinni til þess hvort hún telji að hér sé um nauðsynlega samgöngubót á svæðinu að ræða eða ekki.

 

Þegar litið er til þáttar Þingvallanefndar í framvindu málsins frá upphafi er ljóst að sveitarstjórn gerir alvarlegar athugasemdir við framgöngu nefndarinnar. Sveitarstjórn hafði litið svo á að niðurstaða hefði fengist í málinu á síðasta ári sem báðir aðilar hefðu sæst á. Auk þess gerði nefndin ekki  athugasemdir við legu vegarins í tillögu að aðalskipulagi Þingvallasveitar nú í vor og hafði sveitarstjórn því enga ástæðu til að ætla að nefndin myndi með umsögn sinni koma málinu í uppnám. Á fyrri stigum málsins hefur nefndin lýst því yfir að megin áherslan skuli lögð á að nýji vegurinn liggi utan þjóðgarðsmarka. Í umsögn sinni um tillögu matsáætlunar Vegagerðarinnar um Gjábakkaveg sem dagsett er 13.júní 2003 kemur fram að Þingvallanefnd geti fyrir sitt leiti fallist á tillögu Vegagerðarinnar að matsáætlun vegna lagningu Gjábakkavegar. Þá hefði nefndinni verið í lófa lagið að koma á framfæri sjónarmiðum sínum um endurbættan núverandi veg.

Í umsókn ríkisstjórnarinnar til upptöku Þingvalla á heimsminjaskrá UNESCO árið 2003 var Gjábakkavegar einungis getið sem lagfæringar á núverandi vegi og má segja að þá hafi fyrstu vísbendingar um stefnubreytingu nefndarinnar gagnvart framkvæmdinni komið fram. Sú umsókn var aldrei borin undir sveitarstjórn, jafnvel þó að hún hefði íþyngjandi ákvarðanir í för með sér fyrir hagsmuni sveitarfélagsins. En sveitarstjórn leit þó ekki svo á að Þingvallanefnd hefði lagst gegn hugmyndum um heilsársveg milli Þingvalla og Laugarvatns.

 

Sú staðreynd að nefndin dregur að veita umsögn sína vegna kæranna í 5 mánuði er með öllu óþolandi og þegar hún berst loksins þann 15.júní er eingöngu um einnar blaðsíðu yfirlýsingu að ræða sem fram kemur að nefndin hafi allan tíman talið að leið 1 myndi falla best að umhverfi sínu auk þess sem formaður nefndarinnar eyðir nokkrum orðum í að tíunda sjálfsögð atriði um mikilfengleika svæðisins.

Framganga nefndarinnar í málinu frá upphafi hefur verið mótsagnakennd og skilaboðin misvísandi. Þessi framganga er að mati sveitarstjórnar með öllu ólíðandi og setur fyrirhugað samkomulag Þingvallanefndar og sveitarfélagsins í uppnám. Eyða verður óvissu um afstöðu nefndarinnar til heilsársvegar á þessum stað og hvort nefndin sé í raun mótfallinn gegnumakstri um Þingvallasigdældina eins og skilja má á viðtölum við Pétur M.Jónasson sem hefur haft mikil áhrif á skoðanir nefndarinnar.

 

Sveitarstjórn mun ekki standa í vegi fyrir ferli málsins hér eftir sem hingað til og ítrekar vilja sinn til að heilsársvegur sem uppfylli nútímasjónarmið um öryggi og samgöngubætur verði lagður milli Laugardals og Þingvallasveitar.  Með nýjustu yfirlýsingum Þingvallanefndar  um  að hún telji heppilegast að Gjábakkavegur liggi innan þjóðgarðsmarka frá Dímon að Gjábakka  lítur sveitarstjórn svo á að yfirlýsing nefndarinnar frá 19.apríl 2004 um að vegurinn skuli liggja utan þjóðgarðsmarka sé fallin úr gildi.  Til þessa hefur nefndin ekki lýst sig andvíga heilsársvegi milli Laugarvatns og Þingvalla og því hlýtur heilsársvegur á þessum stað að uppfylla kröfur Vegagerðarinnar um uppbyggðan heilsársveg sem hefur einhverja röskun í för með sér.

 

     Við undirbúning gerðar matskýrslunnar kynnti Vegagerðin leið frá Gjábakka sem kölluð var leið 12 og var það skoðun sveitarstjórnar að sú leið  væri heppilegust með tilliti til öryggis-, hagkvæmnis- og umhverfisssjónarmiða. Sveitarstjórn ákvað að samþykkja ekki þá leið, til að koma til móts við óskir Þingvallanefndar um að vegurinn skyldi vera utan þjóðgarðsmarka.  Nú hefur komið fram að Þingvallanefnd gerir ekki athugasemd við, að vegurinn sé uppbyggður innan þjóðgarðsins.

 

   Í ljósi þessa vill sveitarstjórn beina þeirri ósk til Þingvallanefndar að leið sú sem kölluð var númer 12 í frumhönnun Vegagerðarinnar og liggur að óverulegum hluta innan þjóðgarðsmarka verði hluti að nýrri matsskýrslu.  Lítur sveitarstjórn svo á að hér sé um sanngirnismál að ræða sem auðveldað getur framtíðar samskipti milli þeirra sem með málefni  Þingvallasveitar fara. Sveitarstjórn vill einnig beina þeirri ósk sinni til Vegagerðarinnar að þær tafir sem óhjákvæmilega verða á framkvæmdinni megi verða til þess að verkið verði boðið út í einum áfanga sem gæti unnið upp þá töf sem hinn óvænti úrskurður ráðherra hefur valdið.”

 

 

 1. Kjalvegur.                                                                                                       Lagt fram erindi frá Atvinnuþróunarsjóði Suðurlands um uppbyggingu heilsársvegar á milli Suður- og Norðurlands í samvinnu við Norðurveg ehf.  Tilgangur erindisins er að kanna áhuga á aðkomu að verkefninu og þátttöku í  áðurnefndu hlutafélagi.                                                                               Eftirfarandi bókun var samþykkt samhljóða:                                       “Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að leggja fram allt að kr. 500.000.- sem hlutafé í  Norðurveg ehf. Tilgangur félagsins er að ljúka nauðsynlegum athugunum á byggingarkostnaði, rekstrarkostnaði og arðsemismati og að kynna málið fyrir sveitarfélögum, stjórnvöldum, þingmönnum, hagsmunaaðilum og almenningi. Sveitarstjórn lýsir yfir fullum stuðningi við framkomna hugmynd.“ Umrædd fjárhæð verður tekin inn á fjárhagsáætlunun ársins 2006.
 2. Austureyjarvegur.  Sveitarstjórn samþykkir að í samstarfi við Rafiðnaðarsamband Íslands verði Bláskógabyggð framkvæmdaraðili að þeirri uppbyggingu sem liggur fyrir á Austureyjarvegi að því tilskyldu að loforð um fjárframlög frá landeigendum og sumarhúsaeigendum liggi fyrir. Fyrir liggur að landeigendur og sumarhúsaeigendur á svæðinu ætla að leggja fram kr.13.500.000-. Nú þegar er gert ráð fyrir því að á næstu tveimur árum fari þrjár milljónir af safnvegafé sveitarfélagsins í þetta verkefni en það eru rúm 40% af úhlutuðu fé í þennan málaflokk.  Auk þess samþykkir sveitarstjórn að leggja til við Vegagerðina að á árunum 2007 – 2009 verði lögð í verkefnið kr. 500.000- á ári af safnvegafé sveitarfélagsins. Oddvita er falið að fylgja málinu eftir af hálfu sveitarfélagsins.   
 3. Bréf frá Vegagerðinni dags. 28. júní 2005 þar sem fram kemur að úthlutað hefur verið til Bláskógabyggðar kr. 800.000- til endurbóta á  vegi að Fremstaveri árið 2005.
 4. Tillaga um fullnaðar afgreiðslu byggðaráðs. Lögð var fram eftirfarandi tillaga oddvita: “Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að á meðan að sumarleyfi sveitarstjórar stendur yfir verði byggðaráði falið fullnaðarafgreiðsla byggingar- og skipulagsmála sveitarfélagsins”. Samþykkt samhljóða.
 5. Efnistaka í Öxará. Þann 30. júní 2005 stöðvaði Arinbjörn Vilhjálmsson skipulagsfulltrúi sveitarfélagsins efnistöku á vegum Þingvallanefndar úr farvegi Öxarár í samræmi við skipulags- og byggingalög. Sveitarstjórn samþykkir aðgerðir skipulagsfulltrúa.
 6. Bréf frá Skipulagsstofnun dags. 30. júní 2005 varðandi umsókn um meðmæli með byggingarleyfi í Skálabrekku 1 Þingvallasveit. Samkvæmt bréfinu getur Skipulagsstofnun ekki mælt með byggingarleyfi samkvæmt 3.tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingalaga og leggur til að uppbygging  á þessari lóð þurfi að kynna með formlegum hætti.  Sveitarstjórn samþykkir að fella skipulagið inn í deiliskipulag frístundabyggðar í landi Skálabrekku sbr. 16. fund skipulagsnefndar frá 23. júní 2005, 15 lið. Samþykkt að fela skipulagsfulltrúa að auglýsa skipulagið.
 7. Bréf frá Birni Bjarnasyni dags. 14. júní 2005 varðandi samkomulag milli Þingvallanefndar og Bláskógabyggðar. Sveitarstjórn mótmælir því að fram hafi farið formlegur fundur 27. janúar 2005. Eingöngu fór þar fram óformleg kynning á störfum Alta fyrir Þingvallanefnd.  Þar sem þessi drög að samkomulagi stangast að mörgu leiti á við gildandi lög og reglur sem sveitarfélögum er falið að starfa eftir, þá hafnar sveitarstjórn framlögðum samkomulagsdrögum Þingvallanefndar alfarið.

Fundi slitið kl. 18:15