46. fundur
- fundur byggðaráðs Bláskógabyggðar haldinn 9. ágúst 2005 kl. 13:30.
Mætt: Margeir Ingólfsson formaður byggðaráðs sem ritaði fundargerð, Sveinn A. Sæland, Kjartan Lárusson og Valtýr Valtýsson sveitarstjóri.
Formaður setti fund og bauð nýjan sveitarstjóra, Valtý Valtýsson, velkomin til starfa og óskaði honum velfarnaðar í störfum fyrir sveitarfélagið.
- Bréf frá Landhönnun sf. dags. 27. júlí 2005, þar sem óskað er eftir breytingu á aðalskipulagi Biskupstungna / Bláskógabyggðar. Um er að ræða 77 ha spildu úr landi Kjaranstaða sem óskað er eftir að breytist úr landbúnaðarnotum í frístundasvæði. Byggðaráð samþykkir að heimila auglýsingu á breyttu skipulagi í samræmi við 18. gr. Skipulags- og byggingalaga.
- Bréf frá Skipulagsstofnun, dags. 26. júlí 2005, varðandi aðalskipulag Bláskógabyggðar, Þingvallasveit 2004-2016. Byggðaráð felur skipulagsfræðingum sveitarfélagsins að koma með tillögur að breytingum í samræmi við óskir Skipulagsstofnunar.
- Bréf frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, dags. 22. júní 2005, vegna reglubundins eftirlits 15. júní 2005. Byggðaráð leggur til að sveitarstjóra ásamt umsjónamanni fasteigna verði falið að fara yfir framkomnar athugasemdir og gera áætlun um úrbætur.
- Afrit af bréfi Brunavarna Árnessýslu, dags. 6. apríl 2005, til Sýslumannsins á Selfossi varðandi umsókn Bláskógabyggðar um leyfi til að reka veitingastofu í félagsheimilinu Aratungu, Reykholti. Byggðaráð leggur til að sveitarstjóra ásamt umsjónamanni fasteigna verði falið að fara yfir framkomnar athugasemdir og gera áætlun um úrbætur.
- Byggðaráð leggur til að keyptar verði 200 eintök af bókinni Iceland Today frá Prentleikni ehf. en í henni er sér kafli um Laugarvatn auk þess sem bókin verður með merki (lógó) Bláskógabyggðar og upplýsingum um sveitarfélagið. Verð bókanna er kr. 200.000- og færist það sem breyting á fjárhagsáætlun.
- Bréf frá félagsmálaráðuneytinu, dags. 30. júní 2005, þar sem fram kemur að endanlegt framlag vegna sérþarfa fatlaðra nemenda í Grunnskóla Bláskógabyggðar á árinu 2005 er kr. 900.000-.
- Bréf frá Guðrúnu K. Magnúsdóttur, dags. 27. júlí 2005, þar sem óskað er umsagnar sveitarstjórnar um fyrirhugaða stofnun nýbýlis úr landi Einiholts í Biskupstungum. Byggðaráð gerir ekki athugasemd við það að umrætt landsvæði verði gert að lögbýli.
- Bréf frá Fríðu B. Eðvarðsdóttur f.h. Valgeirs Harðarsonar, dags. 30. júní 2005, þar sem óskað er umsagnar sveitarstjórnar um fyrirhugaða stofnun lögbýlis úr landi Holtakots í Biskupstungum. Byggðaráð gerir ekki athugasemd við það að umrætt landsvæði verði gert að lögbýli.
- Bréf frá Birni Bjarnasyni, dags. 21. júlí 2005, þar sem hann fjallar um greinargerð sveitarstjórnar Bláskógabyggðar sem kom í kjölfar úrskurðar umhverfisráðherra um umhverfismat Gjábakkavegar. Byggðaráð vill ítreka það að sveitarfélagið og Þingvallanefnd höfðu komist að samkomulagi um nýja veglínu fyrir utan þjóðgarðinn. Þegar að Þingvallanefnd skilar síðan umsögn sinni til umhverfisráðherra vegna athugasemda sem komu við þá veglínu, þá fellir ráðherra umhverfismatið úr gildi og setur málið á byrjunarreit. Þetta gerir ráðherra m.a. vegna þess, eins og fram kemur í úrskurðinum “Þá hefur mikla þýðingu að Þingvallanefnd telur að endurbygging núverandi vegar (leið 1) sé besti kosturinn,” Að lokum vill byggðaráð taka fram að sveitarstjórn er tilbúin til viðræðna um samskipti sveitarfélagsins og Þingvallanefndar, en sveitarstjórn gat ekki á fundi sínum 12. júlí 2005 fallist á hugmyndir í framkomnum drögum Þingvallanefndar um samskipti sveitarfélagsins og nefndarinnar. Grundvallarástæða þess er sú að sveitarstjórn sér ekki ástæðu til þess að gera samninga um skipulags- og byggingamál við einstaka aðila í sveitarfélaginu, en um meðferð skipulags- og byggingamála gilda skýr lög og reglugerðir.
- Á 16. fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu, sem haldinn var 23. júní 2005, var lagt fram til auglýsingar deiliskipulag frístundabyggðar í landi Brekku Biskupstungum. Skipulagsnefnd setti ýmsa fyrirvara og var með tilmæli til landeigenda um breytingu á skipulaginu áður en það færi í auglýsingu. Eftir að landeigendur höfðu haft samband við skrifstofu sveitarfélagsins leggur byggðaráð til að svæðið fari í auglýsingu án þess að lóðum verði fækkað, og án þess að svæði fyrir spennustöð Rarik verði sýnd á uppdrætti, en gert er ráð fyrir henni á milli lóða 20 og 116. Einnig kom fram hjá landeigendum að aðkomuvegur að Vallárvegi liggi um þeirra land og þurfi því ekki samþykki annarra landeigenda á svæðinu. Aðra fyrirvara sem skipulagsnefndin setti verða landeigendur að uppfylla.
- Bréf frá Leó S. Ágústssyni, dags. 2. ágúst 2005, þar sem fjallað er um hjólhýsasvæðið á Laugarvatni. Byggðaráð leggur til að sveitarstjóra verði falið að skoða erindið með umsjónamanni svæðisins.
- Bréf frá Og Vodafone, dags. 26. júlí 2005, þar sem sveitarfélaginu er boðin fjarskiptaþjónusta á sömu kjörum og ríkinu. Byggðaráð leggur til að sveitarstjóri kynni sér tilboðið.
- Eftirfarandi fundargerðir voru lagðar fram til staðfestingar og staðfestingar með framkomnum athugasemdum.
- Fundargerð 7. fundar byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu sem haldinn var 28. júní 2005.
- Fundargerð 8. fundar byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu sem haldinn var 19. júlí 2005.
- Fundargerð 1. fundar fræðslunefndar Bláskógabyggðar og Grímsnes- og Grafningshrepps sem haldinn var 31. maí 2005.
- Fundargerð 2. fundar fræðslunefndar Bláskógabyggðar og Grímsnes- og Grafningshrepps sem haldinn var 8. ágúst 2005. Byggðaráð vill gera þá athugasemd við fundargerðina að gert er ráð fyrir í verksamningi að nýbyggingin á Laugarvatni verði tilbúin 1. sept. 2005.
- Eftirfarandi erindi voru lögð fram til kynningar:
- Bréf frá Fasteignamati ríkisins dags. 5. júlí 2005 varðandi endurmat sumarbústaða og sumarbústaðalóða.
- Fundargerð 250. fundar stjórnar Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands sem haldinn var 22. júlí 2005.
- Afrit af bréfi frá Othari Erni Petersen dags. 28. júní 2005 til Karls Axelssonar varðandi Neðristíg nr. 9 í landi Kárastaða.
- Fundargerð 125. fundar stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands sem haldinn var 20. júlí 2005.
- Fundargerð 77. fundar stjórnar Heilbrigðisnefndar Suðurlands sem haldinn var 19. júlí 2005.
- Afrit að bréfi Guðmundar Sigurðssonar dags. 7. júlí 2005 til Orkuveitu Reykjavíkur þar sem óskað er eftir hitaveitu í Faxabúðir og Koðrabúðir.
- Afrit af bréfi Hrunamannahrepps til Sólveigar Pétursdóttur félagsmálastjóra.
- Bréf frá Sorpstöð Suðurlands dags. 2. ágúst 2005 varðandi svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs.
Fundi slitið kl. 16:00